Hæstiréttur íslands

Mál nr. 574/2016

Selló ehf. (Lárus Hinriksson fyrirsvarsmaður) og Lárus Hinriksson (sjálfur)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnsök
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

S ehf. og L kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem gagnsök sem þau höfðuðu í máli L hf. á hendur þeim var vísað frá dómi. Við þingfestingu gagnsakar lögðu S ehf. og L fram aðra gagnstefnu en þá sem þau höfðu látið birta fyrir L hf. Hafði gagnsök því ekki réttilega verið höfðuð innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Þá uppfyllti gagnstefnan ekki skilyrði d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa gagnsök S ehf. og L frá héraðsdómi því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2016, þar sem gagnsök er sóknaraðilar höfðuðu í máli varnaraðila á hendur þeim, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess í fyrsta lagi að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsök til efnismeðferðar og í öðru lagi að kröfu varnaraðila í aðalsök verði vísað frá héraðsdómi. Loks krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál varnaraðila gegn sóknaraðilum var þingfest í héraði 26. nóvember 2015 og þá lögð fram stefna og dómskjöl nr. 2 til 32. Sóknaraðilar létu birta varnaraðila gagnstefnu 15. desember sama ár, en er gagnsök skyldi þingfesta 16. janúar 2016 lögðu þeir fram gagnstefnu, sem var annars efnis en sú sem hafði verið birt fyrir varnaraðila. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um þetta atriði, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Selló ehf. og Lárus Hinriksson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur12. júlí 2016

Mál þetta, var höfðað 11. nóvember 2015. Stefnandi er Landsbankinn hf. kt. [...], Austurstræti 11, 155 Reykjavík. Stefndu eru Selló ehf., kt. [...], Gránufélagsgötu 31, 600 Akureyri og Lárus Hinriksson, kt. [...], Gránufélagsgötu 31, 600 Akureyri, f. h. félagsins og persónulega.

Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhluta stefnda Selló ehf. í fasteigninni að Gránufélagsgötu 10, fnr. 214-8927, Akureyri, samkvæmt

a)       tryggingabréfi nr. 0162-63-2331, útg. 06.09.2005, upphaflega að fjárhæð 8.200.000 krónur miðað við grunnvísitölu 243,2 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs og

b)       tryggingabréfi nr. 0162-63-620205, útg. 24.04.2006, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur miðað við grunnvísitölu 252,3 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs og

c)       tryggingabréfi nr. 0162-63-620556, útg. 22.11.2006, upphaflega að fjárhæð 7.000.000 krónur, óverðtryggt, og

d)       tryggingabréfi nr. 0162-63-620815, útg. 15.05.2007, upphaflega að fjárhæð 8.000.000 krónur miðað við grunnvísitölu 268,7 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs,

sett til tryggingar skuldum og fjárskuldbindum, útgefanda þeirra, Kraga ehf., kt. [...], við stefnanda, samkvæmt skuldabréfi nr. 0162-74-621085, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 0162-26-5690, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 0162-26-6090, samkvæmt bankaábyrgð GI0100003731, útg. 16.04.2008 og samkvæmt lánssamningi nr. 8704, útg. 18.07.2007.

Jafnframt gerir stefnandi þær dómkröfur að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefnda, Lárusar Hinrikssonar í fasteigninni að Gránufélagsgötu 31, fnr. 226-3389, Akureyri samkvæmt,

e)       tryggingabréfi nr. 0162-63-2382, útg. 09.12.2005, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna, óverðtryggt, sett til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum Kraga ehf. kt. [...], við stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0162-74-621085, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 0162-26-5690, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 016-26-6090, samkvæmt bankaábyrgð GI0100003731, útg. 16.04.2008 og samkvæmt lánssamningi nr. 8704, útg. 18.074.2007.

Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Í greinargerð stefndu um aðalsök sem lögð var fram þann 10. mars 2016, er gerð krafa um sýknu af kröfum stefnanda. Þá er gerð sú krafa að gagnsök sé sameinuð aðalsök „og þessari greinargerð sem er samliggjandi gagnstefnu sem lögð var fram 14. janúar 2016.“ Þá gerir hvor stefndi fyrir sig kröfu um málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk þess sem stefndi Lárus gerir kröfu um að virðisaukaskatti verði bætt við málskostnað ef við eigi.

Stefndu, Selló ehf. og Lárus Hinriksson List lögðu fram gagnstefnu í málinu þann 14. janúar 2016. Í gagnstefnu gerir hvor um sig þá kröfu að vera sýkn af kröfum gagnstefnda, Landsbankans hf.

Þá gera gagnstefnendur þá gagnkröfu að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnendum skaða- og miskabætur, samtals 148.000.000 króna, eða að mati dómsins hámarks bætur, samkvæmt rökum og lögum sem nánar eru rakin í gagnstefnu.

Einnig er gerð sú krafa í gagnstefnu að gagnstefnandi, Selló ehf., fái endurgreidda þá fjárhæð „sem tekin var af sölu eignarinnar að Munkaþverárstræti 11 bls. 17 og 18, auk vaxta til greiðsludags.“

Gagnstefnendur lögðu fram viðauka við gagnstefnu þann 10. mars 2016. Þar er gerð sú krafa „að gagnstefndu greiði samkvæmt dómi Héraðsdóms N.E. Bls. 9-11 Dæmd Málsvarnar laun til stefnanda Selló ehf. Kr. 525þús auk vaxta til greiðsludags.“

Þá gerir hvor gagnstefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og gagnstefnandi Lárus gerir ennfremur kröfu um að virðisaukaskatti verði bætt við málskostnað.

Í greinargerð gagnstefnda, Landsbankans hf. er aðallega gerð sú krafa að kröfum gagnstefnenda í gagnstefnu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnenda og í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi gagnstefnenda að teknu tilliti til virðisaukaskattskyldu lögmanna.

Við fyrirtöku málsins þann 25. maí sl. var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram um frávísunarkröfur gagnstefnda. Við munnlegan málflutning komu fram kröfur gagnstefnenda um frávísun aðalkröfu auk þess sem þess var krafist að frávísunarkröfum gagnstefnda væri hrundið. Að undangengnum munnlegum málflutningi þann 27. júní sl. var málið tekið til úrskurðar.

I

Gagnstefndi byggir kröfu sína um frávísun gagnstefnu í fyrsta lagi á því að frestur sá sem 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 áskilur til málshöfðunar, hafi verið liðinn þegar óbirt gagnstefna hafi verið lögð fram í dómi þann 14. janúar 2016. Ekki hafi verið lögð fram sama gagnstefna og birt var fyrir gagnstefnda þann 15. desember 2015 og ekki væru gerðar sömu kröfur í þeim gagnstefnum.

Í öðru lagi byggir gagnstefndi á því að málatilbúnaður gagnstefnanda uppfylli alls ekki áskilnað stafliða d. og e. í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Þannig sé sýknukrafa í gagnstefnu óviðeigandi, kröfur um skaðabætur og miskabætur lítt eða ekki rökstuddar og engum eiginlegum gögnum studdar auk þess sem ekki sé tiltekin fjárhæð sem endurgreiðslu sé krafist á. Þá ægi öllu saman í umfjöllun um málsatvik og málsástæður í löngu máli, sem og skriflegum málflutningi, enda sé gagnstefnan 17 blaðsíður að lengd.

II

Stefndu í aðalsök telja að málinu hafi ekki verið stefnt inn á rétt varnarþing. Stefndu eigi lögheimili á Akureyri og ekki hafi verið um það samið sbr. ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að málið væri tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og þar af leiðandi beri að vísa aðalsök frá dómi. Einnig eigi við ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála þar sem krafa stefnenda sé öfugsnúin og megi líkja því við að fá mann dæmdan fyrir morð en það eigi eftir að sanna að einhver hafi verið myrtur. Algerlega sé ósannað að aðalstefndu séu í skuld við aðalstefnanda og því beri að vísa málinu frá dómi.

Gagnstefnendur gera jafnframt þá kröfu að hafnað verði frávísun gagnstefnu frá dómi. Gagnstefna hafi verið birt fyrir gagnstefnda með því að lögmaðurinn Ólafur Rúnar Ólafsson hrl. hafi undirritað hana þann 15. desember 2015. Hafi gagnstefnendur átt von á því að sá lögmaður yrði viðstaddur við þingfestingu gagnstefnunnar þann 14. janúar 2016 eða Bjarni Þór Óskarsson hrl. Hvorugur hafi hins vegar verið viðstaddur en annar lögmaður hafi mætt fyrir hönd gagnstefnda og auk þess aðstoðarmaður dómara. Hafi gagnstefnan verið móttekin af þeim athugasemdalaust og eigi því við ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála. Viðkomandi aðilar hefðu átt að gera athugasemdir strax við þingfestingu gagnstefnunnar, eins og fram komi í 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Það hafi aðstoðarmaður dómara ekki gert og ekki lögmaður gagnstefnda og því hafi gagnstefnendur talið að samkomulag væri um framlagningu gagnstefnunnar skv. 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um frávísun málsins sem fyrst hafi komið fram þann 7. apríl 2016, hafi þannig verið of seint fram komin og sé vanreifuð. Sérstaklega beri að horfa til þess að gagnstefnandi Lárus sé ólöglærður og því hafi verið enn ríkari krafa skv. 4. mgr. 104. gr. laga um meðferð einkamála að upplýsa gagnstefnanda um formhlið málsins við þingfestingu gagnstefnunnar.

Gagnstefnendur telja jafnframt að ekki sé um tvær gagnstefnur að ræða þótt orðalag þeirra sé ekki nákvæmlega það sama. Sömu rök og gögn væru að baki báðum gagnstefnum.

Gagnstefnendur telja einnig að ekki sé óviðeigandi að geta í gagnstefnu að gagnstefnendur krefjist þess að vera sýknir af aðalsök. Einnig komi skýrt fram í dómkröfu gagnstefnu að krafist sé 148.000.000 króna í bætur og liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum sú krafa sé gerð og að sú krafa tengist aðalsök málsins og megi tala um „síamstvíbura“ í því sambandi.

III

Fram kom í munnlegum málflutningi hjá stefndu í aðalsök, að málinu sé ekki stefnt inn á rétt varnarþing.

Í ákvæðum þeirra tryggingabréfa sem um getur í kröfu stefnanda er kveðið á um að rísi mál út af skuld eða veðsetningu bréfanna, megi reka þau mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndu mættu við þingfestingu málsins í Héraðsdóm Reykjavíkur þann 26. nóvember 2015, án athugasemda um varnarþing og lögðu síðar fram greinargerð um aðalkröfu auk þess að gagnstefna í málinu. Málið telst því rekið fyrir réttu varnarþingi.

Aðalstefndu telja jafnframt ósannað að þeir séu í einhverri skuld við stefnanda og því beri að vísa málinu frá dómi skv. 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála.

Í málinu er ekki gerð fjárkrafa á hendur aðalstefndu, heldur er gerð krafa um að stefnanda verði fyrir dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt nánar tiltekinna tryggingarbréfa áhvílandi á fasteignum stefndu. Er því ekki fallist á frávísun málsins á framangreindum forsendum um að réttindi eða skyldur séu enn ekki orðin til.

Gagnstefndi telur að gagnstefna sú sem þingfest var þann 14. janúar 2016, hafi komið of seint fram. Ekki hafi verið um sömu gagnstefnu að ræða og birt var honum þann 15. desember 2015 og því hafi gagnsök ekki verið höfðuð innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Gagnstefndi lagði fram afrit þeirrar gagnstefnu sem birt var, sbr. dskj. nr. 79. Fallist er á það með gagnstefnda að ekki er um sömu gagnstefnu að ræða. Þá liggur ekki fyrir að gagnstefnan sem þingfest var 14. janúar 2016 hafi verið birt fyrir gagnstefnda.

Í gagnkröfu gagnstefnenda sem lögð var fram þann 10. mars 2016, sem viðauki við fyrri gagnstefnu, sbr. dskj. nr. 77, virðist krafist dóms um málsvarnarlaun sem ákveðin voru í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, í máli nr. Y-4/2012 og kveðinn var upp þann 14. október 2015.

Ekki liggur fyrir í málinu að samkomulag hafi verið gert um framlagningu gagnkrafna á þann hátt sem gert var. Ekki er fallist á það með gagnstefnendum að þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir í þinghaldi þann 14. janúar 2016, hafi gagnstefnendur mátt líta svo á að sátt væri um framlagningu hennar og að mótmæli af hálfu gagnstefnda eftir það hafi verið of seint fram komin. Gagnstefndi fékk frest til framlagningar greinargerðar. Í greinargerð hans kom fram krafa um frávísun gagnkrafna og því komu málsástæður og mótmæli fram jafnskjótt og tilefni var til, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála.

Með vísan til framangreinds var gagnsök sú sem þingfest var þann 14. janúar 2016, og gagnsök í viðauka þann 10. mars 2016, ekki höfðuð innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa gagnkröfum gagnstefnenda frá dómi.

Gagnstefndi telur jafnframt að gagnkröfur uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, einkum d. og e. liða. Í gagnstefnu er krafist bæði skaða- og miskabóta. Ekki liggur fyrir sundurliðun á fjárhæðum milli skaðabótakröfu annars vegar og miskabótakröfu hins vegar. Ekki liggur fyrir hvort gagnstefndu krefjist hvor um sig þeirrar fjárhæðar sem um getur í kröfunni eða þá hvernig sú fjárhæð eigi að skiptast milli aðila yrði hún dæmd. Um þá gagnkröfu stefnanda er varðar eignina að Munkaþverárstræti 11 er ekki getið um hvaða fjárhæðar er krafist endurgreiðslu á og jafnframt er vísað til blaðsíðutals án nánari skýringar. Þá er gerð krafa um vexti án þess að geta af hvaða fjárhæðum er krafist vaxta af eða upphafsdags þeirra.

Gagnstefnendur nutu leiðbeiningarskyldu. Að mati dómsins er framangreind kröfugerð gagnstefnenda það óákveðin að hún uppfyllir ekki ákvæði d.liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í gagnstefnu málsins eru jafnframt óþarfa málalengingar sem valda því að óljóst er á hvaða málsástæðum gagnstefnendur byggja málsókn sína þannig að samhengi málsástæðan sé ljóst og í reynd er um skriflegan málflutning að ræða. Uppfyllir gagnstefnan því að mati dómsins ekki ákvæði e.liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til framangreinds er gagnkröfum gagnstefnenda sem fram koma í gagnstefnu sem þingfest var þann 14. janúar 2016, sbr. dskj. nr. 33 og í viðauka við gagnstefnu í dskj. nr. 77, sem lagt var fram þann 10. mars 2016, vísað frá dómi.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna frávísunarkrafna bíði efnisdóms í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Vísað er frá dómi gagnkröfum gagnstefnenda í máli þessu.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.