Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Miðvikudaginn 16. júní 2010. |
|
|
Nr. 354/2010. |
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
X var ákærður fyrir hylmingu með því að hafa á nokkurra mánaða tímabili tekið við um 100 fornbókum og 8 Íslandskortum úr hendi meðákærða, þrátt fyrir að honum væri ljóst að þeirra hafi verið aflað með auðgunarbroti og þannig haldið þeim ólöglega frá eiganda þeirra. Héraðsdómari vísaði málinu, að því er X varðaði, frá þar sem hann taldi lýsingu brotsins í ákæru ekki uppfylla skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að því er varðaði skýrleika sakarefnisins. Í Hæstarétti var talið að ákæra á hendur X uppfyllti þær kröfu um efni ákæru sem fram komi í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka ákæruna að því er varðaði X til efnislegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010, þar sem máli nr. S-376/2010 sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði höfðað gegn Y og varnaraðila var vísað frá dómi að því er snerti varnaraðila. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Lýsing í ákæru á fjölda fornbóka og Íslandskorta, sem varnaraðila er gefið að sök að hafa tekið við úr hendi meðákærða Y, er byggð á skýrslum varnaraðila við rannsókn málsins hjá lögreglu. Segir sóknaraðili að þessi lýsing sé eins nákvæm og unnt er. Sóknaraðili hefur lagt fram í málinu upplýsingar um ætlaðan fjölda og verðmæti þeirra fornbóka og Íslandskorta sem meðákærða er gefið að sök að hafa stolið úr safni að [...] í Reykjavík. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með vissu hvert sé ætlað verðmæti þess hluta þýfisins sem varnaraðila er gefið að sök að hafa tekið við úr hendi meðákærða. Hefur sóknaraðili bent á að við efnisúrlausn málsins muni varnaraðili njóta vafa um þetta verði hann sakfelldur samkvæmt ákæru.
Í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um efni ákæru. Kemur þar fram að greina skuli í ákæru „svo glöggt sem verða má“, meðal annars „hver sú háttsemi er sem ákært er út af“.
Með vísan til þess sem að framan segir verður fallist á með sóknaraðila að ákæran á hendur varnaraðila uppfylli þær kröfur um efni ákæru sem fram koma í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar ákæruna að því er varðar varnaraðila.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar ákæru máls nr. S-376/2010 að því er varðar varnaraðila, X.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 7. maí 2010, á hendur:
,,X, kt. [...],
[...], Reykjavík, og
Y, kt. [...],
[...], Reykjavík.
Á hendur X, fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu september 2006 til mars 2007, stolið 296 fornbókum og 8 Íslandskortum, samtals að verðmæti um 40.000.000 króna, úr húsnæði móðurömmu sinnar að [...] í Reykjavík og afhent meðákærða Y, að minnsta kosti 100 bækur og öll kortin.
Á hendur Y, fyrir hylmingu, með því að hafa á ofangreindu tímabili, tekið við um 100 fornbókum og 8 Íslandskortum úr hendi meðákærða X, þrátt fyrir að honum væri ljóst að þeirra hefði verið aflað með auðgunarbroti og þannig haldið þeim ólöglega frá eiganda þeirra.
Telst háttsemi X varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en háttsemi Y við 1. mg 254. gr. sömu laga.
Í málinu gerir A þá kröfu, fyrir sína hönd og bræðra sinna, B, C, D og E, að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð 33.387.500 krónur.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við þingfestingu málsins 25. f.m. gerði dómarinn grein fyrir því áliti sínu að málið kynni að varða frávísun án kröfu að því er varðar ákærða Y, sbr. 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008. Var í þessu sambandi vísað til meginreglna 152. gr. sömu laga um skýrleika sakarefnis og ákæru og að annmarkar ákæru kynnu að vera slíkir að ekki yrði úr þeim bætt undir rekstri málsins, sbr. 159. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærandinn andmælti frávísun og krafðist efnisdóms málsins í heild.
Verjandi ákærða Y tók undir sjónarmið dómsins og krefst frávísunar að því er ákærða Y varðar og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða X lét málið ekki til sín taka.
Eins og rakið er að ofan er sakarefni á hendur ákærða X lýst svo að hann hafi á tilgreindu tímabili stolið 296 fornbókum og 8 Íslandskortum, samtals að verðmæti um 40.000.000 króna.
Sakarefninu á hendur ákærða Y er lýst þannig í ákærunni að hann hafi á tilgreindu tímabili tekið við um 100 fornbókum og 8 Íslandskortum eins og lýst er. Verðmæti að því er ákærða Y varðar er ekki tilgreint.
Samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina, svo glöggt sem vera má, hver sú háttsemi sé sem ákært er út af. Heiti brots og heimfærsla til refsiákvæðis er nægilega tilgreint í ákæru. Tilgreiningin í ákærunni um fjölda fornbóka sem ákærða Y er gefið að sök að hafa tekið við, er mjög óljós. Þá er engin lýsing á verðmæti fornbókanna en samkvæmt gögnum málsins er verðmæti hverrar bókar um sig, sem ákæran lýtur að, á bilinu 15.000 krónur til 3.500.000 króna. Þessi efnislýsing ákærunnar gerir þær kröfur að dómurinn ákveði brotaandlagið gagnvart ákærða Y, þ.e. bæði fjölda fornbókanna sem hann tók við og verðmæti þeirra. Augljóst er að lýsingin á ,,um 100 fornbókum“ er ónákvæm og opin. Þá er augljóst að verðmætið er mjög óljóst vegna verðmunar á fornbókunum. Það er mat dómsins að þessi lýsing uppfylli ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að því er varðar skýrleika sakarefnisins á hendur ákærða Y. Hér skortir bæði á skýrleika um fornbækurnar, fjölda þeirra og verðmæti, og um verðmæti hinna 8 Íslandskorta. Þessir annmarkar ákæru leiða til þess að óhjákvæmilegt er að vísa ákærunni á hendur Y frá dómi.
251.000 króna málsvarnarlaun Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns greiðist úr ríkissjóði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar.
Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Ákæru málsins nr. S-376/2010, að því er varðar ákærða Y, er vísað frá dómi.
251.000 króna málsvarnarlaun Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns greiðist úr ríkissjóði.