Hæstiréttur íslands
Mál nr. 598/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2012. |
|
Nr. 598/2011.
|
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Halldóru Jóhannsdóttur (Björn L. Bergsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning
H krafði Í og A um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað sínum á rannsóknarstofu þar sem hún starfaði fyrst hjá Í og síðar hjá A. Héraðsdómur féllst á kröfu H og dæmdi Í og A óskipt til að greiða henni skaðabætur vegna tjónsins. Fyrir Hæstarétti kom einungis til endurskoðunar krafa H á hendur Í. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að fallist væri á það með héraðsdómi að Í hefði sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að láta H vinna við svokallaða ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri í húsnæði sem ekki hefði verið nægjanlega loftræst. Taldi Hæstiréttur að Í bæri óskipta ábyrgð með A á tjóni H þrátt fyrir að starfstími hennar hjá hvorum aðila um sig hefði verið mismunandi. Var Í því gert að greiða H skaðabætur. Var Í gert að greiða H vexti fjögur ár aftur í tímann frá birtingu framhaldsstefnu í málinu þar sem birting stefnu af hálfu H þar sem krafist var viðurkenningar á bótaskyldu Í taldist ekki nægjanleg til þess að rjúfa fyrningu vaxtakröfunnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. nóvember 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu stefndu og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I
Atvikum máls er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi ásamt þeim málsástæðum og lagarökum sem stefnda reisir kröfur sínar á. Eins og þar kemur fram höfðaði stefnda mál þetta á hendur áfrýjanda og Agar ehf. til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir á samanlögðum níu ára starfstíma sínum á rannsóknarstofu á Ísafirði, fyrst hjá áfrýjanda og síðar Agar ehf. Telur stefnda að líkamstjón sitt sé að rekja til ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustaðnum. Málið höfðaði stefnda árið 2009, upphaflega sem viðurkenningarmál á hendur áfrýjanda og Agar ehf., en í framhaldsstefnu á árinu 2011 gerði hún fjárkröfur á hendur sömu aðilum. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á með stefndu að áfrýjandi og Agar ehf. bæru skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hennar og voru þeir dæmdir til að greiða henni óskipt skaðabætur tiltekinnar fjárhæðar ásamt vöxtum svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Málinu hefur ekki verið áfrýjað af hálfu Agar ehf. og stendur niðurstaða héraðsdóms því óhögguð hvað hann varðar.
II
Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir. Sú fyrri er matsgerð Vilhjálms Rafnssonar prófessors og Jóns Kristins Gunnarssonar byggingaiðnfræðings frá 21. desember 2007. Er í hinum áfrýjaða dómi gerð grein fyrir þeim atriðum sem matsmenn skyldu meta og niðurstöðum þeirra um einstök atriði. Eins og þar kemur fram töldu matsmennirnir sig ekki geta svarað þeirri spurningu hvenær ekki væri að vænta frekari bata hjá stefndu þar sem „of stutt er liðið frá því að útsetningu fyrir sjúkdómavöldum hætti svo hægt sé að segja óyggjandi til um batahorfur.“ Af þessari ástæðu meðal annars gerði stefnda um það áskilnað í upphaflegri stefnu málsins að hún myndi óska yfirmats, auk þess sem henni sýndust „metnar afleiðingar heldur skornar við nögl ... hvað varðar mat á afleiðingum atvinnusjúkdóms [stefndu] í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 ...“ og yrði þess aflað undir rekstri málsins.
Hin síðari er yfirmatsgerð læknanna Steins Jónssonar og Sigurðar Thorlacius og Sigurðar R. Arnalds hæstaréttarlögmanns frá 6. desember 2010, en stefnda óskaði dómkvaðningar með beiðni 3. febrúar 2010. Í beiðninni segir að með „vísan til 64. gr. laga nr. 91/1991 og þar sem hið fyrra mat kveður ekki á um stöðugleikatímapunkt matsbeiðanda telur matsbeiðandi að leggja verði fyrir dómkvadda yfirmatsmenn að meta hvenær ekki var frekari bata að vænta hjá matsbeiðanda auk þess sem lagt er fyrir yfirmatsmenn að endurskoða fyrra mat um tímabil þjáningabóta, varanlegan miska sem og varanlega örorku enda lá grunnforsenda mats á varanlegum afleiðingum samkvæmt 1. mgr. 5. gr., stöðugt heilsufar, ekki fyrir þegar fyrirliggjandi mat var framkvæmt.“ Nánar tilgreint skyldu matsmenn taka afstöðu til eftirtalinna fjögurra atriða: „1. Hvenær var ekki frekari bata að vænta hjá matsbeiðanda. 2. Tímabil þjáningabóta samkvæmt 3. gr. laga nr. 50/1993. 3. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993. 4. Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993.“
Eins og áður greinir svöruðu matsmennirnir Vilhjálmur Rafnsson og Jón Kristinn Gunnarsson því ekki í matsgerðinni 21. desember 2007 hvenær ekki væri að vænta frekari bata hjá stefndu þar sem of stutt væri liðið frá því „að útsetningu fyrir sjúkdómavöldum“ hætti svo hægt væri að segja óyggjandi til um batahorfur. Yfirmatsmennirnir komust að gagnstæðri niðurstöðu um þetta atriði og töldu tímabært að meta stöðugleikapunktinn. Vísuðu þeir í matsgerðinni til þess að við mat á stöðugleikapunkti yrði að taka tillit til þeirrar læknismeðferðar eða endurhæfingar sem stefnda hefði fengið. Hún hefði hætt störfum hjá Agar ehf. 1. júlí 2006. Dregið hefði úr hluta einkenna hennar eftir að hún hætti, meðal annars höfuðverkja, en önnur einkenni teldust varanleg. Þá sagði í yfirmatsgerðinni: „Með hliðsjón af gögnum málsins telja matsmenn rétt að líta svo á að ári eftir að [stefnda] hætti störfum teljist stöðugleikapunkti hafa verið náð og engar þær breytingar orðið sem máli skipta. Stöðugleikatímapunktur teljist því vera 1. júlí 2007.“
III
Fallist er á með héraðsdómi að fram sé komið í málinu af framburði vitna að stefnda hafi í nokkrum mæli sinnt svokallaðri ætagerð í starfi sínu hjá bæði áfrýjanda og Agar ehf., en það fólst meðal annars í vigtun og meðhöndlun sýklaæta sem geta samkvæmt undirmatsgerð verið heilsuspillandi. Einnig er á það mat héraðsdóms fallist að vinnuaðstæður stefndu í þeim verkum hafi samkvæmt gögnum málsins ekki verið forsvaranlegar og að áfrýjandi hafi, með þeim rökum sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að láta stefndu vinna við ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri í húsnæði sem ekki var nægjanlega loftræst. Þá er og fallist á með héraðsdómi að undirmatsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, og fær að auki stuðning í læknabréfi Sigurðar Þórs Sigurðssonar sérfræðings í lungna- og atvinnusjúkdómum 24. október 2005, leiði nægjanlega í ljós að þau veikindi hennar sem nánar eru rakin í hinum áfrýjaða dómi megi rekja til þess hvernig aðstæður á vinnustað voru.
IV
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi starfaði stefnda á rannsóknarstofu áfrýjanda í um sjö ár og hjá Agar ehf. í um tvö ár eftir að hinn síðarnefndi tók við rekstri stofunnar. Voru verkefni hennar í meginatriðum þau sömu hjá báðum vinnuveitendum. Í undirmatsgerð var komist að þeirri niðurstöðu að 50% af miska og örorku stefndu mætti rekja til starfa hennar hjá áfrýjanda og 50% hjá Agar ehf. Um það sagði í matsgerðinni að störf stefndu hjá áfrýjanda hafi staðið mun lengur eða sjö ár „og þau ár komu fyrst fyrir í þeirri útsetningu sem átti sér stað, en allan þann tíma var hún útsett fyrir ertandi ryki við vigtun og meðhöndlun sýklaæta, sem eru þau sjúkdómsvaldandi efni sem hér um ræðir. Í störfum matsbeiðanda hjá Agar ehf. stóð um rædd útsetning fyrir efnunum í um það bil tvö ár og bættist ofan á þá útsetningu sem þegar hafði átt sér stað hjá Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins. Með vísun til þeirra atriða, sem hér hafa verið rakin, telja matsmenn að miski og örorka matsbeiðanda sé að jöfnum hlutum að rekja til starfa hennar hjá Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins og Agars ehf.“
Fyrir dómi var matsmaðurinn Vilhjálmur Rafnsson spurður að því hvort ekki skipti máli, þegar metinn væri sá hluti örorku stefndu og miska sem rekja mætti til hvors vinnuveitandans fyrir sig, sá munur sem væri á starfstíma stefndu annars vegar hjá áfrýjanda og hins vegar hjá Agar ehf. Matsmaðurinn svaraði því til að það skipti ekki máli og sagði um þetta atriði: „Það er mat okkar að það skipti ekki máli ... Vegna þess að ... í fyrsta lagi er upphafið sem er verið að líta á og síðan að útsetningin og vitnisburður [stefndu] um það að einkenni hafi farið versnandi, bendir til þess að allur ferillinn hafi þýðingu og eftir að ... Agar tekur við þá fækkar starfsmönnum við ætisframleiðslu og þetta verður meira á höndum [stefndu] heldur en áður.“ Þessari niðurstöðu undirmatsins hefur ekki verið hnekkt.
Óskipt skaðabótaskylda þeirra sem bera með saknæmum hætti ábyrgð á orsökum tjóns er meginregla í skaðabótarétti. Að því gættu sem að framan er rakið er fallist á með héraðsdómi að ekkert sé fram komið í málinu sem gefi tilefni til að víkja frá þeirri meginreglu í máli þessu, og er því fallist á að áfrýjandi beri með Agar ehf., sem ekki hefur áfrýjað héraðsdómi, óskipta ábyrgð gagnvart stefndu á afleiðingum þess tjóns sem hin ólögmæta og saknæma háttsemi þeirra hefur samkvæmt framansögðu haft í för með sér fyrir heilsu stefndu.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að stefnda verði ekki í ljósi atvika málsins talin hafa sýnt af sér slíkt gáleysi við rækslu starfa sinna að leiða eigi til þess að bætur henni til handa falli niður eða þær verði lækkaðar. Er þá sérstaklega litið til þess að ekki er unnt að virða stefndu til sakar að hafa ekki fyrr en í október 2005 áttað sig á því hver væri orsök veikinda hennar, þar sem ekki verður séð að læknar sem hún leitaði til fram til þess tíma hafi greint þessa orsök. Þá verður stefnda heldur ekki talin hafa sýnt af sér tómlæti við gæslu réttar síns þannig að til réttarspjalla horfi, og reglur um missi bótaréttar vegna samþykkis og áhættutöku geta heldur ekki í ljósi atvika málsins staðið bótakröfu hennar í vegi.
V
Staðfest er með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms niðurstaða hans um fjárhæð bóta stefndu vegna varanlegrar örorku, 3.615.232 krónur, og vegna varanlegs miska, 1.950.500 krónur, samtals 5.565.732 krónur, og jafnframt að frá þeirri fjárhæð skuli dragast greiðslur til stefndu frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóðum, samtals 2.695.000 krónur, enda er ekki tölulegur ágreiningur með málsaðilum.Verður áfrýjandi eins og áður segir dæmdur til að greiða þá fjárhæð óskipt með Agar ehf. Þá er og staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að réttur upphafstími vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af bótum vegna varanlegs miska sé 1. júlí 2006 og að upphafstíma vaxta vegna varanlegrar örorku beri að telja frá upphafsdegi metinnar örorku sem var 1. júlí 2007, sbr. 5. og 16. gr. sömu laga.
Af hálfu stefndu er á því byggt að með birtingu upphaflegrar stefnu í málinu 30. september 2009 hafi fyrning vaxtakröfu verið rofin. Áfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að vextir eldri en fjögurra ára, talið frá birtingu framhaldsstefnu í málinu, séu fyrndir af þeirri ástæðu að stefna í máli þar sem aðeins sé gerð viðurkenningarkrafa rjúfi ekki fyrningu vaxta. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda öðluðust lögin gildi 1. janúar 2008 og ná þau einvörðungu til krafna sem stofnuðust eftir gildistöku laganna. Af þessu leiðir að um fyrningu vaxtakröfu stefndu gilda ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. þeirra laga fyrnast gjaldkræfir vextir á fjórum árum frá gjalddaga óháð stofnkröfu. Mál þetta var sem fyrr greinir höfðað með birtingu stefnu 30. september 2009, þar sem stefnda krafðist viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjanda og Agar ehf. Lögsókn af því tagi nægir samkvæmt lögum nr. 14/1905 ekki til að rjúfa fyrningu vaxtakröfu stefndu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. desember 2007 í máli nr. 240/2007. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi einungis dæmdur til greiðslu vaxta fjögur ár aftur í tímann talið frá birtingu framhaldsstefnu í málinu, sem var 19. janúar 2011, en í því felst að vextir dæmast frá 19. janúar 2007 með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að stefndu beri dráttarvextir dómkröfunni frá 6. apríl 2008.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.250.000 krónur.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Halldóru Jóhannsdóttur, 5.565.732 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.950.500 krónum frá 19. janúar 2007 til 1. júlí sama ár, en af 5.565.732 krónum frá þeim degi til 6. apríl 2008 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.695.000 krónum sem dragist frá kröfunni 1. júlí 2007.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. ágúst 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., höfðaði stefnandi, Halldóra Jóhannsdóttir, Sundstræti 34, Ísafirði, hinn 30. september 2009 gegn stefnda íslenska ríkinu, Skuggasundi, Reykjavík, og hinn 1. október sama ár gegn stefnda Agar ehf., Hnífsdal, Ísafjarðarbæ.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndu greiði stefnanda in solidum 5.572.310 krónur auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.957.078 krónum frá 28. mars 2006 til 1. júlí 2007 og af 5.572.310 krónum frá þeim degi til 6. apríl 2008, en með dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.695.000 krónum sem dragist frá kröfunni hinn 1. júlí 2007. Þá krefst stefnandi málskostnaðar án tillits til gjafsóknar hans.
Stefnda íslenska ríkið krefst þess aðallega að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Dómkröfur stefnda Agar ehf. eru þær aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmd til að greiða félaginu málskostnað. Til vara krefst stefnda þess að fjárkröfur stefnanda samkvæmt framhaldsstefnu verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I.
Árið 1997 hóf stefnandi störf hjá útibúi Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins (Rf) á Ísafirði. Útibúið var þá staðsett í austurenda hússins að Árnagötu 2-4 en þar mun útibúið hafa verið með starfsemi frá árinu 1975. Árið 1999 flutti Rf starfsemi sína í nýuppgert húsnæði Þróunarseturs Vestfjarða í vesturenda hússins að Árnagötu 2-4.
Stefnandi starfaði hjá Rf þar til í maí 2004 en þá hóf hún störf hjá stefnda Agar ehf. sem á þeim tímapunkti tók yfir hluta þeirra verkefna sem Rf hafði áður sinnt. Tók stefnda Agar ehf. á leigu hluta þess húsnæðis sem Rf hafði nýtt undir starfsemi sína, auk þess sem félagið leigði húsbúnað og tæki frá Rf. Agar ehf. hafði verið stofnað skömmu áður af þremur eigendum fisk- og rækjuverksmiðja í þeim tilgangi að reka rannsóknarþjónustu fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum.
Á árunum 1997 til 2000 leitaði stefnandi fjórum sinnum til læknis vegna hósta og öndunareinkenna og tvisvar árið 2000 vegna langvarandi höfuðverkja og ógleði, án þess að niðurstaða fengist um hvað að stefnanda amaði.
Við reglubundna skoðun Vinnueftirlits ríkisins á rannsóknarstofu stefnda Agar ehf. 14. október 2004 voru settar fram þrjár athugasemdir. Í fyrsta lagi að bæta þyrfti aðgengi að staðbundnu afsogi, í öðru lagi að starfsmenn skyldu nota viðeigandi persónuhlífar við störf sín og í þriðja lagi að starfsmenn skyldu nota staðbundið afsog við blöndun efna.
Í september 2005 leitaði stefnandi til yfirlæknis Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði vegna slappleika. Vísaði hann stefnanda til Sigurðar Þórs Sigurðarsonar, lungna- og atvinnusjúkdómalæknis, sem greindi stefnanda með astma og ofnæmiskvef. Í læknabréfi Sigurðar Þórs frá 24. október 2005 segir meðal annars að greinileg tenging sé á milli einkenna stefnanda og vinnu. Þá lýsir læknirinn því áliti sínu „... að sagan renni mjög styrkum stoðum undir það að einkennin séu í raun tengd a.m.k. að einhverju leyti vinnustaðnum. Þannig væri ekki óeðlil. að gerð væri frekari úttekt á vinnustaðnum og mun ég tilkynna þetta til Vinnueftirlitsins.“ Ávísaði læknirinn stefnanda lyfjum í samræmi við niðurstöðu greiningar sinnar.
Hinn 16. september 2005 kannaði Vinnueftirlit ríkisins að nýju aðstæður á vinnustað stefnanda að Árnagötu 2-4. Við það tækifæri mælti Vinnueftirlitið fyrir um við stefnda Agar ehf. að gerð yrði úttekt af sérfróðum aðila á lofræstikerfum á rannsóknarstofu og skrifstofu félagsins. Skyldi gera tímasetta áætlun um framkvæmd úrbóta ef þörf kræfi. Fékk stefnda frest til 26. október 2005 til að bregðast við fyrirmælum Vinnueftirlitsins.
Að beiðni Rf vann Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. (VST hf.) úttekt á loftræstikerfi húsnæðisins að Árnagötu 2-4. Niðurstaða úttektarinnar var sú að gera þyrfti ákveðnar breytingar á kerfinu til að tryggja ferskloftsfærslu til allra rýma í húsnæðinu. Sagði í úttektinni að varla væri möguleiki á að öll ferskloftsaðfærsla til allra rýma gæti farið um glugga á einu vinnurými, eins og gert væri ráð fyrir, án þess að það rými yrði ónothæft. Útsogskerfi eitt og sér yrði líklega alltaf ófullnægjandi við þessar aðstæður og best væri að koma fyrir innblásturskerfi með síun, hitun og samstýrðu útsogi.
Með bréfi 26. október 2005 ítrekaði Vinnueftirlitið fyrirmæli sín um aðgerðir sem stofnunin gaf við fyrrnefnda skoðun 16. september sama ár. Var kallað eftir tilkynningu stefnda Agar ehf. um að farið hefði verið að fyrirmælum Vinnueftirlits innan fjórtán daga frá dagsetningu bréfsins. Hinn 7. desember 2005 veitti Vinnueftirlitið stefnda Agar ehf. lokafrest „... til úrbóta á loftræstikerfi ... til 31.12.2005, að öðrum kosti verði rannsóknarstofunni lokað þar til úrbætur hafa verið framkvæmdar.“ Í bréfinu voru stefnda einnig gefin nánari fyrirmæli, í sjö töluliðum, „... um aðgerðir vegna gruns um atvinnutengdan sjúkdóm vegna vinnu á rannsóknarstofunni.“ Stefnda Agar ehf. svaraði síðastnefndu bréfi Vinnueftirlitsins skriflega 22. desember 2005 og í svari félagsins kom meðal annars fram að eigandi húsnæðisins, Vestri ehf., hefði þá þegar gert ráðstafanir vegna krafna Vinnueftirlitsins. Hefði húseigandinn ítrekað þrýst á um það við verkataka að hann hæfi vinnu við endurbætur á loftræstikerfi hússins. Kom fram í niðurlagi bréfsins að sú vinna væri hafin við ritun þess. Mun þeirri vinnu hafa verið lokið á fyrri hluta árs 2006.
Stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda Agar ehf. 28. mars 2006 með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti og lét stefnandi af störfum hjá félaginu í lok júní sama ár.
Í maí 2007 beiddist stefnandi dómkvaðningar matsmanna til að leggja mat á hvort hún væri haldin atvinnusjúkdómi og þá hvort um varanlega örorku og miska væri að ræða samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Enn fremur var þess óskað að matsmenn legðu mat á loftræstikerfi rannsóknarstofunnar að Árnagötu 2-4 og þá vinnuaðstöðu sem stefnandi hafði haft hjá Rf og stefnda Agar ehf. Dómkvaddir voru tveir matsmenn, Vilhjálmur Rafnsson prófessor og Jón Kristinn Gunnarsson byggingariðnfræðingur. Niðurstaða matsmanna lá fyrir 21. desember 2007. Í niðurlagi matsgerðar þeirra sagði svo:
1. Var loftræstikerfið á vinnusvæði matsbeiðanda (stefnanda) sem merkt er inn á meðfylgjandi teikningar, heilsuspillandi áður en úrbótum á því var lokið í ársbyrjun 2006 og ef svo er, telja matsmenn að heilsa matsbeiðanda hafi spillst af þeim sökum. Loftræstingu á vinnusvæði matsbeiðanda var áfátt bæði fyrir og eftir úrbætur á því og skapaði það heilsufarshættu.
2. Telja matsmenn að matsþoli sé haldinn atvinnusjúkdómi í læknisfræðilegum skilningi þess orðs. Matsmenn telja að matsþoli sé haldinn atvinnusjúkdómum.
3. Ef svör við spurningum 1 og/eða 2 eru jákvæð er þess óskað að tekin verði afstaða til neðangreindra atriða með hliðsjón af ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993:
a) Hvenær var ekki frekari bata að vænta hjá matsbeiðanda. Of stutt er liðið frá því að útsetningu fyrir sjúkdómavöldum hætti svo hægt sé að segja óyggjandi til um batahorfur.
b) Tímabil þjáningabóta sbr. ákvæði laga nr. 50/1993. Telst frá 1. júlí 2006 til dagsetningu matsfundar 21. nóvember 2007.
c) Varanlegur miski sbr. ákvæði laga nr. 50/1993. Metinn á matsfundi 21. nóvember 2007 10% - stig.
d) Varanleg örorka sbr. ákvæði laga nr. 50/1993. Metinn á matsfundi 21. nóvember 2007 10% - stig.
4. Ef svar við spurningum 1 og/eða 2 eru jákvæð og spurningu 3 því svarað, er þess óskað að tekin verði afstaða til þess hvort að hægt sé að sundurgreina og þá hversu stóran hluta miska og/eða örorku beiðanda megi rekja til.
a) Vegna stafa matsbeiðanda hjá Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins 50%.
b) Vegna starfa matsbeiðanda hjá Agar ehf. 50 %.
Stefnandi sendi báðum stefndu, stefnda íslenska ríkinu vegna Rf, bréf 6. mars 2008 þar sem stefndu voru krafin um bætur á grundvelli matsgerðarinnar. Munu óformleg viðbrögð hafi komið fram vegna þess erindis stefnanda, án þess að til niðurstöðu leiddi. Stefnandi höfðaði því mál þetta gegn stefndu 30. september og 1. október 2009. Stefnandi stefndi einnig í málinu eiganda húsnæðisins við Árnagötu 2-4, Vestra ehf., sem og tryggingarfélagi húseigandans til réttargæslu. Stefnandi féll hins vegar frá kröfum á hendur Vestra ehf. í þinghaldi 17. mars 2010.
Í þinghaldi 3. febrúar 2010 lagði stefnandi fram beiðni um yfirmat á ákveðnum atriðum sem metin höfðu verið af undirmatsmönnum. Í matsbeiðninni var nánar til tekið óskað eftir mati á því hvenær ekki var að vænta frekari bata hjá stefnanda, mati á tímabili þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga, mati á varanlegum miska stefnanda skv. 4. gr. sömu laga og að endingu mati á varanlegri örorku hennar skv. 5. gr. laganna. Við fyrirtöku málsins 17. sama mánaðar voru dómkvaddir til að framkvæma umbeðið mat Sigurður Arnalds hrl., Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum, og Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir á Landspítala-háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Í þinghaldi 7. apríl 2010 var afturkölluð dómkvaðning þess síðastnefnda, að hans eigin ósk, og dómkvaddur í hans stað, samkvæmt tillögu málsaðila, Steinn Jónsson lungnalæknir.
Yfirmatsgerðin lá fyrir 6. desember 2010. Í niðurlagi hennar segir meðal annars svo:
Yfirmatsmenn telja að yfirmatsbeiðandi hafi dæmigerð einkenni um RADS og hvellpósitivt metakólin próf við 4 mg/ml við nýlega mælingu. Meiri líkur en minni eru á því að um atvinnutengda orsök sé að ræða. Enginn annar sjúkdómur kemur fram sem líklegt er að skýri einkennin og það er engin reykingasaga. Einkennin hafa talsverð áhrif á heilsufar og daglegt líf yfirmatsbeiðanda auk vinnutaps.
... Dró úr hluta einkenna hennar eftir að hún hætti, m.a. höfuðverkja, en önnur einkenni teljast varanleg. Með hliðsjón af gögnum málsins telja matsmenn rétt að líta svo á að ári eftir að hún hætti störfum teljist stöðugleika hafa verið náð og engar þær breytingar orðið sem máli skipta. Stöðugleikatímapunktur teljist því vera 1. júlí 2007.
... Í tilviki matsbeiðanda er ekki um einstakan slysatburð að ræða sem unnt er að rekja óvinnufærnitímabil til. Eftir að yfirmatsbeiðandi hætti störfum hjá Agar ehf. vann hún um skeið við símsvörun, en hætti því starfi og hefur síðan ekki verið á vinnumarkaði. Af dómum Hæstaréttar Íslands má ráða að skilyrði 3. gr. skbl. um að sérstaklega standi á eru túlkuð nokkuð þröngt. Telja matsmenn því ekki unnt að líta svo á að skilyrði til þjáningabóta teljist uppfyllt í máli þessu. Telst því ekki vera um þjáningabótatímabil að ræða í skilningi 3. gr. skbl.
... Yfirmatsbeiðandi hefur eins og áður sagði dæmigerð einkenni um RADS og hvellpósitivt metakólin próf við 4 mg/ml við nýlega mælingu. Einkennin hafa talsverð áhrif á heilsufar og daglegt líf yfirmatsbeiðanda. Við mat á varanlegum skaða af völdum atvinnusjúkdóms er litið til dönsku miskatöflunnar ... hvað snertir tap á starfs- og hreyfigetu vegna hjara eða lungnasjúkdóma, liða E.2.2. ... og E.2.3. og þykir varanlegur miski metinn 25 stig. ...
... Með vísan til þeirrar skerðingar á starfsúthaldi og starfsmöguleikum sem að framan er lögð til grundvallar telja matsmenn varanlega örorku af völdum þeirra einkenna sem lögð eru til grundvallar hæfilega metna 20% og hefur þá verið tekið tillit til lögbundinnar tjónstakmörkunarskyldu skv. 2. mgr. 5. gr.
II.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndu beri ótvíræða bótaábyrgð á tjóni hennar samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð og ábyrgð á ófullnægjandi aðbúnaði á vinnustað.
Stefnandi segir aðbúnað á vinnustað hennar hafi verið ófullnægjandi og að stefndu hafi ekki uppfyllt skyldur sínar og tryggt að vinnuaðstaða væri fullnægjandi. Að sama skapi hafi stefndu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að verja stefnanda gegn mengun og sjúkdómum svo sem þeim hafi borið skylda til, sbr. VIII. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Á því sé byggt að bein tengsl séu milli aðbúnaðar á vinnustað og atvinnusjúkdóms stefnanda en því sé slegið föstu í framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 21. desember 2007.
Af hálfu stefnanda er til þess vísað að hún hafi hafið störf hjá Rf á Ísafirði árið 1997. Vinnuaðstaða hennar hafi í fyrstu verið staðsett í austurenda húsnæðisins að Árnagötu 2-4 á Ísafirði. Það rými hafi verið gluggalaust og án loftræstingar og því algerlega ófullnægjandi. Árið 1999 hafi vinnuaðstaðan síðan verið flutt í vesturenda húsnæðisins í gluggalaust rými inn á miðju gólfi þar sem loftræstingu hafi einnig verið verulega ábótavant, sbr. framlagða skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen ehf., sem og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, sbr. áðurnefnda matsgerð þeirra. Í skýrslu verkfræðistofunnar komi meðal annars fram að loft sé sogað úr nánast öllum innrýmum án þess að gert sé ráð fyrir aðkomu fersklofts, en slíkt leiði til uppsöfnunar óæskilegra lofttegunda eins og CO2. Þá sé tekið fram að varla sé möguleiki á að öll ferskloftsaðfærsla til allra rýma geti farið um glugga á einu vinnurými, eins og ráð sé fyrir gert á vinnusvæðinu, án þess að það rými verði ónothæft, auk þess sem slíkt loftstreymi sé ekki til staðar ef glugganum sé lokað. Engin innloftun hafi verið hönnuð við loftræstikerfið og hafi Marínó Hákonarson blikksmíðameistari, sem séð hafi um uppsetningu kerfisins, strax gert munnlegar athugasemdir við verktaka, hönnuð kerfisins og þáverandi forstöðumann Rf vegna þessa. Engin viðbrögð hafi orðið við þeim athugasemdum. Segir stefnandi ljóst og fullsannað með framlögðum gögnum, sbr. til dæmis fyrrgreinda matsgerð, fyrirliggjandi athugasemdir Vinnueftirlitsins og úttekt Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen ehf. að loftræsting og aðbúnaður sá sem stefnandi vann við í átta ár hafi verið ófullnægjandi með tilliti til þeirra verkefna sem hún vann við og þeirra eiturefna sem henni var uppálagt að vinna með daglega við ætisræktun. Stefndu hafi borið að tryggja stefnanda öruggt vinnuumhverfi, sem ekki væri heilsuspillandi. Þeirri lögboðnu skyldu hafi þau brugðist.
Af framlögðum matsgerðum og læknisvottorðum segir stefnandi ljóst að bein tengsl séu á milli veikinda hennar og örorku og vanbúnaðar á vinnustað hennar. Á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessa vanbúnaðar beri stefndu ábyrgð. Vísar stefnandi í þessu sambandi sérstaklega til þeirrar niðurstöðu matsmanna í matsgerðinni frá 21. desember 2007 að loftræstingu á vinnusvæði stefnanda hafi verið áfátt bæði fyrir og eftir úrbætur og að kerfið hafi skapað heilsufarshættu.
Í stefnu er til þess vísað að starf stefnanda hafi falist í því að blanda og útbúa æti fyrir sýklaræktanir. Margskonar æti hafi verið notað við vinnuna, allt eftir því eftir hvaða sýklum verið var að leita hverju sinni. Hráefnið til ætisgerðarinnar hafi verið fíngert duft sem rokið hafi og þyrlast auðveldlega upp. Stefnandi hafi staðið að blöndun ætishráefnanna í samræmi við þær aðferðir sem henni hafi verið kenndar á námskeiði Rannsóknarstofu Fiskiðnaðarins og í samræmi við leiðbeiningar yfirmanna sinna. Í matsgerðinni frá 21. desember 2007 sé að finna töflu þar sem útlistað sé hversu mörg þeirra efna sem stefnandi vann með eigi undir reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, meðferð og merkingu eiturefna. Í matsgerðinni séu talin upp alls tólf efni sem stefnandi hafi unnið með sem skylda sé að merkja sem eiturefni samkvæmt reglugerð nr. 236/1990. Stefndu hafi hins vegar látið það undir höfuð leggjast. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að stefndu hafi borið ábyrgð á því að eiturefni sem starfsmenn hafi handfjatlað hafi verið merkt sem slík á fullnægjandi hátt og í samræmi við gildandi reglur. Slíkt geti alls ekki verið á ábyrgð og áhættu almennra starfsmanna, eins og stefnanda, sem gangi til sinna verka í samræmi við fyrirmæli yfirboðara sinna.
Stefnandi byggir einnig á því að leggja megi stranga mælistiku á framgöngu stefndu í málinu. Stefndu hafi, sem sérhæfðum aðilum í afar sérhæfðri starfsemi, mátt vera ljóst að brýnt væri að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi fyrir starfsmenn sína þar sem annars hafi verið yfirvofandi að heilsutjón hlytist af. Sú hafi einmitt orðið raunin í tilviki stefnanda þar sem stefndu hafi brugðist skyldum sínum í þessum efnum.
Þá er af hálfu stefnanda til þess vísað að henni hafi aldrei verið úthlutað persónuhlífum til hlífðar öndunarfærum sínum þrátt fyrir að hún væri að vinna með ertandi eiturefni í afar afmörkuðu rými sem loftræst hafi verið á allskostar ófullnægjandi hátt. Gerð hafi verið athugasemd við skort á persónuhlífum í úttekt Vinnueftirlits 14. október 2004, en í skýrslu merktri A-67392 komi fram sú athugasemd að starfsmenn skuli nota viðeigandi persónuhlífar. Engar úrbætur hafi átt sér stað eftir þessar athugasemdir Vinnueftirlits. Af einhverju stigi hafi stefnandi sjálf reynt að útvega sér persónuhlífar fyrir öndunarfæri. Hún hafi hins vegar fljótt gefist upp á því þar sem venjulegar hlífar hafi valdið henni óþægindum við vinnuna og þá hefði verið nauðsynlegt að nota hlífar sem lagst hefðu þétt upp að andlitinu. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að með skorti á persónuhlífum til verndar öndunarfærum hafi stefndu brotið gegn reglum nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.
Hvað málskostnað varðar tekur stefnandi sérstaklega fram að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og sé henni því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.
Stefnandi tekur fram að hún hafi fyrst sett fram fjárkröfu í málinu með framhaldsstefnu 19. janúar 2011. Það hafi hún gert með heimild í 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Yfirmatsgerð hafi ekki legið fyrir fyrr en 6. desember 2010 en með henni hafi fyrst verið staðfestur stöðugleikatímapunktur stefnanda vegna tjóns hennar og þannig skapast forsendur til að leysa úr ágreiningi málsaðila að öllu leyti. Framhaldsstefnunni hafi því verið komið á framfæri án dráttar svo sem áskilið sé í nefndri 29. gr. laga nr. 91/1991.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð og ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað. Stefnandi vísar og til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Enn fremur byggir hún á reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, meðferð og merkingu eiturefna, sem og reglum nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.
III.
Stefnda íslenska ríkið mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni á meðan hún starfaði í austurhluta húsnæðisins við Árnagötu 2-4. Það húsnæði hafi verið fyllilega í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið til slíkrar starfsemi á hverjum tíma. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að neinar athugasemdir hafi verið gerðar af opinberum aðilum vegna aðstöðu starfsmanna á þeim stað.
Stefnda íslenska ríkið vísar til þess að stefnandi hafi fengið þjálfun í tvo mánuði frá upphafi starfs undir handleiðslu yfirmanns síns samkvæmt fyrirmælum gæðakerfis. Þá hafi hún einnig í byrjun árs 1997 fengið þjálfun í Reykjavík í einn dag þar sem farið hafi verið yfir verklag við örverumælingar og efnamælingar.
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er sérstaklega á það bent að stefnandi hafi ekki séð um gerð æta nema í algerum undantekningartilvikum hjá Rf. María Halldórsdóttir hafi séð um og unnið við gerð ætanna og mótmæli stefnda öðru sem röngu. Segir stefnda Maríu nánast aldrei hafa verið fjarverandi frá vinnu. Þá hafi aðrar efnamælingar, svo sem fitumælingar og TVN mælingar, verið í höndum útibússtjóra meðan útibúið starfaði undir hatti Rf.
Stefnda íslenska ríkið kveðst mótmæla lýsingu stefnanda á starfi sínu í stefnu sem rangri í grundvallaratriðum. Stefnandi hafi samkvæmt áðursögðu ekki unnið við gerð æta nema í algerum undantekningartilvikum hjá Rf. Málssókn stefnanda virðist því byggð á forsendu sem sé algerlega röng.
Í stefnu segi að frá 1999 hafi stefnandi unnið störf sín í herbergi þar sem stöðugt hafi verið sogað loft út úr herberginu og ekki hafi verið nein loftræsting til mótvægis inní herbergið. Bendir stefnda íslenska ríkið á að ætagerðin hafi ekki farið fram í þessu herbergi sem stefnandi hafi mest unnið í. Opnanlegur gluggi hafi hins vegar verið í því rými sem María Halldórsdóttir hafi séð um ætagerðina.
Fyrstu athugasemdir Vinnueftirlits ríkisins vegna umrædds húsnæðis segir stefnda íslenska ríkið ekki hafa borist því fyrr en síðla árs 2005, eða rúmu ári eftir að stefnda Agar ehf. tók starfsemi Rf yfir, þ.e. í maí 2004. Hinn 14. október það ár hafi Vinnueftirlitið, við reglubundna skoðun, gert þrjár athugasemdir við Agar ehf. Þó svo að Rf hefði ekki lengur séð um reksturinn á þessum tíma hefði Rf þrýst á um að kröfum Vinnueftirlits yrði fullnægt, sem síðan hefði verið gert. Viðbrögð við þessum athugasemdum Vinnueftirlitsins hefðu hins vegar ekki verið á ábyrgð stefnda íslenska ríkisins.
Stefnda íslenska ríkið kveðst mótmæla því sem ósönnuðu að einkenni þau, sem stefnandi lýsi og segist hafa fundið fyrir, tengist vinnustað þeim sem það hafi rekið. Vísar stefnda til þess að stefnandi hafi aldrei kvartað undan því sem í stefnu sé lýst við vinnuveitanda sinn. Fyrsta kvörtunin sem borist hafi frá starfsmanni vegna starfseminnar hafi verið frá Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur sem komið hafi til starfa hjá Agar ehf. í september 2005. Í kjölfar þeirrar kvörtunar hafi Vinnueftirlitið verið kallað til samkvæmt áðursögðu.
Stefnda íslenska ríkið segir stefnanda ekki hafa sýnt fram á að athugasemdir hafi verið gerðar af opinberum aðilum vegna starfsemi Rf á umræddum vinnustað sem snúið hafi að aðbúnaði starfsfólks. Mótmælir stefnda því sem röngu og ósönnuðu að stefnda hafi brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja starfsmönnum öruggt vinnuumhverfi sem ekki væri heilsuspillandi. Ósannað séð að vinnuumhverfið hafi verið með þeim hætti.
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er því haldið fram að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna starfa sinna hjá Rf. Mótmælir stefnda því sem ósönnuðu að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið ófullnægjandi. Aðbúnaður á vinnustaðnum hafi þvert á móti verið til fyrirmyndar og í samræmi við ákvæði laga. Stefnda hafi gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að verja starfsmenn sína gegn mengun og sjúkdómum. Stefnda segir ósannað að bein tengst séu á milli aðbúnaðar á vinnustaðnum og atvinnusjúkdóms stefnanda. Enn fremur sé ósannað að bein tengsl séu á milli veikinda og örorku stefnanda og meints vanbúnaðar á vinnustað hennar.
Hvað varði framlagða skýrslu VST hf. tekur stefnda íslenska ríkið fram að niðurstaða skýrslunnar hafi verið að gera þyrfti ákveðnar breytingar, en jafnframt hafi komið fram að mælingar sýndu að uppsöfnun óæskilegra lofttegunda í húsnæðinu hafi verið langt undir hámörkum byggingarreglugerðar, auk þess sem hita- og rakastig hafi verið eðlilegt. Í upphafi ársins 2006 hafi eigandi húsnæðisins síðan látið vinna breytingar á loftræstikerfi hússins í samræmi við tillögur VST hf. Kveður stefnda það mat sitt að niðurstaða skýrslunnar sé ekki sú að vinnurými séu ónothæf.
Stefnda íslenska ríkið segir ósannað, svo sem haldið sé fram í stefnu, að Marínó Hákonarson hafi gert athugasemdir við þáverandi forstöðumann Rf strax við uppsetningu loftræstikerfisins. Þá bendir stefnda á að loftræsting hússins hafi verið á ábyrgð eiganda þess. Jafnframt mótmælir stefnda sem ósannaðri þeirri fullyrðingu stefnanda að loftræsting og aðbúnaður sá sem stefnandi hafi unnið við í átta ár hafi verið ófullnægjandi með tilliti til þeirra verkefna sem stefnandi hafi unnið við og þeirra efna sem henni hafi verið uppálagt að vinna með daglega.
Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna frá 21. desember 2007 kveður stefnda íslenska ríkið vera stórlega gallaða. Tekur stefnda sérstaklega fram í því sambandi að eigandi húsnæðisins við Árnagötu 2-4 hafi ekki verið meðal matsþola. Mótmælir stefnda matsgerðinni sem rangri að öllu leyti og segir að líta eigi fram hjá henni sem sönnunargagni í málinu. Svo virðist sem matsmenn hafi gefið sér rangar forsendur. Stefnandi hafi ekki unnið við ætagerð samkvæmt áðursögðu, en matið sé meira og minna byggt á því að svo hafi verið. Einnig virðist sem eldra húsnæði hafi ekki verið skoðað eða leitað eftir upplýsingum um það með fullnægjandi hætti. Þá verði ekki séð að matsmenn hafi leitað eftir miklum upplýsingum frá stefnda íslenska ríkinu við matsgerðina heldur virðist sem þeir hafa byggt mjög mikið á upplýsingum um starfsemi Rf frá stefnanda. Bendir stefnda sérstaklega á að aðeins sé lítillega fjallað um SWEDAC-úttektir í matsgerðinni, sem sé mikill galli á henni. Þá heldur stefnda því fram að matsmenn hafi ekki dregið réttar ályktanir af skýrslum lækna í málinu.
Stefnda íslenska ríkið byggir jafnframt á því í málinu að rangt sé og ósannað að bein tengsl séu á milli meintra veikinda/örorku stefnanda og meints vanbúnaðar á vinnustað hennar. Stefnda segir rannsóknarstofu Rf hafa verið vandaða rannsóknarstofu. Á árinu 1997 hafi Rf fyrst prófunarstofa á landinu fengið faggildingu samkvæmt evrópskum staðli, EN 45001. Löggildingarstofan í samvinnu við SWEDAC í Svíþjóð hafi tekið út og sannprófað hæfni Rf til að framkvæma umræddar mælingar. Þegar sótt sé um faggildingu sé umsóknaraðili tekinn til nákvæmrar skoðunar og verði hann að standast ýmsa þætti er varði tæki, húsnæði, hæfni starfsfólks og síðast en ekki síst þurfi að vera til staðar öflugt innra eftirlit í formi gæðakerfis. Fulltrúar Löggildingarstofu og SWEDAC hafi annast úttekt vegna faggildingar útibúanna í ágúst 1999 í samráði við starfsmenn Rf á hverjum stað og í Reykjavík. Farið hafi verið yfir allt gæðakerfið til að sannreyna hvort það stæðist kröfur faggildingarinnar og liggi fyrir skýrslur um úttekt SWEDAC frá árunum 2000 og 2002. Starfsemi Rf á Ísafirði hafi því staðist strangt eftirlit SWEDAC.
Stefnda íslenska ríkið mótmælir því harðlega að hafa brotið gegn reglugerð 236/1990. Allar pakkningar sem notaðar hafi verið af Rf hafi komið merktar frá framleiðendum eða birgjum með viðeigandi hættumerkingum. Þeir sem vinni með slík efni þekki merkingarnar. Stefnandi hafi starfað lengi hjá Rf og enn fremur haft langa starfsreynslu sem aðstoðarmaður á tannlæknastofu. Stefnandi geti því ekki borið fyrir sig að hún hafi ekki þekkt merkingar á pakkningum sem hún hafi unnið með. Þá segir stefnda fráleitt að Rf hafi borið að sérmerkja innan stofnunarinnar þau efni sem þar hafi verið unnið með. Jafnframt ítrekar stefnda í þessu sambandi fullyrðingu sína um að stefnandi hafi ekki unnið að ætagerð og þá hafi hún ekki unnið með eiturefni að staðaldri.
Þeim málatilbúnaði stefnanda að beita eigi strangri mælistiku í málinu kveðst stefnda íslenska ríkið mótmæla. Hvorki séu skilyrði til þess að beita slíkum sjónarmiðum í málinu né reglum um hlutlæga ábyrgð
Í málatilbúnaði sínum vísar stefnda íslenska ríkið ítrekað til þess að stefnandi hafi ekki unnið við ætagerð. Ósannað sé að hún hafi þurft persónuhlífar í störfum sínum. Jafnframt sé ósannað að stefnandi hafi reynt að útvega sér slíka hlíf eða að hún hafi valið rétta hlíf. Mótmælir stefnda því sem röngu og ósönnuðu að það hafi brotið gegn reglum nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.
Stefnda bendir á að á Rf hafi verið kappkostað að sjá til þess að öryggi starfsmanna væri tryggt og hafi breytingar á húsnæði verið gerðar eftir tímans bestu þekkingu og kröfum. Vísar stefnda sérstaklega til þess að stefnandi hafi getað sinnt starfi sínu fjarri ætagerð, sem ekki hafi staðið yfir í nema 1-2 klst. á dag.
Stefnda íslenska ríkið ítrekar að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu því sem bótakröfu hennar viðkomi, meðal annars um sök og ólögmæti. Stefnandi hafi ekki sannað að stefnda sé bótaskylt. Einnig sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir heilsutjóni á vinnustað, hvort sem er á eldri eða nýrri vinnustað, á meðan hún starfaði hjá Rf. Verði hins vegar talið sannað að stefnandi hafi orðið fyrir heilsutjóni á þeim árum sem hún starfaði hjá Rf sé með öllu ósannað að heilsutjónið verði rakið til sakar Rf og stefnda. Stefnda íslenska ríkið heldur því einnig fram að stefnandi hafi heldur ekki sannað að orsakatengsl séu á milli meints tjóns hennar og vinnu hennar hjá stefnda. Þá verði meint líkamstjón stefnanda ekki talið sennileg afleiðing af störfum hennar í þágu stefnda.
Stefnda íslenska ríkið mótmælir yfirmati sem röngu að öllu leyti. Stefnda tekur sérstaklega fram að ekki hafi verið óskað yfirmats á orsökum veikinda stefnanda. Yfirmatsmenn hafi því farið út fyrir verksvið sitt með yfirlýsingu þess efnis að meiri líkur en minni séu á því að um atvinnutengda orsök sé að ræða. Krefst stefnda þess að litið verði fram hjá þessari athugasemd yfirmatsmanna.
Samkvæmt framansögðu segir stefnda íslenska ríkið ekki fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir kröfum stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni, reglunni um vinnuveitandaábyrgð, skaðabótalögum nr. 50/1993, lögum nr. 46/1980 eða öðrum ákvæðum laga þeirra og reglugerða sem stefnandi vísi til í stefnu.
Verði það niðurstaða dómsins að taka eigi kröfu stefnanda til greina kveðst stefnda íslenska ríkið byggja á því að eigin sök stefnanda sé veruleg og að hún ryðji burt öllum hugsanlegum bótarétti hennar. Til vara krefst stefnda lækkunar bótakröfu vegna eigin sakar. Stefnda segir saknæmt gáleysi stefnanda sjálfrar í raun orsök tjónsins. Stefnandi hafi lýst því að hún hafi fljótlega fundið fyrir ákveðnum einkennum og hún leitað til sérfræðinga vegna höfuðverkja og ógleði. Stefnandi hafi hins vegar aldrei upplýst yfirmenn sína hjá Rf um þau ætluðu áhrif sem vinnuaðstaða hennar hefði á heilsu hennar. Hún hafi heldur ekki óskað eftir úrbótum á vinnuaðstöðu. Miðað við lýsingar stefnanda á heilsufari sínu í stefnu segir stefnda með hreinum ólíkindum að stefnandi hafi ekki gert athugasemdir vegna hinna ætluðu áhrifa vinnustaðarins á heilsu hennar. Stefnandi hafi aldrei kvartað undan vinnuaðstöðu sinni við yfirmenn sína hjá Rf og aldrei greint frá þeim kvillum sem hana hafi hrjáð þann tíma sem hún starfaði hjá Rf, það er frá árinu 1997 til maí 2004. Fyrsta kvörtunin frá starfsmanni vegna vinnustaðarins hafi komið frá Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur er hún hafi hafið störf í september 2005. Rf hafi þannig fyrst haft spurnir af athugasemdum vegna húsnæðis stofnunarinnar með bréfi Vinnueftirlitsins 26. október 2005, en það bréf hafi komið í kjölfar úttektar Vinnueftirlitsins vegna athugasemdar Guðrúnar Önnu. Ekki hafi áður borist kvörtun frá starfsmanni vegna vinnustaðarins, en á þessum tímapunkti hefði Rf verið hætt rekstri á rannsóknarstofu á Ísafirði og Agar ehf. verið tekið við því húsnæði sem um ræðir og rekið þar rannsóknarstofur sínar. Enn fremur hafi stefnandi aldrei gert athugasemdir vegna skorts á úthlutun persónuhlífa til hlífðar öndunarfærum sínum. Þá sé ósannað að stefnandi hafi á einhverju stigi reynt að útvega sér slíkar persónuhlífar.
Sýknukröfunni til stuðnings vísar stefnda íslenska ríkið, auk framangreinds, til sjónarmiða skaðabótaréttar um samþykki og áhættutöku. Enn fremur byggir stefnda kröfuna á því að fella eigi burt allan hugsanlegan bótarétt stefnanda vegna tómlætis.
Stefnda íslenska ríkið segir ófært að gera það ábyrgt fyrir þeim atriðum sem að umræddu húsnæði snúi. Tekur stefnda sérstaklega fram að loftræstikerfi hússins sé á ábyrgð húseiganda en á honum hvíli aðgæslu- og frumkvæðisskylda. Húseiganda beri að tryggja að húsnæði sem leigt sé út í atvinnuskyni henti starfseminni og að starfsmenn verði ekki fyrir heilsutjóni vegna hennar. Segir stefnda það galla á málatilbúnaði stefnanda að hún hafi fallið frá kröfum á húseiganda eftir að málsaðilar skiluðu greinargerðum sínum.
Að sögn stefnda íslenska ríkisins eru ekki skilyrði fyrir þeirri kröfu stefnanda að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda bætur. Ekkert renni stoðum undir þá kröfu og sé henni mótmælt af hálfu stefnda íslenska ríkisins. Til dæmis fái slík ábyrgð ekki staðist með vísan til undirmatsgerðarinnar. Fallist dómurinn á bótaskyldu annars hvors stefndu eða þeirra beggja verði slík ábyrgð aðeins að hluta en ekki in solidum. Verði þá að taka tillit til verulegrar eigin sakar stefnanda. Verði bætur dæmdar telur stefnda að skipta beri bótafjárhæð að jöfnu milli ríkis og Agar ehf. þar sem ekkert liggi fyrir um hvenær stefnandi hafi veikst.
Varakröfu sína um lækkun kveður stefnda íslenska ríkið styðjast við allar þær málsástæður og sjónarmið sem að framan greini. Til stuðnings kröfunni vísar stefnda einnig til þess að í yfirmati séu varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda allt of hátt metin. Þá segir stefnda með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni smám saman eins og hún gefi sér í málatilbúnaði sínum.
Stefnda íslenska ríkið mótmælir öllum tölulegum viðmiðunum og útreikningi stefnda. Telur stefnda að tekjuviðmið stefnanda sé of hátt. Þá segir það rétt að miða alla útreikninga, þ.m.t. á bótum vegna varanlegs miska, við það tímamark þegar stefnandi hafi látið af störfum. Öðru mótmæli stefnda sem röngu. Meintan tjónsdag verði að telja í júní 2006, þ.e. þegar stefnandi hafi látið af störfum.
Vexti eldri en fjögurra ára, frá birtingardegi stefnu talið, segir stefnda íslenska ríkið fyrnda skv. ákvæði 3. gr. laga nr. 14/1905. Þá mótmælir stefnda dráttarvaxtakröfu stefnanda. Segir það stefnanda ekki geta átt rétt til dráttarvaxta fyrr en mánuði eftir birtingu framhaldsstefnu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda íslenska ríkið til þeirra laga og reglugerða sem að framan greinir. Því til viðbótar vísar stefnda til laga nr. 64/1965, laga nr. 100/1992, laga nr. 24/2006 og laga nr. 46/1980.
IV.
Stefnda Agar ehf. reisir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir heilsutjóni vegna starfa hennar hjá stefnda. Verði hins vegar talið sannað að stefnandi hafi orðið fyrir heilsutjóni á þeim tveimur árum sem hún hafi starfað hjá stefnda Agar ehf. byggir stefnda á því að ósannað sé að heilsutjón hennar megi rekja til sakar stefnda. Skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu því ekki uppfyllt hvað stefnda Agar ehf. varðar.
Stefnda Agar ehf. vísar til þess að stefnandi hafi hafið störf hjá Rf árið 1997 sem rannsóknarmaður. Fyrir liggi að við upphaf starfa sinna hafi stefnandi farið á námskeið og fengið starfsþjálfun hjá Rf í Reykjavík, auk þess sem hún hafi fengið tilsögn og leiðbeiningar há yfirmönnum sínum hjá útibúi Rf á Ísafirði. Fyrstu tvö árin sem stefnandi hafi starfað hjá Rf hafi starfsemin verið til húsa í austurenda Vestrahússins við Árnagötu 2-4 á Ísafirði, en það húsnæði hafi ekki verið innréttað eða hannað sérstaklega fyrir rannsóknarstofu. Samkvæmt lýsingum stefnanda hafi húsnæði þetta verið þröngt og þar hafi engin loftræsting verið til að byrja með. Á árinu 1999 hafi Rf flutt starfsemi sína í vesturenda húsnæðisins sem innréttað hefði verið sérstaklega sem rannsóknarstofa eftir leiðbeiningum hönnuða.
Af hálfu stefnda Agar ehf. er á það bent að í framlögðum læknisfræðilegum gögnum komi fram að stefnandi hafi um margra ára skeið átt við veikindi að stríða sem einkum hafi lýst sér með öndunarfæraeinkennum, höfuðverk og slappleika. Gögnin gefi til kynna að stefnandi hafi á árinu 1997 leitað til læknis vegna hósta og öndunarfæraeinkenna og hún meðal annars farið í lungnamyndatöku af þeim sökum árið 1999. Á árinu 2000 hafi hún leitað til læknis vegna langvarandi höfuðverkja og ógleði og það hafi hún einnig gert á árunum 2001 til 2004. Í ljósi sjúkrasögu stefnanda kveður stefnda ekki ósennilegt að öll þau einkenni sem stefnandi lýsi varðandi bágt heilsufar sitt hafi verið til staðar er hún hóf störf hjá stefnda í maí 2004. Stefnda telji því útilokað að það geti borið skaðabótaábyrgð á hugsanlegu heilsutjóni stefnanda sem til staðar hafi verið þegar hún hafi hafið störf hjá félaginu. Verði það samt sem áður niðurstaða dómsins að stefnda Agar ehf. beri að einhverju leyti ábyrgð á heilsutjóni stefnanda byggir stefnda á því að af framangreindu leiði að lækka beri kröfu stefnanda á hendur félaginu verulega, enda geti stefnda ekki undir nokkrum kringumstæðum borið ábyrgð á því heilsutjóni stefnanda sem verið hafi til staðar í lok maí 2004.
Stefnda Agar ehf. tekur fram að þegar félagið hafi hafið starfsemi í maí 2004 hafi það einungis tekið við hluta þeirra rannsóknarverkefna sem Rf hafði sinnt fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu. Rf hafi haft með höndum efna- og örverumælingar þar sem unnið hafi verið með nokkuð af ætandi efnum. Stefnda hafi hins vegar eingöngu séð um örverumælingar en engar efnamælingar. Við örverumælingarnar hafi hins vegar verið notast við lítið af ætandi efnum. Einnig bendir stefnda á að stefnandi hafi ekki séð um ætagerðina nema í undantekningartilfellum, þegar aðrir starfsmenn hafi verið fjarverandi. Starf stefnanda hafi þannig fyrst og fremst verið fólgið í þjónustumælingum, auk undirbúnings, frágangs á rannsóknarsýnum og skráningu á niðurstöðum sýnamælinga. Bendi þessi atriði til þess að stefnda beri ekki ábyrgð á heilsutjóni stefnanda. Verði það hins vegar niðurstaða dómsins að stefnda Agar ehf. beri að einhverju leyti ábyrgð á tjóninu byggir stefnda á því að framangreind atriði eigi að leiða til þess að fjárkrafa stefnanda á hendur félaginu verði lækkuð. Í því sambandi vísar stefnda og til þess að úrbótum á loftræstikerfi húsnæðisins að Árnagötu 2-4 á Ísafirði hafi verið lokið í ársbyrjun 2006 og hafi stefnandi því einungis verið búin að starfa í hálft annað ár hjá stefnda þegar endurbæturnar voru framkvæmdar.
Stefnda Agar ehf. bendir og á að félagið hafi í maí 2004 tekið á leigu húsnæði, innréttingar og tækjabúnað af Rf í Þróunarsetrinu við Árnagötu 2-4 á Ísafirði. Stefnda hafi verið kunnugt um að húsnæðið hafði á árinu 1999 verið innréttað samkvæmt óskum Rf og hafi innra skipulag þess og tækjabúnaður að öllu leyti tekið mið af þörfum rannsóknarstofunnar. Stefnda hafi einnig verið kunnugt um að húsnæðið og sú starfsemi sem þar hafi farið fram af hálfu Rf hafði árlega verið tekin út af sænsku fyrirtæki, Swedac, og á grundvelli þeirrar úttektar hafi rannsóknarstofan verið faggilt árlega. Stefnda hafi því verið í góðri trú um að húsnæðið, tækjabúnaður og allur aðbúnaður á rannsóknarstofunni fullnægði að öllu leyti þeim kröfum til slíkra rannsóknarstofa væri gerður af opinberum aðilum því að öðrum kosti hefði rannsóknarstofan aldrei fengið faggildingu eða starfsleyfi. Í ljósi þessa telji stefnda með öllu ósannað að húsnæðið hafi á einhvern hátt verið heilsuspillandi eða aðbúnaður ófullnægjandi.
Þá er af hálfu stefnda Agar ehf. til þess vísað að þegar stefnandi hóf störf hjá Agar ehf. hafi hún verið búin að starfa í sjö ár hjá Rf. Stefnandi hafi því þekkt vel til starfseminnar og meðferðar þeirra efna sem unnið var með. Við upphaf starfa sinna hjá Agar ehf. hafi stefnandi hvorki gert athugasemdir við starfsaðstöðuna né aðbúnaðinn á vinnustaðnum, en slíkum athugasemdum hafi stefnanda borið að koma á framfæri teldi hún að starfsaðstaðan væri ófullnægjandi eða að bágt heilsufar hennar mætti að einhverju leyti rekja til vinnustaðarins. Svo virðist sem fyrsta kvörtunin vegna vinnustaðarins hafi borist í september 2005 og þá frá öðrum starfsmanni en stefnanda.
Stefnda Agar ehf. tekur fram að öll eiturefni sem félagið hafi notað í starfsemi sinni hafi komið með viðeigandi hættumerkingum frá framleiðanda eða innflytjanda efnanna. Því fari fjarri, og sé harðlega mótmælt, að stefnda hafi með einhverjum hætti brotið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 236/1990. Í störfum sínum sem rannsóknarmaður til fjölda ára sé útilokað annað en stefnanda hafi verið fullkunnugt um hættueiginleika þeirra efna sem hún hafi unnið með þegar hún hóf störf hjá stefnda í maí 2004. Því fari einnig fjarri að stefnda hafi borið skylda til að sérmerkja þessi efni að einhverju leyti þegar í huga sé haft að stefnandi hafði unnið með þessi efni í fjölda ára og því þekkt vel til eiginleika þeirra, auk þess sem merkingar hafi verið á umbúðum þeirra. Bendir stefnda jafnframt á að félagið hafi notað mun minna af eiturefnum og ætandi efnum við örverumælingar heldur en Rf hafi gert við efna- og örverumælingar sínar. Varðandi notkun persónuhlífa bendir stefnda á að framkvæmdastjóri félagsins hafi fest kaup á persónuhlífum til nota fyrir starfsmenn sína og þá hafi hann brýnt fyrir stefnanda að nota persónuhlífar við störf sín, sérstaklega þegar unnið væri við meðhöndlun ætandi efna. Segir stefnda af stefnu mega ráða að stefnanda hafi verið ljóst mikilvægi þess að nota persónuhlífar en notkun þeirra hins vegar valdið henni ákveðnum óþægindum.
Af hálfu stefnda Agar ehf. er því haldið fram að félagið verði ekki gert ábyrgt fyrir þeim atriðum sem lúti að húsnæðinu sjálfu að Árnagötu 2-4 eða útbúnaði þess, svo sem loftræstikerfinu. Þau atriði hljóti að vera á ábyrgð húseigandans. Honum beri að tryggja að húsnæðið sé ekki heilsuspillandi og hvíli aðgæsluskylda á húseigandanum hvað það varði. Vísar stefnda í þessu sambandi til þess að húsnæðið hafi sérstaklega verið innréttað og hannað fyrir rannsóknarstofu og fengið opinbera faggildingu hvað það varðaði. Ábyrgð eiganda húsnæðisins grundvallist þá væntanlega á hlutlægum ábyrgðarreglum en geti ekki undir nokkrum kringumstæðum grundvallast á sök stefnda Agar ehf., enda félagið í góðri trú um að hið leigða húsnæði uppfyllti allar þær kröfur sem opinberir aðilar gerðu til slíks húsnæðis. Bendir stefnda og á að þegar félagið hafi tekið húsnæðið á leigu í maí 2004 hafi engar athugasemdir legið fyrir af hálfu Vinnueftirlits ríkisins eða annarra opinberra aðila varðandi húsnæðið eða aðbúnað starfsmanna á vinnustaðnum.
Stefnda Agar ehf. telur að ekki verði byggt á matsgerðinni frá 21. desember 2007 þar sem á henni séu alvarlegir ágallar. Í fyrsta lagi virðist sem matsmenn hafi gengið út frá því að stefnandi hafi fyrst og fremst unnið við ætagerð. Það sé ekki rétt. Starf stefnanda hafi einkum verið fólgið í rannsóknarmælingum, móttöku og afgreiðslu sýna og skráningum á rannsóknarniðurstöðum. Einnig liggi fyrir að matsmenn hafi ekki skoðað það húsnæði sem stefnandi vann í á árunum 1997 til 1999, en í stefnu sé því lýst þannig að vinnurýmið hafi verið gluggalaust og án loftræstingar. Þá sé í matsgerðinni ekki gerður greinarmunur á þeim efnum sem stefnandi hafi unnið með hjá Rf annarsvegar og hjá stefnda Agar ehf. hinsvegar, en óumdeilt sé að unnið hafi verið með mun meira af ætandi efnum hjá Rf þar sem stofnunin hafi bæði séð um efna- og örverumælingar en Agar ehf. hins vegar eingöngu séð um örverumælingar. Enn fremur verði ekki hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við það að húseigandinn Vestri ehf. skuli ekki hafa verið matsþoli í matsmálinu þar sem matið hafi fyrst og fremst snúið að húsnæðinu og búnaði þess, þ.e. loftræstikerfinu. Mjög mikilvægt hefði verið að sjónarmið húseigandans kæmu fram við matið og að skýringar yrðu gefnar af hans hálfu á ýmsum þáttum sem snéru að húsnæðinu og búnaði þess.
Í þessu sambandi áréttar stefnda Agar ehf. að verulegur munur hafi verið á starfstíma, sem og störfum, stefnanda hjá Rf annars vegar og stefnda Agar ehf. hins vegar. Þrátt fyrir þennan mun hafi undirmatsmenn talið að ekki væri hægt að greina í sundur hversu stóran hluta miska og/eða varanlega örorku stefnanda mætti rekja til starfa hennar hjá stefnda annars vegar og Rf hins vegar og þeir því talið rétt að skipta meintu tjóni að jöfnu milli stefndu í máli þessu. Ljóst sé að verulegir ágallar séu á þessari niðurstöðu matsmannanna og vandséð að hún fái staðist enda virðist sem matsmenn gangi út frá þeirri röngu forsendu í matsgerðinni að störf stefnanda hafi að öllu leyti verið sambærileg hjá Rf og stefnda. Af því leiði að fyrrgreind niðurstaða matsmannanna sé röng. Ekki verði því undir nokkrum kringumstæðum byggt á niðurstöðum matsgerðarinnar varðandi skiptingu hins meinta tjóns milli stefndu í málinu.
Þá byggir stefnda Agar ehf. enn fremur á því að við úrlausn málsins verði ekki horft fram hjá eigin sök stefnanda. Fyrir liggi að stefnandi hafði fundið fyrir ákveðnum einkennum í mörg ár áður en hún hóf störf hjá stefnda 2004. Um hafi verið að ræða öndunarfæraeinkenni, höfuðverk og slappleika. Af gögnum málsins virðist sem stefnandi hafi leitað til læknis af þessum sökum þegar á árinu 1997 og síðan nánast á hverju ári fram til ársins 2004. Þrátt fyrir þetta liggi ekki fyrir í gögnum málsins neinar kvartanir af hálfu stefnanda er lúti að vinnustaðnum, ekki varðandi aðbúnað, tæki, eða meðhöndlun efna. Þetta kveður stefnda mjög mikilvægt ekki síst í ljósi þess að stefnandi hafi tengt bágt heilsufar sitt við vinnustaðinn, þar sem stefnandi hafi ætíð sagst hafa verið betri um helgar og þegar hún hafi verið í leyfi. Framangreind sjónarmið um eigin sök stefnanda segir stefnda Agar ehf. bæði eiga við um aðal- og varakröfu félagsins.
Kröfu stefnanda um að stefndu verði dæmd skaðabótaskyld in solidum vegna ætlaðs líkamstjóns stefnanda segir stefnda Agar ehf. ótæka. Ekki verði séð að skilyrði óskiptrar ábyrgðar séu fyrir hendi og ekkert renni stoðum undir slíka kröfu. Hún fái til dæmis ekki stoð í matsgerðinni frá 21. desember 2007, sem sé megingrundvöllur kröfugerðar stefnanda. Verði talið að stefndu séu með einhverjum hætti bótaskyldir gagnvart meintu heilsutjóni stefnanda verði ekki annað séð en taka beri afstöðu til ábyrgðar stefndu innbyrðis og þá eftir atvikum hvort skipta beri ábyrgðinni í hlutföllum milli stefndu að teknu tilliti til eigin sakar stefnanda, enda séu ekki skilyrði fyrir bótaskyldu in solidum. Vísar stefnda í því sambandi meðal annars til þess að öll þau einkenni sem stefnandi vísi til varðandi bágt heilsufar sitt hafi verið til staðar er hún hóf störf hjá stefnda árið 2004.
Að öllu framangreindu virtu telur stefnda Agar ehf. að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt í málinu. Ekki liggi fyrir sök af hálfu stefnda og þá séu með öllu ósönnuð orsakatengsl milli meints heilsutjóns stefnanda og vinnu hennar hjá stefnda á árunum 2004-2006, sérstaklega þegar haft sé í huga að öll þau einkenni sem stefnandi hafi lýst varðandi heilsu sína hafi verið til staðar þegar hún hóf störf hjá stefnda í maí 2004. Bótaábyrgð stefnda Agar ehf. verði ekki byggð á hlutlægum ábyrgðarreglum, enda ekkert í málinu sem bendi til þess að stefnda beri ábyrgð á hinu leigða húsnæði eða búnaði þess. Þá sé með öllu ósannað að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið ófullnægjandi eða að stefnda hafi ekki tryggt öruggt vinnuumhverfi, svo sem varðandi merkingar eða meðhöndlun eiturefna eða notkun persónuhlífa. Þar sem ekki verði séð að fullnægt sé skilyrðum skaðabótaréttarins fyrir kröfum stefnanda beri að sýkna félagið af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Hvað útreikning bótakröfu stefnanda varðar tekur stefnda Agar ehf. sérstaklega fram að félagið telji útreikninginn rangan, bæði hvað varðar bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Þar sem byggt sé á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við störf sín hjá Rf og stefnda Agar ehf. segir stefnda eðlilegt að miða útreikning bóta við starfslok stefnanda hjá stefnda í lok júní 2006. Mat á varanlegum miska stefnanda hljóti að taka mið af ástandi hennar við starfslok og hið sama gildi um útreikning á varanlegri örorku. Í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 50/1993 sé eðlilegt að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku við þrjú síðustu árin fyrir starfslok hennar hjá stefnda Agar ehf., framreiknuð miðað við stöðugleikapunkt.
Þá segir stefnda Agar ehf. upphafstíma vaxta rangan. Ekki verði séð að vexti skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 beri að reikna fyrr en frá og með 1. júlí 2006, þ.e. miðað við starfslok stefnanda hjá stefnda Agar ehf. Enn fremur kveðst stefnda mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda og tekur fram að krafa sú sem hér um ræði hafi fyrst komið fram við birtingu framhaldsstefnu 19. janúar sl. Ekki verði séð að skilyrði séu til að krefjast dráttarvaxta fyrir það tímamark.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda Agar ehf. til áðurgreindra laga og reglugerða. Jafnframt vísar félagið til laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, svo og til laga nr. 24/2006 um faggildingu, sem og laga nr. 46 /1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
V.
A.
Málatilbúnaður stefnanda byggir að miklu leyti á þeim tveimur matsgerðum sem fyrir liggja í málinu. Hvorugt stefndu sá ástæðu til þess, þó svo þeim hefði verið það í lófa lagið, að fara fram á yfirmat eftir að niðurstaða undirmats lá fyrir 21. desember 2007. Stefnandi fór hins vegar fram á dómkvaðningu matsmanna í þinghaldi 3. febrúar 2010 til að framkvæma yfirmat, í fyrsta lagi á því hvenær ekki var að vænta frekari bata hjá henni, í öðru lagi á tímabili þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga, í þriðja lagi á varanlegum miska stefnanda skv. 4. gr. sömu laga og í fjórða lagi á varanlegri örorku hennar skv. 5. gr. laganna. Niðurstaða yfirmatsmanna lá fyrir 6. desember 2010 og hefur stefnda íslenska ríkið vefengt niðurstöðu matsmannanna án þess að leggja fram gögn til stuðnings þeim málatilbúnaði sínum eða færa fyrir honum haldbær rök. Fær dómurinn ekki séð að yfirmatsgerðin sé haldin nokkrum þeim göllum sem réttlætt geta að niðurstöðum hennar verði vikið til hliðar. Samkvæmt því og að öðru framangreindu virtu verður matsgerðin lögð til grundvallar við úrlausn málsins eftir því sem við á.
Hvað undirmatsgerðina varðar þá hafa bæði stefndu haldið því fram að ekki sé á matsgerðinni byggjandi þar sem á henni sé sá alvarlegi galli að hún byggi á þeirri röngu grundvallarforsendu að stefnandi hafi unnið við ætagerð. Verður að skilja málatilbúnað stefnda íslenska ríkisins svo að það telji stefnanda nánast ekkert hafa unnið að ætagerð. Stefnda Agar ehf. gengur ekki svo langt heldur virðist byggja á því að stefnandi hafi eingöngu sinnt þeim starfa í undantekningartilfellum.
Í skýrslutökum fyrir dómi lýsti stefnandi því yfir að hún hefði margoft komið að ætagerð í störfum sínum fyrir bæði stefndu. Sá framburður hennar fékk að mati dómsins styrka stoð í vætti Maríu G. Halldórsdóttur, sem óumdeilt er að hafði stærsta hluta ætagerðarinnar á sinni könnu hjá Rf þar til hún hætti störfum í janúar 2004, í framburði tveggja fyrrverandi forstöðumannanna Rf á Ísafirði, þeirra Kristins Kristinssonar og Karls Rúnars Róbertssonar, og jafnframt í vætti framkvæmdastjóra stefnda Agar ehf. á stafstíma stefnanda, Dóru Hlínar Gísladóttur, sem sagði stefnanda hafa séð um ætagerð hjá félaginu þar til hún hætti störfum. Þó svo stefndu hafi með réttu bent á að í málatilbúnaði stefnanda sé gert full mikið úr störfum hennar við ætagerð hjá Rf, og að þess megi sjá nokkur merki í undirmatsgerðinni, þykir með vætti áðurnefndra vitna allt að einu mega slá því föstu að stefnandi hafi margoft á starfstíma sínum hjá báðum stefndu unnið að ætagerð. Að því virtu verður niðurstöðum undirmatsgerðarinnar ekki vikið til hliðar á þeim grunni sem stefndu hafi krafist samkvæmt áðursögðu.
Aðrir þeir meintu ágallar sem stefndu hafa haldið fram að á matsgerðinni séu varða flestir í raun ályktanir og niðurstöður matsmannanna og hefðu þau atriði því átt að leiða til þess að stefndu færu fram á yfirmat. Það kusu stefndu hins vegar að gera ekki og verða þau að bera hallan af þeirri ákvörðun sinni. Þá fær dómurinn ekki séð að réttlætanlegt sé að víkja matsgerðinni til hliðar þó svo eigandi húsnæðisins við Árnagötu 2-4 hafi ekki verið einn matsþola. Að öllu þessu virtu og þar sem ekki verður séð að á hinni ítarlegu undirmatsgerð séu formgallar, sem áhrif geta haft á gildi hennar, verða niðurstöður matsgerðarinnar lagðar til grundvallar við úrlausn málsins eftir því sem við á.
B.
Upplýst er í málinu með framlagningu læknisfræðilegra gagna að á árunum 1997 til 2000 leitaði stefnandi ítrekað til lækna vegna hósta og öndunareinkenna, og tvisvar árið 2000 vegna langvarandi höfuðverkja og ógleði, án þess að niðurstaða fengist um hvað að henni amaði. Í september 2005 vísaði yfirlæknir Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði stefnanda til Sigurðar Þórs Sigurðarsonar, lungna- og atvinnusjúkdómalæknis, sem greindi hana með astma og ofnæmiskvef. Í læknabréfi Sigurðar Þórs frá 24. október 2005 segir meðal annars að greinileg tenging sé á milli einkenna stefnanda og vinnu. Þá lýsir læknirinn því áliti sínu „... að sagan renni mjög styrkum stoðum undir það að einkennin séu í raun tengd a.m.k. að einhverju leyti vinnustaðnum.“
Í matsgerð undirmatsmanna frá 21. desember 2007 segir meðal annars: „Sambandið milli vinnuaðstæðna matsbeiðanda og núverandi heilsufarseinkenna, það er vægs astmasjúkdóms, langvinnrar nefbólgu, nefkoksbólgu, og kokbólgu, langvinnrar barkakýlisbólgu og barkakýliskrampa (truflun á raddböndum), sem hún hefur virðist vera nokkuð skýrt.“ Var það niðurstaða matsmannanna að stefnandi væri haldin atvinnusjúkdómum.
C.
Svo sem áður er rakið gerði Vinnueftirlit ríkisins, við skoðun 14. október 2004, athugasemdir við það að starfsmenn á rannsóknarstofunni notuðu ekki persónuhlífar við störf sín. Tvær aðrar athugsemdir voru gerðar af hálfu Vinnueftirlitsins við sama tækifæri og vörðuðu þær báðar loftræstingu á vinnustaðnum.
Við úrlausn málsins verður ekki fram hjá því áliti undirmatsmanna litið að við útsetningu fyrir sýklaætum, sem voru að þeirra sögn ertandi efni, hafi átt að vinna með öndunargrímu. Af framburði Maríu G. Halldórsdóttur og Karls Rúnars Róbertssonar og að nokkru Dóru Hlínar Gísladóttur, sem og framburði stefnanda sjálfrar, verður ekki séð að persónuhlífar til hlífðar öndunarfærum hafi verið aðgengilegar á vinnustað stefnanda á meðan hún starfaði hjá Rf. Sagðist María ekki hafa notað slíka grímu við sín störf og þá var á henni að skilja að það hefðu aðrir starfsmenn heldur ekki gert. Kristinn Kristinsson bar nokkuð á aðra lund en fyrrnefnd vitni og sagði hann hefðbundnar rykgrímur hafa verið til staðar á lager Rf, en vitnið gat hins vegar ekki borið um það með nokkurri vissu að þær hefðu verið aðgengilegar í vinnurýminu sjálfu. Enn fremur kom fram hjá vitninu að hið almenna vinnulag hefði verið að starfsmenn notuðu ekki slíkar grímur og kvaðst vitnið ekki hafa ýtt þeim að starfsmönnum. Þá liggur fyrir álit Vilhjálms Rafnssonar prófessors, sbr. framburð hans fyrir dómi, þess efnis að persónuhlífar þeirrar gerðar sem fyrrnefndur framkvæmdastjóri Agar ehf. kvaðst fyrir dómi hafa keypt í kjölfar kvartana stefnanda og áðurgreindur forstöðumaður Rf sagði hafa verið til staðar á lager stofnunarinnar á starfstíma hans, hefðu ekki, að virtum vinnuaðstæðum við ætagerð hjá stefndu, veitt fullnægjandi vörn gegn þeim efnum sem notuð voru við ætagerðina.
Í matsgerð undirmatsmanna frá 21. desember 2007 er því slegið föstu að: „Loftræsingu á vinnusvæði matsbeiðanda (stefnanda) var áfátt bæði fyrir og eftir úrbætur á því og skapaði það heilsufarshættu.“ Segir í forsendum matsgerðarinnar að: „Matsmenn telja að loftræsing og staðbundinn útsogsbúnaður hafi ekki verið viðunandi þar sem vigtun og blöndun sýklaæta fór fram. Af þessum sökum hafi vinna matsbeiðanda (stefnanda) við meðhöndlun ertandi efna ekki farið fram við fullnægjandi aðstæður ...“ Þessi niðurstaða matsmannanna fær nokkra stoð í álitsgerð VST ehf. sem er reifuð í kafla I hér að framan, sem og framburði vitnisins Marínós K. Hákonarsonar fyrir dómi. Stefndu hafa ekki hnekkt umræddri niðurstöðu og verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Vegna málatilbúnaðar stefndu skal sérstaklega tekið fram að sú staðreynd að rannsóknarstofa stefndu var faggilt og reglulega tekin út af fulltrúum Löggildingarstofu og starfsmönnum sænsks fyrirtækis, SWEDAC, og að hún stóðst eftirlit þeirra aðila útilokar fráleitt eitt og sér að dómurinn geti komist að þeirri niðurstöðu að vinnuaðstæður og/eða vinnulag á rannsóknarstofunni hafi verið óforsvaranlegt og saknæmt og ólögmætt í skilningi skaðabótaréttar. Þá liggur fyrir að undirmatsmönnum var fullkunnugt um úttektir þessara aðila og er lítillega vikið að þeim í matsgerð þeirra.
Samkvæmt 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal haga vinnu og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í reglum nr. 497/1994, sem settar voru með stoð í 38. gr. laganna, segir í 3. gr. að nota skuli persónuhlífar þegar ekki sé hægt að komast hjá áhættu eða takmarka hana nægilega með tæknilegum ráðum sem veiti almenna vernd eða með ráðstöfunum, aðferðum eða annarri tilhögun við skipulagningu vinnunnar. Þá sagði í 5. gr. reglna nr. 496/1996, sem settar voru með stoð í 38., 39., 50. og 51. gr. áðurnefndra laga, að áður en efni væri tekið í notkun skyldi atvinnurekandi meðal annars ganga úr skugga um að hægt væri að nota efnið þannig að það stofnaði ekki öryggi og heilsu starfsmanna í voða. Enn fremur sagði í 8. gr. reglnanna að starfsmenn skyldu fá og nota nauðsynlegan hlífðarbúnað ef ekki væri hægt á annan hátt að skipuleggja vinnu með efni þannig að fyllsta öryggis væri gætt og komið í veg fyrir hættu á heilsutjóni. Er í reglum nr. 553/2004 að finna efnislega sambærileg ákvæði.
Við mat á mögulegu saknæmi þess vinnufyrirkomulags stefndu að láta starfsmenn vinna án persónuhlífa fyrir öndunarfæri við ætagerð þykir verða að líta til tilvitnaðra ákvæða hér að framan. Að fyrirmælum ákvæðanna og öðru framangreindu heildstætt virtu er það álit dómsins að vinnuaðstæður stefnanda við ætagerð, sem sannað þykir með framburðum vitna samkvæmt framansögðu að stefnandi hafi sinnt í nokkrum mæli í störfum sínum hjá stefndu báðum, hafi ekki verið forsvaranlegar. Með því að láta stefnanda vinna við ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri, eða eftir atvikum á hluta starfstíma stefnanda hjá stefnda Agar ehf., án fullnægjandi persónuhlífa, í húsnæði sem ekki var nægjanlega vel lofræst, sýndu stefndu bæði af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í skilningi skaðabótaréttar.
D.
Í matsgerðinni frá 21. desember 2007 kemur skýrlega fram sú niðurstaða matsmannanna að umrædd veikindi stefnanda megi rekja til starfa hennar hjá báðum stefndu, sbr. eftirfarandi umæli í matsgerðinni: „... telja matsmenn að matsbeiðandi (stefnandi) hafi fengið atvinnusjúkdóm ... af vinnu og vinnuaðstæðum á Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins og Agar ehf., sem staðsett var í húsinu Árnagötu 2-4 á Ísafirði ...“. Töldu undirmatsmenn að 50% miska og örorku stefnanda mætti rekja til starfa hennar hjá hvorum stefndu fyrir sig.
Í matsgerð yfirmatsmanna frá 6. desember 2010 segir meðal annars svo: „Yfirmatsmenn telja að yfirmatsbeiðandi hafi dæmigerð einkenni um RADS og hvellpósitivt metakólin próf við 4 mg/ml við nýlega mælingu. Meiri líkur en minni eru á því að um atvinnutengda orsök sé að ræða. Enginn annar sjúkdómur kemur fram sem líklegt er að skýri einkennin og það er engin reykingasaga. ... Dró úr hluta einkenna hennar eftir að hún hætti, m.a. höfuðverkja, en önnur einkenni teljast varanleg.“
Að mati dómsins verður að telja framangreinda niðurstöðu undirmatsmanna, sem nokkurn stuðning fær í fyrrnefndu læknabréfi Sigurðar Þórs Sigurðarsonar frá 24. október 2005 og tilvitnuðum ummælum í yfirmatsgerð, leiða nægar líkur að því að veikindi stefnanda, sbr. kafla B hér að framan, megi rekja til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefndu sem áður var lýst, sbr. kafla C.
E.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefndu bæði beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda. Það er meginregla í skaðabótarétti að í slíkum tilvikum beri hinir skaðabótaskyldu óskipta ábyrgð gagnvart tjónþola. Að mati dómsins hefur ekkert það fram komið í málinu sem réttlætt getur að vikið verði frá þessari meginreglu. Skal sérstaklega tekið fram að sú niðurstaða undirmatsmanna að stefndu beri hvort um sig ábyrgð á 50% hluta tjóns stefnanda getur ekki svipt stefnanda því hagræði sem nefnd meginregla færir henni. Nefnd afstaða matsmannanna getur hins vegar haft áhrif á niðurstöðu máls milli stefndu, og eftir atvikum annarra mögulegra tjónvalda, komi til slíks málareksturs, um skiptingu greiðslu skaðabótanna þeirra á milli.
F.
Stefndu byggja á því að fella eigi niður, eða eftir atvikum lækka, bætur úr þeirra hendi til stefnanda vegna eigin sakar hennar. Í því sambandi telur dómurinn hins vegar ekki verða fram hjá því litið að þó svo stefnandi hafi um nokkurra ára skeið tengt veikindi sín við vinnustaðinn fékk það ekki undirtektir hjá þeim læknum sem hún sannanlega leitaði til fyrr en á haustmánuðunum 2005, eða nokkrum mánuðum áður en stefnanda var sagt upp störfum hjá Agar ehf. og löngu eftir að Rf hætti rekstri rannsóknarstofunnar. Að þessu virtu og þar sem stefnandi verður ekki talin hafa haft sérfræðiþekkingu á efnum þeim sem hún vann með verður ekki talið að hún hafi sýnt af sér gáleysi.
Tilvísanir stefnda íslenska ríkisins til réttarreglna um samþykki og áhættutöku, sem og meints tómlætis stefnanda, eru ekki sérstaklega rökstuddar eða skýrðar. Er málatilbúnaður stefnda því hvað þetta varðar svo vanreifaður að þegar af þeirri ástæðu verður ekki á honum byggt í málinu.
G.
Hvað bætur fyrir varanlega örorku varðar miðar stefnandi í kröfugerð sinni réttilega við meðalatvinnutekjur sínar að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar sem ekki er um eiginlegan tjónsdag að ræða í tilviki stefnanda þykir verða að miða við þann dag sem hún lét af störfum hjá stefnda Agar ehf., en þann dag lauk hinu saknæma og ólögmæta ástandi gagnvart henni.
Viðmiðunartekjur stefnanda samkvæmt ofansögðu voru 3.816.693 krónur. Stefnandi var 61 árs og 110 daga gömul á stöðugleikapunkti og er því stuðullinn 4,581-0,110, eða 4,468. Bætur henni til handa vegna varanlegrar örorku reiknast því þannig: 3.816.693 x 6% x 4,468 x 20% (sbr. niðurstöðu yfirmatsmanna) = 3.629.015 krónur. Endanlegar dómkröfur stefnanda hvað þetta varðar eru eilítið lægri, eða 3.615.232 krónur, sbr. og framhaldsstefnu í málinu, og verður að telja dóminn bundinn af þeirri fjárhæð.
Yfirmatsmenn mátu varanlegan miska stefnanda 25%. Samkvæmt því og fyrirmælum 4., 9. og 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykja bætur henni til handa vegna varanlegs miska réttilega reiknaðar svo, en vístölur þær sem notaðar eru við útreikninginn eru ágreiningslausar með aðilum: 40.000 x 253/365 = 27.726 krónur 3.547.726 krónur 3.547.726 x7217/3282 = 7.801.322 x 25% = 1.950.330 1.950.500 krónur.
Óumdeilt er í málinu að frá bótum stefnanda samkvæmt framansögðu skuli draga 2.695.000 krónur, þ.e. útreiknað eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Almannatryggingum og úr lífeyrissjóðum, sbr. ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eins og það ákvæði hljóðaði fyrir lagabreytingu sem gerð var árið 2009.
Samkvæmt niðurstöðu dómsins hér að framan telst réttur upphafsdagur vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af bótum vegna varanlegs miska vera 1. júlí 2006. Þá telst upphafsdagur vaxta samkvæmt nefndri grein af bótum vegna varanlegrar örorku vera 1. júlí 2007, sbr. 5. gr. skaðabótalaga. Vextir samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda í málinu geta ekki að nokkru leyti talist fyrndir, enda rauf stefnandi fyrningu vaxtakröfunnar með birtingu stefnu í máli þessu á haustmánuðum 2009.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá og með 6. apríl 2008, en óumdeilt er í málinu að þann dag hafi verið liðnir 30 dagar frá því að stefnandi krafði stefndu skriflega um bætur vegna sjúkdóms sem rekja mætti til vinnustaðar hennar. Þó svo stefndu hafi réttilega á það bent að kröfugerð sú sem fram kemur í nefndu bréfi sé um margt frábrugðin kröfugerð stefnanda hér fyrir dómi verður ekki fram hjá því litið að í bréfinu eru stefndu meðal annars krafin um bætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk vaxta og kostnaðar, en stefndu hafa nú verið dæmd til að greiða stefnanda slíkar bætur. Kröfubréf stefnanda byggði meðal annars á títtnefndri undirmatsgerð. Reyndu stefndu hvorki að hnekkja matsgerðinni né greiddu þau stefnanda nokkrar bætur. Að öllum þessum atriðum virtum og með vísan til 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður fallist á það með stefnanda að henni beri dráttarvextir af höfuðstól dómkröfu sinnar frá 6. apríl 2008.
Samkvæmt framangreindum niðurstöðum dómsins og kröfugerð málsaðila eru ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að hér að framan.
Að ágreiningi málsaðila og atvikum öllum virtum, sem og því að stefnandi lækkaði fjárkröfur sínar verulega undir rekstri málsins eftir að stefndu höfðu skilað greinargerðum sínum vegna framhaldsstefnu, þykir rétt að láta hvern málsaðila bera sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnanda var veitt ótakmörkuð gjafsókn til reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins 23. desember 2010. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Magnúsar H. Magnússonar hdl., 1.430.700 krónur, og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, íslenska ríkið og Agar ehf., greiði stefnanda, Halldóru Jóhannsdóttur, óskipt 5.565.732 krónur, auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.950.500 krónum frá 1. júlí 2006 til 1. júlí 2007 en af 5.565.732 krónum frá þeim degi til 6. apríl 2008 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.565.732 krónum frá 6. apríl 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.695.000 krónum sem dragist frá kröfunni hinn 1. júlí 2007.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings-þóknun lögmanns hennar, Magnúsar H. Magnússonar hdl., 1.430.700 krónur.