Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2002


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Skjalafals
  • Tilraun
  • Sakartæming
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 372/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sixtusi Mbah Nto

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Fjársvik. Skjalafals. Tilraun. Sakartæming. Ítrekun.

S ásamt tveimur öðrum mönnum var ákærður fyrir fjársvik og skjalafals sem og tilraun til slíkra brota með því að hafa notað falsaðar millifærslubeiðnir sem sendar voru bönkum í Englandi og á Norður Írlandi og með blekkingum fengið þá til að millifæra upphæðir af reikningum inn á reikninga í bönkum hér á landi. Í héraðsdómi þótti framburður vitna trúverðugur en framburður S lítt trúverðugur. Var talið hafið yfir allan skynsamlegan vafa að S hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Var honum gert að sæta fangelsi í tvö ár. Í Hæstarétti var niðurstaða héraðsdóms staðfest um annað en heimfærslu brota hans sem voru einvörðungu heimfærð til 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2002 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta verði staðfest en refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst þess að málinu verði í heild vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Hann krefst þess og að öllum kröfum ákæruvaldsins um refsingar og skaðabætur til Northern Bank Ltd. verði vísað frá héraðsdómi en ella að hann verði sýknaður af þeim, en til vara að refsing verði ákveðin svo væg sem lög framast heimila og skaðabætur lækkaðar.

Mál þetta var höfðað gegn ákærða og tveimur öðrum mönnum með ákærum 12. apríl og 13. maí 2002. Í héraðsdómi voru allir sakfelldir. Tveir dómfelldu una dómi en ákærði neitaði sök með öllu. Engir þeir gallar voru á meðferð málsins í héraði eða á kröfugerð að varði heimvísun málsins eða frávísun krafna.

Svo sem í héraðsdómi greinir er það upphaf málsins að beiðni barst frá breskum lögregluyfirvöldum til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í júní 2001 um rannsókn á tveimur fölsuðum beiðnum um millifærslu af bankareikningum fyrirtækisins T í London. Eigandi fyrirtækisins, R, gaf vitnaskýrslu hjá lögreglu þar í landi 9. maí 2001. Í skýrslu hans, sem lögð var fram í héraði, kemur fram að föstudaginn 27. apríl 2001 hafi hann fengið símhringingu frá starfsmanni í Lloyds TSB banka, sem hefði tilkynnt sér að hann gæti ekki afgreitt beiðni um millifærslu á 18.947 sterlingspundum úr reikningi fyrirtækis hans í bankareikning á Íslandi á nafni Y, eins dómfelldu í máli þessu. Hann hafi svarað því til að hann kannaðist hvorki við þessa millifærslubeiðni né hr. Y. Hann hafi síðan fengið þessar beiðnir sendar til sín frá bankanum í símbréfi. Þá hafi hann séð að bankareikningur fyrirtækis hans hafi verið þar rétt tilgreindur og á bréfunum hafi verið nafn fyrirtækis hans, en bréfin hafi ekki verið á bréfsefni þess. Heimilisfang og símanúmer hafi einnig verið ranglega tilgreind. Bæði bréfin hafi borið með sér að vera undirrituð af honum sjálfum, en þetta hafi ekki verið hans undirskrift, en þó í líkingu við hana. Hann hafi sagt bankanum að hann vissi ekkert hver hefði gert þetta og hann sagði í skýrslu sinni til lögreglunnar að þetta hafi verið gert án hans vitundar og vilja. Í málavaxtalýsingu héraðsdóms er síðan rakið hvað fram kom hér á landi við rannsókn málsins og leiddi til handtöku dómfelldu í máli þessu.

Með vísan til röksemda héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Í I., II. og V. kafla ákæru eru brot hans talin varða við 248. gr., 248. gr., sbr. 20. gr., og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðastgreinda ákvæðið tæmir sök gagnvart því fyrstnefnda og verða þessi brot því einvörðungu heimfærð til 1. mgr. 155. gr. laganna.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber, auk þeirra atriða er í héraðsdómi greinir, að líta til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þar sem fleiri unnu verkið í sameiningu, svo og til 255. gr. laganna, þar sem um ítrekun er að ræða. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í héraðsdómi.

Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Sixtus Mbah Nto, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.

             Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 12. apríl á hendur:

,,[X], [Y]og

Sixtusi Mbah Nto, [...]

I.           Á hendur ákærðu Sixtusi og [Y] fyrir tilraun til fjársvika og skjalafals.

Með því hafa þann 20. apríl 2001 notað falsaða millifærslubeiðni dags. 18. apríl 2001 sem ákærðu sendu Lloyd´s Bank, Haslemere, Surrey Branch, Englandi, og virtist bera með sér fyrirmæli reikningseiganda til bankans um að millifæra GBP 18.947 eða jafnvirði kr. 2.534.161, af reikningi nr. [...] í eigu [T], Englandi, inn á reikning meðákærða, [Y], nr. [...] í Landsbanka Íslands hf. Austurstræti 11, Reykjavík. Millifærslan náði ekki fram að ganga þar sem upp komst um svikin eftir að Lloyd´s Bank hafði samband við reikningseiganda sem stöðvaði millifærsluna.

Teljast brot ákærðu varða við 248. gr., sbr. 20. gr. og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.               Á hendur ákærðu Sixtusi og [Y] fyrir fjársvik og skjalafals.

A.

Með því að hafa þann 10. apríl 2001 notað falsaða millifærslubeiðni dags. 9. apríl 2001 sem ákærðu sendu Lloyd´s Bank, Haslmere Surrey Branch, Englandi og virtist bera með sér fyrirmæli reikningseiganda til bankans um að millifæra GBP 18.947 eða jafnvirði kr. 2.534.161, af reikningi nr. [...] í eigu [T] Englandi, inn á reikning ákærða, [Y], nr. [...] í Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Með blekkingu þessari höfðu ákærðu framangreinda fjárhæð af Lloyd´s Bank þegar Landsbankinn lagði þann 17. apríl 2001 fjárhæðina inn á reikning ákærða [Y], sem tók megnið af fénu út samdægurs en afganginn 27. apríl sama ár, en ágóðanum skiptu ákærðu milli sín.

B.

Með því að hafa þann 7. september 2001 notað falsaða millifærslubeiðni dags. 5. september 2001 sem ákærðu sendu Northen Bank Limited, Shaftesbury Square, Belfast, Norður Írlandi og virtist bera með sér fyrirmæli reikningseiganda til bankans um að millifæra GBP 19.500 eða jafnvirði kr. 2.852.265, af reikningi nr. [...] í eigu [N] Ltd., Belfast, Norður Írlandi, inn á reikning meðákærða, [Y], nr. [...] í Landsbanka Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík. Með blekkingu þessari höfðu ákærðu framangreinda fjárhæð af Northen Bank þegar Landsbankinn þann 11. september 2001 lagði fjárhæðina inn á reikning ákærða [Y] sem tók féð út sama dag, að frádregnum GBP 500, en ágóðanum skiptu ákærðu milli sín.

Teljast brot ákærðu samkvæmt A og B lið varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

III.             Á hendur ákærða Sixtusi fyrir tilraun til fjársvika.

Með því að hafa þann 12. júní 2001 fengið starfsmenn Barclays Bank, London með blekkingum til að millifæra GBP 8500 eða jafnvirði kr. 1.243.040, af reikningi í eigu [Y] Ltd. inn á reikning í eigu [Z], nr. [...] í Íslandsbanka-FBA hf. Millifærslan var afturkölluð að beiðni Barclays Bank þann 15. júní sama ár eftir að í ljós kom að um svik var að ræða og áður en Íslandsbanki-FBA hf. lagði peningana inn á reikning [Z].

Telst brot ákærða varða við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IV.            Á hendur ákærða Sixtusi fyrir fjársvik.

Með því að hafa þann 13. júní 2001 fengið starfsmenn National Westminister Bank PLC, London, með blekkingum til að millifæra GBP 8500 eða jafnvirði kr. 1.243.040 af reikningi í eigu P.B. Conway, í bankanum inn á reikning í eigu [Z], nr. [...] í Íslandsbanka-FBA hf. Millifærslan náði fram að ganga en var afturkölluð og bakfærð af reikningi [Z] þann 14. júní 2001 að beiðni National Westminister Bank eftir að upp komst um svikin.

Telst brot ákærða varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

V.              Á hendur ákærðu Sixtusi og [X] fyrir fjársvik og skjalafals.

A.

Með því að hafa þann 20. ágúst 2001 notað falsaða millifærslubeiðni dags. 15. ágúst 2001 sem ákærðu sendu Northern Bank, 12. –13. Shaftesbury Square, Belfast, Norður Írlandi og virtist bera með sér fyrirmæli reikningseiganda til bankans um að millifæra GBP 19.500 eða jafnvirði kr. 2.776.590, af reikningi nr. [...] í eigu [N] Ltd., Belfast, Norður Írlandi, inn á reikning ákærða, [X], nr. [...] í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Skólavörðustíg 11, Reykjavík. Með blekkingu þessari höfðu ákærðu framangreinda fjárhæð af Northern Bank þegar Sparisjóðurinn lagði þann 23. ágúst 2001 fjárhæðina inn á reikning ákærða [X] sem tók megnið af fénu út daginn eftir.

B.

Með því að hafa þann 29. ágúst 2001 notað falsaða millifærslubeiðni dags. 28. ágúst 2001 sem ákærðu sendu Northern Bank, 12. –13. Shaftesbury Square, Belfast, Norður Írlandi og virtist bera með sér fyrirmæli reikningseiganda til bankans um að millifæra GBP 19.500 eða jafnvirði kr. 2.776.590, af reikningi nr. [...] í eigu [N] Ltd., Belfast, Norður Írlandi, inn á reikning ákærða, [X], nr. [...] í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Skólavörðustíg 11, Reykjavík. Með blekkingu þessari höfðu ákærðu framangreinda fjárhæð af Northern Bank þegar Sparisjóðurinn lagði þann 4. september 2001 fjárhæðina inn á reikning ákærða X sem tók megnið af fénu út samdægurs.

Teljast brot ákærðu samkvæmt A og B lið varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VI.            Á hendur ákærða Sixtusi fyrir peningafals.

Með því að hafa aflað sér þriggja falsaðra peningaseðla DEM 100 og NLG 100 og NLG 50 í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, en seðlarnir fundust við húsleit á heimili ákærða, Sixtusar, þann 28. september 2001.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 150. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“

Við upphaf aðalmeðferðar málsins 13. maí sl. var af hálfu ákæruvaldsins lögð fram framhaldsákæra, dagsett 13. maí 2002, á grundvelli 1. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1940 „til að leiðrétta villur í VI. kafla ákærunnar frá 12. apríl að því er varðar skaðabótakröfu og upptökukröfu…" eins og þar segir.  Af hálfu verjenda var því mótmælt að á framhaldsákærunni yrði byggt.  Ljóst er að þar sem í framhaldsákæru er vísað til VI. kafla ákærunnar frá 12. apríl þá er átt við VII. kafla, Dómkröfur.

Þær breytingar sem fram koma í framhaldsákæru eru í fullu samræmi við ákæruna frá 12. apríl 2002.  Torveldar leiðrétting sú sem fram kemur þar á engan hátt vörn í málinu enda um augljós atriði að ræða.  Telst því skilyrði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1990 vera fyrir hendi til að breyta og auka dómkröfur eins og þar koma fram.  Verður því byggt á framhaldsákærunni að þessu leyti eftir því sem tilefni gefst til við úrlausn málsins.  Telst því VII. kafli ákærunnar svohljóðandi:

VII. Dómkröfur

„Þess er krafist, með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningalaga nr. 19, 1940 að;

1.    ákærðu [Y] og Sixtusi verði gert með dómi að þola upptöku á GPB 38.447 eða jafnvirði kr. 5.386.426 sem er ávinningur þeirra af brotum samkvæmt II. kafla ákærunnar liðum A og B og

2.    ákærðu [X] og Sixtusi verði gert með dómi að þola upptöku á GBP 39.000 eða kr. 5.553.180 sem er ávinningur þeirra af brotum samkvæmt V. kafla ákærunnar.

Þar á meðal eftirtaldar fjárhæðir sem haldlagðar voru af lögreglu 11. október 2001, sbr. a., b. og c. liði og 25. mars 2002, sbr. d. lið:

a.        Innistæðu að fjárhæð kr. 400.551 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] í nafni ákærða Sixtusar

b.       Innistæðu að fjárhæð GBP 2.491,09 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] í nafni ákærða Sixtusar

c.        Innistæðu að fjárhæð kr. 2.614.860 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] í nafni ákærða [Y].

d.       Peningaseðlar sem fundust á ákærða [X] við handtöku GBP 195,00 EUR 126,30, DKR 2,50 og SEK 1.591,50

Northern Bank Limited, Belfast, Norður Írlandi gerir kröfu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð GBP 58.500 vegna brota sem talin eru upp í kafla II., B og kafla V., A og B. Á hendur ákærðu [Y] og Sixtusi að fjárhæð GBP 19.500 og á hendur ákærðu [X] og Sixtusi að fjárhæð GBP 39.000.“

Verjandi ákærða, Y, Björg Rúnarsdóttir héraðsdómslögmaður, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og málskostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði. 

Til vara að ákærði hljóti vægustu refsingu er lög leyfa, sem verði skilorðsbundin, og komi gæsluvarðhaldsvist hans þá til frádráttar.  Í því tilviki er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til að greiða hluta sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að kröfum skv. VII. lið ákærunnar verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af þeim kröfulið og til þrautavara að kröfurnar verði stórlega lækkaðar. 

Í öllum tilvikum er þess krafist aðallega að ákæruvaldinu verði gert að afhenda Northern Ireland Council for Ethnic Minorities, IKR 2.648.027 og GBP 500 eða jafnvirði IKR 72.765 með vöxtum af gjaldeyrisreikningi nr. [...] við Landsbanka Íslands af GBP 500 frá 11. september 2001 til greiðsludags, og með vöxtum af markaðsreikningi nr. [...] við Búnaðarbanka Íslands af IKR 2.648.027 frá 11. september 2001 til greiðsludags.  Til vara að ákæruvaldinu verði gert að afhenda Northern Bank Limited, Belfast, greint fé og vexti og komi það til lækkunar á skaðabótakröfu bankans.

Verjandi ákærða X, Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing er lög leyfa.  Þá greiðist málskostnaður þar með talin réttargæsluþóknun og málsvarnarlaun skipaðs verjanda úr ríkissjóði. Krafist er sýknu á upptöku- og bótakröfu í VII. kafla ákærunnar.

Verjandi ákærða, Sixtusar, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.  Til vara að refsing verði eins væg og lög leyfa, refsing verði skilorðsbundin og gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar.  Þá verði málskostnaður, þar með talin laun vegna réttargæslu á rannsóknarstigi svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greidd úr ríkissjóði.  Krafist er frávísunar á kröfum um upptöku og skaðabætur í VII. kafla ákæru en til vara sýknu.

             Málavextir

Upphaf málsins var það að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra barst í júní 2001 óformleg beiðni frá breskum lögregluyfirvöldum um rannsókn á tveimur millifærslubeiðnum sem falsaðar höfðu verið og sendar í útibú Lloyd's Bank þar sem óskað var millifærslna af bankareikningum fyrirtækisins T inn á bankareikning á Íslandi.  Önnur þessara tilrauna tókst en hin ekki.  Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi færslubeiðnir og millifærslur þar sem bankareikningar í nafni ákærða, Y, í Landsbanka Íslands hf. koma við sögu.  Þann 17. apríl 2001 voru svikin út 18.947 sterlingspund með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi T hjá Lloyd's Bank inn á bankareikning nr. [...] í Landsbanka Íslands hf.  Peningarnir voru teknir út af ákærða Y.  Þann 27. sama mánaðar var síðan gerð tilraun til fjársvika að fjárhæð 18.947 sterlingspund með því að nota falsaða skriflega beiðni um millifærslu af bankareikningi T frá Lloyd's Bank inn á bankareikning nr. [...] í Landsbanka Íslands hf.  Millifærslan var ekki framkvæmd af breska bankanum. 

Þann 13. september sl. barst tilkynning frá Landsbanka Íslands til efnahagsbrotadeildar á grundvelli laga um varnir gegn peningaþvætti, um að ákærði, Y, hafi 11. september 2001 fengið millifærð 19.500 sterlingspund inn á bankareikning nr. [...] sem hann á í Landsbanka Íslands hf.  Millifærslan var fengin fram á sama hátt og hinar með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi N Ltd. í Northern Bank Ltd. í Belfast á Norður-Írlandi.  Skömmu eftir millifærsluna hafði Landsbankanum borist beiðni um afturköllun hennar vegna þess að um fjársvik væri að ræða.  Þegar efnahagsbrotadeild hóf afskipti af málinu hafði ákærði, Y, tekið megnið af peningunum út af bankareikningnum í Landsbankanum og lagt þá inn á bankareikning sinn í Búnaðarbanka Íslands hf., nr. [...], eða kr. 2.614.860.  Efnahagsbrotadeild lagði hald á þessa peninga vegna rannsóknar málsins.

Með bréfi, dags. 13. september 2001, barst lögreglu tilkynning um  peningaþvætti frá Landsbanka Íslands hf. þess efnis að ákærði, X, hefði fengið greitt inn á bankareikning sinn, nr. [...], tvær greiðslur frá breskum banka af bankareikningi bresks fyrirtækis.  Þann 22. ágúst sl. barst millifærsla af bankareikningi N Ltd, í Northern Bank í Belfast, að fjárhæð 19.500 sterlingspund.  Skömmu seinna barst beiðni um að millifærsla þessi yrði stöðvuð vegna þess að um fjársvik væri að ræða, en þá höfðu peningarnir verið teknir út.  Þann 31. ágúst sl. barst síðan önnur millifærsla af bankareikningi N Ltd í Northern Bank Ltd í Belfast að fjárhæð 19.500 sterlingspund.  Skömmu seinna barst beiðni um að millifærslan yrði stöðvuð vegna þess að um fjársvik sé að ræða, en þá höfðu peningarnir verið tekið út.

             Af hálfu lögreglu var aflað mikilla gagna um símatengingar ákærðu innbyrðis og við aðra þá er koma hér við sögu.  Þá kannaði breska lögreglan tengsl kærðu við aðila þar í landi meðal annars með húsleitum og eftir atvikum yfirheyrslum. Tengsl við Bretland og breska aðila er að finna í símhringingum kærðu þangað á þeim tíma sem svikin áttu að eiga sér stað og skjölum sendum með símbréfum og notuð voru í tengslum við svikin.

II.

Þann 28. september 2001 fór fram húsleit á heimili ákærða, Sixtusar, að Krummahólum 10, Reykjavík.  Viðstaddir leitina voru sambýliskona hans, Hulda Björg Jóhannesdóttir, og Hilmar Magnússon, skipaður réttargæslumaður hans.  Þar fannst m.a. í svefnherbergi skjalataska með ýmsum gögnum og í poka undir borði í holi fundust einnig ýmiss gögn, þar á meðal peningaseðlar. 

Í haldlagningarskýrslu er innihaldi plastpokans nánar lýst en það sem hér er talið skipta máli er eftirfarandi:

A-1 Handskrifað blað með nöfnum fyrirtækja, m.a. N.I C. E. M. Ltd., Belfast.

A-2 Handskrifað blað með nafni og kt. X auk reikningsnúmers í Landsbanka Íslands. 

A-3 Seðlar NLG 150 og DEM 100 sem reyndust við nánari athugun vera falsaðir.

Í skjalatöskunni er sérstök ástæða til að geta um eftirfarandi gögn:

B-3 Símbréf, dags. 17. apríl 2001, með upplýsingum um millifærslur frá breskum fyrirtækjum í gegnum breskar bankastofnanir.

B-4 Símbéf, dags. 14. maí 2001, með upplýsingum um millifærslur frá breskum fyrirtækjum í gegnum breskar bankastofnanir.

B-5 Handskrifað bréf með upplýsingum um nafn og reikningsnúmers X hjá LÍ ( á að vera Spron) auk upplýsinga fyrir SWIFT-greiðslur.

Í þágu rannsóknar málsins sættu ákærðu gæsluvarðhaldi, ákærði, Y, frá 28. september til 26. október 2001, ákærði, X, frá 23. mars 2002 og ákærði, Sixtus, frá 27. september til 26. eða 29. október 2001.

III.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði, Y, skýrði svo frá varðandi II kafla ákæru A-lið, að það hafi verið í byrjun apríl 2001, nánar tiltekið 5. apríl, sem Sixtus hefði haft samband við hann og beðið um að fá lánaðan bankareikning ákærða í Landsbanka Íslands.  Hefði ákærði sent honum upplýsingar um bankareikninginn á tölvupósti.  Ástæða þessa hafi verið sú að Sixtus kvaðst eiga von á símsendum peningum frá fyrirtæki erlendis sem hann hefði verið að vinna með.  Hefði Sixtus gefið þá skýringu að hann væri í það mikilli skuld við bankann að hann gæti ekki notað sinn eigin reikning.  Peningarnir hefðu komið inn á reikninginn 17. apríl 2001 og þegar hann hefði tjáð Sixtusi það hefði Sixtus óskað eftir því að peningarnir yrðu teknir út þegar í stað.  Það hafi hann gert og tekið út í Bandaríkjadölum 5.000 og 7.000 en afganginn í íslenskum krónum og afhent Sixtusi peningana.  Hefði úttektin verið í fjórum færslum í mismunandi bönkum, þar sem ekki hefði verið til nægilegt magn seðla á hverjum stað.  Kona ákærða, Þ, hefði beðið út í bíl á meðan á þessu stóð.  Samkvæmt gögnum málsins var úttekt að Laugavegi 77 framkvæmd kl. 12.58 og úttekt í Landsbankanum við Austurstræti kl. 13.27.   Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega tímasetningar í þessu sambandi en ítrekaði að hann hefði farið í beinu framhaldi heim til Sixtusar með peningana eftir að hafa hringt í hann í vinnuna.  Ákærða var bent á framburð hans hjá lögreglu, þar sem fram kemur að hann hafi haft samband við síma Sixtusar 699 1772, þann 17. apríl, kl. 18.02.  Kvaðst ákærði muna vel eftir því að hafa hringt í Sixtus eftir að hann fór í bankann þar sem hann hefði verið að vinna til fjögur eða fimm.  Eftir það hefði hann farið heim til hans og afhent honum peningana. Ákærði kvaðst hafa fengið greiddar 300.000 krónur af þessum peningum.  Ekki hefði verið samið um þóknun fyrirfram heldur hafi Sixtus látið hann fá þessa fjárhæð.

Aðspurður kveðst ákærði hafa vonast til að fá eitthvað af þeim 800 dollurum sem skildir voru eftir á bankareikningnum.  Hafi konan hans tekið þá peninga út síðar.

Ákærði kvaðst ekkert þekkja til fyrirtækisins T og aldrei hafa séð skjöl því tengd.  Ákærði var spurður um tíð símasamskipti milli símnúmers hans og Sixtusar á þeim tíma er millifærslan átti sér stað, eða þann 17. apríl 2001, en um er að ræða 13 símtöl þann 17., 11 símtöl þann 18. og 15 símtöl þann 19. sama mánaðar.  Ákærði kvað þau ekki tengjast þessu en Sixtus og hann hefðu haft símsamband út af ýmsum málum.  Þá hafi ákærði verði mikið á sjó á þessum tíma og símtölin þá tengst því að hann var þá í landi. 

Varðandi B-lið sama kafla kvað ákærði meðákærða, Sixtus, hafa hringt í hann í byrjun september og fengið á sama hátt og fyrr afnot af reikningi hans.  Hefði hann haft á orði að peningarnir kæmu 13. þess mánaðar en þeir hefðu í raun komið tveimur dögum fyrr, eða þann 11.  Ákærði hefði tekið peningana þegar í stað út af reikningnum, enda hefði Sixtus verið búinn að biðja um það.  Þar sem hann hefði verið á leið út á sjó þann dag og í ljós hefði komið í millitíðinni að hann hefði ekki tíma til að afhenda Sixtusi peningana lagði hann þá samdægurs á reikning sinn í Búnaðarbankanum.  Kvað hann þetta ekkert hafa tengst ótta við að peningasendingin yrði bakfærð.

Ákærði kvaðst ekkert þekkja til umræddra fyrirtækja og kannaðist hvorki við gögn sem tengjast millifærslunni og fundust á heimil Sixtusar né bréf sem bera með sér að stafi frá N

Ákærði skýrði svo frá varðandi I. kafla ákæru að hann kannaðist ekkert við þá millifærslu og kvaðst hann hafa verið í Suður Ameríku á þeim tíma sem sú tilraun átti sér stað.  Kveðst hann ekkert kannast við þá millifærslu né að Sixtus hefði verið búinn að ræða hana.  Sérstaklega aðspurður um framburð hans hjá lögreglu 27. september sl., þar sem hann gaf þá skýringu á þessari millifærslu að hún hafi komið frá einhverjum manni að nafni Bobby og tengdist ávaxta- og skreiðarkaupum, kvaðst ákærði hafa verið hræddur við lögregluyfirheyrslu en hann hefði áður árangurslaust verið búinn að reyna að ná í Sixtus.  Hann hefði enga ástæðu haft til að ætla að um svik væri að ræða hjá Sixtusi en grunur um að ekki væri allt með felldu hefði fyrst vaknað um 11. september.   Kvað hann það misskilning, að hann hefði orðað það í lögregluskýrslu að hann hafi grunað að svik væru í tafli á þeim tíma.

Ákærði kvaðst kannast við X en kvað þá enga vini.  Hann kvaðst hins vegar hafa vitað að X og Sixtus þekktust.  Hann hefði hins vegar ekkert vitað fyrr en við rannsókn málsins að X hefði tekið á móti fé inn á sína reikninga.  Þá kvaðst ákærði kannast við Æ og hefði hann skýrt henni frá því að hann væri nýbúinn að taka á móti peningum frá Sixtusi.  Símtöl þeirra í milli á þessum tíma hefðu hins vegar lotið að öðru, en hann hefði geymt fyrir hana hluti.  Ákærði ítrekaði að hann hefði talið, að þar sem peningarnir væru símsendir, þá hefði hann ekki haft grunsemdir um ólöglegt athæfi þegar hann lánaði reikninginn.

Ákærði, X, kvaðst hafa komið til Íslands 1998.  Hann kveðst vera ættaður frá Kongó og hafa sótt um hæli sem pólitískur flóttamaður.  Um tíma hefði hann unnið hjá Samskipum en hætt því og snúið sér að knattspyrnustarfsemi í Kamerún.  Þá hafi hann eitthvað unnið óreglulega á veitingarhúsum án þess að slík vinna væri gefin upp til skatts.  Hann gerir ekki athugasemdir við upphæðir félagslegrar aðstoðar hér á landi, um 220.000 krónur árið 1999, 470.000 krónur árið 2000 og um 650.000 krónur árið 2001.  Hann kvaðst hafa haft um 2.2 milljónir króna í tekjur í þrjú ár.  Hann kvaðst aðspurður vegna ákæruliða í V. kafla aldrei hafa sé þau gögn áður sem vörðuðu hinar fölsuðu millifærslur.  Hann kvaðst ekkert kannast við félagið N.  Þá kvaðst hann ekki hafa tekið við greiðslum inn á bankareikning sinn.  Hann staðfesti að hann hefði stofnað reikning í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í maí 2001 vegna starfssemi sinnar varðandi fótbolta en ekkert notað hann.  Hann kvaðst hafa skrifað miða með nafni sínu og upplýsingar um bankareikning í Landsbankanum en það reikningsnúmer hefði hann fengið í bankanum þegar hann ætlaði að endurnýja debetkort sitt út af starfsemi tengdri knattspyrnu.  Hann kvaðst enga skýringu geta gefið á því að þessi miði fannst á heimili ákærða Sixtusar.  Hann kvaðst ekki hafa ritað á miða í SPRON vegna úttektar 24. ágúst sl., né heldur 4. september og aldrei hafa notað umræddan reikning.

Ákærði kannaðist við rithandarsýni sitt úr myndaskrá, sem hann kvaðst hafa gefið þegar hann stofnaði reikning í Búnaðarbankanum 1999, sem og rithönd á vegabréfi ákærða.  Ákærða var bent á að það vekti athygli að rithönd hans væri með öðrum hætti þar sem hann hefði gefið rithandarsýnishorn vegna rannsóknar málsins.  Ákærði kvaðst ekki hafa verið að aflaga rithöndina af ásetningi.

Ákærði neitar því að hafa fengið lánaða tösku hjá Sixtusi og skilað henni með einhverjum pappírum í.  Hann kvaðst ekki kannast við þau gögn sem haldlögð voru á heimili Sixtusar.  Kvaðst hann vita hvar Sixtus býr og hafa komið þangað einu sinni.  Þeir hefðu aldrei verið í viðskiptum saman en hafi báðir áhuga á fótbolta.  Aðspurður um notkun á bankareikningi hans kvaðst hann hafa orðið var við að einhver væri að nota reikninginn þar sem hann hafi verið staddur erlendis.  Hann hefði því verið að skrifa upp númer á bankareikningunum til að fylgjast með því.  Hann kvað 192 krónur hafi verið inn á reikningnum frá janúar 2001 til 31. október s.á.  Ákærði kvaðst hafa bókað far af landi brott 5. september og farið þann 6. en hann hefði verið búinn að ákveða að fara löngu fyrr en ekki fengið pláss.  Flugmiðann hefði hann hins vegar keypt í janúar það ár í Frakklandi þegar hann var á leið frá Kamerún.  Ákærði kvaðst hafa keypt ferðatékka í Evrum upp á 969.853 krónur þann 5. september.  Hann hefði átt peninga þegar hann kom til landsins, auk þess að hafa haft hér tekjur, og hefði hann ætlað að kaupa gjaldeyri á þessum tíma vegna hagstæðs gengis.

Ákærði kannaðist við símnúmer sitt, 694 5743, sem er númer farsíma.  Kvaðst hann hafa gefið manni að nafni Douglas símkortið sitt áður en ákærði fór úr landi, þar sem hann hefði ekki getað notað það erlendis.  Ákærða var þá bent á að samkvæmt skráningu símafyrirtækis þá hafi símtækið og símkortið verið notað saman tímabilið 13. maí til 6. september að undanskilum þremur tilvikum 16. júlí.  Kvaðst ákærði þá hafa látið umræddan Douglas fá bæði símann og kortið en tekið síðan símann aftur.  Kvað hann sama misskilning hafa átt sér stað í framburði hans hjá lögreglu.  Ákærða er bent á mikil samskipti milli síma hans og síma Sixtusar á þeim tímum sem brotin eiga sér stað.  Þann 24. ágúst séu þau 15 og símtölin eigi sér stað 6 mínútum eftir allar þrjár úttektirnar þennan dag.  Samskiptin séu hins vegar lítil á öðrum tímum.  Segir ákærði að hann og Sixtus hafi verið í tíðu símasambandi vegna knattspyrnuáhuga beggja.  Sama væri að segja um 16 símtöl þann 21. ágúst en þá hafi þeir verið að fylgjast með knattspyrnu í sjónvarpinu.  Varðandi símasamskipti þeirra 6. og 7. september þá kvaðst hann hafa verið með símann en ekki símkortið þá daga og kannaðist ekki við að hafa hringt í Sixtus.  Ákærða var bent á að hann hafi hringt 6 símtöl í þjónustuver SPRON þann 22. ágúst og 1 símtal þann 4. september og kvaðst hann þá ekki hafa hringt þangað, þar sem hann notaði Internetið til að huga að bankareikningum sínum.

Ákærði, Sixtus, kvaðst fæddur í Kamerún en hafa verið á Íslandi nú í 5 ár.  Hann hefði starfað í byggingarvinnu og í fiski þar til hann hóf störf sem markaðstjóri hjá fyrirtæki í Keflavík.  Hann kveðst ekki kannast við nein þau bréf sem lúta að umræddum millifærslum né að hafa vitað af þeim.  Þá kvaðst hann ekki hafa lagt peninga inn á bankareikninga X eða haft bankaviðskipti honum tengd.   Hann kvaðst heldur ekki hafa vitað um númer á bankareikningi ákærða Júlíusar í Landsbankanum.  Sérstaklega aðspurður um þau tvö skjöl sem fundust á heimili hans við húsleit og tengjast umræddum millifærslum í ákærulið II. lið A og B, þá kvaðst hann ekkert þekkja þessi skjöl og ekki kannast við fyrirtækin N eða T.  Ákærði kvaðst enga skýringu geta gefið á því af hverju þessi skjöl fundust á heimili hans og kvaðst ekkert hafa af þeim vitað.   Þá kvaðst hann enga skýringu hafa á hinum fölsuðu peningaseðlum sem fundust í plastpoka en kvaðst hafa verið með peninga þegar hann kom heim frá útlöndum 25. september og hafi þeir verið í umslagi.  Aðspurður um skýringu á því af hverju skjöl með bankareikningi X, kennitölu o. fl. hafi fundist í skjalatöskunni, kvaðst hann ekki hafa neina skýringu en benti á að hann hafi lánað ákærða, X, töskuna sem hann hafi skilað.

Varðandi ákæruliði III og IV kvaðst ákærði aðspurður aldrei hafa verið í viðskiptum við Æ og þekki ekki þau fyrirtæki sem þar eiga hlut að máli.  Þá kvaðst hann ekki hafa vitað um bankareikning hennar og sé sleginn yfir framburði hennar.  Hann kannaðist við að hafa farið með Æ ásamt eiginkonu sinni í Kringluna til að kaupa afmælisgjöf.  Hann hafnar því hins vegar alfarið að ferðin þangað hafi verið í þeim tilgangi að kanna hvort millifærsla peninga hefði átt sér stað.   Ákærði kvað Július vera vin sinn og félaga en samband hans við X hafi að mestu verið í gegnum síma en hann hafi þó komið nokkrum sinnum á heimili ákærða á sl. ári.  Þeir séu báðir áhugamenn um knattspyrnu og hafi talað mikið saman símleiðis um það mál.  Aðspurður um tíð símasamskipti milli hans og meðákærðu 17. apríl, eða 13 símtöl. Þann 18. apríl er um 11 símtöl að ræða og 15 þann 19. apríl.  Kveðst ákærði telja umrædd gögn gölluð.  Þá kveðst hann hafa verið í sambandi við Y þegar hann var í landi og því ráðist mynstrið af því.  Þessi símtöl séu á engan hátt tengd málinu heldur m.a. viðskiptum við Y með fisk.  Varðandi símasamskipti við Æ kvað hann þau ekki hafa haft neitt með millifærslur peninga að gera.  Hún hafi hins vegar átt í peningavandræðum á þessum tíma og verið sífellt að senda honum SMS-skilaboð um að hann ætti að hringa í hana.  Þá hafi verið eitthvað vesen á henni á þessum tíma.  Varðandi 17. apríl 2001 þá sýni framlögð gögn að hann hafi verið í vinnu þann dag kl. 7.56 til 16.04 og minnist þess ekki að hafa hitt Július þann dag.   Ákærði neitar því að hafa fengið peninga úr hendi Y.

Vitnið, Jón Lárusson lögreglufulltrúi, skýrði réttinum frá fyrirkomulagi húsleitar 27. september 2001 á heimili ákærða Sixtusar að Krummahólum 10 en verjandi hans hafi m.a. verið þar viðstaddur.  Farið hefði verið yfir öll þau gögn, bæði í skjalatösku sem fannst í svefnherbergi og plastpoka, sem fannst undir spegli í holi.  Í töskunni hafi verið fjöldi pappíra sem tengdust ákærða og ekkert sem benti til að þau gögn vörðuðu aðra en hann.  Sama gildi um plastpokann.  Þar hafi verið farmiðar og ferðapappírar tengdir ákærða auk peningaseðla sem reynst hafi falsaðir.  Þá hafi fundist pappírar með upplýsingum um reikningsnúmer og nafn og kennitölu X.  Umslag með peningum hafi fundist í umslagi á borði inni í stofu.

             Vitnið kvaðst hafa gert athuganir á símagögnum frá símafyrirtækum og setti upp í súlurit.  Kvað hann þær athuganir unnar eftir bestu þekkingu en hann sé viðurkenndur kerfisfræðingur með vottorði frá Microsoft.  Lýsti vitnið því hvernig línurit símhringinga er unnið og kvað gögnin unnin úr öllum þeim tilvikum þar sem viðkomandi símanúmer eiga samskipti saman, óháð tímalengd.  

Vitnið, Sveinn Ingiberg Magnússon lögreglufulltrúi, gerði einnig grein fyrir húsleitinni að Krummahólum 10.  Hann kvað sambýliskonu ákærða, Sixtusar, hafa sagt að innihald poka sem fannst í holi undir borði hafi verið í tösku í eigu ákærða sem væri í viðgerð og hafi hann sturtað úr henni í þennan poka.  Í honum hafi m.a. fundist skjal varðandi N.  Nánast öll gögnin bæði í pokanum og í töskunni sem fannst svefnherberginu hafi tengst ákærða Sixtusi með einhverjum hætti. Vitnið kvað vera samræmi í rithönd ákærða, X, samkvæmt gögnum um úttekt af debetreikningum frá október og fram í nóvember.  Vitnið benti á að rithandarsýni ákærða, sem hann gaf þegar hann stofnaði bankareikninginn og ritað sé með skrifstöfum, sé eins og rithöndin þegar úttektin átti sér stað.  Þegar ákærði hafi hins vegar verið beðinn að gefa rithandarsýni þá riti hann nafn sitt með prentstöfum og riti með öðrum hætti.

Vitnið, Ö, kvaðst sjá um erlenda sjóði Búnaðarbankans.  Hún kvaðst hafa tekið við NLG 50, NLG 100 og DEM 100 frá ríkislögreglustjóra og þegar í stað séð að um falsaða seðla var að ræða.  Það sem vakið hafi grunsemdir hennar hafi verið það að pappírinn hafi ekki verið eins og í löglegum seðlum. Þá hafi ekkert vatnsmerki verið í þeim. Við nánari könnun í tækjum bankans hafi þessi grunur hennar verið staðfestur.

Vitnið, Æ, kvað Sixtus hafa beðið hana að lána sér bankareikning hennar til að yfirfæra fé vegna fiskkaupa bresks fyrirtækis frá Íslandi.  Kvaðst hann ekki geta notað sinn eigin reikning í þessu skyni vegna skuldar við bankann.  Hann hafi ekkert sagt til um það hvenær þetta yrði nákvæmlega en sagt henni að hringja í bankann reglulega til að kanna hvort peningarnir væru komnir inn á reikninginn.   Hún kvaðst ekkert hafa vitað um fyrri millifærsluna í ákærulið III en varðandi millifærslu í ákærulið IV kvaðst hún hafa sagt Sixtusi að hún gæti ekki náð í peningana þann dag vegna þreytu þar sem hún var að vinna á næturvakt.  Hún hafi engu að síður farið í bankann með Sixtusi og Huldu til að fá staðfest að peningarnir væru komnir.  Sixtus hafi beðið við dyrnar á meðan hún fór inn. Bankinn hafi hins vegar verið að loka.  Sixtus hafi lagt að henni að taka peninga út en hún hafi verið því andvíg.  Þau hafi verið í tíðu símasambandi vegna þessara mála.  Símasamskipti við Y hafi hins vegar tengst öðru.  Hún hafi þó sagt Y frá því að Sixtus hefði beðið hana um bankareikning hennar.

Vitnið, Þ, sambýliskona ákærða Y, kvað hann hafa sagt sér að ákærði, Sixtus, hefði beðið hann um að lána bankareikning sinn.  Hafi hún síðan vitað að von var á peningum 17. apríl 2001 og keyrt hann í bankann til að taka þá peninga út.  Þau hafi síðan farið að Krummahólum 10 þar sem Július hafi farið inn til Sixtusar.  Þá kvaðst hún hafa vitað af millifærslunni 11. september.  Vitnið kvað hana og Y hafa rætt það sín í milli af hverju þetta væri gert en þegar Y hafi sagt að þetta yrði símsent þá hafi þau talið það í lagi.  Vitnið kvaðst hafa vitað að Sixtus hafði setið í fangelsi fyrir afbrot og því hugleitt þetta mál.   Þá hafi Y sagt sér að Sixtus hefði beðið Æ að lána bankareikning hennar og hafi það verið nokkrum dögum áður en seinni millifærslan kom.  Á sama tíma hafi hún heyrt að X væri að hjálpa Sixtusi við þetta.  Vitnið kvaðst hafa furðað sig á þeirri þóknun sem Y hafi fengið fyrir þetta, eða 300.000 krónur, en ekkert gert í því.   Sixtus hafi margsinnis hringt í hana eftir 11. september eftir að Y var farinn út á sjó og beðið hana að hringja í bankann til að athuga hvort peningarnir væru komnir.  Hafi hann sagst vera í Þýskalandi í eitt sinn en við Y hafi hann sagst vera í London.  Hafi hún sagt honum að hún myndi gera það en síðan hafi hún ekki hringt, enda vitað að peningarnir væru á reikningnum.  Y hafi lagt peningana inn í Búnaðarbankann og ætlað að geyma þá þar til hann kæmi aftur í land af sjónum.

Vitnið, Hulda Björg Jóhannesdóttir, kvaðst ekkert kannast við gögn þau sem fundust á heimili hennar að Krummahólum 10 og tengjast ákærða X né önnur skjöl er varða millifærslurnar.   Vitnið kannaðist hins vegar við skjalatöskuna og kvað Sixtus hafa sagt hafa lánað X hana en það sé langt síðan.   Vitnið kannaðist við að hafa farið ásamt Sixtusi og Æ í Kringluna en sú ferð hafi tengst kaupum á afmælisgjöf. 

Niðurstaða.

Ákæruliður I. til V.

Með bréfi T, dags. 4. apríl 2001, til Lloyd's Bank, Haslemere Surrey Branch, Englandi, var bankanum tilkynnt um breytt heimilisfang fyrirtækisins og þess óskað að öllum pósti til þess yrði beint þangað.  Með bréfi fyrirtækisins til bankans, dags. 9. s.m., komu fyrirmæli um að millifæra af reikningi þess GBP 18.949 yfir á reikning ákærða, Y, nr. [...] við Landsbanka Íslands, Austurstræti.  Hefur ákærði, Y, viðurkennt fyrir dóminum að hafa tekið þessa fjárhæð út af reikningi sínum.

Með bréfi fyrirtækisins, dags. 18. s.m., til bankans komu hliðstæð fyrirmæli um að millifærslu sömu fjárhæð inn á reikning ákærða.  Þessi millifærsla náði ekki fram að ganga þar sem reikningseigandi stöðvaði hana.  Ákærði, Y kveðst ekkert hafa af þessari millifærslu vitað.

Með bréfi N Ltd., London, dags. 6. ágúst 2001, til Northern Bank, Belfast, Norður Írlandi, tilkynnti fyrirtækið um breytt heimilisfang og óskaði þess að allur póstur yrði sendur á það.  Með bréfi fyrirtækisins til bankans, dags. 5. september s.á, komu fyrirmæli um að millifæra af reikningi þess GBP 19.500 yfir á reikning ákærða, Y nr. [...] Landsbanka Íslands, Austurstræti.  Ákærði, Július, hefur viðurkennt að hafa tekið þessa fjárhæð út af reikningi sínum þann 11. september s.á.

Með bréfi, dags. 18. júní 2001, frá Íslandsbanka-FBA hf. til ríkislögreglustjóra var tilkynnt að þann 13. s.m. hefðu bankanum borist greiðslufyrirmæli frá National Westminister Bank PLC, London, í gegnum greiðslukerfið SWIFT, um að greiða GBP 8.500, eða jafnvirði 1.243.740 króna, af reikningi í eigu P.B. Conway í bankanum inn á reikning í eigu Æ, nr. [...], í útibúi Íslandsbanka í Lækjargötu.  Millifærslan var bakfærð af reikningi Æ þann 14. júní 2001 að beiðni National Westminster Bank þar sem um svik var að ræða.  Þann 12. s.m. hefðu einnig komið fyrirmæli frá Barclays Bank um að millifæra GBP 8.500 af reikningi í eigu Y Ltd. inn á reikning Æ, sem síðan voru afturkölluð 15. s.m. Fram kom að Æ hefði haft samband við bankann þann 18. s.m. og spurst fyrir um þessar greiðslur en þá verið sagt að þær hefur verið afturkallaðar. 

Ákærði, Y, kveðst ekkert kannast við ofangreind bréf er hann varða né heldur þekkja til þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir.  Ber hann að ákærði, Sixtus, hafi í byrjun apríl 2001 beðið hann um aðgang að bankareikningi sínum við Landsbanka Íslands til að leggja inn á hann peninga sem Sixtus ætti von á erlendis frá.  Hann hefði síðan þann 17. apríl 2001, þegar GBP 18.947 voru lögð inn á reikninginn, tekið peningana út í fjórum færslum að undanskyldum 800 Bandaríkjadölum sem sambýliskona hans tók út síðar.  Þetta hefði hann gert að beiðni Sixtusar og afhent honum samdægurs fjárhæðina á heimili hans.  Hann hefði fengið 300.000 krónur greiddar af þessum peningum en ekki hefði verið um fyrirfram ákveðna þóknun að ræða.

Ákærði ber að með sama hætti hafi Sixtus fengið afnot af öðrum bankareikningi hans í september 2001 og talið að sú peningasending myndi berast 13. sama mánaðar.  Peningarnir hafi hins vegar komið tveimur dögum fyrr, eða 11. sama mánaðar.  Hafi hann tekið þá peninga út og lagt á reikning á sínu nafni í Búnaðarbankanum sem hann stofnaði samtímis, þar sem honum hafi ekki unnist tími til að skila þeim til Sixtusar.

Samkvæmt framburði Æ fyrir dóminum bað ákærði, Sixtus, hana um afnot af bankareikningi sínum hjá Íslandsbanka, útibúi Lækjargötu, vegna fiskkaupa erlendis frá.  Að hennar sögn gaf hann henni fyrirmæli um að hringja í bankann reglulega til að grennslast fyrir um hvort peningarnir væru komnir.  Hún kvaðst ekkert hafa vitað af millifærslunni 12. júní en varðandi þá síðari, þann 13. júní, kvaðst hún hafa farið með Sixtusi og sambýliskonu hans, Huldu, í útibú bankans í Kringlunni til að fá staðfest að peningarnir væru komnir.  Hún hafi hins vegar ekki tekið út af reikningnum þrátt fyrir að Sixtus legði að henni að gera það.  Kvað hún þau hafa verið í tíðum símasamskiptum vegna þessa.  Þá kvaðst hún hafa skýrt Y frá því í byrjun september að Sixtus hefði beðið sig um um afnot af bankareikningnum.

Með bréfi N Ltd., Belfast, Norður Írlandi, dags. 15. ágúst 2001, til Northern Bank, Square, Belfast, Norður Írlandi var farið fram á yfirfærslu á GBP 19.500 af reikningi fyrirtækisins nr. [...], inn á reikning ákærða, X, nr. [...] í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Skólavörðustíg, Reykjavík.  Peningarnir voru lagðir inn á reikninginn þann 23. ágúst 2001 og teknir út daginn eftir.  Með bréfi fyrirtækisins, dags. 28. ágúst 2001, komu síðan hliðstæð fyrirmæli til bankans um millifærslu á sömu fjárhæð á reikning X.  Voru peningarnir lagðir inn á reikninginn þann 4. september 2001 og teknir út samdægurs.

Ákærði X neitar öllum afskiptum sínum af umræddum millifærslum og kvaðst ekkert þekkja til umræddra fyrirtækja.  Þá neitaði hann að hafa tekið peningana út af reikningi sínum í SPRON þann 24. ágúst og 4. september.

Í þágu rannsóknar málsins var aflað gagna hjá símafyrirtækjum um símtöl milli síma ákærðu og fleiri er málinu tengdust.  Vann Jón Lárusson rannsóknar-lögreglumaður, sem jafnframt er kerfisfræðingur að mennt, úr þessum gögnum línurit um þessi símasamskipti sem liggja fyrir í málinu.  Hefur Jón borið að línuritin sýni öll samskipti milli símanúmeranna óháð tímalengd.  Dómurinn hefur, vegna gagnrýni verjanda, yfirfarið þessa úrvinnslu og telur unnt að byggja á þeim við úrlausn málsins.  Sýna þau á skýran hátt samskipti milli þessara símtækja m.a. á þeim tímum sem hér um ræðir og nánar verður gerð grein fyrir síðar.

Ákærði, Y, hefur borið að hafa látið meðákærða, Sixtusi, í té bankareikninga sína í Landsbankanum til að leggja inn á þá fé sem hann átti von á erlendis frá.  Að sögn hans lagði Sixtus ríka áherslu á það að peningarnir yrðu teknir út af reikningunum um leið og millifærslan hefði átt sér stað.  Þá hefur ákærði, Y, viðurkennt að hafa fengið í þóknun 300.000 krónur af fjárhæðinni er hann tók út 17. apríl og auk þess viðurkennt að hafa skilið eftir 800 Bandaríkjadali á reikningi sínum af þessum peningum. 

Þegar ákærði, Y, var handtekinn gaf hann skýringar á atburðum sem reyndust ósannar.  Síðari skýrslur hjá lögreglu hafa verið í samræmi við framburð hans fyrir dóminum að mestu leyti.  Hins vegar kvað hann framburð sinn hjá lögreglu þess efnis, að hann hefði grunað að svik væru í tafli hjá Sixtusi þegar hann tók peningana út 11. september, ekki nákvæmlega réttan heldur hafi hann þá aðeins grunað að ekki væri allt með felldu.

Á þeim tíma er samskipti þessi áttu sér stað vissi Y að Sixtus átti sakaferil vegna fjársvika.  Engu að síður samþykkti hann að lána honum bankareikninga sína í nefndum tilgangi og þáði háa þóknun fyrir.  Málaleitan Sixtusar var, við þessar aðstæður, til þess fallin að vekja grundsemdir hans að um ólöglegt athæfi væri að ræða enda ræddu hann og sambýliskona hans, Þ, það sín í milli og virðast þau hafa haft af þessu áhyggjur.  Hin tíðu símasamskipti Y og Sixtusar, um það leyti þegar brotin áttu sér stað, benda sterklega til þess að um óeðlileg viðskipti hafi verið að ræða.  Þá bendir hin ríkulega þóknun Y, sem ekki er í neinu samræmi við það eitt að veita aðgang að bankareikningum sínum, enn fremur til þess að ákærði, Y, hafi talið sig eiga ágóðahlut í peningunum.

Þegar allt þetta er virt er það álit dómsins, að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að um ólögmæta starfsemi ákærða Sixtusar var að ræða.  Þó að ekki verði fallist á það með ákæruvaldinu að þáttur ákærða í verknaðinum hafi verið slíkur að hann verði dæmdur fyrir samverknað með ákærða, Sixtusi, verður hann sakfelldur fyrir hlutdeild í fjársvikum og tilraun til fjársvika samkvæmt I. kafla og II. kafla A og B í ákæru. Samkvæmt þessu telst ákærði, Y, hafa gerst sekur um fjársvik og tilraun til fjársvika eins og í ákæruliðum I og II, A og B greinir.  Eru brotin þar rétt færð til refsiákvæða að öðru leyti en því að vísa skal til 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga varðandi þátt ákærða, Y.

Að mati dómsins er ekkert í gögnum málsins, né í framburði ákærða eða vitna, sem styður það að þáttur ákærða, Y, hafi verið annar og meiri en sá sem hann hefur lýst hvað varðar notkun á hinum fölsuðu millifærslubeiðnum.  Þykir því ekki fram komin sönnun þess að ákærði, Y, hafi gerst sekur um skjalafals, og ber að sýkna hann af broti gegn 155. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, X, er eigandi bankareiknings nr. [...] í Sparisjóði Reykjavíkur, sem notaður var við millifærslur samkvæmt ákærulið V, lið A og B.  Af þeim reikningi voru tekin út, þann 24. ágúst og 4. september 2001, GBP 19.500 í hvort sinn.  Í málinu liggja fyrir ljósrit 3ja viðskiptakvittana sparisjóðsins, dags. 24. ágúst 2001, þar sem teknar eru út af reikningnum samtals 2.784.607 krónur.  Kvittanirnar eru staðfestar með nafni ákærða.  Þá liggur einnig frammi viðskiptakvittun, dags. 4. september s.á., vegna úttektar á 2.807.614 krónum af reikningum með nafni ákærða.  Til samanburðar þessum nafnritunum liggur frammi sýnishorn nafnritunar ákærða úr gagnabanka Reiknistofu bankanna, frá því er hann stofnaði bankareikning, nafnritun hans á vegabréfi sínu og rithandarsýni sem ákærði var beðinn að gefa við rannsókn málsins. 

Þar sem úttektirnar eru ritaðar með tölvuskjápenna var að mati ákæruvaldsins talið gagnlaust að beita hefðbundnum rannsóknum á þessum rithandarsýnishornum í málinu.

Að mati dómsins er ritun nafns ákærða mjög áþekk í öllum tilvikum nema þar sem ákærði gefur rithandarsýni við rannsókn málsins, þar sem hún er verulega frábrugðin.  Verður ekki hjá því komist að álykta að þetta hafi ákærði gert í þeim tilgangi að torvelda að tengja mætti hann við áðurnefndar úttektir. 

Svo sem rakið hefur verið fundust gögn á heimili Sixtusar þar sem fram koma handritaðar upplýsingar um umrætt reikningsnúmer, kennitala X o.fl.  Hefur X viðurkennt að hafa ritað upplýsingarnar á blað en gat enga skýringu gefið á því af hverju það fannst þarna.  Neitaði hann því að hafa fengið lánaða tösku hjá Sixtusi, sem hafði gefið í skyn að hugsanlega gætu þessi gögn hafa verið í töskunni frá þeim tíma er hún var í láni hjá X.

Á þeim tímum er brotin áttu sér stað voru tíð símtöl milli símnúmera X og Sixtusar.  Þannig voru 15 samskipti á milli þessara símanúmera þann 24. ágúst 2001, eða daginn fyrir fyrri úttektina, en næstu tvo daga á undan voru þau samtals 25.  Þá voru samtals 11 símtengingar þann 4. september, eða sama dag og síðari úttektin fór fram.  Á öðrum tímum eru símtengingar óverulegar.  Sérstaka athygli vekur að símasamskipti eru 6 mínútum eftir hvora úttektina.  Þá var hringt úr síma ákærða í þjónustuver Spron, 7 símtengingar þann 22. ágúst og einu sinni þann 4. september. 

Framburður ákærða um þennan þátt málsins hefur verið reikull en hjá lögreglu og fyrir dómi bar hann að hann hefði gefið manni að nafni Douglas símkortið áður en hann fór til útlanda.  Breytti hann framburði sínum þegar honum var á það bent að gögn málsins sýndu að síminn og kortið hefðu verið notuð saman.  Kvaðst hann þá hafa lánað Douglasi símann en fengið hann til baka fyrir brottför sína. 

Ákærði hélt af landi brott þann þann 6. september 2001, en hann hafði pantað far með Flugleiðum daginn áður eftir að hafa keypt gjaldeyri fyrir rúmar 900.000 krónur.  Benti viðskilnaður hans til þess að hann hafi ekki ætlað sér að koma aftur til landsins í bráð.  Skýringar hans um að hann hafi ætlað utan til náms hafa ekki verið studdar neinum gögnum.

Það er mat dómsins að framburður ákærða fyrir dóminum sé allur með ólíkindablæ, óstöðugur og lítt trúverðugur.  Þykir dóminum, þegar allt það er virt sem hér hefur verið rakið, hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið V, lið A og B.  Ber því að sakfella hann fyrir þau brot og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði Sixtus neitar alfarið sök í málinu.  Kveðst hann ekki kannast við neitt þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli, gögn þau sem þar koma við sögu, né heldur að hafa átt í bankaviðskiptum við ákærðu Y og X eða Æ.

Svo sem rakið hefur verið fundust á heimili ákærða gögn þar sem fram koma m.a. nöfn þeirra erlendu fyrirtækja sem hlut eiga að máli og aðrar upplýsingar sem tengjast áðurnefndum millifærslum.  Hefur ákærði enga haldbæra skýringu getað gefið á þessum fundi.  Ákærði, Y, svo og vitnið, Æ, hafa bæði borið að Sixtus hafi óskað eftir því við þau að fá afnot af bankareikningum þeirra til að millifæra á þá fjárhæðir erlendis frá.  Er framburður Æ um samskipti hennar við Sixtus samhljóða framburði Y, enda fóru fjársvikin fram með líkum hætti í öll skiptin.  Þykir framburður Æ trúverðugur og hefur hann stuðning í yfirliti yfir símsamskipti milli þeirra á þeim tímum er brotin áttu sér stað.  Þá hefur Sixtus viðurkennt að hafa farið með henni í Kringluna er hún fór í bankann til að athuga um innstæðuna á reikningnum, þrátt fyrir að hann segi tilgang fararinnar annan en vitnið heldur fram.  Vitnið, Þ sambýliskona Y, kvaðst hafa vitað um beiðni Sixtusar um að fá aðgang að bankareikningi sambýlismanns sín og hafa verið með í för þann 17. apríl þegar peningarnir voru teknir út og er Y á að hafa afhent þá á heimili Sixtusar.  Þá bar vitnið einnig að Sixtus hefði hringt í hana eftir 11. september til að grennslast fyrir um millifærslu og fara fram á það við hana að hún aðgætti hvort peningarnir væru komnir inn á reikninginn.

Fram hefur komið um tíð símsamskipti ákærða Sixtusar við meðákærðu.  Hann telur samskipti sín við X að mestu hafa snúist um sameiginlegt áhugamál þeirra, knattspyrnu, en við Y hafi hann verið að ræða viðskipti með fisk.  Þessi skýring ákærða þykir lítt trúverðug í ljósi þess sem hér hefur verið rakið.

Dómurinn telur það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði, Sixtus, hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. til V. kafla ákærunnar og þar er rétt lýst.  Ber því að sakfella hann fyrir þau brot sem eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

VI.            ákæruliður.

Við húsleit á heimili ákærða, Sixtusar, þann 28. september 2001, fundust peningaseðlar DEM 100 og NLG 100 og NLG 50 í plastpoka ásamt öðrum pappírsgögnum.  Vitnið, Ö, sem tók við seðlunum í Búnaðarbankanum kvaðst þegar í stað hafa séð að seðlarnir voru falsaðir þar sem pappírinn hafi ekki verið löglegur, og eins hafi ekkert vatnsmerki verið á þeim.  Nánari athugun bankans hafi leitt í ljós að svo var.  Á umræddum seðlum má sjá að vatnsmerki skortir.  Telst óumdeilt í málinu að umræddir peningaseðlar séu falsaðir.  Ákærði, Sixtus, kvaðst fyrir dóminum ekkert kannast við tilvist peningaseðlanna og benti á að þeir peningar sem hann hefði komið með heim erlendis frá hafi verið í umslagi. 

Þótt leiða megi að því líkur að peningaseðlarnir stafi frá ákærða, Sixtusi, þá er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að þeirra hafi verið aflað í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri.  Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

          Refsingar.

Við ákvörðun refsingar ákærðu ber að líta til 2., 6. og 7. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en um var að ræða vel skipulagða brotastarfsemi sem snýst um miklar fjárhæðir. 

Ákærði, Sixtus, hlaut dóm 28. maí 1999, 12 mánaða fangelsi fyrir fjársvik.  Er því hér um ítrekað brot að ræða ákærða.  Þykir refsing ákærða Sixtusar hæfilega ákveðin með hliðsjón af þessu og þegar litið er til 77. gr. almennra hegningarlaga fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september til 26. október 2001 skal koma til frádráttar.

Ákærði skal greiða sakarkostnað þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar héraðsdómslögmanns, 750.000 krónur.

Refsing ákærða, X, sem ekki hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé, þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. mars 2002 skal koma til frádráttar.

Ákærði skal greiða sakarkostnað þ. m. t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.

Ákærði, Y, hefur að hluta til játað brot sitt og verður til þess litið við ákvörðun refsingar hans.  Þykir refsing ákærða, sem ekki hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé, hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september til 26. október 2001 dragast frá.

Ákærði skal greiða sakarkostnað þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjargar Rúnarsdóttur héraðsdómlögmanns, 300.000 krónur.

Upptökukröfur

Í fyrri málslið 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að gera megi upptækt með dómi muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, og enginn á löglegt tilkall til, eða fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings.  Ljóst er að ávinningur ákærðu af brotum þeirra er töluverður.  Aftur á móti er vitað af hverjum ákærðu sviku fé og hverjir eiga tilkall til þeirra fjármuna er greinir í hverjum ákærulið fyrir sig.  Þegar af þessari ástæðu er ekki hægt að fallast á upptökukröfur á hendur ákærðu, þar sem segir skýrum orðum í tilvitnuðu lagaákvæði að eitt af skilyrðum fyrir upptöku sé að enginn eigi löglegt tilkall til ávinningsins.  Eigi verður komist hjá þessari niðurstöðu þó að lögmætir eigendur fjárins hafi ekki nýtt sér rétt sinn nema að litlu leyti til að halda uppi bótakröfum í málinu.

Með vísan til framangreinds er hafnað upptökukröfum ákæruvalds samkvæmt 1. og 2. lið VII. kafla ákæru.

Verjandi ákærða, Y, gerir kröfu fyrir hans hönd um afhendingu á nánar tilteknum, sérgreindum peningaupphæðum til annars vegar Northern Ireland Council for Ethnic Minorities og hins vegar til Northern Bank Limited, Belfast.  Ákærði hefur verið fundinn sekur um fjársvik og við rannsókn málsins á hendur honum og meðákærðu voru m.a. haldlagðar innstæður á bankareikningum, m.a. á nafni ákærða Y.  Óljóst er á hvaða grunni framangreindar kröfur byggja.  Virðist fráleitt að ákærði geri kröfu um ráðstöfun fjármuna sem hann hefur verið fundinn sekur um að hafa aflað með fjársvikum, en krafan virðist snúast um peninga á reikningum í eigu ákærða sem haldlagðir voru við rannsókn málsins.

Með vísan til framangreinds er kröfu verjandans hafnað.

Bótakröfur

Northern Bank Limited, Belfast, Norður Írlandi, hefur uppi bótakröfu í málinu.  Krafist er greiðslu skaðabóta að fjárhæð 19.500 bresk pund, óskipt úr hendi ákærðu Y og Sixtusar, vegna brota samkvæmt II. kafla, B.  Einnig er krafist greiðslu á 39.000 breskum pundum, óskipt úr hendi ákærðu X og Sixtusar, vegna brota samkvæmt V. kafla, A og B.

Í samræmi við niðurstöðu málsins á tjónþoli bótakröfu á hendur ákærðu.  Krafan er í samræmi við niðurstöðu tilgreindra ákæruliða á hendur ákærðu og er fallist á hana að öllu leyti.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Helga Magnúsi Gunnarssyni fulltrúi ríkislögreglustjóra.

Dóm þennan kvað upp Valtýr Sigurðsson héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Einari Guðbjartssyni dósent og Skúla J. Pálmasyni héraðsdómara.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sixtusi Mbah Nto, sæti fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september til 26. október 2001 skal koma til frádráttar.

Ákærði skal greiða sakarkostnað, þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar héraðsdómslögmanns, 750.000 krónur.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. mars 2002 skal koma til frádráttar.

Ákærði skal greiða sakarkostnað þ. m. t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði.  Fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september til 26. október 2001 dragast frá.

Ákærði skal greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjargar Rúnarsdóttur héraðsdómlögmanns, 300.000 krónur.

Hafnað er upptökukröfum samkvæmt VII. kafla ákæru, 1. og 2. lið.

Ákærðu, Y og Sixtus, skulu greiða Northern Bank Limited, Belfast, Norður Írlandi, óskipt 19.500 bresk pund.

Ákærðu, X og Sixtus, skulu greiða Northern Bank Limited, Belfast, Norður Írlandi, óskipt 39.000 bresk pund.