Hæstiréttur íslands

Mál nr. 82/2006


Lykilorð

  • Skip
  • Vátryggingarsamningur


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2006.

Nr. 82/2006.

Þrotabú Rastar ehf.                            

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Skip. Vátryggingarsamningur.

Fiskibáturinn Röst SH-134 sökk er hann var á siglingu út af Snæfellsnesi 19. mars 2003. Í janúar sama ár hafði S tekið að sér að húftryggja bátinn. Vátryggingarfjárhæð vátryggingarskírteinisins var tilgreind 18.613.000 krónur og var sú fjárhæð reist á mati fjárhæðanefndar fiskiskipa. Í vátryggingarskilmálum er í 1. gr. tekið fram að um vátrygginguna gildi sú grundvallarregla að hún sé skaðatrygging og sé félaginu óskylt að greiða hærri bætur en þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur. Í 1. tölulið 3. gr. segir að samkomulag um verð sé bindandi fyrir félagið en þó sé unnt að víkja því til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins. Í samræmi við 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 var það S að sanna að uppfyllt væru skilyrði til að víkja verðákvörðuninni til hliðar. Að beiðni S var dómkvaddur matsmaður til að meta hvert hefði verið staðgreiðsluverð bátsins á tjónsdegi. Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að matsverð bátsins hefði að hámarki verið 3.000.000 krónur. Var talið að með matinu hefði S sannað að skilyrði væru uppfyllt til að víkja verði því sem tilgreint er í vátryggingarskírteininu til hliðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að af forsendum matsgerðarinnar megi ráða að matsfjárhæðin hefði dugað til kaupa á sambærilegu skipi við það sem fórst og að nokkuð framboð hafi verið af slíkum fiskiskipum. Verði því talið að með greiðslu bóta í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar hafi S að fullu bætt Þ tjón sitt, og sé félaginu ekki skylt að greiða frekari bætur, sbr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna og 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga nr. 20/1954.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 18.613.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. mars 2003 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 6. febrúar 2004 að upphæð 3.000.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð, dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögu og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Í apríl 1999 keypti sameignarfélagið Röst fiskibátinn Grímsey II er bar skipaskrárnúmerið 1317 og hlaut síðar nafnið Röst SH 134. Kaupverðið var 14.000.000 krónur. Um var að ræða 31 brúttótonna trébát smíðaðan á Skagaströnd árið 1973. Rekstur bátsins mun hafa gengið erfiðlega og var hann seldur nauðungarsölu sem lauk 11. október 2002. Búnaðarbanki Íslands hf. var hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 3.200.000 krónur og fékk bankinn uppboðsafsal fyrir bátnum 20. nóvember 2002. Þeir menn sem áður höfðu staðið að sameignarfélaginu Röst stofnuðu einkahlutafélagið Röst í því skyni að halda rekstri bátsins áfram. Seldi Búnaðarbanki Íslands hf. einkahlutafélaginu bátinn með afsali 29. nóvember 2002. Umsamið kaupverð var 3.900.000 krónur. Í janúar 2003 gaf stefndi út vátryggingarskírteini til Rastar ehf. vegna húftryggingar bátsins. Er það dagsett 20. janúar en í texta þess er útgáfudagur sagður 1. janúar. Skyldi skírteinið endurnýjast 1. janúar ár hvert. Vátryggingarfjárhæð er tilgreind 18.613.000 krónur. Ágreiningslaust að hún er í samræmi við mat fjárhæðanefndar fiskiskipa, en engra gagna nýtur í málinu um það mat. Í vátryggingarskilmálum er í 1. gr. tekið fram að um vátrygginguna gildi sú grundvallarregla að hún sé skaðatrygging og sé félaginu óskylt að greiða hærri bætur en þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur. Í 1. tölulið 3 gr. segir að í byrjun hvers vátryggingartímabils skuli vátryggingartaki og félagið koma sér saman um vátryggingarverðið.  Það samkomulag sé bindandi fyrir félagið nema leitt sé í ljós, að vátryggingartaki hafi gefið villandi upplýsingar um atriði, sem skipti máli við verðákvörðun. Verðákvörðun verði einnig „vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.“ Þá segir í 1. tölulið 17. gr, að ef skipið farist eða sé dæmt óbætandi bæti félagið tjónið með því að greiða vátryggingarverðið.

Þann 19. mars 2003 var bátnum siglt áleiðis til Reykjavíkur frá Stykkishólmi, þar sem hann hafði legið undanfarna mánuði. Kom leki að bátnum út af Snæfellsnesi og sökk hann, en mannbjörg varð. Að beiðni stefnda var dómkvaddur maður 30. maí 2003 „til að meta hvert hafi verið staðgreiðsluverð bátsins á tjónsdegi...“ Matsmaður skilaði matsgerð 8. ágúst 2003 og komst að þeirri niðurstöðu að staðgreiðsluverð bátsins „í því ástandi, sem hann þá var í, hafi þann 19. mars 2003, er báturinn sökk, getað orðið að hámarki kr. 3.000.000.-...“ Reis ágreiningur með Röst ehf., sem heimtaði vátryggingarverð skipsins, og stefnda, sem bauð bætur á grundvelli framangreindrar matsgerðar. Greiddi stefndi 6. febrúar 2004 bætur í samræmi við matsgerðina að frádreginni sjálfsábyrgð og ógreiddu iðgjaldi vegna húftryggingarinnar. Röst ehf. höfðaði mál þetta 24. janúar 2005. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 13. júní 2005 og hefur þrotabúið tekið við rekstri málsins.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að í vátryggingarsamningi stefnda og Rastar ehf. sé kveðið á um að vátryggingarverð bátsins sé 18.613.000 krónur. Sé það í samræmi við mat fjárhæðanefndar fiskiskipa. Venja sé við húftryggingar fiskiskipa að miða við það verðmat nema um annað sé sérstaklega samið. Vátryggingarverðið sé samkvæmt vátryggingarskilmálum bindandi fyrir félagið og beri því samkvæmt skilmálunum að greiða bætur miðað við það verð ef skipið ferst. Sé það og föst venja við uppgjör vegna skipstapa að víkja ekki frá því að miða greiðslu húftryggingabóta við umsamið vátryggingarverð. Þá hafi stefndi viðurkennt framangreint vátryggingarverð í verki með því að draga iðgjald miðað við það verð frá greiðslu sem hann innti af hendi 6. febrúar 2004.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á að ekki hafi verið gert sérstakt samkomulag um vátryggingarverð bátsins, þrátt fyrir ráðagerð um annað í framangreindu ákvæði 1. tölulið 3. gr. skilmálanna. Framangreint vátryggingarskírteini sé því ekki „verðsett“ og fari þar af leiðandi um uppgjör tjónsins eftir almennum reglum 37. gr. og 38. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Með framangreindu mati hafi félagið fært sönnur á að verð bátsins hafi að hámarki verið 3.000.000 krónur og hafi félagið fullnægt skyldum sínum með greiðslu þeirrar fjárhæðar. Í annan stað byggir stefndi á því að Röst ehf. hafi ekki upplýst við gerð vátryggingarsamningsins að félagið hafi skömmu áður keypt skipið á 3.900.000 krónur. Hefðu þær upplýsingar legið fyrir stefnda hefði vátryggingarverð skipsins aldrei verið tilgreint með þeim hætti sem gert var. Sé vátryggingarverðið því óskuldbindandi vegna villandi upplýsinga tryggingartaka með vísan til framangreinds ákvæðis í 1. tölulið 3. gr. skilmálanna. Í þriðja lagi er sýknukrafan reist á því að unnt sé að víkja verðákvörðuninni til hliðar, enda sýni matsgerðin að verðið sem tilgreint sé í skírteininu sé hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins samkvæmt lokamálslið 1. töluliðar 3. gr. skilmálanna og 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Loks andmælir stefndi því að fyrrgreindur frádráttur fulls iðgjalds við greiðslu bóta eigi að hafa réttaráhrif enda hafi iðgjaldið nú verið leiðrétt miðað við að altjónsverðmæti hafi verið 3.000.000 krónur.

III.

Af framburði Gests Más Gunnarssonar, forsvarsmann Rastar ehf. og Halldórs Teitssonar starfsmanns stefnda fyrir héraðsdómi sýnist ljóst að ekki fóru fram sérstakar umræður um vátryggingarverð bátsins þegar húftryggingin var tekin í ársbyrjun 2003. Vátryggingarfjárhæð var hins vegar tilgreind í samningi aðila. Var hún reist á mati fjárhæðanefndar fiskiskipa eins og altítt mun vera með húftryggingarverð skipa af svipaðri stærð. Að því gættu og með vísan til þess að ákvæði vátryggingarskírteinisins og vátryggingarskilmálanna eru skýrlega miðuð við að kveðið sé á um tiltekið verð skipsins verður að telja að um „verðsett“ skírteini sé að ræða í skilningi 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954.

Í lokamálslið 1. töluliðar 3. gr. vátryggingarskilmálanna er, eins og að framan er rakið, kveðið á um að verðákvörðun verði vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins og er þar vísað til 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Hvílir á félaginu að sanna að svo sé. Samkvæmt niðurstöðu framangreindrar matsgerðar, sem ekki hefur verið hnekkt, var staðgreiðsluverð Rastar SH 124 þann 19. mars 2003 að hámarki 3.000.000 krónur eða innan við einn sjötti hluti verðákvörðunarinnar í skírteininu. Enda þó að með réttu hefði átt að miða verðmatið við 1. janúar 2003, er ábyrgð félagsins hófst, sbr. 1. mgr 75. gr. laga nr. 20/1954, verður að telja að með matinu hafi verið leitt í ljós að skilyrði séu til að víkja verðákvörðuninni til hliðar. Af forsendum matsgerðarinnar má ráða að matsfjárhæðin hefði dugað til kaupa á sambærilegu skipi við það sem fórst og að nokkuð framboð hafi verið af slíkum fiskiskipum. Verður því einnig að telja að með greiðslu bóta í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar hafi stefndi að fullu bætt það tjón er varð er Röst SH 124 fórst og er félaginu ekki skylt að greiða frekari bætur, sbr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna og 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Þar sem engin rök eru heldur til að tengja réttaráhrif við fyrrgreinda greiðslu bóta 6. febrúar 2004 verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.     

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Röst ehf., kt. 580902-3080, Lágholti 6, Stykkishólmi, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 24. janúar 2005.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 18.613.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. mars 2003 til greiðsludags.  Allt að frádreginni innborgun dags. 6. febrúar 2004 að fjárhæð 3.000.000 kr.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum máls-kostnaðarreikningi.

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 13. júní 2005.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati réttarins.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður falli niður og dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi.

Helstu málavextir eru að stefnandi keypti af Búnaðarbanka Íslands hf. þann 29. nóvember 2002 Röst SH-134, sknr. 1317, 31 brúttótonna eikarbát er smíðaður var á Skagaströnd 1973.  Kaupverðið var 3.900.000 kr. og hafði báturinn verið afhentur stefnanda 16. september 2002.  Röst SH-134 hafði áður verið í eigu Rastar sf. en var seldur á nauðungarsölu 11. október 2002 og var Búnaðarbanki Íslands hf. hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 3.200.000 kr.

Þann 19. mars 2003 var Röst SH-134 á siglingu út af Snæfellsnesi á leið frá Stykkishólmi til Reykjavíkur.  Skipverjar voru tveir, Bergsveinn Gestsson skipstjóri og Gestur Már Gunnarsson vélstjóri, og voru þeir á leiðinni til Reykjavíkur með bátinn til að Þorsteinn Jónas Þorsteinsson, skipasölumaður hjá fasteignasölunni Hóli, gæti sýnt hann hugsanlegum kaupendum, en Þorsteinn hafði tekið að sér að selja bátinn.  Á siglingunni kom leki að bátnum sem skipverjar réðu ekki við og sökk hann, en skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim bjargað.

Af hálfu stefnda segir að í upphafi árs 2003 hafi umboðsmaður stefnanda haft samband við félagið og óskað eftir að félagið vátryggði bátinn Röst SH-134.  Í viðtalinu hafi komið fram að fyrri eigendur hefðu hætt rekstri og núverandi úrgerðaraðili væri Röst ehf.  Orðið hefði verið við þessari beiðni og vátryggingarskírteini gefið út á grundvelli mats „fjárhæðarnefndar“.

Í vátryggingarskírteininu, sem dagsett er 20. janúar 2003, segir að útgáfudagur hafi verið 1. janúar 2003 með fyrirheit um endurnýjun 1. janúar ár hvert og er m.a. greint frá því að um húftryggingu sé að ræða og vátryggingarfjárhæðin sé 18.613.000.  Þá segir að greiðslutímabilið sé 1. janúar 2003 til 31. desember 2003 og iðgjald 817.111 kr.

Eftir að félagið hafði fengið tilkynningu um tjónið, segir af hálfu stefnda, hafi málið verið skoðað frekar.  Hafi forráðamönnum stefnda þá orðið ljóst að fyrri eigandi, Röst sf., hafði komist í þrot og báturinn seldur Búnaðarbanka Íslands hf. á uppboði, svo sem áður var rakið, og núverandi eigandi, Röst ehf., hafði keypt bátinn af bankanum 29. nóvember 2002 á 3.900.000 kr.  Þá hafi einnig komið í ljós að Röst sf. hafði ekki greitt iðgjaldið fyrir árið 2002 og gjaldið enn í vanskilum.

Greint er frá því að stefndi hafi við svo búið athugað gangverð báta af svipaðri gerð og framboð slíkra báta.  Hafi það leitt í ljós að óraunhæft var að miða við vátryggingarverð bátsins sem greiðslu í altjóni.  Óskað hafi þá verið eftir að dómkvaddur yrði matsmaður til að segja til um hvert væri hæfilegt verð fyrir bátinn miðað við staðgreiðslu.

Þann 30. maí 2003 var Jónas Haraldsson hrl. kvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat.  Niðurstaða hans 8. ágúst 2003 var að staðgreiðsluverð m.b. Rastar SH-134 hefði þann 19. mars 2003 að hámarki getað orðið 3.000.000 kr. „hefði yfirhöfuð tekizt að selja bátinn, án nýs athugasemdalauss haffærisskírteinis eða hvort heldur“.

Er matið lá fyrir bauð stefndi stefnanda 3.000.000 kr. sem fullnaðargreiðslu á tjóninu en stefnandi hafnaði því boði.  Ákvað stefndi þá einhliða að greiða þessa fjárhæð til stefnanda og var þeirri greiðslu ráðstafað í samráði við stefnanda en stefndi dró frá umræddri fjárhæð sjálfsábyrgð stefnanda og ógreitt iðgjald fyrir árið 2003.

Stefnandi byggir á því að vátryggingarsamningur aðila kveði á um að vátryggingarfjárhæðin sé 18.613.000 kr.  Fyrir liggi yfirlýsing frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, sbr. dskj. nr. 25, sem greini m.a. frá því að þilfarsskip séu metin á vegum Fjárhæðanefndar fiskiskipa eftir ákveðnum aðferðum og húftryggingarverð skipanna þar með ákveðið.  Nefndin sé skipuð fulltrúum frá vátryggingafélögum og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.  Þar segir og að báðum aðilum sé fullkomlega ljóst, að markaðsverð skipa sé ekki einhlítur mælikvarði á virði skipa, og tekið fram, að sérstaklega þurfi að semja um frávik frá matsverði – en um slíkan samning sé ekki að ræða milli aðila.  Krafa stefnanda hljóti því að vera vátryggingarfjárhæðin 18.613.000 kr.

Stefndi byggir á því að hafa þegar greitt stefnanda andvirði bátsins.  Fyrir liggi að stefndi og stefnandi hafi ekki komið sér saman um vátryggingarverð bátsins svo sem 3. gr. skilmála fyrir húftryggingu bátsins mælir fyrir um.  Bindandi vátryggingarverð sé því ekki fyrir hendi.  Um bætur fyrir tjónið fari því að almennum reglum skaðatrygginga, sbr. 1. gr. umræddra skilmála og ákvæða 37. og 38. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar-samninga.  Með matsgerð dómkvadds matsmanns hafi stefndi fært sönnur á það að verðmæti bátsins hafi að hámarki verið 3.000.000 kr.  Stefndi hafi því fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíldi samkvæmt vátryggingarsamningi aðila og gildandi lögum.

Verði ekki fallist á framangreind lagasjónarmið og röksemdir er vísað til þess að mat fjárhæðanefndar á verðmæti bátsins hafi verið reist á „afskrifuðu endurstofnsverði“ sem sé fyrst og fremst grundvöllur fyrir uppgjöri á tjónum þar sem gert sé við skip.  Endurstofnsverðið segi ekkert til um verðmæti bátsins í altjóni, en verðmæti skipa í kaupum og sölum hafi á síðari árum yfirleitt ráðist af allt öðrum sjónarmiðum en þeim sem varði smíðakostnað þeirra.

Byggt er á því að óumdeilt sé að báturinn hafi verið vátryggður á grundvelli mats fjárhæðanefndar og jafnframt sé óumdeilt að eigendur stefnanda greindu stefnda ekki frá því að þeir hefðu skömmu áður keypt bátinn á 3.900.000 kr.  Vátryggingarverðið hafi því ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda skv. ákvæðum greinar 3.1 í skilmálum fyrir vátryggingu bátsins en víkja megi verðákvörðun til hliðar teljist vátryggingarverð hærra en svo að sanngjarnt megi teljast, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið er í öllu falli krafist þess að dregið verði frá mati fjárhæðanefndar er nemi þeim kostnaði sem stefnandi hefði þurft að inna af hendi til nauðsynlegra viðgerða á bátnum til að halda haffærisskírteininu í gildi eftir 24. apríl 2003, en t.d. hafi verið ljóst að endurnýja þurfti aftasta skammdekksplanka í bakborða við næstu bolskoðun.

Gestur Már Gunnarsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. aðstefnandi hafi átt bátinn [Röst SH-134] frá því í nóvember 2002.  Hann sagði að útgerðarstjórn á bátnum hafi að meginhluta til verið í hans höndum.

Gestur skýrði frá því að í nóvember 2002 hafi það gerst að báturinn hafi verið tryggður til áramóta 2002/2003 og síðan sjálfkrafa með skírteininu, sbr. dskj. nr. 14, sem hafi verið gefið út í janúar 2003 og miðaðist frá áramótum til áramóta 2003/2004 án vísbendingar um breytingu á verðmiði tryggingarupphæðarinnar er hafi verið órofið frá fyrri tíma.  Stefnandi hafi ekki átt neinn þátt í því að ákvarða vátryggingarfjárhæðina.

Aðspurður hvort hann hefði tilkynnt umboðsmanni stefnda um leka sem var á skipinu í Grundarfjarðarhöfn á árinu áður, sagði hann, að tekin hefði verið lögregluskýrsla af því atviki en kvaðst ekki muna hvort hann hefði sent stefnda bréf um það.

Halldór Teitsson, starfsmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann kannaðist ekki við að samkomulag væri með Landssambandi íslenskra útvegsmanna og tryggingarfélögunum um að miða eigi við vátryggingarfjárhæð í öllum tilvikum.  Hann sagði að reyndar væri það svo að fiskiskip væru metin af Fjárhæðanefnd fiskiskipa.  Það mat sé notað í vátryggingarfjárhæðum margra skipa.  Á undanförnum árum hafi reyndin verið sú að markaðsverð skipa hafi lækkað og skapað ákveðið misræmi.  Þess vegna hafi oft og tíðum vátryggingarfjárhæð verið önnur en fjárhæðanefndarmatið.  Gjarnan sé spurt þegar skip koma í tryggingu, sérstaklega gömul skip, hvert kaupverðið hafi verið.  Rætt sé um þetta við vátryggingartaka og í sumum tilvikum hafi mikið verið lagt í skip þannig að eðlilegt sé að vátryggingarfjárhæð sé hærri en markaðsverð segir til um enda þótt skipið yrði ekki selt fyrir sama verð og vátryggingarfjárhæðin gæfi tilefni til.

Halldór sagði að matið væri notað til að bæta hlutatjón á skipum.  Matið væri brotið niður í hina ýmsu hluti sem væru um borð í skipinu, húfur, vélar og tæki.  Þegar hlutatjón verði þá sé farið í matið og skoðað t.d. á hvað vélin sé metin.  Ekki sé greitt meira fyrir en matið segi til um.

Halldór sagði að Röst SH-134 hafi komið í tryggingu 23. janúar 2003 á sömu forsendum og skipið hafði verið tryggt hjá stefnda 2002.  Komið hefði í ljós að skipið fór í uppboðsmeðferð og þá hafi verið feldar niður þær skuldir sem voru á þessu fyrirtæki, þ. á m. iðgjaldaskuldir vegna bátsins sem hafi verið töluverðar.  Búnaðarbankinn hafi keypt skipið á uppboði fyrir 3.000.000 kr. í september.  Nokkrum dögum seinna hafi bankinn selt sömu aðilum skipið fyrir 3.900.000 kr.  Síðan hafi skipið ekki verið vátryggt fyrr en í desember, rétt fyrir endurnýjun, en þá hafi verið haft samband við umboð stefnda í Stykkishólmi og beðið um tryggingu á þessu skipi.  Hins vegar hafi ekkert verið getið um kaupverðið eða neitt í þá áttina.  Tekið hafi verið við beiðninni og henni komið til stefnda í Reykjavík og þar hafi stúlka, sem vinnur í deildinni hjá honum, tekið við þessari beiðni og hún gefin út og notað þetta mat.  Þetta hafi raunar ekki verið í samræmi við vinnubrögð hjá stefnda þegar um svona gömul tréskip er að ræða.

Jónas Haraldsson hrl. kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa unnið matsgerð þá sem fram kemur á dskj. nr. 19.

Ályktunarorð:  Fyrir liggur í málinu að stefnandi, Röst ehf., keypti af Búnaðarbanka Íslands hf. 31 brúttótonna eikarbát, Röst SH-134, sknr. 1317, 29. nóvember 2002.  Jafnframt að 20. janúar 2003 var báturinn vátryggður hjá stefnda og vátryggingarfjárhæðin tilgreind 18.613.000 kr.  Fjárhæðin var miðuð við mat Fjárhæðanefndar fiskiskipa sem lagt hafði verið til grundvallar vátryggingu bátsins hjá stefnda í tíð fyrri eiganda bátsins, Rastar sf.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins - og því raunar ekki haldið fram af aðilum málsins - að komið hafi til tals milli forsvarsmanna stefnanda og starfsmanna stefnda að hafa upphæð vátryggingarfjárhæðarinnar einhverja aðra, en víst er að starfsmönnum stefnda mátti vera ljós eigendaskipti að bátnum, þ.e. að Röst ehf. væri eigandi bátsins þó að sömu menn væru hluthafar og hefðu átt sameignarfélagið Röst.

Hins vegar segir í vátryggingarskilmálum aðila, grein 3.1, m.a.:

Verðákvörðun verður einnig vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingaverð skipsins, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.

Í annarri málsgrein 75. greinar laga nr. 20/1954 segir:

Ef kveðið er á um tiltekið verð á skipi, þegar vátryggingarsamningurinn er gerður (verðsett skírteini), er sú verðákvörðun skuldbindandi fyrir félagið, ef það getur eigi sannað, að hið tiltekna verð sé hærra en svo, að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins.

Að mati dómkvadds matsmanns var umræddur bátur, þann 19. mars 2003 er báturinn sökk, að hámarki 3.000.000 króna virði.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt er að málskostnaður falli niður.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Rastar ehf.

Málskostnaður fellur niður.