Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 27. febrúar 2014.

Nr. 150/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. febrúar 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði hafnað, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að sér verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr., 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og má ætla að varnaraðili muni torvelda hana með því að hafa áhrif á samseka og vitni. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr.  laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma, sem krafist er, og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. febrúar 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og b liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, til vara að henni verði markaður skemmti tími og til þrautavara að kærða verði ekki gert að sæta einangrun.

                Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 2. mgr. 218. gr., 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir m.a. að í gær kl. 12:01 hafi lögreglu borist tilkynning frá slysadeild um að þangað hafi leitað maður að nafni A og hafi hann verið sagður töluvert slasaður, greinilega eftir líkamsárás. Hafi rannsóknarlögreglumenn rætt við A á slysadeild og hafi hann skýrt frá því að þrír menn hefðu ráðist á hann. Kvað hann þá hafa ruðst inn á heimili hans að [...], og þeir misþyrmt honum með margvíslegum hætti. Kvað hann mennina hafa verið kærðu X, B og C og með þeim hafi verið stelpa sem hann taldi heita D. A hafi sagt að mennirnir hefðu lamið hann ítrekað með krepptum hnefum í andlit, hert að hálsi, þannig honum hafi legið við köfnun og kýlt hann ítrekaði í kvið. Hann væri með [...] sem þeir vissu af. Þá hafi kærði X stungið hann með skærum í axlir og upphandleggi. Greinilegir áverkar hafi verið á A á vinstri hlið andlits, grunn lítil stungusár á öxlum og upphandleggjum og mar á baki og hálsi. A hafi verið afar máttfarinn og illa á sig kominn. Nánar um áverka vísar lögreglustjóri til meðfylgjandi áverkavottorðs læknis.

                Að sögn A hafi ástæðan fyrir árásinn átt að vera sú að hann hafi verið í nánum samskiptum við fyrrverandi kærustu kærða X. Þá hafi A greint frá því að umræddir aðilar hafi tekið frá honum ýmsa fjármuni, s.s. Iphone 5 s hvítan og gylltan, Mc book pro tölvu, play station 3 leikjatölvu, kaffivél,  tvo hátalara af gerðinni "Harman Kardon" sem væru sívalir, glærir með fimm hátölurum hver súla, ásamt bassaboxi, einn hátalara frá Sony heimabíói, apple TV 3 og töluvert af fatnaði eins og úlpur og skyrtur. Þá hafi þeir tekið lykil af bílnum hans sem sé af gerðinni [...]. Aðspurður taldi A að árásarmennirnir hefðu komið inn til hans um kl. 10:15 umræddan morgun og farið aftur rétt um kl. 12:00. Þeir hafi verið lengi inni hjá honum og verið að fara fram og koma inn aftur. T.d. hafi stelpan, sem var með þeim, farið inn í íbúðina við hliðina þar sem kona búi með unga stelpu. Þessi kona hafi síðar ekið A á slysadeild. Lögregla hafi rætt við nágranna A sem hafi greint frá því að þeir hefðu séð þrjá menn, ásamt stúlku, vera að bera muni út úr íbúð A.  Hafi lýsing þeirra á mönnunum komið heim og saman við kærðu. Þá kvaðst einn nágranninn þekkja mennina með nafni og tilgreindi þá sem C, X og B. Um kl. 13:30 hafi lögregla handtekið kærðu í þágu rannsóknar málsins. Í skýrslutökum nú fyrr í morgun hafi kærði neitað sök.

                Lögreglustjórinn byggir á því að kærði X sé undir rökstuddum grun ásamt meðkærðu að hafa ruðst inn á heimili A, svipt hann frelsi sínu, misþyrmt honum með margvíslegum hætti, m.a. með hættulegu vopni, og rænt eigum hans.  Rannsókn málsins sé á frumstigi. Það liggi fyrir lögreglu að yfirheyra brotaþola og sakborninga frekar, auk þess sem taka þurfi frekari skýrslur af vitnum. Þyki því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka og eftir atvikum vitni ef hann fái að fara frjáls ferða sinna.

Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðar getur við 2. mgr. 218. gr., 2. mgr. 226. gr. og 252. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með sömu rökum verður tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun  í gæsluvarðhaldinu. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er því fallist á að kærði sæti gæsluvaðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til 2. mgr. 98. gr., sbr. a lið 95. gr. sömu laga, er tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun.

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2014 kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.