Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2007


Lykilorð

  • Afurðalán
  • Veðsetning
  • Greiðsla
  • Skaðabætur
  • Auðgunarkrafa


         

Fimmtudaginn 25. október 2007.

Nr. 68/2007.

Sparisjóður Vestmannaeyja

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Pétursey ehf. og

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Herði Rögnvaldssyni

(Grétar Haraldsson hrl.)

 

Afurðalán. Veðsetning. Greiðsla. Skaðabætur. Auðgunarkrafa.

Skömmu fyrir gjaldþrot H ehf. 17. mars 2004 afhenti það P ehf. átta tonn af fiski af birgðum H ehf. Sparisjóðurinn SV taldi að með afhendingu fjögurra tonna af þessum átta tonnum hefði veðréttur, sem SV átti í afurðum H ehf. samkvæmt afurðalánasamningi, verið rýrður með ólögmætum hætti og taldi sig hafa orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Vegna þessa krafði S P ehf. og H, sem hafði verið fyrirsvarsmaður H ehf., um greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar og reisti kröfuna annars vegar á almennu skaðabótareglunni og hins vegar á óskráðri reglu um ólögmæta auðgun. Fyrir lá að á þessum tíma hafði H ehf. unnið í verktöku fyrir P ehf. að verkun saltfisks ásamt því að verka eigin fisk. Þótti upplýst að í október 2003 hefði H ehf. afhent verkaðan saltfisk til sölumeðferðar, sem með réttu átti að vera eign P ehf., en fyrir mistök verið skráð sem eign H ehf. Greiðslu fyrir þennan fisk hefði SV síðan ráðstafað til lækkunar á skuld H ehf. við S. Þegar mistökin komu í ljós hafnaði SV að bakfæra greiðsluna og færa inn á reikning P ehf. Í ljósi atvika var talið að H og P ehf. hefðu mátt líta svo á, þegar afhending fisksins fór fram, að P ehf. ætti enn þá jafngildi fjögurra tonna af fiski í vörslum H ehf. til viðbótar við önnur fjögur tonn, sem óumdeilt var að hefðu verið í eigu fyrrgreinda félagsins. Hefði SV hvorki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir bótaskyldu tjóni við þessa ráðstöfun né að P ehf. hefði við þetta auðgast á óréttmætan hátt á kostnað SV. Kröfu S var því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2007. Hann krefst þess nú að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða áfrýjanda 1.368.244 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefndu krefjast hvor um sig staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar er rakið voru átta tonn af fiski afhent stefnda Pétursey ehf. af birgðum Hlíðardals ehf. 3. febrúar 2004. Áfrýjandi telur að með afhendingu fjögurra af þessum átta tonnum hafi verið rýrður með ólögmætum hætti veðréttur hans í öllum afurðum og rekstrarvörum Hlíðardals ehf. samkvæmt samningi um framleiðslulán 5. mars 1999, en Hlíðardalur ehf. var úrskurðaður gjaldþrota 17. mars 2004. Áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir tjóni með því að andvirði þessara fjögurra tonna af fiskafurðum hafi ekki runnið til hans heldur til stefnda Péturseyjar ehf. sem hafi þannig auðgast á hans kostnað. Stefndu telja aftur á móti að stefndi Pétursey ehf. hafi verið eigandi allra þessara átta tonna og að veðréttur áfrýjanda hafi ekki náð til þeirra. Rökstyðja stefndu þetta með vísan til þess, að fjögur af umræddum átta tonnum hafi óumdeilanlega verið eign stefnda Péturseyjar ehf., en fjögur tonn hafi komið í stað fjögurra tonna, sem afhent höfðu verið SÍF hf. til sölumeðferðar 3. október 2003 og þá fyrir mistök ranglega skráð sem eign Hlíðardals ehf. en ekki hins stefnda félags, Péturseyjar ehf. Andvirði þessara afurða hafi verið lagt inn á reikning Hlíðardals ehf. hjá áfrýjanda, sem síðan hafi ráðstafað því upp í framangreint framleiðslulán.

Veðskuldabréf það sem áfrýjandi byggir kröfu sína á var útgefið 5. mars 1999 að fjárhæð 50.000.000 krónur. Til tryggingar skuldinni var sett að sjálfsvörsluveði „allar tegundir afurða og rekstrarvara sem [Hlíðardalur ehf.] á eða eignast kann við framleiðslu“ á framleiðslutímabili, sem var tólf mánuðir í senn. Tekið var fram að ekki skyldi „geyma afurðir veðsettar öðrum í birgðageymslu án samþykkis Sparisjóðsins.“ Hlíðardalur ehf. sá einnig um vinnslu fisks í verktöku fyrir stefnda Pétursey ehf. og afhenti að vinnslu lokinni bæði þann fisk og eigin framleiðslu til söluaðila, SÍF hf. Í skýrslu fyrirsvarsmanns áfrýjanda í héraði kemur fram að hann hafi vitað af þessu og látið óátalið að fiskur í eigu annarra aðila væri unninn og geymdur með öðrum fiski í húsnæði Hlíðardals ehf. Samkvæmt veðsamningnum skyldi birgðatalning gerð reglulega. Gögn þar um sýna að stefndi Pétursey ehf. átti afurðir í vörslum Hlíðardals ehf., 4 tonn 10. desember 2003 og sama magn 22. janúar 2004. Verður samkvæmt þessu að líta svo á að þrátt fyrir að veðtrygging áfrýjanda hafi verið í heildarsafni þeirra afurða sem voru í vörslum Hlíðardals ehf. á hverjum tíma, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, þá teljist hann hafa samþykkt að aðrir ættu einnig afurðir hjá Hlíðardal ehf. og beri vegna stöðu sinnar á þessu sviði sjálfur halla af óskýrleika er varðar afmörkun veðs.

Gögn málsins bera með sér að Hlíðardalur ehf. sendi frá sér fjögur tonn af fiski 3. október 2003 til sölumeðferðar hjá SÍF hf. og bar nóta um afhendingu afurðanna ekki annað með sér en að fiskurinn væri í eigu Hlíðardals ehf. Óumdeilt er að greiðsla fyrir þennan fisk barst áfrýjanda frá SÍF hf. og mun henni hafa verið varið til greiðslu á skuld Hlíðardals ehf. við áfrýjanda samkvæmt áðurnefndum samningi um framleiðslulán til félagsins. Mistökin munu hafa komið í ljós í desember 2003, en þá kom fram í fyrirspurn starfsmanns Hlíðardals ehf. til SÍF hf. að stefndi Pétursey ehf. hafi átt að fá greitt fyrir umræddan fisk en ekki Hlíðardalur ehf. Í janúar 2004 var af hálfu Hlíðardals ehf. farið fram á það við áfrýjanda að hann leiðrétti færsluna og fyrirsvarsmaður stefnda Péturseyjar ehf., átti fund með fyrirsvarsmanni áfrýjanda vegna þessara mistaka, þar sem sá fyrrnefndi krafðist þess að áfrýjandi bakfærði greiðslu vegna sölu þessara afurða af afurðalánareikningi Hlíðardals ehf. og færði hana inn á reikning hins stefnda félags. Áfrýjandi varð ekki við þessu. Fyrir dómi vefengdi áfrýjandi ekki að framangreind mistök hefðu orðið við afhendingu þessara tilteknu afurða en taldi að með þeim hefði stefndi Pétursey ehf. eignast, á sínum tíma, almenna fjárkröfu á hendur Hlíðardal ehf. og síðan þrotabúi þess félags. Um hefði verið að ræða fjárkröfu en ekki hlutaréttarkröfu. Greind mistök hafi verið áfrýjanda óviðkomandi og engin mistök hafi átt sér stað hjá honum.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn ekki á riftunarreglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins. Áfrýjandi byggir einungis á almennu skaðabótareglunni og óskráðri bótareglu um ólögmæta auðgun. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að leggja til grundvallar að hið stefnda félag, Pétursey ehf., hafi átt fjögur tonn af fiski hjá Hlíðardal ehf. 3. október 2003, sem afhent hafi verið SÍF hf. og skráð fyrir mistök sem eign Hlíðardals ehf. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að færslur við birgðatalningu hafi verið leiðréttar vegna þessara mistaka. Áfrýjandi notaði andvirði þessara fjögurra tonna af fiski til greiðslu upp í skuld Hlíðardals ehf. vegna framleiðslulánsins. Með hliðsjón af því og eins og atvikum var háttað að öðru leyti máttu stefndu líta svo á að hið stefnda félag, Pétursey ehf, ætti í febrúar 2004 enn þá jafngildi fjögurra tonna af fiski í vörslum Hlíðardals ehf. til viðbótar við fjögur tonn, sem getið var í áðurnefndum birgðatalningum og óumdeilt var að væri í eigu stefnda Péturseyjar ehf. Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi hvorki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni er hið stefnda félag fékk átta tonn af fiski afhent úr vörslum Hlíðardals ehf. 3. febrúar 2004, né að félagið hafi auðgast á óréttmætan hátt á kostnað áfrýjanda. Ber því að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sparisjóður Vestmannaeyja, greiði stefndu, Pétursey ehf. og Herði Rögnvaldssyni, hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 6. desember s.l.

Stefnandi er Sparisjóður Vestmannaeyja, kt. 610269-5839, Bárustíg 15, Vestmannaeyjum.

Stefndu eru Pétursey ehf., kt. 680593-2569, Flötum 31, Vestmannaeyjum og Hörður Rögnvaldsson, kt. 070455-3239, Hásteinsvegi 8, Vestmannaeyjum.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 1.368.244 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2004 til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda lægri fjárhæð.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og þá verði þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, upp kveðnum 17. mars 2004, var bú Hlíðardals ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og liggur fyrir að stefnandi átti veðrétt í sjávarafurðum og rekstrarvörubirgðum hins gjaldþrota félags á grundvelli veðskuldabréfs útg. 5. mars 1999.  Stefnandi heldur því fram að skömmu fyrir gjaldþrotið hafi stefndi Hörður ráðstafað 8 tonnum af þorski af birgðum Hlíðardals ehf. til stefnda Péturseyjar ehf. án þess að greiðsla hafi komið fyrir.  Stefnandi fellst á að heimilt hafi verið að ráðstafa 4 tonnum til Péturseyjar ehf., en ekki 8 tonnum og hafi ráðstöfun á 4 tonnum því verið óheimil. 

Stefndu lýsa málsatvikum á þann hátt að Hlíðardalur ehf. hafi annast fiskverkun í verktakavinnu fyrir stefnda Pétursey ehf., en stefndi mun vera útgerðarfyrirtæki sem tekið hafi við tilteknum þáttum, þ. á m. vinnslu, í rekstri útgerðarfélagsins Sæhamars ehf. á árinu 2003.  Hafi verið í gildi munnlegt samkomulag á milli fyrirsvarsmanna Hlíðardals ehf. og Sæhamars ehf., síðar hins stefnda félags, þess efnis að fyrrnefnda félagið annaðist verkun saltfisks fyrir hið stefnda félag og afhenti hann, að verkun lokinni, viðskiptamönnum stefnda.  Hafi Hlíðardalur ehf. tekið að sér mörg slík verkefni og megi ætla að heildarmagn þess afla sem stefndi sendi til vinnslu hjá fyrirtækinu hafi numið tugum tonna.

Stefndu  halda því fram að í október 2003 hafi verið skipað út 4 tonnum af saltfiski úr húsnæði Hlíðardals ehf. sem það fyrirtæki hafði verkað fyrir Pétursey ehf.  Hafi starfsmönnum Hlíðardals ehf. borið að skrá nafn stefnda á útskipunarnótu en fyrir mistök hafi það ekki verið gert og nafn Hlíðardals ehf. skráð á nótuna.  Þegar fyrirsvarsmenn stefnda hafi farið að lengja eftir greiðslum fyrir aflann  hafi verið haft samband við SÍF og þar hafi þau svör fengist að greiðslan hefði runnið inn á afurðareikning Hlíðardals ehf. fyrir milligöngu stefnanda.  Hafi fyrirsvarsmenn Hlíðardals ehf. snúið sér til stefnanda og óskað leiðréttingar en þar sem stefnandi hafi ekki orðið við því hafi stefndi Hörður ákveðið að leiðrétta mistökin með því að afhenda stefnda Pétursey ehf. annan fisk í sama magni og sömu stærð í staðinn.  Það hafi hann gert 4. febrúar 2004 og litið svo á að með því hefði hið stefnda félag aðeins verið að fá til sín þau 4 tonn sem með réttu hafi tilheyrt því.

Samkvæmt gögnum málsins fór fram afurðatalning hjá Hlíðardal ehf. 10. desember 2003 og kemur þar fram að hið stefnda félag eigi 4 tonn af flöttum þorski í húsnæði Hlíðardals ehf.  Skjalið er dagsett 16. desember sama ár og undirritað af starfmanni stefnanda og stefnda Herði f.h. Hlíðardals ehf.  Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing dagsett 16. desember sama ár, undirrituð af stefnda Herði fyrir hönd Hlíðardals ehf. og Guðjóni Rögnvaldssyni, bróður hans, fyrir hönd hins stefnda félags.  Í yfirlýsingunni kemur fram að hið stefnda félag eigi 4 tonn af þorski í húsnæði Hlíðardals ehf. og eigi félagið engan annan fisk eða afurðir í húsnæðinu.   

Fyrir liggur í málinu yfirlýsing skiptastjóra þrotabús Hlíðardals ehf. þess efnis að ljóst sé að andvirði umræddra fiskafurða hefði gengið upp í veðkröfu stefnanda í þrotabúið ef þær hefðu verið til staðar í þrotabúinu við upphaf skipta.  Hafi þrotabúið sjálft ekki beina hagsmuni af því að fylgja eftir hugsanlegri kröfu vegna ráðstöfunarinnar en af hálfu skiptastjóra var staðfest að stefnanda væri heimilt að hafa uppi kröfugerð vegna þessa tjóns á eigin kostnað og áhættu samkvæmt heimild í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991.

Með bréfi dagsettu 7. mars s.l. óskaði lögmaður stefnda Harðar eftir því við sýslumanninn í Vestmannaeyjum að tekið yrði til opinberrar rannsóknar ætlað brot Ólafs Elíssonar, sparisjóðsstjóra stefnanda, á 249. gr. almennra hegningarlaga.  Með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 vísaði sýslumaður málinu frá og var þeirri ákvörðun skotið til ríkissaksóknara.  Með bréfi dagsettu 18. apríl s.l. komst ríkissaksóknari að þeirri niðurstöðu að ekki fengist séð að um hafi verið að ræða refsiverðan verknað af hálfu kærða eða annarra starfsmanna stefnanda og var talið að sá ágreiningur sem kærandi lýsti í kæru sinni væri einkaréttarlegs eðlis.  Var ákvörðun sýslumanns því staðfest.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir kröfu sína á hendur hinu stefnda félagi í fyrsta lagi á almennu skaðabótareglunni.  Er á því byggt að félagið hafi með ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að rýra veðrétt hans og að félaginu beri að bæta stefnanda það tjón sem það hafi valdið stefnanda með þessum hætti.  Hafi þessi stefndi verið grandsamur um það að Hlíðardalur ehf. hafi á þeim tíma sem ráðstöfunin var gerð verið gersamlega ógjaldfær og á leiðinni í gjaldþrot.  Hafi þessum stefnda verið það fullkomlega ljóst að ráðstöfunin hafi beinlínis verið til þess fallin að rýra veðandlag stefnanda og valda honum tjóni.  Hafi stefnandi af þessum sökum misst af 1.368.244 krónum sem hann hefði ella fengið fyrir andvirði veðandlagsins og að þessir fjármunir hafi í stað þess runnið til stefnda Péturseyjar ehf.  Hafi einhver mistök átt sér stað í samskiptum stefnda Péturseyjar ehf. og Hlíðardals ehf. hafi forsvarsmönnum Hlíðardals ehf. verið gersamlega óheimilt að sammælast um að bæta fyrir þau á kostnað stefnanda.

Í öðru lagi er á því byggt gagnvart hinu stefnda félagi að það hafi auðgast á kostnað stefnanda og að stefnda beri að endurgreiða stefnanda það fé sem runnið hafi til stefnda, en átt hafi að renna til stefnanda.  Það sé almennt viðurkennt að við tilteknar aðstæður verði þeim, sem hafi án réttmætrar ástæðu öðlast verðmæti sem tilheyra öðrum og þannig auðgast á hans kostnað, gert að skila eiganda eða þeim sem varð fyrir tjóni, andvirði þeirrar auðgunar.  Sé það skilyrði sett að um tjón annars sé að ræða og að auðgun hins sé í beinum tengslum við það tjón.  Telur stefnandi öll skilyrði vera uppfyllt í málinu til að þessari ólögfestu reglu kröfuréttar verði beitt og hið stefnda félag samkvæmt því dæmt til að skila óréttmætri auðgun til stefnanda.  Stefnandi vísar til þess að í löggjöf megi finna dæmi þess að byggt sé á viðhorfum um óréttmæta auðgun, sbr. t.d. 78. gr. laga nr. 71/1997, 56. gr. laga nr. 73/1972, 74. gr. laga nr. 93/1933, 57. gr. laga nr. 94/1933, 43. gr. laga nr. 45/1997 og 38. gr. laga nr. 46/2001.

Stefnandi telur að sú viðbára þessa stefnda að hann hafi verið að taka til sín 4 tonn sem hann hafi átt hjá Hlíðardal ehf. og hafi verið þar í geymslu frá því um mitt ár 2003 sé með öllu haldlaus og órökstudd, enda beri því ekki saman við birgðatalningar.

Stefnandi byggir kröfugerð sína á hendur stefnda Herði á því að á þeim tíma sem hið stefnda félag hafi fengið afurðirnar í hendur hafi hann verið forsvarsmaður Hlíðardals ehf. og verið fullljóst að ráðstöfun þessi hafi verið til þess fallin að valda veðhafanum, þ.e. stefndanda, tjóni og að hann hafi tekið þátt í því að valda tjóninu vitandi að Hlíðardalur ehf. hafi þá verið ógjaldfær og að með ráðstöfuninni til hins stefnda félags, sem hafi verið í eigu bróður hans, hafi hann beinlínis verið að færa fjármuni, sem stefnandi hafi átt rétt á að fá, til hins stefnda félags.  Hafi stefndi Hörður þannig með ásetningi og vitandi um ógjaldfærni Hlíðardals ehf., fært fjármuni sem stefnanda hafi borið að fá, til fyrirtækis bróður síns og raskað með þeirri háttsemi hagsmunum stefnanda með ólögmætum hætti.

Stefnandi byggir fjárhæð bótakröfu sinnar á upplýsingum frá SÍF um gildandi skilaverð í febrúar 2004 á nokkrum stærðum af portfiski að CD gæðum og gengur út frá sama flokkunarhlutfalli og var í kaupnótu SÍF 10. október 2003.  Stefnandi ætlar því verðmæti 4 tonna vera 15.849 evrur og miðað við gengi 27. febrúar 2004 sé stefnukrafan 1.368.244 krónur.

Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar, meginreglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga og reglna um auðgun. Vaxtakröfur eru byggðar á skaðabótalögum og krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Péturseyjar ehf.

 Stefndi byggir á því að á liðnum árum hafi tugir tonna af fiski í eigu stefnda farið til verkunar hjá Hlíðardal ehf. gegn greiðslu, þ.á m. hin umdeildu 4 tonn.  Stefndi Hörður hafi gert grein fyrir eignarrétti aflans við skýrslutöku hjá skiptastjóra og sé því ljóst að aflinn sem stefndi tók við frá Hlíðardal ehf. hafi verið eign stefnda.  Getur stefndi því ekki séð hvernig hann eigi að hafa getað rýrt veðrétt stefnanda með því að veita eign sinni viðtöku.  Við úrlausn á því hverjar kröfur veðréttur tryggi og til hvaða verðmæta sá réttur nái þurfi að horfa til efnis veðsamningsins sem til grundvallar liggi hverju sinni.  Samkvæmt grunnreglu veðréttar geti veðsali ekki sett annað að veði en sínar eigin eignir.  Eigi að setja eignir þriðja manns að veði þurfi veðleyfi hans.  Samkvæmt veðsamningnum hafi veðsali ekki veitt stefnanda veðrétt í öðru en eignum Hlíðardals ehf., þ.e. því sem félagið átti á samningstímanum eða kynni að eignast síðar.  Þar sem mál þetta snúist um eignir allt annars aðila komi veðsamningur stefnanda að engu haldi.

Þá bendir stefndi á sérgreiningarreglu íslensks veðréttar, sbr. 1. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997.   Í þessum lagaákvæðum komi fram að umfram það sem lög um samningsveð eða önnur lög leyfa sé ekki heimilt að setja að sjálfsvörsluveði safn af munum sem séu samkynja eða ætlaðir til samkynja notkunar og einkenndir séu einu almennu nafni.  Sé þessi lagaregla á því byggð að veðréttur hafi ekki raunhæft gildi ef ekki liggi ljóst fyrir hvaða lausafjármunir hafi verið settir að veði og falli undir umrædda veðsetningu.  Stefnandi sé fjármálastofnun og í dómaframkvæmd hafi verið gerðar ríkar kröfur til slíkra stofnana og þær látnar bera hallann af óskýrleika veðskjala.  Stefnanda hefði verið í lófa lagið að sérgreina veðandlagið með nákvæmari hætti en gert var með því einu að tilgreina fjölda kílóa við hverja aflategund.  Þar sem þetta hafi ekki verið gert og eignir Hlíðardals ehf. þannig ekki sérgreindar nægilega, beri að líta svo á að umrædd veðsetning sé ógild.

Fari svo að talið verði að veðsetningin sé gild fái það engu breytt um réttarstöðu stefnda gagnvart stefnanda.  Skýrist það af því að veðsamningurinn varði eignir annarra en stefnda og þótt stefnandi telji sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum ónákvæmni í skjalinu geti hann ekki gert aðra ábyrga fyrir sinni eigin vanrækslu.  Stefndi hafi enga aðild átt að þessum samningi, hvort beint né óbeint.  Þótt þeir fjármunir, sem runnið hafi til Hlíðardals ehf., kunni að vera í uppnámi eða jafnvel glataðir, verði stefnandi að líta sér nær.

Stefndi hafnar öllum aðdróttunum stefnanda þess efnis að móttaka stefnda á umræddum 4 tonnum geti með einhverju móti talist sviksamleg.  Í stefnu sé gefið til kynna að stefnda hafi á þessum tíma verið fullljóst hver fjárhagsstaða Hlíðardals ehf. hafi verið.  Stefndi vísar þessu á bug sem órökstuddu, enda liggi ekkert fyrir sem sýni að fyrirsvarsmenn stefnda hafi verið grandsamir um fjárhagsstöðu Hlíðardals ehf. á þessum tíma. 

Stefndi telur því ósannað að hann hafi valdið stefnanda nokkru tjóni.  Þá hafi stefndi engar upplýsingar haft um ætlaða veðkröfu stefnanda eða veðsamning hans við Hlíðardal ehf.  Verði talið að sú athöfn að veita aflanum viðtöku hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda, verði ekki fullyrt að stefnda hafi verið ljóst að það myndi óhjákvæmilega leiða til tjóns stefnanda eða að langlíklegast væri að slíkt tjón yrði.  Hafi stefndi gætt allrar þeirrar varkárni sem gegn og skynsamur maður hefði talið sér skylt að gæta við sömu aðstæður.  Hafi hann ekki gert annað en að veita viðtöku vörubirgðum sem honum hafi tilheyrt með réttu.  Af þessum ástæðum hafnar stefndi tilvísun stefnanda til almennu skaðabótareglunnar.

Stefndi hafnar því að beiting auðgunarreglu komi til álita í máli þessu, allt sem stefnandi segi í því sambandi geti allt eins átt við hann sjálfan og hefði hann mögulega auðgast á kostnað stefnda hefði stefndi ekki fengið verðmæti þessi afhent að nýju.

Stefndi mótmælir kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og vísar til meginreglna samninga- veð- og kröfuréttar.  Málskostnaðarkrafa er reist á 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Harðar Rögnvaldssonar.

Stefndi byggir á því að almenna skaðabótareglan eigi ekki við enda hafi stefnandi ekki orðið fyrir tjóni.  Aðeins hafi verið leiðrétt ólögmæt refsiverð sjálftaka stefnanda frá því í október og nóvember 2003.  Þá byggir stefndi á því að ekki sé rétt að stefndi Pétursey ehf. hafi auðgast á kostnað stefnanda.  Þvert á móti myndi stefnandi auðgast á kostnað stefnda Péturseyjar ehf. ef honum tækist að fullfremja áður tilgreinda refsiverða háttsemi sína.  Þá sé ekki rétt að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni.  Stefndi hafi aðeins verið að leiðrétta áður framkvæmda refsiverða háttsemi forsvarsmanns stefnanda.  Hafi stefnandi áður verið búinn að taka sér andvirði fisksins með refsiverðum hætti.  Hafi stefndi sagt starfsmanni stefnanda að hann myndi bæta Pétursey ehf. sjálftökuna á þann hátt sem hann gerði, ef þeir fengjust ekki til þess að leiðrétta áður framkvæmda sjálftöku.

Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Eins og mál þetta er vaxið ber að leysa fyrst úr því ágreiningsefni aðila hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.  Stefnandi heldur því fram að með ráðstöfun umræddra 4 tonna af þorski til stefnda Péturseyjar ehf. hafi stefndi rýrt veðrétt stefnanda um andvirði umræddra fiskafurða og hafi þannig verðmæti sem hefðu átt að ganga upp í veðkröfu hans runnið til stefnda Péturseyjar ehf.

Óumdeilt er í máli þessu að stefndi Pétursey ehf. átti 4 tonn af þorski hjá Hlíðardal ehf. og er það staðfest af hálfu starfsmanns stefnanda við afurðatalningu í desember 2003.  Stefnandi fellst á að heimilt hafi verið að ráðstafa þessum 4 tonnum til stefnda Péturseyjar ehf.  Ekki er fram komið í málinu að þessi afli hafi verið sérgreindur á nokkurn hátt, en stefnandi átti sjálfsvörsluveðrétt í afurðum og rekstrarvörubirgðum Hlíðardals ehf. á grundvelli framleiðsluláns sem stefnandi veitti fyrirtækinu á grundvelli veðskuldabréfs dagsettu 5. mars 1999.   Fram kemur í skuldabréfinu að þegar andvirði afurðanna berist stefnanda skuli það ganga til greiðslu á vöxtum og afborgunum af framleiðslulánum eða öðrum gjaldföllnum lánum lántaka samkvæmt reglum stefnanda, en mismunur skyldi greiðast inn á reikning lántaka honum til ráðstöfunar. 

Stefndu halda því fram að mistök hafi orðið við gerð útskipunarnótu vegna 4 tonna af þorski 3. október 2003 og hafi Hlíðardalur ehf. verið talinn eigandi afurðanna í stað stefnda Péturseyjar ehf.  Hafi þetta leitt til þess að andvirði aflans hafi verið lagt inn á afurðalánareikning Hlíðardals ehf. og ítrekaðar tilraunir stefndu til þess að leiðrétta þetta við starfsmenn stefnanda hafi engan árangur borið.  Þegar útséð hafi verið um að hin ætluðu mistök yrðu leiðrétt hafi stefndi Hörður ákveðið að leiðrétta mistökin með því að afhenda stefnda Pétursey ehf. sama magn af þorski 3. febrúar 2004 til viðbótar við þau 4 tonn sem þessi stefndi átti samkvæmt afurðatalningunni í desember 2003.  Af gögnum málsins má ráða að stefndu hafi þegar gert stefnanda grein fyrir þessum ætluðu mistökum en athugasemdir þeirra munu ekki hafa leitt til viðbragða af hálfu stefnanda.  Dómurinn telur nægilega upplýst með gögnum málsins og skýrslugjöf fyrir dómi að umrædd mistök hafi orðið, en sparisjóðsstjóri stefnanda rengdi ekki að um mistök hefði verið að ræða, en taldi ekki á sínu valdi að leiðrétta þau.  Telst því nægilega sannað að andvirði afurðanna hafi í október 2003 ranglega runnið til Hlíðardals ehf.  Hvað sem líður heimild Hlíðardals ehf. til þess í undanfara gjaldþrots að leiðrétta þessi mistök síðar og ráðstafa samsvarandi aflamagni til stefndu er ljóst að stefnanda hefur ekki tekist að sanna að hann hafi beðið tjón af háttsemi stefndu.  Verða stefndu því þegar af þessari ástæðu sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða hvorum stefndu um sig 300.000 krónur í málskostnað.

Það athugast að í greinargerð stefnda Harðar er fullyrt að sparisjóðsstjóri stefnanda hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, en eins og að framan er rakið var kröfu þessa stefnda um opinbera rannsókn vísað frá.  Þessi ummæli eru aðfinnsluverð enda meginregla í íslenskum rétti að hver maður skuli talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Pétursey ehf. og Hörður Rögnvaldsson, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sparisjóðs Vestmannaeyja, í máli þessu.

Stefnandi greiði hvorum stefndu um sig 300.000 krónur í málskostnað.