Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2015
Lykilorð
- Fjármögnunarleiga
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2016. |
|
Nr. 324/2015.
|
Lýsi hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Fjármögnunarleiga. Lánssamningur. Gengistrygging.
L hf. krafðist þess að viðurkennt yrði að níu fjármögnunarleigusamningar sem félagið hafði gert við LG hf. væru um lán í íslenskum krónum bundin gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt ítrekuðum dómafordæmdum réttarins í málum um hliðstæða samninga LG hf. hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða samninga um fjármögnunarleigu eins og heiti og ákvæði þeirra bæru glögglega með sér. Var ekki talið að L hf. hefði sannað gegn andmælum LG hf. að samið hefði verið um að L hf. yrði í lok leigutíma eigandi þeirra verðmæta sem samningarnir tóku til eða ætti rétt á að leysa þau til sín gegn greiðslu. Gætu engu breytt slík áform aðila í aðdraganda þess að samningarnir voru gerðir enda hefði þá legið beint við að þeir tækju mið af því. Þá gæti heldur engu breytt þótt eitthvað af verðmætunum yrði ekki skilað að loknum leigutíma en áhætta af því hvíldi á LG hf. Þar sem samningarnir hefðu verið um fjármögnunarleigu var ekki talið að ákvæði laga nr. 38/2001 girtu fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjaldið tæki mið af gengi erlendra gjaldmiðla. Var LG hf. því sýknuð af kröfum L hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að fjármögnunarleigusamningar aðila nr. 139465-468 frá 22. febrúar 2007, nr. 139911-914 frá 27. mars sama ár, nr. 140949-952 frá 29. maí sama ár, nr. 142269-272 frá 5. júlí sama ár, nr. 142678-681 frá 1. ágúst sama ár, nr. 144156-159 frá 7. nóvember sama ár, nr. 147109-112 frá 14. apríl 2008, nr. 148586-589 frá 9. júlí sama ár og nr. 149674-675 frá 13. nóvember sama ár séu um lán í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Efni þeirra níu fjármögnunarleigusamninga sem mál þetta tekur til og aðdragandi þeirra lögskipta eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir skiptast samningarnir í fyrri hluta, sem hafði að geyma sérstaka skilmála um andlag hvers samnings, leigugrunn, grunnleigutíma og tilhögun leigugreiðslna, og síðari hluta með almennum skilmálum. Hæstiréttur hefur í fjölda dóma fjallað um samninga sem eru sama efnis í meginatriðum, sbr. til að mynda dóma réttarins 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013 og 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013.
Áfrýjandi telur öðru gegna í þessu máli en þeim sem fyrri dómar Hæstaréttar taka til sökum þess að aðilar hafi samið sérstaklega um að áfrýjandi myndi eignast hið leigða í lok lánstíma gegn tiltekinni greiðslu eða í öllu falli ætti hann rétt til þess. Því hafi aðilar ekki samið um fjármögnunarleigu, en samkvæmt slíkum samningum verði leigutaki ekki eigandi hlutar án þess að til frekari samninga komi. Til stuðnings þessu vísar áfrýjandi til tölvupósts 27. október 2006 frá þáverandi fyrirsvarsmanni stefnda til áfrýjanda þar sem fram komi að áfrýjandi eignist hið leigða í lok samningstíma gegn greiðslu 2% af upphaflegu stofnverði, en þetta hafi fyrirsvarsmaðurinn staðfest í vætti sínu fyrir héraðsdómi. Það sama hafi einnig komið fram í samningi aðila 15. nóvember 2006 um ádráttarlán. Í ljósi þessa telur áfrýjandi að eðli réttarsambandsins hafi ekki verið breytt með samningunum um fjármögnunarleigu þannig að ekki væri lengur um lán að ræða. Af því leiði að gengistrygging samninganna hafi farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt telur áfrýjandi að andlag samninganna fái ekki samrýmst því að um leigumuni hafi verið að ræða.
Í umræddum samningum var svofellt ákvæði í 12. grein: ,,Leigutími er tilgreindur í 4. og 6. gr. Leigutaki getur ekki sagt leigusamningi þessum upp á grunnleigutíma. Að loknum grunnleigutíma framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.“ Í 34. grein samninganna var síðan kveðið á um það að breytingar á þeim mætti einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er að samningunum var ekki breytt með því móti.
Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar, sem áður er vikið að í málum um hliðstæða samninga stefnda, hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða samninga um fjármögnunarleigu, eins og heiti þeirra og fyrrgreind ákvæði í 12. grein bera glögglega með sér. Hefur áfrýjandi ekki sannað gegn andmælum stefnda að samið hafi verið um að áfrýjandi yrði í lok leigutíma eigandi þeirra verðmæta sem samningarnir tóku til eða ætti rétt á að leysa þau til sín gegn tiltekinni greiðslu. Í því tilliti geta engu breytt áform aðila í þeim efnum í aðdraganda þess að samningarnir voru gerðir enda lá þá beint við að samningarnir tækju mið af því. Þá getur heldur engu breytt um þetta þótt eitthvað af þeim verðmætum sem samningarnir tóku til verði ekki skilað að loknum leigutíma en áhætta af því hvílir á stefnda. Þar sem samningar aðila voru um fjármögnunarleigu girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 ekki fyrir að aðilum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lýsi hf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2015.
Mál þetta sem dómtekið var 11. mars 2015 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí 2013 af Lýsi hf., Fiskislóð 5-9, Reykjavík, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að eftirfarandi samningar milli hans og stefnda séu um lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:
1. Samningur auðkenndur með nr. 139465-468, dags. 22. febrúar 2007 (aðalsamningur);
2. Samningur auðkenndur með nr. 139911-914, dags. 27. mars 2007;
3. Samningur auðkenndur með nr. 140949-952, dags. 29. maí 2007;
4. Samningur auðkenndur með nr. 142269-272, dags. 5. júlí 2007;
5. Samningur auðkenndur með nr. 142678-681, dags. 1. ágúst 2007;
6. Samningur auðkenndur með nr. 144156-159, dags. 7. nóvember 2007;
7. Samningur auðkenndur með nr. 147109-112, dags. 14. apríl 2008;
8. Samningur auðkenndur með nr. 148586-589, dags. 9. júlí 2008; og
9. Samningur auðkenndur með nr. 149674-675, dags. 13. nóvember 2008.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Atvik máls
Aðilar máls þessa munu á árinu 2006 hafa átt í samningaviðræðum um að stefndi fjármagnaði kaup stefnanda á tönkum, vélum, tækjum o.fl. til notkunar í fyrirhugaðri Ethylesar verksmiðju sem stefnandi ráðgerði að reisa á athafnasvæði sínu að Fiskislóð 5-9 í Reykjavík. Í tengslum við þessar viðræður sendi þáverandi framkvæmdastjóri stefnda, framkvæmdastjóra stefnanda, tölvuskeyti, 27. október 2006, þar sem m.a. kom fram að stefnda litist vel á verkefnið og væri til í „slaginn“. Í skeytinu var hvatt til að gerður yrði samningur sem fyrst. Þá eru í því talin upp atriði sem stefnandi taldi að kveða þyrfti á um í samningnum þ.m.t. hvernig greiðslu framkvæmdakostnaður yrði háttað af hálfu stefnda, meðan á framkvæmdatíma stæði, myntsamsetningu og vexti. Þá var lagt til að gerður yrði fjármögnunarleigusamningur að loknum framkvæmdatíma, í nóvember 2007, til fimm ára, með mánaðarlegum greiðslum og fyrstu afborgun í árslok 2008. Þá sagði í tölvuskeytinu: „Í lok fjármögnunarleigusamnings eignast Lýsi hið leigða á 2% af upphaflegu stofnverði samnings.“ Úr varð að aðilar gerðu með sér, 15. nóvember 2006, svonefndan samning um ádráttarlán, að hámarki 270.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar, á hverjum tíma, í evrum, Bandaríkjadölum, japönskum jenum og svissneskum frönkum, og skyldi fjárhæðinni varið til fjármögnunar á tilteknum búnaði, vélum og tækjum til verksmiðjunnar og öðru því sem að byggingu hennar laut og tíundað er í 6. gr. samningsins. Í samningnum er tekið fram að reikningar fyrir kaupum og framkvæmdum á grundvelli samningsins skuli gefnir út á nafn stefnda. Gildistími samningsins var til 10. febrúar 2008. Í 7. gr. samningsins segir:
„Í framhaldi af lánssamningi þessum verður gerður fjármögnunarleigusamningur milli lánveitanda og lántaka um þau tæki er talin eru upp í 6. gr. Lánssamningurinn skal vera uppgreiddur um leið og endanlegur fjármögnunarleigusamningur er kominn á, en í síðasta lagi fyrir lok gildistíma skv. 2. gr. Sé hann það ekki mun Lýsing hf. senda greiðsluseðil fyrir eftirstöðvum og vöxtum. Kjör fjármögnunarleigusamnings munu verða samningur til 60 mánaða, mánaðarlegar greiðslur með fyrstu afborgun 12 mánuðum eftir upphaf hans og greiðast vaxtagreiðslur fyrstu 12 mánuði samnings. Álag á Libor verður 1,85% og lokagjald 2% af upphaflegu stofnverði samnings.“
Að frumkvæði stefnda munu aðilar hafa sammælst um færa framangreinda lánafyrirgreiðslu stefnda yfir í fjármögnunarleigu, fyrr en ráðgert hafði verið skv. 7. gr. ádráttarlánasamningsins. Var það útfært þannig að hinn 22. febrúar 2007 undirrituðu aðilar fjármögnunarleigusamning vegna þeirra tækja sem reikningar höfðu þá verið gefnir út fyrir á nafn stefnda og hefur hann af aðilum verið nefndur „aðalsamningur“. Fékk hann auðkennisnúmerið 139465-468. Í framhaldinu voru gerðir átta slíkir samningar til viðbótar vegna þeirra véla, tækja og búnaðar sem bættist við í kjölfarið og hafa þeir af aðilum verið nefndir „undirsamningar“. Var gengið frá þeim jafnóðum og reikningar bárust. Nánar tiltekið var um eftirtalda samninga að ræða: Samning nr. 139911-914, dags. 27. mars 2007, samning nr. 140949-952, dags. 29. maí 2007, samning nr. 142269-272, dags. 5. júlí 2007, samning nr. 142678-681, dags. 1. ágúst 2007, samning nr. 144156-159, dags. 7. nóvember 2007, samning nr. 147109-112, dags. 14. apríl 2008, samning nr. 148586-589, dags. 9. júlí 2008 og samning nr. 149674-675, dags. 13. nóvember 2008. Samtals varð höfuðstólsfjárhæð samninganna eða svonefndur „leigugrunnur“ 344.608.287 krónur með virðisaukaskatti. Framangreindir níu samningar eru allir á sama samningsformi stefnda, sem ber fyrirsögnina „Fjármögnunarleigusamningur“. Hver samningur er samtals 35. gr. og skiptist í sérstaka skilmála skv. gr. 1-10 og almenna skilmála skv. gr. 11-35. Skv. 2. gr. samninganna er leigugrunnur tilgreindur í íslenskum krónum og er sú fjárhæð sundurliðuð á þá erlendu gjaldmiðla sem leigugrunnurinn er tengdur við þ.e. evrur, Bandaríkjadali, japönsk jen og svissneska franka, hvað átta samninga varðar, en japönsk jen og svissneska franka hvað samning nr. 149674-675 varðar.
Samkvæmt 4. gr. samninganna skyldi umsaminn leigugrunnur greiddur stefnda með 48-49 leigugreiðslum, í íslenskum krónum, á tilgreindum grunnleigutíma, sem ljúka átti 9. mars 2013, og voru leigugreiðslur skv. 14. gr. gengistryggðar miðað við breytingar á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir voru í samningunum og að framan greinir. Samkvæmt 12. gr. samninganna var stefnanda óheimilt að segja þeim upp á grunnleigutímanum en jafnframt mælt svo fyrir að í lok hans framlengdust þeir ótímbundið. Þá var stefnanda heimilt að segja framlengdum samningum upp skriflega, með eins mánaðar fyrivara, enda skilaði hann þá tafarlaust hinu leigða.
Með bréfi, 20. júní 2012, fór stefnandi þess á leit við stefnda að hafnar yrðu samningaviðræður um eftirstöðvar fjármögnunarleigusamninga aðila þar sem þörf væri á að endurreikna skuld stefnanda við stefnda samkvæmt samningunum með vísan til nýlegra dóma Hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu fjármögnunarleigusamninga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 og dóm réttarins í máli nr. 471/2010, hvað varðaði vaxtaútreikning, þegar um ólögmæta gengistryggingu væri að ræða. Var erindið ítrekað með bréfi, 19. desember 2012. Í því var einnig gerð grein fyrir þeirri afstöðu stefnanda að gera ætti alla samningana upp með útgáfu lokareiknings og að stefnandi teljist þá réttur eigandi þeirra tækja sem lánað hefði verið fyrir. Með bréfi, 20. desember 2012, hafnaði stefndi þeirri skoðun stefnanda að umræddir fjármögnunarleigusamningar væru lánssamningar með ólögmætri gengistryggingu enda teldi stefndi, í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, að enginn vafi léki á því að fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda væru löglegir. Þá hafnaði stefndi því að við lok samninganna yrði gefinn út lokareikningur og stefnandi yrði þá eigandi hins leigða.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort framangreindir níu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar eða lánssamningar, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir annars vegar á því að þeir níu samningar sem um sé deilt í málinu séu um lán í skilningi ákvæða VI. kafla laga nr. 38/2001, og hins vegar að þeir feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem sé bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi vísi til þess að þrátt fyrir heiti sitt lúti samningarnir ekki að fjármögnunarleigu að efni til. Þvert á móti hafi aðilar samið sérstaklega um að eignarrétturinn á tækjunum færðist yfir til stefnanda í lok samningsbundins „grunnleigutíma“, sbr. meðal annars tölvuskeyti stefnda til stefnanda 27. október 2006, í stað þess að tækin væru þá afhent stefnda. Þótt samninganir sem hér um ræði séu um margt áþekkir þeim sem til úrlausnar hafi verið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, skilji þó hér á milli það meginatriði að sannað sé í máli þessu að samið hafi verið um að stefnandi myndi eignast samningsandlagið gegn ákveðinni greiðslu við lok samningstíma. Til samræmis við meginreglur samningaréttar byggi stefnandi á því að aðdragandi og forsendur lögskipta aðila, renni skýrum stoðum undir það að um lánsviðskipti hafi að sönnu verið að ræða. Í aðdraganda viðskiptanna hafi því verið lýst yfir af hálfu þáverandi fyrirsvarsmanns stefnda að stefnandi eignaðist hin leigðu tæki á 2% af upphaflegu stofnverði samnings, í lok samningstímans. Beri að líta á þessa afdráttarlausu yfirlýsingu stefnda sem skuldbindandi loforð af hans hálfu sem orðið hafi hluti af samningi aðila, þegar stefnandi hafi samþykkt að ganga til viðskipta við stefnda. Í samræmi við meginreglur samningaréttar gangi slíkt skilyrði, sem aðilar semji sérstaklega um í tilteknum lögskiptum sín í milli, framar stöðluðum samningsskilmálum sem almennt séu notaðir fyrir viðkomandi tegund lögskipta. Sé því vafalaust að stefndi sé bundinn af ofangreindu loforði þess efnis að stefnandi eigi rétt á að eignast búnaðinn í lok samningstíma gegn greiðslu lokagjalds og fái staðlaðir samningsskilmálar stefnda og heiti samninganna því í engu breytt. Í öllu falli verði þetta atriði að skoðast sem ófrávíkjanleg forsenda af hálfu stefnanda, sem stefnda hafi verið fullkunnugt um, og sem byggt skuli á við túlkun og framkvæmd samningsins, í samræmi við forsendukenningu og þá viðurkenndu reglu samningaréttar að túlka beri samninga til samræmis við ótvíræðan vilja og forsendur aðila við samningsgerðina. Framangreint leiði til þess að samningarnir verða taldir lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 og gildi þá einu þótt stöðluð samningsákvæði og heiti samninganna gætu út af fyrir sig bent til annarrar niðurstöðu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 282/2011. Áréttað skuli að fyrrnefnt tölvubréf hafi stafað frá manni sem gegnt hafi starfi framkvæmdastjóra stefnda á þeim tíma sem til lögskiptanna hafi verið stofnað. Stefnandi telji engum vafa undirorpið að nefndur framkvæmdastjóri hafi haft fullt umboð út á við til að skuldbinda stefnda að þessu leyti og ekkert verið sem gefið hafi tilefni til annars, sbr. hér einnig ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. einnig lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafi stefnandi því enga ástæðu haft til að draga skuldbindingargildi yfirlýsingar hans í efa, hvorki þá né síðar. Stefnandi bendi jafnframt á að viðskiptin hafi upphaflega verið í formi ádráttarláns, en að frumkvæði stefnda hafi þau síðar verið færð í búning fjármögnunarleigu. Hafi það verið skilningur stefnanda að notkun þess samningsforms breytti engu um fyrrgreint eðli viðskiptanna, þ.e. að þau væru lánsviðskipti þar sem stefnandi yrði réttmætur eigandi tækjanna í lok samningstíma, í samræmi við skýlaust loforð stefnda og forsendur stefnanda fyrir samningsgerðinni. Komi því á óvart að stefndi haldi nú upp á stefnanda stöðluðu samningsákvæði um skil á leigumunum, sem eigi ekki við í lögskiptum aðila vegna þess sem að framan greini, og þrátt fyrir bindandi samning aðila um hið gagnstæða. Ennfremur sé til þess að líta að samningarnir hafi lotið að fjármögnun á mjög sérhæfðum búnaði til afnota í nýlegri Ethylesar verksmiðju stefnanda, sem sé ein sinnar tegundar hér á landi. Búnaðurinn sé samansettur úr mörgum mismunandi einingum frá mismunandi framleiðendum og sé samstæðan eðli máls samkvæmt sérsniðin að þörfum stefnanda sérstaklega. Því sé nær útilokað að mati stefnanda að þessi búnaður geti með einhverjum hætti nýst stefnda í framtíðinni, s.s. til útleigu til annarra aðila eða endursölu á markaði. Þá sé ógerningur að skilja búnaðinn frá verksmiðju stefnanda án þess að gríðarleg verðmæti fari til spillis, en stór hluti fjármögnunarinnar hafi einmitt snúið að uppsetningu og frágangi tækjanna í verksmiðju stefnanda. Sé því vandséð að mati stefnanda að neinar haldbærar viðskiptalegar forsendur séu fyrir því að stefndi fái þennan búnað í hendur að samningstíma loknum. Hafði stefndi jafnframt augljósa hagsmuni af því að þurfa ekki að sitja uppi með tækin í lok samnings, enda hafi hann sjálfur gert sérstakan áskilnað þar að lútandi, sbr. áðurgreint tölvubréf fyrirsvarsmanns hans 27. október 2006. Ekki einasta samningur aðila, heldur jafnframt eðli samningsandlagsins, bendi því eindregið til þess að um lán en ekki leigu sé að ræða. Þá sé á það bent af hálfu stefnanda að sama fyrirkomulag hafi tíðkast í fyrri fjármögnunarviðskiptum aðila í tengslum við kaup á áþekkum búnaði. Megi þar nefna fjármögnunarleigusamning, dags. 21. ágúst 2002, vegna fjármögnunar á pökkunarvél o.fl., svo og fleiri sambærilega samninga þar sem stefnandi hafi í öllum tilvikum eignast viðkomandi tæki í lok samnings, sbr. kafla 1.9 hér að framan. Auk framangreinds byggi stefnandi á því að skilmálar samninganna hnígi einnig að þeirri niðurstöðu að um lánsskuldbindingu hafi verið að ræða sem falli undir ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Í öllu falli mæli þeir ekki gegn því, sé á annað borð einhver vafi um inntak samningsskuldbindingarinnar. Í því sambandi megi benda á að samkvæmt ákvæðum samninganna hafi greiðslurnar borið vexti og auk þess verið bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla. Ennfremur hafi stefnandi borið áhættu af því að „hið leigða“ færist, skemmdist eða rýrnaði og honum að auki verið skylt að greiða fjárhæð, sem svaraði til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum yrði rift, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Að framangreindu virtu, og með vísan til samskipta aðila og fyrirliggjandi samningsskilmála að öðru leyti, byggi stefnandi á því að umþrættir samningar aðila séu um lán í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, þ.e. til kaupa á tækjum til afnota í starfsemi stefnanda sem hann eigi rétt til að eignast að samningstíma loknum, en heiti samninganna „fjármögnunarleiga“ hafi í raun verið nafnið tómt í lögskiptum aðila. Þá byggi stefnandi á því að umræddir samningar milli hans og stefnda séu um skuldbindingu í íslenskum krónum bundna við gengi erlendra gjaldmiðla, sem brjóti í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Sé þetta raunar engum vafa háð, eins og hér standi á, að því er stefnandi telji. Í þessu sambandi vísi stefnandi til þess að samningsfjárhæðir séu tilgreindar í íslenskum krónum og breytist til samræmis við gengi viðkomandi erlendra gjaldmiðla á hverjum tíma. Í 14. gr. samninganna sé beinlínis kveðið á um að „leiga [...] sem er gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlends og/eða erlendra gjaldmiðla er greind í ísl. kr. Leigugjald er innheimt í ísl. kr. Við útreikning leigu skal hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum skv. ákvörðun Lýsingar hf. við útgáfudag reiknings.“ Þá segi í 13. gr. (2. mgr.): „Ef samningur er í ísl. kr. er Lýsingu hf. heimilt að endurreikna leiguna sem tilgreind er í 5. og 6. gr. skv. breytingum á lánskjörum Lýsingar hf. og/eða á gjaldskrá Lýsingar hf. Það sama á við um gengistryggðar greiðslur en ennfremur er Lýsingu hf. heimilt að endurreikna þær greiðslur skv. breytingum sem verða á LIBOR vöxtum þess erlenda eða erlendu gjaldmiðla sem leigan er tilgreind í.“ Til samræmis við þetta sé „leigugrunnur“ skv. 2. gr. tilgreindur í íslenskum krónum og sömuleiðis fjárhæð leigugreiðslna í 5. gr. Í síðarnefndu greininni sé því einnig lýst hvernig fjárhæð leigugreiðslna skiptist í fleiri en einn erlendan gjaldmiðil og hvernig þeir skiptist innbyrðis, og séu þær fjárhæðir aðeins tilgreindar í íslenskum krónum, en ekki í viðkomandi gjaldmiðli („Leiga tengd EUR ... [x] kr.“). Sama gildi um mánaðarlega „framhaldsleigu“ að loknum grunnleigutíma, sbr. 6. gr. Að öðru leyti beri samningarnir skýrlega með sér að vera um skuldbindingar í íslenskum krónum tengdar við gengi erlenda gjaldmiðla. Til frekari stuðnings framangreindu sé einnig á það bent að greiðslur samkvæmt fjármögnunar-leigusamningunum skyldu jafnframt inntar af hendi í íslenskum krónum, sbr. 14. gr. samninganna, og svo hafi farið í raun. Engir erlendir gjaldmiðlar hafi því skipt um hendur í lögskiptum stefnanda og stefnda. Samkvæmt öllu framansögðu telji stefnandi engan vafa leika á því að umþrættar skuldbindingar hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar sé ljóst að slík gengistrygging brjóti í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 13. og 14. gr. laganna, og sé því ógild. Beri því að fallast á kröfur stefnanda í málinu.
Stefnandi byggi á ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna. Þá sé byggt á meginreglunni um skuldbindingargildi loforða, svo og þeirri meginreglu samningaréttar að atriði, sem aðilar semji sérstaklega um í lögskiptum sínum, gangi framar stöðluðum samningsskilmálum, sem annar samningsaðila hafi samið einhliða. Viðurkenningarkrafa sé gerð með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. sömu laga.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir á því að sú aðalmálsástæða stefnanda að umþrættir fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar standist engan veginn. Þannig hafi í nýlegum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 frá 24. maí 2012 („Smákranamál“) verið fjallað um samskonar fjármögnunarleigu-samningsform og hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að um væri að ræða leigusamning. Í dómi Hæstaréttar hafi verið komið inn á það að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Einnig hafi komið fram í dóminum að í samningi aðila væri fjallað um leigu og væri Lýsing hf. þar ítrekað nefnd leigusali. Tekið skuli fram að ekki verði annað séð en stefnandi byggi aðallega á sömu málsástæðum, í þessu máli og hafðar hafi verið uppi af hálfu stefnanda í fyrrgreindu máli Hæstaréttar nr. 652/2011 og telji stefndi því að beinst liggi við að sýkna hann í þessu máli. Tekið skuli fram að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 153/2010 frá 16. júní 2010 hafi fjallað um bílasamninga Lýsingar hf. en ekki fjármögnunarleigusamninga en hér sé um gjörólík eignaleiguform að ræða. Í því máli hafi verið um sjálfkrafa eignayfirfærslu að ræða án sérstakrar greiðslu, eftir að leigutaki hafði innt af hendi síðustu leigugreiðsluna. Í fjármögnunarleigusamningum sé aldrei um slíkt að ræða og hafi dómurinn því ekki fordæmisgildi hvað þetta varði. Jafnvel þó að aðilar semji um kauprétt í lokin gegn greiðslu tilgreindrar fjárhæðar, sem sé það atriði sem stefnandi byggi á, sé alls ekki hægt að jafna því við sjálfkrafa eignayfirfærslu í lokin eins og um hafi verið að ræða í málinu nr. 153/2010. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því, að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumunina á framhaldsleigu allt þar til að leigumunirnir séu orðnir úr sér gengnir eða ónothæfir. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum þar sem leigutaki verður að jafnaði sjálfkrafa eigandi hins leigða í lok leigutímans án sérstakrar greiðslu eða frekari samninga. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Í lögum um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem sú starfsemi skv. eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 19/1989 komi fram að þær skilgreiningar sem byggt væri á í forminu, tækju mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17). Í 4. gr. IAS 17 Alþjóðlegum reikningsskilastaðli um leigusamninga sé fjármögnunarleiga skilgreind á þann hátt að um sé að ræða leigusamning þar sem svo til öll áhætta og ávinningur, sem fylgi eignarhaldi á eign, sé yfirfærð og að eignarréttur ýmist færist eða færist ekki á milli aðila að lokum. Samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga og sé mjög skýrt fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til að um leigusamning sé að ræða. Samningsformið hafi upphaflega verið samið eftir norskri fyrirmynd um fjármögnunarleigusamninga og byggi á alþjóðlegum viðmiðunum um fjármögnunarleigusamninga. Stefndi hafi lagt fram í málinu sýnishorn af dönskum og norskum fjármögnunarleigusamningum. Þessi erlendu fjármögnunarleigusamningsform byggi á sömu grunnsjónarmiðum og form Lýsingar hf. og séu þetta þau form sem almennt séu notuð af eignaleigufyrirtækjum í þessum tveimur löndum, enda séu þessi form gefin út af samtökum eignaleigufyrirtækja í Danmörku og Noregi. Þeir fjármögnunarleigusamningar sem um sé deilt í þessu máli hafi öll einkenni fjármögnunarleigusamninga bæði hvað varði form, hugtakanotkun og efnislegt innihald. Eins og síðar verði vikið nánar að sé ljóst að stefnandi hafi kosið að tryggja sér afnot af umræddum tækjum með fjármögnunarleigusamningum við stefnda en ekki annars konar fjármögnun. Val á þessari samningstegund hafi byggst á fjölmörgum öðrum þáttum en beinum útgjöldum, svo sem þeim mun sem lögum samkvæmt sé á bókhaldslegri og skattalegri meðferð mismunandi samningstegunda. Því verði að skoða í heild réttaráhrif þess ef lagaákvæðum um önnur samningsform en leigu verði beitt um þessa fjármögnunarleigusamninga. Stefndi byggi á því að samningsform hans uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast leigusamningur skv. alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17, sem hafi lagagildi hér á landi. Á þessum staðli hafi verið byggt hér á landi, hvað leigusamninga varði, í áratugi, og hafi skilgreiningar á fjármögnunarleigu skv. honum verið notaðar í lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu skilgreindir í 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem: ,,reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002) sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002“. Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Í 7. tl. reglugerðarinnar sé fjallað um IAS alþjóðlegu reikningsskilastaðlana. IAS staðlarnir byggi á alþjóðlegum viðmiðunum. Í 7. gr. EES samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, komi fram að gerðir sem vísað sé til eða sé að finna í viðaukum við samninginn, eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, bindi samningsaðila og skuli þær teknar upp í landsrétt sem hér segi: a) gerð sem samsvari reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Í reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla komi fram markmiðið með reglugerðinni sem sé eftirfarandi: ,,Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.“ Í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 komi fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um alþjóðlega reikningsskilastaðla, sem samþykktir hafi verið, skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002. Á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 hafi ráðherra sett fjölda reglugerða um alþjóðlega reikningsskilastaðla, þar á meðal reglugerð nr. 1133/2007 að því er varði m.a. alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 17 um leigusamninga. IAS 17 staðallinn, sem lagagildi hafi hér á landi, fjalli um leigusamninga. Í 4. gr. staðalsins sé fjármögnunarleiga skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fjármögnunarleiga er leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignarréttur kann eða kann ekki að færast á milli aðila að lokum.“ Stefndi byggi á því að fjölmörg atriði staðalsins sýni fram á það ótvírætt að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar hf. sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Þessu til viðbótar megi nefna að túlkanir með reikningsskilastöðlum, frá túlkunarnefnd um alþjóðlega reiknisskilastaðla, þ.e. IFRS Interpretations Committee, bendi einnig til þess að fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar hf. sé leigusamningur og megi í því sambandi nefna: túlkunina IFRIC 4 Ákvörðun um hvort samningur inniheldur leigusamning og túlkunina SIC 27 Mat á inntaki viðskipta þegar um leigusamning er að ræða í lagalegum skilningi. Stefndi byggi á því að tilvísun ársreikningalaga í reglugerð og alþjóðlega reikningsskilastaðla sé samhangandi heild sem hafi lagagildi á Íslandi. Í því sambandi vísi stefndi til 3. gr. laga 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið þar sem fram komi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Út frá þessu ákvæði verði ekki komist hjá því að túlka hugtökin ,,leigusamningur” og ,,fjármögnunarleigusamningur” í samræmi við ákvæði IAS 17 í íslenskum rétti. Það leiði síðan tvímælalaust til þess að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar teljist vera leigusamningur. Í þessu sambandi vísi stefndi ennfremur til reglunnar um einsleitni í EB rétti, sem komi fram í 1. gr. EES samningsins, um að meginforsenda þess að framkvæmd samningsins takist vel sé sú að ekki skuli aðeins sömu reglur gilda, heldur skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES svæðinu öllu. Þetta hafi ennfremur í för með sér skyldu allra eininga ríkisvaldsins til að ná fram lagaáhrifum EES reglnanna í landsrétti EFTA-ríkjanna, sbr. 3. gr. EES samningsins um skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993. Stefndi byggi á því að meginreglan um einsleitni og sjónarmið Evrópuréttarins um samræmda skýringu hugtaka eigi að leiða til þess að á Íslandi verði notast við þá skilgreiningu á hugtakinu ,,leigusamningi” sem sé að finna í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17. Með þessu sé hugtakinu ,,leigusamningur” gefin merking sem rúmist innan EES samningsins og þeirra reglna sem á honum byggi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/2010 sé komið inn á framangreind sjónarmið og tekið fram að slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking, sem rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tengslum við rekstur hæstaréttarmálsins nr. 652/2011 hafi Lýsing hf. látið nokkrar af stærstu endurskoðunarstofum landsins vinna fyrir sig álit um það hvort fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar hf. gæti talist vera fjármögnunar-leigusamningur í samræmi við IAS 17 Alþjóðlegan staðal um leigusamninga. Álit allra endurskoðunarfyrirtækjanna hafi verið á þá leið að fjármögnunarleigu-samningsform Lýsingar hf. félli undir staðalinn um leigusamninga og væri þannig leigusamningur. Þegar erlendir bankar og fjárfestar eigi viðskipti hér á landi eigi þeir að geta treyst því að hér sé farið eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Ísland hafi innleitt á grundvelli EES samningsins og að þeir geti tekið viðskiptalegar ákvarðanir út frá því. Í þessu sambandi megi m.a. nefna að aðallánveitandi stefnda sé þýskur banki sem gangi út frá þessu sem vísu. Í greinargerð stefnanda sé reynt að færa fyrir því rök að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar. Stefndi mótmæli því að nokkur af þeim atriðum sem stefnandi bendi á, styðji það að hinir umþrættu samningar aðila séu lánssamningar frekar en leigusamningar. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka skv. ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar, sem falli undir vaxtalögin nr. 38/2001, séu lánssamningar um peninga eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar. Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum megi ráða að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga og megi í því sambandi m.a. nefna eftirfarandi atriði:
Heiti samninganna, þ.e. ,,fjármögnunarleigusamningar“ bendi til þess að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga.
Í gegnum alla samningana sé talað um ,,leigusala“ og leigutaka“ og bendi það til þess að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga.
Orðnotkun í samningunum bendi eindregið til að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga. Sem dæmi um þetta megi nefna að gerð sé grein fyrir leigumun sem hinu leigða í 1. gr. samninganna og leigugrunni í 2. gr. samninganna. Í 4. gr. sé fjallað um grunnleigutíma og í 5. gr. um greiðslutilhögun leigu. Í 6. gr. sé gerð grein fyrir grunnleigutíma og framhaldsleigu. Í öðrum greinum samninganna sé sama orðnotkun og þannig ávallt gengið út frá því að um leigusamninga sé að ræða. Það skuli ítrekað í þessu sambandi að í máli nr. 652/2011 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga.
Virðisaukaskattur leggst ofan á einstakar leigugreiðslur fjármögnunarleigu-samninga en slíkt tíðkist aldrei í lánssamningum.
Skattayfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Ákvarðandi bréf RSK gefi skýrt til kynna að skv. réttum skilningi laga um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur skv. kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum, sbr. fyrirliggjandi bréfi RSK nr. 273/1991. Stefndi hafi greitt virðisaukaskatt af kaupverðinu í upphafi og gengið út frá því að innheimta virðisaukaskattinn til baka í gegnum leigugreiðslur út grunnleigutímann. Gangi það ekki eftir sé það breyting á þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við samningsgerðina en aðilar hafi verið sammála um að þar sem um leigusamninga væri að ræða skyldi greiða virðisaukaskatt af leigugreiðslum. Til viðbótar við þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst megi nefna að stefnandi hafi innskattað virðisaukaskatt af leigugreiðslum í bókhaldi sínu. Allar þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst miðist við þann gagnkvæma skilning aðila að um leigusamninga hafi verið að ræða. Í Danmörku gildi sömu reglur og hér um það að virðisaukaskattur leggist ofan á leigugreiðslur af fjármögnunarleigu-samningum. Í því sambandi megi vísa í 1. tl. 4. gr. í danska samningsforminu, sem fyrir liggi í málinu. Þegar leiga sé innheimt séu sendir út ,,reikningar fyrir leigu“ og sé það sá háttur sem stefndi hafi haft á. Slíkt eigi ekki við þegar um lán sé að ræða. Á leigureikningunum komi einnig skýrt fram að við leiguna bætist virðisaukaskattur en sama eigi ekki við um lán eins og áður hafi komið fram. Það verði að teljast harla langsótt hjá stefnanda að halda því fram að um lánssamning sé að ræða í ljósi þess að hann hafi greitt reikninga án athugasemda, þar sem fram hafi komið að um leigureikninga væri að ræða og á reikningunum komi einnig skýrt fram að virðisaukaskattur bættist við leigugreiðsluna. Þegar eign sé keypt með láni eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra í skattskilum, á þeim árum sem eign sé notuð við öflun tekna, sem fyrningu, en leigu megi gjaldfæra um leið og notkunin eigi sér stað. Grundvallarmunur sé þannig á skattalegri meðferð lánasamnings og leigusamnings. Leigugjaldið sé frádráttarbært til skatts sem hver annar rekstrarkostnaður og skapi það leigutaka að jafnaði talsvert hærri skattfrádrátt en afskriftir af keyptum hlut, þ.e. þegar leigutíminn sé styttri en afskriftartíminn. Gjaldfærsluleiðin sé einmitt einn helsti kostur leigusamninga, þ.e. að geta gjaldfært leigugreiðslur í gegnum rekstrarreikning og að fjármögnunin sé utan efnahagsreiknings. Stefnandi byggi á því að fjármögnunarleigusamningar séu lánssamningar gagnvart stefnda í þeirri von að það skapi honum rétt til endurreiknings og lækkunar á leigu. Í ársreikningum sínum færi stefnandi fjármögnunarleigusamningana hins vegar sem leigusamninga. Þannig megi á bls. 8 í ársreikningunum sjá eftirfarandi í skýringu nr. 2:
,,Leigusamningar: Leigusamningar eru flokkaðir sem fjármögnunar-leigusamningar þegar samningsskilmálar gera ráð fyrir að verulegur hluti áhættunnar og hagur af eignaréttindum sé framseldur leigukaupa. Eignir skv. fjármögnunar- og kaupleigusamningum eru færðar meðal varanlegra rekstrarfjármuna og afskrifaðar á líftíma þeirra. Skuldbinding við leigusala er færð til skuldar í efnahagsreikningi. Aðrir leigusamningar eru flokkaðir sem rekstrarleigusamningar og leigugreiðslur gjaldfærðar á því tímabili sem þær tilheyra.“
Framangreind skilgreining í reikningsskilum í ársreikningi stefnanda sé í samræmi við IAS 17 Alþjóðlega reikningsskilastaðalinn um leigusamninga og megi m.a. vísa í 8. og 20. gr. staðalsins í þessu sambandi. Rökin fyrir því að færa þetta á þennan hátt í reikningsskilum komi fram í 21. gr. staðalsins en þar sé tiltekið að í tilviki fjármögnunarleigu fái leigutakinn efnahagslega ávinninginn af notkun leigðu eignarinnar megnið af hagrænum endingartíma hennar gegn því að skuldbinda sig til að greiða fyrir þennan rétt fjárhæð sem svari, þegar leigusamningurinn sé gerður, u.þ.b. til gangvirðis eignarinnar og tengds fjármagnskostnaðar. Stefnandi byggi á því að ársreikningur stefnanda staðfesti að hann fari með fjármögnunarleigusamninga sína sem leigusamninga. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala, í raun og skv. skattskilum, og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Eignarréttur haldist þannig hjá leigusala fjármögnunarleigusamnings allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímabilinu og því sé ekki um lánssamning að ræða. Við túlkun og mat á því hvort hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar séu leigusamningar eða lánssamningar beri að horfa á samningana heildstætt og varast að láta einstök atriði hafa úrslitaáhrif hvað þetta varði. Af upptalningunni í þessum kafla leiði að um leigusamninga sé að ræða frekar en lánssamninga, en það sé einnig stutt af framkvæmd í nágrannalöndum Íslands og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem lagagildi hafi á Íslandi. Í kafla IV. um málsástæður og lagarök í stefnu nefni stefnandi ýmis atriði sem hann telji að styðji það að hina umþrættu fjármögnunarleigusamninga aðila eigi að flokka sem lánssamninga í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Þau atriði sem stefnandi byggi þetta séu m.a. eftirfarandi. Undir lið 2.2. á bls. 7 í stefnu byggi stefnandi á því að þrátt fyrir heiti sitt lúti samningarnir ekki að fjármögnunarleigu að efni til, heldur hafi aðilar samið um að eignarrétturinn á tækjunum færðist yfir til stefnanda í lok samningsbundins grunnleigutíma. Í fyrsta lagi mótmæli stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda, að hinir umþrættu samningar aðila lúti ekki að fjármögnunarleigu að efni til. Í þessu sambandi vísi stefndi til þess að í dómi Hæstaréttar nr. 652/2011 komi fram að stöðluð ákvæði samnings Lýsingar hf. séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Í öðru lagi mótmæli stefndi því að tölvupóstur framkvæmdastjóra stefnda frá 27. október 2006 sé ígildi tilboðs um að stefnandi myndi eignast hið leigða við lok fjármögnunarleigusamnings og að það eitt og sér leiði til þess að samningar aðila teljist lánssamningar en ekki leigusamningar. Bent skuli á að yfirskrift tölvupóstsins bendi ekki til að um tilboð sé að ræða en yfirskrift tölvupóstsins sé: ,,Omega 3 þykkni“. Ekkert komi heldur fram í tölvupósti frá stefnanda í framhaldinu þess efnis að eitthvað tilboð sé í farvatninu, hvað þá að tilboði hafi verið tekið eins og almennt sé gerð krafa um ef samningur eigi að komast á, heldur sé meginefni tölvupóstsins frá stefnanda í raun atvinnuumsókn, þar sem óskað sé eftir vinnu hjá stefnda fyrir tiltekinn frænda framkvæmdastjóra stefnanda. Stefnandi gangi svo langt að kalla þessa tvo tölvupósta ,,bindandi samning aðila“ sem stefndi telji fráleitt. Ljóst sé að tölvupóstarnir hafa ekkert sönnunargildi í málinu og víki fyrir skýrum ákvæðum í endanlegum fjármögnunarleigusamningum aðila. Málsástæða stefnanda um hið meinta tilboð sé sögð byggja á dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 („Kraftvélamál“). Í stefnu sé þessi dómur reifaður og komist að þeirri niðurstöðu að það sem hafi ráðið úrslitum í málinu hafi verið það að tekist hafi að sanna að samið hafi verið um að lántakinn eignaðist hið leigða í lok samningstímans gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu. Stefndi mótmæli þessari túlkun og bendi á að í viðkomandi dómi hafi verið fjallað um fjölmörg önnur atriði og komist að þeirri niðurstöðu að þegar framangreind atriði væru virt í heild yrði að telja að þótt hinn umþrætti samningur aðila væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt og í raun væri um lán að ræða. Af hálfu stefnda sé því haldið fram að ákvæði hinna umþrættu fjármögnunarleigusamninga í þessu máli víki frá ákvæðum þess samnings sem deilt hafi verið um í fyrrnefndu máli í svo veigamiklum atriðum að heildstætt mat á samningunum eigi að leiða til gagnstæðrar niðurstöðu. Rökstuðningur stefnanda fyrir því að samið hafi verið um að eignarrétturinn á tækjunum færðist yfir til hans við lok samnings sé eingöngu byggður á einum tölvupósti, sem stafi frá þáverandi framkvæmdastjóra stefnda og sé tölvupósturinn dagsettur 27. okt. 2006. Stefndi ítreki það sem áður hafi komið fram í greinargerð hans að hann telji að tölvupóstur þessi geti ekki haft neitt sönnunargildi í málinu. Í liðum d-e í tölvupóstinum séu tiltekin fjölmörg atriði. Svipuð atriði megi finna á bls. 1 í fjármögnunarleigusamningum aðila þó kjörin séu ekki sambærileg. Hvað það ákvæði tölvupóstsins varði að í lok fjármögnunarleigusamningsins eignist Lýsi hf. hið leigða á 2% af upphaflegu stofnverði samnings sé það ákvæði ekki að finna í samningum aðila heldur hafi verið samið á annan veg. Tekið skuli fram að um sé að ræða sjö ára gamlan tölvupóst sem finnist ekki hjá stefnda og engin leið sé fyrir stefnda að átta sig á því í hvaða samhengi hann hafi verið sendur út. Stefndi byggi á því, í þessu sambandi, að í 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningarnir ótímabundið skv. 6. gr. samninganna. Í lok 12. gr. komi síðan fram að leigutaki geti sagt hinum framlengdu samningum upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki sé gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því nema leigutaki vilji skila leigumun. Stefndi taki fram að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu stimplaðir með prókúrustimpli stefnanda og undirritaðir af prókúruhafa félagsins á bls. 2 í samningnum þar sem ákvæði 12. gr. sé að finna og sé stefnandi því bundinn af því ákvæði. Hefði stefnandi talið að 12. gr. ætti ekki við hefði hann átt að óska eftir því að sú grein yrði strikuð út og ný grein sett í hennar stað en það hafi hann ekki gert. Í 35. gr. samningsins sé sérstaklega tekið fram með feitu letri að stefnandi (leigutaki) hafi kynnt sér og hafi ekkert við að athuga alla skilmála samningsins en þar segi orðrétt. ,,Undirritaður leigutaki og ábyrgðarmenn hafa kynnt sér og hafa ekkert við að athuga alla skilmála samnings þessa, greinar 1-35 ......“ Stefndi byggi á því að framangreind staðfesting stefnanda á endanlegu innihaldi samninga aðila, með undirritun á hina umþrættu samninga aðila, vegi mun þyngra en ósamrýmanlegur texti í tölvupósti, sem stefnandi byggi á og stafi frá fyrri tíma. Stefndi telji að atvik í máli nr. 652/2011 („Kraftvélamál“) séu ólík hvað varði samningsformið og önnur atvik. Samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga og sé að því leyti ólíkt formi Íslandsbanka hf. í ,,Kraftvélamálinu”, þar sem fram komi í almennum skilmálum samnings Íslandsbanka hf. að þeir eigi bæði við um kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga. Samningsform stefnda sé að þessu leyti mun skýrara fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til að um leigusamning sé að ræða. Í 13. gr. Íslandsbankasamningsins í „Kraftvélamálinu“, sé komið inn á stöðuna við lok samningstímans á bls. 2 í samningsforminu. Grein 13. í því máli tilheyri almennum skilmálum samningsins sem séu óundirritaðir. Sá kafli samningsins sé því ekki undirritaður á sama hátt og í hinu umþrætta samningsformi Lýsingar hf.. Í öðru lagi sé ekki nein grein í samningsformi því sem um hafi verið fjallað í „Kraftvélamálinu“ sem sé sambærileg og 35. gr. í samningsformi Lýsingar hf.. Í þriðja lagi hafi legið fyrir í „Kraftvélamálinu“ að tveimur mánuðum eftir gerð samningsins hafi Glitnir gert heildartilboð í fjármögnunina þar sem komið sé inn á kauprétt í lokin. Engin slík staðfesting liggi fyrir á milli Lýsingar hf. og Lýsis hf. eftir að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila hafi verið undirritaðir og gildi því 12. gr. í fjármögnunarleigusamningi aðila. Í ljósi framangreinds rökstuðnings liggi fyrir að ósannað sé í málinu að samið hafi verið um að stefnandi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda sé heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar sé mælt fyrir um í samningum aðila. Samkvæmt þessu sé því ljóst að stefnandi verði ekki eigandi að leigðum tækjum án þess að til frekari samninga komi á milli aðila og ef til þess kæmi yrði um sjálfstæðan samning að ræða. Stefnandi vilji einnig benda á í þessu sambandi að ef aðilar hefðu sett inn ákvæði í hina umþrættu fjármögnunarleigusamninga um að stefndi yrði eigandi hins leigða í lok samningstíma gegn greiðslu á upphaflegu stofnverði samnings þá hefði það ekki skipt máli því engu að síður hefði verið um leigusamninga að ræða. Þessu til stuðnings megi vísa í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. IAS 17 alþjóðlega reikningsskilastaðalsins, þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar. Í 6. gr. IAS 17 komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki einnig til samninga um leigu á eign sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni, þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar. Þar sem þessir samningar teljist leigusamningar, skv. reikningsskilastaðlinum, falli þeir því ekki undir það að vera lánssamningar og þar af leiðandi eigi þessir samningar ekki undir ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Í gr. 10 a í IAS 17 reikningsskilastaðlinum sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhaldið skv. fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok samningstímans. Í gr. 10 b í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að nokkuð víst sé við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Skv. þessu sé ljóst að viðkomandi reikningsskilastaðall, sem hafi verið innleiddur með reglugerð sem hafi lagagildi hér á landi, gangi út frá því að það skipti engu máli hvort eignarréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum og hvort samið sé um kauprétt eða ekki við lok samningstímans, viðkomandi samningur sé í öllum tilvikum leigusamningur. Með því að horfa til ákvæða IAS 17 sé byggt á orðum íslenskra laga við túlkunina á því að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Ítrekað skuli það sem áður hafi komið fram í greinagerð stefnda að byggt hafi verið á þessum staðli um leigusamninga, á Íslandi í áratugi og hafi skilgreiningar á fjármögnunarleigu skv. honum síðast verið notaðar í lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Til viðbótar við það sem komið hafi fram um að ekkert ákvæði sé um kauprétt í hinum umþrættu fjármögnunarleigusamningum aðila megi nefna að það sé ekki óalgengt í viðskiptalífinu að í leigusamninga séu sett ákvæði um: forkaupsrétt- forleigurétt eða kauprétt. Þrátt fyrir tilveru slíkra ákvæða breytist eðli leigusamnings aðila ekki úr því að vera leigusamningur, yfir í það að vera lánssamningur. Undir lið 2.2.4 í stefnu byggi stefnandi á því að stefndi hafi útbúið viðskipti aðila í búning fjármögnunarleigu en þrátt fyrir það hafi stefnandi talið að um lánsviðskipti væri að ræða. Stefndi mótmæli þessum málflutningi stefnanda sem röngum og vísi til þess að stefnandi hafi greitt reikninga frá stefnda þar sem skýrlega komi fram að um reikninga fyrir leigugreiðslum væri að ræða sem bæru virðisaukaskatt en slíkt tíðkist ekki með lánssamninga. Einnig megi benda hér á það sem áður hafi komið fram að stefndi tilgreindi fjármögnunarleigusamninga sína sem leigusamninga í ársreikningi sínum. Það hafi ekki verið fyrr en mörgum árum eftir samningsgerðina sem stefnandi hafi kúvent afstöðu sinni og haldið því fram að um lánssamninga hafi verið að ræða í þeirri von að geta fengið fjármögnunarleigu-samningana endurreiknaða á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar. Undir lið 2.2.5. í stefnu haldi stefnandi því fram að hið leigða sé sérhæfður búnaður og það bendi til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu sem rangri og bendi á að hann hafi keypt þennan búnað beint af seljendum hans og sé óskilyrtur eigandi búnaðarins, sbr. og 15. gr. í fjármögnunarleigusamningum aðila. Um sé að ræða nýlega vélasamstæðu sem stefndi geti leyst til sín með innsetningargerð á grundvelli eignarréttar, ef vanefndir verði af hálfu stefnanda. Í framhaldi af því geti stefndi selt eða leigt samstæðuna í heild, eða einstök tæki úr henni, til þriðja aðila, innanlands eða erlendis. Undir lið 2.2.6 í stefnu byggi stefnandi á því að í fyrri fjármögnunarleiguviðskiptum aðila hafi hann að endingu orðið eigandi að þeim tækjum sem hann hafi áður verið með á fjármögnunarleigu. Það sé ekkert óeðlilegt við það að tilteknum fjármögnunarleigusamningum aðila hafi lokið með því að stefnandi hafi keypt viðkomandi tæki af stefnda. Í þessum tilvikum hafi stefndi tekið einhliða ákvörðun um það, við lok grunnleigutímans, að samþykkja beiðni leigutaka um að fá að kaupa tækin. Stefnandi hafi keypt tækin og gengið verið frá sölunni með sölureikningi/afsali, samhliða greiðslu á kaupverðinu. Slík sala sé fyrir utan lögskiptin sem grundvölluð séu á fjármögnunarleigusamningnum. Stefnandi sé ekki, frekar en önnur eignaleigufyrirtæki, í þeim viðskiptum, að safna að sér gömlum leigumunum sem skilað hafi verið í lok samningstíma, heldur leitist við að selja eða losna við munina þannig að félagið hafi a.m.k. ekki kostnað af. Í mörgum tilvikum sé eðlilegast að kaupandi leigumunar sé leigutakinn sjálfur, enda þekki hann leigumuninn og hafi væntanlega not fyrir hann. Undir lið 2.3. í stefnu byggi stefnandi á því að skilmálar samninganna bendi til þess að um lánssamning sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu og vísi til þess að samningsformið sé skýrt fjármögnunarleigu-samningsform enda komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 að stöðluð ákvæði fjármögnunarleigusamnings Lýsingar hf. væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Undir lið 2.3. í stefnu byggi stefnandi einnig á því að þar sem í skilmálum samninga aðila séu ákvæði um vexti, bendi það til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu og byggi það á eftirfarandi rökum: Hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila beri alls ekki vexti og því sé hér um misskilning að ræða hjá stefnanda. Tilvísun til vaxta í fjármögnunarleigu-samningunum sé einungis sett fram sem viðmiðun fyrir ákvörðun leigugreiðslna en breyti ekki skýru inntaki samninganna sem séu samkvæmt formi og efni dæmigerðir fjármögnunarleigusamningar. Í 10. gr. fjármögnunarleigusamninganna komi fram hvaða vaxtaviðmið notast hafi verið við, þegar leigugreiðslur hafi verið ákvarðaðar í upphafi, og sé þetta sambærilegt við það þegar grunnvísitölu sé getið í hefðbundnum húsaleigusamningum. Í 2. mgr. 13. gr. samninganna sé síðan tekið fram að stefnda sé heimilt að endurreikna leigugreiðslur skv. breytingum sem verði á LIBOR vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Hækki eða lækki LIBOR vextir hafi það síðan áhrif á fjárhæð einstakra leigugreiðslna. Í fjármögnunar-leigusamningunum sé byggt á ákveðnum leigugrunni sem taki mið af breytingum út frá gengi tiltekinna gjaldmiðla og LIBOR vöxtum. Leigutaki greiði leigugreiðslur á grundvelli þess leigugrunns. Vaxtaviðmiðið sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Heildarleiguverðið eigi síðan að miðast við það að þegar tiltekinn lágmarksleigutími sé liðinn hafi leigusali fengið greitt til baka, því sem næst, kaupverðið ásamt kostnaði og þeirri ávöxtun sem leigusalinn telji sig þurfa, sbr. skilgreiningu á vöxtum í 4. gr. á bls. 3 og d-lið 10. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins um leigusamninga. Vaxtakostnaður stefnda sé því innbyggður í leigugjaldinu en ekki sé um það að ræða að vextir bætist við einstakar leigugreiðslur. Sambærilegar viðmiðunarheimildir séu algengar í íslenskum leigusamningum og megi í þessu sambandi m.a. vísa í 37. gr. laga nr. 36/1994 um húsaleigu. Í þessu sambandi sé einnig vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 98/1978 (1980/1291). Þessi tenging sé því ekkert óeðlilegri en þegar t.d. húsaleigusamningar séu tengdir hækkunum sem verði á neysluvísitölu frá ákveðinni grunnvísitölu við upphaf leigutíma. Þegar alþjóðlegir LIBOR vextir hækki hafi það áhrif á fjármögnunarkostnað stefnda gagnvart erlendum fjármögnunaraðilum og þar með á leigugrunninn sem verði til þess að einstakar leigugreiðslur hækki. Stefndi hefði eins getað áætlað ávöxtunarkröfu inn í leigugreiðslur strax frá upphafi og jafnframt metið til fjár þá áhættu sem hann hafi haft af mögulegum gengisbreytingum og vaxtahækkunum. Samningsaðilar hafi hins vegar kosið að koma þessari áhættu inn í samningana með þeim hætti sem gert hafi verið enda hefði stefnandi notið góðs af því ef þróun gengis og vaxta hefði orðið með gagnstæðum hætti. Það sé ekkert sem banni stefnda að áskilja sér breytingar á fjárhæð leigugreiðslna á þann hátt að hækkun á LIBOR vöxtum, á tilgreindum myntum, hafi áhrif á leigugreiðslur til hækkunar. Megi í þessu sambandi vísa til síðustu mgr. 4. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins um leigusamninga en þar sé gert ráð fyrir samskonar breytingum á leigufjárhæðum. Þar sé slíkt kallað ,,skilyrt leiga“ og sé nánar skilgreint sem sá hluti leigunnar sem ekki sé föst fjárhæð, heldur miðist við aðra þætti en framrás tímans eingöngu (t.d. hundraðshluti af sölu, notkun verðvísitalna og markaðsvaxta). Einnig sé gert ráð fyrir þessu í 5. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins. Sambærileg ákvæði um vaxta- og gengisviðmið og séu í samningi stefnda megi finna í leigusamningum um fjármögnunarleigu hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Í því sambandi megi vísa í 2. tl. e í 1. gr. og 2. 3. tl. 4. gr. í danska samningsforminu og í 5. og 9. gr. í norska samningsforminu. Tekið skuli fram að ákvæði um vexti séu ekki tilgreind á leigureikningum sem stefndi sendi stefnanda enda beri einstakar leigugreiðslur ekki vexti. Stefndi telji að þegar horft sé til þeirra sjónarmiða sem hér hafi verið rakin og ákvæða alþjóðlegra reikningsskilastaðla og sambærilegra norrænna samninga, þá bendi heimildir stefnda til að hækka leigugreiðslur í samræmi við hækkanir á LIBOR vöxtum, ekki til þess að frekar sé um lánssamninga að ræða, heldur en leigusamninga og þá sérstaklega þegar horft sé til forms og efnis fjármögnunarleigusamninganna í heild. Að síðust byggi stefnandi á því undir lið 2.3. í stefnu að hann beri áhættu af því ef hið leigða farist, skemmist eða rýrni og það bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu sem röngu og bendi á að hér sé um að ræða atriði sem byggt hafi verið á í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 („Smákranamál“) þar sem dæmt hafi verið að um leigusamning væri að ræða. Það sé ekkert óeðlilegt við ákvæði 21. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila um að stefnandi þurfi að greiða leigu þó hið leigða skemmist eða bili. Hér sé um að ræða atriði sem aðilar hafi samið um og hafi verið tekið mið af í leiguverðinu. Í fjármögnunarleigusamningum sem þessum sé mun nærtækara að umráðamaður tækis beri ábyrgðina á framangreindum þáttum og leiði þetta til þess að hann passi betur upp á tækin. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á það að leigutaki beri ábyrgð á því að greiða vátryggingariðgjöld af tækjunum, sbr. 23. gr. samninganna. Það að hann beri framangreinda ábyrgð á tækjunum verði til þess að hann passi betur upp á að tækin séu ávallt vátryggð og að tryggingar verði ekki felldar niður vegna vanskila. Stefnandi bendi á að í skilmálum samninganna aðila sé gengið út frá því að við vanefndir geti stefndi rift samningunum og allt að einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans. Telji stefnandi að þetta bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Ákvæðið um að við riftun af hálfu leigusala geti hann krafið leigutaka um alla ógjaldfallna leigu sé að finna í 1. tl. 30. gr. samninganna. Jafnvel þó að slíkt ákvæði sé óhefðbundið í leigusamningum sé ekkert sem banni það að hafa slíkt ákvæði í leigusamningum. Horfa þurfi á þetta ákvæði í tengslum við önnur ákvæði í 30. gr. samninganna og það að við riftun fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Þannig sé t.d. kveðið á um það í 4. tl. 30. gr. samninganna að frá skuld leigutaka við Lýsingu hf. skv. tl. 1-3 skuli draga verðmat hins leigða. Taka þurfi mið af því við skýringu á þessu ákvæði að oft á tíðum séu leiguhlutir sérhæfðir og úreldist hratt og erfitt sé að endurleigja þá og því sé nauðsynlegt að hafa inni ákvæði í samningi á þá leið að leigutaki verði að greiða ógjaldfallna leigu til að minnka líkur á því að leigusali verði fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna vanefnda leigutaka. Uppgjörsreglur vegna vanskila í umræddum fjármögnunarleigusamningum séu þær sömu og uppgjörsreglur í kjölfar riftunar í norrænum fjármögnunarleigu-samningum. Í því sambandi megi vísa í 15. gr. í danska samningsforminu og í 7. gr. í norska samningsforminu. Uppgjörsreglurnar byggi á því að í framhaldi af riftun fjármögnunarleigusamnings fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Inn í þetta spili einnig að í mörgum tilvikum sé hið leigða í mjög slæmu ástandi við riftun og vörslusviptingu og leiga til þriðja aðila því ómöguleg. Hugsunin á bak við 1. tl. 30. gr. samningsskilmálanna hjá stefnda sé því að geta krafið um áframhaldandi leigu sem ígildi skaðabóta í formi efndabóta innan samninga vegna samningsrofa. Í efndabótakröfunni felist að gera stöðu leigusalans þá sömu og samningurinn hafi verið efndur að fullu á þann hátt að leigusalinn fái ígildi framtíðarleigugreiðslna að frádregnu verðmæti tækisins. Líta megi á heimildarákvæðið í 1. tl. 30. gr. samninganna og uppgjör skv. henni sem mögulegar skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa. Undir þá túlkun sé tekið í fyrirliggjandi ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að ákvæði fjármögnunarleigusamnings Lýsingar hf. séu í samræmi við skilgreiningu á fjármögnunarleiguhugtakinu í 4. og 8. gr. IAS 17 þar sem fram komi að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta sem fylgi eignarhaldi á eign sé yfirfærð til leigutaka. Í þessu sambandi megi einnig vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. 5. tl. 4. gr. og 7. gr. danska fjármögnunarleigu-samningsformsins. Í kafla c) II. á bls. 10 í stefnu heldur stefnandi því fram að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu í íslenskum krónum og innihaldi ólögmæta gengistryggingu. Stefndi byggi á því að honum hafi verið heimilt að gengistryggja samningana vegna þess að um sé að ræða leigusamninga en leigusamningar falli ekki undir ákvæði VI. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem gengistrygging lánssamninga sé bönnuð. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafa í dómum ekki verið talin ná til gagnkvæmra samninga eins og t.d. leigusamninga og verksamninga. Í þessu sambandi má nefna dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 98/1978 (1980:1291) og áður nefndan dóm í máli nr. 652/2011 („Smákranamál“). Stefndi byggi í máli þessu á reglunni um samningsfrelsi. Í þeirri reglu felist m.a. að aðilar samnings eigi forræði á því, hvers efnis sá samningur sé, sem þeir geri, þ.e. hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningum og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist. Af sama meiði sé meginregla leiguréttar um að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginregla þessi komi m.a. fram í 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum geri það að verkum að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði sé í íslenskum lögum sem banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum og sé hún því heimil. Stefndi telji að við túlkun á því hvort að um leigusamninga eða lánssamninga sé að ræða verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina. Stefndi byggi á því að við gerð fjármögnunarleigusamninganna hafi báðum aðilum verið það ljóst að gengisáhrif fylgdu því að hafa samningana gengistryggða og hafi stefnandi tekið mið af því þegar hann hafi valið að gera gengistryggða fjármögnunarleigusamninga. Stefndi bendi á í þessu sambandi að í rökstuddu áliti eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. maí 2013 sé sérstaklega komið inn á það að hin íslenska löggjöf um bann við gengistryggingu samrýmist ekki meðalhófsreglu og þetta sjónarmið eigi alveg sérstaklega við um lögpersónur þar sem sá hópur hafi nauðsynleg efni og aðstöðu til að meta áhættu á fullnægjandi hátt þegar hugað sé að gengistryggðum lánssamningi. Það hafi verið forsenda af hálfu stefnda að þar sem um gengistryggða leigusamninga væri að ræða, skyldu endurgreiðslur bundnar gengi hinna erlendu mynta sem stefnandi hafi valið og að við ákvörðun leigugreiðslna skyldi taka mið af LIBOR vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátt vera þessi forsenda ljós. Um hafi verið að ræða verulega forsendu sem verið hafi ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Gengisviðmiðunin hafi haft úrslitaáhrif á samninga aðila um vaxtaviðmiðun. Sjáist það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vaxtaviðmiðun hafi ávallt verið hjá stefnda á þeim samningum sem ekki séu með gengisviðmið. Hvað forsendur varði sé í öðru lagi á því byggt að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varði gengistrygginguna og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtaviðmiði samninganna. Verði að telja að góður og gegn leigutaki hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að gengistrygging fjármögnunarleigusamninganna væri forsenda þeirrar vaxtaviðmiðunar sem í boði var. Hvað forsendur varði sé í þriðja lagi byggt á því að sanngjarnt sé og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigusamninga aðila. Önnur niðurstaða leiði til þess að gæðum verður mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Eins og fram hafi komið hafi gengistryggingin verið forsenda þess að hægt væri að hafa jafn lága vaxtaviðmiðun og raun hafi orðið á og verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samningana fái stefnandi leigukjör sem engum öðrum hafi boðist, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilega auðgun stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum. Þegar framangreindar forsendur séu hafðar í huga, og með því að beita sanngirnismælikvarða við túlkun á samningum aðila, telji stefndi rétt að miða við að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að reikna upp með gengisviðmiðun þeirri sem aðilar hafi samið um. Verði ekki fallist á það að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar séu leigusamningar og talið að um lánssamninga sé að ræða byggi stefndi á því að samningarnir séu ekki íslenskir lánssamningar með ólögmætum gengistryggingar-ákvæðum, sem fari gegn ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001, heldur sé um lögmæta samninga í erlendum myntum að ræða, en lán í erlendri mynt falla ekki undir bannreglur VI kafla vaxtalaganna og því byggi stefndi á því að gengisviðmiðun fjármögnunarleigusamninganna sé lögmæt. Bent skuli á að í 2. gr. fjármögnunarleigusamninganna sé leigugrunnur tilgreindur nákvæmlega í erlendum fjárhæðum og tilgreining erlendra mynta í fjárhæðum komi einnig fram á leigureikningum og yfirlitum sem stefndi hafi sent stefnanda. Til viðbótar megi nefna að Lýsing hf. hafi greitt háar fjárhæðir í erlendum myntum þegar hún hafi keypt hluta af tækjunum erlendis frá. Skýrt sé tekið fram í dómum Hæstaréttar í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011 að skv. forsendum dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Ef dómurinn telji af einhverjum ástæðum að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar og að þeir séu í íslenskum krónum og með ólögmætri gengistryggingu og geti því sem slíkir fallið undir lög um vexti og verðtryggingu, sé einnig byggt á því í greinargerð þessari að 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir nefndur ,,EES samningurinn“), en sá samningur hafi verið lögleiddur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Tekið skuli fram að þessi málsástæða hafi ekki verið höfð uppi í málum er varðað hafi gengistryggingu bílasamninga og dómar gengið um í Hæstarétti, 16. júní 2010. Fallist dómurinn á þessa málsástæðu stefnda telji stefndi að það eigi að leiða til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Nánar tiltekið styðji stefndi kröfur sínar við 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993. Með þeim hafi meginmál EES samningsins verið lögleitt og mælt fyrir um að lög og reglur skuli skýrðar, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES samninginn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að vekja athygli á markmiði EES samningsins um myndun einsleits markaðssvæðis, sbr. og 1. gr. samningsins, og skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. og 3. gr. hans. Þessar skyldur nái til allra eininga ríkisvaldsins, einnig dómstóla. Vísað sé til 40. gr. EES samningsins sem kveði á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir séu í aðildarríkjum EB eða EFTA né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð sé notað til fjárfestingar, sbr. einnig tilskipun 88/3617EEC, sem vísað sé til í XII viðauka við EES samninginn. Með ákvæðinu um frjálsa fjármagnsflutninga sé verið að vernda markaðsaðgang einstaklinga og lögaðila á þessu sviði. Stefndi telji að ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu brjóti gegn framangreindu ákvæði um frelsi til fjármagnsflutninga. Við mat á því hvort bann við gengistryggingu í vaxtalögunum brjóti gegn reglunni um frelsi til fjármagnsflutninga beri að hafa í huga hvernig stefndi hafi fjármagnað sig, þegar gerðir hafi verið gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar eins og hinir umþrættu samningar í máli þessu. Það sem efnislega hafi átt sér stað hafi verið að stefndi hafi fjármagnað sig í erlendri mynt. Þessum myntum hafi stefndi síðan breytt í íslenskar krónur áður en hann hafi greitt seljanda viðkomandi leiguandlags í þeim tilvikum sem seljandinn hafi verið á Íslandi. Í þeim tilvikum sem leigan hafi verið greidd í krónum hafi stefndi breytt þeim í erlenda mynt á gengi greiðsludaga og greitt til síns erlenda fjármögnunaraðila. Því hafi hér í raun verið um fjármögnun í erlendri mynt að ræða með því eina fráviki að stefndi hafi selt og keypt viðkomandi gjaldmiðla í stað leigutaka, honum til hagsbóta. Slík framkvæmd sé hefðbundin fjármálaþjónusta. Ákvæði 40. gr. EES samningsins hafi lagagildi hér á landi sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 og því byggi stefndi á því að ákvæðið sem fjalli eins og áður segi um frjálst flæði fjármagns hafi forgang fram yfir ósamrýmanleg síðar til komin lagaákvæði eins og 13. 14. gr. vaxtalaga. Þessi forgangsáhrif komi einnig skýrt fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til EES laganna en í 3. mgr. athugasemda við 3. gr. frumvarpsins komi eftirfarandi fram: „Í 3. gr. felst m.a. að innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu.“ Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið undir framangreind sjónarmið í formlegu athugasemdabréfi (e. Letter of Formal Notice) sem sent hafi verið íslenskum stjórnvöldum þann 19. apríl 2012. Í rökstuddu áliti ESA frá 22. maí 2013 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði gerst brotlegt við EES-samninginn með því að leggja algert bann við veitingu gengistryggðra lána í íslenskum krónum. Á grundvelli þeirra röksemda sem komið hafi fram í þessum kafla telji stefndi að bann 13. og 14. gr. vaxtalaga við gengistryggingu lána hafi í för með sér brot á 40. gr. EES samningsins. Í kafla 1.17 á bls. 7 í stefnu sé fjallað um fjárhæðir tengdar hinum umþrættu fjármögnunarleigusamningum aðila. Þessu til frekari stuðnings leggi stefnandi fram dómskjal sem sé endurútreikningur hans á fjármögnunarleigusamningunum. Telja megi líklegt að með þessu vilji stefnandi sýna fram á lögvarða hagsmuni fyrir viðurkenningarkröfum sínum. Hvað varði tilraunir stefnanda til að sýna fram á það að hann hafi lögvarða fjárhagslega hagsmuni sé þeim útreikningum mótmælt sem bersýnilega röngum, vanreifuðum og að engu hafandi sbr. eftirfarandi. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 frá 16. sept. 2010 eigi að nota vexti skv. 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 við endurútreikninga, ef um ólögmæt gengistryggð lán sé að ræða. Í nokkrum dómum Hæstaréttar hafi undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir valdið því að breytt sé út af endurútreikningi skv. framangreindu. Undantekningarreglu þessa beri að túlka þröngt. Stefndi telji að í þessu máli séu ekki fyrir hendi skilyrði fyrir því að veita undanþágu frá framangreindri meginreglu um fullar efndir og færi fyrir því eftirfarandi rök. Á leigureikningum vegna fjármögnunarleigusamninga aðila komi ekki fram neinir vextir og því standist engan veginn að stefnandi hafi talið sig vera í góðri trú hvað vaxtahlutann varði. Á leigureikningum komi einungis fram hver mánaðarleg leiga sé á sama hátt og á reikningum vegna leigu almennt. Sökum þessa sé ekki möguleiki á að slíta greiðsluna í tvennt og halda því fram að hluti af leigugreiðslunni sé vegna afborgunar og hluti vegna vaxta eins og gert sé, þegar greiðslur af lánssamningum eigi í hlut, en þar komi þetta skýrt fram á greiðsluseðli. Tekið skuli fram að í dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 hafi verið um bílasamninga að ræða en þar séu vextir tilteknir sérstaklega á greiðsluseðlum og sama eigi við um lánssamninga. Útreikningar stefnanda virðist einnig byggjast á einhverjum allt öðrum aðferðum en gengið hafi verið út frá við endurreikninga hingað til. Þannig virðist hann reikna erlenda LIBOR vexti af óverðtryggðum höfuðstól og leggja það að jöfnu við fullnaðarkvittunarvexti. Í þeim dómum Hæstaréttar sem horft hafi verið til fullnaðarkvittunarvaxta (t.d. hrd. 464/2012 Borgarbyggð og hrd. 50/2013 Plastiðjan) sé hins vegar alltaf verið að horfa á vexti sem reiknist af gengistryggðum höfuðstól þannig að þessi nálgun stefnanda gangi ekki upp og útreikningar hans séu því ekki nothæfir. Í útreikningum stefnanda, reikni stefnandi afborgunarhluta endurútreiknings miðað við jafnar afborganir. Þetta sé ekki rétt miðað við fjármögnunarleigusamninga aðila en þar sé gengið út frá jöfnum leigugreiðslum, án þess þó að það sé nefnt sérstaklega. Með þessu sé stefnandi að gefa sér forsendu sem eigi sér ekki stað í samningunum. Þetta geri það að verkum að stefnandi ofreikni vangreiðslur og allt endurreiknaða greiðsluplanið verði í raun rangt. Í útreikningum stefnanda lýsi hann 8 svokölluðum ádráttum. Sé hann að heimfæra þetta á fjármögnunarleigusamningana, þá hafi þeir ekki verið átta heldur níu. Gengið sé út frá því að alltaf sé greitt á gjalddaga í útreikningum stefnanda en það sé ekki rétt, heldur hafi oft verið greitt eftir gjalddaga og sé útreikningurinn því rangur hvað þetta varði. Áður hafi verið bent á að um sé að ræða leigusamninga og því sé ekki hægt að reikna samningana upp með vöxtum á þann hátt sem stefnandi geri. Þar fyrir utan reikni hann með rangri vaxtaviðmiðun. Sem dæmi um þetta megi nefna að fjármögnunarleigusamningar á dómskjölum nr. 13-15 séu með 3,5% - 4,9% álag á LIBOR vaxtaviðmið en þrátt fyrir það reikni stefnandi þá með 1,85% álagi. Á dómskjali nr. 19 sé bara tekið sýnidæmi um útreikning á einum af fjármögnunarleigusamningunum en alla útreikninga vanti hvað hina átta varði. Hér sé því um vanreifun að ræða og enginn möguleiki fyrir stefnda að átta sig á útreikningunum hvað þessa samninga varði. Sýnt hafi verið fram á að útreikningar stefnanda séu ófullnægjandi og því telji stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu sinni. Þar sem í dómkröfum stefnanda sé ekkert komið inn á útreikninga, né heldur krafist viðurkenningar á réttmæti þeirra, telji stefndi óþarfi að fara frekar í gegnum þær fjárhæðir sem komi fram í stefnu en geri fyrirvara um réttmæti útreikninganna og áskiljir sér rétt til að leggja fram gögn á síðari stigum til að vefengja útreikningana enn frekar.
Stefndi byggi á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu. Vísað sé til 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um samningsfrelsi í leigusamningum. Vísað sé til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 20. gr. sömu laga varðandi skilgreiningu á eignaleigu og þess að fjármögnunarleiga feli ekki í sér útlánastarfsemi. Einnig sé vísað til viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Vísað sé til 2. - 3. gr. og 1., 3. og 40. gr. viðauka I við lög nr. 2/1993 varðandi það að við túlkun á 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verði að horfa til EES réttar. Vísað sé til 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Einnig sé vísað til 12. tl. 2. gr. og 127. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og að þeir skuli hafa lagagildi hér á landi. Að síðustu sé vísað til reglugerðar 1133/2007 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Að síðustu sé vísað til 3. og 7. gr. EES samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fjármögnunarleigusamningar þeirra nr. 139465-468, dags. 22. febrúar 2007, nr. 139911-914, dags. 27. mars 2007, nr. 140949-952, dags. 29. maí 2007, nr. 142269-272, dags. 5. júlí 2007, nr. 142678-681, dags. 1. ágúst 2007, nr. 144156-159, dags. 7. nóvember 2007, nr. 147109-112, dags. 14. apríl 2008, nr. 148586-589, dags. 9. júlí 2008 og nr. 149674-675, dags. 13. nóvember 2008, séu leigusamningar eða lánssamningar, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að framangreindir samningar séu samkvæmt efni sínu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi gengistryggingarákvæði þeirra verið ólögmæt, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til eftirgreindra málsástæðna:
- Aðilar hafi, þrátt fyrir heiti samninganna, samið um það í byrjun að eignarrétturinn að hinu leigða ætti að færast yfir til stefnanda í lok samningsbundins „grunnleigutíma“ gegn greiðslu á lokagjaldi sem numið hafi 2% af upphaflegu stofnverði samninganna. Gangi það samkomulag framar stöðluðum ákvæðum samninganna enda hafi það verið ófrávíkjanleg forsenda stefnanda fyrir gerð samninganna og stefnda verið það ljóst. Í þessu sambandi sé einnig til þess að líta að samningarnir hafi lotið að fjármögnun á mjög sérhæfðum búnaði til afnota í nýlegri Ethylesar verksmiðju stefnanda, sem sé sú eina sinnar tegundar hér á landi. Því sé nær útilokað, að mati stefnanda, að þessi búnaður geti með einhverjum hætti nýst stefnda í framtíðinni, s.s. til útleigu til annarra aðila eða endursölu á markaði og ógerningur að skilja búnaðinn frá verksmiðju stefnanda án þess að gríðarleg verðmæti fari til spillis. Sé því vandséð að mati stefnanda að haldbærar viðskiptalegar forsendur séu fyrir því að stefndi fái þennan búnað í hendur að samningstíma loknum.
- Stefnandi hafi í öllum tilvikum, þegar um fyrri fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda hafi verið að ræða, eignast viðkomandi tæki í lok samnings.
- Greiðslur samkvæmt samningunum hafi borið vexti.
- Stefnandi hafi borið áhættu af því að „hið leigða“ færist, skemmdist eða rýrnaði.
- Stefnanda hafi samkvæmt skilmálum samninganna verið skylt að greiða fjárhæð, sem svaraði til leigu til loka samningstíma, að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningum yrði rift.
Stefndi hafnar öllum framangreindum málsástæðum stefnanda og byggir á því að umræddir samningar séu samkvæmt formi sínu og efni leigusamningar og ákvæði þeirra um gengistryggingu umsamins leigugjalds brjóti því ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í dómum Hæstaréttar frá 13. mars 2014, í máli nr. 638/2013, og frá 3. apríl 2014, í máli nr. 717/2013, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að samningar aðila væru leigusamningar en ekki samningar um lán. Verður að telja efni samninganna í þessu máli í meginatriðum vera það sama og þeirra sem um var deilt í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Hafa dómarnir því ótvírætt fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.
Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi uppi fimm málsástæður því til stuðnings að samningar aðila séu að efni til lánssamningar en ekki leigusamningar. Þrjár af þessum fimm málsástæðum voru hafðar uppi í dómum Hæstaréttar í málum nr. 638/2013 og nr. 717/2013 og hefur rétturinn því þegar tekið afstöðu til þeirra þ.e. þeirra málsástæðna stefnanda sem lúta að því að í skilmálum samninganna væri ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða leigugreiðslum, að ekkert samhengi hafi verið milli greiðslna stefnanda og afnota af viðkomandi samningsandlagi og að öll áhætta af samningsandlaginu væri lögð á herðar leigutaka þ.e. stefnanda. Hafnaði Hæstiréttur því að fyrrgreindar málsástæður hefðu úrslitaáhrif um það hvort samningur aðila teldist lánssamningur. Þegar af þeirri ástæðu verður því einnig hafnað hér að þessar málsástæður per se leiði til þess að skýra beri samninga aðila sem lánssamninga.
Eins og áður er rakið byggir stefnandi á því að svo hafi verið umsamið að hann eignaðist hið leigða í lok tilgreinds frumleigutíma gegn greiðslu á 2% lokagjaldi. Stefnandi teflir fram þessu til stuðnings að þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi í tölvuskeyti til framkvæmdastjóra stefnanda, 27. október 2006, í framhaldi af viðræðum aðila um fjármögnun stefnda á fyrirhugaðri Ethylesar verksmiðju stefnanda, boðið stefnanda að félagið myndi í lok fjármögnunarleigusamnings aðila, sem gerður yrði í lok framkvæmdatíma, eignast hið leigða á 2% af upphaflegu stofnverði fjármögnunarleigusamningsins. Í tölvuskeytinu sé talað um einn fjármögnunar-leigusamning en útfærslan hafi orðið önnur þ.e. samningarnir hafi orðið níu í stað eins en það breyti engu um efni loforðsins. Framangreint loforð stefnda hafi verið afdráttarlaust og orðið hluti af samningi aðila, þegar stefnandi hafi samþykkt að ganga til samninga við stefnda. Í samræmi við meginreglur samningaréttar gangi slíkt skilyrði, sem aðilar semji sérstaklega um í tilteknum lögskiptum sín í milli, framar stöðluðum samningsskilmálum sem almennt séu notaðir fyrir viðkomandi tegund viðskipta. Sé því vafalaust að stefndi sé bundinn af ofangreindu loforði þess efnis að stefnandi eigi rétt á að eignast hið leigða í lok samningstíma gegn greiðslu lokagjalds. Í öllu falli verði þetta atriði að skoðast sem ófrávíkjanleg forsenda af hálfu stefnanda, sem stefnda hafi verið fullkunnugt um, og sem byggt skuli á við túlkun og framkvæmd umræddra samninga, í samræmi við forsendukenningu og þá viðurkenndu reglu samningaréttar að túlka beri samninga til samræmis við ótvíræðan vilja og forsendur aðila við samningsgerðina. Framangreint leiði til þess að samningarnir verði taldir lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 og gildi þá einu þótt stöðluð samningsákvæði og heiti samninganna gætu út af fyrir sig bent til annarrar niðurstöðu, sbr. dóm Hæstaréttar, 20. október 2011, í máli nr. 282/2011. Stefnandi bendi jafnframt á að viðskiptin hafi upphaflega verið í formi ádráttarláns, en að frumkvæði stefnda hafi þau síðar verið færð í búning fjármögnunarleigu. Hafi það verið skilningur stefnanda að notkun þess samningsforms breytti engu um fyrrgreint eðli viðskiptanna, þ.e. að þau væru lánsviðskipti þar sem stefnandi yrði réttmætur eigandi tækjanna í lok samningstíma, í samræmi við skýlaust loforð stefnda og forsendur stefnanda fyrir samningsgerðinni.
Af hálfu stefnda er framangreindri málsástæðu stefnanda mótmælt. Stefndi mótmæli því að tölvupóstur framkvæmdastjóra stefnda, 27. október 2006, sé ígildi tilboðs þess efnis að stefnandi myndi eignast hið leigða við lok fjármögnunarleigu-samnings og að það eitt og sér leiði til þess að samningar aðila teljist lánssamningar en ekki leigusamningar. Bent skuli á að yfirskrift tölvupóstsins bendi ekki til þess að um tilboð hafi verið að ræða en yfirskrift hans sé: ,,Omega 3 þykkni“. Ekkert komi heldur fram í tölvupósti frá stefnanda í framhaldinu um að tilboð hafi verið gert, hvað þá að tilboði hafi verið tekið. Stefnandi gangi svo langt að kalla þessa tvo tölvupósta ,,bindandi samning aðila“ sem stefndi telji fráleitt. Ljóst sé að tölvupóstarnir hafi ekkert sönnunargildi í málinu og víki fyrir skýrum ákvæðum í endanlegum fjármögnunarleigusamningum aðila. Málsástæða stefnanda um hið meinta tilboð sé að sögn stefnanda byggð á dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011, svonefndu „Kraftvélamáli“. Í stefnu sé þessi dómur reifaður og komist að þeirri niðurstöðu að það sem ráðið hafi úrslitum í málinu hafi verið að tekist hafi að sanna að samið hafi verið um að lántakinn eignaðist hið leigða í lok samningstímans, gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu. Stefndi mótmæli þessari túlkun og bendi á að í viðkomandi dómi hafi verið fjallað um fjölmörg önnur atriði og komist að þeirri niðurstöðu að þegar þau væru öll virt í heild yrði að telja að þótt hinn umþrætti samningur aðila væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt og í raun væri um lán að ræða. Af hálfu stefnda sé á því byggt að ákvæði hinna umþrættu fjármögnunarleigu-samninga, í þessu máli, víki frá ákvæðum þess samnings sem deilt hafi verið um í „Kraftvélamálinu“ í svo veigamiklum atriðum að heildstætt mat á samningunum hljóti að leiða til gagnstæðrar niðurstöðu. Rökstuðningur stefnanda fyrir því að samið hafi verið um að eignarrétturinn að hinu leigða færðist yfir til hans í lok umsamins frumleigutíma sé eingöngu byggður á tölvupósti þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, 27. okt. 2006. Stefndi ítreki það, sem áður hafi komið fram í greinargerð hans, að hann telji að tölvupósturinn hafi ekkert sönnunargildi í málinu. Í liðum d-e í tölvupóstinum séu tiltekin fjölmörg atriði. Svipuð atriði megi finna á bls. 1 í fjármögnunar-leigusamningum aðila, þótt kjörin séu ekki sambærileg. Hvað það ákvæði tölvupóstsins varði að í lok fjármögnunarleigusamningsins eignist stefnandi hið leigða á 2% af upphaflegu stofnverði samnings sé það ákvæði ekki að finna í fjármögnunarsamningum aðila heldur hafi verið samið á annan veg um hvað við tæki í lok frumleigutíma, sbr. 12. gr. samninganna. Ákvæðið feli í sér að á því tímamarki framlengist leigusamningarnir ótímabundið skv. 6. gr. samninganna. Í lok 12. gr. komi síðan fram að leigutaki geti sagt hinum framlengdu samningum upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Stefndi byggi á því að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar séu stimplaðir með prókúrustimpli stefnanda og undirritaðir af prókúruhafa félagsins á bls. 2 í samningnum þar sem ákvæði 12. gr. sé að finna og sé stefnandi því bundinn af því ákvæði. Hefði stefnandi talið að 12. gr. ætti ekki við hefði hann átt að óska eftir því að sú grein yrði strikuð út og ný grein sett í hennar stað en það hafi hann ekki gert. Þá sé í 35. gr. samninganna sérstaklega tekið fram, með breyttu letri, að stefnandi (leigutaki) hafi kynnt sér og hafi ekkert við skilmála samninganna að athuga. Stefndi byggi á því að framangreind staðfesting stefnanda, á efni hinna umþrættu samninga, gangi framar efni tilgreinds tölvupósts frá 27. október 2006 að svo miklu leyti sem efni þeirra sé ósamrýmanlegt.
Í ljósi framangreinds rökstuðnings liggi fyrir að ósannað sé í málinu að samið hafi verið um að stefnandi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok frumleigutímans og liggi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda sé heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar sé mælt fyrir um í samningum aðila. Samkvæmt þessu sé því ljóst að stefnandi verði ekki eigandi að leigðum tækjum án þess að til frekari samninga komi á milli aðila og ef til þess kæmi yrði um sjálfstæðan samning að ræða. Þá sé einnig á því byggt að þótt aðilar hefðu sett í hina umþrættu fjármögnunarleigusamninga ákvæði um að stefndi yrði eigandi hins leigða í lok samningstíma, gegn greiðslu á upphaflegu stofnverði samnings, þá hefði það ekki skipt máli því engu að síður hefði verið um leigusamninga að ræða. Þessu til stuðnings megi vísa í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. IAS 17 alþjóðlega reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar.
Katrín Pétursdóttir framkvæmdastjóri stefnanda gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í framburði hennar kom fram að þegar farið hafi verið að leita tilboða í fjármögnun á nýrri verksmiðju stefnanda hafi virst að lánakjör Lýsingar hf. væru þau bestu sem í boði hefðu verið. Haldinn hafi verið fundur með fulltrúum stefnda og þeim verið sýnd viðskiptaáætlun stefnanda. Ólafur Helgi þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi setið fundinn og annar starfsmaður stefnda með honum. Í framhaldi af fundinum hafi borist drög að samkomulagi með tölvupósti. Hafi hún talið að fyrir lægi samkomulag um lán og að stefnandi myndi í lok samningstíma eignast tæki og vélar gegn greiðslu á 2% lokagjaldi. Þannig hafi fjármögnunarleigusamningarnir falið í sér útfærslu á samkomulagi, sem þegar hafi legið fyrir. Hún kvaðst aðspurð hafa talið að um lánsviðskipti væri að ræða enda hefði verið glórulaust að taka á leigu tæki sem vera hefðu átt í notkun í mjög langan tíma.
Óskar V. Arason fjármálastjóri stefnanda gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað stefnanda hafa gert marga samninga við stefnda. Þeir hafi boðið betri kjör en stefnandi hefði getað fengið hjá Landsbanka. Byrjað hafi verið að gera samning um ádráttar-fjármögnun á framkvæmdatímanum upp á allt að 270 milljónir króna. Reikninga hafi átt að stíla á stefnda. Stefndi hafi viljað fara fyrr í fjármögnunarleigusamingsformið en upphaflega hafi verið ráðgert og hafi það verið samþykkt. Úr hafi orðið níu samningar. Aðspurður kvað hann samningana hafa verið eignfærða og skuldin færð á móti. Heildareignfærslan hafi verið 294.069.820 í lok árs 2010. Í skattframtali hafi þetta verið fært sem eign og afskriftir á móti. Þetta hafi verið í samræmi við það sem stefnandi hafi gert árum saman þegar um sambærilega samninga hafi verið að ræða. Aðspurður kvaðst vitnið hafa skrifaði undir samningana en talið sig vera að skrifa undir lánssamninga.
Ólafur Helgi Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst hann hafa skrifað fyrirliggjandi tölvupóst til framkvæmdastjóra stefnanda, 27. október 2006, þar sem m.a. segði að í lok fjármögnunarleigusamnings eignaðist stefnandi hið leigða á 2% af upphaflegu stofnverði samnings. Stefnandi hefði áður gert fjármögnunarleigusamninga við stefnda og þá átt þess kost að kaupa hið leigða í lok samningstímans á ákveðnu verði. Í póstinum sé verið að gera stefnanda grein fyrir á hvaða verði stefndi myndi ganga til samninga við hann um kaup í lok frumleigutíma. Aðspurður svaraði hann því til að í öllum viðræðum við væntanlega leigutaka væri þess getið að þeir ættu þess kost að kaupa leigumuni í lok frumleigutíma og hafi stefnanda verið um það kunnugt. Með póstinum hafi því verið lofað að gengið yrði til samninga við stefnanda í lok frumleigutíma á tilgreindu verði þ.e. 2% af upphaflegu stofnverði. Það hafi þó alltaf verið í hendi stefnda hvort hann heimilaði kaup á leigumunum í lok frumleigutíma og hefði það t.d. ekki almennt verið heimilað, ef leigutakar hefðu verið með aðra samninga í vanskilum og tryggingastaða verið léleg. Aðspurður svaraði hann því til að allir viðaukar við fjármögnunarleigusamninga hefðu verið gerðir skriflega. Það hafi verið í hendi stefnda hvort leigutökum væri leyft að kaupa leigumuni í lokin. Engin kaupskylda hefði verið hjá leigutökum skv. fjármögnunarleigusamningum stefnda. Aðspurður kvað hann fjármögnunarleigusamning aðila vera hið endanlega skjal enda gerður síðar en bæði tölvupósturinn frá 27. október 2006 og samningur aðila um ádráttarlán frá 15. nóvember 2006. Leigusamningurinn hafi verið sér samningur sem gert hafi upp ádráttarlánið. Ádráttarlánið hafi átt að fjármagna tækin en þegar þau hefðu verið keypt hafi átt að gera lánssamninginn upp með leigusamningnum.
Arnar Snær Kárason starfsmaður stefnda gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst hann hafa samið hina sértæku skilmála í fjármögnunar-leigusamningum stefnanda. Tvennt hefði verið í stöðunni við lok samninganna þ.e. framhaldsleiga eða uppsögn. Aðspurður svaraði hann því til að engar breytingar hafi verið gerðar á samningum af þessu tagi nema með skriflegum viðaukum. Aðspurður kvað hann samningana í dag vera í framhaldsleigu. Stefndi hefði ávallt haft í hendi sér hvort leigutaki fengi að kaupa hið leigða í lok frumleigutímans. Samningarnir við stefnanda hefðu verið hefðbundnir fjármögnunarleigusamningar. Aðspurður svaraði hann því til að gerðar hefðu verið breytingar á samningunum við stefnanda varðandi greiðsluröð og hefðu þær verið gerðar skriflega.
Pétur Bjarni Magnússon, fyrrverandi yfirlögfræðingur stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst hafa haft yfirumsjón með skjalagerð félagins. Fjármögnunarleigusamningum hafi skv. ákvæðum samninganna lokið með framhaldsleigu eða skilum á hinu leigða. Breytingar hafi alltaf verið skriflegar í samræmi við 34. gr. samninganna. Á það hafi verið lögð mikil áhersla. Stefndi hafi haft það í hendi sér hvort hann hafi boðið viðskiptamönnum að kaupa hið leigða í lok samninga eða ekki enda engin ákvæði í samningnum um kauprétt eða kaupskyldu. Hafi það verið alfarið í hendi stefnda að bjóða upp á kaup eða ekki. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að hafa komið að samningsgerð í þessu máli.
Eins og áður er rakið kemur fram í 6. gr. þeirra níu fjármögnunarleigu-samninga sem mál þetta snýst um að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum tilgreinds grunnleigutíma. Samkvæmt 12. gr. samninganna getur leigutaki ekki sagt samningunum upp á grunnleigutíma en að honum loknum framlengjast þeir ótíma-bundið skv. 6. gr. Þó geti leigutaki sagt hinum framlengdu leigusamningum upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Samkvæmt 34. gr. samninganna má einungis gera breytingar á þeim með skriflegum viðaukum, undirrituðum af samningsaðilum.
Eins og rakið hefur verið er á því byggt af hálfu stefnanda að tilvitnaðir fjármögnunarleigusamningar hafi falið í sér kauprétt af hans hálfu gegn greiðslu umsamins lokagjalds og sé því ekki um fjármögnunarleigusamninga að ræða heldur lánssamninga. Hefur stefnandi í þeim efnum vísað til tölvuskeytis þáverandi framkvæmdastjóra stefnda til framkvæmdastjóra stefnanda, 27. október 2006, og samnings aðila um ádráttarlán frá 15. nóvember 2006.
Framangreind ákvæði 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila, sem gerðir voru á tímabilinu frá 22. febrúar 2007 til og með 13. nóvember 2008 eru skýr og verður ekki af þeim ráðið að eignarréttur yfir hinu leigða flytjist til stefnanda við lok umsamins frumleigutíma. Í 34. gr. samninganna er eins og rakið hefur verið mælt svo fyrir að breytingar á þeim megi einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er að fjármögnunarleigusamningum aðila, var ekki breytt að því leyti sem hér skiptir máli.
Hvorki tilgreint tölvuskeyti stefnda til stefnanda, 27. október 2006, né ákvæði samnings stefnda og stefnanda um ádráttarlán frá 15. nóvember 2006 verða með hliðsjón af framangreindum ákvæðum fjármögnunarleigusamninga aðila, gegn andmælum stefnda, talin hafa veitt stefnanda fyrirvaralausan rétt til að kaupa hið leigða í lok frumleigutíma, án þess að til kæmi sérstakt samþykki stefnda. Því síður fólu tölvuskeytið og eða ádráttarlánasamningurinn í sér skyldu stefnanda til þess að kaupa hið leigða. Framburður vitnanna Arnars Snæs Kárasonar og Péturs Bjarna Magnússonar fyrir dómi styður þessa niðurstöðu, en í skýrslum þeirra kom fram, eins og áður er rakið, að samþykki stefnda hefði alltaf þurft til að leigutaki fengi að kaupa hið leigða skv. fjármögnunarleigusamningum félagsins. Þá ræður það ekki úrslitum um sönnun fyrir þessari málsástæðu stefnanda, þótt óumdeilt sé að hann hafi keypt vélar og tæki af stefnda samkvæmt fjármögnunarleigusamningum sem lokið var áður en þeir samningar voru gerðir sem um er deilt í máli þessu.
Ekki verður talið skipta máli um skýringu framangreindra ákvæða 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila eða sönnunarbyrði stefnanda fyrir því hann yrði að loknum umsömdum frumleigutíma, gegn greiðslu lokagjalds, eigandi þeirra véla og tækja sem samningarnir taka til, þótt skil hins leigða í hendur stefnda, ef til þeirra kæmi, kynnu að leiða til rýrnunar á verðmæti hins leigða.
Með vísan til alls framangreinds verður fallist á með stefnda að þeir níu samningar sem um er deilt í máli þessu brjóti ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi aðilum máls þessa verið heimilt að semja um að greiðslur samkvæmt samningunum tækju mið af breytingum á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningunum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.900.000 krónur.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Lýsing hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Lýsis hf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.900.000 krónur í málskostnað.