Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-5

Arnór Sigurvinsson (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Mílu ehf. (Stefán A. Svensson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarnám
  • Fjarskipti
  • Andmælaréttur
  • Meðalhóf
  • Rannsóknarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. janúar 2023 leitar Arnór Sigurvinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 545/2021: Arnór Sigurvinsson gegn Mílu ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að ógilt verði ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 17. janúar 2019 um heimild gagnaðila til að taka eignarnámi hluta af nánar tilgreindri fasteign leyfisbeiðanda.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dóminum kom fram að andmælaréttur leyfisbeiðanda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hefði verið virtur við undirbúning og töku ákvörðunar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um veitingu heimildar til eignarnáms. Jafnframt hefði verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar auk þess sem ráðherra hefði þá haft undir höndum fullnægjandi upplýsingar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skilyrði 70. gr. þágildandi laga nr. 81/2003 um fjarskipti hefðu verið uppfyllt fyrir þeirri ákvörðun ráðherra að heimila gagnaðila eignarnám í hluta fasteignar leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um beitingu almennra eignarnámsheimilda í lögum eins og 70. gr. þágildandi laga nr. 81/2003, sbr. nú 6. mgr. 34. gr. laga nr. 70/2022 um fjarskipti. Jafnframt um þær takmarkanir sem 72. gr. stjórnarskrárinnar setur til varnar eignarrétti manna, svo sem að skilyrðis um meðalhóf sé gætt og um hvenær mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um eignarnám er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur sé dómur Landsréttar í ósamræmi við nánar tilgreinda dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðnina á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Vísar hann því til stuðnings meðal annars til þeirrar niðurstöðu réttarins að meðalhófs hafi verið gætt sem og að ekki hafi verið tekin fullnægjandi afstaða til kröfu um ómerkingu héraðsdóms.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.