Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2000
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2000. |
|
Nr. 154/2000. |
Skagaver ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Sigurlínu Bjarnadóttur (Atli Gíslason hrl.) og gagnsök |
Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.
S vann við afleysingarstörf í verslun SK. Var hún að losa sorp inn í vörugám, sem nýttur var til sorpgeymslu, er hún rann til í bleytu á gólfi gámsins, féll og hlaut við það brot á liðfleti hnéskeljar. Krafði S SK um skaðabætur á þeim grundvelli að aðstæður á vettvangi, sem hafi verið á ábyrgð SK, og mistök annarra starfsmanna SK hafi orðið þess valdandi að hún hafi hlotið meiðsl. SK var í héraði dæmdur bótaskyldur á grundvelli sakarreglunnar og húsbóndaábyrgðar fyrir að hafa ekki haft nægilegt eftirlit með vörugámnum og því starfsfólki, sem bar sorp í hann. Var SK látinn bera halla af því að hann tilkynnti slysið ekki til lögreglu eða Vinnueftirlits ríkisins og frásögn S lögð til grundvallar niðurstöðum, enda samræmdist hún frásögn vitna. Í ljósi þess að S vissi eða mátti vita um aðstæður í gámnum var talið að hún ætti nokkra sök á því hvernig fór. Var hún því látin bera þriðjung tjóns síns sjálf. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Eiríkur Tómasson prófessor.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2000. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 31. maí 2000. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.838.683 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1998 til greiðsludags, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Eins og greinir í héraðsdómi var gagnáfrýjandi, sem er fædd 1976, við afleysingarstörf í verslun aðaláfrýjanda á Akranesi þegar hún varð fyrir slysi 2. ágúst 1995. Kveðst gagnáfrýjandi hafa þá farið að áliðnum vinnudegi með sorp inn í vörugám, sem aðaláfrýjandi lét standa aftan við húsnæði verslunarinnar og nýtti sem sorpgeymslu. Hafi hún runnið til í bleytu á sléttu krossviðargólfi vörugámsins og fallið, en við það hlotið brot á liðfleti hnéskeljar á vinstri fæti. Krafa hennar er reist á örorkumati læknis frá 22. júní 1998, sem hefur ekki sætt andmælum af hálfu aðaláfrýjanda.
Aðaláfrýjandi sinnti ekki skyldu sinni samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 1. gr. reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, til að tilkynna lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins um slys gagnáfrýjanda. Komu atvik að slysinu því ekki til rannsóknar á þeim vettvangi. Í málinu hefur aðaláfrýjandi ekki bætt úr skorti upplýsinga, sem af þessu leiddi, með framburði vitna eða öðrum gögnum um hvernig umhorfs var í vörugáminum þegar slysið bar að höndum. Er því ekki annað fært en að leggja frásögn gagnáfrýjanda til grundvallar í þeim efnum. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði. Fer jafnframt eins og þar greinir um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, Skagaver ehf., greiði gagnáfrýjanda, Sigurlínu Bjarnadóttur, 450.000 krónur í málskostnað í héraði.
Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur héraðsdóms Vesturlands föstudaginn 11. febrúar 2000
Stefnandi þessa máls er Sigurlína Bjarnadóttir, kt. 290976-4569, Kjarrhólma 30, en áður Nýbýlavegi 62, Kópavogi. Stefnt er Skagaveri hf., kt. 580269-6059, Miðbæ 3 Akranesi.
Málið var höfðað með birtingu stefnu 26. maí 1999. Það var þingfest 1. júní s.á. og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 20. janúar 2000.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Skagaver hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.838.683 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.
Um málavexti og málsástæður segir í stefnu að stefnandi hafi slasast þar sem hún var við vinnu sína í verslun stefnda á Akranesi hinn 2. ágúst 1995. Stefnandi hafi verið að fara með rusl inn í sorpgám, sem staðsettur hafi verið fyrir aftan verslunina, en runnið á blautu og hálu trégólfi inni í gámnum, dottið, meiðst á hné og hafi varanleg mein af. Stefnandi hafi ekki getað staðið á fætur og því kallað á hjálp. Aðvífandi vegfarandi hafi kallað á starfsmenn verslunarinnar, og tvær starfsstúlkur stefnda hafi ekið stefnanda á Sjúkrahús Akraness í sendibifreið stefnda. Á sjúkrahúsinu hafi meiðsl stefnanda verið könnuð, og við fyrstu athugun hafi komið í ljós brot á liðfleti vinstri hnéskeljar. Daginn eftir hafi verið gerð aðgerð á hnénu, hnéskelin lagfærð og reynt að festa beinbrjóskflísum á sinn stað, en þær hafi legið lausar í brotsvæðinu. Þegar stefnandi hafi verið komin með fótaferð hafi hún hafið sjúkraþjálfun hjá Sjúkraþjálfun Georgs V. Janussonar á Akranesi og mætt þar alls 23svar sinnum. Hinn 19. júní 1998 hafi stefnandi farið í skoðun hjá Jónasi Hallgrímssyni, lækni, sem unnið hafi matsgerð um afleiðingar slyssins hinn 22. júní 1998. Niðurstaða læknisins sé að stefnandi búi við 15% varanlegan miska og 15% varanlega örorku. Hinn 8. september 1998 hafi verið gerð sundurliðuð bótakrafa á hendur stefnda, sem hafnað hafi verið með bréfi dags. 18. september 1998.
Þá segir í stefnu að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins né heldur til lögreglu eða Tryggingastofnunar ríkisins. Engin rannsókn hafi farið fram á orsökum slyssins eða aðstæðum á vettvangi og engar skýrslur verið teknar að tilstuðlan stefnda af samstarfsmönnum stefnanda um atvik, aðdraganda eða afleiðingar slyssins.
Enn segir í stefnu að varanlegar afleiðingar slyssins séu þær að stefnandi búi við skerta hreyfigetu í vinstra hné og minna álagsþol í vinstra fæti. Auk þess fái hún verki í hnéð, verði hölt við gang, stirðni við setur og verði stundum fyrir því að vinstra hné og fótur gefi eftir undir álagi. Miklar líkur séu á ótímabærri slitgigt.
Síðan er í stefnunni gerð grein fyrir útreikningi bótakröfunnar, þannig:
“Þjáningar.
Krafa stefnanda um bætur fyrir þjáningar er reiknuð út samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Tímabil er byggt á mati Jónasar Hallgrímssonar, læknis, framkomnum upplýsingum frá læknum og auk þess á framburði stefnanda. Þjáningabætur eru annars vegar miðaðar við þann tíma sem stefnandi var rúmliggjandi eftir slysið, sem var í 13 daga og hins vegar eru bætur miðaðar við þann tíma sem leið þar til ekki var að vænta frekari bata, sem samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar, læknis, var hinn 2. ágúst 1996. Vegna rúmlegudaga er miðað við 1.430 kr/dag og vegna annarra veikindadaga er miðað við 770 kr/dag. Þannig eru þjáningabætur samtals reiknaðar kr. 110.220,00.
Varanleg örorka.
Vegna kröfu um bætur fyrir varanlega örorku er byggt á örorkumati dr. Jónasar Hallgrímssonar. Örorkutjón stefnanda hefur verið reiknað út samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Miðað er við 15% varanlega örorku og reiknað er út frá kr. 4.393.500 margfaldað með 1,3 í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Þannig fæst varanleg örorka að fjárhæð kr. 856.733,00. Heilsa stefnanda er talin eiga eftir að versna og miklar líkur er taldar á talsverðri slitgigt. Stefnandi býr við stöðug óþægindi og verki og þegar slitgigt ágerist munu daglegir verkir koma í veg fyrir vinnu þar sem reynir á vinstra hné. Stefnandi getur því búist við því að slysið verði til þess að hann útilokist frá annarri vinnu en léttum störfum og hann verði fyrir verulegri tekjuskerðingu.
Varanlegur miski.
Miðað er við 15% varanlegan miska í samræmi við örorkumat Jónasar Hallgrímssonar, læknis og tjónið reiknað út frá 4.393.500 kr. í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Þannig fæst varanlegur miski að fjárhæð kr. 659.025,00. Auk þess er krafa um bætur fyrir miska á því byggð að stefnandi hafi búið við óþægindi, verki, helti og skerta hreyfigetu allt frá slysinu og ekki séu líkur til að því linni. Slysið hafi haft áhrif á tækifæri stefnanda til að njóta tómstunda sinna á eðlilegan hátt og líkindi séu til að þeim tækifærum fækki eftir því sem slitgigt ágerist. Miðað við álit lækna séu líkindi fyrir talsverðri slitgigt.
Vextir.
2% ársvextir hafa verið reiknaðir á bætur fyrir þjáningar, bætur fyrir varanlega örorku og bætur fyrir varanlegan miska frá slysdegi, hinn 2 ágúst 1995, til 8. september 1998, þegar sundurliðuð bótakrafa var gerð á hendur stefnda og öll gögn lágu þá fyrir stefnda til þess að taka afstöðu til bótakröfunnar og greiða bætur.
Tímabundið atvinnutjón.
Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón er reiknað út frá meðallaunum stefnanda hjá stefnda fyrr á árinu 1995, sem voru 37.987 kr á mánuði. Sú fjárhæð er fundin út með því að leggja saman laun fyrir júní 1995 (kr. 26.695) og júlí 1995 (kr. 49.279), eða samtals kr. 75.974, og deila með fjölda mánaðanna (2). Frá þessum útreiknuðu launum í þann mánuð, sem stefnandi var fjarverandi frá vinnu, eru dregin þau laun sem stefndi greiddi stefnanda í júlí, en það voru kr. 9.252. Mismunurinn, eða kr. 28.735, er talinn vera vangreiddar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Útlagður kostnaður.
Krafist er greiðslu á læknis- og sjúkrahúskostnaði og öðrum útlögðum kostnaði samkvæmt framlögðum kvittunum og reikningum.
Dráttarvextir.
Krafist er dráttarvaxta frá 8. október 1998 sem er einum mánuði eftir að sundurliðuð bótakrafa var sett fram á hendur stefnda, í samræmi við ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987.“
Á sérstöku dómskjali er stefnukrafan sundurliðuð þannig:

Í stefnu segir að stefnandi hafi sannað tjón sitt með hefðbundnum hætti og stefndi hafi ekki á neinn hátt hnekkt þeirri sönnunarfærslu. Stefnandi byggi á því að stefndi reki stóra verslun þar sem margir starfsmenn vinni og því beri honum vegna umfangs og eðlis rekstrarins að leggja mikla rækt við öryggismál og koma sem allra best í veg fyrir hættu fyrir starfsmenn sína. Einnig byggi stefnandi á því að ríkari bótaábyrgð beri að leggja á stefnda vegna meiðsla sem stefnandi hafi orðið fyrir við vinnu sína vegna þess aðbúnaðar sem stefndi hafi kosið að nota í stað þess að nota viðurkenndan búnað, svo sem lokaðan ruslagám eða ruslatunnur, sem hefði komið í veg fyrir slys stefnanda og varanleg mein hennar. Stefnandi kveðst telja að aðstæður inni í ruslagámi stefnda hafi í umrætt sinn verið hættulegar vegna óhreininda og bleytu sem hafi valdið hálku. Byggi hún á því að stefndi verði að bera ábyrgð á því að bleyta hafi runnið frá rusli eins og raun hafi borið vitni, sökum þess að ýmsir starfsmenn hans hafi sett rusl inn í gáminn og ekki hafði verið gengið frá rusli þannig, að ekki rynni frá því vökvi þrátt fyrir kröfur og umvandanir forsvarsmanna stefnda til starfsmanna sinna um meðferð á rusli og úrgangi. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi gert henni að vinna verk sín við ófullnægjandi og hættulegar aðstæður og því beri stefndi ríkari bótaskyldu. Stefnandi hafi unnið verk sín í umrætt sinn að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli yfirmanna sinna, en vegna eðlis starfsins, aðstæðna á vettvangi, sem voru á ábyrgð stefnda, mistaka annarra starfsmanna eða samverkandi áhrifa einhverra eða allra þessara þátta hafi stefnandi orðið fyrir alvarlegum meiðslum við vinnu sína, sem hún hafi ekki mátt búast við þegar hún réð sig í vinnu hjá stefnda. Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi, Skagaver hf., verði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt um slys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins, að hafa ekki látið fara fram lögreglurannsókn eða látið taka skýrslur af samstarfsmönnum stefnanda. Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að tilkynna slysið er telur stefnandi að stefndi beri ábyrgð á því að engin rannsókn hafi farið fram á vettvangi eða þeim tækjum og búnaði sem verið var að vinna við þegar stefnandi slasaðist, og ekki liggi fyrir framburður neins af þeim mönnum sem voru að vinna með stefnanda á þessum tíma, tekinn á þeim tíma sem slysið varð.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglna um húsbóndaábyrgð. Þá er vísað til laga nr. 46/1980, aðallega IV., V., VI. og VII. kafla. Vísað er til skaðabótalaga nr. 53/1993 og um vexti og dráttarvexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað vitnar stefnandi til XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991. Varðandi virðisaukaskatt af málskostnaði vísar hún til laga nr. 50/1988 og þess að hún er ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi og sé því nauðsyn að fá stefnda dæmdan til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.
Í greinargerð stefnda er málavöxtum ekki lýst sérstaklega en vísað stuttlega til atvikalýsingar stefnu.
Um málsástæður stefnda segir í greinargerðinni að hann byggi aðalkröfu sína um sýknu á því, að tjón stefnanda sé að rekja til óhappatilviks, sem hún verði sjálf að bera afleiðingarnar af. Heldur stefndi því fram að ekki hafi verið fyrir hendi atvik er geti fellt á hann fébótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir.
Á þeim tíma er slysið varð, segir í greinargerð stefnda, hafi ekki verið til reglur eða staðlar sem kveðið hafi á um hvernig staðið skyldi að notkun ruslagáma við fyrirtæki. Gámur sá er óhappið hafi orðið í standi enn við fyrirtæki stefnda. Hann sé af venjulegri stærð, 20 fet að stærð [Hér mun átt við lengd. Innskot dómara] og með sléttu trégólfi. Í raun sé um að ræða flutningagám. Áður en slys stefnanda hafi orðið, hafi gámur þessi verið notaður í mörg ár til að losa í sorp frá verslun stefnda án nokkurra vandkvæða. Heldur stefndi því fram að þessi “aðbúnaður” hafi verið venjulegur og eðlilegur á þeim tíma, miðað við þann rekstur sem stefndi hafði þá með höndum, og hafi reyndar enn. Svipað fyrirkomulag hafi tíðkast víðar hjá fyrirtækjum á Akranesi. Þessi “aðbúnaður” hafi ekki verið hættulegur. Mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að ekki hafi verið um “viðurkenndan búnað” að ræða. Á þeim tíma er óhapp stefnanda varð, í ágúst 1995, hafi ekki verið komnir í notkun sérstakir ruslagámar á Akranesi, og enginn hafi boðið afnot af slíkum gámum né losun þeirra. Svo mikið hafi fallið til af sorpi að ekki hafi verið hagkvæmt eða eðlilegt að nota ruslatunnur, sem fyrst og fremst miðist við notkun fyrir heimili. Sú aðferð stefnda að fara með pappa og aðrar umbúðir utan af vöru og annað sorp út úr verslun sinni inn í lokaðan gám fyrir utan verslunina, hafi verið eðlileg ráðstöfun, sem m.a. hafi dregið úr brunahættu.
Á þessum tíma, segir enn í greinargerð stefnda, hafi sorphirðu verið svo háttað á Akranesi, að heimilissorp hafi verið sett í stóra ruslapoka, sem sóttir hafi verið vikulega. Ekki hafi verið boðið upp á losun á sorpi sem sérstaklega hafi verið sniðin fyrir fyrirtæki. Því hafi það verið eðlileg aðferð stefnda að koma tilfallandi sorpi fyrir úti í gámi við fyrirtækið, þangað sem það var sótt af sömu aðiljum og sóttu heimilissorpið. Enginn munur hafi verið á losun eftir því hvort sorp kom frá heimilum eða fyrirtækjum. Sérstakt fyrirtæki hafi annast sorplosun skv. samningi við Akraneskaupstað. Mótmælir stefndi því að sú aðferð hans við losun á sorpi, sem hér hefur verið lýst, hafi verið hættuleg eða að svo megi líta á, að öryggismál starfsmanna stefnda hafi verið ábótavant vegna hennar.
Stefndi mótmælir því að ástand eða aðstæður inni í gámnum hafi verið hættulegar vegna óhreininda eða hálku. Þetta hafi verið 20 feta gámur með sléttur trégólfi. Inn í hann hafi verið raðað sorpi sem kom frá verslun stefnda. Með þessu aðstæðum hafi starfsmönnum stefnda ekki verið búin nein hætta. Með eðlilegri aðgæslu hafi engin hætta fylgt því að fara með sorp inn í gáminn.
Í greinargerð stefnda er vitnað til skýrslu stefnanda í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Vesturlands 4. febrúar 1998. Þar komi fram að stefnandi hafi verið að fara sína þriðju ferð í gáminn með rusl þegar hún féll. Þar segi og að stefnandi “hafi vitað það áður en slysið varð að maður frá sorphirðunni hafi kvartað yfir ástandinu í gáminum.” Stefndi heldur því fram að af þessu megi ljóst vera, að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu þegar hún fór í þriðja og síðasta skiptið inn í gáminn með sorp.
Stefndi heldur því fram að ekki eigi það að skipta máli varðandi sönnunarstöðuna í máli þessu að hann tilkynnti ekki um slys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins.
Ef sú verður niðurstaða dómsins að stefndi beri fébótaábyrgð á óhappi stefnanda, heldur stefndi því fram, að skipta eigi sök. Varakrafan um lækkun krafna stefnanda byggi á því að óhappið megi að verulegu leyti rekja til aðgæsluleysis stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar. Krafa hans um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Skýrslur fyrir dómi.
Í sérstöku vitnamáli vegna atvika þessa máls, nr. V-1/1998, voru teknar skýrslur af stefnanda og 7 vitnum 4. febrúar 1998. Stefnandi gaf síðan skýrslu við aðalmeðferð, og þá gaf framkvæmdastjóri stefnda, Sveinn Arnar Knútsson og skýrslu; ennfremur bar þá vitni Jóhanna Baldursdóttir, starfsmaður stefnda, þegar slys varð.
Í skýrslu sem stefnandi gaf í fyrr nefndu vitnamáli, sagðist hún hafa slasast 2. ágúst 1995 í ruslagámi við verslunina Skagaver. Sagði hún að í gáminum hefði verið allskyns rusl, t.d. pappakassar, og hefði verið nokkuð mikið í gáminum þegar slysið varð þar sem það hefði átt sér stað í lok vinnudags. Bleyta hefði verið á gólfi gámsins, en í hann hefði oft verið hent ónýtu grænmeti og ávöxtum. Stefnandi kvaðst ekki hafa kvartað við forsvarsmenn stefnda um aðstæður í gáminum, enda hefði hún verið í afleysingum í versluninni og búin að vinna stutt á lager verslunarinnar. Hún kvaðst hafa vitað að sorphirðumenn hefðu kvartað a.m.k. einu sinni yfir aðstæðum í gáminum við forsvarsmenn verslunarinnar. Stefnandi kvaðst ekki hafa fengið önnur fyrirmæli um umgengni við gáminn en að hafa þar eins snyrtilegt og hægt væri og setja ruslið langt inn í gáminn, svo að það félli ekki á sorphirðumenn er þeir opnuðu hann. Hún sagði að slysið hefði viljað þannig til að hún hefði runnið til á gólfi gámsins og fundið um leið til verkjar í hné, fallið og ekki getað staðið upp. Hún kvaðst hafa legið þar í smátíma en síðan getað kallað á hjálp, og hefði Ólöf Linda Ólafsdóttir komið og náð í fleiri starfsmenn til aðstoðar. Hún kvaðst hafa verið flutt á sjúkrahús með sendibifreið stefnda og hafi tveir starfsmenn verslunarinnar farið með henni. Hún kvaðst hafa verið nálægt því að vera hálfnuð inn í miðjan gáminn er hún hefði fallið.
Stefnandi sagðist hafa byrjað að vinna hjá stefnda í Skagaveri um miðjan júní og verið búin að vera í nokkra daga á lagernum þegar slysið átti sér stað. Hún kvaðst hafa átt að fylla á grænmeti og ávexti í verslunina og henda því sem hefði verið ónýtt í gáminn. Þá kvaðst hún hafa átt að sjá um ruslið, sem hún hefði sett í gáminn og einnig að reyna að sjá til þess að ástandið í gáminum væri viðunandi fyrir sorphirðumennina, þannig að pappakassarnir hryndu ekki yfir þá, en hún sagði að hver hefði átt að ganga frá því rusli sem hann setti í gáminn. Stefnandi kvaðst telja að um hefði verið að ræða þriðju ferð hennar í gáminn daginn sem óhappið varð. Hún kvaðst hafa vitað það áður en slysið varð að maður frá sorphirðunni hefði kvartað yfir ástandinu í gáminum. Þá sagði hún að hún hefði ekki verið eini starfsmaðurinn sem farið hefði með rusl í gáminn. Hún kvaðst ekki hafa fylgst sérstaklega með gólfinu í gáminum áður en hún fór með rusl þangað.
Við aðalmeðferð málsins 20. janúar sl. sagði stefnandi aðspurð að þann dag sem slysið varð hefði hún verið að vinna í grænmeti. Hluti af því rusli sem hún hefði farið með í gáminn hefði verið úrgangur grænmetis og ávaxta. Hún hélt að í þriðju ferðinni, þegar hún slasaðist, hefði hún verið að bera út tóma pappakassa.
Stefnandi var spurð um líðan sína nú. Hún sagði þá að hún ætti erfitt með að ganga langar göngur og að hún hlypi ekki. Ef hún reyndi að hlaupa fyndi hún til sársauka og stirðleika í vinstra hné. Hún greindi frá því að hún starfaði sem stuðningsfulltrúi og ynni með fötluðu fólki. Sagði hún aðspurð að vegna álags á hnéð gæti verið mjög erfitt fyrir hana að lyfta fólki, ef það væri þungt. Þetta hefði háð sér í starfi. Hún kvaðst ekki eiga auðvelt með að leggjast á hnén eða sitja á hækjum sínum. Hún kvaðst kenna til verkjar í hnénu a.m.k. einu sinni í viku hverri, misjafnlega mikið eftir álagi.
Lögmaður stefnda spurði stefnanda hvort það hefði verið hluti af föstum starfsskyldum hennar að fara með rusl í gáminn. “Maður gekk náttúrlega frá eftir sig,” svaraði stefnandi, “það áttu allir starfsmenn að gera.” Því hefði fylgt að fara með rusl í gáminn. Nánar spurð af lögmanni sínum, sagði hún að þau fyrirmæli hefðu verið gefin að allir starfsmenn gengju vel frá og hentu rusli. Hún kvaðst hafa fengið þessi fyrirmæli, sagðist muna að hún hefði fengið skilaboð um að þetta væri ósk framkvæmdastjórans, Sveins Arnars Haukssonar.
Stefnandi var spurð um skóbúnað hennar, og sagðist hún örugglega hafa verið á sléttbotna skóm.
Sveinn Arnar Knútsson, framkvæmdastjóri stefnda, gaf aðiljaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann greindi frá því að gámurinn, þar sem slysið varð, væri enn í notkun og stæði fyrir utan verslun stefnda. Hann væri 20 feta langur, breiddin væri u.þ.b. 2,4 2,5 m. Dyraop gámsins næði yfir alla breiddina. Gámurinn stæði á jörð. Lágt er að stíga upp í hann, aðilinn hélt það væru 15-20 sm. Í gólfi gámsins er sléttur krossviður.
Framkvæmdastjórinn var inntur eftir hvaða tilhögun hefði verið höfð á þeirri vinnu að fara með rusl í gáminn. Hann sagði að vinnureglan væri sú og hefði verið, að það starfsfólk sem ynni við að setja fram vörur, skilaði frá sér umbúðum í anddyri vörumóttöku verslunarhússins. Almenna reglan hefði verið sú að það fólk sem væri að vinna “á bak við” hefði séð um að fara með umbúðir út í gám. “Það svona bar eiginlega ábyrgð á því.” Aðilinn bætti við að svo hefði “starfsfólk verið að gera þetta sjálft”, að fara með rusl. Hann sagði að hann hefði engin sérstök fyrirmæli gefið um þetta til starfsfólksins og alls ekki til þeirra sem voru í tímabundnu starfi. Hann kvaðst að jafnaði hafa verið í fyrirtækinu og haft þar daglega stjórn, en hann hefði haft aðstoðarfólk sem hefði séð um þetta, og á þessum tíma hefði það verið Ólöf Linda Ólafsdóttir, sem borið hefði ábyrgð á gáminum og því farið væri með rusl í hann frá vörumóttökunni. Aðilinn bar að ekki hefði verið um það að ræða að það hefði verið starfsskylda allra að fara með umbúðir út í gáminn. Hann kannaðist ekki við að hafa gefið fyrirmæli um það. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa vitað af því að stefnandi hefði farið með rusl út í gáminn. Hann kannaðist þó við að hafa vitað að starfsfólk hefði verið að fara með rusl úr búðinni út í gáminn, hefði notað tækifærið að viðra sig þegar gott var veður. En þetta hefði alls ekki verið starfsregla.
Framkvæmdastjórinn var spurður hvort sorphirðumenn hefðu kvartað yfir frágangi á sorpi í gáminum. Hann sagði að þeir hefðu gert athugasemdir við það að “bagga upp pappann, og það voru svona plastumbúðir, sem voru settar kannski í kassa, sem þeir vildu að væru settar í poka.” Sorphirðumennirnir hefðu unnið í ákvæðisvinnu, “og þeir vildu fá þetta þannig í hendur að þeir gætu verið sem allra fljótastir.” Aðilinn var þá spurður hvort hann kannaðist við að sorphirðumenn hefðu kvartað yfir því að ávextir eða grænmeti hefði “verið þarna út um allt laust”. Svar framkvæmdastjórans við þessu var ekki eindregið. Hann sagði þó að kvartanir hefðu ekki komið til sín, “þeir voru að tala um þetta við kannski starfsfólkið”.
Framkvæmdastjóri stefnda sagði að gámurinn hefði verið tæmdur að jafnaði einu sinni í viku. Ætlast hefði verið til að hann væri þrifinn eftir tæmingu. Hann var þá spurður hvers vegna hefði þurft að þrífa gáminnn eftir losun. Svar: “Það er bara almennt hreinlæti, ágætisregla.” Þá var spurt hvort gólf gámsins hefði verið útslett eða blautt vegna þess að lekið hefði úr því rusli sem sett var í hann. Aðilinn svaraði að hent hefði verið grænmeti. Það hefði verið sett í poka. Ef poki hefði sprungið, hefði það eðlilega slubbast út. Svo þegar komið hefði vinnuflokkur (“gengi”) að tæma gáminn, þá hefði auðvitað verið handagangur í öskjunni og pokar opnast og sprungið. Sorphirðumenn hefðu líka ekki hent hverju korni. Þess vegna hefði þurft að þrífa gáminn.
Aðilinn var spurður hve margir hefðu verið starfsmenn stefnda þegar slysið varð. Hann gat ekki svarað því nákvæmlega, en taldi að þeir hefðu verið u.þ.b. 10. Aðspurður sagði hann að öryggistrúnaðarmaður fyrirtækisins hefði verið Jóhanna Baldursdóttir, en öryggistrúnaðarmaður starfsfólks hefði verið Rannveig Sigurðardóttir. Hann kvaðst ekki hafa haft starfsmannamál á sinni hendi, Jóhanna Baldursdóttir hefði annast þau.
Framkvæmdastjórinn var spurður hvers vegna Vinnueftirlit ríkisins eða lögregla hefðu ekki verið kölluð til. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa verið í versluninni þennan dag. Þegar hann hefði rætt við “þær þarna eftir þetta, þá var litið á þetta mál af þeim sem óhapp, af mínu starfsfólki, þ. á m. bæði Jóhönnu og Rannveigu.” Þær hefðu litið á þetta sem slys eða óhapp sem ekkert væri neitt við að gera. Það hefði aldrei komið upp efasemd um að þetta væri eitthvað sem væri af völdum fyrirtækisins. Hann sagði aðspurður að stefnandi hefði verið frá vinnu “eðlilega einhverja daga”. Síðan hefði hún verið komin til vinnu aftur nokkrum dögum síðar. Hún hefði svo farið í skóla um haustið.
Jóhanna Baldursdóttir bar vitni fyrir dómi. Hún var starfsmaður stefnda þegar slysið varð. Hún kvaðst aðspurð ekki vilja titla sig starfsmannastjóra, en hún hefði að nokkru leyti séð um starfsmannamál í fyrirtækinu; hún hefði haldið utan um að hlutirnir væru gerðir. Hún hefði ekki ráðið fólk til starfa og ekki sagt því upp. Hún hefði að hluta til séð um innkaup og verið nokkurs konar verkstjóri.
Vitnið Jóhanna var spurð um tilhöguna á frágangi og losun á rusli. Hún sagði að rusli hefði yfirleitt verið hent fram í pakkhús, sem svo hefði verið kallað. Engum hefði verið uppálagt að henda út í gáminn fremur en í ruslahauginn í pakkhúsinu. Enginn ákveðinn starfsmaður hefði átt að sjá til þess að koma ruslinu í gáminn, en undir hælinn hefði verið lagt hvenær farið hefði verið með rusl úr lager út í gám.
Vitnið sagði að Ólöf, sem hefði verið “með mest þarna frammi” hefði séð um að þrífa gáminn. Hún neitaði því að tiltekinn starfsmaður hefði borið ábyrgð á gáminum. Gámurinn hefði oft verið þrifinn eftir losun. Hún kvaðst halda að það hefði fyrst og fremst verið vegna grænmetislyktar. Hún var spurð hvort hún hefði orðið vör við að gólfið í gáminum hefði verið blautt af úrgangi. Hún kvaðst ekki muna það.
Vitnið Jóhanna var spurð hver hefði verið trúnaðarmaður og hver öryggistrúnaðarmaður starfsmanna á þessum tíma. Hún kvaðst halda að Rannveig Sigurðardóttir hefði verið trúnaðarmaður, en kvaðst ekki muna til að það hefði verið neinn öryggistrúnaðarmaður, “ekki kosinn af starfsfólki”.
Hér á eftir verður gerð grein fyrir vætti vitna sem komu fyrir dómi í sérstöku vitnamáli 4. febrúar 1998:
Vitnið Ólöf Linda Ólafsdóttir, kvaðst hafa unnið hjá stefnda í ágúst 1995 og fengið laun frá honum. Þegar slysið varð hefði hún verið í vinnu í Byggingahúsinu. Vitnið kvaðst hafa verið að koma úr Byggingahúsinu og á verið leið í Skagaver þegar slysið átti sér stað. Vitnið kveðst hafa átt að sjá um grænmeti í versluninni og unnið á lager. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að bleyta hafi verið á gólfi umrædds gáms nema þá eftir þvott, sem vitnið sagðist hafa séð um. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað til þess að einhver hefði kvartað yfir aðstæðum í gáminum og hún gæti ekki séð hvernig aðstæður hefðu getað verið betri þar sem um ruslagám hefði verið að ræða. Vitnið sagði að ekki hefði verið mikið rusl í gáminum þegar slysið varð, en hún kvaðst hafa komið stefnanda til aðstoðar og hefði hún verið rétt innan við dyrnar á gáminum. Vitnið sagði að það hefðu ekki verið margir starfsmenn sem hefðu séð um að henda rusli í gáminn heldur aðallega vitnið, Sigurlaug og Rannveig, þ.e. starfsfólk á lager, og það hefði ekki verið neinn sérstakur sem hefði átt að sjá um gáminn. Vitnið sagði að starfsfólk í kjöti hefði að mestu leyti verið það sama og á lager og því gengið um gáminn. Vitnið sagði að stefnandi hefði verið flutt á sendibifreið fyrirtækisins á sjúkrahús og hafi vitnið ekið bifreiðinni.
Vitnið Jónas Hallgrímsson kvaðst hafa verið á launaskrá hjá stefnda í ágúst 1995, en verið í sumarleyfi þegar slysið átti sér stað. Vitnið kvaðst vera matsveinn og hann hefði séð um vinnslu á kjöti og kjötborð. Vitnið kvaðst ekki muna eftir bleytu á gólfi ruslagámsins við verslunina, en hann hefði verið skolaður einu sinni í viku. Vitnið kvaðst hafa farið með rusl í gáminn þrisvar til fjórum sinnum á dag, en flestir starfsmenn í versluninni hefðu hent rusli í gáminn og enginn sérstakur hefði átt að sjá um gáminn. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að kvartað hefði verið yfir aðstæðum í gáminum.
Vitnið Víðir Reynisson kvaðst vera sambýlismaður stefnanda. Hann sagðist hafa verið starfsmaður við sorphirðu á Akranesi í ágúst 1995 og m.a. tekið þátt í því að losa ruslagám við verslunina Skagaver. Hann sagði að oft hefði verið bleyta og óhreinindi á gólfi gámsins og að það hefði komið fyrir að honum hefði skrikað fótur í gáminum vegna bleytu á gólfinu eða einhvers sem hefði fallið á gólfið. Vitnið sagði að það hefði verið algengt að ástandið væri slæmt í gáminum og að sorphirðumenn hefðu a.m.k. tvisvar sinnum kvartað við forsvarsmenn stefnda vegna þess. Ástandið hefði þá skánað fyrst á eftir en síðan farið í fyrra horf. Vitnið bar að ástandið utan við gáminn hafi verið ágætt en matarúrgangur hefði verið út um allt inni í gáminum, m.a. grænmeti og mjólk verið óvarið. Vitnið sagði að gámurinn hefði verið losaður einu sinni í viku, líklega á mánudegi eða miðvikudegi.
Vitnið Magnús Rafnar Kjartansson kvaðst hafa verið starfsmaður við sorphirðu á Akranesi 1995 og m.a. unnið við að losa ruslagám við verslunina Skagaver, en það hefði verið gert einu sinni í viku á þriðjudegi eða miðvikudegi eftir því hvernig staðið hefði á. Hann sagði að oft hefði verið bleyta á gólfi gámsins, m.a. vegna ávaxta sem hefðu fallið úr umbúðum sem hefðu gefið sig. Vitnið bar að það hefði komið fyrir að honum hefði skrikað fótur í gáminum, m.a. vegna kraminna ávaxta. Vitnið kvaðst hafa kvartað við Svein Knútsson framkvæmdastjóra stefnda, og hefði ástandið í gáminum þá skánað í skamman tíma. Vitnið sagði að úrgangur í gáminum hefði yfirleitt verið í umbúðum og þá helst kössum, en þeir hafi oft gefið sig og innihaldið þá fallið á gólf gámsins. Það hefði verið timburgólf í gáminum, og þegar hann hefði orðið var við hálku í gáminum, minni hann, að þá hefðu ávextir legið á gólfi gámsins.
Vitnið Alfreð Friðrik Adamsson kvaðst hafa unnið við sorphirðu á Akranesi sumarið 1995 og m.a. tekið þátt í því að losa ruslagám við verslunina Skagaver. Það hefði verið reynt að hafa reglu á því og það gert einu sinni í viku, líklega á miðvikudegi. Vitnið bar að oft hefði verið hálka á gólfi gámsins vegna bleytu og hefðu sorphirðumenn kvartað yfir því oftar en einu sinni við forsvarsmenn stefnda, en ástandið hefði ekki skánað við það. Honum hefði þó aldrei skrikað fótur í gáminum. Vitnið bar að bleytan á gólfi gámsins hefði yfirleitt verið vegna ávaxta eða grænmetis, sem hefði legið á gólfi gámsins og því verið stigið á það. Úrgangur hefði stundum verið óvarinn í gáminum eða fallið úr umbúðum sem hefðu verið lélegar.
Vitnið Þórdís Árný Örnólfsdóttir kvaðst hafa starfað á skrifstofu hjá stefnda í ágúst 1995 og m.a. séð um bókhald. Hún hefði ekki starfað við annað hjá fyrirtækinu og ekki hent rusli í gám við verslunina né komið nálægt gáminum. Vitnið kvaðst hafa komið að stefnanda þar sem hún hefði staðið við sendibifreið fyrirtækisins eftir slysið og líklega hefði hún staðið í annan fótinn. Stefnandi hefði verið flutt með sendibifreiðinni á sjúkrahús og hefði vitnið ekið bifreiðinni. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt að kvartað hefði verið yfir aðstæðum við eða í gáminum er hún vann hjá stefnda. Vitnið sagði sér ekki vera kunnugt um að fyrirmæli hefðu verið gefin um umgengni við gáminn eða að einhver ákveðinn aðili ætti að henda rusli í gáminn eða sjá um hann að öðru leyti.
Vitnið Berglind Magnúsdóttir kvaðst hafa verið starfsmaður stefnda í ágúst 1995 og unnið á afgreiðslukassa og í skamman tíma í grænmeti. Hún kvaðst hafa farið einstökum sinnum með rusl í gám utan við verslunina og hefði stundum verið bleyta og hálka á gólfi gámsins. Hún sagði sér ekki vera kunnugt um að kvartað hefði verið yfir ástandinu í gáminum, og hún minnist þess ekki að einhver sérstakur hefði átt að sjá um gáminn, en flestir starfsmenn verslunarinnar hefðu líklega farið með rusl í gáminn. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að henni hefði skrikað fótur í gáminum.
Forsendur og niðurstöður.
Framkvæmdastjóri stefnda, eða fulltrúi hans á vinnustað, tilkynnti ekki um slys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins eða til lögreglu, svo sem honum bar að gera samkvæmt 2. mgr. laga nr. 46/1980, sbr. 3. mgr. 12. gr. sömu laga. Stefndi ber því í máli þessu halla af því að ekki fór fram nein rannsókn á þeim aðstæðum sem slysinu ollu eða hefðu getað valdið, fyrr en teknar voru skýrslur í sérstöku vitnamáli fyrir dómi 4. febrúar 1998. Til grundvallar niðurstöðum leggur dómari frásögn stefnanda og atvikalýsingu stefnu um atvik slyssins, enda samrýmast þær vætti vitna.
Telja verður að stefnanda hafi verið rétt að líta svo á, að það hafi verið starfsskylda hennar að fara með rusl eða sorp í gáminn. Fær framburður hennar um þetta stuðning af vætti vitnanna Jóhönnu Baldursdóttur, Jónasar Hallgrímssonar, Þórdísar Árnýjar Örnólfsdóttur og Berglindar Magnúsdóttur.
Leggja ber til grundvallar niðurstöðu í málinu að stefnandi hafi slasast við það að skrika fótur í bleytu á gólfi gámsins, sem stafaði frá úrgangi sem þar var geymdur. Gólf gámsins er úr sléttum krossviði og má því ætla að það geti orðið mjög hált í bleytu, ekki síst ef hún stafar frá úrgangi grænmetis eða ávaxta. Framburður stefnanda um atvik slyss fær styrkan stuðning af vætti þriggja sorphirðumanna, en tveir þeirra eru henni ótengdir. Vitnin Víðir Reynisson, Magnús Rafnar Kjartansson og Alfreð Friðrik Adamsson bera allir um bleytu og matarúrgang á gólfi gámsins og að kvartað hafi verið yfir þessu við stefnda. Vitnið Víðir sagði að sorphirðumenn hefðu kvartað tvisvar. Ástandið hefði þá skánað, en síðan farið í fyrra horf. Vitnið Alfreð Friðrik bar að sorphirðumenn hefðu kvartað yfir ástandinu oftar en einu sinni, en ástandið hefði ekki skánað við það. Vitnið Magnús Rafnar kvaðst hafa kvartað við framkvæmdastjóra stefnda og hefði ástandið þá skánað skamman tíma. Vitnið Berglind Magnúsdóttir bar að hún hefði einstöku sinnum farið með rusl í gáminn og hefði stundum verið bleyta og hálka á gólfi hans.
Dómara þykir sýnt að kvartanir þær sem atvinnurekandanum, framkvæmdastjóra stefnda, eða öðrum fyrisvarsmönnum stefnda, bárust, hafi átt að verða tilefni til að gæta meiri varúðar en gert var í umgengni í gáminum. Eftirlit með honum var ekki sem skyldi. Af vætti vitna verður ráðið að ótiltekinn hópur starfsfólks bar rusl eða sorp í gáminn, en enginn einn hafði umsjón með honum. Ekkert liggur fyrir um að starfsfólk hafi verið varað við hálku í honum, þrátt fyrir kvartanir sorphirðumanna. Forsvarmenn stefndu máttu þó sjá að bleyta á gólfinu gat valdið því að sá sem þar fór um með byrði í fangi skrikaði fótur og félli við og væri þannig hætta búin. Verður samkvæmt þessu að telja að gáleysi starfsmanna stefnda hafi valdið því að stefnandi slasaðist, og beri stefndi því bótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð.
Sakarskipting kemur hér til álita samkvæmt varakröfu stefnda. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kemur fram að hún slasaðist í þriðju ferð sinni í gáminn daginn þann, 4. ágúst 1995. Henni mátti því vera kunnugt um aðstæður í gáminum. Þá kom það einnig fram í skýrslu hennar að hún hefði vitað, að sorphirðumaður hefði kvartað yfir ástandinu í gáminum. Hefði það átt að vera henni ástæða til að gæta varúðar. Vegna þess sem stefnandi vissi eða mátti vita um aðstæður í gáminum telur dómari að ógætni hennar sjálfrar megi að nokkru leyti kenna um slysið. Er því rétt að hún beri sjálf hluta af tjóni sínu, og þykir dómara hæfilegt að það verði að einum þriðja hluta.
Fjárhæð bóta. Við aðalmeðferð málsins var bókað að ekki væri ágreiningur með aðiljum út af fyrir sig um útreikning bótakröfunnar. Stefndi taldi þó að 6. liðurinn í sundurliðun bótakröfunnar, þ.e. útlagður kostnaður, ætti að falla undir málskostnað. Fellst dómari á það. Samkvæmt þessu og því sem hér er að framan ritað verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda tvo þriðju hluta af kr. 1.757.679 (1.838.683 81.004), eða kr. 1.171.786. Dæmdir verða dráttarvextir af þessari fjárhæð svo sem stefnandi krefst.
Málskostnaður. Rétt er samkvæmt úrslitum máls að stefndi greiði stefnanda málskostnað. Þykir dómara hann vera hæfilegur 350.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar stefnanda og ennfremur virðisaukaskatts af þóknun lögmanns stefnanda.
Sakflytjendur voru Jón Haukur Hauksson hdl. fyrir stefnanda og Tryggvi Bjarnason hdl. fyrir stefnda.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð
Stefndi, Skagaver hf., greiði stefnanda, Sigurlínu Bjarnadóttur, kr. 1.171.786 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.