Hæstiréttur íslands

Mál nr. 588/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. október 2009.

Nr. 588/2009.

Albert Sigurður Rútsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Ásu Þórunni Matthíasdóttur

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

A höfðaði mál gegn Á til heimtu skaðabóta þar sem Á hefði selt aftur hluta í hesthúsi sem hún hafði selt honum. Vísaði héraðsdómari málinu frá þar sem mjög skorti á um nauðsynlegt samhengi málsástæðna og samhengi málsástæðna og málavaxta, auk þess sem skorti nokkuð á að framlögð gögn gegndu með viðhlítandi hætti sönnunarhlutverki sínu. Í dómi Hæstaréttar var talið að þó málatilbúnaður A hefði mátt vera markvissari að því er snerti þau atriði sem nefnd væru í úrskurði héraðsdóms yrði ekki talið að þessir annmarkar væru með þeim hætti að hamlaði vörnum Á og stæði í vegi fyrir því að dómur yrði lagður á kröfu A. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fram kemur í málinu að varnaraðili hafi með samningi við sóknaraðila 10. september 2001 selt honum hluta í hesthúsi að Drífubakka 1c í Mosfellsbæ. Sé um að ræða „tvö hestpláss“. Þá kemur einnig fram að með afsali 2. desember 2007 hafi varnaraðili afsalað öllum eignarhluta sínum í nefndu hesthúsi og sé þar sá hluti meðtalinn sem samningurinn 10. september 2001 hafi tekið til. Er ljóst af stefnu til héraðsdóms að sóknaraðili telur varnaraðila hafa með þessum hætti valdið sér tjóni með saknæmri eða ólögmætri háttsemi, eins og komist er að orði. Þá er í stefnunni gerð grein fyrir því hvernig kröfufjárhæð er fundin.

Þó að fallast megi á það sem segir í forsendum hins kærða úrskurðar um að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnunni hefði mátt vera markvissari að því er snertir þau atriði sem þar eru nefnd, verður ekki talið að þessir annmarkar séu með þeim hætti að hamli vörnum varnaraðila og standi því í vegi að dómur verði lagður á kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Ása Þórunn Matthíasdóttir, greiði sóknaraðila, Alberti Sigurði Rútssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 16. september 2009, var höfðað 21. apríl 2009. Stefnandi er Albert Sigurður Rútsson, kt. 140146-4039, Bjargi, Mosfellsbæ en stefndi er Ása Þórunn Matthíasdóttir, kt. 250452-3739, Arnartanga 51, Mosfellsbæ.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda  verði dæmd til að greiða skuld að fjárhæð 2.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefnda  verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð sú krafa að stefnda verði sýknuð af kröfum stefnanda og að málskostnaður greiðist úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati réttarins.

Þann 16. september fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá afmarkaði þáttur málsins hér til úrlausnar. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hafnað.

II

Stefnandi kveður að Örn Ingólfsson, eiginmaður stefndu, hafi á árinu 2000 veitt sér heimild til að taka lán sem Örn hafi átt rétt á frá lífeyrissjóði sjómanna. Hafi stefnandi verið greiðandi lánsins og hafi hann sett að veði eign sína að Hjallahlíð 21, Mosfellsbæ. Lánið hafi verið að fjárhæð 4 milljónir króna. Stefnandi hafi fengið greitt af láninu 2.950 þús.kr. en stefnda, eða einkahlutafélag í eigu eiginmanns stefnda, Arnartak ehf., hafi fengið 1 milljón kr. Til tryggingar þessari 1 milljón hafi stefnda verið útgefandi að víxli sem  Arnartak ehf. hafi samþykkt.

Stefnandi kveður að greiðslufall hafi orðið á ofangreindum víxli. Í framhaldi af því hafi sér og stefndu samist um að hann fengi endurgreitt með því að fá til eignar tvö hesthúspláss í hesthúsinu nr. 1c að Drífubakka í Mosfellsbæ, sbr. kaupsamning 10. september 2001. Er stefnandi hafi rúmum sex árum síðar, eða þann 28. desember 2007 ætlað að þinglýsa kaupsamningnum um hesthúsplássin hafi stefnda verið búin að selja þriðja aðila eignarhluta sinn í hesthúsinu, nánar til tekið þann 2. desember 2007.

Stefnandi rökstyður fjárhæð kröfu sinnar þannig að stefnda hafi selt hesthúsið á 15 millj.kr. Hesthúsið hafi að geyma 12 hestpláss sem geri 1.250 þús.kr. á hvert hesthúspláss. Þar sem stefnandi hafi átt tvö hestpláss í hesthúsinu nemi tjón hans samtals 2.500 þús.kr.

Um lagarök vísar stefnandi til almennu sakarreglunnar og meginreglna um skaðabætur utan samninga sem og til skaðabótareglna innan samninga. Þá skírskotar stefnandi til 247. gr. almennra  hegningarlaga. Þá segir í stefnu að verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður byggi stefnandi á að stefnda hafi hlotið ólögmæta auðgun með athæfi sínu á kostnað stefnanda og beri af þeim sökum að skila ávinningi sínum.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum, einkum þó 1. mgr. 6. gr. Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefnda telur að dómkrafa stefnanda sé vanreifuð og uppfylli ekki ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991, d-, e-,  g- og f-lið. Þá sé eigi gætt ákvæða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 því lagt sé fram skjal úr óskyldu máli sem skjalaskrá í þessu máli. Stefnda kveður varnarþing ekki í samræmi við ákvæði einkamálalaga þar sem hún búi í Mosfellsbæ. Þá kveður stefnda skorta mjög á málavaxtalýsingu, og að forsendum og rökstuðningi fyrir öllum málatilbúnaði sé mjög áfátt.

Stefnda kveður að í málinu sé krafist greiðslu skuldar og þannig lagt upp með að málið sé rekið sem skuldamál. Í kafla um málsástæður komi hins vegar fram að stefnandi byggi á að stefnda hafi valdið honum tjóni með fjárdrætti sem brjóti í bága við 247. gr. almennra hegningarlaga.  Jafnframt að stefnda hafi valdið stefnanda tjóni með ásetningi. Um lagarök sé vísað jöfnum höndum til meginreglna um skaðabætur utan samninga og til skaðabótareglna innan samninga.  Með þessu móti verði engan veginn séð á hvaða forsendum mál þetta sé rekið af hálfu stefnanda og að erfitt verði að koma dómi á málið eins og það er lagt fyrir.

IV

Það er grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er talið upp í stafliðum a-k hvað skuli greina í stefnu og að það skuli vera svo glöggt sem verða má.  Í þessum þætti er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að grundvöllur málsins sé ekki ljós, að málið sé höfðað á röngu varnarþingi og að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði d- til f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála í héraði.

Mál þetta telst höfðað á heimilisvarnarþingi stefndu, en til dómþinghár Héraðsdóms Reykjavíkur telst m.a.  Mosfellsbær, sbr. 1. tl., 1. mgr. 2. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

Á skjalaskrá á dómskjali 2 er vísað til máls á milli annarra aðila en máls þessa. Þó geymir skráin rétta tilgreiningu skjala sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins. Að fenginni skýringu lögmanns stefndu um að misritun hafi átt sér stað þykir þetta eitt og sér því ekki varða frávísun málsins.  

Af málatilbúnaði stefnanda má ráða að krafa hans sé til komin vegna þess að stefnda hafi selt þriðja aðila pláss fyrir tvo hesta í hesthúsi sem hún hafði sex árum áður selt honum. 

Stefnandi byggir mál sitt á reglum skaðabótaréttar innan og utan samninga og rétti til endurgreiðslu á ólögmætum ávinningi án þess að leitast við að rökstyðja með hvaða hætti þessar reglur eigi við um úrlausn málsins. Þennan óskýrleika um hvort krafa stefnanda byggir á samningi aðila eða atvikum utan samninga virðist mega rekja til þess að mjög er á reiki hvert réttarsamband aðilanna er, eins og málið er sett fram í stefnu og í framlögðum skjölum. Þykir því mikið skorta á um nauðsynlegt samhengi málsástæðna og samhengi málsástæðna og málavaxta. Þá skortir nokkuð á að gögn sem lögð eru fram í málinu gegni með viðhlítandi hætti sönnunarhlutverki sínu., s.s. óundirritað veðskuldabréf og skjal frá Reiknistofu bankanna um víxil. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykja slíkir brestir á málatilbúnaði stefnanda, sbr. einkum e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að taka ber kröfu stefnda til greina og vísa máli þessu frá dómi.

Að teknu tilliti til umfangs málsins og atvika þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 120.000 krónur í málskostnað auk 24,5% virðisaukaskatts.

Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Albert Sigurður Rútsson, greiði stefndu, Ásu Matthíasdóttur, 120.000 krónur í málskostnað.