Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. desember 2001.

Nr. 264/2001:

Ragnar Þór Ólason

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

Pétri Jónssyni ehf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Sjómenn. Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting.

Sjómaðurinn R slasaðist við vinnu sína um borð í togaranum Pétri Jónssyni RE-69. Mjög slæmt veður var þegar slysið átti sér stað, og fór vindhraðinn, þegar slysið varð, allt upp í 12 stig. Hafði skipstjóri frestað því að láta trollið fara í sjó aftur eftir síðasta hal vegna veðurs. Skipstjóri tók síðan ákvörðun um að láta trollið fara. Slysið varð með þeim hætti að svokallaður grandari festist uppi á seiðaskilju, sem var bundin upp neðan í efra þilfar skipsins. R hljóp þá yfir þilfarið og hugðist komast undir grandarann til þess að geta spyrnt í hann þannig að hann losnaði ofan af seiðaskiljunni. Þegar R var undir grandaranum slitnaði seiðaskiljan niður og skall grandarinn á bak og háls R sem féll við það og keyrðist niður á dekkið. Talið var að slysið mætti fyrir og fremst rekja til þeirrar háttsemi skipstjóra að hefja veiðar á ný þrátt fyrir vonskuveður, svo og til ófullnægjandi verkstjórnar við þær aðstæður. Á hinn bóginn var talið að R, sem var þaulvanur sjómaður, hafi hlotið að vera ljóst að sú háttsemi hans, að fara undir strengdan grandara til að komast að til að losa hann, var hættuleg. Hafi enda önnur ráð verið tiltæk til að leysa þann vanda, sem skapaðist við það að grandarinn festist. Var talið hæfilegt að R bæri sjálfur 1/3 hluta tjóns síns, en útgerðarmaður skipsins 2/3. Bætur til R voru ákveðnar miðað við meðaltekjur hans síðustu þrjú ár fyrir slysið, sbr. þágildandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2001. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 12.073.748 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 4. janúar 1998 til 5. janúar 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. ágúst 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, til vara að hún verði lækkuð frá því, sem dæmt var í héraði, en til þrautavara að héraðsdómur verði staðfestur. Vegna aðal- og varakröfu krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en vegna þrautavarakröfu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp af héraðsdómara ásamt tveimur sérfróðum meðdómsmönnum. Með vísan til forsendna hans verður fallist á að slys það, sem aðaláfrýjandi varð fyrir 4. janúar 1998 við vinnu sína um borð í fiskiskipinu Pétri Jónssyni RE 69, verði fyrst og fremst rakið til þeirrar háttsemi skipstjóra að hefja veiðar á ný þrátt fyrir vonskuveður, svo og til ófullnægjandi verkstjórnar við þær aðstæður, og að gagnáfrýjandi beri því fébótaábyrgð á slysinu.

Aðaláfrýjanda, sem var þaulvanur sjómaður, hlaut að vera ljóst að sú háttsemi hans, sem nánar er lýst í héraðsdómi, að fara undir strengdan grandara til að komast að til að losa hann, þar sem hann hafði fest í seiðaskilju á þilfari skipins, var hættuleg. Voru enda önnur ráð tiltæk til að leysa þann vanda, sem skapaðist við það að grandarinn festist. Þykir aðaláfrýjandi því einnig hafa sýnt af sér nokkuð gáleysi. Er að þessu gættu hæfilegt að hann beri sjálfur 1/3 hluta tjóns síns, en gagnáfrýjandi 2/3 hluta.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að við ákvörðun bóta handa aðaláfrýjanda fyrir varanlega örorku verði ekki miðað við tekjur hans á næsta ári fyrir slysdag samkvæmt meginregu þágildandi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, heldur taka þess í stað mið af meðaltekjum þriggja síðustu ára fyrir slysið á grundvelli undantekningarreglu þágildandi 2. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt því miðast árslaun hans við 4.500.000 krónu hámark þágildandi 3. mgr. 7. gr skaðabótalaga.

Við málflutning fyrir Hæstarétti hélt gagnáfrýjandi því fram að sá liður í kröfu aðaláfrýjanda, að leggja missi á 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð við framangreint hámark, væri andstæður áðurnefndri 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Er fallist á það með aðaláfrýjanda að þessi málsástæða sé of seint fram komin og verður krafa hans því tekin til greina að þessu leyti.

Með því að ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu aðaláfrýjanda að öðru leyti en að framan greinir verður hún lögð til grundvallar dómi í málinu. Ekki verður séð af gögnum málsins að aðaláfrýjandi hafi sett fram kröfu um skaðabætur ákveðinnar fjárhæðar fyrr en við höfðun þess, rúmum mánuði eftir dagsetningu matsgerðar um varanlega örorku hans, sem liggur til grundvallar kröfugerðinni. Verða dráttarvextir því ekki dæmdir af kröfu aðaláfrýjanda fyrr en frá 20. nóvember 2000 samkvæmt 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 8.049.165 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Pétur Jónsson ehf., greiði aðaláfrýjanda, Ragnari Þór Ólasyni, 8.049.165 krónur með 2% ársvöxtum frá 4. janúar 1998 til 20. nóvember 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2001.

I

Mál þetta sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 18. maí 2001 var höfðað með stefnu birtri 20. nóvember 2000 af Ragnari Þór Ólasyni, kt. 070662-5909, Nesvegi 59, Reykjavík, á hendur Pétri Jónssyni ehf. kt. 461097-2519, Dalvegi 26, Kópavogi, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 12.073.748.- með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá slysdegi 4. janúar 1998 til 5. janúar 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist að vöxtum verði bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti.  Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjaldskrá að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

II

Málavextir eru þeir að þann 4. janúar 1998 slasaðist stefnandi við vinnu sína um borð í togaranum Pétri Jónssyni RE-69 þegar skipið var á rækjuveiðum norðvestur af Straumnesi.  Mjög slæmt veður var þegar slysið átti sér stað, og af gögnum málsins verður ráðið að vindhraðinn hafi, þegar slysið varð, farið allt upp í 12 vindstig.  Hafði skipstjóri frestað því að láta trollið fara í sjó aftur eftir síðasta hal vegna veðurs.  Voru þeir sex skipverjar sem á vakt voru allir neðan þilja að ganga frá aflanum úr síðasta hali.  Skipstjóri tók síðan ákvörðun um að láta trollið fara,  þrátt fyrir veðrið og kallaði mannskapinn á þilfar.  Fjórir menn fóru upp til að vinna verkið en tveir héldu áfram vinnu sinni neðan þilja.  Sjálfur var skipstjóri í brúnni ásamt bátsmanni og var enginn yfirmanna skipsins á þilfari við verkstjórn.

Slysið varð með þeim hætti að þegar verið var að láta trollið fara voru svokölluð ross óklár og þurfti að greiða úr þeim og var notaður til þess svokallaður loftgils.  Var híft í grandara með loftgilsinum, en grandararnir eru festir við rossin.  Hafði loftgilsinn verið losaður af grandaranum þegar grandarinn festist upp á seiðaskilju, sem var bundin upp neðan í efra þilfar skipsins, svokallaðan bílskúr, sem liggur undir brú skipsins.  Stefnandi hljóp þá yfir þilfarið og hugðist komast undir grandarann til þess að geta spyrnt í hann hinum megin frá þannig að hann losnaði ofan af seiðaskiljunni.  Þegar stefnandi var undir grandaranum slitnaði seiðaskiljan niður og skall grandarinn á bak og háls stefnanda sem féll við það og keyrðist niður í dekkið.

Samkvæmt gögnum málsins mun stefnandi hafa misst meðvitund í 1-2 mínútur við slysið.  Hann hafi fundið fyrir höfuðverk og verkjum í hálsi og yfir brjóstkassanum.  Þá hafi hann fundið fyrir verkjum niður í mjóbakið og út í rasskinnar auk þess sem hnéð hafði læst hægra megin.  Stefnandi var frá vinnu í átta daga á skipinu þar til hann var fluttur í land á Ísafirði þar sem hann fór í rannsókn á sjúkrahúsið.  Kom ekkert brot fram og var hann sendur þaðan án nokkurrar meðferðar.  Stefnandi var síðan veðurtepptur á Ísafirði í nokkra daga en kom til Reykjavíkur 15. janúar 1998.  Hann var síðan skoðaður af heimilislækni sínum daginn eftir, eða þann 16. janúar 1998.  Stefnandi var frá vinnu fram til 26. mars 1998 en þá fór hann aftur til sjós.  Hann gafst endanlega upp á sjómennsku í júlí sama ár vegna afleiðinga slyssins.

Sigurjón Sigurðsson læknir mat afleiðingar slyssins fyrir stefnanda og er matsgerð hans dagsett 16. október 2000.  Í niðurstöðu matsgerðarinnar kemur fram að stefnandi hafi vegna slyssins misst meðvitund í smá tíma, hann hafi fengið áverka á hægra hné sem læstist og síðar hafi komið í ljós að liðþófi hafi rifnað og læst hnénu.  Hann hafi fengið slynk á brjóstkassa og bak en hafi jafnað sig þar.  Hann hafi orðið að hætta sjómennsku þar sem hann hafi ekki þolað veltinginn vegna verkja í hálsi og höfuðverks.  Hann hvílist illa og sofi illa og hafi stöðug einkenni sem ekkert hafi batnað nú í lengri tíma.  Það sé því tímabært að meta afleiðingar slyssins.  Er niðurstaða læknisins að tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga teljist vera 100% frá 4. janúar 1998 til 26. mars 1998.  Tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga teljist vera sex mánuðir þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í átta daga, en telja verði að þegar stefnandi var úti á sjó eftir slysið frá 4. janúar 1998 til 12. janúar 1998 til rúmlegu, því þann tíma hafi hann verið algerlega bundinn við rúmið.  Þá sé varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga 20% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna 25%. 

Sjópróf var haldið þann 24. maí 2000 og fram haldið þann 26. júní 2000.  Voru þá teknar skýrslur af skipstjóranum Bjarna Halldóri Bergmann Sveinssyni og vitnunum Þórhalli Bergþórssyni, Elmari Sigurðssyni og Þóri Árnasyni. Þá var tekin skýrsla af stefnanda sem einnig gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Við aðalmeðferð málsins var lögð fram ódagsett og óundirrituð skýrsla Sjóslysanefndar.  Kemur fram í niðurstöðum nefndarinnar að koma hefði mátt í veg fyrir umrætt slys ef tekið hefði verið tillit til aðstæðna og átakið á vírnum minnkað áður en farið var að honum.  Taldi nefndin að varast bæri að fara undir strengdan vír ef minnsta hætta væri á að hann geti skroppið til.  Vildi nefndin vekja athygli á því að ekki virðist hafa verið viðunandi verkstjórn á þilfari þar sem enginn ákveðinn skipverji hafði þann starfa að segja stjórnanda vindunnar til við hífingu. Var verið að hífa búnað veiðarfæris til að greiða úr flækju á því svæði á skipinu þar sem stjórnandi vindunnar hafði ekki yfirsýn yfir og því allar aðgerðir hans varhugaverðar með hliðsjón af öryggi skipverja sem unnu á þilfarinu.

Þá tekur nefndin fram að sjómenn þurfi einnig að íhuga það mjög vel, ef þeir hyggist “redda” málum af eigin frumkvæði og verði síðan fyrir slysi, að þeir séu með stóran hluta ábyrgðarinnar á eigin herðum.  Ábyrgð þeirra verði önnur ef þeim er sagt af yfirmanni að framkvæma verkið.  Þá gerir nefndin athugasemdir við þann drátt sem varð á rannsókn slyssins sem sé á ábyrgð skipstjórnarmanns.

Eins og fram kemur í málatilbúnaði stefnanda telur hann skipstjórann á togaranum bera ábyrgð á slysinu en því er andmælt af hálfu stefnda og því haldið fram að stefnandi beri ábyrgð á því sjálfur.  Er því deilt um það í málinu hvort stefnda beri að bæta stefnanda það tjón sem hann hefur óumdeilanlega orðið fyrir vegna slyssins en ekki er ágreiningur um örorkumat eða útreikning tjóns að öðru leyti en því að stefndi mótmælir viðmiðunartekjum árslauna sem stefnandi leggur til grundvallar útreikningi kröfu um varanlega örorku.

III

Stefnandi styður kröfur sínar um skaðabætur úr hendi stefnda þeim rökum að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum bótaskyldra mistaka starfsmanna sinna á grundvelli reglunnar um vinnuveitendaábyrgð.  Það hafi verið óforsvaranlegt af skipstjóra Péturs Jónssonar RE-69 að láta trollið fara við aðstæður eins og þær voru umrætt sinn. Veður hafi verið svo vont að skipstjóri hafi frestað því að láta trollið fara í þrjár klukkustundir vegna veðurs og hljóti hann því að hafa álitið að hættulegt hafi verið að vinna á þilfari skipsins við slíkar aðstæður.  Veðrið hafi ekki verið neitt skárra þegar hann síðan ákvað að kalla skipverja á þilfar.  Þá hafi aðeins verið fjórir menn í stað sex sem venja sé, þar sem tveir hafi verið að ganga frá afla úr síðasta hali.  Þau vinnubrögð að binda seiðaskiljuna upp undir efra þilfar hafi verið óforsvaranleg og skapað hættu eins og í ljós hafi komið, enda hafi þeim vinnubrögðum verið breytt eftir slysið.  Almennt hafi verið um ófullnægjandi verkstjórn af hálfu skipstjórans að ræða.  Sjónvarpsvélar hafi ekki verið stilltar á þann stað þar sem mannskapurinn var að vinna heldur á togvindur.

Þá kveðst stefnandi telja að afleiðingar slyssins hafi orðið verri við það að ekki var farið strax með hann í land, heldur átta dögum síðar. Skipstjóri hafi haft hagsmuni útgerðarinnar í fyrirrúmi þegar hann hafi látið trollið fara. Telur stefnandi að óþarft hafi verið að sækja svo stíft að líf og limir manna hafi verið í hættu.  Skipið hafi haft ákveðinn kvóta og nægan tíma til þess að veiða hann þótt ekki væri verið að veiðum í vitlausu veðri. Koma hefði mátt í veg fyrir slysið með því að vera ekki að veiðum í svo vondu veðri en ekki sé hætta á að slíkt atvik komi fyrir nema í mjög slæmu veðri.

Stefnandi kveðst byggja fjárkröfu sína á örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis sem metið hafi afleiðingar slyssins fyrir stefnanda samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga.  Samkvæmt niðurstöðu matsins hafi tímabundið atvinnutjón verið 100% frá 4. janúar til 26. mars 1998.  Stefnandi hafi verið rúmfastur í átta daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 6 mánuði.  Hafi læknirinn metið varanlegan miska stefnanda 20% en varanlega örorku hans 25%. Við útreikning á kröfu stefnanda sé miðað við meðaltekjur stefnanda árin 1995 og 1996.  Það sé gert vegna þess að á árinu 1997, síðustu tólf mánuði fyrir slysið, hafi tekjur hans verið óvenju lágar þar sem hann hafi unnið í landi megnið af árinu á meðan hann beið eftir nýja skipinu.  Því hafi tekjur hans verið miklu lægri en undanfarin ár. Þessi aðferð gefi árslaun sem séu krónur 5.567.797.- eða nokkru hærri en hámarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sundurliðist stefnukrafa stefnanda því þannig:

 

Þjáningabætur með rúmlegu kr. 1.580.- x 8 dagar

kr.     12.640

Þjáningabætur án rúmlegu kr. 850.- x 172 dagar

kr.    146.200

Varanlegur miski kr. 4.849.500.- x 20%

kr.    969.900

Varanleg örorka=árslaun kr. 4.500.000.- x6%

÷ 3627x3979x10%x25%

 

kr. 13.082.320

Frádráttur vegna aldurs 10%

kr.  -1.308.232

Til frádráttar bætur úr slysatryggingu sjómanna

kr.     -829.080

Samtals

kr. 12.073.748

 

Um lagarök fyrir kröfu sinni vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglna um húsbóndaábyrgð.  Um fjárhæð tjóns vísar stefnandi til 2. – 6. og 15. – 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. l. nr. 91/1991.

IV

Stefndi vísar til 172. gr. siglingalaga og almennra bótareglna varðandi bótaábyrgð útgerðarmanns.  Hann reisir sýknukröfu sína á því að slysið verði ekki rakið til mistaka eða rangrar verkstjórnar af hálfu skipstjórnarmanna eða vanbúnaðar skipsins. Sú ákvörðun að láta trollið fara, þrátt fyrir veður, verði ekki talin saknæm ákvörðun af hálfu skipstjórans. Um sé að ræða eitt fullkomnasta fiskiskip flotans, þar sem veiðar undir þessum kringumstæðum séu algengar og alls ekki ámælisverðar.  Þá sé ósannað að orsaka-samband sé á milli veðurs og þess að vírinn kræktist í skiljuna.  Staðsetning seiðaskiljunnar hafi  heldur ekki verið ámælisverð og almennt ekki til þess fallin að skapa hættu.  Um hafi verið að ræða óhapp, þegar vírinn kræktist í hana, sem alltaf geti komið fyrir á sjó en það hafi aldrei gerst áður.  Ekkert komi fram í gögnum málsins um að skipið hafi verið vanbúið að einhverju leyti og að slysið verði rakið til þess. Um allar þessar fullyrðingar sínar hafi stefnandi sönnunarbyrði.  Slysið hafi að mati stefnda fyrst og fremst orðið vegna þess að stefnandi hafi brugðist rangt við þegar hann hljóp þvert yfir dekkið, undir og fyrir strekktan vírinn, í þeim tilgangi að losa hann með handafli. Hafa verði í huga að hann sé reyndur sjómaður sem borið hafi að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem framangreind hegðun hefði í för með sér. Hann hafi verið formaður á dekki umrætt sinn og tekið þessa vanhugsuðu ákvörðun skyndilega og að eigin frumkvæði. Aðrar leiðir hefðu verið færar í stöðunni, og slysið verði því fyrst og fremst rakið til vítaverðs gáleysis stefnanda sjálfs við það að hlaupa fyrir strekktan vírinn að eigin frumkvæði og án þess að slíka nauðsyn bæri til, sem hann beri þá áhættuna af.

Þá kveður stefndi ósannað að dráttur sá sem varð á því að koma stefnanda undir læknishendur hafi átt einhvern þátt í afleiðingum slyssins, auk þess sem hann teljist ekki ámælisverður þegar atvik séu skoðuð og metin.

Stefndi kveður varakröfu sína taka mið af því að talið verði rétt að skipta sök að einhverju leyti.  Auk þess byggi hún á því að fjárkröfur stefnanda séu of háar. Stefndi vefengir ekki matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis um afleiðingar slyssins.  Þá kveður stefndi að launaviðmiðun eins og hún sé sett fram sé ekki í samræmi við skaðabótalögin sem geri ráð fyrir því að miðað sé við laun stefnanda síðustu tólf mánuði fyrir slys.

V

Óumdeilt er í málinu að stefnandi varð fyrir tjóni í umræddu slysi.  Það sem er hins vegar tekist á um í máli þessu fyrst og fremst er, hvort tjón stefnanda megi rekja til yfirsjóna eða vanrækslu skipstjóra togarans eða hvort háttsemi stefnanda sjálfs leiði til þess að hann beri sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir í umræddu slysi.

Samkvæmt 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ber útgerðarmaður ábyrgð á tjóni sem stafar af yfirsjónum eða vanrækslu í starfi hjá skipstjóra, skipshöfn, hafsögumanni eða öðrum sem starfa í þágu skips.  Stefnandi telur að skipstjóri togarans Péturs Jónssonar RE-69 beri alfarið ábyrgð á slysinu.  Hafi sú ákvörðun hans að láta trollið fara verið óforsvaranleg vegna veðurs.  Þá hafi aðeins fjórir menn verið við verkið í stað sex eins og venja hafi verið.  Auk þessa hafi þau vinnubrögð, að binda seiðaskiljuuna upp undir efra þilfar, verið óforsvaranleg og skapað hættu.  Þetta telur stefnandi allt merki um ófullnægjandi verkstjórn af hálfu skipstjórans.  Þá kveður stefnandi að sjónvarpsvélar hafi ekki verið stilltar þannig að skipstjórinn hafi haft yfirsýn yfir það svæði þar sem menn voru við störf.  Þá telur stefnandi að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri fyrir þær sakir að ekki var farið strax með hann í land.

Það liggur fyrir í málinu að veður var mjög vont þegar umrætt atvik átti sér stað.  Við þær aðstæður bar skipstjóra að sýna sérstaka aðgát.  Er það mat dómsins að við þær aðstæður sem þarna voru tók skipstjóri verulega áhættu, ekki síst þegar litið er til þess að rossin höfðu komið óklár inn úr síðasta hali og að greiða þurfti úr þeim.   Mátti skipstjóri vita að í slíku vonskuveðri, gætu hlutir farið úrskeiðis eins og kom á daginn þegar grandarinn festist upp á seiðaskiljunni.  Þykir engum vafa undirorpið að orsök þess að svo fór verði rakin til veðurofsans og hreyfinga togarans af þeim sökum. 

Fyrir liggur að einungis fjórir menn af þeim sex sem voru á vaktinni, voru kallaðir til vinnu á þilfari.  Þá liggur fyrir að yfirsýn stjórnenda skips og togvindu yfir vinnusvæði á þilfari var greinilega ábótavant, en skipverjar voru við vinnu á svæði á þilfarinu sem var úr augsýn stjórnenda í brú.  Þá virðast samskipti manna á þilfari við brú hafa verið af skornum skammti, en skipstjóri frétti ekki af slysinu fyrr en búið var að kasta.  Þá verður ekki af gögnum málsins ráðið svo óyggjandi sé hver skipverja átti að stjórna vinnu á þilfari ef eitthvað færi úrskeiðis.  Það er hins vegar mat dómsins að ósannað sé að sá frágangur að binda seiðaskiljuna upp undir efra þilfar, hafi verið óforsvaranlegur eða skapað hættu.

Það er því mat dómsins að, sú ákvörðun skipstjóra,  að hefja veiðar eins og á stóð í vonskuveðri svo og sú staðreynd að yfirsýn stjórnenda skipsins yfir vinnusvæðið var ekki sem skyldi, eigi stóran þátt í því hvernig fór.  Það þykir hins vegar ekki hafa verið sýnt fram á það að neinu hefði breytt eins og á stóð þótt öll vaktin, sex menn hefðu verið á þilfari.

Hvað snertir þá málsástæðu stefnanda að tjón hans hefði orðið minna hefði verið tekin sú ákvörðun að sigla með hann strax í land eftir slysið, þá liggur fyrir að þegar stefnandi kom á sjúkrahúsið átta dögum eftir slysið var hann rannsakaður og látinn fara af sjúkrahúsinu án nokkurrar meðferðar.  Verður ekki séð að stefnandi hafi sýnt fram á það að afleiðingar slyssins hafi orðið verri við þessa töf og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Af því sem nú hefur verið rakið verður að telja sannað að umrætt slys og tjón stefnanda verði rakið til þeirrar saknæmu háttsemi skipstjórans að halda áfram veiðum þrátt fyrir hið slæma veður auk þess sem verkstjórn hans var óviðunandi við þessar aðstæður.  Þessi háttsemi hans leiðir til bótaskyldu stefnda sbr. 171. gr. siglingalaga.   Það er hins vegar álit dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega varúð er hann tók þá ákvörðun að hlaupa þvert yfir dekkið og undir strekktan vírinn í þeim tilgangi að losa hann með handafli.  Eins og fram kemur í málinu var stefnandi þaulvanur sjómaður sem hafði verið á sjó frá 13 ára aldri og vegna reynslu sinnar átti hann að gera sér grein fyrir að þessi háttsemi hans gat verið hættuleg og ekkert komið fram í málinu um að nauðsynlegt hafi verið að bregðast svo við sem hann gerði.  Verður að telja að þetta aðgæsluleysi stefnanda leiði til þess að hann verði sjálfur að bera tjón sitt að hálfu, en stefndi bæti honum tjón hans að hálfu.

Eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda og ekki deilt um niðurstöðu matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis um bótagrundvöll.  Þá er útreikningi stefnanda um aðrar bætur en vegna varanlegrar örorku ekki andmælt.  Stefnandi kveður að tekjur hans hafi verið óvenju lágar árið 1997 þar sem hann hafi unnið í landi megnið af árinu meðan hann beið eftir hinu nýja skipi stefnda sem hann hafi haft vilyrði um að fá vinnu á.  Telur hann því rétt að miða árslaun við árin 1995 og 1996.  Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og hún var áður en henni var breytt með lögum nr. 37/1999, og telst eiga við um tjónsatburð þann sem hér er fjallað um, var undantekning frá þeirri reglu sem greindi í 1. mgr. ákvæðisins að miða skyldi við laun tólf mánuði fyrir slysið þegar árslaun væru metin.  Samkvæmt ákvæðinu skyldu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum og samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skyldi ekki miða við hærri árslaun en 4.500.000 krónur.   Þegar borin eru saman skattframtöl stefnanda árin 1995, 1996 og 1997 er ljóst að tekjur stefnanda eru óvenju lágar árið 1997 miðað við tvö árin á undan og skýringar hans á því trúverðugar.  Þegar tekið er meðaltal þessara þriggja ára verða árstekjur yfir það hámark sem framangreint ákvæði getur um.  Þykja samkvæmt þessu vera fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skilningi framangreinds lagaákvæðis og rétt að miða við þær viðmiðunartekjur sem stefnandi gerir í kröfu sinni.  Samkvæmt þessu verður útreikningur stefnanda á tjóni hans lagður til grundvallar bótum og verður stefndi samkvæmt framansögðu dæmdur til greiðslu helmings þeirra eða krónur 6.036.874.

Hvað snertir vaxtakröfu stefnanda þá segir í 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 að skaðabótakröfur beri dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.  Miðað við dagsetningu örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar 16. október 2000 þykir rétt að að miða upphafstíma dráttarvaxta við 16. nóvember 2000.  Ber krafa stefnanda því 2% ársvexti frá slysdegi til 16. nóvember 2000 sbr. 16. gr. skaðabótalaga, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999 en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. nóvember 2000 til greiðsludags.

Eftir þessum úrslitum er rétt að hvor aðili um sig beri ábyrgð á sínum málskostnaði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Örn Höskuldsson hrl. en af hálfu stefnda Ólafur Axelsson hrl.

Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari ásamt meðdóms­mönnunum Pálma Hlöðverssyni stýrimanni og Þorsteini Einarssyni skipstjóra.

D Ó M S O R Ð

        Stefndi Pétur Jónsson ehf. greiði stefnanda Ragnari Þór Ólasyni krónur 6.036.874 með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 4. janúar 1998 til 16. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

        Málskostnaður fellur niður.