Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2015

A (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Fljótsdalshéraði (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Eigin sök


Dómsatkvæði

Líkamstjón. Skaðabætur. Eigin sök.

A krafðist þess að viðurkennt yrði að S hf. og F bæru óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem A varð fyrir í slysi þegar hann var við æfingar í svokallaðri togvél í líkamsræktarmiðstöð sem rekin var af F. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hefði farið fram fullnægjandi rannsókn á tækinu eftir slys A sem full þörf hefði verið á þar sem forstöðumaður líkamsræktarmiðstöðvarinnar hefði haft vitneskju um að óhöpp hefðu áður orðið við notkun þess. Þess í stað hefði forstöðumaðurinn látið gera tilgreindar úrbætur á tækinu en eftir þær hefði A verið ókleift að sýna fram á að tækið hefði verið vanbúið er hann varð fyrir slysinu. Yrðu S hf. og F að bera hallann af því að ekki hefði hefði farið fram viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins. Var því talið að F hefði ekki gripið til fullnægjandi ráðstafana til að tryggja öryggi þeirra sem sóttu líkamsræktarstöðina og bæru S hf. og F ábyrgð á tjóni sem rakið væri til þeirrar vanrækslu. Þá lægju ekki fyrir í málinu haldbær gögn sem styddu það að A hefði farið rangt að við notkun tækisins og voru því ekki talin efni til að fella sök á hann. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að gagnáfrýjendur beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann varð fyrir í slysi 19. ágúst 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. mars 2015. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að þeir verði einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta vegna slyss aðaláfrýjanda og málskostnaður verði felldur niður.

I

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Er ágreiningslaust með aðilum að aðaláfrýjandi varð fyrir líkamstjóni er hann slasaðist við æfingu í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum 19. ágúst 2010, og hlaut af varanlega örorku. Íþróttamiðstöðin er rekin af gagnáfrýjanda Fljótsdalshéraði. Umrætt sinn var aðaláfrýjandi við æfingar í svokallaðri togvél sem er fjölnota líkamsræktartæki. Samkvæmt gögnum málsins er sá hluti tækisins sem aðaláfrýjandi var að nota þannig gerður að á neðri hluta þess er stálvír sem þræddur er í gegnum lóðabunka. Þaðan liggur stálvírinn upp í gálga og svo í gegnum trissuhjól sem fest er utan á sleða. Sleðinn er festur utan á ríflega mannhæðarháa stoð og er hægt að breyta hæð sleðans og þar með trissunnar með því að renna sleðanum upp eða niður stoðina. Á stoðinni eru göt með jöfnu millibili og til að færa sleðann til á stoðinni þarf að draga út þrýstipinna á honum og festa hann aftur við stoðina með því að sleppa pinnanum þannig að hann smelli inn í gat í þeirri hæð sem óskað er.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi er ekki ágreiningur um að slys aðaláfrýjanda varð við það að sleðinn, með trissuhjólinu sem að framan er lýst, losnaði og rann niður stoðina með þeim afleiðingum að trissuhjólið slóst í höfuð aðaláfrýjanda. Telur aðaláfrýjandi að slysið verði rakið til bilunar eða vanbúnaðar í tækinu þar sem fyrrnefndur þrýstipinni hefði ekki haldið og við það hefði sleðinn losnað. Gagnáfrýjendur telja á hinn bóginn að slysið verði rakið til óaðgætni aðaláfrýjanda sjálfs þar sem hann hafi ekki gætt þess að pinninn væri rétt settur í.

II

Líkamsræktartæki það sem hér er fjallað um var tekið í notkun hjá íþróttamiðstöðinni í byrjun árs 2005 og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að ekki hafi orðið nein óhöpp í tengslum við notkun þess fyrr en vorið 2010 og aftur í ágúst sama ár er vitnin B og C urðu fyrir því eins og aðaláfrýjandi að sleðinn losnaði við notkun tækisins. Þeim tókst þó að koma sér undan trissuhjólinu og sleppa við meiðsli. Vitnið C taldi ástæðu þess að sleðinn féll vera þá að „pinninn hafði ekki smollið inn.“ Spurð um hvort hún teldi sig hafa gert eitthvað rangt sagði hún að „pinninn hafi ekki hrokkið alla leið ... smollið í gatið.“ Vitnið B bar fyrir dómi að sleðinn hafi runnið niður og rétt strokið á sér nefið. Hann hafi talið tækið vera hættulegt og spurður um ástæðu þess að sleðinn hrundi niður sagði hann „Svo seinna meir sér maður það að pinni tækisins gekk ekki alla leið inn og vissulega hefur hann verið í þeirri stöðu þegar þetta hrynur hjá mér.“ Óumdeilt er að fyrrgreind óhöpp áttu sér stað áður en aðaláfrýjandi lenti í slysinu. Fyrrgreind vitni tilkynntu óhöppin til forstöðumanns íþróttamannvirkja á vegum gagnáfrýjanda Fljótsdalshéraðs, en hann var umsjónarmaður tækjanna í líkamsræktarstöðinni. Hann bar fyrir dómi að hann hefði skoðað tækið í framhaldinu og ekki séð neitt athugavert við það. Taldi hann ekki ástæðu til að aðhafast neitt frekar enda hefði tækið ekki verið bilað heldur hefði notkunin á því ekki verið í lagi. Aðspurður fyrir dómi hvernig viðhaldi þessara tækja væri háttað kvaðst hann hafa farið yfir tækin reglulega „ég geri það meira að segja sjálfur, þegar enginn sér til.“  Kvaðst hann skoða tækin eins og notandinn myndi gera, ekki væri einungis um sjónskoðun að ræða heldur fælist skoðunin einnig í að nota tækin enda hefði hann þokkalega þekkingu á svona tækjum.

Daginn eftir slys aðaláfrýjanda gerði Vinnueftirlitið svokallaða „takmarkaða úttekt“ á slysinu að ósk forstöðumannsins. Gerði eftirlitið ekki athugasemdir við tækið sjálft en benti á að bæta skyldi við merkingu á því vegna hættu á að þrýstipinni væri ekki alveg inni.

Í október 2010 varð aftur óhapp við notkun tækisins er þrýstipinninn losnaði og sleðinn rann niður. Í kjölfar þess ákvað forstöðumaður líkamsræktarstöðvarinnar að fara með tækið á verkstæði til að láta meta hvort hægt væri að laga það án þess þó að hann teldi að tækið hefði verið bilað. Var sorfið af pinnanum þannig að hann gengi betur inn. Þá var einnig farið að ábendingu Vinnueftirlitsins og miði settur á tækið þar sem á stóð: „Varúð!!! Passið að pinninn sé allur inni.“ Ekki liggur annað fyrir en að engin óhöpp hafi orðið við notkun tækisins eftir þetta.

III

Almennt verður að leggja ríkar skyldur á þá sem reka líkamsræktarstöðvar að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þangað koma. Ljóst er af því sem að framan er rakið að með stuttu millibili urðu fjórir fyrir því að umræddur sleði losnaði við notkun á fyrrgreindu tæki, sem bendir til þess að búnaður þess hafi ekki verið í lagi. Fær það stoð í því að ekki er vitað til þess að orðið hafi óhöpp við notkun tækisins eftir að pinninn var lagfærður.

Þrátt fyrir að forstöðumanni líkamsræktarstöðvarinnar hafi verið tilkynnt um það af þeim sem lentu í óhappi við notkun tækisins, áður en aðaláfrýjandi slasaðist, að sleðinn losnaði við notkun þess, aðhafðist hann ekkert annað en að nota tækið sjálfur og taldi það vera í lagi, en að notkun þeirra á tækinu hefði verið röng. Eftir slys aðaláfrýjanda fór ekki fram fullnægjandi rannsókn á tækinu sem full þörf var á sérstaklega þegar vitneskja var um að óhöpp hefðu orðið áður við notkun þess. Með slíkri rannsókn hefði mátt leiða í ljós hvort búnaður tækisins hefði verið farinn að gefa sig. Þess í stað lét forstöðumaður líkamsræktarstöðvarinnar gera tilgreindar úrbætur á tækinu en eftir þær var aðaláfrýjanda ókleift að sýna fram á að tækið hefði verið vanbúið er hann varð fyrir slysinu. Er því óhjákvæmilegt að gagnáfrýjendur beri hallann af því að ekki hafi verið gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyss aðaláfrýjanda og breytir hin takmarkaða skoðun Vinnueftirlitsins engu í því efni. Verður því að leggja til grundvallar að gagnáfrýjandi Fljótsdalshérað hafi ekki gripið til fullnægjandi ráðstafana til að tryggja öryggi þeirra sem sóttu líkamsræktarstöðina. Ber hann því ábyrgð á tjóni sem rakið verður til þeirrar vanrækslu. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa aðaláfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnáfrýjenda.

Í málinu liggja fyrir gögn um að atvikið var tekið upp á myndband. Bar fyrrnefndur forstöðumaður fyrir dómi að hann hefði skoðað upptökuna daginn eftir slysið en gögnum þessum síðan verið eytt. Ekki er útilokað að myndbandið hefði getað upplýst um það hvernig aðaláfrýjandi bar sig að við að stilla tækið fyrir notkun. Eru engin haldbær gögn í málinu sem styðja það að aðaláfrýjandi hafi farið rangt að við notkun tækisins og eru því ekki efni til að fella sök á slysinu á hann.

Eftir framangreindum úrslitum verður gagnáfrýjendum sameiginlega gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennt er að gagnáfrýjendur, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Fljótsdalshérað, beri óskipta skaðabótaábyrgð gagnvart aðaláfrýjanda, A, vegna þess tjóns sem hann varð fyrir í slysi 19. ágúst 2010.

Gagnáfrýjendur greiði aðaláfrýjanda óskipt 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 27. október 2014.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 29. september 2014, höfðaði stefnandi, A, […], hinn 4. nóvember 2013 gegn stefndu, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og  Fljótsdalshéraði, Lyngási 12, Egilsstöðum.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir í slysi hinn 19. ágúst 2010. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar. Til vara er þess krafist að stefndu verði aðeins dæmdir skaðabótaskyldir að hluta vegna atviksins þann 19. ágúst 2010 og að málskostnaður verði látinn niður falla.

                Málið var fyrst tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 27. maí 2014, en ekki tókst að leggja dóm á málið innan lögbundins frests og var málið því endurflutt 29. september sl., í samræmi við ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við aðalmeðferð málsins gengu dómari og lögmenn aðila, ásamt stefnanda, á vettvang í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum.

I

                Málsatvik eru að mestu óumdeild. Stefnandi varð þann 19. ágúst 2010 fyrir slysi í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum, sem rekin er af hinu stefnda sveitarfélagi, Fljótsdalshéraði. Var stefnandi þar við æfingar í fjölnota líkamsræktartæki (e. „Multi jungle“), svokallaðri togvél.

                Sá hluti tækisins sem stefnandi var að nota er á einni af fjórum hliðum tækisins. Er þessi hluti tækisins þannig uppbyggður, samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins og því sem ljóst varð við vettvangsgöngu, að á neðri hluta tækisins er stálvír þræddur í gegnum lóðabunka, þar sem velja má þyngd lóða með því að færa til pinna. Þaðan liggur vírinn upp í gálga og þaðan í gegnum trissuhjól, sem fest er utan á sleða.

                Sleðinn er festur utan á ríflega mannhæðarháa stoð. Notendur geta breytt hæð sleðans og þar með trissunnar, með því að renna sleðanum upp eða niður stoðina, en á henni eru göt með jöfnu millibili. Til að færa sleðann til á stoðinni þarf að draga út pinna á sleðanum og festa hann síðan aftur við stoðina með því að sleppa pinnanum þannig að hann smelli inn í gat í þeirri hæð sem óskað er. Inni í sleðanum mun vera gormur sem þrýstir pinnanum að stoðinni, en ekki liggja fyrir nákvæmari upplýsingar um þann búnað.

                Á hinum enda vírsins er opnanleg stállykkja sem á má festa handfang sem notandinn togar í. Eftir því sem fram kom við vettvangsgöngu virðist notendum standa til boða val um fleiri en eina gerð handfanga.

                Í stefnu greinir að stefnandi hafi umrætt sinn þurft að stilla sleðann með trissuhjólinu í rétta hæð. Til þess hafi hann gripið í sleðann og togað út þrýstipinnann á sleðanum til þess að losa hann frá stoðinni. Því næst hafi hann rennt sleðanum upp stoðina í hæstu stöðu, í rúmlega tveggja metra hæð, og sleppt pinnanum til þess að hann félli inn í efsta gat stoðarinnar. Að því búnu hafi hann tekið í pinnann til að fullvissa sig um að hann hefði smollið tryggilega inn í gat á stoðinni. Þetta hafi átt að nægja til að halda sleðanum uppi en hönnun tækisins geri ráð fyrir þessum hæðarstillingum fyrir mismunandi æfingar sem tækið bjóði upp á. Eftir það hafi hann snúið sér að tækinu og byrjað æfinguna.

                Æfingin sé framkvæmd þannig að handfangið, sem tengt er í vírinn sem leikur um trissuna á sleðanum, sé togað niður. Sé æfingunni ætlað að styrkja þríhöfðavöðva í upphandlegg. Eftir að stefnandi hafi umrætt sinn endurtekið æfinguna a.m.k. sex sinnum hafi pinninn skyndilega losnað úr gatinu á stoðinni. Við það hafi sleðinn fallið niður stoðina. Á sama tíma hafi líkamsstaða stefnanda breyst á þann hátt að efri hluti líkama hans hafi slengst fram. Í kjölfarið hafi hlífin utan um trissuhjólið fallið á höfuð stefnanda. Áréttar stefnandi að það hafi verið hlífin utan um trissuhjólið sem rekist hafi í höfuð hans en ekki sá hluti sleðans sem haldið hafi þrýstipinnanum föstum. Við höggið hafi stefnandi fengið skurð ofanvert á hvirfil. Hann hafi vankast en ekki misst meðvitund. Eiginkona stefnanda og vitnið D hafi verið staddar í líkamsræktarsalnum er slysið átti sér stað, en þó ekki séð það gerast. Stefnandi hafi leitað samdægurs á Heilbrigðisstofnunina Egilsstöðum þar sem 6 sm langur skurður í miðlínu frá hvirfli fram undir hárlínu á enni hans hafi verið saumaður saman.

                Í stefnu greinir að frá slysdegi hafi stefnandi haft margvísleg líkamleg einkenni sem hann reki til slyssins. Stefnandi og hið stefnda vátryggingarfélag hafi sameiginlega óskað eftir því að E bæklunarlæknir legði mat á afleiðingar slyssins. Með matsgerð, dags. 4. maí 2013, hafi læknirinn komist að þeirri niðurstöðu að í slysinu hefði stefnandi fengið högg á lengdarstefnu hálshryggjar sem hefði einnig kýlt hálshrygg saman í mikla beygju. Þetta ylli óþægindum frá hálshrygg og taugabreytingum samsvarandi þrýstingi á sjöundu og sjöttu hálstaug. Matsmaður hafi talið stöðugleikapunkt vera 15. mars 2012 og að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda væri 12%.

                Á slysdegi hafi stefndi Fljótsdalshérað verið með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Vátryggingarfélagið hafi verið krafið viðurkenningar á greiðsluskyldu sinni með bréfi, dags. 24. nóvember 2011. Þeirri kröfu hafi verið hafnað með tölvupósti, dags. 25. janúar 2012, með þeim rökum að slysið mætti ekki rekja til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka. Stefnandi hafi kært afstöðu vátryggingarfélagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, sem með áliti 2. ágúst 2012 í máli nr. 226/2012 hafi komist að þeirri niðurstöðu að bótaskylda væri ekki fyrir hendi úr tryggingunni þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að slysið mætti rekja til vanbúnaðar eða vanrækslu starfsmanna vátryggingartaka eða aðstæðna sem hann hafi borið ábyrgð á.

                Stefnandi kveðst telja þessa niðurstöðu ranga og sé honum, til þess að fá tjón sitt bætt, því nauðugur sá kostur að höfða dómsmál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda Fljótsdalshéraðs og þar með stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. 

II

                Stefnandi kveðst reisa málssókn sína á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og á reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð rekstraraðila og eigenda fasteigna vegna tjóns sem hljótist af ástandi og búnaði þeirra. Á fasteignareiganda hvíli rík aðgæsluskylda til þess að rækja viðhald og umhirðu með eign sinni og öllu sem á henni sé, þ.m.t. tækjum sem notuð séu undir reksturinn, til að koma í veg fyrir að þeir sem eigi erindi á fasteignina, og jafnvel þeir sem eigi leið hjá, verði fyrir tjóni. Um rekstraraðila gildi sömu reglur, en líkamsræktarstöðin taki gjald fyrir aðgang af viðskiptavinum sínum sem greiði fyrir afnot af tækjum í tækjasal stöðvarinnar. Sé því eðlilegt að gerðar séu ríkar kröfur til slíkra rekstraraðila um að viðhafa ráðstafanir til að hindra að viðskiptavinir slasi sig í tækjum og hljóti tjón af. Þá reisi stefnandi málatilbúnað sinn á ákvæðum reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, ákvæðum þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola.

                Í málavaxtalýsingu stefnu hafi verið gerð grein fyrir virkni æfingatækisins sem um ræðir. Í fyrsta lagi sé á því byggt að orsök slyssins sé að rekja til þess að umræddur þrýstipinni sem festi sleðann með trissuhjólinu á lóðréttu stoðina hafi losnað frá stoðinni með þeim afleiðingum að sleðinn hafi hrapað niður og trissan lent á höfði stefnanda. Stefnandi byggi á því að þrýstipinninn hafi ekki verið í fullnægjandi ástandi og af þeim sökum hafi hann gefið eftir. Pinninn hafi með öðrum orðum ekki verið nægilega vel búinn til að halda sleðanum uppi. Heilsa og öryggi stefnanda hafi af þeim sökum ekki verið tryggð og á því beri hið stefnda sveitarfélag, sem rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar, ábyrgð, sbr. 1. og 3. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í hverju bilunin fólst nákvæmlega sé ekki vitað en stefnandi telji tvær skýringar koma til greina. Önnur skýringin kunni að vera sú að fremsti hluti þrýstipinnans hafi verið svo slitinn að hann hafi runnið úr lóðréttu stoðinni sem hann hafi átt að skjótast inn í. Hin skýringin geti verið sú að innbyggður gormur, sem þrýsti pinnanum í átt að götum stoðarinnar, hafi verið slitinn svo að hann hafi ekki lengur haldið við pinnann. Allt að einu hafi tækið verið vanbúið og beri rekstraraðili líkamsræktarstöðvarinnar ábyrgð á því. Aðrar skýringar en þessar tvær komi ekki til greina og beri stefndu að sýna fram á hið gagnstæða, sbr. síðari umfjöllun.

                Í annan stað sé á því byggt að stefnandi hafi mátt treysta því að sleðinn læstist þegar pinnanum væri sleppt í gat lóðréttu stoðarinnar enda sé tækið hannað þannig. Notendur eigi ekki að þurfa að vænta þess að reka þurfi pinnann með sérstökum hætti í gatið eða „taka þurfi sérstaklega á honum“, til þess að vera fullvissir um að hann hrökkvi á réttan stað. Hafi sú verið reyndin, þ.e. að sérstakra aðgerða hafi verið þörf af hálfu notandans til að festa pinnann í lóðréttu stoðinni, verði að líta svo á að rekstraraðilanum hafi borið að veita leiðbeiningar þess efnis með hvers kyns hætti, s.s. að setja upp öryggis- eða varúðarmerkingar. Í því sambandi verði að líta til þess að á slysdegi hafi engin viðvörun verið á tækinu þess efnis að ýta þyrfti pinnanum með sérstökum hætti í gatið. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að fjórða óhappið í tengslum við tækið varð, sbr. síðari umfjöllun, að miði hafi verið hengdur á það sem á hafi staðið „Varúð!!! Passið að pinninn sé allur inni“. Þá fyrst hafi stefnda Fljótsdalshérað uppfyllt hina ríku varúðarskyldu sem hvíli á því sem rekstraraðila íþróttamiðstöðvarinnar, að greina frá hættueiginleika tækisins. Bendi það óhjákvæmilega til þess að hætta hafi stafað af tækinu, enda hafi slík merking að öðrum kosti ekki verið nauðsynleg.

                Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 941/2002 skuli rekstri heilsuræktarstöðvar vera háttað á þann veg að heilsa og öryggi þeirra sem þangað komi sé sem best tryggð. Í þriðju málsgrein sama ákvæðis sé m.a. kveðið á um að rekstraraðili beri ábyrgð á að tæki og búnaður til íþróttaiðkana sé samkvæmt viðurkenndum öryggiskröfum og að skrá skuli óhöpp, slys og úrbætur. Þá greini svo frá í 2. mgr. 70. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að við frágang leiktækja og annars búnaðar skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt. Stefnandi telji að stefndi Fljótsdalshérað hafi sem rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum brotið framangreind ákvæði með því að gæta þess ekki að búnaður sem stóð gestum stöðvarinnar til boða væri í eðlilegu og tryggu ástandi. Vegna þessa hafi öryggi gesta stöðvarinnar, þ. á m. stefnanda, ekki verið gætt nægilega vel.

                Að framangreindu virtu telji stefnandi leitt í ljós að hin saknæma háttsemi stefnda Fljótsdalshéraðs hafi einkum falist í eftirtöldu: Annars vegar því að stefndi sem rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum hafi boðið viðskiptavinum að nota vanbúið tæki sem leitt hafi til slyss stefnanda. Hins vegar felist gáleysið í því að hafa ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi viðskiptavina með því að leiðbeina eða setja upp viðvaranir þess efnis að ýta þyrfti pinnanum með sérstökum hætti í gat lóðréttu stoðarinnar. Hvort atriðið eitt og sér leiði til skaðabótaábyrgðar stefndu og enn fremur þegar þau komi saman.

                Til sönnunar um að fyrrnefnt tæki hafi verið bilað kveðst stefnandi vísa til þess að annar maður, F, hafi slasast í tækinu með nákvæmlega sama hætti og stefnandi í október 2010, eða tæplega tveimur mánuðum eftir slys stefnanda. F fullyrði að pinninn hafi ekki virkað sem skyldi og sleðinn losnað þess vegna. Hafi hann látið G, forstöðumann íþróttamiðstöðvarinnar, vita af óhappinu. Tveir aðrir notendur tækisins, C og B, hafi lent í sömu vandræðum með tækið en sloppið naumlega frá því að fá sleðann í höfuðið. Atvikið hafi hent C í byrjun ágúst 2010 og hafi hún tilkynnt G um það nokkrum dögum síðar. Atvik B hafi gerst um svipað leyti en hann starfi sem einkaþjálfari í íþróttamiðstöðinni og segist hafa látið yfirmenn sína vita af óhappinu. Framburður C, B og F staðfesti að tækið hafi ekki virkað sem skyldi.

                Með vísan til framangreinds telji stefnandi leitt í ljós að niðurtogvélin sem hann slasaðist í hafi verið biluð og þar með ekki uppfyllt tilskildar öryggiskröfur. Stefnda Fljótsdalshérað reki íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum og beri því ábyrgð á hættueiginleikum æfingatækja í fasteign sem notuð sé undir reksturinn samkvæmt reglunni um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda [sic]. Fyrirsvarsmönnum sveitarfélagsins hafi borið að tryggja að búnaður líkamsræktarstöðvarinnar væri með þeim hætti að þeim sem þangað ættu erindi stafaði ekki hætta af venjulegri og eðlilegri notkun tækjanna. Sú ríka skylda hafi verið vanrækt með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut skaða af.

                Hvað sönnun um atvik að baki tjóni varði byggi stefnandi á því að við sönnunarmat á því hvort umrætt líkamsræktartæki hafi verið í fullnægjandi ástandi skuli líta til þess að eftir slys stefnanda og F hafi verið gert við tækið og pinnanum breytt svo unnt væri að stinga honum lengra inn í gat stoðarinnar og festa þannig sleðann tryggilega. Síðan þá hafi engin slys orðið á fólki af völdum æfingatækisins. Að forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar hafi séð ástæðu til að láta gera við tækið taki af allan vafa um það að tækið hafi ekki virkað sem skyldi á slysdegi. Rekstraraðilinn hafi ekki hlutast til um að framkvæmd yrði fagleg og óháð rannsókn á virkni togvélarinnar, t.d. af Heilbrigðiseftirliti Austurlands, til að ganga úr skugga um hvort hún væri biluð. Það hafi staðið rekstraraðilanum næst að láta framkvæma slíka hlutlausa og faglega rannsókn. Þvert á móti hafi tækinu verið breytt og sé nú engin leið að skera úr með nokkurri vissu um ástand togvélarinnar á slysdegi. Stefndu verði að bera hallann af sönnun um ástand æfingatækisins á slysdegi þar sem rekstraraðilinn hafi látið farast fyrir að láta framkvæma téða rannsókn, heldur lagfært tækið.

                Til viðbótar framangreindu kveðst stefnandi vísa til þess að stefnda Fljótsdalshérað hafi átt myndbandsupptöku af slysinu. Eftirlitsmyndavél hafi verið staðsett beint fyrir framan niðurtogsvélina sem stefnandi slasaðist í og hafi hún verið í gangi þegar slysið varð. Því til staðfestingar skuli bent á að fram komi í læknisvottorði H, læknis á Heilbrigðisstofnuninni Egilsstöðum, dags. 27. ágúst 2010, að hún hafi skoðað myndbandið og að á því sjáist að stefnandi hafi fengið mikinn hnykk á hálsinn og að hann „steinlá“ á gólfinu í nokkrar sekúndur eftir á. Stefnandi hafi óskað eftir því við forstöðumann íþróttamiðstöðvarinnar að fá upptökuna afhenta en hann hafi ekki orðið við beiðninni þar sem upptakan sé ekki lengur til að hans sögn.

                Stefnandi kveður kröfu sína um málskostnað byggjast á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing sé vísað til 33. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og um aðild til 16. og 17. gr. sömu laga. Um heimild til að leita viðurkenningardóms vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína, enda sé ljóst að hann hafi orðið fyrir umtalsverðum líkamlegum skaða vegna slyssins.

III

                Stefndu kveða aðalkröfu sína um sýknu byggjast á því að ósannað sé að tjón stefnanda sé að rekja til atvika eða aðstæðna sem stefndi Fljótsdalshérað beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefnandi, sem beri alfarið sönnunarbyrði um orsök tjóns síns, hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða. Sé því mótmælt að nokkuð hafi verið athugavert við æfingatækið eða búnað þess. Þvert á móti hafi það hvorki verið vanbúið né slitið. Einnig sé því mótmælt að tjón stefnanda sé með nokkrum hætti að rekja til sakar starfsmanna stefnda Fljótsdalshéraðs. Þá sé því aukinheldur mótmælt að stefndi Fljótsdalshérað geti borið ábyrgð á tjóni stefnanda sem eigandi fasteignarinnar. Ekki verði lögð skaðabótaábyrgð á fasteignareigenda vegna lausra tækja sem kunni að vera staðsett í fasteign þeirra. Sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sem og gegn byggingarreglugerð nr. 441/1998.

                Stefndu byggi á því að ekkert hafi verið athugavert við umrætt æfingatæki eða búnað þess. Tækið hafi verið tekið nýtt í notkun í janúar 2005 og flutt inn af World Class í Reykjavík. Byggt sé á því að umræddur pinni hafi verið í fullkomnu lagi og að af honum hafi ekki stafað nokkur hætta hefði tilhlýðileg aðgæsla verið sýnd. Hafi hvorki pinninn né gormurinn sem við hann var verið slitinn. Sé pinninn tryggilega settur í gat á stoðinni geti hann ekki losnað án þess að hann sé togaður út. Pinninn hefði því ekki losnað við notkun tækisins ef réttilega hefði verið frá honum gengið. Sé pinninn hins vegar illa festur sé möguleiki á að hann renni út við endurtekin tog í tækinu. Endi pinnans sem fari inn í gatið sé rúnnaður/ávalur og ef hann lendi yst í gatinu sé möguleiki á því að pinninn færist úr gatinu við endurtekið átak. Á grundvelli þessa sé því mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi sérstaklega gætt að því að pinninn hafi örugglega smollið tryggilega inn í gatið á stoðinni. Hefði stefnandi gert það hefði pinninn ekki losnað.

                Er G, umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar, hafi frétt af atvikinu degi síðar hafi hann farið yfir tækið og búnað þess. Hafi tækið þá verið í fullkomnu lagi. Jafnframt hafi hann fengið Vinnueftirlitið til að gera úttekt á tækinu. Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert við búnað tækisins en hins vegar bent á að bæta skyldi við merkingu vegna hættu á að stillipinni sé ekki alveg inni. Þess skuli einnig getið að umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar fari reglulega yfir æfingatæki, bregðist hratt við séu þau biluð og taki þau úr umferð.

                Stefndu mótmæli því harðlega með vísan til alls framangreinds að æfingatækið hafi verið vanbúið á nokkurn hátt.

                Stefndu telji ljóst vera að slys stefnanda hafi fyrst og fremst verið að rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs við að festa sleðann á stoðina. Stefnandi sé lærður […] og muni hafa starfað sem slíkur. Þá hafi hann verið í hlutastarfi í nokkur ár hjá stefnda við að kenna fólki á tækin í þreksalnum, þar á meðal á æfingatækið sem hann slasaðist við. Einnig hafi hann tekið þátt í að velja tækin í þreksalinn er þau voru keypt. Hann hafi því gjörþekkt tækið og allar aðstæður. Í ljósi þekkingar hans og reynslu sé ljóst að atvikið sé einungis að rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs. Þá skuli tekið fram að æfing sú sem stefnandi hafi verið að gera í umrætt sinn sé hvergi á plani líkamsræktarstöðvarinnar né sé hún sýnd á tækinu. Hafi hann því verið að gera æfinguna alfarið á eigin ábyrgð.

                Stefnanda hafi borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu og ganga úr skugga um það að pinninn sæti fastur og héldi þannig sleðanum á réttum stað. Hann hafi verið þaulvanur að umgangast æfingatækin og vitað eða mátt vita að gæta þyrfti að því að pinninn sæti fastur. Hverjum manni sem eitthvað hafi notað slík æfingatæki megi vera þetta ljóst, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki lærður […] eða hafi unnið við að kenna fólki á slík tæki.

                Verði ekki fallist á að atvikið sé eingöngu að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs sé á því byggt að um hreint óhappatilvik sé að ræða.

                Stefndu mótmæli sem röngum þeim framburði, sem stefnandi vísi til, til staðfestingar á að pinninn hafi ekki virkað sem skyldi.

                Þótt pinnanum hafi verið breytt eftir umrætt atvik felist ekki í því nokkur viðurkenning á að hann hafi verið vanbúinn. Umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar hafi óskaði eftir því við fagmann á viðurkenndu verkstæði á Egilsstöðum að metið yrði hvort einhver aðgerð á tækinu gæti minnkað möguleika á mistökum notenda. Niðurstaðan hafi orðið sú að rennt hafi verið aðeins upp á pinnann til þess að freista þess að láta hann ganga lengra inn. Þó svo að það hafi verið gert sé sá möguleiki fyrir hendi að óhapp verði ef notendur beri sig rangt að. Um hafi verið að ræða tilraun til að athuga hvort pinninn festist betur en ekki um að ræða að laga bilun eða galla. Þá verði það ekki metið sem sönnun á sök þótt viðbótaraðvörun hafi verið sett á tækið eftir atvikið. Viðvaranir hafi verið fullnægjandi fyrir. Þótt ekki hafi verið sérstök viðvörun vegna pinnans sem slíks á tækinu í ágúst 2010 þá hafi á sleðanum við pinnann verið viðvörun vegna hreyfanlegra [parta].

                Sé því alfarið mótmælt að atvik þessa máls séu með þeim hætti að dregið skuli úr sönnunarbyrði sem hvíli á tjónþola. Umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar hafi hlutast til um að Vinnueftirlitið skoðaði æfingatækið strax og hann frétti af atvikinu. Séu því engin atvik uppi í máli þessu sem valdið geti því að stefnandi beri ekki alfarið sönnunarbyrði um orsök tjóns síns.

                Stefndu telji af framangreindu fullljóst að stefndi Fljótsdalshérað hafi hvorki boðið viðskiptavinum að nota vanbúið tæki né hafi stefndi ekki gætt að því að tryggja öryggi þeirra á nægjanlegan hátt.

                Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu sé varakrafa á því byggð að tjónið sé að stærstum hluta að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Stefnandi hafi mátt vita í ljósi reynslu sinnar og þekkingar að hann þyrfti að sýna tilhlýðilega aðgæslu og gæta að því að pinninn sæti fastur. Það hafi hann augljóslega ekki gert og því beri hann sjálfur ábyrgð á tjóni sínu að mestu leyti. Nánar um rökstuðning fyrir eigin sök stefnanda vísast til rökstuðnings fyrir varakröfu [sic] eftir því sem við eigi.

                Um lagarök kveðast stefndu einkum vísa til almennra reglna skaðabótaréttar um sök, eigin sök, orsök, orsakartengsl og sönnunarbyrði tjónþola. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni C, D, F, B, I, G og J.

                Stefnandi kvaðst fyrir dómi hafa stillt sleðann á líkamsræktartækinu í hæstu stöðu, horft eftir því hvort stillipinninn væri í réttri stöðu og slegið í pinnann, áður en hann hóf að framkvæma þríhöfða niðurtogsæfingar með talsverðri þyngd á í lóðum. Hafi hann verið búinn að endurtaka æfinguna 5 til 7 sinnum áður en sleðinn rann skyndilega niður stoðina, með þeim afleiðingum að trissuhjólið slóst í höfuð hans. Ekkert hafi verið sjáanlega athugavert við tækið og hafi hann margoft áður notað það til slíkra æfinga án vandkvæða. Fram kom að stefnandi sé menntaður […] og hafi starfað við að leiðbeina fólki í líkamsræktarsalnum.

                Vitnin C, B og F kváðust öll fyrir dómi hafa lent í því á árinu 2010, B á vormánuðum, C í byrjun ágústmánaðar og F í október, að sleðinn losnaði fyrirvaralaust og rann niður stoðina meðan þau voru við æfingar í sama líkamsræktartæki. Kváðust B og C hafa sloppið við meiðsl en F kvaðst hafa orðið fyrir meiðslum. Í framburði B, sem kvaðst lærður einkaþjálfari og hafa verið starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar á umræddum tíma, kom fram að hann hafi umrætt sinn tekið þríhöfða niðurtog með töluverða þyngd á tækinu. Hann hafi séð það eftir á að pinninn gekk ekki alla leið inn í sleðann og hljóti það að vera skýringin á því að sleðinn hrapaði niður stoðina í hans tilviki. Kvaðst hann telja að pinninn ætti að ganga sjálfkrafa alla leið inn þegar hann hitti á gat á stoðinni og telja tækið hættulegt af þeim sökum að það gerist ekki alltaf sjálfkrafa. Kvaðst C telja sömu skýringu líklegasta í hennar tilviki. F kvaðst ekki telja sig hafa gert neitt rangt við notkun tækisins og hafa verið vanur því að huga vel að því að pinninn gengi alla leið inn í sleðann.

                G, forstöðumaður íþróttamannvirkja á Fljótsdalshéraði, kvað líkamsræktartækið þannig úr garði gert að ekki sé 100% öruggt að þrýstipinninn renni alla leið á réttan stað, inn í gat á stoðinni, þegar sleðinn er færður upp eða niður stoðina, heldur verði notandinn að tryggja að svo sé með því að horfa á pinnann og eftir atvikum hreyfa við pinnanum til að hann smelli alla leið inn í gatið. Komi tækið merkt frá framleiðanda með viðvörun á ensku („Keep clear of moving parts“). Kvaðst vitnið hafa vitað að sleðinn gæti losnað á stoðinni ef pinninn væri ekki á réttum stað og nefndi í því sambandi að slíkt hafi áður gerst á öðru tæki í líkamsræktarsalnum sem sé „eins byggt upp“.

                Áður en slys stefnanda bar að höndum hafi vitninu tvívegis verið tilkynnt um atvik þar sem legið hafi við slysi í því líkamsræktartæki sem hér um ræðir vegna þess að sleðinn rann skyndilega niður stoðina. Tilkynnendur hafi verið B, þáverandi starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar, og C. Kvaðst vitnið, í kjölfar beggja þessara tilkynninga, hafa skoðað tækið ítarlega en ekki séð að neitt væri athugavert við það. Hafi vitnið dregið þá ályktun að tilkynnendur hefðu ekki gætt þess nægilega að pinninn gengi til fulls inn í sleðann og þar með inn í stoðina. Nokkru eftir slys stefnanda hafi annar maður, F, orðið fyrir slysi í sama tæki. Kvaðst vitnið þá hafa flutt sleðann ásamt hinu áfasta trissuhjóli á verkstæði á Egilsstöðum. Þar hafi maður, sem vitnið nafngreindi, opnað sleðann og „rennt“ lítillega „upp á“ þrýstipinnann. Kvaðst vitnið ekki hafa verið viðstatt er þetta var gert, en skýrði þetta nánar svo að hinn ávali hluti pinnans hafi verið lengdur upp á pinnann, án þess þó að pinninn sjálfur hafi verið lengdur. Þetta hafi verið tilraun sem gerð hafi verið í þeirri von að pinninn gengi auðveldlegar inn í göt á stoðinni. Eftir sem áður sé mögulegt að pinninn gangi ekki alla leið inn í götin og þurfi notandinn því enn sem fyrr að gæta vel að því þegar sleðinn sé færður til á stoðinni.  

                 J, svæðisstjóri Vinnueftirlitsins á Austurlandi, staðfesti fyrir dómi skýrslu sína sem liggur fyrir í málinu, dags. 20. ágúst 2010, sem ber yfirskriftina „takmörkuð úttekt“. Kvaðst hann hafa skoðað umrætt líkamsræktartæki eftir að G hafði tilkynnt honum um óhapp við notkun tækisins sama dag eða degi fyrr. Hann hafi skoðað og prófað tækið og hafi sú athugun tekið um 10 til 15 mínútur. Ekki hafi verið skoðað inn í sleðann. Líklegast hafi þótt að óhappið hafi orðið vegna þess að pinninn hafi ekki gengið alla leið inn í sleðann. Í framburði J kom fram að strangt til tekið heyri það ekki undir Vinnueftirlitið að rannsaka vettvang nema þegar um slys á starfsfólki vinnustaðar sé að ræða. Því hafi einungis verið gerð skýrsla um „takmarkaða úttekt“. Aðspurður sagði J þó að skoðun hans og prófun á tækinu hefði ekki orðið með öðrum hætti þótt um tilkynningarskylt vinnuslys hefði verið að ræða.

                I, formaður menningar- og íþróttanefndar Fljótsdalshéraðs, staðfesti samantekt sína sem liggur fyrir í málinu, dags. 30. desember 2012. Kvaðst hann að eigin frumkvæði hafa skoðað umrætt líkamsræktartæki síðari hluta desembermánaðar 2012. Fram kom að vitnið sé bifvélavirki og starfi jafnframt sem eftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu, en hafi ekki framkvæmt athugun á tækinu sem slíkur. Kvaðst hann hafa skoðað og prófað tækið, en ekki hafa opnað sleðann og skoðað inn í hann. Tækið hafi virkað fullkomlega, en hægt hafi verið að færa trissuna upp og niður stoðina án þess að pinninn læstist 100% sjálfkrafa..

V

                Í máli þessu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann varð fyrir í slysi 19. ágúst 2010 í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum. Er ekki um það deilt að stefnandi varð fyrir líkamstjóni við slysið og liggur fyrir um það matsgerð bæklunarlæknis. Hefur stefnandi lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning staðfesti lögmaður stefndu að ekki sé um það deilt að stefndi Fljótsdalshérað geti sem rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar borið skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda, teljist sök sönnuð. Þá er ekki ágreiningur um aðild stefnda Sjóvár-Almennra trygginga ehf., sem reist er á 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

                Óumdeilt er að slys stefnanda átti sér stað með þeim hætti að sleði með áföstu trissuhjóli, sem færa má til eftir lóðréttri stoð, losnaði og rann niður stoðina, með þeim afleiðingum að trissuhjólið slóst í höfuð stefnanda. Deilt er  um orsök þess að sleðinn losnaði. Fullyrðir stefnandi að hann hafi hugað sérstaklega að því að þrýstipinni sem festir sleðann við stoðina gengi alla leið inn í sleðann og byggir hann aðallega á því að slysið sé að rekja til bilunar eða vanbúnaðar í líkamsræktartækinu, eins og nánar er fjallað um í kafla um málsástæður stefnanda.

                Stefndu byggja aftur á móti á því að ósannað sé að tækið hafi verið bilað eða það vanbúið, en fyrir því beri stefnandi sönnunarbyrði. Pinninn hefði ekki getað losnað hefði þess verið gætt að hann gengi alla leið inn í sleðann eftir að hann var færður til á stoðinni. Sé orsök slyssins því fyrst og fremst að rekja til óaðgætni stefnanda sjálfs.

                Um rekstur heilsuræktar- og íþróttastöðva og íþróttahúsa gildir XIII. kafli reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, með síðari breytingum, sem sett er á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sá kafli reglugerðarinnar inniheldur aðeins eina grein, 54. gr., en þar er í 1. mgr. að finna svohljóðandi vísireglu:

                „Rekstri starfseminnar skal háttað á þann veg að heilsa og öryggi þeirra sem þangað koma sé sem best tryggð.“

                Í 3. mgr. greinarinnar segir síðan:

                „Rekstraraðili ber ábyrgð á að tæki og búnaður til íþróttaiðkana sé samkvæmt viðurkenndum öryggiskröfum. Fara skal eftir ÍST EN-stöðlum. [...] Skrá skal óhöpp, slys og úrbætur.“

                Við munnlegan málflutning staðfesti lögmaður stefnanda að ekki sé á því byggt að hönnun tækisins sé áfátt eða að það uppfylli ekki viðurkenndar öryggiskröfur.

                Af hálfu stefnanda er jafnframt vísað til 2. mgr. 70. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem kveðið er á um að við „frágang leiktækja og annars búnaðar“ skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt. Sú grein ber yfirskriftina „Opin leik- og íþróttasvæði“ og er að finna í 3. kafla reglugerðarinnar um „lóðir“. Á hún því samkvæmt orðanna hljóðan ekki við um líkamsræktartæki inni í líkamsræktarsölum íþróttahúsa og verður ekki til hennar litið.

                Í málinu liggja engin gögn fyrir um skoðun á pinnanum og umbúnaði hans inni í sleðanum sem féll niður stoðina umrætt sinn. Liggur því ekki fyrir sönnun þess að líkamsræktartækið hafi verið bilað eða vanbúið, eins og stefnandi heldur fram.

                Að meginstefnu hvílir það á tjónþola að færa fram sönnun fyrir orsök tjóns síns. Byggir stefnandi hins vegar á því að stefndu verði að bera hallann af skorti á sönnun um ástand tækisins eins og atvikum máls þessa sé háttað. Bendir stefnandi þar einkum á að starfsmaður stefnda Fljótsdalshéraðs hafi í kjölfar slyss stefnanda fært tækið á verkstæði og látið gera við það, án þess að tryggja sönnun um ástand þess við slysið. Vísar stefnandi auk þess til framburðar þriggja vitna, þeirra B, C og F, til stuðnings því að tækinu hafi verið áfátt.

                Eins og að framan hefur verið rakið er ekki um það að ræða að vitnin B og C fullyrði að þau hafi gætt þess að þrýstipinninn gengi alla leið inn í stoðina þegar þeirra atvik áttu sér stað við notkun sama tækis. Þvert á móti töldu þessi vitni líklegast sleðinn hafi runnið niður stoðina þar sem pinninn hafi ekki gengið alla leið inn í sleðann, og kvaðst B hafa orðið þess áskynja eftir á. Vitnið F fullyrti ekki beinlínis að hafa gætt þess umrætt sinn að pinninn gengi alla leið inn í sleðann, þótt hann segðist hafa tamið sér að huga vel að því. Framburður þessara vitna styður því ekki sérstaklega staðhæfingu stefnanda um að tækið hafi verið bilað eða vanbúið er slys hans átti sér stað 19. ágúst sama 2010. Að auki er til þess að líta að þegar F varð fyrir slysi í október 2010 var liðið á annan mánuð frá því að slys stefnanda átti sér stað. Liggur ekki annað fyrir en að tækið hafi á því tímabili verið í notkun í líkamsræktarsalnum, án þess að borið hafi á vandkvæðum. Er þetta heldur ekki til þess fallið að styðja staðhæfingu stefnanda.

                Fyrir liggur að starfsmaður stefnda Fljótsdalshéraðs hlutaðist til um að eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins væri kallaður til þegar í stað eftir slys stefnanda. Verður það ekki talið skipta máli þótt strangt til tekið hafi ekki hvílt skylda á Vinnueftirlitinu að rannsaka málið, enda eru rannsóknir af þessu tagi í verkahring Vinnueftirlitsins þegar um slys á starfsfólki er að ræða. Staðfesti J, eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins, fyrir dómi skýrslu sína, dags. 20. ágúst 2010, svokallaða „takmarkaða úttekt“, þar sem orsök slyssins er talin sú að „festipinni virðist ekki hafa verið settur alveg inn“. Í skýrslunni kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við tækið en sú ábending sett fram að bæta skuli við merkingu á togvélinni vegna hættu á að stillipinni sé ekki alveg inni. Staðfesti J fyrir dómi, eins og fyrr var rakið, að athugun hans hafi ekki leitt í ljós að um bilun hafi verið að ræða, heldur að tækið væri þannig úr garði gert að ganga þyrfti vel úr skugga um að þrýstipinni smelli alla leið inn í sleðann.

                Skýrsla I, formanns menningar- og íþróttanefndar Fljótsdalshéraðs, styður efnislega framangreinda niðurstöðu Vinnueftirlitsins, en athugun hans fór ekki fram fyrr en ríflega tveimur árum eftir slys stefnanda og hefur samantekt hans ekki sérstaka þýðingu við úrlausn máls þessa.

                 Við vettvangsgöngu staðreyndu dómari og lögmenn aðila að við færslu sleðans eftir stoðinni kemur það fyrir að pinninn smelli ekki sjálfkrafa alla leið inn í sleðann og sést þá svolítið bil á milli sleðans og svarts plasttappa sem hylur þann hluta pinnans sem stendur út úr sleðanum. Þarf þá að ýta aðeins við sleðanum eða pinnanum til að bilið lokist og pinninn gangi lengra inn í sleðann og þar með inn í gat á stoðinni.

                Til þess að renna stoðum undir fullyrðingu um bilun eða vanbúnað tækisins átti stefnandi þess kost að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en neytti ekki þess úrræðis. Ekki er útilokað að slíkt mat hefði getað þjónað tilgangi, þrátt fyrir að upplýst sé að átt hafi verið við þrýstipinnann á verkstæði síðla árs 2010. Stefnandi átti þess jafnframt kost að afla upplýsinga um og leiða sem vitni þann sem annaðist þá framkvæmd. 

                 Engin vitni voru að því er stefnandi færði sleðann til á stoðinni umrætt sinn. Ólíklegt þykir að upptaka úr eftirlitsmyndavél í líkamsræktarsalnum hefði getað upplýst nokkuð í málinu, annað en það sem óumdeilt er, þ.e. að stefnandi varð fyrir slysi er sleðinn féll niður stoðina þannig að trissuhlífin rakst í höfuð hans.

                Að framanrituðu virtu þykja, eins og hér stendur á, ekki næg efni til að víkja til hliðar almennum reglum um sönnunarbyrði tjónþola. Verður stefnandi að bera hallann af því að ósannað er að hann hafi gætt þess nægjanlega að pinninn gengi alla leið inn í sleðann áður en hann hóf æfingar í tækinu umrætt sinn og jafnframt ósannað að slys hans sé að rekja til bilunar eða vanbúnaðar í umræddu líkamsræktartæki. Verður að leggja til grundvallar að slysið hafi orðið vegna þess að pinninn gekk ekki nægjanlega langt inn í gat á stoðinni og hafi losnað við átakið er stefnandi framkvæmdi æfingar sínar.

                Í annan stað byggir stefnandi á því að hann hafi mátt treysta því að sleðinn læstist í gat lóðréttu stoðarinnar þegar pinnanum væri sleppt, enda sé tækið hannað þannig. Hafi sú verið reyndin, þ.e. að sérstakra aðgerða væri þörf af hálfu notandans til að festa pinnann í lóðréttu stoðina, verði að líta svo á að rekstraraðilanum hafi borið að veita leiðbeiningar þess efnis, með merkingum á tækið.

                Ekki er fyrir að fara í lögum eða reglugerðum sérstökum ákvæðum um merkingar eða leiðbeiningar um hættu af notkun líkamsræktartækja, að því er séð verður, en eins og áður var rakið er í 54. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti mælt svo fyrir að rekstri starfsemi heilsuræktar- og íþróttastöðva og íþróttahúsa skuli vera þannig háttað að „heilsa og öryggi þeirra sem þangað koma sé sem best tryggð“. Verður að telja að í þeirri almennt orðuðu vísireglu geti m.a. falist krafa um merkingar eða viðvaranir um hættu þegar svo ber undir.

                Eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins beindi þeirri ábendingu til stefnda Fljótsdalshéraðs, með skýrslu dags. 20. ágúst 2010 eða daginn eftir slys stefnanda, að setja merkingu á tækið vegna hættu á því að stillipinni gengi ekki alveg inn í sleðann. Var orðið við þeim tilmælum einhverju eftir slys stefnanda og bætt við merkingu á íslensku, sem límd er á sleðann sjálfan, með orðunum: „Varúð!!! Passið að pinninn sé allur inni.“ Byggir stefnandi á því að þessi viðvörun hafi ekki verið sett upp fyrr en eftir að fjórða atvikið við tækið hafði átt sér stað, þ.e. slys F í október 2010,  og hafa stefndu ekki mótmælt því sérstaklega. Fyrir var á tækinu, nánar tiltekið á hlið trissuhjólsins, merking frá framleiðanda á ensku með textanum: „Warning. Keep clear of moving parts“.

                Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að umrætt líkamsræktartæki hafi verið bilað eða vanbúið. Verður að leggja til grundvallar að tækið sé þannig úr garði gert að notendur geti ekki gengið að því sem vísu að þrýstipinninn gangi sjálfkrafa nægjanlega langt inn í gat á stoðinni þegar honum er sleppt við færslu sleðans, jafnvel þótt smellur heyrist og pinninn gangi langleiðina inn, heldur verði að horfa eftir því að pinninn hverfi örugglega allur inn í sleðann allt að þeim hluta hans sem klæddur er svörtu plasti. Óumdeilt er að pinninn er ekki einungis færður til með handafli, heldur er einhvers konar búnaður (gormur) inni í sleðanum sem á að þrýsta pinnanum á réttan stað þegar sleðinn er færður til á stoðinni. Þótt almennt verði að ætlast til þess að notendur líkamsræktartækja sýni fyllstu varúð þegar stillingum tækja er breytt má ætla að notendur treysti í nokkrum mæli á þennan búnað og gæti þess e.t.v. síður að pinninn gangi alla leið inn en þegar pinnar eru settir í göt með handafli. Verður að telja framangreindan eiginleika tækisins einkar varhugaverðan, eins og slys stefnanda sýnir. Er það álit dómsins að af þessum sökum sé ríkari ástæða en ella til að vekja athygli notenda á hættu samfara breytingu á stillingu hæðar sleðans á stoðinni.

                Samkvæmt því sem fram kom í framburði G, forstöðumanns íþróttamannvirkja á Fljótsdalshéraði, fyrir dómi, sem rakinn er meginatriðum í kafla IV hér að framan, var honum fullkunnugt um þennan eiginleika tækisins. Jafnframt bjó hann yfir sérstakri vitneskju um hættu sem gat stafað af þessum eiginleika tækisins, þ.e. vitneskju um þau tvö atvik sem orðið höfðu á árinu 2010, áður en slys stefnanda átti sér stað, þar sem sleðinn rann óvænt niður stoðina, auk þess sem hann lét þess getið fyrir dómi að eitthvað svipað hefði áður gerst í öðru sambærilegu tæki. Þá hafði B, einkaþjálfari og starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar, sem hlut átti að máli í öðru tilvikinu árið 2010, vakið sérstaka athygli G á því að hann teldi nefndan eiginleika tækisins hættulegan.

                Þegar til framanritaðs er litið verður fallist á það með stefnanda að virða verði það stefnda Fljótsdalshéraði til sakar að ekki voru veittar skýrar og glöggar leiðbeiningar með merkingum um framangreinda hættueiginleika tækisins. Verður ekki á það fallist með stefndu að næg viðvörun til notenda hafi falist í þeirri merkingu á ensku („keep clear of moving parts“) á trissuhjóli áföstu sleðanum, sem fylgdi tækinu frá framleiðanda þess. 

                Stefnandi er menntaður […] og hefur starfað sem slíkur, þar á meðal við að leiðbeina öðrum í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum. Varð ekki annað ráðið af framburði hans en að hann hafi verið meðvitaður um nauðsyn þess að pinninn gengi alla leið inn í sleðann við færslu á stoðinni og að ekki væri 100% tryggt að það gerðist sjálfkrafa. Verður að virða það honum til eigin sakar að ósannað telst að hann hafi nægilega gætt að þessu við notkun tækisins umrætt sinn. Á hinn bóginn var um augnabliks aðgæsluleysi að ræða og var stefnanda ekki kunnugt um að tvisvar áður hefði legið við slysum við notkun annarra á tækinu.

                Stefndu hafa ekki fært fram nein gögn fyrir þeirri málsástæðu að sú æfing sem stefnandi framkvæmdi umrætt sinn samrýmist ekki þeim notum sem líkamsræktartækið sé ætlað til og telst það ósannað.

                Að framanrituðu virtu þykir rétt að stefnandi beri sjálfur helming líkamstjóns síns vegna slyssins sem hann varð fyrir í líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum 19. ágúst 2010. Verður því, í samræmi við varakröfu stefndu, viðurkennt að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á helmingi tjónsins.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, sbr. 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefndu til að greiða stefnanda sameiginlega helming málskostnaðar hans, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

Dómsorð:

                Viðurkennt er að stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Fljótsdalshérað, beri óskipta skaðabótaábyrgð á helmingi þess líkamstjóns sem stefnandi, A, varð fyrir í slysi 19. ágúst 2010 í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.

                Stefndu greiði stefnanda sameiginlega 627.500 krónur í málskostnað.