Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Miski
  • Einkaréttarkrafa
  • Leiðbeiningarskylda dómara
  • Boðun til þinghalds


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn10. apríl 2014.

Nr. 422/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Kristófer John Unnsteinssyni

(Þórhallur H. Þorvaldsson hrl.)

Líkamsárás. Miski. Einkaréttarkrafa. Leiðbeiningarskylda dómara. Boðun til þinghalds.

K var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið þannig að hann féll aftur fyrir sig með höfuðið utan í vegg. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta skyldi fullnustu refsingarinnar og félli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins héldi K almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá var K gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur. Fyrir Hæstarétti var höfð uppi krafa um að einkaréttarkröfu brotaþola yrði vísað frá dómi sökum útivistar í héraði. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu og um það sagði meðal annars í dómi réttarins að lögfræðingur sá er samdi bótakröfuna fyrir brotaþola hefði ekki haft lögmannsréttindi á þeim tíma og því ekki verið heimilt að mæta í þinghald fyrir hans hönd . Í stað þess að boða lögfræðinginn til þingfestingar hefði héraðsdómara borið að boða brotaþola sjálfan til þinghaldsins samkvæmt 1. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Héraðsdómari hefði síðan réttilega brugðist við þeim mistökum sem urðu til þess að útivist varð af hálfu brotaþola, er jafna mætti til þess að hann hefði haft lögmæt forföll.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.   

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsiákvörðun.

Ákærði krefst þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi vegna útivistar brotaþola við þingfestingu málsins 13. mars 2013, en þá bókaði dómari að ekki væri sótt þing af hálfu kröfuhafa sem þó hefði verið boðaður til þinghaldsins og væri „bótakrafa því felld niður sbr. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008.“ Daginn eftir þingfestinguna tilkynnti dómarinn málsaðilum að mistök hefðu orðið við boðun í þinghald vegna bótakröfu og væri því rétt að hún kæmist að í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 skal dómari tilkynna kröfuhafa um stað og stund þegar sakamál verður þingfest. Sæki kröfuhafi ekki þing við þingfestingu málsins skal einkaréttarkrafa hans felld niður nema hann hafi lögmæt forföll eða ákærandi hafi tekið að sér að mæta fyrir hans hönd, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Í lögum nr. 88/2008 er ekki mælt fyrir um skyldu dómara til að leiðbeina ólöglærðum kröfuhafa sem fer með kröfu sína sjálfur, öfugt við sakborning, sbr. 29. gr. þeirra laga. Hins vegar var tekið fram í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að ýmsar almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skyldu gilda jöfnum höndum um meðferð sakamála. Samkvæmt því verður litið svo á að reglan um leiðbeiningarskyldu dómara í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 eigi við þegar kröfuhafi sem ekki er löglærður fer með einkaréttarkröfu sína sjálfur fyrir dómi.

Lögfræðingur sá sem samdi bótakröfuna fyrir brotaþola og var boðaður til þingfestingar málsins hafði ekki lögmannsréttindi á þeim tíma og var því ekki heimilt að mæta í þinghald fyrir hönd brotaþola samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í stað þess að boða lögfræðinginn til þingfestingar bar héraðsdómara eins og atvikum var háttað að leiðbeina brotaþola um afleiðingar þess að lögfræðingurinn hefði ekki lögmannsréttindi og boða brotaþola sjálfan til þinghaldsins samkvæmt 1. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008. Dómarinn brást síðan réttilega við þeim mistökum sem urðu til þess að útivist varð af hálfu brotaþola er jafna má til þess að hann hefði haft lögmæt forföll við fyrirtöku málsins. Með þessum athugasemdum er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna frávísunarkröfu ákærða.

Miskabætur til handa brotaþola eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og krafa hans um útlagðan kostnað er tekin til greina með 35.228 krónum með vöxtum eins og í dómsorði greinir en ákærði hefur ekki hreyft athugasemdum við upphafstíma þeirra vaxta sem krafist er. Staðfest er ákvörðun héraðsdóms um málskostnað brotaþola.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Kristófers John Unnsteinssonar.   

Ákærði greiði A 435.228 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2012 til 13. apríl 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málskostnað brotaþola skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 268.578 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórhalls H. Þorvaldssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 10. maí 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. febrúar 2013, á hendur Kristófer John Unnsteinssyni kt. [...], Álakvísl 59, Reykjavík, fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 23. júní 2012, á skemmtistaðnum Prikinu við Bankastræti 12 í Reykjavík, slegið A hnefahögg í andlitið þannig að A féll aftur fyrir sig með höfuðið utan í vegg, með þeim afleiðingum að hann hlaut innkýlt brot í framvegg vinstra efra kjálkabeins, ótilfært brot í augnbotnsgólfi og í botni kúpugrófar og augnbotnsþaki, bólgu yfir kjálka vinstra megin og upp á vinstra nef og eymsli í gómi og yfir efri vör.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.438.773 krónur, auk vaxta frá 23. júní 2012 til 1. mars 2013, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er aðallega krafist frávísunar bótakröfu, en til vara að sýknað verði af bótakröfu að hluta og bætur að öðru leyti stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Mánudaginn 25. júní 2012 mætti A hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar á veitingastaðnum Prikinu við Bankastræti, aðfaranótt laugardagsins 23. júní. A kvaðst hafa verið með unnustu sinni á veitingastaðnum þegar maður sem hann þekkti ekki hefði farið að fíflast í stúlkunni, eða reyna við hana. Hann kvaðst hafa spurt manninn hvað hann væri að gera. Hefði maðurinn þá slegið hann hnefahögg í andlitið svo að höfuð hans skall í vegg og hann vankaðist. Dyravörður sem hefði aðstoðað hann eftir atlöguna hefði gefið honum upp nafn ákærða sem árásarmannsins. A kvaðst hafa farið á slysadeild um nóttina og hefði komið í ljós að hann hefði hlotið brot í andlitsbeinum.

                Samkvæmt vottorð Hilmars Kjartanssonar, sérfræðings í bráðalækningum, leitaði A á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss umrædda nótt. Hann var bólginn í andliti og með roða um augu. Þá voru þreifi eymsli yfir efri gómboga, tönnum og efri vör vinstra megin. Á  tölvusneiðmynd sem tekin var af andlitsbeinum morguninn eftir sást innkýlt brot í framvegg vinstra efra kjálkabeins og ótilfærð brot í augnbotnsgólfi, botni kúpugrófar og augnbotnsþaki. Þá kemur fram að brotaþoli hafi leitað á háls-, nef- og eyrnadeild þremur vikum síðar og hafi þá kvartað um dofa á svæði vinstri neðri augntóttartaugar. Á mynd hafi komið fram lítið tilfært brot við nefrót, auk þess sem innkýlt brot hafi verið á svæði þar sem neðri augntóttartaug vinstra megin kemur út úr efra kjálkabeini. Hafi taugin orðið fyrir hnjaski og óvíst hvort sá áverki jafni sig. Skekkja hafi verið á miðsnesi yfir til hægri. Þessi skekkja hafi verið gömul, jafnvel meðfædd, en geti hafa ágerst við högg sem brotaþoli hefði orðið fyrir.

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu mánudaginn 17. september 2012 og kvaðst hann ekkert kannast við málið. Hann kvaðst hafa verið að skemmta sér í miðborginni nóttina sem um ræðir, en hafa verið á veitingastaðnum English Pub við Austurstræti ásamt öðru fólki. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa farið út af veitingastaðnum fyrr en hann var sóttur og honum ekið heim klukkan þrjú eða fjögur um nóttina.          

                Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa komið á veitingastaðinn Prikið þessa nótt. Hann hefði verið á veitingastaðnum English Pub ásamt B, félaga sínum. Hann hefði síðan hringt til annars félaga síns, C, og beðið hann um að sækja sig. Ákærði kvaðst hafa hringt aftur til C um 10 til 15 mínútum síðar og C þá sagt honum að hann væri á leiðinni. Hann hefði þá farið út af veitingastaðnum og gengið að Íslandsbanka við Lækjargötu, þar sem C hefði sótt hann á bifreið um 5 mínútum eftir síðara símtalið. Ákærði kvað B hafa verið vitni að báðum símtölunum. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa átt samskipti við einhverjar stúlkur inni á English Pub og neitaði því alfarið að hafa elt stúlkur sem hann hitti þar á Prikið.

                Vitnið, A, kvaðst hafa verið á Prikinu með D, unnustu sinni, en hún hefði verið nýkomin inn á veitingastaðinn. Hefði ákærði komið aðvífandi og tekið utan um stúlkuna. A kvaðst hafa sagt við ákærða: „Hvað er málið“, eða eitthvað í þeim dúr. Hefði ákærði þá umsvifalaust slegið hann hnefahögg vinstra megin í andlitið. Dyravörður sem kom að aðstoða hann eftir atlöguna hefði sagt honum nafn árásarmannsins og jafnframt að honum hefði verið vísað út af veitingastaðnum. Kvaðst A hafa séð ákærða fyrir utan og hefði hann verið að ganga í átt að Lækjargötu. A kvaðst vita til þess að ákærði hefði verið á English Pub fyrr um nóttina með D og E, vinkonu hennar. E hefði þekkt ákærða frá fyrri tíð og hefði hún sagt þeim nafn hans. A kvaðst hafa flett nafni ákærða upp á facebook daginn eftir atvikið og hefði hann borið kennsl á hann sem árásarmanninn.

                Vitnið, D, kvaðst hafa verið á veitingastaðnum English Pub ásamt E og fleiri vinkonum sínum. Ákærði hefði verið á veitingastaðnum og hefði hann verið að kaupa handa henni drykki. Hann hefði ekki virst skilja að hún hefði ekki áhuga á frekari kynnum. Hún hefði síðan gengið yfir á Prikið með vinkonum sínum, en ákærði hefði elt þær þangað. Þær hefðu kallað til hans á leiðinni og sagt honum að fara. D kvaðst síðan hafa hlaupið inn á Prikið og hitt þar A, unnusta sinn. Hún hefði verið nýkomin inn á veitingastaðinn þegar ákærði kom að þeim og hefði hann tekið utan um hana. A hefði gert athugasemd við það, en ákærði hefði þá kýlt hann mjög fast högg í andlitið. Hefði ákærða í kjölfarið verið vísað út af veitingastaðnum. Hún kvað E hafa sagt sér nafn ákærða, en hún hefði þekkt hann. Þá kvaðst hún hafa verið með A þegar hann fletti nafni ákærða upp á facebook daginn eftir og hefðu þau þekkt hann af myndinni.

                F kvaðst hafa verið með A, félaga sínum á Prikinu. Hefði A verið að tala við kærustu sína þegar maður hefði gengið að þeim og kvaðst vitnið hafa heyrt A spyrja hvað væri í gangi, eða eitthvað þvíumlíkt. Þá hefði maðurinn slegið hann fyrirvaralaust högg í andlitið. Dyravörður hefði vísað manninum út af veitingastaðnum. Vitnið kvaðst hafa séð hann utan við veitingastaðinn skömmu síðar og hefði hann gengið í átt að Bónus versluninni við Ingólfsstræti. Hann kvaðst þekkja ákærða aftur sem árásarmanninn og hefði hann einnig séð mynd af honum á facebook daginn eftir atvikið.

                Vitnið, B, kvaðst hafa verið með ákærða á English Pub þessa nótt. Vitnið kvaðst hafa farið út af veitingastaðnum með vinkonu sinni, en áður en hann fór hefði ákærði hringt til vinar síns, sem hefði ætlað að koma að sækja hann. Þeir hefðu ekki yfirgefið veitingastaðinn saman.

                Vitnið, E, kvaðst hafa verið með D og fleiri stelpum á English Pub. Ákærði hefði verið á staðnum, en E kvaðst hafa þekkt hann frá fyrri tíð. D hefði sagt sér að ákærði hefði eitthvað verið að tala við hana. Þær D og G, vinkona þeirra, hefðu síðan gengið áleiðis að Prikinu og hefði ákærði þá elt þær. Þær hefðu sagt honum að hafa sig á brott og að D ætti kærasta. D hefði síðan hlaupið á undan þeim inn á Prikið. Ákærði hefði gengið inn á veitingastaðinn um leið og þær G. E kvaðst ekki hafa orðið vitni að atlögunni, en D hefði sagt henni að maðurinn sem var að reyna við hana hefði verið valdur að henni. Hún hefði sagt D nafn ákærða.

                Vitnið, H, sem var dyravörður á Prikinu þetta kvöld, kvað mann hafa komið til sín og sagt að ráðist hefði verið á hann. Hann hefði í kjölfarið vísað manni sem væri kallaður Kristó út af veitingastaðnum. Vitnið kvaðst kannast við þennan mann og hafa vitað nafn hans. Honum var sýnd mynd af ákærða, sem er í gögnum málsins og var fengin af heimasíðu hans. Hann kvaðst telja ákærða vera Kristó, en tók fram að hann þyrði ekki að fullyrða það þar sem myndin væri óskýr.

Vitnið, C, kvað ákærða hafa hringt til sín af English Pub og beðið sig um að sækja hann. C kvaðst hafa verið uppi í Mosfellsbæ þegar ákærði hringdi og hefði hann sótt ákærða við Íslandsbanka um 20 mínútum síðar. Ákærði hefði hringt aftur til hans til að athuga hvar hann væri staddur og hefði það verið um 5 mínútum áður en hann sótti hann við Íslandsbanka.

                Vitnið, Hilmar Kjartansson, sérfræðingur í bráðalækningum, gerði grein fyrir læknisvottorði sínu. Vitnið kvað áverka brotaþola samrýmast lýsingu hans á því að hann hefði verið sleginn í andlitið og við það fallið aftur fyrir sig.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa verið á veitingastaðnum Prikinu umrædda nótt. B kvaðst hafa skilið við ákærða á veitingastaðnum English Pub eftir að hann hefði hringt til C og beðið hann um að sækja sig. Hafa ákærði og C borið að C hafi sótt hann um 20 mínútum síðar við Lækjargötu. D og E hafa borið að ákærði hafi elt þær af English Pub við Austurstræti yfir á Prikið við Bankastræti. Þá hafa A, D og F, öll borið um atlögu ákærða að A inni á Prikinu. Með framburði framangreindra vitna þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, með þeim afleiðingum sem þar greinir og lýst er í læknisvottorði. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur í ágúst 1990 og hefur hann ekki áður sætt refsingu. Árás ákærða á A var tilefnislaus og hlaut A umtalsverða áverka af. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.438.773 krónur auk vaxta. Ákærði hefur krafist frávísunar bótakröfunnar, þar sem útivist hafi orðið af hálfu bótakrefjanda við þingfestingu málsins. Málið var þingfest 13. mars sl. og var þá bókað í þingbók um niðurfellingu bótakröfu samkvæmt 2. mgr. 174. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem ekki var sótt þing af hálfu bótakrefjanda. Í málinu liggur fyrir afrit af tölvupóstsamskiptum dómsins og lögfræðings brotaþola, sem ritaði undir bótakröfu fyrir hans hönd. Í tölvubréfi lögfræðingsins, sem barst dóminum að kvöldi þingfestingardags, kemur fram að tölvubréf hans til lögmanns sem fara skyldi með málið hefði ekki komist til skila. Verður talið að lögmaðurinn hafi haft lögmæt forföll við þingfestingu málsins vegna óviðráðanlegra atvika, sbr. b-lið 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Er einnig til þess að líta að brotaþola sjálfum var ekki tilkynnt um þinghaldið. Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu ákærða um að bótakröfu verði vísað frá dómi.

                Bótakrafa sundurliðast þannig:

Miskabætur                                                     

1.200.000 krónur

Útlagður kostnaður vegna lækninga o.fl.

57.953 krónur

Lögfræðikostnaður m/vsk.

180.720 krónur                                           

                Brotaþoli á rétt á miskabótum samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Krafa um bætur vegna útlagðs lækniskostnaðar er studd viðhlítandi gögnum og verður hún dæmd eins og hún er fram sett. Þá á brotaþoli rétt á bótum vegna lögfræðikostnaðar við gerð bótakröfu, sem þykja hæfilega ákveðnar 100.400 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað vegna flutnings málsins fyrir dómi, 100.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Daníels Pálmasonar hdl., 200.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði greiði 10.800 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Fanney Björk Frostadóttir saksóknarfulltrúi.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Kristófer John Unnsteinsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði A 758.353 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. júní 2012 til 13. apríl 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, og 100.400 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Daníels Pálmasonar hdl., 200.800 krónur og 10.800 krónur í annan sakarkostnað.