Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Dánarbú
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júní 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú B yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og dánarbú B tekið til opinberra skipta. Jafnframt er þess krafist að „dæmt verði ellegar lagt fyrir héraðsdómara að dánarbú beggja hjónanna, B og C, ..., verði meðhöndluð sem eitt bú aðallega en til vara er gerð sú krafa að sami skiptastjóri og í dánarbúi C, ..., verði skipaður yfir dánarbúi B.“ Til vara krefst sóknaraðili þess að úrskurður héraðsdómara verði ómerktur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði létust hjónin C og B með fimm daga millibili. C lést 22. desember 2015 en B 27. sama mánaðar. C og B voru barnlaus. Í málinu liggur fyrir erfðaskrá C 30. desember 2014 þar sem fram kemur að falli eiginmaður hennar frá á undan henni eigi allur arfur eftir hana að falla til sóknaraðila, sem var systir C. Þá sagði í erfðaskránni að félli C frá á undan manni sínum ætti allur arfur eftir hana, eftir hans dag, að falla til sóknaraðila eða barna hennar.
Í máli þessu er til úrlausnar krafa sóknaraðila um að dánarbú B verði tekið til opinberra skipta og er það rekið á grundvelli 1. mgr. 120. gr. laga nr. 20/1991. Í slíku máli verða ekki hafðar uppi kröfur um skipti dánarbúsins eða skipti á búi skammlífari maka hans. Þær kröfur sóknaraðila koma því ekki til álita.
Í 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 segir að hafi það hjóna, sem lengur lifir, verið einkalögerfingi þess, sem fyrr lést, og það andast án þess að hafa gengið í hjónaband að nýju eða látið eftir sig arfgenga niðja, skulu eignir þess skiptast milli erfingja beggja hjóna að jöfnu, enda hafi maki ekki ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá á annan hátt.
Við andlát C var B eini lögerfingi hennar og tekur dánarbú hans allan arf eftir hana, sbr. 1. mgr. 3. gr. erfðalaga. Í þeim efnum breytir engu erfðaskrá C, enda átti sóknaraðili ekki að taka arf eftir hana fyrr en að B látnum, félli C frá á undan honum. Aftur á móti tekur sóknaraðili arf samkvæmt erfðaskránni við skipti á dánarbúi B, sbr. 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, og getur hún á þeim grundvelli krafist opinberra skipta dánarbúsins samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Verður sú krafa því tekin til greina.
Varnaraðilum verður óskipt gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Dánarbú B er tekið til opinberra skipta.
Varnaraðilar, D, E, F, G, H, I, Í, J, K, L, M, N, O og Ó, greiði óskipt sóknaraðila, A, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júní 2016.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 2. júní sl., barst dóminum 6. apríl 2016. Sóknaraðili er A, kt. [...], [...], [...].
Varnaraðilar eru D, kt. [...], [...], E, kt. [...], [...], F, kt. [...], [...], G, kt. [...], [...], H, kt. [...], [...], I, kt. [...], [...], Í, kt. [...], [...], J, kt. [...] [...], K, kt. [...], [...], L, kt. [...], [...], M, kt. [...], [...], N, kt. [...], [...], O, kt. [...], [...], og Ó, kt. [...], [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru þær annars vegar að fram fari opinber skipti á dánarbúi B, kt. [...], síðast til heimilis að [...], sem lést þann 27. desember 2015 og hins vegar að það mál verði sameinað máli um opinber skipti á dánarbúi eiginkonu B, C, kt. [...], með skráð lögheimili á sama stað, og að farið verði með þau bú sem eitt dánarbú.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað og þeim gert að greiða varnaraðilum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Var málið þingfest þann 3. maí sl. og fyrirtaka ákveðin þann 9. maí sl. Við þá fyrirtöku lagði lögmaður sóknaraðila fram bókun þar sem m.a. eftirfarandi er tekið fram:
„1. Strangt til tekið er ekkert dánarbú eftir C heitna heldur aðeins dánarbú B heitinn, eiginmanns hennar, sem lést fimm dögum á eftir henni og var einkalögerfingi hennar þannig að 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 (el).
2. Engin beiðni liggur fyrir frá umbjóðanda mínum, A, um opinber skipti á dánarbúin C, systur hennar; í beiðni undirritaðs, dags. 24. mars sl. er þess hins vegar krafist að verði fallist á beiðni lögmanns 14 lögerfingja B, dags. 10. mars sl., um opinber skipti á dánarbúi C þá verði málin sameinuð og farið með bæði dánarbúin sem eitt a.m.k. skipaður einn skiptastjóri. Fyrir því er fordæmi auk þess sem hagkvæmnis- og skilvirknisrök styðja þá niðurstöðu eins og hérgreind efnisrök um a.m.k. jafnan erfðarétt umbjóðanda míns.“
I.
Málsatvik eru þau að hjónin C og B létust með fimm daga millibili. C lést þann 22. desember sl. og B þann 27. desember sl. Áttu hjónin engin sameiginleg börn. Lá fyrir erfðaskrá frá C dagsett 30. desember 2014 þar sem hún ánafnaði systur sinni A allar eigur sínar, falli hún frá á undan eiginmanni sínum B. Þann 1. mars 2016 veitti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu erfingjum B leyfi til einkaskipta. Hefur því leyfi ekki verið hnekkt né hafa erfingjar B farið fram á opinber skipti á því dánarbúi. Þá er skiptum ekki lokið í því búi. Sameiginlegar eignir hjónanna er íbúð að [...] í [...] að fasteignamati 18.000.000 og inneign á bankareikningi að fjárhæð 17.720.643 krónur. Ekki hefur verið sótt um leyfi til einkaskipta í dánarbúi C. Lögmaður sóknaraðila fór fram á það við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu með bréfi dags. 14. mars sl. að einkaskiptaleyfi erfingja B yrði afturkallað eða endurupptaka heimil en því erindi var hafnað með bréfi sýslumannsins dagsettu 29. mars 2016.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á að ágreiningur sé milli erfingja C og B hvort jöfn arfskipti fari fram eða hvort ójöfn skipti fari fram en erfingjar B haldi því fram að þeir eigi arfstilkall í dánarbúi C. Telur sóknaraðili það fara í bága við 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Því sé sóknaraðila nauðsyn að krefjast opinberra skipta til þess að ná fram rétti sínum og verja hagsmuni sína þar sem aðrar og vægari ráðstafanir hafi ekki borið árangur.
III.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Byggja þeir kröfu sína á því að sóknaraðili eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að dánarbú B verði tekið til opinberra skipta en einkaskiptaleyfi hafi þegar verið gefið út til þeirra af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. C hafi látist á undan B og því geti erfingjar B átt arfstilkall í dánarbú C. Sé ágreiningur um það verði að skera úr um það í öðru máli, annað hvort fyrir skiptastjóra, fari svo að bú C verði tekið til opinberra skipta eða fyrir dómstólum, fái sóknaraðili leyfi til einkaskipta. Því eigi sóknaraðili ekki arfstilkall í dánarbú B og geti því ekki krafist þess að dánarbú, sem þegar hafi verið veitt leyfi til einkaskipta, verði tekið til opinberra skipta.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Sóknaraðili í máli þessu byggir kröfu sína um að opinber skipti fari fram á dánarbúi B á því að erfingi C sé einnig erfingi B og að skipta beri búi þeirra sem einni heild. Því sé nauðsynlegt að sami skiptastjóri fari með skiptin. Aðilar áttu ekki sameiginlega niðja.
Eins og máli þessu er háttað hafa erfingjar B fengið leyfi til að skipta dánarbúi hans einkaskiptum samkvæmt 31. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt 38. gr. laganna getur erfingi krafist þess að bú verði tekið til opinberra skipta þrátt fyrir að einkaskiptaleyfi hafi verið veitt áður eða ekki. Ekki er tekið fram í ákvæðinu að aðrir en erfingjar geti, þegar svona stendur á, krafist opinberra skipta á dánarbúi. Í 2. mgr. 40. gr. laganna er heimild fyrir þann sem á gjaldfallna kröfu á hendur dánarbúinu ef viðkomandi getur sýnt fram á að framferði erfingja eða ráðstafanir þeirra á hagsmunum búsins séu með þeim hætti að sérstök hætta sé á að krafan fáist ekki efndir með öðru móti eða að áður hafi verið skorað á erfingja að efna kröfuna og þeim verið veittur sanngjarn frestur til þess í ljósi atvika. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á að framangreind skilyrði séu til staðar hjá sóknaraðila.
Óumdeilt er að erfingjar B séu varnaraðilar í máli þessu og að sóknaraðili sé bréferfingi C skv. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hefur erfðaskráin ekki verið vefengd.
Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að hún eigi arfstilkall til eigna þeirra sem falla til dánarbús B og sé erfingi hans í skilningi erfðalaga né að skilyrði 2. mgr. 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé uppfyllt. Verður kröfu sóknaraðila um að dánarbú B verði tekið til opinberra skipta því hafnað.
Í beiðni sóknaraðila er þess krafist að skipaður verði sami skiptastjóri í búi C og B. Leit dómurinn því svo á í upphafi að í því fælist krafa um að dánarbúi C væri einnig tekið til opinberra skipta. Í þinghaldi þann 9. maí sl. lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann tók skýrt fram að ekkert dánarbú væri eftir C heldur aðeins dánarbú B og ekki væri krafist opinberra skipta á dánarbúi C.
Er kröfugerð sóknaraðila varðandi sameiginlegan skiptastjóra því ósamrýmanleg kröfugerð hans eins og hún er úr garði gerð og er henni vísað frá dómi en dánarbú C hefur ekki verið tekið til opinberra skipta þrátt fyrir að dóminum hafi borist beiðni þess efnis frá erfingjum B. Verður því ekki skipaður skiptastjóri í dánarbúi C í þessu máli. C lét eftir sig bréferfingja þegar hún lést og verður ekki litið á annan hátt á réttarstöðu erfingja hvors hinna látnu en svo að þau hafi heimild til að gera ráðstafanir á dánarbúi hvors um sig eða eftir því sem arfsheimild þeirra segir að lögum.
Með vísan til alls framangreinds ber að hafna kröfu sóknaraðila um að dánarbú B, sem lést 27. desember 2015, verði tekið til opinberra skipta.
Þá er kröfu sóknaraðila um að skipaður verði sameiginlegur skiptastjóri í búi beggja aðila vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., ber sóknaraðila að greiða varnaraðilum málskostnað, með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, A, um að dánarbú B, síðast til heimilis að [...], [...], verði tekið til opinberra skipta, er hafnað.
Kröfu sóknaraðila um að skipaður verði sameiginlegur skiptastjóri í dánarbúi C og B er vísað frá dómi.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, D, E, F, G, H, I, Í, J, K, L, M, N, O og Ó, hverjum um sig 35.000 krónur.