Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2015
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2015. |
|
Nr. 332/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Héðni Óla Sæunnarsyni (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Reynslulausn. Skilorðsrof. Vanaafbrotamaður.
H var sakfelldur fyrir sex þjófnaðarbrot samkvæmt tveimur ákærum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hann hefði margsinnis verið dæmdur til refsingar og þar af tíu sinnum fyrir auðgunarbrot. Þá hefði H með brotunum rofið skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt. Hins vegar var það virt honum til refsimildunar að hann hefði játað skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök hjá lögreglu og fyrir dómi. Var refsing H ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Héðinn Óli Sæunnarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 381.406 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. mars 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. mars s.l., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Akureyri, nú Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, báðum útgefnum 18. nóvember sl., á hendur Héðni Óla Sæunnarsyni, kt. [...], Baldursgötu 17, Reykjavík, en með dvalarstað að Brekkugötu 13 A, Akureyri.
Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, sbr. mál nr. S-200/2014.
Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða;
„fyrir eftirtalda þjófnaði á Akureyri árið 2014, með því að hafa:
I.
Aðfaranótt þriðjudagsins 27. maí, brotist inn í húsnæði að Hafnarstræti 90, þar sem eru til húsa verslunin Flóra, Gullsmíðaverkstæði Ingu Bjarkar og vinnustofa fatahönnuðarins Maríu Rutar og stolið þaðan 1 myndavél, 1 Mac-tölvu, 1 saumavél, 1 hleðslutæki með rafhlöðum, 2 púðum, 27 púðaverum, 2 borvélum, 1 reiknivél, 3 rafmagnssnúrum, 1 posavél, 1 rafrænni myndavél, 1 verkfæratösku, 1 diktafón, 2 borvélum, 12.000,-krónum í peningum og ýmsu öðru smádóti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningalaga nr. 19,1940.
II.
Laugardaginn 31. maí á Sjúkrahúsinu á Akureyri, við Eyrarlandsveg, stolið 12 ambúlum af lyfjum úr neyðarvagni á slysadeild sjúkrahússins.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, sbr. mál nr. S-201/2014.
Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða;
„fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot framin aðfaranótt miðvikudagsins 22. október 2014:
I.
Að hafa brotist inn í bílaverkstæði Einars Þórs Gunnlaugssonar að Laufásgötu 7 á Akureyri og stolið þaðan topplyklasetti, boltavél af gerðinni Hitachi og hleðslutæki af gerðinni Hitachi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Að hafa síðar sömu nótt ásamt ónafngreindum félaga sínum brotist inn í Trésmiðjuna Ösp á Gránufélagsgötu 45 á Akureyri og stolið þaðan Dewalt skrúfvél með höggi, Dewalt punkta lazer, Makita skrúfvél með höggi og tveimur meðfylgjandi rafhlöðum, Hitachi skrúfvél ásamt rafhlöðu og hleðslutæki, Makita vélhefli, þremur Dewalt 18 w rafhlöðum, Dewalt hleðslutæki, Dewalt verkfærakistu, tveimur Makita 12 w skrúfvélum, Makita hleðslutæki, ásamt fjórum rafhlöðum og Dewalt sög, ásamt rafhlöðu, en áætlað verðmæti þessara muna samkvæmt eiganda þeirra er um ein milljón króna.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III.
Að hafa þar á eftir ásamt þessum sama félaga sínum brotist inn í fyrirtækið Glugga ehf., að Kaldbaksgötu 1 á Akureyri og stolið þaðan torfæruhjóli fyrir börn af gerðinni Terra Moto en auk þess leituðu þeir af peningum um allt húsið.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
IV.
Að hafa síðan brotist einn inn í fyrirtækið Íspan að Furuvöllum 15 á Akureyri og stolið þaðan peningum að fjárhæð kr. 3.300-.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við meðferð málsins fyrir dómi féll fulltrúi ákæruvalds frá sakaratriði III. kafla seinni ákærunnar, að því er varðaði þjófnað ákærða á torfæruhjóli.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.
A.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í lýstum ákærum, líkt og sakarefninu var breytt við meðferð málsins fyrir dómi.
Samkvæmt rannsóknarskjölum hafði lögregla upp á því þýfi sem getið er um í fyrri ákærunni á dvalarstað ákærða sama dag og innbrotið var framið. Var þýfinu í framhaldi af því komið til skila til eiganda. Þá liggur fyrir að megnið af því þýfi sem um getur í seinni ákærunni var komið til skila til eiganda, annars vegar þegar eigendur fundu það í næsta nágrenni við innbrotsstaði og hins vegar þegar lögregla leitaði í tösku sem ákærði var með er hann var handtekinn tveimur dögum eftir innbrotin, en þó á frátöldum þeim peningum sem getið er um í III. kafla ákærunnar.
Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, en einnig af því sem að ofan var rakið, er nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærum er lýst og þar er rétt heimfærð til laga. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.
B.
Ákærði, sem er 37 ára, hefur samkvæmt sakavottorði margsinnis áður verið dæmdur til refsinga eða allt frá árinu 1993, og þar af í tíu skipti fyrir auðgunarbrot. Síðustu dómana fyrir slík brot hlaut ákærði á árunum 2011-2013. Hann var þannig dæmdur í mars 2011 í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu, fjársvik, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðaralagabrot. Þá var hann í apríl 2012 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, m.a. fyrir þjófnaðarinnbrot í verslun, en einnig fyrir hylmingu og eignaspjöll, en brotin framdi hann í apríl og júní 2011. Loks var ákærði í febrúar 2013 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir innbrot í níu fyrirtæki, en þau þjófnaðarbrot framdi hann síðari hluta árs 2010 og var refsingin því hegningarauki við dóminn frá árinu 2012.
Samkvæmt gögnum veitti Fangelsismálastofnun ríkisins ákærða, hinn 3. september 2013, reynslulausn á eftirstöðvum refsingar, 200 daga í tvö ár, vegna áðurnefndra dóma frá árunum 2012 og 2013.
Með þeim brotum sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber því að dæma eftirstöðvar hennar, fyrrnefnda 200 daga, með þeirri refsingu sem honum verður nú gerð, samkvæmt 42. gr., sbr. 60. gr. og 77 gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur í því máli sem hér er til umfjöllunar m.a. gerst sekur um innbrot í sjö fyrirtæki og var um talsverð verðmæti að ræða, en brotin framdi hann öll á síðasta ári. Við ákvörðun refsingar ber m.a. að horfa til þess að ákærði hefur á liðnum árum ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot, sbr. ákvæði 255. gr. og 71. gr. hegningarlaganna, en hann telst vera síbrotamaður. Til refsimildunar þykir mega horfa til þess að ákærði játaði skýlaust brot sín við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, og að hann hefur að því er virðist reynt að ná tökum á fíkniefnavandkvæðum sínum. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum 70. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði, sem í ljósi sakaferils þykir ekki fært að skilorðsbinda.
Í ljósi málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda, en einnig ferðakostnað hans, eins og segir í dómsorði og þá að meðtöldum virðisaukaskatti. Engan sakarkostnað leiddi af málarekstri ákæruvalds.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Héðinn Óli Sæunnarson, sæti fangelsi í fimmtán mánuði.
Ákærði greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 238.080 krónur, en einnig ferðakostnaður hans 21.550 krónur.