Hæstiréttur íslands
Mál nr. 579/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var hafnað kröfum stefnda um riftun tveggja greiðslna
Milestone ehf. til áfrýjanda 24. september 2007, en fallist á riftun á greiðslu félagsins 13. nóvember 2008 til hans að fjárhæð 34.200.000 krónur. Stefndi undi niðurstöðu héraðsdóms um höfnun á riftun greiðslna 24. september 2007. Ágreiningur hér fyrir dómi lýtur því einungis að kröfu stefnda um riftun á greiðslunni 13. nóvember 2008.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi veitti áfrýjandi, sem var stjórnarformaður og stærsti eigandi Milestone ehf., félaginu lán 29. ágúst 2008 að fjárhæð 30.000.000 krónur. Gjalddagi lánsins var 30. september 2008, en lánið var endurgreitt með fullum samningsvöxtum og viðbótarvöxtum 13. nóvember 2008 með greiðslu á 200.000 evrum, sem nam 34.200.000 krónum.
Ágreiningslaust er að þegar endurgreiðslan fór fram var Milestone ehf. orðið ógjaldfært. Þegar litið er til stöðu áfrýjanda hjá félaginu og þeirrar þekkingar sem hann bjó yfir um fjárhagsstöðu þess á þeim tíma er lánið var endurgreitt, fól greiðslan í sér ótilhlýðilega mismunun á kostnað annarra kröfuhafa búsins, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um riftun greiðslunnar því staðfest og endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem áfrýjandi fékk greidda, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Jafnframt verður staðfest niðurstaða dómsins um upphafstíma dráttarvaxta og málskostnað fyrir héraðsdómi.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Karl Emil Wernersson, greiði stefnda, þrotabúi Milestone ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015.
Mál þetta var höfðað 8. nóvember 2010, þingfest 13. janúar 2011 og tekið til dóms 17. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er þrotabú Milestone ehf., kt. 640388-1109, Borgartúni 26, Reykjavík.
Stefndi er Karl Emil Wernersson, kt. [...], Engihlíð 9, Reykjavík,.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Milestone ehf., til stefnda, samtals að fjárhæð 1.146.524.089 krónur:
-
Greiðsla Milestone ehf. til stefnda þann 24. september 2007 að fjárhæð 858.485.101 kr.
-
Greiðsla Milestone ehf. til stefnda þann 24. september 2007 að fjárhæð 253.838.988 kr.
-
Greiðsla Milestone ehf. til stefnda þann 13. nóvember 2008 að fjárhæð 34.200.000 kr.
Stefnandi krefst þess einnig að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.146.524.089 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 1.112.324.089 kr., frá 16. ágúst 2010 til 20. ágúst 2010, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Málsatvik
Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu, auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænska félagið Moderna Finance AB.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. september 2009. Frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefndi var stjórnarmaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2006-2009 bæði sjálfur og í gegnum félög í hans eigu.
Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young ehf. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að stefndi hafi á síðustu 24 mánuðum fyrir gjaldþrot Milestone ehf. fengið fjölmörg lán frá félaginu, auk þess sem Milestone ehf. hafi innt af hendi til stefnda fjölmargar greiðslur sem síðar verða raktar.
Stefnandi telur þær ráðstafanir Milestone ehf., að greiða stefnda upp tvö lán með eftirfarandi þremur greiðslum, vera riftanlegar ráðstafanir í skilningi XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (hér eftir laga nr. 21/1991.) og hafa valdið Milestone ehf. tjóni. Þær ráðstafanir voru:
-
Hinn 24. september 2007 greiddi Milestone ehf. 858.485.101 kr. inn á reikning í Landsbankanum Lúxemborg.
-
Hinn 24. september 2007 greiddi Milestone ehf. 253.838.988 kr. inn á reikning í Icebank hf.
-
Hinn 13. nóvember 2008 greiddi Milestone ehf. stefnda 34.200.000 kr.
Með bréfum 16. og 20. júlí 2010 krafðist stefnandi endurgreiðslu og rifti framangreindum ráðstöfunum, en þar sem stefndi hefur hafnað kröfum stefnanda er ágreiningurinn kominn á borð héraðsdóms til úrlausnar.
Stefndi telur málsatvikalýsingu stefnanda ekki tæmandi og í greinargerð er ítarlega lýst rekstri Milestone ehf. á árunum 2007-2008. Vísar stefndi m.a. til þess að Milestone ehf. hafi á árinu 2007 verið orðið stórfyrirtæki, bæði á íslenskan og erlendan mælikvarða. Félagið hafi verið eignaumsýslufélag sem átti að hluta eða öllu leyti meðal annars innlend sem og erlend fjármálafyrirtæki og tryggingarfélög auk félaga í öðrum rekstri. Vöxtur félagsins hafi verið mjög mikill, sérstaklega á árunum 2005 til 2007.
Með vísan til nánar tilgreindra atvika í rekstri Milestone ehf. rekja málsaðilar ógjaldfærni félagsins til mismunandi tíma. Ólík afstaða aðila til þessa atriðis kemur nánar fram í reifun málsástæðna og lagaraka hér á eftir.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að þrjár greiðslu Milestone ehf., til stefnda séu riftanlegir gerningar og krefst riftunar á þeim grunni. Krafa stefnanda um greiðslu frá stefnda að fjárhæð 1.146.524.089 kr. er byggð á 142. gr. laga nr. 21/1991., en er auk þess reist á almennum skaðabótareglum.
-
Greiðsla Milestone ehf. á skuld við stefnda 24. september 2007
Stefnandi byggir á því að samkvæmt bókhaldi Milestone ehf. hafi stefndi veitt félaginu lán að upphæð 1.083.799.997 kr. hinn 19. maí 2006. Lánið hafi verið á gjalddaga 1. júní 2007 en ekki verið greitt þá. Hinn 24. september 2007 greiddi Milestone ehf. lánið upp að fullu með greiðslu á 1.411.612.463 kr. Greiðsla Milestone ehf. hafi verið framkvæmd með þrennum hætti:
-
-
Með lækkun á skuld stefnda við Milestone ehf. að upphæð 299.288.364 kr. Af hálfu stefnanda hefur þessari greiðslu verið rift og er það atriði til skoðunar í öðru máli stefnanda gegn stefnda.
-
Með greiðslu inn á reikning í Landsbankanum Lúxemborg að upphæð 858.485.101 kr.
-
Með greiðslu til Icebank hf. að upphæð 253.838.988 kr.
Stefnandi heldur því fram að á þeim tíma sem lánið var gert upp hafi Milestone ehf. verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar. Félagið hafi í raun verið ógjaldfært. Fyrirsjáanlegt hafi verið á þessum tíma að Milestone ehf. hafi ekki getað greitt allar skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Við þær aðstæður hafi greiðsla félagsins á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra enda ljóst að greiðslan myndi skerða greiðslugetu félagsins og þannig leiða til þess að fjármunirnir yrðu ekki öðrum kröfuhöfum til reiðu.
Í þessu máli er krafist riftunar á greiðslum 2) og 3) hér að framan. Greiðsla 1) 299.288.364 kr. hafi verið framkvæmd með skuldajöfnuði þannig að skuld stefnda, sem til hafi verið komin með ólögmætum lánum Milestone ehf. til stefnda, hafi verið lækkuð sem nam fjárhæðinni. Stefnandi hefur valið að fjalla um greiðslu 1) í öðru dómsmáli. Hér eru hins vegar til umfjöllunar greiðslur 2) og 3) sem stefnandi telur vera riftanlegar með vísan til eftirfarandi sjónarmiða:
-
Greiðsla 858.485.101 kr. sé riftanleg samkvæmt 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
a) riftun samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar umrædd greiðsla, að upphæð 858.485.101 kr., fór fram 24. september 2007 hafi Milestone ehf. verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Á þessum tíma hafi þannig verið fyrirséð að Milestone ehf. gæti ekki greitt allar skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Í þessu samhengi bendir stefnandi á, líkt og fram kemur í skýrslu Ernst & Young bls. 52, að Milestone ehf. skuldaði SJ1 ehf. lán sem var einnig á gjalddaga 1. júní 2007, eins og skuldin við stefnda. Lán SJ1 ehf. hafi aldrei verið greitt en hins vegar hafi lán Milestone ehf. hjá stefnda verið greitt að fullu. Þannig hafi þessar tvær sambærilegu skuldir, sem báðar voru komnar nokkra mánuði fram yfir gjalddaga, verið meðhöndlaðar með gjörólíkum hætti. Ástæðan er sú að ekki voru til fjármunir til að greiða allar skuldir. Við slíkar aðstæður hafi Milestone ehf. verið óheimilt að mismuna kröfuhöfum, sérstaklega ekki í þágu aðaleiganda félagsins.
Við þessar aðstæður hafi greiðsla félagsins að fjárhæð 858.485.101 kr. verið stefnda til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt á kostnað annarra kröfuhafa. Ljóst sé að greiðslan myndi skerða greiðslugetu félagsins og þannig leiða til þess að fjármunirnir yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Af þeim sökum hafi skuld Milestone ehf. við stefnda verið greidd fyrr en eðlilegt var jafnvel þótt gjalddagi hennar hafi verið kominn. Því beri samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. að rifta framangreindri ráðstöfun.
Greiðsla með skuldajöfnuði við þessar aðstæður teljist auk þess óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Greiðsla að fjárhæð 858.485.101 kr. hafi verið innt af hendi á reikning í Landsbankanum Lúxemborg. Líta beri svo á, þangað til stefndi sýnir fram á að hann sé eigandi reikningsins, að Milestone ehf. hafi ekki greitt stefnda beint, heldur hafi Milestone ehf. í raun greitt upp skuld stefnda við þriðja aðila. Með því hafi farið fram einhvers konar uppgjör milli þessara þriggja aðila.
Hafi Milestone ehf. greitt skuld sína við stefnda með því að greiða skuld stefnda við þriðja aðila sé það riftanleg ráðstöfun. Kröfurnar séu ekki milli sömu aðila og stefndi hafi vitað að Milestone ehf. var ógjaldfært þegar skuldajöfnunin átti sér stað.
b) riftun samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. séu einnig til staðar. Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Í tilvitnuðu ákvæði séu skilyrði fyrir riftun ráðstöfunar fjögur: 1. að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg, 2. að ótilhlýðilega ráðstöfunin falli í einn af þremur upptöldum flokkum í ákvæðinu, 3. að skuldari hafi verið ógjaldfær og 4. að sá sem hafði hag af ráðstöfuninni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni og þær aðstæður sem leiddu til ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.
1.-2. Ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Með henni hafi Milestone ehf. greitt skuld við stefnda með greiðslu 858.485.101 kr. á tíma þegar félagið hafi verið ógjaldfært og mikil lausafjárþurrð verið fyrir hendi. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að 858.485.101 kr. voru ekki til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi því orðið fyrir tjóni sem nemi tilgreindri upphæð.
3.-4. Stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin var framkvæmd og stefndi vitað um ógjaldfærni Milestone ehf. þegar ráðstöfunin var framkvæmd, enda stjórnarformaður félagsins og aðaleigandi á þeim tíma. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Um hvort tveggja fjallar stefnandi nánar í fjórða lið málsástæðna sinna hér á eftir.
Stefnandi telur þetta leiða til þess að fyrrnefnd ráðstöfun sé riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.
-
Greiðsla 253.838.988 kr. sé riftanleg samkvæmt 134.,136. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
Skuld Milestone ehf. við stefnda hafi verið greidd með þremur greiðslum. Greiðsla að fjárhæð 253.838.988 kr. hafi ekki verið greidd stefnda beint, heldur runnið til Icebank hf. og dregist þannig frá kröfu stefnda á Milestone ehf.
Í fyrsta lagi hafi þessi hluti greiðslunnar verið framkvæmdur með skuldajöfnuði, en samkvæmt 136. gr. laga nr. 21/1991. má rifta greiðslu sem greidd er með skuldajöfnuði ef ekki mætti beita honum samkvæmt 100. gr. laganna. Skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991. fyrir skuldajöfnuði hafi ekki öll verið til staðar en í ákvæði þessu sé m.a. gert að skilyrði að stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita að Milestone ehf. átti ekki fyrir skuldum. Stefndi hafi á þessum tíma vitað að svo var ástatt fyrir félaginu. Auk þess séu kröfurnar sem mætast ekki milli sömu aðila.
Í öðru lagi sé nefnd greiðsla til Icebank hf. 253.838.988 kr. einnig greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri, enda framkvæmd með því að greiða þriðja aðila og í gegnum þann aðila fór fram þríhliða skuldauppgjör. Greiðslan sé þannig riftanleg samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.,
Í þriðja lagi hafi skuldin verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Þann 24. september 2007 hafi Milestone ehf. byrjað að vanefna skuldbindingar sínar, enda félagið ógjaldfært á þeim tíma. Við þær aðstæður teljist uppgjör skuldarinnar, þótt skuldin hafi verið komin á gjalddaga, framkvæmt fyrr en eðlilegt er, enda felist í uppgjörinu mismunun kröfuhafa.
Öll framangreind skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991. séu til staðar sem leiða til riftanleika þessarar ráðstöfunar. Beri því að rifta ráðstöfuninni samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.
-
Greiðsla Milestone ehf. á skuld við stefnda 13. nóvember 2008
Samkvæmt bókhaldi Milestone ehf. hafi stefndi veitt félaginu lán að upphæð 30.000.000 kr. 29. ágúst 2008. Hinn 13. nóvember 2008 hafi lánið verið endurgreitt með 200.000 evrum. Gengi evru hinn 13. nóvember 2008 hafi verið 171 kr. og þannig hafi endurgreiðslan numið 34.200.000 kr.
Þegar lánið var greitt upp hafi Milestone ehf. verið ógjaldfært og íslenska bankakerfið hrunið. Eignir Milestone ehf. hafi þá þegar rýrnað verulega og félagið verið í vanskilum með stórar skuldbindingar sínar. Aðalviðskiptabanki félagsins hafi verið fallinn og óumdeilt að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Við þær aðstæður hafi greiðsla Milestone ehf. á 34.200.000 kr. 13. nóvember 2008 á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra, enda ljóst að greiðslan myndi skerða greiðslugetu félagsins og þannig leiða til þess að fjármunirnir yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Af þeim sökum hafi skuld Milestone ehf. við stefnda verið greidd fyrr en eðlilegt var.
Greiðslan sé því riftanleg samkvæmt 2. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
Þá hafi vextir af láninu verið 4.200.000 kr. á tímabilinu 29. ágúst 2008 til 13. nóvember 2008 en það séu u.þ.b. 67% ársvextir. Slíkir skilmálar hafi verið gjöf til stefnda, í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991., að því leyti sem vextirnir voru umfram það sem bauðst annars staðar á viðskiptalegum forsendum.
1. Ógjaldfærni Milestone ehf. þegar ráðstöfun/greiðsla átti sér stað
-
Almennt um ógjaldfærni
Samkvæmt 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 134. gr. og 141 gr. laga nr. 21/1991 verði ráðstöfun rift nema leitt verði í ljós að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram og að Milestone ehf. hafi einnig verið gjaldfært þrátt fyrir ráðstöfunina/greiðsluna.
Milestone ehf. hafi verið „ógjaldfært“ ef annað hvort af eftirfarandi atriðum átti við um það þegar hinn riftanlegi gerningur átti sér stað:
1. Eignir Milestone ehf. voru minni en skuldir félagsins.
2. Fyrirséð var að Milestone ehf. gat ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Í umfjöllun um ógjaldfærni verði að hafa í huga, að það sé ekki skilyrði að kröfur hafi fallið í gjalddaga eða að vanskil hafi þegar orðið á kröfum á hendur Milestone ehf. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum geti Milestone ehf. talist ógreiðslufært á tilteknu tímabili jafnvel þótt félagið hafi þá enn verið í fullum skilum við kröfuhafa. Nægjanlegt sé að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að Milestone ehf. myndi ekki geta staðið í skilum við alla kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga.
Mat á því hvort Milestone ehf. gat ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þegar skuldir þeirra féllu í gjalddaga ráðist af heildarmati ýmissa atriða eins og t.d. fjárhæðum krafna, gjalddaga krafna, lausafjárstöðu Milestone ehf., eignastöðu Milestone ehf., hversu auðvelt var að koma eignum í verð, hvort eignir voru bundnar kvöðum, væntanlegum framtíðartekjum o.fl.
Af framangreindum lagaákvæðum og dómaframkvæmd sé ljóst að stefndi, sem riftunarþoli, beri sönnunarbyrðina fyrir því að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfunin átti sér stað. Í því samhengi áréttar stefnandi að almennt sé talið að mat skuldarans sjálfs á eigin eignum verði ekki lagt til grundvallar þegar eignarstaða hans er könnuð. Stefnda dugi þannig ekki að vísa til ársreikninga Milestone ehf. til að sýna fram á að eignir félagsins hafi verið nægjanlegar og umfram skuldir. Til þess að stefndi geti með fullnægjandi hætti leitt í ljós gjaldfærni Milestone ehf. verði hann að sýna fram á raunverulegt söluverðmæti eignanna þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram.
-
Afstaða eigenda Milestone ehf. til gjaldfærni félagins
Samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007 hafi eigið fé félagsins numið rúmum 84 milljörðum króna í lok ársins 2007 og þar af hafi óráðstafað eigið fé numið rúmum 74 milljörðum króna.
Ársreikningur sé aftur á móti ekki hlutlaus greining á stöðu félagsins enda sé ársreikningur saminn af stjórn og framkvæmdastjóra félagsins, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Stjórn Milestone ehf. hafi hvorki verið óháð né skipuð fagmönnum. Stjórn Milestone ehf. hafi verið skipuð stefnda og Steingrími Wernerssyni en þeir hafi átt um 95% alls hlutafjár í Milestone ehf. Framkvæmdastjóri félagsins var Guðmundur Ólason en hann átti 1,5% í félaginu. Þeir aðilar sem sömdu ársreikninginn hafi þannig haft gríðarlega hagsmuni af gengi félagsins. Sönnunargildi ársreiknings fyrir árið 2007 verði því að meta í samræmi við meginreglur réttarfars um skjöl sem annar aðilinn útbýr og með hliðsjón af þeim hagsmunum sem stjórnarmenn og framkvæmdastjóri hafi haft af efni ársreikningsins.
Bókhald Milestone ehf. beri með sér að rekstur félagsins hafi verið erfiður allt árið 2008 þar sem félagið fjármagnaði sig ítrekað með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum.
Trú stjórnenda Milestone ehf. eða annarra um stöðu félagsins á hverjum tíma skipti engu við mat á gjaldfærni félagsins. Jafnvel þótt stjórnendur og aðrir hafi talið að staða félagsins hafi verið góð fram á síðustu mánuði ársins 2008 hafi seinni tíma könnun á staðreyndum leitt í ljós að svo var alls ekki.
-
Afstaða stefnanda, þb. Milestone ehf., til gjaldfærni Milestone ehf.
Stefnandi leggur á það áherslu að Milestone ehf. þurfi annaðhvort að hafa verið fyrirsjáanlega ófært um að greiða skuldir á gjalddaga eða hafa átt minni eignir en skuldir. Hvor aðstaðan fyrir sig sé nægjanleg til að Milestone ehf. teljist hafa verið ógjaldfært en hér verði fjallað um bæði atriðin, enda séu atriði þessi nátengd.
Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði árin 2007 og 2008
Fjármálakerfi landsins í heild hafi verið komið í óefni strax árið 2006 og að ekki hafi verið hægt að bjarga því eftir það. Í ágripi um meginniðurstöðu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (hér eftir einnig nefnd „SRA“) segir að bankakerfið hafi verið orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis og að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 (SRA 1. bindi, bls. 32). Á sama stað segir einnig að síðla árs 2007 og á árinu 2008 hafi verið farið að þrengja að bönkunum og að mörkin milli hagsmuna þeirra og hagsmuna stærstu hluthafa þeirra hafi oft verið óskýr (SRA 1. bindi, bls. 33). Alþjóðleg fjármálakreppa hafi hafist sumarið 2007 og með lækkandi hlutabréfaverði veturinn 2007-2008 hafi tryggingastaða erlendra lána íslensku fjárfestingafélaganna versnað (SRA 1. bindi, bls. 35-36).
Við erfiðleika Gnúps ehf. síðla árs 2007 hafi athygli erlendra aðila beinst að veikleikum í íslenska fjármálakerfinu (SRA 2. bindi, bls. 178). Í 2. bindi SRA segi m.a. á bls. 175:
„Á seinni helmingi árs 2007 þegar alþjóðlegir lánamarkaðir voru orðnir mjög erfiðir og eignaverð farið að lækka, þrengdist staða íslenskra fjárfesta mjög, enda margir hverjir mjög skuldsettir. Með lækkandi hlutabréfaverði versnaði tryggingastaða lána og erlendir lánveitendur íslensku fjárfestanna fóru að kalla eftir auknum tryggingum.“
Niðurstöður Ernst & Young ehf.
Stefnandi bendir á að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young ehf. hafi verið fengið til að kanna ítarlega bókhald Milestone ehf. og rannsaka rekstur félagsins á tímabilinu 22. júní 2007 til 18. september 2009. Meðal þess sem Ernst & Young ehf. kannaði ítarlega hafi verið hvenær Milestone ehf. teljist hafa orðið ógjaldfært. Niðurstöður ýmissa rannsókna séu teknar saman á tuttugu blaðsíðum í skýrslu Ernst & Young, bls. 13-32. Á bls. 17 í skýrslunni sé m.a. að finna eftirfarandi ályktun sem dregin er af ýmsum könnunum:
„Greiðsluhæfishlutföll, eins og þau sem við höfum greint frá hér að framan, gefa vísbendingu um getu fyrirtækis til að greiða skammtímaskuldir sínar og til að mæta óvæntri þörf fyrir lausafé. Þessi hlutföll hjá Milestone ehf. benda öll til þess sama, þ.e. að félagið hafi ekki verið í stakk búið til að greiða skammtímaskuldir sínar. Fyrirtæki safna yfirleitt ekki skammtímaskuldum er þau hafa nægt handbært fé“.
Í skýrslu Ernst & Young sé gerð nánari grein fyrir því hvernig komist er að framangreindri niðurstöðu í kjölfar ýmissa rannsókna. Stefnandi vísar til skýrslunnar um nánari útlistun en helstu niðurstöður skýrslunnar séu þessar:
Stefnandi vísar til þess að greiðslubyrði lána Milestone ehf. hafi verið um 17,5 milljarðar króna fyrir árið 2008 og greiðslubyrði Milestone-samstæðunnar það ár nam rúmum 64 milljörðum króna. Stefnandi bendir á að af þessu telji Ernst & Young ljóst að lausafjárstaða Milestone ehf. hafi á þessum tíma skipt meira máli en í eðlilegu árferði.
Ernst & Young telji að reikningsskil Milestone ehf. hafi verið með þeim hætti að afkoma félagsins hafi ekki endilega sagt til um innleystan hagnað og gæði eigin fjár. Það sé raunar mat endurskoðendanna að eiginfjárhlutfall Milestone ehf. segi lítið eða ekkert til um raunverulega greiðslugetu félagsins og hæfi til að standa við skuldbindingar.
Ef gæði hagnaðar (handbært fé frá rekstri/hagnaði) eru minni en 1 þegar litið er til þriggja ára tímabils eða lengri tíma sé það vísbending um vafa á rekstrarforsendum félagsins. Í tilviki Milestone ehf. hafi þessi kennitala að meðaltali verið 0 á árunum 2006-2008.
Veltufjárhlutfall þurfi að vera í kringum 1 en í tilviki Milestone ehf. hafi hlutfallið verið mun lægra á árinu 2007 eða 0,34 (án eigna og skulda við tengda aðila) og 0,56 (með eignum og skuldum við tengda aðila), sjá töflu á bls. 15 í skýrslu. Hlutfallið hríðlækki svo árið 2008.
Hlutfallið gefi vísbendingu um hæfi félagsins til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur næstu tólf mánuði. Í tilviki Milestone ehf. sé hlutfallið mjög lágt og falli verulega frá árslokum 2007.
Kennitalan sýni getu fyrirtækis til að greiða skammtímaskuldir með handbæru fé. Lágt hlutfall þessara útreikninga gefi almenna vísbendingu um yfirvofandi greiðsluerfiðleika eða gjaldþrot fyrirtækis. Í tilviki Milestone ehf. sé hlutfallið í kringum núll frá árinu 2006.
Lausafjáráhætta sé hættan á því að félag eigi of lítið laust fé til að standa við greiðsluskuldbindingar á réttum tíma. Miðað við samningsbundna gjalddaga hafi Milestone ehf. verið í greiðsluvandræðum strax í upphafi árs 2008 og eftir fyrstu þrjá mánuði ársins hafi félagið vantað 1,1 milljarð króna til að standa við gjaldfallnar greiðslur. Heildarfjármagnsþörf félagsins á árinu 2008 hafi verið rúmir 18,2 milljarðar króna en auk þess hafi Milestone ehf. verið í ábyrgð fyrir 14,4 milljarða króna láni Þáttar International hjá Morgan Stanley. Lánið hafi verið gjaldfellt 28. janúar 2008.
Í febrúar 2007 hafi Milestone ehf. greitt langtímalán við Landsbankann með láni frá dótturfélagi sínu, Þætti International ehf. (sem fékk lánið hjá Morgan Stanley). Milestone ehf. hafi einnig tekið rúmlega 11 milljarða lán í febrúar 2007. Í maí 2007 greiddi Milestone ehf. langtímalán frá Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka með nýju langtímaláni frá Straumi og með sölu hlutabréfa í Glitni banka hf. og Actavis hf. Þetta séu einu langtímalán félagsins en annars hafi félagið verið fjármagnað með víxlaútgáfu og skammtímalánum (alls um 23 milljarðar króna), aðallega hjá dótturfélögum og Glitni banka hf. Félagið virðist þannig ekki hafa átt kost á að fjármagna sig til langs tíma og því orðið að sætta sig við fjármögnun til skamms tíma með tilheyrandi kostnaði. Hlutfall skammtímalána hafi verið 22% af heildarskuldum við lok ársins 2006 en verið orðið 54% við lok ársins 2007.
Í árslok 2007 hafi langtímaskuldir Milestone ehf. numið rúmum 20 milljörðum króna og engin lán hafi verið endurfjármögnuð árið 2008. Í árslok 2007 hafi skammtímaskuldir Milestone ehf. numið tæpum 24 milljörðum króna. Af þeim skuldum hafi félagið endurfjármagnað tvo víxla, alls að fjárhæð 8 milljarðar króna, en önnur lán verið framlengd.
Á árinu 2008 hafi um 1 milljarður króna verið greiddur í vexti af langtímalánum, allt með nýjum lánum. Á sama ári hafi óverulegir vextir verið greiddir vegna skammtímalána.
Aðalbankareikningur Milestone ehf. hafi orðið neikvæður strax 7. janúar 2008 og svo oft á árinu eftir það. Dótturfélög og félög tengd Milestone ehf. hafi rétt reikninginn af með því að leggja ítrekað inn á hann á árinu 2008.
Milestone ehf. hafi selt dótturfélagi sínu, Þætti eignarhaldsfélagi ehf. allar helstu eignir sínar í árslok 2007. Eignirnar hafi svo verið færðar frá dótturfélagi Þáttar eignarhaldsfélags ehf. til Racon Holdings AB, þaðan til Racon Holdings II AB og að lokum til félagsins Invik & Co. AB. Eignarhald Milestone ehf. hafi þannig verið verulega flókið enda í gegnum fjögur dótturfélög. Ályktun Ernst & Young sé sú að lánardrottnar dótturfélaganna hafi haft forgang að tekjum af þeim eignum sem færðar voru frá Milestone ehf. til Invik & Co. AB með framangreindum hætti. Áhrifin hafi verið þau að tekjustreymi, t.d. arðgreiðslur, frá dótturfélögunum til Milestone ehf. hafi minnkað og dregið þannig enn úr líkum á því að Milestone ehf. gæti staðið við skuldbindingar sínar.
Milestone ehf. hafi átt lítið handbært fé í árslok 2007 og ekki getað staðið við skuldbindingar sínar nema með sölu eigna og/eða nýjum lánum. Þrátt fyrir um 40 milljarða hagnað samkvæmt ársreikningi ársins 2007 hafi handbært fé frá rekstri verið neikvætt um tæpa 3,5 milljarða. Samkvæmt drögum að sex mánaða uppgjöri Milestone ehf. hafi tap á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2008 verið rúmir 13,4 milljarðar.
Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemd við ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2007 þar sem fram kemur að eigið fé samstæðunnar hafi numið um 66 milljörðum króna en óefnislegar eignir hafi numið 88 milljörðum króna. Fjármálaeftirlitið hafi talið að Milestone ehf. uppfyllti ekki kröfur tilskipunar um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum og óskað eftir viðbrögðum félagsins. Af svörum Milestone ehf. verði ekki annað ráðið en að félagið hafi fyrst og fremst ætlað að bregðast við með því að færa eignir frá Milestone ehf. til Invik & Co. AB en Ernst & Young telji að slík tilfærsla hefði ekki leyst eiginfjárvanda Milestone ehf.
Af hálfu stefnda er vísað til kaupa Milestone ehf. á sænska fjármálafyrirtækinu Invik og Co AB fyrir 807 milljónir evra í apríl 2007. Kaupverðið hafi verið um 20-35% yfir skráðu markaðsgengi. Auk þess hafi vísitala sænskra fjármálafyrirtækja lækkað um 17% frá apríl 2007 til ársloka 2007 og lækkunin haldið áfram árið 2008.
Skuldatryggingaálag sé talin góð vísbending um trú fjárfesta á að fjármálafyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar. Skuldatryggingaálag á 5 ára skuldbindingar fjármálafyrirtækja hafi hækkað um 150% á árinu 2007. Álagið hafi áhrif á endurfjármögnunarkjör fyrirtækja enda hækki það vexti þeirra lána sem bjóðast. Þetta leiði til hærri ávöxtunarkröfu, sem nemi hækkun álagsins, og það leiði aftur til verðrýrnunar fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtæki hafi verið stærstu eignir Milestone ehf., t.d. félögin Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Askar Capital hf. og Invik & Co AB.
Stefnandi byggir á því að Ernst & Young telji að sterkar vísbendingar hafi verið um virðisrýrnun viðskiptavildar sem skráð var í ársreikning 2007. Samkvæmt 79. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 og 36. gr. IAS-staðals um virðisrýrnun hafi Milestone ehf. því borið að færa viðrisrýrnun í ársreikning 2007. Viðskiptavild hafi ekki verið afskrifuð með kerfisbundnum hætti í ársreikningum Milestone ehf.
4. Milestone ehf. hafi þegar verið byrjað að vanefna skuldir sem fallnar voru í gjalddaga
Stefndi skírskotar til þess að félag teljist ógjaldfært þegar fyrirséð er að það geti ekki greitt skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga. Þegar félag greiðir ekki skuldir á gjalddaga sé þannig ljóst að félagið er orðið ógjaldfært. Milestone ehf. hafi vanefnt nokkrar skuldir sínar löngu fyrir frestdag og úrskurð um gjaldþrot.
Skuld Milestone ehf. við Leiftra Ltd. hafi verið í vanskilum frá 23. nóvember 2007, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 50 og 53. Milestone ehf. hafi skuldað SJ1 ehf. lán sem var á gjalddaga 1. júní 2007. Lánið hafi aldrei verið greitt en athyglisvert sé að Milestone ehf. átti einnig að greiða Karli Wernerssyni, stærsta hluthafa félagsins, lán á sama gjalddaga, þ.e. 1. júní 2007. Lánið sem Karl veitti hafi ekki verið greitt á gjalddaga frekar en lánið við SJ1 ehf. Skuldin við Karl hafi þó verið greidd í lok september 2007, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 51-52, en ekki með hefðbundinni greiðslu heldur skuldajöfnuði. Það eitt veiti vísbendingu um greiðsluerfiðleika að tvær sambærilegar skuldir, sem báðar voru komnar nokkra mánuði fram yfir gjalddaga, hafi verið meðhöndlaðar með svo ólíkum hætti.
Milestone ehf. hafi einnig vanefnt aðrar skuldbindingar, eins og t.d. um þátttöku í „Indlandsverkefni“ Aska Capital hf.
5. Fjármögnun hafi aðeins fengist hjá Glitni banka hf.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis komi fram að eigendur stóru bankanna hafi átt óeðlilega góðan greiðan aðgang að lánsfé í bönkunum í þeirra eigu (SRA 2. bindi, bls. 171-172). Rannsóknarnefnd Alþingis segi engan vafa á því að bankarnir hafi, löngu fyrir fall sitt, gerst brotlegir við eitt helsta grundvallarákvæði bankalöggjafarinnar, þ.e. að skuldbindingar eða tengd áhætta eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna megi aldrei vera umfram 25% (SRA 2. bindi, bls. 312) Á árunum 2007 og 2008 hafi útlán Glitnis banka hf. til Milestone ehf. verið gríðarlega mikil og hæst farið í 27,02% af eiginfjárgrunni bankans (SRA 2. bindi, bls. 169). Rannsóknarnefndin hafi reiknað út að Milestone ehf., ásamt tengdum félögum, hafi verið stærsta áhættuskuldbinding Glitnis banka hf. (SRA 4. hefti, bls. 152)
Ástæðan fyrir þessum greiða aðgangi að lánsfé hafi verið sú að stór fjárfestingafélög, þ.m.t. Milestone ehf., skulduðu bönkunum svo mikið að bankinn hafi verið orðinn háður velgengni þeirra. Í ágripi um meginniðurstöður Rannsóknarskýrslu Alþingis segi að þegar banki hafi veitt fyrirtæki svo hátt lán að bankinn sjái fram á veruleg skakkaföll lendi lánið í vanskilum sé fyrirtækið í reynd komið með slík tök á bankanum að það geti haft óeðlileg áhrif á framgang viðskipta þess og bankans (SRA 1. bindi, bls. 46). Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar segir m.a. að fall Karls Wernerssonar hefði getað ýtt Glitni banka hf. „fram af brúninni“ (SRA 2. bindi, bls. 318). Glitnir banki hf. hafi þannig haft mikla hagsmuni af því að það kæmi ekki í ljós að Milestone ehf. væri orðið ógjaldfært.
Rannsóknarnefnd Alþingis telji að lánveitingar erlendra banka til íslenskra fjárfesta hafi aukið áhættu bankanna þar sem íslensku bankarnir hafi oft í reynd verið lánveitendur til vara. Þegar erlendu bankarnir neituðu að framlengja lán haustið 2007 og í byrjun árs 2008 hafi íslensku bankarnir endurfjármagnað þau. Ástæðurnar hafi verið sambland nokkurra þátta. Í fyrsta lagi hafi íslensku bankarnir verið búnir að lána þessum aðilum svo háar upphæðir að bankarnir hafi átt mjög mikið undir því að aðilarnir næðu að rétta úr kútnum. Í öðru lagi hafi þessir aðilar haft óeðlilega mikinn aðgang að lánsfé í bönkunum í krafti eignarhluta sinna og áhrifa í bönkunum. Í þriðja lagi hafi þetta verið gert til að koma í veg fyrir að viðhalda verði hlutabréfa í bankanum, enda lánin oft tekin til að fjármagna hluti í bankanum. Loks segi rannsóknarnefndin að erfiðleikar Gnúps ehf. síðla árs 2007 hafi beint athygli erlendra aðila að veikleikum í íslenska fjármálakerfinu. Bankarnir hafi talið að skaðleg áhrif neikvæðrar umfjöllunar yrðu veruleg ef annað stórt fjárfestingafélag lenti í miklum vandræðum. Nefndin dragi þó í efa að ákvarðanir bankanna um að greiða upp umrædd lán við erlenda banka hafi verið í þágu hagsmuna almennra hluthafa og kröfuhafa bankans. Nefndin telji að með lánveitingunum hafi umfram annað verið staðinn vörður um hag skuldsettra eigenda bankanna (SRA 2. bindi, bls. 178-179). Enn fremur segi í 2. bindi SRA m.a. á bls. 175:
„Á seinni helmingi árs 2007 þegar alþjóðlegir lánamarkaðir voru orðnir mjög erfiðir og eignaverð farið að lækka, þrengdist staða íslenskra fjárfesta mjög, enda margir hverjir mjög skuldsettir. Með lækkandi hlutabréfaverði versnaði tryggingastaða lána og erlendir lánveitendur íslensku fjárfestanna fóru að kalla eftir auknum tryggingum. Viðbrögð íslensku bankanna voru að lána fyrir þessum tryggingum.“
Frá og með seinni hluta ársins 2007 hafi Milestone ehf. einungis fengið lán frá Glitni og aðilum tengdum Milestone ehf. (eigendum félagsins og dótturfélögum). Eina undantekningin sé níu daga lán (frá 21. maí 2008 til 30. maí 2008) sem Milestone ehf. hafi fengið frá Icebank að upphæð kr. 1.065.000.000. Að öðru leyti hafi fjármögnun Milestone ehf. falist fyrst og fremst í því að Glitnir veitti Milestone ehf. ný lán, veitti ítrekaða fresti á eldri lánum til félagsins og endurfjármagnaði kröfur annarra lánveitenda, sem misst höfðu trú sína á Milestone ehf. sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 45 - 62.
Milestone ehf. hafi frá og með hausti 2007 verið ófært um að standa við skuldbindingar sínar á gjalddögum og félagið þar með verið ógjaldfært. Félagið hafi enda vanefnt nokkur lán sem komin voru á gjalddaga, m.a. frá júní 2007, og félagið hefði vanefnt mun fleiri skuldbindingar ef Glitnir banki hf. hefði ekki tekið þátt í að leyna stöðu félagsins. Milestone ehf. hafi þannig komist hjá því að vanefna allar skuldir félagsins frá og með seinnihluta ársins 2007 með sífelldri fjármögnun Glitnis banka hf. Vegna framangreindra tengsla sé ljóst að lán Glitnis banka hf. til Milestone ehf., a.m.k. frá og með síðari hluta ársins 2007, hafi ekki verið veitt á viðskiptalegum forsendum heldur verið tilkomin vegna hagsmuna Glitnis banka hf. sjálfs af því að rekstur Milestone ehf. virtist ganga vel.
Glitnir banki hf. hafi þannig lánað Milestone ehf. ítrekað og frá miðju ári 2007 hafi félagið nánast eingöngu verið rekið með lánum frá bankanum. Segja megi að Glitnir banki hf. hafi verið eini bankinn í heiminum sem var reiðubúinn að lána Milestone ehf. Það sjáist af því að Askar Capital hf. hafi leitað að lánum fyrir Milestone ehf. víða um heim á tímabilinu maí til september 2007 en án árangurs, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 15 og 19. Það sé óeðlilegt og ósannfærandi að félag með 80 milljarða króna eigið fé hafi eingöngu haft lánstraust hjá einni fjármálastofnun - og sé um leið einn af stærstu eigendum fjármálastofnunarinnar. Slíkt bendi til þess að markaðurinn hafi talið að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fjármögnun Glitnis banka hf. hafi enda ekki verið byggð á viðskiptalegum forsendum.
Glitnir banki hf. hafi gengið svo langt í að fela ógjaldfærni Milestone ehf. að bankinn hafi endurfjármagnað lán Milestone-samstæðunnar í gegnum félag utan samstæðunnar til að komast hjá reglum um stórar áhættuskuldbindingar og lán til tengdra aðila. Í febrúar 2008 hafi Morgan Stanley krafist greiðslu á um 217 milljóna evra láni sem bankinn hafði veitt Milestone ehf. Milestone ehf. hafi ekki getað greitt lánið og þar með hafi litið út fyrir að félagið vanefndi gríðarstórt lán við einn stærsta banka heims. Milestone ehf. hafi ekki átt í önnur hús að venda en til Glitnis banka hf. en „vandamálið“ hafi verið að bankanum var óheimilt að veita félaginu lánið vegna reglna um hámark áhættuskuldbindinga. Þá hafi verið gripið til þess að veita lánið til Svartháfs ehf., félags í eigu Werners Rasmussonar föður Karls og Steingríms, þáverandi aðaleigenda Milestone ehf. (SRA 2. bindi, bls. 305 og 237-238 og 4. bindi, bls. 73 ). Svartháfur ehf. hafi í kjölfarið greitt upp lánið við Morgan Stanley í gegnum flókna keðju lánveitinga til félaga tengdum Milestone ehf.
Auk þess hafi Glitnir leitað annarra leiða til að útvega Milestone ehf. lánsfjármagn, m.a. með því að sjá um víxilútgáfu fyrir félagið. Víxlarnir hafi svo verið seldir til viðskiptavina einkaþjónustu Glitnis, að því er virðist í mörgum tilvikum án vitneskju viðkomandi viðskiptavina bankans.
6. Veðsetningar sem stofnað var til eftir að krafa myndaðist
Það sé almennt talið til marks um greiðsluvandræði taki skuldari upp á því að veita tryggingar fyrir skuldum sem áður hefur verið stofnað til. Slíkt þyki vísbending um að skuldari vilji tryggja endurheimtur tiltekinna nákominna kröfuhafa vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Slíkar eftirfarandi tryggingar séu enda grundvöllur riftunar samkvæmt 137. gr. laga nr. 21/1991.
Hinn 3. febrúar 2008 hafi Milestone ehf. veitt handveð í innistæðu bankareiknings. Handveðið hafi verið sett til tryggingar láni hjá Glitni banka hf. að upphæð 1.700.000 kr. sem stofnað var til 1. maí 2006. Stefnandi hefur þegar lýst yfir riftun á þessum gerningi.
7. Skuldskeytingar á lánum til starfsmanna
Í apríl 2007 hafi fimm lykilstarfsmenn Milestone ehf. stofnað fimm einkahlutafélög. Í júní 2007 hafi verið undirritaðir kaupsamningar milli Milestone ehf. og félaganna, í eigu starfsmannanna, þar sem Milestone ehf. seldi félögunum eignarhluti í Askar Capital hf. að nafnverði 17.000.000 kr. fyrir 340.000.000 kr. Sama dag hafi verið undirritaðir lánasamningar milli Milestone ehf. og fyrrgreindra starfsmanna eða félaga í þeirra eigu, þar sem Milestone ehf. lánaði 170.000.000 kr. vegna hlutafjárkaupanna í Askar Capital hf. Í febrúar og mars 2008 voru gerðar skuldskeytingar þannig að starfsmennirnir voru leystir úr persónulegum ábyrgðum og einkahlutafélög þeirra tóku við sem skuldarar, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 132-135. Þessi skyndilega breyting á fyrirkomulagi lánanna veitir að mati stefnanda sterka vísbendingu um að starfsmennirnir sjálfir hafi vitað í hvað stefndi í rekstri félagsins.
8. Arður ekki greiddur út þegar hann er ákveðinn
Stefnandi bendir á að 29. febrúar 2008 hafi verið tekin ákvörðun á hluthafafundi um greiðslu arðs vegna ársins 2007. Skilyrði til arðgreiðslu, samkvæmt XII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, hafi ekki verið fyrir hendi eins og fjallað sé um á bls. 118-120 í skýrslu Ernst & Young. Þá veiti það sterka vísbendingu um raunverulega stöðu félagsins að arðurinn var ekki greiddur hluthöfum, heldur færður á viðskiptareikning þeirra sem skuld félagsins til viðkomandi hluthafa. Slíkt bendi til þess að Milestone ehf. hafi einfaldlega ekki haft burði til að greiða arðinn út með peningum. Ákvörðunin hafi svo verið tekin upp í lok ársins 2008 og fjárhæðin lækkuð.
9. Niðurstaða um ógjaldfærni
Um gjaldfærni Milestone ehf. vísar stefnandi til lokaniðurstöðu endurskoðendanna, sem dregin er saman á bls. 13 og einnig bls. 37 í skýrslu þeirra, en þar segir:
„Niðurstaða okkar er að Milestone ehf. hafi verið komið í veruleg vandræði á haustmánuðum ársins 2007. Við teljum að á þessum tíma hafi verið orðið ljóst að Milestone ehf. myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar og að það hafi ekki verið líklegt að úr rættist um fjárhag félagsins í náinni framtíð. Einnig teljum við að sterkar vísbendingar hafi verið um að eignir Milestone ehf. og samstæðunnar hafi verið ofmetnar í ársreikningi 2007. Þannig hafi Milestone ehf. verið orðið ógjaldfært síðla árs 2007.“
Stefnandi byggir á því að stefndi sé nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Er þar sérstaklega vísað til 4.-6. tl. ákvæðisins. Stefndi hafi verið aðaleigandi og stjórnarformaður Milestone ehf. á þeim tíma sem um ræðir og skilyrði ákvæðisins því verið uppfyllt.
Krafa stefnanda um greiðslu 1.146.524.089 kr. úr hendi stefnda byggir í fyrsta lagi á 142. gr. laga nr. 21/1991., en í öðru lagi er sú krafa reist á almennum skaðabótareglum, einkum sakarreglu.
Í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. segir að í kjölfar riftunar með stoð í 131.–138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hafi orðið riftunarþolanum að notum. Þó skuli ekki greiða hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Af þessu leiði að ef fallist verður á riftun ráðstöfunar samkvæmt 131., 134. eða 136. gr. laga nr. 21/1991. líkt og stefnandi krefst, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu á auðgun hans, en tjón stefnanda sé það sama.
Samtals sé um að ræða 1.146.524.089 kr. Greiðslurnar séu riftanlegar og stefndi hafi auðgast um 1.146.524.089 kr. sem svari til tjóns stefnanda.
Verði talið að almenn riftunarregla 141. gr. laga nr. 21/1991. eigi við, byggir stefnandi endurgreiðslukröfu sína á 3. mgr. 142. gr. laganna. Þá sé um skaðabótakröfu að ræða. Tjón stefnanda nemi þeirri fjárhæð sem þrotabúið hafi innt af hendi, 1.146.524.089 kr. Krefst stefnandi þess að stefndi greiði bætur sem samsvara því tjóni.
Stefnandi krefst dráttarvaxta á grundvelli III. kafla laga nr. 38/2001 af öllum framangreindum greiðslum mánuði eftir að stefnda voru send riftunar- og kröfubréf, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Auk þess sem stefnandi krefst riftunar á framangreindum greiðslum krefst hann jafnframt skaðabóta úr hendi stefnda. Skaðabótakrafan er byggð á almennum reglum skaðabótaréttar, auk 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi, sem stjórnarformaður Milestone ehf. og aðaleigandi, tekið þátt í þeim gerningum sem mál þetta lýtur að, eða hið minnsta vitað eða mátt vita um þá gerninga.
Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart Milestone ehf. á grundvelli sakarreglunnar og ákvæða 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfur Milestone hf. á hendur stjórnarmönnum og félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991.
Skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefnda, sem lúta að huglægri afstöðu, séu uppfyllt. Háttsemi stefnda hafi falið í sér gáleysi eða ásetning.
Stefndi hafi sem stjórnarformaður og aðaleigandi félagsins haft þekkingu og fulla vitneskju um framangreindar ráðstafanir. Ætla verði að stefndi hafi tekið þátt í ákvörðun um greiðslurnar til sín. Þá hafi hann sömuleiðis tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að Milestone ehf. greiddi skuldir sínar við stefnda en ekki aðra, á þeim tíma þegar félagið hafi í raun verið ógjaldfært. Þessar ráðstafanir hafi verið ólögmætar, mismunað kröfuhöfum og falið í sér ívilnun gagnvart helsta eiganda Milestone ehf., stefnda. Þessar ráðstafanir hafi valdið Milestone ehf. tjóni. Stefndi hafi þannig brotið gegn starfsskyldum sínum og trúnaði gagnvart félaginu. Í ljósi stöðu, þekkingar og ábyrgðar stjórnenda í félögum skuli beitt ströngu sakarmati við mat á háttsemi fyrrverandi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Milestone ehf.
Stefndi hafi verið svo nátengdur félaginu og stjórnendum þess að hann hafi vitað eða mátt vita að greiðslur Milestone ehf. til hans voru ólögmætar og mismunuðu kröfuhöfum félagsins. Stefnandi bendir á að samkvæmt 48. gr. ehfl. megi stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans og heldur ekki um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna megi stjórn félags og þeir sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd einkahlutafélags ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Samkvæmt 2. mgr. 51. gr ehfl. megi félagsstjórn og framkvæmdastjóri ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.
Stefnandi telur að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem þrotabúinu, öðrum hluthöfum og kröfuhöfum þess var bakað með framangreindum ráðstöfunum.
Orsakatengsl séu milli tjóns Milestone ehf. og ólögmætra athafna stefnda og tjón félagsins er einnig sennileg afleiðing háttseminnar.
Stefnda beri að greiða stefnanda skaðabætur, sem svari til endurgreiðslu þeirra þriggja greiðslna sem inntar voru af hendi sem er stefnufjárhæð þessa máls. Krafan byggir á sakarreglu skaðabótaréttar og 1. mgr. 108. gr. ehfl.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af dómkröfum frá og með mánuði eftir kröfubréf sem stefnandi sendi stefnda þann 16. og 20. júlí 2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga-, skaðabóta- og kröfuréttar sem og ákvæða laga nr. 7/1936, um ógilda löggerninga og málamyndagerninga. Kröfusamlag eigi sér stoð í 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda er studd tilvísun til ákvæða 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 40. gr. og 41. gr. sömu laga.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt.
-
Almennt um ógjaldfærni
Kröfur stefnanda um riftun byggjast á 134., 136. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi bendir á að þar sem meira en sex mánuðir hafi verið á milli þeirra greiðslna sem stefnandi vill rifta og frestdags þá standi og falli málatilbúnaður stefnanda með því hvenær Milestone varð ógjaldfært. Því sé nauðsynlegt að fjalla nokkuð ítarlega um það hugtak áður en litið sé til þess hvort önnur skilyrði viðkomandi lagagreina séu uppfyllt hvað varðar þær greiðslur sem stefnandi vill rifta.
Stefndi mótmælir því að Milestone hafi verið orðið ógjaldfært og þar af leiðandi ógreiðslufært á haustmánuðum 2007. Riftunaryfirlýsing stefnanda og sjónarmið hans um ógjaldfærni Milestone séu alfarið byggð á skýrslu Ernst og Young. Stefndi mótmælir þeirri skýrslu, enda hafi hennar verið aflað án aðkomu stefnda eða nokkurs sem kom að rekstri Milestone. Telur stefndi hana ekki hafa neitt sönnunargildi vegna þessa, auk þess sem forsendur og ályktanir sem í henni koma fram séu berlega rangar. Einkum sé túlkun skýrsluhöfunda á hugtakinu ógjaldfærni ekki í neinu samræmi við fræðiskrif og dómaframkvæmd og því sé sú grundvallarforsenda skýrslunnar einfaldlega röng. Þegar af þeirri ástæðu verði efni skýrslunnar ekki lagt til grundvallar í málinu.
Viðvíkjandi gjaldfærni Milestone komist skýrsluhöfundar að þeirri niðurstöðu að Milestone hafi verið ógjaldfært „síðla árs“ 2007. Þessu hafnar stefndi.
Í kafla 1.4.1 í skýrslu endurskoðendanna sé um hugtakið ógjaldfærni vísað til 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og álitsgerðar frá réttarfarsnefnd 10. september 2009. Skýrsluhöfundar dragi umfjöllunina saman með því að segja það ljóst „að félag [sé] ógjaldfært ef það er ógreiðslufært og getur þannig ekki greitt skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga og að greiðsluörðugleikarnir muni ekki líða hjá innan skamms tíma“. Í stefnu og skýrslu Ernst og Young er því síðan haldið fram að Milestone hafi verið ógjaldfært ef annað hvort af eftirfarandi hafi átt við um það þegar hinn riftanlegi gerningur átti sér stað:
-
Eignir Milestone voru minni en skuldir félagsins.
-
Fyrirséð var að Milestone gat ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Þessu mótmælir stefndi og vísar til þess að félag teljist ekki ógjaldfært í skilningi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga nema bæði þessi skilyrði séu uppfyllt á þeim tíma sem meintur riftanlegur gerningur á sér stað. Þetta sé staðfest bæði af fræðimönnum og með fordæmum Hæstaréttar.
Hér telur stefndi að skera þurfi úr því hvort skuldari geti staðið í skilum þegar kröfur, sem beint er að honum, falla í gjalddaga. Meta þurfi, hvort greiðsluþrot skuldarans sé fyrirsjáanlegt eða ekki. Við það mat beri, auk athugunar á þeim kröfum sem beint er að skuldaranum og gjalddögum þeirra, að kanna tvennt: Annars vegar hvaða eignir skuldarinn eigi og hvaða möguleika hann hafi á því að koma þeim í verð og hins vegar hvaða tekjum hann geti átt von á í framtíðinni. Að auki þurfi að skoða möguleika skuldara til fjármögnunar og frekari lántöku.
Við mat á verðmæti eigna skuldarans beri almennt að leggja til grundvallar söluverð þeirra. Það geti haft mikla þýðingu fyrir skuldarann, hversu mikinn tíma hann hefur til að selja eignir, þannig að ætla megi að hann geti greitt skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga. Við mat á svigrúmi skuldara í þessum efnum skipti gjalddagi krafnanna mestu. Skuldari hafi a.m.k. þann tíma, sem líður fram að gjalddaga þeirra.
Seinna atriðið, þ.e. að ekki verði talið að greiðsluörðugleikar skuldara muni líða hjá innan skamms tíma, feli í sér að ekki megi vera um tímabundið ástand að ræða. Með þessu orðalagi sé meðal annars gefið svigrúm til að taka mið af mismunandi aðstæðum og tímabundnum sveiflum í vissum atvinnugreinum. Við mat á þessu atriði verði í raun að spyrja hversu löng sé venjuleg lægð í greiðslugetu þeirra sem fást t.d. við sömu atvinnugrein og viðkomandi skuldari og hvort það sjáist batamerki í tilviki skuldarans þegar sú lægð hefur liðið hjá. Skuldari hafi því visst svigrúm til þess að ráða bót á fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Stefndi telur að með vísan til orðalags 2. mgr., sbr. 1. mgr., 64. gr. laga nr. 21/1991. megi ráða að fjárhagsleg endurskipulagning sem felst í því að skuldarinn tekur fé að láni og/eða gengur á eignir sínar, falli hér undir.
Við mat á því hvort skylda til að gefa félag upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt 64. gr. laga nr. 21/1991. hafi verið til staðar hafi Hæstiréttur talið að líta beri á hvort fyrir hendi hafi verið gögn um skuldbindingar skuldara, hvenær gjalddagi þeirra var og hvaða fjárhæðir hafi verið um að tefla. Til samanburðar hafi jafnframt verið talið að líta beri á gögn um tekjuöflun skuldara á sömu tímabilum, stöðu á bankareikningum, heimild til yfirdráttar, hvort skuldari hafi átt eignir sem ganga hefði mátt á til að afla fjár eða hvort hann hafi annars átt kost á lánsfé.
Skýrsla Ernst & Young feli ekki í sér þá nálgun sem lýst er hér að framan, heldur sé þar viðhöfð sú aðferð að líta til baka frá árinu 2010, þegar ljóst var orðið hvernig markaðir höfðu þróast, og meta stöðuna árið 2007 út frá forsendum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir á þeim tíma sem til skoðunar er. Slík nálgun gangi þvert gegn orðalagi og tilgangi laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau hafi verið skýrð af bæði íslenskum dómstólum og fræðimönnum. Þá gangi niðurstöður skýrslunnar jafnframt þvert gegn öllum samtímagögnum. Til marks um þessa nálgun bendir stefndi á eftirfarandi textabrot á bls. 29 og 32 í skýrslunni:
„Ætla má að verðmæti Invik & Co AB hefði þróast í takt við önnur sambærileg fyrirtæki og því hefði verðmæti félagsins lækkað um 32% til ársloka 2007 og um 45% til loka mars 2008, eins og greint er frá í verðmatsskýrslu Deloitte. Það verður að teljast afar líklegt að verðmæti annarra fjármálafyrirtækja í eigu Milestone ehf. hefðu þróast í sömu átt [...].
Í ljósi þess að endurfjármögnunarkjör eru að versna á þessum tíma gefur það auga leið að ávöxtunarkrafa eykst sem nemur þessari hækkun og gott betur vegna annarra þátta. Verðrýrnun hefur þar með átt sér stað sem endurspeglast í þeirri staðreynd að hlutabréfamarkaðir og sér í lagi fjármálafyrirtæki lækkuðu verulega á seinni hluta ársins 2007 sem bendir til að verðrýrnun hljóti að hafa átt sér stað hjá fjármálafyrirtækjum á borð við Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Askar Capital hf. og Invik & Co AB.
Af því sem hér hefur komið fram er ljóst að verðmæti fjármálafyrirtækja hafði rýrnað mikið í árslok 2007 og tiltrú fjárfesta á að þau gætu staðið við skuldbindingar sínar var í algerri lægð. Það getur vart talist líklegt að önnur lögmál hafi gilt um Milestone ehf. og þau félög sem voru innan þeirrar samstæðu. Það bendir því allt til þess að eignir Milestone ehf. og samstæðu Milestone hafi verið ofmetnar í ársreikningum ársins 2007. Áhrifin eru þau að eigið fé Milestone ehf. og samstæðu Milestone, samkvæmt ársreikningum ársins 2007, var ofmetið.“
Stefndi telur þessa umfjöllun ekki í neinu samræmi við þau viðmið og sjónarmið sem fræðimenn og dómstólar hafi talið rétt að líta til við túlkun á hugtakinu ógjaldfærni. Í því samhengi bendir stefndi á að aðeins einn lögfræðingur kom að vinnslu skýrslunnar. Stefndi bendir á að í ritinu Fjármálastöðugleiki 2007, sem gefið var út af Seðlabanka Íslands 25. apríl 2007, kveði við nokkuð annan tón en í skýrslu Ernst og Young, en þar segir orðrétt á bls. 7:
„Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Það er fært um að standast hugsanleg áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, miðla lánsfé og greiðslum og dreifa áhættu með viðhlítandi hætti. Það er með öðrum orðum sagt fært um að sinna hlutverki sínu með skipulegum og skilvirkum hætti. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst vel áhættupróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert.“
Stefndi vísar til þess að í ritinu Fjármálastöðugleiki 2008, sem gefið var út af Seðlabanka Íslands 8. maí 2008 segi orðrétt á bls. 7:
„Mestu máli skiptir hve vel viðbúið og máttugt fjármálakerfið er til að mæta áföllum, þ.e. hver viðnámsþróttur þess er. [...] Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert.“
Niðurstöður Seðlabankans frá 25. apríl 2007 til 8. maí 2008 séu talsvert frábrugðnar þeim niðurstöðum sem finna megi í skýrslunni. Þannig segi skýrsluhöfundar að tiltrú fjárfesta á að fjármálafyrirtæki gætu staðið við skuldbindingar sínar hafi verið í algerri lægð í árslok 2007, en á sama tíma metur Seðlabanki Íslands stöðuna svo að fjármálakerfið sé traust. Upplýsingar sem birtar voru af hálfu Fjármálaeftirlitsins, allt fram til síðla árs 2008, hafi gefið svipaða mynd af stöðu mála og birtist í fyrrnefndu riti Seðlabankans. Umræddar niðurstöður Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi verið settar fram fyrir hið fordæmalausa hrun sem varð á íslenskum fjármálamarkaði í árslok 2008, en niðurstöður Ernst & Young ehf. hafi verið settar fram tæplega einu og hálfu ári síðar. Rétt sé að hafa í huga að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn höfðu víðtækasta yfirsýn yfir íslenska fjármálamarkaðinn.
Stefndi bendir á að Seðlabanki Íslands fari með stjórn peningamála á Íslandi og hafi m.a. það hlutverk að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og hafi víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum um rekstur slíkra fyrirtækja. Þegar settar séu fram getgátur um það hvernig staðan á fjármálamörkuðum leit út í fortíðinni sé freistandi að setja slíkar getgátur fram með hliðsjón af þeirri vissu sem býr í nútíðinni. Skýrslan beri þess merki að svo hafi verið gert af hálfu Ernst & Young ehf. Það sé hins vegar ekki í samræmi við rétta túlkun á hugtakinu gjaldfærni samkvæmt íslenskum lögum. Hún sé ótvírætt sú að kanna verði, í samræmi við viðurkenndar lögskýringaraðferðir, hvort staðan á tilteknu tímamarki hafi verið með þeim hætti að viðkomandi skuldari hafi verið ógreiðslufær og hafi þannig ekki getað greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga og að greiðsluörðugleikarnir hefðu ekki liðið hjá innan skamms tíma. Því til viðbótar hafi verðmæti eigna á sama tíma verið minna en skuldir.
Ernst & Young ehf. hafi látið undir höfuð leggjast að beita þessari nálgun í skoðun sinni og þegar af þeim sökum séu niðurstöður skýrslunnar varðandi gjaldfærni Milestone bæði rangar og villandi. Eðli málsins samkvæmt sé nauðsynlegt að beitt sé viðurkenndum lögfræðilegum viðmiðunum á þær upplýsingar sem liggja fyrir um atvik málsins, í stað þess að byggja á lögfræðilegum ályktunum endurskoðenda Ernst & Young.
Stefndi gagnrýnir að fulltrúar Ernst & Young ehf. hafi ekki séð ástæðu til þess að leita til fyrrverandi stjórnenda Milestone áður en drög að skýrslunni voru gerð, til þess að ganga úr skugga um að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í skýrslunni væru byggðar á traustum grunni. Skýrsluhöfundar hafi lítið lagt á sig til að leita upplýsinga eða skýringa stjórnenda Milestone og/eða endurskoðenda og ráðgjafa félagsins á starfsemi félagsins. Engra upplýsinga hafi t.d. verið aflað um það hjá stjórnendum hvernig staðið hafði verið að fjármögnun félagsins og viðræðum við lánastofnanir um framtíðarfjármögnun, en slíkar upplýsingar hljóti að gegna lykilhlutverki við mat á gjaldfærni félagsins. Þá horfi skýrsluhöfundar algerlega fram hjá áætlunum félagsins um að selja hluta af Moderna Finance AB til fjárfesta og í framhaldi af því skrá félagið á sænskum kauphallarmarkaði. Þannig beri skýrslugerðin með sér að ekki hafi farið fram fullnægjandi vinna við gagna- og upplýsingaöflun til þess að undirbyggja þær staðhæfingar sem fram koma í skýrslunni.
Af þessum sökum og öðrum séu margar fullyrðingar í skýrslunni um málsatvik beinlínis rangar. Stefndi telur að fjölmargar staðreyndavillur sé að finna í skýrslunni. Nauðsynlegt sé hins vegar að réttar upplýsingar liggi fyrir um atriði sem snúa að mati á gjaldfærni félagsins til þess að unnt sé að komast að upplýstri niðurstöðu með viðurkenndum lögskýringaraðferðum.
Stefndi byggir á því að Milestone hafi verið gjaldfært a.m.k. fram til þess tíma er íslenska bankakerfið hrundi. Félagið hafi brugðist við þrengingum á fjármálamörkuðum með eignasölu og viðleitni til þess að ná fram sem hagkvæmastri samsetningu eigin fjár og lánsfjár. Þetta ferli hafi verið stutt af helstu lánardrottnum og síðar í fullu samráði við þá og með aðkomu þeirra. Að mati stefnda er þetta grundvallaratriði þegar gjaldfærni félagsins er metin út frá íslenskum lögum.
Stefndi telur ljóst að Milestone hafi auðveldlega getað staðið við skuldbindingar sínar allt fram að hruni íslenska fjármálakerfisins í lok ársins 2008, m.a. með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni. Ekki hafi verið fyrirséð að fjármögnunarþörf Milestone myndi aukast og ekki útlit fyrir annað en að félagið hefði trausta fjármögnun hjá aðalviðskiptabanka samstæðunnar, Glitni banka hf.
Í stefnu sé reynt, með vísan til Rannsóknarskýrslu Alþingis, að gera lánveitingar Glitnis banka hf. til Milestone tortryggilegar á þeim grundvelli að hagsmunir bankans af því að félög tengd Karli Wernerssyni gengju vel væru það miklir að fall hans hefði getað ýtt Glitni fram af brúninni, eins og þar segir. Stefndi telur að hafa verði í huga að í máli þessu sé gjald- og greiðslufærni Milestone til skoðunar en ekki innri málefni Glitnis banka hf. Þar sem Milestone hafi náð að fjármagna sig, hvaðan sem þeir fjármunir komu, þá hafi skilyrði þess að félagið væri bæði ógreiðslufært og ógjaldfært ekki verið til staðar. Það sé ekki hægt að leggja það á lántaka, sem ekki hefur neina stöðu innan fjármálafyrirtækis og/eða yfirsýn yfir það hvort lánareglum þess sé fylgt þegar kemur að ákvarðanatöku, að fylgjast með innri málefnum fjármálafyrirtækis þegar kemur að ákvörðun um lánveitingu. Þar sem Milestone hafi getað endurfjármagnað sig og komið í veg fyrir að skuldir þess féllu í gjalddaga þá hafi félagið ekki verið ógreiðslufært fyrr en eftir fall bankakerfisins. Af þessum sökum mótmælir stefndi því einnig að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að Milestone gæti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga. Þetta sé rangt, enda hafi engar kröfur fallið í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins. Glitnir hafi ekki verið að „fela ógjaldfærni Milestone“, líkt og fram kemur í stefnu.
Í stefnu og skýrslu Ernst & Young komi fram að Milestone hafi þegar á árinu 2007 verið farið að vanefna skuldbindingar sem féllu á gjalddaga. Þessu mótmælir stefndi. Það teljist ekki vanefnd á skuld þegar lánveitandi samþykkir skilmálabreytingu á láni sem felur í sér að gjalddagi greiðslu er færður. Það hafi verið tilfellið varðandi kröfur Leiftra Ltd., SJ1 ehf. og Karls Wernerssonar.
Stefndi bendir á, viðvíkjandi kröfum SJ1 ehf. og Leiftra, að SJ1 ehf. hafi verið hluti af samstæðu Sjóvár og að skuldastaða Milestone gagnvart Sjóvár-samstæðunni hafi verið skoðuð heildstætt. Lánið hafi verið veitt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. líkt og fram komi á dskj. 7. Stefndi bendir á að um áramótin 2007/2008 hafi Milestone átt hærri kröfur á Sjóvá-samstæðuna. Uppgjöri hafi verið háttað þannig að skuldir samstæðanna hafi verið jafnaðar út hvor gagnvart annarri. Því hafi aldrei verið um að ræða krossinnheimtu milli samstæða og SJ1 hafi aldrei gert kröfu um að skuldin yrði greidd. Þá hafi Leiftri Ltd. verið stærsti hluthafi Milestone á þessum tíma. Félagið hafi aldrei krafist greiðslu skuldarinnar. Á grundvelli framangreinds hafnar stefndi því að skuldir hafi verið í vanskilum, svo sem greini í kafla 1.4.2 í skýrslu endurskoðendanna. Af hálfu stefnda er á það bent að skuld SJ1 ehf., að fjárhæð um 2 milljarðar króna, hafi verið á gjalddaga 1. júní 2007. Milestone hafi í júlímánuði 2007 selt hlutabréf í Actavis fyrir 18 milljarða króna og í lok júnímánaðar hafi verið gengið frá kaupum á Invik & Co. AB fyrir um 71 milljarð króna. Í því ljósi telur stefndi fráleitt að ætla að skuldir innan samstæðu sem nema margfalt minni fjárhæðum séu vanefndar á svipuðum tíma og enn fjarstæðukenndara að það sé til marks um ógjaldfærni Milestone. Vísar stefndi til þess að fjölmargar skuldir Milestone hafi verið greiddar jafnt um svipað leyti sem löngu síðar, margar hærri en skuldir þessar.
Stefndi telur að forsendur Ernst & Young ehf. byggi ekki á þeim reikningsskilastöðlum sem gilda um gerð og framsetningu ársreikninga fyrirtækja. Niðurstöðurnar byggi frekar á fullyrðingum, án tilvísana í reglur, og tilvísunum í viðmiðanir sem ekki sé heimilt að beita við gerð ársreikninga samkvæmt þeim stöðlum sem um það gilda. Stefndi leggur áherslu á að til grundvallar ársreikningsgerð hjá Milestone og dótturfélögum þess liggi fjölmargar matsgerðir um virði eigna. Ítarleg yfirferð endurskoðenda samstæðunnar og dótturfélaga liggi jafnframt til grundvallar. Allir þessir aðilar hafi miðað vinnu sína við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS sem viðurkenndir séu í þeim ríkjum þar sem félögin störfuðu.
Auk reglubundinnar skýrslugjafar þá hafi um áramótin 2007/2008 átt sér stað umfangsmikil tilfærsla á eignum innan Milestone samstæðunnar. Þeirri yfirfærslu hafi verið endanlega lokið um mánaðamótin mars/apríl 2008. Eignatilfærslan hafi byggst á ítarlegum verðmötum sem fjölmargir íslenskir og erlendir aðilar hafi komið að (sjá dskj. nr. 68-73). Til viðbótar því hafi farið fram ítarleg skoðun eftirlitsaðila bæði á Íslandi og Svíþjóð á reikningum félaganna í því skyni að ganga úr skugga um að eftir endurskipulagninguna myndu félögin uppfylla þær kröfur sem gerðar voru um eftirlit með fjármálasamsteypum á Evrópska efnahagsvæðinu. Með þeim forsendum sem Ernst & Young ehf. leggur til grundvallar í skýrslu sinni og þeirri niðurstöðu að Milestone hafi verið ógjaldfært um haustið 2007, sé því í raun haldið fram að illa rökstutt álit Ernst & Young ehf. eigi að ganga framar eða teljast marktækara en vinna allra þeirra þaulreyndu sérfræðinga sem komu að mati á efnahag og gjaldfærni Milestone á þessum tíma, hvort sem þeir störfuðu hjá endurskoðunarstofum, alþjóðlegum fjárfestingarbönkum og/eða opinberum eftirlitsaðilum.
Á þessum forsendum mótmælir stefndi því að slíkar skilmálabreytingar sýni fram á að félagið hafi verið ógjaldfært á þessum tíma. Hefðu bæði stefnandi og Ernst & Young getað fengið þessar upplýsingar frá stjórnendum félagsins hefðu þeir kosið að gera það. Stefndi kannast ekki við að Milestone hafi vanefnt „aðrar skuldbindingar“ eins og til dæmis um „Indlandsverkefni“ Aska Capital hf. Slíkt sé rangt og ósannað.
Í tengslum við yfirfærslu allra íslenskra eigna Milestone til Invik um áramótin 2007/2008 hafi eignarhald Invik á eftirlitsskyldum félögum í Svíþjóð, Hollandi og á Íslandi hlotið samþykki þarlendra eftirlitsaðila. Af umsóknarferlinu og þeim upplýsingum sem þarf að veita í tengslum við það megi ráða að slíkt samþykki hefði ekki fengist ef móðurfélag Invik, þ.e. Milestone, hefði verið ógjaldfært í þeim skilningi sem hér er til umræðu.
Stefndi bendir einnig á að ársreikningur fyrir rekstrarárið 2007 sýni að eigið fé Milestone hafi um þau áramót verið 84.132.000.000 króna. Fráleitt sé að halda því fram að félag með slíkt eigið fé teljist ógjaldfært. Í stefnu sé reynt að gera ársreikning tortryggilegan með vísan til þess að hann sé saminn af stjórn og framkvæmdastjóra. Það telur stefndi undarlegt, enda allir ársreikningar fyrirtækja samdir af stjórn og/eða framkvæmdastjóra. Það sem skipti máli sé að ársreikningurinn var staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum félagsins, KPMG hf. Fær stefndi ekki séð að óháðu samtímaáliti eins endurskoðendafyrirtækis verði hnekkt með einhliða eftir á aflaðri skýrslu annars.
Í samræmi við kenningar fræðimanna og dómaframkvæmd verði að leggja ársreikninga og skattframtöl félags til grundvallar við mat á því hvort eignir þess hafi verið hærri en skuldir á tilteknum tíma. Slíkum samtímagögnum verði ekki haggað nema eitthvað mikið komi til. Ólíkt skýrslu Ernst og Young sé hér ekki um að ræða gögn sem eru samin einhliða og í þeim tilgangi að nota í dómsmáli.
Með vísan til þess að Milestone hafi náð að endurfjármagna sig á árinu 2008 og að engar kröfur hafi fallið í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins, svo og þess að ársreikningur félagsins miðað við 31. desember 2007 hafi sýnt góða stöðu félagsins telur stefndi að sönnunarbyrði um að Milestone hafi verið ógreiðslufært og ógjaldfært þann 24. september 2007 hafi færst yfir á stefnanda.
Stefndi gerir athugasemdir við þá aðferðafræði Ernst & Young ehf. að leggja til grundvallar eftir á skýringar og staðreyndir sem lágu ekki fyrir á þeim tíma sem um ræðir, taka í engu tillit til samtímagagna og sniðganga með öllu eðli félagsins og þeirrar atvinnugreinar sem um ræðir. Jafnframt gagnrýnir stefndi þá aðferð Ernst & Young ehf. að óska aldrei eftir skýringum eða afstöðu fyrrverandi stjórnenda Milestone, endurskoðenda, eftirlitsaðila og fjármálaráðgjafa, að því er varðar efni skýrslunnar. Slíkt hefði verið forsenda vandaðra vinnubragða við gerð skýrslunnar og trúverðugleika hennar.
Að áliti stefnda er málatilbúnaður stefnanda viðvíkjandi tímamarki meintrar ógjaldfærni og ógreiðslufærni Milestone mjög á reiki. Hafa beri í huga að stærstur hluti stefnukröfu í máli þessu tengist greiðslum sem átti sér stað 24. september 2007. Í skýrslu Ernst & Young komi á nokkrum stöðum fram það mat endurskoðunarfyrirtækisins að vandræði hafi að þeirra mati ekki byrjað fyrr en á árinu 2008.
Af hálfu stefnda er staðhæft að Milestone ehf. hafi ekki getað verið orðið ógjaldfært í september 2007. Sönnunarbyrði um gjaldfærni félagsins á þeim tíma sé fullnægt, sbr. m.a. að öll samtímagögn, svo sem ársreikningar, skattframtöl, greiningar og óháðar sérfræðiskýrslur endurskoðunarfyrirtækja gefi til kynna að félagið hafi verið gjaldfært; Engin lán hafi verið vanefnd á því tímabili sem um ræðir eða næstu misserum þar á eftir. Fjölmörg lán hafi verið greidd upp hvort sem er skömmu fyrir það tímabil sem um ræðir, samhliða því eða næstu mánuði þar á eftir; og ný lán hafi verið tekin allnokkru eftir það tímabil sem um ræðir, sem meðal annars voru nýtt til þess að standa við eldri skuldbindingar.
Stefndi telur að skýrsla endurskoðunarfyrirtækis sem aflað er einhliða löngu eftir þann tíma sem um ræðir og eftir hrun íslensk bankakerfis sem ekki hafi verið fyrirséð í september 2007, og sem aukinheldur grundvallist á rangri lagatúlkun á því lykilhugtaki sem lagt er til grundvallar, geti ekki haggað þessari sönnun. Ekkert í skýrslunni bendi til þess að Milestone hafi verið ógjaldfært í september 2007, sé rétt lagatúlkun þess hugtaks lögð til grundvallar.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að lánardrottnar dótturfélaga hafi haft forgang að tekjum af eignum og að tekjustreymi hafi minnkað frá dótturfélögum til Milestone.
Þar sem Milestone hafi ekki orðið ógjaldfært fyrr en í lok árs 2008 krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.
-
Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 858.485.101 króna
Stefndi telur að ýmsar fullyrðingar í stefnuskjali um þessa greiðslu fái ekki staðist. Stefndi hafnar því m.a. að Milestone hafi verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir þann 24. september 2007 og félagið hafi þá verið orðið ógjaldfært. Skilyrði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. um ógjaldfærni hafi því ekki verið uppfyllt og gerningurinn því ekki riftanlegur.
Um hafi verið að ræða greiðslu á skuld sem var fyrst á gjalddaga 1. júní 2007. Stefndi samþykkti að skilmálabreyta skuldinni þannig að hún skyldi greidd með úttektum af viðskiptamannareikningi stefnda annars vegar [sic] og hins vegar [sic] 24. september 2007. Þessi áætlun hafi gengið eftir. Greiðsla á gjalddaga í umsömdu greiðsluformi sé ekki óvenjuleg, greidd með óeðlilegum greiðslueyri eða greidd fyrr en eðlilegt var. Hún hafi að auki ekki verið ótilhlýðileg eða stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Á þessum tíma og langt fram eftir árinu 2008 hafi Milestone greitt allar skuldir sínar á gjalddaga. Með vísan til þessa mótmælir stefndi því að skuld sem greidd var á gjalddaga hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var.
Stefndi telur það engu skipta við mat á því hvort umræddar greiðslur teljist riftanlegar hver hafi verið eigandi þeirra reikninga sem Milestone greiddi inn á 24. september 2007. Um hafi verið að ræða greiðslufyrirmæli frá stefnda sem óskaði eftir því að fjármunirnir yrðu greiddir á þessa reikninga. Stefndi upplýsir þó að reikningur í Landsbankanum í Lúxemborg sé í eigu félagsins Nordic Pharma Invest, sem stefndi á að fullu (dskj. 90). Millifærsla inn á reikning Sparisjóðabanka Íslands hf. hafi varðað uppgjör af hálfu stefnda í tengslum við flugvélaviðskipti hans.
Stefndi hafnar því alfarið að umrædd greiðsla hafi verið í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Grunnrök reglunnar séu þau að greiði skuldari í öðrum greiðslueyri en peningum séu löglíkur fyrir því að hann eigi ekki reiðufé og það sé ástæða greiðslu með þeim hætti. Við mat á því hvort greitt sé í óvenjulegum greiðslueyri beri því að líta til þess í hvaða mynd greiðslan fari frá skuldara. Þá geti greiðsla í peningum aldrei talist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi greinarinnar. Þar sem greiðslan hafi farið frá Milestone í peningum sé ekki um óvenjulegan greiðslueyri að ræða. Þá sé ljóst að greiðslan hafi ekki verið greidd fyrr en eðlilegt var enda gjalddagi verið kominn.
Greiðsla á skuld inn á reikning þriðja manns teljist aldrei skuldajöfnun. Stefndi telur að stefnandi misskilji það hugtak. Skuldajöfnun í skilningi 136. gr., sbr. 100. gr., laga nr. 21/1991. geti eingöngu átt sér stað milli kröfuhafa og skuldara, þ.e. í þessu tilviki stefnanda og stefnda. Láti stefnandi og stefndi ekki kröfur á hendur hvor öðrum mætast þá sé ekki um skuldajöfnun að ræða. Það að stefnandi greiddi, að beiðni stefnda, skuld sína við stefnda með greiðslu inn á reikning þriðja manns geri uppgjörið hvorki að skuldajöfnun né að greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri, enda hafi greiðslan verið innt af hendi með peningum og engin skuldajöfnun farið fram milli aðila.
Stefndi mótmælir því að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991. eigi við um umrædda greiðslu. Vísar stefndi í því samhengi til fyrri umfjöllunar sinnar þess efnis að umrædd skilyrði séu ekki uppfyllt, sérstaklega hvað varðar ógjaldfærni. Þá séu önnur skilyrði greinarinnar ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi ráðstöfunin ekki verið ótilhlýðileg enda um greiðslu á gjaldfallinni skuld að ræða á sama tíma og aðrar gjaldfallnar skuldir voru greiddar. Í öðru lagi hafi stefndi ekki verið grandsamur um ætlaða ógjaldfærni, þaðan af síður um ætlaðan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar. Með því að leggja til grundvallar grandsemi stefnda um ætlaða ógjaldfærni sé í raun verið að gera þá kröfu til hans að hann hafi átt að sjá fyrir hrun íslensks bankakerfis. Stefndi telur að slíkar kröfur verði ekki gerðar og að sönnunarbyrði um grandsemi stefnda hvíli á stefnanda.
-
Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 253.838.988 krónur
Stefnandi mótmælir því að skilyrði 134., 136. og 141. gr. laga nr. 21/1991. séu uppfyllt hér. Stefndi hafi óskað eftir því að skuld við hann yrði greidd með innborgun á tiltekinn reikning hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. Ástæður fyrir þeirri ósk stefnda skipti engu máli þegar kemur að riftun. Það hafi engin áhrif varðandi riftun hvort stefndi kýs að fá greiðsluna fyrst inn á reikning til sín og greiða greiðslu þaðan til Sparisjóðabanka Íslands hf. eða hvort hann óskar eftir því að stefnandi greiði greiðsluna beint þangað. Slíkt feli hvorki í sér skuldajöfnun né óeðlilegan greiðslueyri, enda greiðslan greidd með umsömdum greiðslumiðli – peningum. Þá vísar stefndi til þess að 136. gr. laganna sé ekki sjálfstæð riftunarheimild og ákvæðinu verði því ekki beitt til riftunar á gerningi.
-
Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 34.200.000 krónur
Umrætt lán stefnda til stefnanda 29. ágúst 2008 hafi verið veitt þar sem hik hafi komist á fjármögnun stefnanda hjá viðskiptabanka Milestone, Glitnis banka hf. Vegna þessa hafi stefndi boðist til að lána stefnanda 30.000.000 króna sem hann og gerði. Um hafi verið að ræða rekstrarlán sem hafi verið nauðsynlegt til að halda eðlilegri starfsemi hjá Milestone og því ekki óeðlilegt að slíkt lán væri greitt. Slík greiðsla sé ekki riftanleg með vísan til 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991.
Ekkert af skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. sé uppfyllt varðandi umrædda greiðslu. Stefnandi byggi eingöngu á því skilyrði að greiðslan myndi skerða greiðslugetu félagsins og þannig hafi hún verið greidd fyrr en eðlilegt var. Varðandi síðara atriðið þá hafi greiðslan verið innt af hendi eftir að gjalddagi hennar var kominn og því ekki greidd fyrr en eðlilegt var. Varðandi síðara atriðið bendir stefndi á að stefnandi sleppi einu orði sem fram kemur í 134. gr. laganna, það er orðinu „verulega“. Til að umrædd greiðsla teljist riftanleg þurfi hún að hafa skert greiðslugetu þrotamanns verulega.
Viðurkennt sé meðal fræðimanna að við mat á því hvort að greiðslugeta sé skert verulega þurfi að líta til hvers og eins máls fyrir sig, það er skilyrðið er afstætt í þeim skilningi að það er ekki sjálfgefið að alltaf verði beitt sömu viðmiðum. Líta verði til fjárhæðar greiðslu samanborið við aðrar kröfur á hendur þrotabúi. Það sé einungis í tilvikum þar sem greiðslur séu háar, metnar í þessu samhengi, sem riftun komi til álita.
Umrædd krafa hafi verið að fjárhæð 34.200.000 krónur en ekki liggi greinilega fyrir hver fjárhæð annarra krafna á hendur félaginu á þessum tímapunkti hafi verið. Því verði að líta til lýstra krafna í þrotabúið. Samkvæmt kröfuskrá séu lýstar kröfur að fjárhæð 95.221.277.512 krónur. Umrædd krafa sé því 0,03% af heildarkröfum á hendur stefnanda. Hvort sem kröfur á hendur Milestone hafi verið helmingi lægri eða tífalt lægri í nóvember 2009 en lýstar kröfur í búið þá teljist greiðsla að fjárhæð 34.200.000 krónur aldrei skerða greiðslugetu verulega þegar skuldir eru þetta miklar. Því beri að hafna riftun á umræddri kröfu, hvort sem er samkvæmt 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991., enda séu skilyrði umræddra ákvæða ekki uppfyllt. Þá verði að telja að endurgreiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum í skilningi 134. gr. laganna enda lánveitingin liður í þeirri viðleitni stefnda að viðhalda eðlilegri starfsemi Milestone, öðrum kröfuhöfum til hagsbóta. Vart verði talið að endurgreiðslan hafi leitt til tjóns fyrir búið enda hafi lánveitingin sjálf farið fram á tíma þar sem stefnandi fullyrðir að búið hafi verið orðið ógjaldfært. Endurgreiðsla á láni sem veitt er eftir slíkt tímamark geti ekki hafa orðið búinu til tjóns. Með því sé stefnandi í innra ósamræmi í málflutningi sínum.
Hvað varðar vexti á umrætt lán, það er 4.200.000 krónur, þá hafi stefndi lýst því yfir við skiptastjóra að þar virðist sem fjármálastjóri Milestone hafi ofgreitt til hans.
-
Fjárkrafa samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að fallast á riftun á hluta eða á öllum þeim kröfum er stefnandi reynir að rifta telur stefndi að sýkna beri stefnda að hluta á grundvelli þess að greiðsluskylda sé ekki fyrir hendi. Ljóst sé að stefndi var ekki grandsamur um riftanleika ráðstafananna.
Verði stefndi dæmdur til greiðslu stefnufjárhæðar þá sé ljóst að endurgreiðsla kröfunnar yrði honum svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiða til þess sama, sbr. 145. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefndi að fella beri niður fjárkröfu stefnanda með vísan til þess eða að minnsta kosti lækka hana verulega. Stefnandi hafi höfðað fjölda riftunarmála á hendur stefnda og hlaupi fjárkrafa stefnanda á milljörðum. Slíkt sé stefnda ómögulegt að greiða, enda hafi fjármunir hans að langmestu leyti verið bundnir í Milestone. Hann hafi glatað þeim fjármunum að öllu leyti. Verði riftunarkrafa stefnanda tekin til greina muni greiðslu sem innheimtist vegna hennar verða dreift á kröfuhafa stefnanda sem að mestu leyti eru stórfyrirtæki, fjármálafyrirtæki eða fjármálafyrirtæki í slitameðferð og félög á þeirra vegum. Telur stefndi það enn fremur styðja niðurfellingu fjárkröfu eða að minnsta kosti verulega lækkun hennar.
-
Krafa um greiðslu skaðabóta
Stefndi telur ekkert ólögmætt við greiðslu þeirra krafna er stefnandi reynir að rifta. Þær hafi átt sér stað á viðskiptalegum forsendum. Annars vegar hafi gjaldfallnar kröfur verið greiddar þegar engar kröfur voru í vanskilum (fyrri tvær riftunarkröfurnar) og hins vegar hafi gjaldfallin skuld verið greidd, skuld sem var minniháttar í samanburði við aðrar skuldir og rekstur Milestone (þriðja riftunarkrafan). Sú krafa sé viðskiptaskuld sem greidd var líkt og aðrar smáar viðskiptaskuldir.
Stefndi mótmælir því að hafa á nokkurn hátt brotið gegn 48. gr. eða 51. gr. laga nr. 138/1994.
Öll störf stefnda fyrir Milestone hafi verið unnin með hagsmuni Milestone og hluthafa þess í huga. Ákvarðanir sem stefndi tók í stjórn Milestone hafi verið byggðar á upplýstu mati stefnda á efnislegu innihaldi þeirra eða að teknu tilliti til þeirra heimilda er hann hafði. Allar ákvarðanir hans hafi því verið á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga. Staða stefnda innan Milestone hafi verið sú að hann var þar formaður þriggja manna stjórnar. Til þess að ákvarðanir fengju brautargengi þurfti að minnsta kosti ákvörðun tveggja stjórnarmanna. Stefndi hafi því ekki upp á sitt eindæmi getað tekið neina ákvörðun innan stjórnar.
Stefndi hafi hvorki haft heimild til firmaritunar fyrir hönd félagsins né prókúruumboð. Honum hafi því verið ómögulegt að taka ákvarðanir upp á sitt eindæmi um ráðstöfun fjármuna félagsins. Stefndi hafi ekki tekið ákvörðun um greiðslu þeirra skulda sem eru andlag riftunarkrafna og enga aðkomu haft að þeim. Þær ákvarðanir hafi verið teknar af þar til bærum stjórnendum félagsins, stjórnendum sem framkvæmdastjóri félagsins hafði boðvald yfir og framkvæmdastjóra sem starfi sjálfstætt en í umboði stjórnar.
Stefndi mótmælir því að hann beri skaðabótaábyrgð vegna greiðslu á skuldum Milestone gagnvart stefnda, enda hafi hann hvergi komið nærri greiðslu þeirra og ekki verið í stöðu til þess að taka ákvarðanir hvað varðar greiðslu þeirra. Ómögulegt sé því að sjá hvernig fullyrðingar um ólögmæti, saknæmi, orsakatengsl, sennilega afleiðingu og annað sem fram kemur um skaðabótaábyrgð í stefnu eigi við um stefnda.
Upphafsdegi dráttarvaxta er mótmælt sem ósönnuðum og órökstuddum. Riftun fari aðeins fram með dómi og verði stefndi því ekki krafinn réttilega um greiðslu á grundvelli riftunar fyrr en í kjölfar dóms.
Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Krafa stefnda um málskostnað er studd tilvísun til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins komu dómkvaddir matsmenn, þeir Eggert Þór Kristófersson og Gylfi Zoega, fyrir dóm og gáfu skýrslu. Auk þeirra gáfu eftirtalin vitni skýrslu fyrir dómi: Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Morgan Stanley, Bryndís Dagsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður reikningshalds hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Guðjón Ásmundsson, fyrrverandi starfsmaður Milestone ehf., Matthias Björk, fjármálastjóri Invik & Co. AB Volati, Sigurður Freyr Jónatansson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Guðni B. Guðnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Magnea Rannveig Hansdóttir, fyrrverandi fjárreiðustjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Sigríður Inga Guðmundsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Sjóvár-Almennra trygginga hf., Þóra Hallgrímsdóttir, fyrrverandi aðallögfræðingur nefnds tryggingafélags, Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis banka hf., Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Milestone ehf., Arnar Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Milestone ehf., Guðný Sigurðardóttir, fyrrverandi lánastjóri á fyrirtækjasviði Glitnis banka hf., Rúnar Guðmundsson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Jóhannes Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Milestone ehf. og Eggert Þorvarðarson, fyrrverandi bókari hjá Milestone ehf.
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar þriggja nánar tilgreindra ráðstafana, en hefur auk þess uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna sömu ráðstafana. Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009 og frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefnandi styður dómkröfur sínar við ákvæði 20. kafla laga nr. 21/1991, sem heimila riftun ráðstafana þrotamanns að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, þ.á m. um ógjaldfærni.
Áður en tekið er til við að leysa úr öðrum atriðum málsins þykir rétt að huga nánar að hugtaksskilyrðum gjaldfærni í skilningi laga nr. 21/1991 með tilliti til þess hvort títtnefnt félag teljist hafa verið gjaldfært þegar hinar umþrættu ráðstafanir voru gerðar.
Skilyrði riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldfærni verða ekki skýrð án tillits til ákvæða 64. gr. sömu laga. Af því leiðir að skuldari verður ekki talinn gjaldfær ef svo er komið að kröfur lánardrottna hans falla í gjalddaga án þess að skuldari geti þá staðið í fullum skilum eða innan skamms tíma frá því. Í samræmi við þetta verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði riftunar meðan búið sem um ræðir telst hafa verið greiðslufært.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að félagið hafi verið orðið ógjaldfært haustið 2007, en því hefur stefndi hafnað. Þótt sönnunarbyrði um gjaldfærni hvíli að meginstefnu á stefnda færist sú byrði yfir á stefnanda sjálfan sanni stefndi að bú Milestone ehf. hafi verið greiðslufært þegar ráðstöfun var gerð. Stefndi staðhæfir að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært fram til 7. október 2008 og byggir þá staðhæfingu m.a. á tilvísun til framlagðra gagna um fjárhagsstöðu félagsins.
Við úrlausn um þetta álitaefni vegur þungt framlögð matsgerð þeirra Eggerts Þórs Kristóferssonar og Gylfa Zoega, sem dagsett er 28. apríl 2014 (dskj. 168). Matsgerð þessi ber með sér að grundvallast á ítarlegum gögnum um fjárhagsstöðu Milestone á tímabilinu 2007-2008. Í matsgerð er um gjaldfærni félagsins komist að þeirri niðurstöðu að markaðsvirði eigna Milestone ehf. hafi verið orðið minna en skuldir félagsins undir lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun annars ársfjórðungs 2008. Hvað greiðslufærni viðvíkur töldu matsmenn sig geta ráðið af fyrirliggjandi gögnum að Milestone ehf. hefði átt „í erfiðleikum með að standa í skulum með skuldir sínar og dótturfélaga a.m.k. frá nóvember 2007“. Þar er nánar rakið hvernig „fjármögnun láns Morgan Stanley í lok árs 2007“ sýni hvernig Glitnir og félög tengd Milestone hafi gert Milestone kleift að standa í skilum „við ótengda aðila“. Fram kemur að þetta hafi m.a. verði gert með því að Glitnir hafi millifært 8,6 milljónir evra á reikning Milestone. Þá segir að á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi „enn [komið] í ljós takmarkað greiðsluhæfi Milestone samstæðunnar“. Í framhaldi af þessu segir á bls. 28 í matsgerð að ljóst sé „að Milestone ehf. hafði takmarkaða greiðslufærni í lok árs 2007 og á fyrri hluta 2008 án aðstoðar Glitnis banka og dótturfélaga sinna“. Síðar á sömu blaðsíðu segir orðrétt: „Greiðslufærni félagsins var undir lok árs 2007 orðin takmörkuð og í lok febrúar var félagið orðið ógreiðslufært án fyrirgreiðslu Glitnis banka og með aðstoð dótturfélaga Milestone.“ Að áliti matsmanna markaði fall Glitnis banka hf. endapunkt í þessum efnum. Vísa matsmenn í niðurstöðum sínum til þess að 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið sett skilanefnd yfir Glitni banka hf. og telja matsmenn ljóst að eftir það „gat Glitnir banki ekki veitt Milestone ehf. þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var til að tryggja greiðslufærni Milestone“. Í þessu samhengi er í matsgerð vísað til tölvupósts Jóhannesar Sigurðssonar, þáverandi aðstoðarforstjóra Milestone, 28. október 2008, þar sem fram kom að Milestone „muni ekki geta staðið að fullu í skilum með kröfur á gjalddaga“. Ekki verður séð að tölvupóstur þessi hafi verið lagður fram sem sjálfstætt dómskjal undir rekstri málsins. Sá skortur á framlagningu kemur þó ekki að sök því við skýrslugjöf undir aðalmeðferð málsins staðfesti Jóhannes Sigurðsson að við fall bankanna hafi hann metið það svo að Milestone ehf. gæti ekki staðið lengur í skilum. Þá hafi orðið verðfall á eignum og þar með hafi skuldir verið orðið meiri en eignir. Bætti Jóhannes því við að fram að þessum tíma hafi menn haldið í vonina um að úr rættist. Í skýrslum sínum hér fyrir dómi staðfestu matsmenn niðurstöður sínar, þ.á m. að eftir að skilanefnd var sett yfir Glitni banka 7. október 2008 hafi félagið ekki verið greiðslufært. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum matsgerðar, sem stefnandi hefur ekki hnekkt með yfirmati, þykir héraðsdómi ógerlegt að staðhæfa að ógreiðslufærni Milestone ehf. skuli miðast við fyrra tímamark en þetta. Hefur í því sambandi verið til þess litið að ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2007 bar vott um sterka eiginfjárstöðu á þeim tíma. Eigið fé Milestone ehf. um áramót 2007-2008 er þar tilgreint sem 84.132.000.000 króna. Við það heildarmat sem héraðsdómur stendur hér frammi fyrir verður ekki fram hjá því litið að ársreikningur þessi var staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum undir merkjum KPMG ehf. Þá ber stefna málsins með sér að stefnanda sé ljóst að stefndi hafi í reynd náð að fjármagna sig fram til 7. október 2008 „með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum“, eins og það er orðað í stefnuskjali. Að teknu tilliti til þessa og að virtum ofangreindum niðurstöðum dómkvaddra matsmanna þykir verða að hafna kröfum stefnanda um riftun þeirra ráðstafana sem gerðar voru fyrir áðurnefnt tímamark, þ.e. 7. október 2008. Skýrsla endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young ehf., sem aflað var af hálfu stefnanda í aðdraganda þess að dómsmál þetta var höfðað, fær ekki haggað framangreindu mati dómsins.
Óumdeilt er með aðilum, að stefndi hafi veitt Milestone ehf. 30.000.000 kr. lán 29. ágúst 2008, enda bera bókhaldsgögn félagsins þetta skýrlega með sér. Af hálfu stefnda hefur lánveiting þessi verið skýrð með þeim orðum að „hik“ hafi komið á fjármögnun félagsins hjá viðskiptabanka þess, Glitni banka hf. Því hafi stefndi boðist til að lána félaginu nefnda fjárhæð, sem „rekstrarlán“. Þetta hafi verið „nauðsynlegt til að halda eðlilegri starfsemi hjá Milestone [...]“. Lán þetta var endurgreitt 13. nóvember 2008, með nokkuð hærri fjárhæð, nánar tiltekið 34.200.000 kr., en undir rekstri málsins hefur stefndi lýst því yfir að svo virðist sem fjármálastjóri Milestone ehf. hafi ofgreitt til stefnanda og að það sé stefnandi reiðubúinn til að leiðrétta komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að rifta beri greiðslunni. Við aðalmeðferð málsins var ítrekuð málflutningsyfirlýsing í þessa veru.
Hér að framan hefur orðum verið að því vikið hvernig hrun hins íslenska bankakerfis í byrjun októbermánaðar 2008 varð til þess að Milestone ehf. varð í reynd endanlega ógjaldfært. Þegar málefni félagsins voru komin í slík óefni blasti við að nefnd greiðsla að fjárhæð 34.200.000 kr. til stefnda í nóvember 2008 var aðeins til þess fallin að skerða greiðslugetu félagsins enn frekar og hefði í för með sér að óhjákvæmilega stæðu þessir fjármunir ekki öðrum kröfuhöfum til reiðu. Í þessu samhengi verður ekki horft fram hjá nánum tengslum stefnda og Milestone ehf., en stefndi var þar bæði stjórnarformaður og stærsti hluthafi á þeim tíma sem hér um ræðir. Í ljósi þessarar stöðu sinnar mátti stefnda vera ljóst að félagið hafði enga burði til að standa undir umræddri greiðslu og að verið var að greiða skuld við stefnda fyrr en eðlilegt var. Að teknu tilliti til þessara aðstæðna verður á það fallist með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir því að rifta ráðstöfun þessari. Í samræmi við kröfugerð stefnanda og með vísan til fyrirmæla 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður stefnda gert að endurgreiða sömu fjárhæð, þ.e. sjálfan höfuðstólinn auk þeirra 4.200.000 króna sem stefndi tók við sem vaxtagreiðslum vegna tímabilsins 29. ágúst 2008 til 13. nóvember 2008, en stefndi hefur sjálfur fallist á að þar hafi verið um ofgreiðslu að ræða. Upphaf dráttarvaxta skal miðast við 20. ágúst 2010, en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar.
Að þessum úrslitum virtum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem með hliðsjón af umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 2.500.000 krónur.
Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu stefnanda, þrotabús Milestone ehf., þess efnis að rift verði með dómi greiðslu Milestone ehf. til stefnda, Karls Emils Wernerssonar, þann 24. september 2007 að fjárhæð 858.485.101 króna.
Hafnað er kröfum stefnanda þess efnis að rift verði með dómi greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 24. september 2007 að fjárhæð 253.838.988 krónur.
Rift er greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 13. nóvember 2008 að fjárhæð 34.200.000 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 34.200.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2010 til greiðsludags.
Stefnandi greiði stefnda 2.500.000 krónur í málskostnað.
-