Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2011


Lykilorð

  • Vatnsréttindi
  • Raforka
  • Eignarnámsbætur
  • Matsgerð
  • Ómerkingarkröfu hafnað


                                     

Fimmtudaginn 18. október 2012.

Nr. 233/2011.

Stefán Halldórsson

Anna G. Halldórsdóttir

Þórey Kolbrún Halldórsdóttir

Bragi S. Björgvinsson

Sigurður Björgvinsson

Jakob Bjarnar Grétarsson

Stefán Snær Grétarsson

Gunnlaugur Snædal

Jón Snædal

Kristján Snædal

Elín Bergljót Björgvinsdóttir

Stefanía Katrín Karlsdóttir

Jakob Karlsson

Grétar Karlsson

Anna Björg Einarsdóttir

Ragnheiður Ragnarsdóttir

Mikael Jónsson

Landsbankinn hf.

Þórarinn Hrafnkelsson

Lárus Brynjar Dvalinsson

Benedikt Hrafnkelsson

Sigvaldi H. Ragnarsson

Gréta Dröfn Þórðardóttir

Jónas Guðmundsson

Rúnar Guðmundsson

Helga Hallgrímsdóttir

Svandís Sigurjónsdóttir

Guðgeir Þ. Ragnarsson Hjarðar

Elís Hrafnkelsson

Gerður Bjarnadóttir

Stefán Sigurðsson

Benedikt Ólason

Gunnþórunn Jónsdóttir

Svandís Skúladóttir

Lífsval ehf.

Kjartan Sigurðsson

Þorsteinn Pétursson

Gunnþórunn Ingólfsdóttir

Jósef Valgarð Þorvaldsson

(Jón Jónsson hrl.)

Friðrik Kjartansson

Sigbjörn Jóhannsson

Símon Árnason

Emil Jóhann Árnason

Mælivellir ehf.

Jón Helgason

Gyða Árný Helgadóttir

Anna Guðný Helgadóttir

Bjarni Helgason

Eiríkur S. Skjaldarson

Vilhjálmur Snædal

Þorsteinn Snædal

Ragnar Sigvaldason

Sigrún Júlíusdóttir

Snæbjörn Valur Ólason

Hjarðarhagi ehf.

Halldóra Hildur Eyþórsdóttir

Bláfeldur ehf.

Katrín Ásgeirsdóttir

Hvannármenn ehf.

Arnór Benediktsson

Helgi Árnason

Birgir Þór Ásgeirsson

Valgeir Magnússon og

Gullvör ehf.

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Landsvirkjun sf.

(Þórður Bogason hrl.)

Vatnsréttindi. Raforka. Eignarnámsbætur. Matsgerð. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.

Með lögum var L sf. veitt heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun. L sf. hlaut öll tilskilin leyfi vegna virkjunarinnar á árunum 2002 og 2003 og hófust framkvæmdir vegna hennar síðastgreint ár. Með samningi 13. desember 2005 framseldu eigendur vatnsréttinda á vatnasvæði virkjunarinnar, þ. á m. S o.fl., réttindi sín í vatnsföllum á svæðinu til L sf., og skyldi réttarstaða þeirra samkvæmt samningnum að öllu leyti vera jafngild því að réttindin hefðu verið tekin eignarnámi. Á grundvelli samningsins var matsnefnd skipuð til að ákvarða umfang og verðmæti vatnsréttindanna og lauk hún störfum með úrskurði 22. ágúst 2007. S o.fl. höfðuðu dómsmál í því skyni að hnekkja niðurstöðu matsnefndarinnar um verðmæti vatnsréttindanna og reistu málatilbúnað sinn meðal annars á tveimur matsgerðum dómkvaddra manna. Talið var að sönnunargildi úrskurðar matsnefndarinnar væri ekki ríkara en matsgerða dómkvaddra manna sem lægju fyrir í málinu, heldur yrðu gögnin metin að verðleikum eftir því sem á reyndi. Vísað var til meginreglu íslensks réttar um eignarrétt landeiganda á vatni fyrir landi hans, þ. á m. fallréttindum, og að sá réttur nyti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar þannig að bætur kæmu fyrir skerðingu slíkra réttinda. Af dómaframkvæmd leiddi að bótaréttur væri ekki takmarkaður við tjón af töku vatns sem landeigandi er þegar byrjaður að hagnýta og að verðmæti gætu verið fólgin í vatnsréttindum þótt það væri einungis á valdi fárra að nýta slík réttindi. Til þess var vísað að við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta yrði beitt einum þriggja mælikvarða við að staðreyna fullar bætur, mælikvörðum söluverðs, notagildis eða enduröflunarverðs. Málsaðilar voru sammála um að síðastgreindur mælikvarði ætti ekki við og Hæstiréttur taldi að mælikvörðum söluverðs og notagildis yrði ekki beitt afbrigðalaust, heldur yrði að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lögð hefðu verið til grundvallar mati fallréttinda hér á landi frá því farið var að vinna raforku úr vatnsafli. Var þar meðal annars vísað til ákvörðunar bóta fyrir fallréttindi Blöndu í tilefni af byggingu Blönduvirkjunar. Þar hefði verið lagt til grundvallar að greiða skyldi fullt verð fyrir vatnsréttindi og miða bæri við fjárhagslegt tjón rétthafa en ekki ávinning orkufyrirtækis. Þá bæri að líta til stærðar og hagkvæmni virkjunar, samanburðar við aðra virkjunarkosti, dreifikerfi og markaðar fyrir orku sem framleidd yrði, og taka yrði tillit til hlutfalls milli verðs vatnsréttinda og stofnkostnaðar virkjunar, auk sérhags sem draga bæri frá bótum samkvæmt lögum. Þessi sjónarmið gæfu raunhæfa mynd af því hvernig nálgast mætti verðmat fallréttinda þannig að fullar bætur kæmu fyrir. Ekki var talið unnt að líta til sérálits í úrskurði matsnefndarinnar og heldur ekki matsgerðar dómkvaddra manna, sem byggði á svonefndri samningaleikjafræði, með vísan til þess að þær ættu sér ekki stoð í viðurkenndum matssjónarmiðum að íslenskum rétti. Þá þótti ekki verða byggt á annarri matsgerð dómkvaddra matsmanna, þar sem hún byggði á atriðum sem ýmist gerðust eftir viðmiðunartímamark við ákvörðun eignarnámsbóta eða höfðu ekki orðið. Talið var að matsnefnd sú sem starfað hafði á grundvelli samnings aðila hefði í öllum aðalatriðum lagt réttan grundvöll að niðurstöðu sinni um fullar bætur til vatnsréttindahafa. Var fallist á með héraðsdómi að leggja til grundvallar þá niðurstöðu úrskurðarins 22. ágúst 2007 að hóflegt væri að ákvarða bætur á þeirri forsendu að grunnverðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar væru 1,4% af áætluðum stofnkostnaði virkjunarinnar eða 1.540 milljónir króna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2012. Þau krefjast aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefjast áfrýjendur þess að stefnda verði gert að greiða þeim eftirtaldar fjárhæðir með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2006 til 22. ágúst 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 22. febrúar 2008 og 23. febrúar 2011:

Áfrýjendurnir Stefán Halldórsson, Anna G. Halldórsdóttir og Þórey Kolbrún Halldórsdóttir krefjast aðallega 956.411.412 króna, til vara 478.205.706 króna, að því frágengnu 384.053.000 króna, að öðrum kosti 233.849.872 króna, en til ítrustu vara 151.180.110 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 31.110.689 og 59.547.920 krónur.

Áfrýjendurnir Bragi S. Björgvinsson, Sigurður Björgvinsson, Jakob Bjarnar Grétarsson, Stefán Snær Grétarsson, Gunnlaugur Snædal, Jón Snædal, Kristján Snædal, Elín Bergljót Björgvinsdóttir, Stefanía Katrín Karlsdóttir, Jakob Karlsson og Grétar Karlsson krefjast aðallega 706.829.953 króna, til vara 353.414.977 króna, að því frágengnu 283.832.000 króna, að öðrum kosti 172.825.305 króna, en til ítrustu vara 111.728.728 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 22.992.173 og 44.008.542 krónur.

Áfrýjendurnir Jakob Karlsson, Grétar Karlsson og Stefanía Katrín Karlsdóttir krefjast aðallega 245.467.465 króna, til vara 122.733.733 króna, að því frágengnu 98.569.000 króna, að öðrum kosti 60.018.664 króna, en til ítrustu vara 38.801.083 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 7.984.751 króna og 15.283.342 krónur.

Áfrýjendurnir Anna Björg Einarsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir krefjast aðallega 84.142.628 króna, til vara 42.071.314 króna, að því frágengnu 33.788.000 króna, að öðrum kosti 20.573.513 króna, en til ítrustu vara 13.300.439 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.737.040 og 5.238.878 krónur.

Áfrýjendurnir Mikael Jónsson og Landsbankinn hf. krefjast aðallega 35.270.275 króna, til vara 17.635.137 króna, að því frágengnu 14.163.000 króna, að öðrum kosti 8.623.851 krónu, en til ítrustu vara 5.575.178 krónur, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.147.294 og 2.195.995 krónur.

Áfrýjendurnir Lárus Brynjar Dvalinsson, Þórarinn Hrafnkelsson og Benedikt Hrafnkelsson krefjast aðallega 112.295.594 króna, til vara 56.147.797 króna, að því frágengnu 45.093.000 króna, að öðrum kosti 27.457.128 króna, en til ítrustu vara 17.750.583 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.652.818 og 6.991.735 krónur.

Áfrýjendurnir Sigvaldi H. Ragnarsson og Gréta Dröfn Þórðardóttir krefjast aðallega 274.888.000 króna, til vara 137.444.000 króna, að því frágengnu 110.383.000 króna, að öðrum kosti 67.212.209 króna, en til ítrustu vara 43.451.592 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 8.941.687 og 17.114.980 krónur.

Áfrýjendurnir Jónas Guðmundsson, Rúnar Guðmundsson og Helga Hallgrímsdóttir krefjast aðallega 138.867.213 króna, til vara 69.433.606 króna, að því frágengnu 55.763.000 króna, að öðrum kosti 33.954.091 krónu, en til ítrustu vara 21.950.763 krónur, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 4.517.146 krónur og 8.646.118 krónur.

Áfrýjendurnir Svandís Sigurjónsdóttir og Guðgeir Þ. Ragnarsson Hjarðar krefjast aðallega 47.447.896 króna, til vara 23.723.948 króna, að því frágengnu 19.053.000 króna, að öðrum kosti 11.601.372 króna, en til ítrustu vara 7.500.097 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.543.444 og 2.954.254 krónur.

Áfrýjendurnir Elís Hrafnkelsson og Gerður Bjarnadóttir krefjast aðallega 186.158.219 króna, til vara 93.079.109 króna, að því frágengnu 74.753.000 króna, að öðrum kosti 45.517.102 króna, en til ítrustu vara 29.426.060 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 6.055.446 og 11.590.525 krónur.

Áfrýjandinn Stefán Sigurðsson krefst aðallega 82.085.631 krónu, til vara 41.042.816 króna, að því frágengnu 32.962.000 króna, að öðrum kosti 20.070.562 króna, en til ítrustu vara 12.975.289 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.670.158 krónur og 5.110.861 króna.

Áfrýjandinn Benedikt Ólason krefst aðallega 874.166.401 krónu, til vara 437.083.201 krónu, að því frágengnu 351.027.000 króna, að öðrum kosti 213.740.340 króna, en til ítrustu vara 138.179.628 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 28.435.386 og 54.427.213 krónur.

Áfrýjandinn Gunnþórunn Jónsdóttir krefst aðallega 69.434.851 krónu, til vara 34.717.426 króna, að því frágengnu 27.882.000 króna, að öðrum kosti 16.977.350 króna, en til ítrustu vara 10.975.578 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.258.574 og 4.323.059 krónur.

Áfrýjandinn Svandís Skúladóttir krefst aðallega 153.258.720 króna, til vara 76.629.360 króna, að því frágengnu 61.542.000 króna, að öðrum kosti 37.472.924 króna, en til ítrustu vara 24.225.631 krónu, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 4.985.325 og 9.542.240 krónur.

Áfrýjandinn Lífsval ehf. krefst aðallega 89.994.859 króna, til vara 44.997.430 króna, að því frágengnu 36.138.000 króna, að öðrum kosti 22.004.428 króna, en til ítrustu vara 14.225.502 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.927.399 og 5.603.237 krónur.

Áfrýjandinn Kjartan Sigurðsson krefst aðallega 98.217.866 króna, til vara 49.108.933 króna, að því frágengnu 39.440.000 króna, að öðrum kosti 24.015.016 króna, en til ítrustu vara 15.525.314 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.194.930 og 6.115.306 krónur.

Áfrýjandinn Þorsteinn Pétursson krefst aðallega 52.555.523 króna, til vara 26.277.762 króna, að því frágengnu 21.104.000 króna, að öðrum kosti 12.850.226 króna, en til ítrustu vara 8.307.460 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.709.538 og 3.272.169 krónur.

Áfrýjendurnir Gunnþórunn Ingólfsdóttir og Jósef Valgarð Þorvaldsson krefjast aðallega 12.516.303 króna, til vara 6.258.152 króna, að því frágengnu 5.026.000 króna, að öðrum kosti 3.060.331 krónu, en til ítrustu vara 1.978.454 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 407.098 og 779.212 krónur.

Áfrýjendurnir Friðrik Kjartansson, Sigbjörn Jóhannsson, Símon Árnason og Emil Jóhann Árnason krefjast aðallega 65.953.397 króna, til vara 32.976.698 króna, að því frágengnu 26.484.000 króna, að öðrum kosti 16.126.108 króna, en til ítrustu vara 10.425.264 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.145.387 og 4.106.414 krónur.

Áfrýjandinn Guðgeir Þ. Ragnarsson Hjarðar krefst aðallega 49.980.542 króna, til vara 24.990.271 krónu, að því frágengnu 20.070.000 króna, að öðrum kosti 12.220.623 króna, en til ítrustu vara 7.900.433 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.625.761 króna og 3.111.815 krónur.

Áfrýjandinn Mælivellir ehf. krefst aðallega 252.427.885 króna, til vara 126.213.942 króna, að því frágengnu 101.364.000 króna, að öðrum kosti 61.720.540 króna, en til ítrustu vara 39.901.317 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 8.211.123 og 15.716.632 krónur.

Áfrýjendurnir Jón Helgason, Gyða Árný Helgadóttir, Anna Guðný Helgadóttir og Bjarni Helgason krefjast aðallega 169.393.445 króna, til vara 84.696.722 króna, að því frágengnu 68.021.000 króna, að öðrum kosti 41.417.987 króna, en til ítrustu vara 26.776.050 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 5.510.096 og 10.546.687 krónur.

Áfrýjendurnir Eiríkur S. Skjaldarson, Vilhjálmur Snædal og Þorsteinn Snædal krefjast aðallega 319.489.470 króna, til vara 159.744.735 króna, að því frágengnu 128.293.000 króna, að öðrum kosti 78.117.608 króna, en til ítrustu vara 50.501.753 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 10.392.524 og 19.891.980 krónur.

Áfrýjandinn Ragnar Sigvaldason krefst aðallega 191.851.069 króna, til vara 95.925.535 króna, að því frágengnu 77.039.000 króna, að öðrum kosti 46.909.047 króna, en til ítrustu vara 30.325.930 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 6.240.660 og 11.945.033 krónur.

Áfrýjandinn Sigrún Júlíusdóttir krefst aðallega 175.878.215 króna, til vara 87.939.107 króna, að því frágengnu 70.625.000 krónur, að öðrum kosti 43.003.563 krónur, en til ítrustu vara 27.801.098 krónur, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 5.721.033 og 10.950.436 krónur.

Áfrýjandinn Emil Jóhann Árnason krefst aðallega 543.448.119 króna, til vara 271.724.060 króna, að því frágengnu 218.225.000 króna, að öðrum kosti 132.877.203 króna, en til ítrustu vara 85.902.934 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 17.677.581 króna og 33.836.059 krónur.

Áfrýjandinn Eiríkur S. Skjaldarson krefst aðallega 154.366.908 króna, til vara 77.183.454 króna, að því frágengnu 61.987.000 króna, að öðrum kosti 37.743.884 króna, en til ítrustu vara 24.400.803 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 5.021.338 og 9.611.174 krónur.

Áfrýjandinn Snæbjörn Valur Ólason krefst aðallega 229.018.961 krónu, til vara 114.509.481 krónu, að því frágengnu 91.964.000 króna, að öðrum kosti 55.996.880 króna, en til ítrustu vara 36.201.065 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 7.449.691 króna og 14.259.200 krónur.

Áfrýjandinn Hjarðarhagi ehf. krefst aðallega 364.723.479 króna, til vara 182.361.739 króna, að því frágengnu 146.457.000 króna, að öðrum kosti 89.177.667 krónur, en til ítrustu vara 57.651.901 krónu, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 11.863.940 og 22.708.369 krónur.

Áfrýjandinn Halldóra Hildur Eyþórsdóttir krefst aðallega 115.301.400 króna, til vara 57.650.700 króna, að því frágengnu 46.300.000 króna, að öðrum kosti 28.192.070 króna, en til ítrustu vara 18.225.711 krónu, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.750.569 og 7.178.838 krónur.

Áfrýjandinn Bláfeldur ehf. krefst aðallega 170.972.302 króna, til vara 85.486.151 krónu, að því frágengnu 68.655.000 króna, að öðrum kosti 41.804.030 króna, en til ítrustu vara 27.025.620 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 5.561.545 og 10.645.162 krónur.

Áfrýjandinn Katrín Ásgeirsdóttir krefst aðallega 31.631.930 króna, til vara 15.815.965 króna, að því frágengnu 12.702.000 króna, að öðrum kosti 7.734.248 króna, en til ítrustu vara 5.000.064 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.028.963 og 1.969.509 krónur.

Áfrýjandinn Hvannármenn ehf. krefst aðallega 217.790.149 króna, til vara 108.895.074 króna, að því frágengnu 87.455.000 króna, að öðrum kosti 53.251.350 króna, en til ítrustu vara 34.426.125 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 7.084.409 og 13.560.027 krónur.

Áfrýjandinn Arnór Benediktsson krefst aðallega 83.034.440 króna, til vara 41.517.220 króna, að því frágengnu 33.343.000 króna, að öðrum kosti 20.302.553 króna, en til ítrustu vara 13.125.268 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.701.027 og 5.169.945 krónur.

Áfrýjandinn Sigvaldi H. Ragnarsson krefst aðallega 282.954.117 króna, til vara 141.477.058 króna, að því frágengnu 113.622.000 króna, að öðrum kosti 69.184.436 króna, en til ítrustu vara 44.726.604 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 9.204.072 og 17.617.203 krónur.

Áfrýjandinn Helgi Árnason krefst aðallega 106.443.363 króna, til vara 53.221.682 króna, að því frágengnu 42.743.000 króna, að öðrum kosti 26.026.213 króna, en til ítrustu vara 16.825.520 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.462.460 og 6.627.377 krónur.

Áfrýjandinn Birgir Þór Ásgeirsson krefst aðallega 301.300.238 króna, til vara 150.650.119 króna, að því frágengnu 120.989.000 króna, að öðrum kosti 73.670.202 króna, en til ítrustu vara 47.626.578 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 9.800.870 og 18.759.515 krónur.

Áfrýjandinn Valgeir Magnússon krefst aðallega 23.092.654 króna, til vara 11.546.327 króna, að því frágengnu 9.273.000 króna, að öðrum kosti 5.646.330 króna, en til ítrustu vara 3.650.260 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 751.143 og 1.437.736 krónur.

Áfrýjandinn Gullvör ehf. krefst aðallega 613.039.860 króna, til vara 306.519.930 króna, að því frágengnu 246.170.000 króna, að öðrum kosti 149.892.913 króna, en til ítrustu vara 96.903.312 króna, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 19.941.299 og 38.168.965 krónur.

Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda, en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar, hafnað verði kröfu um dráttarvexti og málskostnaður falli niður.

Látist hefur Sigvarður Halldórsson, sem átti aðild að málinu í héraði, og eru áfrýjendurnir Stefán Halldórsson, Anna G. Halldórsdóttir og Þórey Kolbrún Halldórsdóttir komin í hans stað. Þá hefur látist Eiríkur Magnússon, sem átti aðild að málinu í héraði, og er áfrýjandinn Gunnþórunn Jónsdóttir komin í hans stað.

I

Áfrýjendur framseldu stefnda á grundvelli samnings 13. desember 2005 vatnsréttindi sín í vatnsföllunum Jökulsá á Dal, einnig nefnd Jökulsá á Brú, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá, auk vatnsfalla sem í þær renna. Stefndi nýtir vatnsföllin til framleiðslu raforku í Kárahnjúkavirkjun og er orkan seld álveri Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði. Með lögum nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar veitti Alþingi stefnda heimild til að reisa og reka í tveimur áföngum Kárahnjúkavirkjun. Í fyrri áfanga skyldi stefnda samkvæmt lögunum heimilt að reisa þrjár stíflur við Fremri-Kárahnjúka, Kárahnjúkastíflu, Desjarárstíflu og Sauðadalsstíflu, veita Jökulsá á Brú frá miðlunarlóni, Hálslóni, um aðrennslisgöng undir Fljótsdalsheiði að stöðvarhúsi, reisa stöðvarhús neðan jarðar í Fljótsdal með frárennsli eftir göngum og skurði út í farveg Jökulsár í Fljótsdal, svo og að reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar. Í síðari áfanga skyldi stefnda heimilt að reisa stíflu í farvegi Jökulsár í Fljótsdal, Ufsarstíflu, veita ánni ásamt vatni af Hraunum inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar á Fljótsdalsheiði og reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar. Leyfið skyldi falla úr gildi 10 árum eftir gildistöku laganna ef leyfishafi hefði þá ekki hafið framkvæmdir og 15 árum eftir gildistöku laganna ef virkjunin væri þá ekki komin í rekstur. Forsætisráðherra veitti 30. júlí 2002 leyfi til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Iðnaðarráðherra veitti stefnda leyfi fyrir allt að 750 MW Kárahnjúkavirkjun 2. september 2002. Framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps fyrir Kárahnjúkavirkjun var gefið út 28. janúar 2003 og sambærilegt leyfi sveitarstjórnar Norður-Héraðs 2. febrúar sama ár.

Í Kárahnjúkavirkjun er samnýtt vatn úr framangreindum þremur vatnsföllum. Úr Hálslóni rennur vatnið sem fyrr segir um jarðgöng austur um Fljótsdalsheiði, þar sem göngin tengjast öðrum göngum úr Ufsarlóni suðaustan við Þrælaháls. Eftir það er vatninu veitt með jarðgöngum að Teigsbjargi, þar sem það fellur niður tvenn lóðrétt 400 m fallgöng að hverflum Fljótsdalsstöðvar, en svo nefnist aflstöð Kárahnjúkavirkjunar. Stöðvarhúsið er neðanjarðar, um 800 m inni í Teigsbjargi. Vatni úr vatnsföllum þeim sem áður greinir er veitt til sex aflvéla Kárahnjúkavirkjunar og miðlað þangað eftir því sem stefndi metur þarfir sínar í þeim efnum. Hver vélasamstæða Kárahnjúkavirkjunar er 115 MW, uppsett afl hennar er 690 MW, virkjað meðalrennsli um 110 m³/sek og meðalorkugeta virkjunarinnar er 4.570 GWst á ári. Afl stöðvarinnar er ákveðið ríflegt miðað við það vatn sem til umráða er og mun samkvæmt gögnum málsins nærri láta að ein vélasamstæðan sé til vara. Ræðst framleiðslugeta virkjunarinnar þannig af innrennsli í lónin og miðlunarrými þeirra en ekki af uppsettu afli virkjunarinnar. Frá stöðvarhúsi Fljótsdalsstöðvar er vatninu veitt um frárennslisskurð sem opnast út í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts sem er í 25,5 m hæð yfir sjó, og eykst vatnsmagn Lagarfljóts af þessum sökum sem svarar vatnsmagni Jökulsár á Dal. Frá tengivirki við stöðvarhúsið í Fljótsdal liggja tvær háspennulínur, Fljótsdalslínur 3 og 4, sem hvor um sig er 50 km löng, byggðar fyrir 420 kV spennu en reknar á 220 kV spennu. Þessar línur eru í eigu Landsnets hf. og hafa eingöngu það hlutverk að flytja raforku frá Fljótsdalsstöð til álvers Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði. Hluti svokallaðrar byggðalínu, Kröflulína 2, sem er 132 kV og liggur frá Kröflu að Hryggstekk, er tengd tengivirkinu í Fljótsdal. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust árið 2003, formleg gangsetning Fljótsdalsstöðvar var 30. nóvember 2007, en fimm af sex aflvélum virkjunarinnar voru gangsettar á fjórða ársfjórðungi 2007 og sú sjötta í febrúar 2008.

II

Áfrýjendur reisa aðalkröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á fjölda röksemda, sem raktar eru í greinargerð þeirra fyrir Hæstarétti. Af þeim röksemdum er þess helst að geta í fyrsta lagi að áfrýjendur bera því við að þegar málið var tekið til munnlegs flutnings í héraði öðru sinni, rúmum fjórum mánuðum eftir að það var dómtekið í byrjun, hafi dómurinn ákveðið að lögmenn áfrýjenda fengju samtals 90 mínútur til að flytja það og lögmaður stefnda jafn langan tíma, en þetta telja áfrýjendur benda til þess að dómur hafi í raun verið felldur á það á grundvelli upphaflegs málflutnings og þá að liðnum frestum samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í öðru lagi vísa áfrýjendur til þess að undir rekstri málsins í héraði hafi aldrei verið fært í þingbók að aðilarnir hafi lýst gagnaöflun lokið, en þrátt fyrir það hafi dómurinn hafnað því að áfrýjendur fengju að leggja fram ný gögn þegar málið var munnlega flutt öðru sinni 10. janúar 2011. Í þriðja lagi séu gallar á samningu hins áfrýjaða dóms með því að þar sé ekki sjálfstæð lýsing á atvikum málsins, heldur séu raktar lýsingar aðilanna hverra fyrir sig og sé það andstætt d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Í fjórða lagi telja áfrýjendur að héraðsdómur hafi gagnstætt ákvæði 1. mgr. 111. gr. sömu laga reist niðurstöðu sína á „sjónarmiðum sem byggja ekki á málsástæðum aðila“, svo sem segir í greinargerð þeirra hér fyrir dómi, en í því sambandi er vísað til þriggja nánar tilgreindra atriða. Í fimmta lagi hafi héraðsdómur í tilteknum tilvikum ýmist látið ógert að taka afstöðu til málsástæðna eða gert það með ófullnægjandi rökum, en af þessu taka áfrýjendur sjö dæmi. Í sjötta lagi telja áfrýjendur að hinn áfrýjaði dómur hvíli í tilteknum atriðum á röngum lagalegum forsendum, sem valdi því að umfjöllun þar um málsástæður hafi orðið „ábótavant eða bjöguð“, og hafi af þessum sökum heldur ekki nýst þekking sérfróðra meðdómsmanna við úrlausn málsins eða þeir getað sinnt því hlutverki sínu að yfirfara og gagnrýna matsgerðir, sem liggja fyrir í málinu. Loks er þess að geta að áfrýjendur vísa til þess að í hinum áfrýjaða dómi hafi ekki verið tekin afstaða til kröfu þeirra um málskostnað vegna gagnsakar, sem stefndi höfðaði fyrir héraðsdómi en felldi svo niður undir rekstri málsins.

Um fyrstu röksemd áfrýjenda, sem greinir hér að framan, er þess að gæta að þótt mál þetta sé af þeirra hendi mikið að vöxtum ætti lögmönnum, sem farið hafa með það af þeirra hálfu, að hafa verið fært að gera því nægileg skil með munnlegum flutningi í hálfa aðra klukkustund, enda hafði héraðsdómur áður hlýtt á flutning málsins. Dómur í málinu var kveðinn upp fimmtán dögum eftir að það var flutt á ný. Þessi röksemd áfrýjenda fyrir ómerkingu hins áfrýjaða dóms er því haldlaus.

Aðalmeðferð málsins fór upphaflega fram 30. ágúst 2010. Rétt er hjá áfrýjendum að eftir gögnum málsins höfðu dómendur ekki áður gætt að því að leita yfirlýsinga aðilanna um að gagnaöflun væri lokið. Til þess verður á hinn bóginn að líta að lögmönnum áfrýjenda mátti vera jafnljóst og dómendum að aðalmeðferð máls hefst að jafnaði ekki fyrr en gagnaöflun hefur verið lýst lokið, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Eftir að málið hafði verið dómtekið fyrra sinni gat ekki orkað tvímælis að gagnaöflun aðilanna væri í raun lokið, hvað sem leið yfirlýsingum þeirra eða bókunum í þingbók. Upp frá þessu gátu áfrýjendur því ekki vænst þess að eiga kost á að koma frekari gögnum að fyrir héraðsdómi nema svo stæði á, sem um ræðir í 104. gr. sömu laga. Er því ekki ástæða til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sökum þess að áfrýjendur hafi ekki fengið að leggja fram ný gögn þegar málið var flutt öðru sinni 10. janúar 2011.

Á hinum áfrýjaða dómi er að sönnu sá annmarki, sem áfrýjendur benda á, að ekki var gerð þar grein fyrir málinu á þann hátt, sem mælt er fyrir um í d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Samning dómsins er að þessu leyti aðfinnsluverð, en ekki eru næg efni til að verða við aðalkröfu áfrýjenda á þessum grunni.

Þótt héraðsdómur hafi ekki í þaula tekið berum orðum afstöðu til sérhverrar málsástæðu, sem áfrýjendur báru fyrir sig, og í einstaka tilvikum vísað aukalega til atriða, sem aðilarnir virðast ekki beinlínis hafa hreyft sem málsástæðu í skriflegum málatilbúnaði sínum í héraði, verður ekki að virtum hinum áfrýjaða dómi heildstætt fallist á að þar hafi verið vikið frá ákvæðum 2. mgr. 111. gr. eða 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 á þann hátt að ómerkingu varði. Færi dómurinn ófullnægjandi rök fyrir niðurstöðum sínum eða reisi hann þær á röngum lagalegum forsendum, svo sem áfrýjendur halda fram, kæmu slíkir annmarkar til skoðunar við úrlausn um efni málsins og geta þeir ekki varðað ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 var gagnsök stefnda í máli þessu, sem hann felldi niður undir rekstri þess í héraði, ekki „sérstakt mál“, svo sem áfrýjendur komast að orði í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti, heldur þáttur í máli þeirra á hendur stefnda. Krafa um málskostnað vegna þessa þáttar málsins hafði af þeim sökum enga þá sérstöðu að héraðsdómi hefði borið að kveða sérstaklega á um hann í hinum áfrýjaða dómi, heldur átti með réttu að meta málskostnað vegna málsins sem eina heild, svo sem þar var gert. Að virtu þessu og öðru því, sem að framan greinir, standa engin haldbær rök til að verða við aðalkröfu áfrýjenda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

III

Síðla sumars 2005 komst stefndi að samkomulagi við áfrýjendur og fleiri eigendur vatnsréttinda á vatnasvæði því sem hér um ræðir, um efnisatriði samnings um málsmeðferð til úrlausnar á því hvert væri rétt endurgjald fyrir vatnsréttindi sem nýtt yrðu vegna Kárahnjúkavirkjunar. Leiddu viðræður stefnda og rétthafanna til þess, að gerður var 13. desember 2005 samningur um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um málsmeðferð til að ákvarða endurgjald fyrir þau. Samkvæmt grein 1.2 samningsins skal gerð hans koma í stað eignarnáms vatnsréttinda samkvæmt 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, viðkomandi ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Réttindi þau sem stefndi öðlast við gerð hans og framkvæmd skulu að öllu leyti vera jafngild því sem vera myndi ef réttindin hefðu verið tekin eignarnámi lögum samkvæmt. Í grein 1.3 er svo fyrir mælt að vatnsréttarhafar skuli á sama hátt eiga allan þann rétt á hendur stefnda sem vera myndi ef réttindi þeirra hefðu í samræmi við ákvæði fyrrgreindra laga verið tekin eignarnámi. Fram kemur í samningnum að honum sé ekki ætlað að skerða rétt aðila að neinu leyti, heldur stofna til meðferðar um úrlausn ágreinings um verðmæti vatnsréttindanna er tryggi að mati samningsaðila betur en ella eðlilega og skjóta framvindu og vandaða úrlausn málsins. Samkvæmt grein 9.1 skyldi samningurinn taka gildi þegar fyrir lægi undirritun eigenda eða fyrirsvarsmanna annars vegar 75% þeirra jarðeigna sem teldust geta átt vatnsréttindi sem nýtt yrðu vegna Kárahnjúkavirkjunar og taldar voru upp í fylgiskjölum með samningnum, og hins vegar 75% þeirra réttinda sem um ræddi, miðað við þær bráðabirgðaupplýsingar sem fram kæmu á listum sömu fylgiskjala. Samþykki allra eigenda jarðeignar sem væri í óskiptri sameign þyrfti til aðildar að samningnum. Ágreiningslaust er að samningurinn tók gildi 14. febrúar 2006 þegar tilskildum fjölda undirskrifta hafði verið náð. Í grein 2.1 samningsins kemur fram að endurgjald fyrir vatnsréttindin skuli ákveðið af matsnefnd samkvæmt „ákvæðum samnings þessa, og greitt í samræmi við niðurstöður hennar, eða eftir atvikum dómstóla, í eitt skipti fyrir öll.“ Skipun matsnefndarinnar, málsmeðferð fyrir henni og heimild til að bera úrskurð hennar undir dómstóla er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt grein 2.2 samningsins skyldi matsnefndin meta umfang og verðmæti vatnsréttindanna, skil þeirra milli einstakra jarðeigna eða vatnsréttarhafa og greiðslur vegna hverrar þeirra um sig

Matsnefndin lauk störfum með úrskurði 22. ágúst 2007. Niðurstaða meirihluta hennar var að umfang þeirra vatnsréttinda sem framseld voru stefnda skyldi miðast við innrennsli í Kelduárlón, Ufsarlón og Hálslón og svara til þess vatnsrennslis sem stefndi gæti nýtt til raforkuframleiðslu á hverjum tíma í aflstöð Fljótsdalsvirkjunar. Skyldi stefndi einn hafa heimild til að stýra miðlun og ákveða úr hvaða uppistöðulónum miðlað væri vatni til Fljótsdalsstöðvar. Meirihlutinn taldi hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa fyrir grunnréttindi vera 1.540.000.000 krónur, og skyldi sú fjárhæð skiptast milli vatnasviða í hlutföllunum 76,15% til rétthafa Jökulsár á Dal, 17,14% til rétthafa Jökulsár í Fljótsdal og 6,71% til rétthafa Kelduár. Auk bóta fyrir grunnréttindi skyldi stefndi samkvæmt úrskurði meirihlutans greiða rétthöfum Jökulsár á Dal 4,254% álag á grunnbætur, en með því væru bætt fallréttindi árinnar sem nýtanleg væru frá skurðenda við Fljótsdalsstöð og til sjávar. Þá vísaði meirihlutinn til þess að stefndi hefði samþykkt að greiða rétthöfum Jökulsár í Fljótsdal sérstakar bætur fyrir fallréttindi árinnar, frá Ufsarstíflu í 625 m yfir sjávarmáli að skurðenda í Fljótsdal í 25,5 m yfir sjávarmáli, og skyldu bætur þessar vera 2,397% af grunnréttindum þeirra. Eins skyldu rétthafar Kelduár fá sérstakar bætur fyrir fallréttindi árinnar, úr 669 m hæð að Kelduárlóni í 625 m hæð, og taldist það álag hæfilega metið 7,339% af grunnbótum þeirra. Samkvæmt þessu taldi meirihlutinn að heildarbætur til rétthafa Jökulsár á Dal væru 1.222.611.305 krónur, til rétthafa Jökulsár á Fljótsdal 300.866.316 krónur og til rétthafa Kelduár 110.918.146 krónur, eða samtals 1.634.395.767 krónur.

Með bréfi 20. september 2007 bauð stefndi áfrýjendum greiðslu í samræmi við niðurstöður matsnefndarinnar en gerði um leið þann fyrirvara, að færi svo að vatnsréttarhafar skytu málinu áfram til dómstóla myndi stefndi þar láta reyna á ítrasta rétt sinn. Hluti vatnsréttarhafa þáði tilboð stefnda, en þeim sem það ekki gerðu voru eigi að síður greiddar bætur og í því tilviki í samræmi við sjónarmið sem fram komu í úrskurði matsnefndar þeirrar sem ákvað bætur fyrir vatnsréttindi Blöndu. Voru bætur til áfrýjenda samkvæmt framansögðu greiddar 22. febrúar 2008. Í grein 5.1 samningsins 13. desember 2005 var ákvæði þess efnis að úrskurði matsnefndar gæti hver aðili um sig skotið til dómstóla. Skyldi aðili innan sex vikna frá úrskurði tilkynna gagnaðila með sannanlegum hætti ef hann vildi ekki una mati og mál þá höfðað innan sex mánaða frá úrskurði. Að öðrum kosti teldist aðili una mati og vera bundinn við úrskurð matsnefndarinnar. Með bréfum 2. október 2007 tilkynntu áfrýjendur stefnda að þeir sættu sig ekki við úrskurðinn hvað matsfjárhæð varðar og hygðust af því tilefni höfða dómsmál gegn stefnda. Jafnframt lýstu áfrýjendur því yfir að þeir hygðust una úrskurðinum varðandi umfang þeirra réttinda sem látin væru af hendi. Skorað var á stefnda að greiða áfrýjendum án tafar þær fjárhæðir sem þeir höfðu krafist fyrir matsnefndinni. Þessum kröfum svaraði stefndi með bréfi sama dag. Þar áskildi hann sér allan rétt til að láta reyna á niðurstöður úrskurðarins fyrir dómstólum, þar með talið um fjárhæð bóta til lækkunar og umfang framseldra réttinda. Jafnframt var greiðslukröfum áfrýjenda hafnað.

Hér fyrir dómi deila aðilar hvorki um umfang þeirra vatnsréttinda sem framseld voru stefnda vegna Kárahnjúkavirkjunar á grundvelli samningsins 13. desember 2005 né um skiptingu réttindanna milli þeirra þriggja vatnasviða sem í hlut eiga. Þá greinir á hinn bóginn mjög á um hvert sé verðmæti þeirra réttinda sem afhent voru og með hvaða aðferðum það skuli metið, og hafa þeir bent á ýmsar leiðir í því sambandi. Eins og nánar greinir í köflum IV og X hér á eftir styðjast málsaðilar í kröfugerð sinni meðal annars við tvær matsgerðir dómkvaddra manna, sem fengnir voru til að leggja mat á verðmæti þeirra vatnsréttinda sem nýtt eru til framleiðslu raforku í Kárahnjúkavirkjun. Er þar annars vegar um að ræða matsgerð hagfræðinganna Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar 31. mars 2010 sem áfrýjendur fengu dómkvadda og hins vegar matsgerð lögfræðinganna Dan V.S.Wiium og Björns Þorra Viktorssonar 28. febrúar 2010 sem stefndi fékk dómkvadda.

Stefndi hefur frá upphafi talið að þar sem frjáls verðmyndun á vatnsréttindum sé ekki fyrir hendi hér á landi og vatnsréttarhafarnir ekki haft neinn arð af réttindum sínum fram til þess tíma er þau voru framseld stefnda, þurfi að líta til þess í verðmati hversu arðbær væntanleg hagnýting réttindanna verði talin. Í því sambandi beri að leggja til grundvallar að sanngjarnt og eðlilegt hlutfall sé milli stofnkostnaðar virkjunarinnar og verðmætis réttindanna. Áfrýjendur hafna þeirri aðferð, að verðmæti réttinda þeirra sé ákvarðað sem hlutfall af stofnkostnaði Kárahnjúkavirkjunar, og telja þess í stað eðlilegt og sanngjarnt að ákveða verðmætið sem hlutfall af brúttósöluverði raforku. Fullt verð fyrir vatnsréttindin þannig metið sé á bilinu 7 til 15% af brúttósöluverðinu. Stefndi taldi við upphaf málsins að heildarverðmæti vatnsréttindanna væri á bilinu 150.000.000 til 375.000.000 krónur en upplýsti undir rekstri málsins fyrir matsnefndinni, að í kostnaðaráætlun hefði af varúðarástæðum verið gert ráð fyrir bótum til vatnsréttarhafa að fjárhæð 700.000.000 krónur, og hefði þá verið höfð hliðsjón af niðurstöðu matsnefndar um verðmæti vatnsréttinda í Blöndu. Kröfur áfrýjenda fyrir matsnefndinni og héraðsdómi byggðu á því aðallega að fullt verð fyrir vatnsréttindi allra þeirra vatnsfalla sem nýtt eru í Fljótsdalsstöð væri 93.330.000.000 krónur, en til vara 60.000.000.000 krónur. Héraðsdómur skipaður sérfróðum meðdómsmönnum komst að sömu niðurstöðu og meirihluti matsnefndarinnar að heildarverðmæti vatnsréttindanna, það er grunnbætur ásamt álagi, væri 1.634.395.767 krónur, og krefst stefndi staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Að gengnum héraðsdómi innti stefndi af hendi 23. febrúar 2011 til áfrýjenda greiðslur til viðbótar þeim sem inntar höfðu verið af hendi 22. febrúar 2008 í framhaldi af úrskurði matsnefndarinnar, og er óumdeilt að með þessum greiðslum hefur stefndi greitt áfrýjendum að fullu í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms.

IV

Fyrsta varakrafa áfrýjenda, sem jafnframt er aðalkrafa í efnisþætti málsins hér fyrir dómi, er á því byggð að heildarverðmæti vatnsréttinda, sem nýtt eru til raforkuframleiðslu í Kárahnjúkavirkjun, sé 24.903.110.048 krónur. Er þá lagt til grundvallar að bætur til handa áfrýjendum beri að miða við hlutfall af árlegum brúttótekjum stefnda af seldri raforku frá virkjuninni, og eru framtíðartekjurnar núvirtar til eingreiðslu með afvöxtun. Er verðmæti réttindanna samkvæmt þessu fundið út frá svokallaðri leiguaðferð og eingreiðsluútreikningi. Er hlutfallstala hverrar jarðar í vatnsréttindunum notuð til að finna fullt verð til hvers vatnsréttarhafa sem hlutfall af verðmæti réttindanna í heild sinni. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar útreikningi kröfunnar byggja á verði á kílóvattstund, tryggðri orkugetu, leigugjaldi og stuðli sem notaður er til framreiknings eingreiðslu. Er til þess vísað að samkvæmt matsgerð Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar, sem síðar verður gerð grein fyrir, hafi meðalverð seldrar raforku á Íslandi árið 2006 miðað við verð á kílóvattstund við stöðvarvegg verið 2,07 til 2,18 krónur. Samkvæmt ársskýrslu stefnda hafi framleiðsla Kárahnjúkavirkjunar verið tæplega 4.800 GWst og miði áfrýjendur í kröfugerð sinni við 4.775.000.000 KWst eða 4.775 GWst. Leigugjald sé miðað við 10% og stuðull til framreiknings sé 23,92344498. Af þessu leiði að fullt grunnverð vatnsréttindanna sé margfeldi framangreindra talna og verði niðurstaðan 24.903.110.048 krónur.

Önnur varakrafa áfrýjenda er á því reist að heildarverðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar sé 12.451.555.024 krónur. Er þá byggt á sömu aðferð og í fyrstu varakröfunni, að því frátöldu að lagt er til grundvallar að leigugjald sé 5%.

Í þriðju varakröfunni styðjast áfrýjendur við niðurstöðu sérálits í úrskurðinum 22. ágúst 2007. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að verðmæti vatnsréttindanna væri á bilinu 10 til 65.000.000.000 krónur miðað við núvirta eingreiðslu. Leggja áfrýjendur til grundvallar í kröfugerð sinni hér fyrir dómi að verðmætið sé 10.000.000.000 krónur sem var lágmark bóta samkvæmt sérálitinu. Með þessari aðferð telja áfrýjendur að fundinn sé afrakstur auðlindarinnar og á þeim grundvelli sé eingreiðsluverðmæti hennar metið. Sé þetta að öllu leyti í samræmi við mælikvarða eignarnámsreglna um notagildi.

Í fjórðu varakröfunni leggja áfrýjendur matsgerð Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar, um verðmæti vatnsréttindanna til grundvallar, en þeir hafi talið verðmæti réttindanna vera 6.089.000.000 krónur. Í matsgerð þeirra séu færð rök fyrir því að fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að skilja sem rétt verð samkvæmt lögmálum hagfræði. Um það sé fjallað í matsgerðinni hvernig finna eigi slíkt rétt verð í einstökum tilvikum. Við eignarnám sé það iðulega svo að slíkt verð sé ekki ein tala heldur tölubil og færi þeir rök að því að við slíkar aðstæður sé viðeigandi að nota svokallaða samningaleikjafræði til að finna fullt verð sem eina tölu á bili „réttra verða.“ Í aðferðinni felist að í verðmati eigi að leggja til grundvallar hver líkleg samningsniðurstaða hefði orðið, ef aðilar hefðu sest að samningaborði.

Í fimmtu varakröfunni miða áfrýjendur við niðurstöðu matsgerðar Dan V.S. Wiium og Björns Þorra Viktorssonar sem síðar verður gerð nánari grein fyrir. Samkvæmt þeirri matsgerð sé verðmæti vatnsréttinda sem látin voru af hendi til Kárahnúkavirkjunar 3.936.438.724 krónur.

V

Áfrýjendur reisa málatilbúnað sinn meðal annars á því að það sé andstætt reglum um eignarnám að setja úrskurð matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar skör hærra en rökstuddar matsgerðir dómkvaddra manna í málinu, eins og gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi. Svo byggt verði á matsgerðum dómkvaddra manna nægi að þær séu betur rökstuddar en úrskurður matsnefndarinnar og í meira samræmi við þá grundvallarreglu um eignarnám að greiða skuli fullt verð til eignarnámsþola. Á það er fallist sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi að með því að fela sérstakri nefnd að meta umfang vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar og verðmæti þeirra hafi málsaðilar og aðrir sem áttu hlut að samningnum 13. desember 2005 fellt deilu sína í sérstakan farveg. Í því ferli ber að leggja til grundvallar að samkvæmt greinum 1.2 og 1.3 samningsins skal niðurstaða þeirrar málsmeðferðar vera sú sama og orðið hefði ef stefndi hefði tekið réttindi áfrýjenda eignarnámi lögum samkvæmt. Samkvæmt þessu hefur úrskurðar matsnefndarinnar stöðu áþekka úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta sem er lögbundið stjórnvald, en úrskurðir hennar sæta endurskoðun dómstóla. Hefur verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að þeir úrskurðir séu ekki rétthærri matsgerðum dómkvaddra manna, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 sem birtur er í dómasafni 2005 á blaðsíðu 1237. Af þessu leiðir að sönnunargildi úrskurðarins 22. ágúst 2007 verður ekki talið ríkara en matsgerða dómkvaddra manna sem fyrir liggja í málinu, heldur verður hvert þessara gagna metið að verðleikum þegar á reynir.

VI

Það er meginregla íslensks réttar, að heimild til ráðstöfunar og nýtingar orkulindar fer saman við heimild til ráðstöfunar og nýtingar þeirrar fasteignar, þar sem orkulindina er að finna, innan þeirra takmarka sem leiðir af lögum og samningum. Regla þessa efnis kom meðal annars fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar og kvað á um að hver maður ætti vatn og veiði fyrir sínu landi, svo sem nánar getur í dómi Hæstaréttar 20. mars 1963 í máli nr. 163/1961 sem birtur er í dómasafni 1963 á blaðsíðu 173. Hvað orku fallvatna varðar sér þessarar reglu nú stað í 2. gr. og 49. gr. vatnalaga. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna fylgir landareign hverri, þar með talið þjóðlendu, réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er á þann hátt sem lögin heimila. Í 1. mgr. 49. gr. laganna kemur fram að eiganda landareignar sem vatnsréttindi fylgja er rétt að nota það vatn sem um hana rennur til að vinna úr því orku. Vatnsréttindi, þar með talin fallréttindi, eru samkvæmt þessu þáttur í eignarrétti landeiganda sem verndar nýtur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, og skulu samkvæmt því bætur greiddar ef réttindin eru skert. Er bótaréttur landeiganda ekki takmarkaður við tjón af töku vatns sem landeigandi er þegar byrjaður að hagnýta, sbr. dóm Hæstaréttar 21. júní 1955 í máli nr. 51/1955 sem birtur er í dómasafni þess árs á blaðsíðu 431. Þá hefur og verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd hér á landi, að réttindi til hagnýtingar landgæða teljist verðmæt á fjárhagslegan mælikvarða þótt fáir, og jafnvel aðeins einn, hafi fjárhagslega og tæknilega getu til að afla sér og nýta þær heimildir sem um ræðir, sbr. dóm Hæstaréttar 29. júní 1983 í máli nr. 89/1980 sem birtur er í dómasafni 1983 á blaðsíðu 1538.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að við ákvörðun bóta skuli beita einum af þremur mælikvörðum við að staðreyna fullar bætur til eignarnámsþola, mælikvörðum söluverðs, notagildis eða enduröflunarverðs. Málsaðilar eru sammála um að síðastgreindi mælikvarðinn geti ekki átt hér við. Af eðli fallréttinda leiðir að mælikvörðum söluverðs og notagildis verður ekki afbrigðalaust um þau beitt. Kemur þar til að tilvikin, þar sem landeigendur hafa ýmist selt slík réttindi eða hagnýtt sjálfir, eru fá í samanburði við önnur réttindi sem tíðast ganga kaupum og sölum í viðskiptum manna á milli og helst reynir á við framkvæmd eignarnáms. Frjáls verðmyndun á fallréttindum hefur því ekki verið til staðar hér á landi, þegar um er að ræða réttindi sem nýtt eru til framleiðslu raforku til stóriðju.

Til þess er þó að líta að frá því farið var að vinna raforku úr vatnsafli hér á landi hafa fallréttindi og önnur orkunýtingarréttindi gengið kaupum og sölum og þau verið arðberandi í höndum eigenda. Verðmæti þeirra hefur og í nokkrum tilvikum verið metið til fjár og þá ýmist af matsnefnd eignarnámsbóta, dómkvöddum matsmönnum, sérstökum úrskurðarnefndum eða gerðardómum sem rétthafar og orkufyrirtæki hafa sameiginlega falið að leysa úr ágreiningi um verðmæti réttindanna. Þeir úrskurðir og matsgerðir sem hér er skírskotað til liggja fyrir í málinu og endurspegla ákveðin viðhorf og sjónarmið sem lögð hafa verið til grundvallar hér á landi við mat á verðmæti vatnsréttinda. Falla þau um flest í sama farveg og var á þeim í meginatriðum byggt í úrskurði matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar, eins og nánar verður rakið í kafla VII hér á eftir. Er þá næst að því að huga hver þessi sjónarmið eru og hvort þau séu samrýmanleg reglu 72. gr. stjórnarskrárinnar um að fullt verði skuli koma fyrir eignarnumin verðmæti. Í framhaldinu þarfnast skoðunar hvort einhverjar þær breytingar hafi orðið á íslenskum lögum sem valdi því að vikið skuli frá þeim sjónarmiðum sem í matsgerðunum og úrskurðunum koma fram.

VII

Samkvæmt 2. gr. raforkulaga taka þau til vinnslu, flutnings, dreifingar og viðskipta með raforku á íslensku forráðasvæði án tillits til orkugjafa. Orkulind er í 3. gr. sömu laga skilgreind sem náttúruleg uppspretta orku í ákveðnu formi og eru í dæmaskyni nefnd vatnsföll, jarðhitageymar, sjávarföll, vindur og sólarljós, en einnig olíu- og gaslindir og kolanámur. Ráðherra er í 1. mgr. 23. gr. laganna veitt heimild til að taka eignarnámi land, landgæði, mannvirki, aðstöðu og önnur réttindi landeiganda að því leyti sem nauðsyn ber til, ef ekki næst samkomulag við landeiganda eða eiganda orkulindar vegna framkvæmda á grundvelli laganna. Afhendir ráðherra síðan viðkomandi fyrirtæki þau réttindi sem eignarnámi hafa verið tekin. Í 5. mgr. 23. gr. segir að um framkvæmd eignarnáms fari eftir almennum reglum. Jafnframt er tekið fram að við ákvörðun eignarnámsbóta skuli taka sérstakt tillit til óvissu um orkulindina og kostnaðar af leit og vinnslu. Lagaákvæði þetta er samhljóða 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Öðrum skráðum réttarreglum er ekki til að dreifa sem gagngert mæla fyrir um hver sjónarmið skuli leggja til grundvallar verðmati orkulinda sem teknar eru eignarnámi, ef frá er talin 140. gr. vatnalaga eins og hún var fyrir þá breytingu sem gerð var með lögum nr. 132/2011.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir niðurstöðum matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar. Eins og þar kemur fram taldi matsnefndin í úrskurði sínum nærtækast við úrlausn á ágreiningi málsaðila að líta til fordæma sem fyrri úrlausnir veittu um ákvörðun á verði fallréttinda og vísaði þar einkum til matsgerðar 10. ágúst 1992 um ákvörðun bóta fyrir fallréttindi Blöndu. Í Blöndu hagar svo til að áin er stífluð við Reftjarnarbungu, um það bil miðja vegu milli upptaka og árósa, og þar myndað miðlunarlón. Úr lóninu er ánni veitt um skurði og stöðuvötn út eftir Auðkúluheiði um 24 km leið að inntaki á Eiðsstaðabungu, en þaðan fellur vatnið um 287 m um aflstöðina út í farveginn á ný. Meðal vatnsrennsli í Blöndu til virkjunar er um 39 m³/sek, rennsli um allar þrjár vélar virkjunarinnar 61,5 m³/sek og afl vélanna alls um 150 MW. Orkugeta virkjunarinnar er 750 GWst á ári.

Matsnefnd Blönduvirkjunar lagði til grundvallar úrlausn sinni að vatnsréttindi væru réttindi sem nytu verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Af því leiddi að greiða skyldi fullt verð fyrir þau vatnsréttindi sem yfirtekin væru í þágu virkjunarinnar og bætur miðast við fjárhagslegt tjón rétthafanna eingöngu en ekki þann ávinning sem orkufyrirtækið kynni að hafa af framkvæmdinni. Í því mati væri til ýmissa atriða að líta sem tilgreind voru, þótt vægi hvers þáttar um sig væri ekki nefnt. Lagði matsnefndin þar í fyrsta lagi til grundvallar stærð og hagkvæmni virkjunarinnar, í öðru lagi samanburð hennar við aðra virkjunarkosti, í þriðja lagi dreifikerfi þeirrar orku sem til yrði, í fjórða lagi markað fyrir orkuna, í fimmta lagi að eðlilegt og sanngjarnt hlutfall þyrfti að vera milli verðs vatnsréttinda annars vegar og stofnkostnaðar virkjunarinnar hins vegar, og í sjötta lagi þann sérhag sem koma skyldi til frádráttar bótum samkvæmt 140. gr. vatnalaga. Matsnefnd Kárahnjúkavirkjunar leit til þessara sjónarmiða og taldi, eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, að rétt væri og í samræmi við niðurstöðu matsnefndar Blönduvirkjunar að miða bætur vatnsréttarhafa ásamt öðru við hlutfall af stofnkostnaði virkjunarinnar. Matsnefndirnar tvær lögðu þó til grundvallar mismunandi forsendur um nokkur atriði, og má þar helst nefna ólíka afstöðu þeirra til þess hvort stærð virkjunar ætti að leiða til lækkunar bóta.

Þær forsendur sem matsnefndir Blönduvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar byggðu á endurspegla í stórum dráttum sjónarmið sem áður hafði verið stuðst við í mati fallréttinda hér á landi. Er þá átt við matsgerðir um verðmæti vatnsréttinda jarðarinnar Úlfljótsvatns í Þingvallavatni, Sogi og Úlfljótsvatni vegna virkjunar Sogsins 28. maí 1929, verðmæti helmings vatnsréttinda jarðarinnar Efri-Brúar í Grímsnesi vegna Ljósafossstöðvar 18. desember 1935 og verðmæti vatnsréttinda jarðanna Dynjanda, Borgar og Rauðsstaða í Vestur-Ísafjarðarsýslu vegna Mjólkárvirkjunar 22. desember 1961. Þá er og til þess að líta að í dómi Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 388/2005, sem birtur er í dómasafni 2006 á blaðsíðu 192, var fjárhæð afsláttarkröfu vegna vanefnda seljanda á samningi um sölu jarðar byggð á matsgerð dómkvaddra manna, sem ekki hafði verið hnekkt með yfirmati, um verðmæti vatnsréttinda jarðarinnar Króks í Ásahreppi í Þjórsá vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar. Í þeirri matsgerð var við mat á verðmæti réttindanna í meginatriðum stuðst við þau sjónarmið sem áður eru rakin, og þá einkum þau sem fram koma í mati fallréttinda Blöndu. Loks er til þess að líta að fyrir liggja í málinu annars vegar gerðardómur 21. janúar 1976 um verðmæti jarðhitaréttinda við Svartsengi í nágrenni Grindavíkur og hins vegar úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta 30. desember 1980 um bætur vegna eignarnáms Deildartunguhvers í Borgarfirði. Þótt fallréttindi og jarðhitaréttindi séu eðlisólík og tækni við nýtingu þeirra ekki hin sama, eiga svipuð sjónarmið við að ákveðnu marki, þegar metnar eru bætur fyrir orkuréttindi sem nýtt eru til framleiðslu á rafmagni. Endurspegla gerðardómurinn frá 1976 og úrskurðurinn frá 1980 það viðhorf að teknu tilliti til þess sem skilur réttindin að.

VIII

Eins og fyrr greinir byggði matsnefnd Kárahnjúkavirkjunar í öllum aðalatriðum á svipuðum sjónarmiðum og áður höfðu verið lögð til grundvallar hér á landi við verðmat fallréttinda í tengslum við virkjunarframkvæmdir. Þessi viðmið eru í samræmi við þau sem nefnd eru í 5. mgr. 23. gr. raforkulaga og 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998, en þar kemur fram að taka beri sérstakt tillit til óvissu um orkulindina og kostnaðar við þá framkvæmd sem eignarnámið grundvallast á. Framangreind sjónarmið gefa raunhæfa mynd af því, hvernig unnt er við eignarnám að nálgast verðmat réttinda, sem í ljósi eðlis síns er jafn örðugt að meta til fjár og fallréttindi, þannig að fullar bætur komi fyrir. Þar sem þessi sjónarmið eru höfð að leiðarljósi í úrskurði matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar, hefur hún í öllum aðalatriðum lagt réttan grundvöll að niðurstöðu sinni um fullar bætur til áfrýjenda, en nánari afstaða verður tekin til einstakra sjónarmiða nefndarinnar hér á eftir. Af þessu leiðir að staðfest er sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að bætur til áfrýjenda verði ekki metnar með þeirri aðferð, sem þeir byggja fyrstu og aðra varakröfu sína á, að miða við hlutfall af brúttósöluverði seldrar raforku frá Kárahnjúkavirkjun.

IX

Í þriðju varakröfu sinni styðjast áfrýjendur sem fyrr segir við sérálit í úrskurði matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar. Segja áfrýjendur sérálitið byggja á notagildi réttindanna á þeim grundvelli, að verðmæti auðlindarinnar ráðist af markaðsverði afurðanna að frádregnum byggingarkostnaði, með tilliti til ávöxtunarkröfu orkufyrirtækisins. Verðmæti vatnsréttindanna sé þá ákveðið á fullkomlega upplýstum markaði, þar sem orkufyrirtækið fái þá ávöxtun sem eðlileg sé, og viðbótarávöxtun renni til vatnsréttarhafa. Aðferðin sé eðlileg í tilvikum þar sem ekki sé til staðar mótaður markaður fyrir tiltekin réttindi, enda óeðlilegt að við eignarnámsmat sé gert ráð fyrir því að annað hvort eignarnemi eða eignarnámsþoli semji af sér, hefðu samningar náðst. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi byggir niðurstaða sérálitsins í meginatriðum á þeirri forsendu að áfrýjendur eigi að fá í sinn hlut svokallaða auðlindarentu, en með því er átt við þann hagnað sem eftir stendur þegar orkufyrirtækið hefur fengið nánar tilgreinda ávöxtun á fjárfestingu sína. Er fallist á með héraðsdómi að sú aðferð samræmist ekki þeim sjónarmiðum sem miða ber við í verðmati fallréttinda samkvæmt íslenskum rétti og verður sérálitið þegar af þeirri ástæðu ekki lagt til grundvallar dómi í málinu.

X

Í málinu hafa sem fyrr segir verið lagðar fram tvær matsgerðir dómkvaddra manna um verðmæti þeirra vatnsréttinda sem um ræðir. Eins og greinir í kafla V hefur úrskurður matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar ekki ríkara sönnunargildi en þær matsgerðir, heldur ber að meta þær að verðleikum. Eins og málatilbúnaði aðila er háttað er þessu næst rétt að taka afstöðu til þessara matsgerða.

Fyrst er til að taka að fjórðu varakröfu sína í málinu styðja áfrýjendur við matsgerð Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar, en í henni var meðal annars svarað þeirri spurningu hver séu „verðmæti vatnsréttinda sem látin eru af hendi vegna Kárahnjúkavirkjunar.“ Eins og nánar greinir í kafla IV hér að framan er niðurstaða þeirra Ragnars og Birgis í matsgerð 31. mars 2010 byggð á aðferðum svokallaðrar samningaleikjafræði. Þær aðferðir eiga sér enga stoð í viðurkenndum sjónarmiðum sem leggja ber til grundvallar við ákvörðun eignarnámsbóta samkvæmt íslenskum rétti. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á með hinum áfrýjaða dómi að matsgerðin verði ekki lögð til grundvallar við ákvörðun bóta til handa áfrýjendum. Í annan stað er að geta matsgerðar Dan V.S. Wiium og Björn Þorra Viktorsson, þar sem meðal annars skyldi lagt mat á hverjar séu „hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa samkvæmt samningi aðila frá 13. desember 2005“. Niðurstaða matsgerðar þeirra 28. febrúar 2010 var eins og áður greinir sú að verðmæti vatnsréttindanna væri 3.936.438.724 krónur miðað við verðlag á matsdegi, og er fimmta varakrafa áfrýjenda á því reist. Eins og atvikum málsins háttar verður að taka afstöðu til matsgerðarinnar við úrlausn þess.

Aðila greinir á um tímamark til viðmiðunar þegar bætur í málinu eru metnar. Í aðalatriðum byggja áfrýjendur á því fyrir Hæstarétti að viðmiðunartími bóta sé í fyrsta lagi 22. ágúst 2007, þegar úrskurður matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar var kveðinn upp. Stefndi, sem krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms, byggði á því í héraði að við ákvörðun tímamarks bæri að líta til þess tíma þegar ákveðið var að byggja álver í Reyðarfirði á árunum 2002 til 2003, en öll hækkun á verðmæti fasteigna og vatnsréttinda áfrýjenda megi rekja til byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Í síðasta lagi skuli miðað við það tímamark, þegar áfrýjendur framseldu vatnsréttindi sín til stefnda með samningnum 13. desember 2005. Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir opinberum leyfum sem veitt voru til Kárahnjúkavirkjunar, upphafi framkvæmda þar og lokum þeirra. Með hliðsjón af því sem þar kemur fram og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða, að þegar stefndi undirritaði samninginn 13. desember 2005 hafi hann tekið umráð þeirra fallréttinda sem hér um ræðir og að áhættuskipti hafi þá orðið með sömu réttaráhrifum og réttindin hefðu verið tekin eignarnámi. Eftir það tímamark verður ekki horft til annarra breytinga á aðstæðum en þeim sem felast í því að verðmæti réttinda ákvarðast á grundvelli verðlags á matsdegi. Í því sambandi skal áréttað það sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi að matsnefnd Kárahnjúkavirkjunar taldi að ekki hefðu orðið verðbreytingar, umfram almennar verðlagshækkanir, á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar frá árinu 2002 til loka árs 2005.

Fjórða spurningin sem lögð var fyrir matsmennina Dan V.S. Wiium og Björn Þorra Viktorsson var hvert væri líklegt söluverð vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, annars vegar í árslok 2002 og hins vegar í árslok 2005, með hliðsjón af þekktum fordæmum og að virtri sérstöðu virkjunarinnar. Matsmennirnir töldu að hvorki væru forsendur til að áætla söluverð vatnsréttindanna í árslok 2002 né í árslok 2005. Þá skyldu matsmennirnir í fimmta lagi svara því, hverjar væru hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa samkvæmt samningnum 13. desember 2005. Þeir töldu hæfilegar bætur vera 3.936.438.724 krónur miðað við verðlag á matsdegi sem var 28. febrúar 2010. Með vísan til þess sem fram kemur í kafla XI hér á eftir er fallist á með héraðsdómi að í matsgerðinni sé um ýmis veigamikil atriði tekið mið af atvikum, sem ýmist komu til eftir áhættuskipti eða hafa ekki orðið, og verður hún af þeirri ástæðu ekki lögð til grundvallar ákvörðun bóta í málinu.

XI

Ný raforkulög tóku gildi 7. apríl 2003 en komu til framkvæmda 1. júlí sama ár og varð þá grundvallarbreyting á skipan raforkumála hér á landi. Breytingin fólst einkum í því að svokallaðir náttúrulegir einkasöluþættir raforkukerfisins og þeir þættir þar sem samkeppni verður komið við voru skildir að. Vinnsla og sala raforku var með lögunum gefin frjáls og er nú rekin á samkeppnisgrundvelli, en til flutnings og dreifingar þarf eftir sem áður sérleyfi.

Áfrýjendur reisa málatilbúnað sinn meðal annars á því að gildistaka nýrra raforkulaga hafi leitt af sér grundvallarbreytingu á verðmati vatnsréttinda hér á landi. Í tíð eldri laga hafi samkeppni í orkuframleiðslu verið takmörkuð og markaðsháð eftirspurn eftir vatnsréttindum ekki verið fyrir hendi. Þessu hafi nýju lögunum verið ætlað að breyta, þau hafi tekið gildi í áföngum, séu nú að fullu komin til framkvæmda, fjölmörg ný orkufyrirtæki hafi orðið til og samkeppni skapast. Af þessu leiði að samningar og úrlausnir um verðmæti vatnsréttinda frá tíð eldri raforkulaga hafi enga þýðingu til viðmiðunar í þessu máli. Raforkuframleiðandi geti nú selt raforku til almenningsnota, jafnvel þótt aðrir framleiðendur fylli þann markað, með því að bjóða lægra verð en þeir. Raforkusala frá nýju orkuveri verði því ekki einskorðuð við afmarkaðan hluta íslensks raforkumarkaðar í mati á virði þeirra fallréttinda sem orkuver nýti. Matið eigi að vera óháð notkun, enda kunni hún að breytast í framtíðinni. Ljóst sé að möguleikar til sölu á almennum markaði takmarkist af kostnaði við flutning raforku og orkutöpum því samfara. Það sé hins vegar grundvallareinkenni orkumarkaðar fyrir stóriðju að staðsetning orkufrekrar starfsemi ráðist af því hvar orkulindir sé að finna, og gildi þetta hvort sem litið sé á þennan markað í alþjóðlegu samhengi eða einungis á Íslandi. Niðurstaða matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar sé í ósamræmi við nýju raforkulögin og hafna áfrýjendur þeirri afstöðu nefndarinnar að breytingar á rekstrarumhverfi raforkuvera gildi eingöngu um innanlandsmarkað raforku í þeim skilningi að stóriðja teljist ekki hluti hans. Raforkulög geri engan greinarmun í þessum efnum og í raun hafi þau haft mun ríkari áhrif á samkeppni í rafmagnssölu til stóriðjunotenda en annarra. Stefndi telur á hinn bóginn að gildistaka nýrra raforkulaga ein og sér hafi engu breytt um verðmæti vatnsréttinda til vatnsaflsvirkjana sem nýti stór vatnsföll sem streymi um fjölmargar landareignir. Hefðbundnar lagareglur og sjónarmið um ákvörðun eignarnámsbóta eigi því við þegar vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar séu metin, enda hefði með skýrum hætti þurft að mæla fyrir um það í lögunum ef gildistaka þeirra hefði átt að hafa þau áhrif að breyta gildandi reglum um ákvörðun eignarnámsbóta.

Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega gerð grein fyrir sjónarmiðum matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar um framangreint ágreiningsefni. Eins og þar greinir er íslenskur raforkumarkaður í raun tvískiptur, annars vegar í almennan markað og hins vegar markað fyrir stóriðju. Þótt slík aðgreining komi ekki fram í raforkulögum, ræðst hún eðli máls samkvæmt af markaðsaðstæðum og endurspeglast meðal annars í tæknilegum mun og mismunandi orkuverði. Með því frelsi til framleiðslu og sölu á raforku, sem leiddi af gildistöku nýrra raforkulaga, hefur að sönnu orðið til vísir að starfsemi sem rekin er á samkeppnisgrundvelli. Til viðbótar þeim virkjunum sem fyrir voru hafa eftir gildistöku nýrra raforkulaga komið inn á markaðinn nokkrar smávirkjanir þar sem leigusamningar hafa verið gerðir um hagnýtingu vatnsréttinda en þau ekki látin varanlega af hendi. Þessar smávirkjanir selja á hinn bóginn framleiðslu sína á innanlandsmarkaði til almennrar notkunar, tengjast dreifikerfi í heimabyggð og samningur við dreifiveitu eða flutningsfyrirtæki þarf að liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi, sbr. 3. mgr. 5. gr. raforkulaga. Sú verðmyndun sem verður til í slíkum leigusamningum getur því ekki orðið raunhæft viðmið í verðlagningu fallréttinda sem framseld eru orkufyrirtæki í eitt skipti fyrir öll og hagnýtt af þess hálfu til framleiðslu orku í stórvirkjun sem styðst við sjálfstætt flutningskerfi og tengist þar með ekki hinu almenna dreifikerfi raforku í landinu. Er þá einnig haft í huga að stórvirkjanir hér á landi eru háðar sölu til stórnotenda og mótast raforkuverð til þeirra ekki af innlendri samkeppni á almennum raforkumarkaði, heldur koma þar aðrir þættir til skoðunar, svo sem samanburður við erlenda orkugjafa og verðlagning orku þeirra, nálægð orkuvers við markaði fyrir hráefni og fullunnar vörur og heimsmarkaðsverð tiltekinna framleiðslutegunda.

Í málatilbúnaði sínum vísa áfrýjendur til réttarframkvæmdar í Noregi og telja hana geta haft þýðingu við mat á verðmæti fallréttinda hér á landi. Í því sambandi ber að hafa í huga, að þrátt fyrir gildistöku nýrra raforkulaga er Ísland og verður eyland í raforkusölu þar til tenging næst um sæstreng til annarra landa, ef sá kostur verður að veruleika. Að þessu leyti eru markaðsaðstæður á Íslandi og í Noregi mjög ólíkar, því raforkukerfi Noregs er samtengt raforkukerfi nágrannalandanna og þar með raforkukerfi Evrópu. Auk þess er framboð fallréttinda með allt öðrum og takmarkaðri hætti í Noregi en hér á landi, en takmarkað framboð tiltekinna gæða er almennt til þess fallið að hafa áhrif á verðlagningu þeirra og þá til hækkunar. Gögn málsins styðja því þá afstöðu matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar að fordæmi um verðlagningu fallréttinda verði ekki sótt til Noregs vegna þeirra virkjana sem þar hafa verið reistar í seinni tíð.

Af framangreindu leiðir að hvorki verður fallist á með áfrýjendum að gildistaka nýrra raforkulaga hafi leitt til þess að önnur sjónarmið en hingað til hefur verið stuðst við í framkvæmd hér á landi verði lögð til grundvallar verðmati fallréttinda né að tilvitnuð dæmi frá Noregi fái þeim sjónarmiðum breytt.

XII

Í kafla VIII hér að framan var þess getið að í öllum aðalatriðum hafði matsnefnd Kárahnjúkavirkjunar að leiðarljósi í úrskurði sínum sömu sjónarmið og matsnefnd Blönduvirkjunar studdist við á sínum tíma. Þau lúta fyrst og fremst að stærð og hagkvæmni virkjunar, samanburði hennar við aðra virkjunarkosti, dreifikerfi þeirrar orku sem til verður, markaði fyrir orkuna, þeim sérhag sem koma skal til frádráttar bótum samkvæmt vatnalögum og að sanngjarnt og eðlilegt hlutfall sé á milli verðs vatnsréttinda annars vegar og stofnkostnaðar virkjunar hins vegar. Jafnframt var í kafla VIII komist að þeirri niðurstöðu að þessi sjónarmið gefi raunhæfa mynd af því hvernig nálgast skal verðmat fallréttinda, þannig að fullar bætur komi fyrir, og að sjónarmiðin séu í samræmi við þau sem nefnd eru í 5. mgr. 23. gr. raforkulaga og 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998. Eðli máls samkvæmt verður vægi einstakra þátta í slíku mati ekki sundurgreint með nákvæmum hætti, heldur hlýtur heildarmat og samspil ólíkra og að sumu leyti matskenndra þátta að ráða niðurstöðu.

Þegar afstaða er tekin til úrskurðar matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar og einstakra atriða í forsendum hans er þess fyrst að geta að virkjunin á sér enga hliðstæðu í sögu íslenskra vatnsaflsvirkjana hvað stærð varðar. Orkuvinnsla hennar er 4.570 GWst á ári og er því ríflega tvöfalt meiri en orkuvinnsla Búrfellsvirkjunar sem skilar 2.093 GWst á ári og er næst stærst vatnsaflsvirkjana hér á landi. Til samanburðar skal nefnt að í áformum um svokallaða Fljótsdalsvirkjun sem fólust í virkjun Jökulsár í Fljótsdal við Eyjabakka var miðað við að sú virkjun skilaði 210 MW afli fyrir álver sem framleitt gæti 200.000 tonn á ári. Framleiðslugeta álvers Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði mun á hinn bóginn vera á bilinu 360.000 til 420.000 tonn á ári. Fljótsdalsstöð er því langstærst vatnsaflsvirkjana stefnda, 690 MW að uppsettu afli, en samkvæmt gögnum málsins er uppsett afl Búrfellsstöðvar 270 MW, Hrauneyjafossstöðvar 210 MW, Blöndustöðvar 150 MW, Sigöldustöðvar 150 MW, Sultartangastöðvar 120 MW, Vatnsfellsstöðvar 90 MW og annarra vatnsaflsstöðva umtalsvert minna.

Í tengslum við stærð Kárahnjúkavirkjunar þarf að hafa í huga að virkjun þeirra þriggja vatnsfalla sem nýtt eru til að framleiða rafmagn í Fljótsdalsstöð er flókið verkefni sem kallaði á langan og kostnaðarsaman undirbúning og var á fárra færi tæknilega og fjárhagslega að ráðast í. Nam rannsóknakostnaður á árunum 1983 til 2003 samkvæmt gögnum málsins 6.146.000.000 krónum á verðlagi ársins 2006. Ákvörðun um hvort ráðist er í virkjun hlýtur ávallt að byggja á mati á stofnkostnaði hennar og samspili þess kostnaðar og áætlaðra tekna, eins og matsnefnd Kárahnjúkavirkjunar benti á. Því lægri sem stofnkostnaður er sem hlutfall af áætluðum tekjum þeim mun meira verður virði þeirra réttinda sem virkjuð eru, og því haldast ávallt í hendur arðsemi og hlutfallslegur kostnaður. Framreiknaður stofnkostnaður Blönduvirkjunar, miðað við breytingar á byggingarvísitölu frá úrskurðardegi í júlí 1991 til og með ágúst 2007, nemur samkvæmt útreikningum matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar 26.400.000.000 krónum, en stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar var að mati nefndarinnar um 110.000.000.000 krónur. Þar sem orkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar mun vera 4.660 GWst á ári en Blönduvirkjunar 750 GWst, er stofnkostnaður á orkueiningu í Kárahnjúkavirkjun samkvæmt þessum útreikningum 23.600.000 krónur á hverja GWst en 35.200.000 krónur í Blönduvirkjun. Í ljósi þessa samanburðar er Kárahnjúkavirkjun vegna stærðar sinnar mjög hagkvæmur virkjunarkostur. Eru engin efni til annars en að virða stærð og hagkvæmni Kárahnjúkavirkjunar til hækkunar bóta til vatnsréttarhafa svo sem matsnefndin gerði.

Þegar ráðist var í Kárahnjúkavirkjun voru efnahagsleg umsvif á svæðinu í nánd hennar samkvæmt gögnum málsins lítil og eftirspurn þar eftir raforku í samræmi við það. Við mat á markaðsaðstæðum á þeim tíma þegar ráðist var í framkvæmdirnar er til þess að líta að Kárahnjúkavirkjun var sérstaklega hönnuð til að selja orku til álvers Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði. Framkvæmdir við álverið og virkjunina héldust því í hendur og gat hvorug fjárfestingin án hinnar verið. Endingartími Kárahnjúkavirkjunar er samkvæmt gögnum málsins talinn verða 63 ár, en orkusölusamningur stefnda við álverið er til 40 ára. Er því ákveðin óvissa um framtíðarnot virkjunarinnar að samningstíma loknum og þau að öllum líkindum háð því að stórnotandi verði áfram til staðar. Samkvæmt gögnum málsins nýtir almenni raforkumarkaðurinn nú um 3.000 GWst á ári. Tryggð orkugeta Kárahnjúkavirkjunar er hins vegar um 4.660 GWst á ári sem svarar til meira en 60 ára aukningar innanlandsmarkaðar eins og hann var á árunum 1996 til 2006. Því er ljóst að hinn almenni raforkumarkaður myndi aldrei geta tekið við framleiðslu virkjunarinnar ef vanefndir yrðu af hálfu Alcoa Fjarðaáls sf. á raforkukaupum. Samkvæmt þessu er fallist á með héraðsdómi, að áfrýjendur hafi ekki sýnt fram á að eftirspurn eftir vatnsréttindum þeirra hafi verið fyrir hendi til framleiðslu raforku sem seld yrði hærra verði en því sem stóriðja greiðir almennt. Þá hafa hvorki verið leidd að því rök í málinu að öðrum kaupanda en stefnda hafi verið til að dreifa við upphaf framkvæmda sem hafi haft fjárhagslega og tæknilega getu til að ráðast í þær og verið jafnframt reiðubúinn til að greiða hærra gjald fyrir réttindin, né hefur verið gert líklegt að svo geti orðið í nálægri framtíð. Verður að leggja mat á virði vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar meðal annars í þessu ljósi.

 Markaður fyrir orku Kárahnjúkavirkjunar var sem fyrr segir háður því að um sölu til stórnotanda yrði að ræða. Þótt raforka sé hér á landi framleidd bæði úr jarðhita og fallvatni verður af gögnum málsins ekki ráðið, að þess hafi verið kostur að nýta aðra innlenda orkugjafa til framleiðslu raforku, sem seld yrði álverinu í Reyðarfirði á lægra verði en því sem stefndi samdi um við Alcoa Fjarðaál sf. Um samkeppni við aðra innlenda orkugjafa var því ekki að ræða og verður til þessa atriðis að líta við mat á virði þeirra fallréttinda sem áfrýjendur afhentu stefnda á grundvelli samningsins 13. desember 2005.

 Samkvæmt 6. tölulið 3. gr. raforkulaga er flutningskerfi raforku skilgreint sem raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til flutnings raforku frá virkjunum til stórnotanda og til dreifiveitna á tilgreindum afhendingarstöðum. Við mat á virði fallréttinda hér á landi hefur jafnan verið litið til þess hversu nærri hinu almenna flutningskerfi raforku fyrirhuguð virkjun liggur. Er það af skiljanlegum ástæðum talið virkjunarkosti til tekna að fjarlægðin sé sem minnst, enda er það orkufyrirtækið sem þarf að standa straum af kostnaði við að flytja orkuna frá virkjun til hins almenna flutningskerfis eða ákveðins stórnotanda. Skal í þessu sambandi bent á að samkvæmt gögnum málsins hefur kostnaður við orkuflutningsmannvirki frá tengivirki í Fljótsdalsstöð og að álveri Alcoa Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði ávallt verið talinn sem hluti stofnkostnaðar Kárahnjúkavirkjunar, og var gert ráð fyrir því að sá kostnaður gæti hækkað um allt að 9.000.000.000 krónur vegna flutningsvirkjanna. Þegar mat er lagt á virði þeirra fallréttinda sem nýtt eru til framleiðslu raforku í Kárahnjúkavirkjun verður að hafa í huga, að staðsetning hennar er á ystu mörkum raforkukerfisins og jafnframt að flutningsgeta byggðalínu, sem er hluti hins almenna flutningskerfis raforku í landinu, er óveruleg í hlutfalli við framleiðslu virkjunarinnar. Eini möguleiki þess að koma framleiðslu virkjunarinnar á markað var því annað hvort með sérstökum flutningsvirkjum til þess eina kaupanda sem fannst að orkunni, svo sem reyndin varð, eða með styrkingu hins almenna flutningskerfis og þeim kostnaði sem því hefði verið samfara fyrir orkufyrirtækið að taka þátt í. Horfir þetta atriði til lækkunar þegar mat er lagt á virði þeirra fallréttinda sem nýtt eru til framleiðslu raforku í Kárahnjúkavirkjun.

Stefndi reisir kröfur sínar meðal annars á því að við mat á virði fallréttinda þurfi almennt að ná fram niðurstöðu sem tryggi sanngjarnt og eðlilegt hlutfall á milli virkjunarkostnaðar og verðmætis þeirra fallréttinda sem nýtt eru í viðkomandi virkjun. Bendir hann í því sambandi á að verðmæti vatnsréttinda megi aldrei verða svo stór hluti stofnkostnaðar við framkvæmd, að hann einn og sér ráði því hvort virkjun verði hagkvæm og þar með hvort í hana verði ráðist. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að framangreint atriði sé meðal þeirra sjónarmiða sem taka beri tillit til þegar lagt er mat á virði fallréttinda, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í 5. mgr. 23. gr. raforkulaga og 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998. Er með þessu matskennda viðmiði leitast við að tryggja jafnvægi milli hagsmuna vatnsréttarhafa og orkufyrirtækis og þar með framgang þeirra samfélagslegu hagsmuna sem búa að baki eignarnámsákvæðum þeirra laga sem um hagnýtingu orkulindar gilda. Þess er áður getið að stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar var talinn hafa verið að minnsta kosti 110.000.000.000 krónur og er samkvæmt gögnum málsins þar miðað við verðlag í apríl 2007. Aðalkrafa áfrýjenda tekur sem fyrr segir mið af því að heildarverðmæti vatnsréttinda sem nýtt eru í Kárahnjúkavirkjun nemi 24.903.110.048 krónum. Sú fjárhæð jafngildir um 40% eigin fjár stefnda eins og það var í árslok 2006. Þegar þetta er virt, horft er til líklegrar vatnsaukningar vegna gróðurhúsaáhrifa, grænna vottorða, kolefniskvóta, líklegrar hækkunar heimsmarkaðsverðs á raforku og annarra þeirra atriða sem áfrýjendur vísa til, er fallist á með héraðsdómi að leggja til grundvallar þá niðurstöðu úrskurðarins 22. ágúst 2007 að hæfilegt sé að ákveða bætur á þeirri forsendu að grunnverðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar sé 1,4% af áætluðum stofnkostnaði virkjunarinnar eða 1.540.000.000 krónur. Í ljósi þessarar niðurstöðu og kröfugerðar stefnda hér fyrir dómi þarf ekki að taka afstöðu til málsástæðna hans um lækkun bóta vegna ávinnings áfrýjenda af framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og hagræðis þeirra af eingreiðslu bóta.

Fyrir Hæstarétti leita málsaðilar ekki endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um skiptingu bóta vegna vatnsréttindanna milli áfrýjenda innbyrðis. Að virtri 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eru ekki efni til að verða við kröfu áfrýjenda um að dæma vexti á annan veg en gert var í héraði. Sem fyrr segir greiddi stefndi áfrýjendum 23. febrúar 2011 að fullu fyrir hlutdeild þeirra í vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms, en fyrir Hæstarétti hefur stefndi þó ekki krafist sýknu á þeim grunni. Verður því tekin til greina krafa hans um staðfestingu héraðsdóms að þessu leyti.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Rétt er að hver aðila málsins beri sinn kostnað af rekstri þess fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður vera.

          Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 25. janúar 2011.

                Mál þetta er höfðað 11. janúar 2008 með 39 stefnum, þar af 37 vegna vatnsréttinda jarða sem land eiga að Jökulsá á Dal en tveggja jarða sem eiga land að Kelduá. Stefnendur í hverri stefnu eiga samaðild en milli „stefnendahópanna“ eru þau tengsl að þeir teljast geta átt samlagsaðild og voru málin af þeim sökum sameinuð undir rekstri þeirra með heimild í c. lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Var málið fyrst tekið til dóms 1. september sl. að lokinni aðalmeðferð. Dómendur og lögmenn fóru á vettvang 31. ágúst sl. Málið var endurflutt 10. janúar 2011 og tekið til dóms að nýju.

                Í málinu deila aðilar um verðmæti vatnsréttinda sem stefnendur sem eigendur vatnsréttinda, annars vegar við Jökulsá á Dal en hins vegar við Kelduá, létu stefnda Landsvirkjun í té og stefndi nýtir til raforkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Ekki er í máli þessu deilt um hvaða hlutfall hverjum stefnenda, eða eftir atvikum fleiri en einum stefnenda sem eiga nánar tilgreind vatnsréttindi í óskiptri sameign, beri af heildarverði umræddra vatnsréttinda, en aðeins um það hvert það verð skuli vera.

I

Aðilar málsins og kröfur, sem og atriði er sérgreina hverja kröfu fyrir sig.

                Mál þetta varðar verðmæti vatnsréttinda margra jarða og eru þær í nokkrum tilvikum í eigu margra aðila. Þá er oft um það að ræða að vatnsréttindi eru í óskiptri sameign fleiri en einnar jarðar. Kröfugerð er sett fram með sama hætti í öllum stefnum málsins og í hverri stefnu eru stefnendur sameigendur þeirra réttinda sem um ræðir. Vaxtadagsetningar eru þær sömu í öllum stefnunum en fjárhæðir mismunandi, allt í samræmi við hlutfallstölu hvers „stefnendahóps“ fyrir sig af heildarverðmæti vatnsréttindanna. Hér á eftir verður einfaldlega vísað til stefnenda í einu lagi til hagræðis og þegar rætt verður um stefnanda í eintölu er vísað til hlutaðeigandi „stefnendahóps“, en það er þá sá, eða þeir, sem gera sjálfstæða kröfu í málinu. Getur þá slíkur „hópur“ innihaldið einn eða fleiri stefnendur.

                Til hagræðis verður gerð grein fyrir kröfugerð stefnenda með þeim hætti að fyrst verður gerð grein fyrir þeim þætti krafna þeirra sem sameiginlegur er. Þá verður gerð grein fyrir stefnda og kröfum hans. Loks verður rakið hverjir eru stefnendur í hverju hinna upphaflegu mála og hvaða jörð, jarðir eða önnur réttindi þeir eiga sem máli skipta fyrir úrlausn málsins. Vísað er til þess hvorum megin ár hlutaðeigandi jarðir liggja í samræmi við málvenju á svæðinu og ætti ekki að valda vafa. Gerð verður grein fyrir fjárhæð krafna hvers hóps stefnenda fyrir sig og hvaða fjárhæð stefndi greiddi til hlutaðeigandi þann 22. febrúar 2008. Samtals námu greiðslur stefnda til allra stefnenda 282.416.394 krónur sem stefndi skipti þannig að 268.448.9037 krónur væri höfuðstóll en 13.967.457 krónur væru vextir. Ekki þykir ástæða til að greina hverja einstaka greiðslu í höfuðstól og vexti. Loks verður tilgreint úr úrskurði matsnefndar hver hæðarmunur er efri og neðri landamerkja jarðarinnar í metrum, eða svokallað fall fyrir landi jarðarinnar og hvaða prósentuhlutfall umræddri jörð/jörðum ber af svonefndum grunnbótum fyrir öll vatnsréttindi sem nýtt voru, en grunnbæturnar námu samtals 1.540.000.000 króna. Hlutfallstala hverrar jarðar/jarða miðast við fyrrnefndar grunnbætur og við ákvörðun hennar hefur verið horft til hlutfallsskiptingar milli umræddra vatnsfalla sem ekki er deilt um í málinu. Þá er hlutfallstalan einnig reiknuð þannig að niðurstaða felur einnig í sér sérstakt álag sem eigendum vatnsréttinda við hverja á var ákveðið. Vegna Jökulsár á Dal er þetta álag 4,254% en vegna Kelduár er það 7,339%. Númer sem hverri kröfu er gefið vísar til upphaflegs málsnúmers hlutaðeigandi stefnu en við þingfestingu fengu málin er varða Jökulsá á Dal málsnúmerin E-1/2008 til E-37/2008, en málin er varða Kelduá fengu númerin E-39/2008 og E-40/2008.

                Stefnendur eru hér síðar nafngreindir eigendur nánar tilgreinds hluta vatnsréttinda við Jökulsá á Dal og Kelduá.

                Stefndi er Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.

                Stefnendur gera allir aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu um greiðslu fjárhæða, sem síðar verða tíundaðar. Í öllum tilvikum krefjast þeir vaxta af dæmdri fjárhæð samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2006 til 28. september 2006 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum allra stefnenda en til vara að kröfurnar sæti lækkun og við þá lækkun verði tekið tillit til innborgana sem stefndi greiddi 22. febrúar 2008. Þá krefst hann málskostnaðar.

                1. Eigendur jarðanna Brúar I og II við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Sigvarður Halldórsson, Brú I, Fljótsdalshéraði og Stefán Halldórsson, Brú II, Fljótsdalshéraði. Kemur fram í stefnu að hvorri jörð fylgi 50% eignarhlutur í óskiptu landi Brúar og réttindum jarðarinnar, þ.m.t. þeim réttindum sem fjárkrafa þeirra varði. Eignarhlutur stefnenda sé þar með 100%.

                Þeir krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.818.766.264 krónur, til vara 1.044.203.486 krónur, en að því frágengnu 384.054.263 krónur.

                Stefndi hefur greitt 31.110.689 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 60,47 metrar og grunnhlutfallstala er 3,84053%.

                2. Eigendur jarðarinnar Eiríksstaða við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Bragi S. Björgvinsson, Eiríksstöðum, Fljótsdalshéraði, Sigurður Björgvinsson, Birkihlíð 46, Reykjavík, Jakob Bjarnar Grétarsson, Bárugötu 35, Reykjavík, Stefán Snær Grétarsson, Túngötu 44, Reykjavík, Elín Bergljót Björgvinsdóttir, Ásgarði 77, Reykjavík, Stefanía Katrín Karlsdóttir, Hæðarbyggð 18, Garðabæ, Jakob Karlsson, Litluskógum 2, Egilsstöðum og Grétar Karlsson, Bláskógum 5, Egilsstöðum. Við höfðun málsins var Gunnlaugur Snædal, Vesturbrún 12, Reykjavík, meðal stefnenda en hann lést undir rekstri málsins og tóku Jón Snædal, Kristján Snædal og Gunnlaugur Snædal við aðild málsins fyrir hönd hins látna.

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.083.192.729 krónur, til vara 1.064.373.967 krónur, en að því frágengnu 283.833.058 krónur.

                Stefndi greiddi 22.992.173 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 44,69 metrar og grunnhlutfallstala 2,83832%.

                3. Eigendur jarðanna Fossvalla I og II við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Anna Björg Einarsdóttir, Fossvöllum I, Fljótsdalshéraði og Ragnheiður Ragnarsdóttir, Fossvöllum II, Fljótsdalshéraði. Kemur fram í stefnu að Anna Björg sé þinglýstur eigandi Fossvalla I, landnúmer 156-854 og stefnandi Ragnheiður sé þinglýstur eigandi Fossvalla II, landnúmer 156-857. Fossvellir II hafi verið stofnaðir samkvæmt sérstöku afsali 1976 og með því hafi verið gerð grein fyrir skiptingu ræktaðs og ræktanlegs lands, en að öðru leyti sé land og réttindi jarðarinnar í óskiptri sameign. Sé í stefnu vísað til jarðarinnar, sem upphaflegs lands Fossvallajarðarinnar.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 247.988.036 krónur, til vara 126.705.516 krónur, en að því frágengnu 33.788.138 krónur.

                Stefndi greiddi samtals 2.737.040 krónur, en niðurstaða matsnefndar um umrædda jörð er í þremur hlutum og innborganir stefnda eru einnig greindar í þremur hlutum, 730.563 krónur, 1.347.941 króna og 658.536 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er samtals 5,32 metrar (1,42+1,28+2,62) og grunnhlutfallstala samtals 0,33788% (0,09019+0,08129+0,16640).

                4. Eigendur bótaréttar vegna skerðingar á vatnsréttindum Jökulsár á Dal fyrir landi Geirastaða II við austurbakka árinnar, eru í stefnu sagðir Mikael Jónsson, Norðurgötu 7, Seyðisfirði og Landsbanki Íslands hf. Undir rekstri málsins var upplýst að Nýi Landsbanki Íslands hf., með sama heimilisfang hefði tekið við aðild málsins af síðarnefnda aðilanum. Kemur fram í stefnu að stefnandi Mikael hafi verið eigandi Geirastaða II, en hafi selt Landsbanka Íslands hf. jörðina á árinu 2002. Við gerð kaupsamningsins hafi verið þinglýst sérstakri yfirlýsingu um skiptingu bóta vegna missis eða afnota vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar hafi stefnanda Mikael verið áskilinn 50% hlutur bóta en Landsbankanum hf. sem kaupanda jarðarinnar 50%. Við sölu jarðarinnar Geirastaða II til Þorsteins Gústafssonar, sem sé þinglýstur eigandi jarðarinnar, hafi Landsbankinn hf. haldið eftir rétti til þeirra bóta vegna vatnsréttinda sem jörðinni hafi fylgt. Þinglýstur eigandi jarðarinnar eigi þar með ekki rétt til bótagreiðslna fyrir vatnsréttindi sem skerðist vegna Kárahnjúkavirkjunar og hafi hann ásamt stefnendum ritað undir sérstaka yfirlýsingu þar um þar sem fallist sé á umfang þeirra vatnsréttinda sem látin séu af hendi til stefnda vegna virkjunarinnar. Liggi yfirlýsingin fyrir í málinu. Jörðin Geirastaðir II hafi orðið til við skiptingu Geirastaða árið 1954. Við skiptin hafi allt land Geirastaða sem liggi að Jökulsá á Dal komi í hlut Geirastaða II. Um það vísist til skiptasamnings og landamerkjabréfs Geirastaða sem fyrir liggi í gögnum málsins, sem og af loftmynd þar sem s.k. Kaldhöfði komi fram. Mælingar við Jökulsá á Dal séu, t.d. á dómskjali nr. 87, bls. 202-203, ranglega merktar Geirastöðum I og II ein eigi einungis við Geirastaði II.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 103.949.872 krónur, til vara 53.111.523 krónur, en að því frágengnu 14.163.073 krónur.

                Stefndi greiddi 1.147.294 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 2,23 metrar og grunnhlutfallstala 0,14163%.

                5. Eigendur jarðarinnar Grundar við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Jakob Karlsson, Litluskógum 2, Egilsstöðum, Grétar Urðar Karlsson, Bláskógum 5, Egilsstöðum og Stefanía Katrín Karlsdóttir, Hæðarbyggð 18, Garðabæ.

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 723.453.819 krónur, til vara 369.637.144 krónur, en að því frágengnu 98.569.905 krónur.

                Stefndi greiddi 7.984.751 krónu.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 15,52 metrar og grunnhlutfallstala 0,98569%.

                6. Eigendur jarðarinnar Hallgeirsstaða við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Þórarinn Hrafnkelsson, Fjóluhvammi 7, Egilsstöðum og Benedikt Hrafnkelsson, Hallgeirsstöðum, Fljótsdalshéraði og eigandi jarðarinnar Vörðubrúnar við sama bakka sömu ár er Lárus Brynjar Dvalinsson, Vörðubrún, Fljótsdalshéraði. Í stefnu kemur fram að Vörðubrún hafi verið skipt úr landi Hallgeirsstaða með afsali árið 1967 og fylgi jörðinni þriðjungshluti í óskiptu landi og réttindum  Hallgeirsstaða og þar með þriðjungshluti í vatnsréttindum jarðarinnar. Verði í stefnunni vísað til þessara réttinda í heild sem óskiptra réttinda Hallgeirsstaða.

                Þeir krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 330.961.476 krónur, til vara 169.099.467 krónur, en að því frágengnu 45.093.191 krónu.

                Stefndi greiddi 3.652.818 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 7,10 metrar og grunnhlutfallstala 0,45093%.

                7. Eigendur jarðanna Hákonarstaða I, II og III við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Sigvaldi H. Ragnarsson, Hákonarstöðum I, Fljótsdalshéraði og Gréta Dröfn Þórðardóttir, Hákonarstöðum IV, Fljótsdalshéraði. Í stefnu kemur fram að stefnandi Sigvaldi sé þinglýstur eigandi jarðanna Hákonarstaða I, og Hákonarstaða III. Þá sé stefnandi Gréta þinglýstur eigandi Hákonarstaða II. Samkvæmt skiptasamningi frá 1956 sé túnum og ræktanlegu landi á Hákonarstöðum skipt, en land og réttindi upphaflegu Hákonarstaðajarðarinnar sé að öðru leyti í óskiptri sameign. Eignarhlutur stefnenda sé 100% í hverri jörð og þar með í hinu óskipta landi jarðarinnar, en í stefnunni verði vísað til jarðarinnar vegna óskipts lands Hákonarstaða.

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 810.156.403 krónur, til vara 413.936.441 krónu, en að því frágengnu 110.383.051 krónu.

                Stefndi greiddi 8.941.687 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 17,38 metrar og grunnhlutfallstala 1,10383%.

                8. Eigendur jarðanna Hrafnabjarga I, II, III og IV við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Jónas Guðmundsson, Hrafnabjörgum I, Fljótsdalshéraði, Rúnar Guðmundsson, Hrafnabjörgum II, Fljótsdalshéraði og Helga Hallgrímsdóttir, Hrafnabjörgum IV, Fljótsdalshéraði. Segir í stefnu að stefnandi Jónas sé þinglýstur eigandi Hrafnabjarga I og Hrafnabjarga III, stefnandi Helga sé þinglýstur eigandi Hrafnabjarga IV og stefnandi Rúnar sé þinglýstur eigandi Hrafnabjarga II. Í samræmi við skiptagerð 29. júní 2005, séu vatnsréttindi upphaflegu Hrafnabjargarjarðarinnar í óskiptri sameign jarðanna fjögurra.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 409.273.488 krónur, til vara 209.111.735 krónur, en að því frágengnu 55.763.129 krónur.

                Stefndi greiddi 4.517.146 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 8,78 metrar og grunnhlutfallstala 0,55763%.

                9. Eigendur jarðarinnar Torfastaða við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Svandís Sigurjónsdóttir, Torfastöðum, Fljótsdalshéraði og Guðgeir Þ. Ragnarsson Hjarðar sama stað. (9)

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 139.842.877 krónur, til vara 71.450.479 krónur, en að því frágengnu 19.053.461 krónu.

                Stefndi greiddi 1.543.444 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 4,39 metrar og grunnhlutfallstala 0,19053%.

                10. Eigendur jarðanna Ytri Galtastaða I og II við austurbakka Jökulsár á Dal eru Elís Hrafnkelsson og Gerður Bjarnadóttir bæði til heimilis að Galtastöðum, Fljótsdalshéraði. Í stefnu kemur fram að stefnendur séu þinglýstir eigendur Ytri Galtastaða I og stefnandi Gerður sé þinglýstur eigandi Ytri Galtastaða II. Jörðunum hafi verið skipt árið 1951 en Ytri Galtastaðir II hafi verið stofnaðir í landskrá fasteigna í árslok 2007. Kemur fram að stefnendur sæki fjárkröfu sína í félagi vegna vatnsréttinda upphaflegs lands Ytri Galtastaða, sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 548.650.222 krónur, til vara 280.324.046 krónur, en að því frágengnu 74.753.079 krónur.

                Stefndi greiddi 6.055.446 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 11,77 metrar og grunnhlutfallstala 0,74753%.

                11. Eigandi jarðanna Breiðamörk I og II við norðurbakka Jökulsár á Dal er Stefán Sigurðsson, Breiðumörk, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 241.928.178 krónur, til vara 123.609.328 krónur, en að því frágengnu 32.962.488 krónur.

                Stefndi greiddi 2.670.158 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 5,19 metrar og grunnhlutfallstala 0,32962%.

                12. Eigandi jarðarinnar Gauksstaða við austurbakka Jökulsár á Dal er Benedikt Ólason, Einbúablá 2, Egilsstöðum. (12)

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.723.453.819 krónur, til vara 1.316.355.992 krónur, en að því frágengnu 351.028.264 krónur.

                Stefndi greiddi 28.435.386 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 55,27 metrar og grunnhlutfallstala 3,51027%.

                13. Eigandi jarðanna Hólmatungu og Eyjasels við austurbakka Jökulsár á Dal er Eiríkur Magnússon, Hólmatungu, Fljótsdalshéraði. Kemur fram í stefnu að í matsmáli hafi verið gerð grein fyrir vatnsréttindum hvorrar jarðar fyrir sig, en þar sem jarðirnar liggi saman og séu í eigu sama aðila sé fjárkrafa vegna vatnsréttinda þeirra sett fram í einu lagi.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 203.238.315 krónur, til vara 103.841.363 krónur, en að því frágengnu 27.691.030 krónur.

                Stefndi greiddi vegna Hólmatungu 509.337 krónur og vegna Eyjasels 1.749.237 krónur eða samtals 2.258.574 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar Hólmatungu er 0,99 metrar og grunnhlutfallstala 0,06288%, en fyrir landi jarðarinnar Eyjasels er fallið 3,40 metrar og grunnhlutfallstala 0,21594%. Samtals er fall fyrir landi jarðanna því 4,39 metrar og hlutfallstala þeirra 0,27882%.

14. Eigandi jarðarinnar Litla Bakka við austurbakka Jökulsár á Dal er Svandís Skúladóttir, Litla Bakka, Fljótsdalshéraði.

                Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 451.692.494 krónur, til vara 230.785.047 krónur, en að því frágengnu 74.753.079 krónur.

                Stefndi greiddi 4.985.325 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 9,69 metrar og grunnhlutfallstala 0,61542%.

                15. Eigandi jarðanna Sleðbrjóts I og II við norðurbakka Jökulsár á Dal er Lífsval ehf., Skútuvogi 5, Reykjavík.

                Það krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða því 265.235.324 krónur, til vara 135.517.742 krónur, en að því frágengnu 36.138.064 krónur.

                Stefndi greiddi 2.927.399 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 5,69 metrar og grunnhlutfallstala 0,36138%.

                16. Eigendur jarðarinnar Blöndugerðis við austurbakka Jökulsár á Dal eru Friðrik Kjartansson, Miðgarði 7b, Egilsstöðum, Sigbjörn Jóhannsson, Blöndugerði, Fljótsdalshéraði, Símon Árnason, Eyrarvegi 16, Selfossi og Emil Jóhann Árnason, Gili Fljótsdalshéraði.

                Þeir krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 194.381.599 krónur, til vara 99.316.166 krónur, en að því frágengnu 26.484.311 krónur.

                Stefndi greiddi 2.145.387 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 4,17 metrar og grunnhlutfallstala 0,26484%.

                17. Eigandi jarðarinnar Hjarðargrundar við norðurbakka Jökulsár á Dal er Guðgeir Þ. Ragnarson, Torfastöðum, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 147.301.164 krónur, til vara 75.261.171 krónu, en að því frágengnu 20.069.646 krónur.

                Stefndi greiddi 1.625.761 krónu.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 3,16 metrar og grunnhlutfallstala 0,20070%.

                18. Eigandi jarðanna Mælivalla og Skuggahlíðar við austurbakka Jökulsár á Dal er nú Mælivellir ehf., Mælivöllum, Fljótsdalshéraði, en var við höfðun málsins Sigurður Hallgrímur Jónsson sama stað.

                Það krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða því 743.964.107 krónur, til vara 380.116.548 krónur, en að því frágengnu 101.364.413 krónur.

                Stefndi greiddi  617.378 krónur vegna Mælivalla en 7.593.745 krónur vegna Skuggahlíðar, eða samtals 8.211.123 krónur.

                Fall fyrir landi Mælivalla er 1,20 metrar og grunnhlutfallstala 0,07621%, en fyrir landi Skuggahlíðar er fallið 14,76 metrar og grunnhlutfallstalan 0,93743%, samtals er fall fyrir landi jarðanna því 15,96 metrar og hlutfallstala 1,01364%.

                19. Eigendur jarðarinnar Skeggjastaða við austurbakka Jökulsár á Dal eru Jón Helgason, Selási 19, Egilsstöðum, Gyða Árný Helgadóttir, Koltröð 8, Egilsstöðum, Anna Guðný Helgadóttir, Móasíðu 5a, Akureyri og Bjarni Helgason, Furugrund 16, Selfossi.

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 499.239.072 krónur, til vara 255.078.210 krónur, en að því frágengnu 68.020.856 krónur.

                Stefndi greiddi 5.510.096 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 10,71 metrar og grunnhlutfallstala 0,68021%.

                20. Eigendur jarðanna Skjöldólfsstaða 1 og 2 við norðurbakka Jökulsár á Dal eru Eiríkur S. Skjaldarson, Skjöldólfsstöðum 2, Fljótsdalshéraði, Vilhjálmur Snædal, Skjöldólfsstöðum 1, Fljótsdalshéraði og Þorsteinn Snædal, Skjöldólfsstöðum 1, Fljótsdalshéraði. Í stefnu kemur fram að stefnendur Þorsteinn og Vilhjálmur séu þinglýstir eigendur Skjöldólfsstaða 1 og stefnandi Eiríkur sé þinglýstur eigandi Skjöldólfsstaða 2, en jörðunum tilheyri vatnsréttindi að óskiptu skv. þinglýstri skiptagerð.

                Þeir krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 941.608.707 krónur, til vara 481.099.891 krónu, en að því frágengnu 128.293.304 krónur.

                Stefndi greiddi  8.334.598 krónur vegna Skjöldólfsstaða 1 en 2.057.926 krónur vegna Skjöldólfsstaða 2, eða samtals 10.392.524 krónur.

                Fall fyrir landi Skjöldólfsstaða 1 er 16,20 metrar og grunnhlutfallstala 1,02888%, en fyrir landi Skjöldólfsstaða 2 er fallið 4,00 metrar og grunnhlutfallstalan 0,25405%, samtals er fall fyrir landi jarðanna því 20,20 metrar og hlutfallstala 1,28293%.

                21. Eigandi jarðarinnar Arnórsstaða 3, (Arnórsstaðasels), við norðurbakka Jökulsár á Dal er Ragnar Sigvaldason, Hákonarstöðum, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 565.431.267 krónur, til vara 288.898.103 krónur, en að því frágengnu 77.039.494 krónur.

                Stefndi greiddi 6.240.660 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er  12,13 metrar og grunnhlutfallstala 0,77039%.

                22. Eigandi jarðarinnar Breiðalækjar við norðurbakka Jökulsár á Dal er Sigrún  Júlíusdóttir, Hákonarstöðum, Fljótsdalshéraði.

                Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 518.350.932 krónur, til vara 264.843.108 krónur, en að því frágengnu 70.624.829 krónur.

                Stefndi greiddi 5.721.033 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er  11,12 metrar og grunnhlutfallstala 0,70625%.

                23. Eigandi jarðanna Gils og Hrúthamra við austurbakka Jökulsár á Dal er Emil Jóhann Árnason, Gili, Fljótsdalshéraði.  (23)

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.601.667.088 krónur, til vara 818.346.152 krónur, en að því frágengnu 218.225.640 krónur.

                Stefndi greiddi 10.562.303 krónur vegna Gils og 7.115.278 krónur vegna Hrúthamra eða samtals 17.677.581 krónu.

                Fall fyrir landi jarðarinnar Gils er 20,53 metrar og grunnhlutfallstala 1,30389% og fyrir landi Hrúthamra er fallið 13,83 metrar og grunnhlutfallstala 0,87836%. Samtals er fall jarðanna því 34,36 metrar og grunnhlutfallstala 2,18225%.

                24. Eigandi jarðarinnar Gilsár við norðurbakka Jökulsár á Dal er Eiríkur S. Skjaldarson, Skjöldólfsstöðum 2, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 454.955.494 krónur, til vara 232.452.225 krónur, en að því frágengnu 61.987.260 krónur.

                Stefndi greiddi 5.021.338 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er  9,76 metrar og grunnhlutfallstala 0,61987%.

                25. Eigandi jarðarinnar Hauksstaða 2 við norðurbakka Jökulsár á Dal er Snæbjörn Valur Ólason, Hauksstöðum 2, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 674.974.954 krónur, til vara 344.867.645 krónur, en að því frágengnu 91.964.705 krónur.

                Stefndi greiddi 7.449.691 krónu.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 14,48 metrar og grunnhlutfallstala 0,91964%.

                26. Eigandi jarðarinnar Hjarðarhaga við norðurbakka Jökulsár á Dal er Hjarðarhagi ehf., Hjarðarhaga, Fljótsdalshéraði. Upphaflegur stefnandi er Páll Hjarðar sama stað, en undir rekstri málsins tók félagið við aðild málsins.

                Félagið krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða því 1.074.925.584 krónur, til vara 549.216.014 krónur, en að því frágengnu 146.457.604 krónur.

                Stefndi greiddi 11.863.940 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 23,06 metrar og grunnhlutfallstala 1,46457%.

                27. Eigandi jarðanna Hnefilsdals I og II við austurbakka Jökulsár á Dal er Halldóra Hildur Eyþórsdóttir, Hnefilsdal, Fljótsdalshéraði.

                Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 339.818.192 krónur, til vara 173.624.664 krónur, en að því frágengnu 46.299.910 krónur.

                Stefndi greiddi 3.750.569 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 7,29 metrar og grunnhlutfallstala 0,46300%.

                28. Eigandi jarðarinnar Hrólfsstaða við norðurbakka Jökulsár á Dal er Bláfeldur ehf., Hrólfsstöðum, Fljótsdalshéraði.

                Það krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða því 503.900.501 krónu, til vara 257.459.892 krónur, en að því frágengnu 68.655.971 krónu.

                Stefndi greiddi samtals 5.561.545 krónur (2.366.615 + 3.194.930).

                Fall fyrir landi jarðarinnar er samtals 10,81 metrar (sett fram í úrskurði matsnefndar í tvennu lagi 4,60 og 6,21 metrar) og grunnhlutfallstala samtals 0,68655% (sett fram með sama hætti í úrskurði, annars vegar 0,29215% og hins vegar 0,39440%. Má sjá af úrskurði matsnefndar að ástæða fyrir þessari framsetningu er að landamerki jarðarinnar að ánni eru rofin með merkjum lóðar sem næst er hér fjallað um.

                29. Eigandi landspildunnar Hrólfsstaða-lóðar 1 við norðurbakka Jökulsár á Dal er Katrín Ásgeirsdóttir, Hrólfsstöðum, Fljótsdalshéraði.

                Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 93.228.585 krónur, til vara 47.633.653 krónur, en að því frágengnu 12.702.307 krónur.

                Stefndi greiddi 1.028.963 krónur.

                Fall fyrir landi lóðarinnar er  2,00 metrar og grunnhlutfallstala 0,12702%.

                30. Eigandi jarðanna Hvanná I og III við norðurbakka Jökulsár á Dal er Hvannármenn ehf., Hvanná, Fljótsdalshéraði. Kemur fram í stefnu að áður hafi jarðirnar verið skráðar sem ein jörð í Landskrá fasteigna, þ.e. Hvanná, en Hvanná III hafi verið skráð í árslok 2006. Fylgi jörðunum vatnsréttindi sem við hæðarmælingar hafi verið kenndar við Hvanná í forsendum meirihluta matsnefndar.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 641.878.807 krónur, til vara 327.957.698 krónur, en að því frágengnu 87.455.386 krónur.

                Stefndi greiddi 7.084.409 krónur.

                Fall fyrir landi jarðanna er 13,77 metrar og grunnhlutfallstala 0,87455%.

                31. Eigandi jarðarinnar Hvanná II við norðurbakka Jökulsár á Dal er Arnór Benediktsson, Hvanná II, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 244.725.035 krónur, til vara 125.038.338 krónur, en að því frágengnu 33.343.557 krónur.

                Stefndi greiddi 2.701.027 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 5,25 metrar og grunnhlutfallstala 0,33343%.

                32. Eigandi jarðarinnar Langagerðis við norðurbakka Jökulsár á Dal er Sigvaldi H. Ragnarsson, Hákonarstöðum, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 833.929.692 krónur, til vara 426.083.023 krónur, en að því frágengnu 113.622.139 krónur.

                Stefndi greiddi 9.204.072 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 17,89 metrar og grunnhlutfallstala 1,13622%.

                33. Eigandi jarðarinnar Refshöfða við austurbakka Jökulsár á Dal er Helgi Árnason, Ártröð 8, Egilsstöðum.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 313.714.188 krónur, til vara 160.287.241 krónu, en að því frágengnu 42.743.264 krónur.

                Stefndi greiddi 3.462.460 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 6,73 metrar og grunnhlutfallstala 0,42743%.

                34. Eigandi jarðarinnar Sellands við norðurbakka Jökulsár á Dal er Birgir Þór Ásgeirsson, Fossvöllum 2, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 888.002.271 krónu, til vara 453.710.541 krónu, en að því frágengnu 120.989.478 krónur.

                Stefndi greiddi 9.800.870 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 19,05 metrar og grunnhlutfallstala 1,20989%.

                35. Eigandi jarðarinnar Smáragrundar við austurbakka Jökulsár á Dal er Valgeir Magnússon, Smáragrund, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 69.056.867 krónur, til vara 34.772.566 krónur, en að því frágengnu 9.272.684 krónur.

                Stefndi greiddi 751.143 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 1,46 metrar og grunnhlutfallstala 0,09273%.

                36. Eigandi jarðarinnar Teigasels við austurbakka Jökulsár á Dal er Kjartan Sigurðsson, Teigaseli I, Fljótsdalshéraði.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 289.474.756 krónur, til vara 147.902.491 krónu, en að því frágengnu 39.440.664 krónur.

                Stefndi greiddi 3.194.930 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 6,21 metrar og grunnhlutfallstala 0,39440%.

                37. Eigandi jarðarinnar Vaðbrekku við austurbakka Jökulsár á Dal er Gullvör ehf., Ullartanga 3, Egilsstöðum.

                Það krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða því 1.806.769.975 krónur, til vara 923.140.187 krónur, en að því frágengnu 246.170.717 krónur.

                Stefndi greiddi 19.941.299 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 38,76 metrar og grunnhlutfallstala 2,46170%.

                39. Eigandi jarðarinnar Víðivallagerðis við austurbakka Kelduár er Þorsteinn Pétursson, Tjarnarbraut 17, Egilsstöðum.

                Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 154.890.409 krónur, til vara 79.138.774 krónur, en að því frágengnu 21.103.673 krónur.

                Stefndi greiddi 1.709.538 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 37,71 metrar og grunnhlutfallstala 0,21104%.

                40. Eigendur jarðarinnar Víðivalla fremri við austurbakka Kelduár eru Gunnþórunn Ingólfsdóttir og Jósef Valgarð Þorvaldsson bæði til heimils að Víðivöllum fremri, Fljótsdalshreppi.

                Þau krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 36.884.536 krónur, til vara 18.845.563 krónur, en að því frágengnu 5.025.484 krónur.

                Stefndi greiddi 407.098 krónur.

                Fall fyrir landi jarðarinnar er 8,98 metrar og grunnhlutfallstala 0,05036%.

II

Málavextir

                Í stefnum málsins er málavöxtum lýst á þann veg að stefnendur hafi, eins og aðrir Íslendingar, fengið vitneskju um að stefndi hygðist reisa Kárahnjúkavirkjun, sbr. upplýsingar um að stefndi hefði 2. september 2002 fengið leyfi iðnaðarráðherra til að byggja 750 MW virkjun við Kárahnjúka, sbr. dómskjal nr. 22. Áður hafi staðið yfir vinna við umhverfismat hugsanlegrar virkjunar, sem hafi verið endanlega ákveðið með úrskurði umhverfisráðherra 20. desember 2001, sbr. dskj. nr. 20.

                Þrátt fyrir virkjunaráform stefnda og upphaf framkvæmda í október 2002 hafi stefndi ekki haft samband við stefnendur sérstaklega til þess að óska eftir því að fá rétt til þess að skerða vatnsréttindi jarða þeirra og bjóða fram bætur vegna þeirrar skerðingar. Vegna þessa og fleiri atriða hafi komið til þess að margir landeigendur við Jökulsá á Dal hafi staðið fyrir stofnun Félags landeigenda við Jökulsá á Dal á árinu 2005 (hér eftir nefnt FLJD). Hafi allir stefnendur máls þessa sem telja til eignarréttinda við Jökulsá á Dal átt aðild að því félagi. Hafi félaginu m.a. verið ætlað að gæta almennra hagsmuna vatnsréttarhafa vegna Kárahnúkavirkjunar, s.s. með því að beina því til stefnda að semja við vatnsréttarhafa. Ekki hafi verið stofnað félag landeigenda við Kelduá, en tvær stefnur málsins varða endurgjald fyrir vatnsréttindi við þá á. Um tímasetningar einstakra virkjunarframkvæmda vísa stefnendur til yfirlits af heimasíðunni www.karahnjukar.is á dómskjali nr. 174, sem rekji virkjunarhugmyndir og framkvæmdir frá 1946 til 2007. 

                Viðræður FLJD og stefnda hafi hafist á árinu 2005. Að þeim hafi komið síðar oddviti Fljótsdalshrepps og lögmaður hreppsins, sem hafi haft samráð við landeigendur í Fljótsdal. Snemma hafi orðið ljóst að sjónarmið aðila um verðmat á vatnsréttindum væru mismunandi og því sýnt að einhverskonar mat á þeim verðmætum þyrfti að fara fram. Þar sem framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hafi þá verið hafnar og farnar að nema tugum milljarða, hafi fulltrúum landeigenda þótt einsýnt að stefndi fengi ávallt samþykkta eignarnámsheimild vegna þeirra vatnsréttinda sem honum væru nauðsynleg vegna virkjunarinnar. Sú skoðun hafi jafnframt byggst á því að bygging umræddrar virkjunar hafi farið fram í samræmi við vilja íslenskra stjórnvalda á þeim tíma.

                Eignarnám á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar hefði kallað á að stefndi hefði þurft að óska eftir eignarnámi á þeim tilteknu réttindum sem honum væru nauðsynleg vegna virkjunarinnar. Hugsanlegt hafi verið að ágreiningur um umfang þeirra réttinda færi fyrir dómstóla og því hafi getað komið til þess að umfjöllun um verðmæti þeirra réttinda sem um ræddi, hæfist ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum. Það hafi í raun verið mat stefnda og fulltrúa landeigenda í viðræðum að það væri ávinningur aðila að ganga til samninga um stofnun sérstakrar matsnefndar. Jafnframt að nefndin hefði annars vegar það hlutverk að fjalla um umfang þeirra réttinda sem látin yrðu af hendi til stefnda vegna Kárahnjúkavirkjunar og hins vegar um verðmæti þeirra réttinda.

                Á grundvelli þessa hafi verið undirritaður samningur 13. desember 2005 af stefnda, fulltrúum FLJD, oddvita Fljótsdalshrepps o.fl. sbr. dómskjal nr. 7. Samningurinn hafi verið rammasamningur sem einstakir vatnsréttarhafar hafi haft heimild til að gerast aðilar að. Stefnendur hafi gerst aðilar að samningnum vegna réttinda jarðeigna sinna með sérstakri yfirlýsingu í ársbyrjun 2006. Í samræmi við grein 9.1 í samningnum hafi hann tekið gildi, sbr. bókun á fyrsta fundi matsnefndar dags. 14. febrúar 2006, sbr. dómskjal nr. 5, bls. 1.

                Málsmeðferð fyrir matsnefndinni hafi hafist í febrúar 2006. Stefndi hafi lagt fram greinargerð fyrir matsnefnd þann 7. apríl 2006, sbr. dómskjal nr. 15 ásamt fylgiskjölum á dómskjölum nr. 16 til 30. Lögmenn stefnenda hefðu lagt fram greinargerðir, annars vegar vegna réttinda í Kelduá en hins vegar hafi lögmenn vatnsréttarhafa við Jökulsá á Dal lagt fram tölulegar kröfur um verðmat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar, með greinargerð 7. júní 2006, sbr. dskj. 31, ásamt fylgiskjölum á dskj. 32 til 80. Í kröfugerðinni hafi komið fram krafa um mat á heildarvatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar, enda hafi þá ekki legið fyrir nægilegar upplýsingar um fallhæð fyrir landi jarða. Í samræmi við beiðni stefnda til matsnefndar á dómskjali nr. 13 hafi nefndin  haft forgöngu um að Vatnamælingadeild Orkustofnunar stæði að því að mæla fallhæð fyrir landi hverrar jarðar á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, sbr. dskj. nr. 87. Frekari mælingar hafi verið gerðar, sbr. m.a. dskj. 117, 163 og 164. Í úrskurði matsnefndar kemur m.a. fram niðurstaða um framangreint fall og hlutfall hverrar jarðar í heildarvatnsréttindum, umræddra þriggja vatnsfalla.

                Um málavexti varðandi eðli Kárahnjúkavirkjunar og vatnsréttinda vísist til gagna málsins að öðru leyti. Þó skuli tiltekið að skerðing vatnsrennslis í Jökulsá á Dal verði að meðaltali 92 m³/sek m.v. meðalrennsli skv. þeim rennslismælingum sem legið hafi fyrir við upphaf Kárahnjúkavirkjunar. Einnig að skerðing vatnsrennslis í Kelduá nemi því meðalrennsli sem tekið sé inn í Kelduárlón (Hraunaveitu) og veitt sé í Ufsarlón, en það geti verið um 7 m³/sek. Þar sé um að ræða hluta þess vatnsrennslis sem síðar sé leitt að stöðvarhúsi í Fljótsdal. Þannig komi fram á kynningarefni stefnda, sbr. fylgiskjal með dskj. nr. 33 að meðalrennsli að stöðvarhúsi nemi um 110 m³/sek, þ.e. frá öllum vatnsföllunum þremur. Hönnunarrennsli sé þó um 144 m³/sek.

                Orku óvirkjaðs vatnsafls megi reikna upp til hestafla eftir formúlunni:

                Vatnsrennsli x fallhæð x 12,33 = Hestöfl hrárrar vatnsorku.

                Hrá vatnsorka sem virkjuð sé með Kárahnjúkavirkjun sé því u.þ.b. 600 m. fallhæð x 110 m³/sek x 13,33 = 879.780 hestöfl. Hestöfl þeirrar vatnsorku sem látin sé af hendi við Jökulsá á Dal nemi fallhæð frá 625 m.y.s. niður til sjávarmáls og 92 m³/sek meðalrennsli sem gefi niðurstöðuna 766.475 hestöfl. Hestöfl þeirrar vatnsorku sem látin sé af hendi við Kelduá nemi fallhæð frá 669 m.y.s. niður til 25,5 m.y.s. og um 7 m³/sek meðalrennsli, sem gefi niðurstöðuna 60.045 hestöfl. Orkan sé þó mun meiri gangi forsendur um loftslagshlýnun eftir sbr. t.d. útreikninga stefnda þar um á dskj. nr. 142.

Gerð er grein fyrir því í hverri stefnu fyrir sig hver sé að mati stefnenda fjöldi hestafla sem hlutaðeigandi láti af hendi varanlega, en ekki þykir ástæða til að rekja það sérstaklega hér.

                Stefnendur, sem eigi vatnsréttindi við Jökulsá á Dal hafi lagt gögn fyrir matsnefnd 30. janúar 2007 er einkum varði samning um vatnsréttindi vegna virkjana í Fjarðará, sbr. dskj. 118 til 128. Við gagnaframlagningu viðbótargagna fyrir matsnefnd 26. febrúar 2007 hafi verið gerð grein fyrir umfangi vatnsréttinda í Kelduá, sbr. dskj. nr. 148. Þá hafi einnig verið settar fram kröfur um bótagreiðslur til handa stefnendum er eigi réttindi við Jökulsá á Dal sbr. dskj. 131 bls. 6. Með athugasemdunum hafi fylgt fylgiskjöl sem lögð séu fram sem dskj. 132 til 146.

                Rekstur málsins fyrir matsnefnd hafi staðið allt fram að munnlegum málflutningi 14. og 15. maí 2007. Við munnlegan málflutning hafi verið lagðar fram uppfærðar kröfur um verðmæti vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. dskj. nr. 159 og þ.a.l. réttindi stefnenda. Í máli þessu sé lögð fram skjalaskrá, dskj. nr. 2 og öll skjöl sem lögð hafi verið fyrir hina sérstöku matsnefnd, sbr. dskj. nr. 7 til 166. Úrskurður matsnefndar hafi verið kveðinn upp 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 3. Að úrskurðinum hafi staðið fjórir af fimm nefndarmönnum en einn nefndarmaður hafi skilað séráliti, sbr. dskj. nr. 4.

                Niðurstaða meirihluta matsnefndar um umfang þeirra vatnsréttinda sem vatnsréttarhafar létu af hendi komi fram í umfjöllun á bls. 60 til 62 í úrskurðinum. Hún sé tekin saman með eftirfarandi hætti, sbr. bls. 60 – 62:

„Niðurstaða matsnefndar er því sú, að umfang þess vatnsmagns, sem vatnsréttareigendur framselja Landsvirkjun með samningnum frá 13. desember 2005, skuli miðast við innrennsli í Kelduárlón (Hraunaveitu), Ufsarlón og Hálslón og svara til þess vatnsrennslis, sem Landsvirkjun getur nýtt til raforkuframleiðslu á hverjum tíma í aflstöð Fljótsdalsstöðvar. Landsvirkjun skal ein hafa heimild til að stýra miðlun og ákveða úr hvaða uppistöðulónum miðlað sé vatni til aflvéla Fljótsdalsstöðvar.“

                Með vísan til þeirra mælinga sem gerðar hafi verið á fallhæð fyrir jörðum stefnenda verði að líta svo á að þau vatnsréttindi sem stefnendur hafi látið af hendi til stefnda nemi eignarhluta jarðanna í vatnsréttindum umrædds rennslis, vegna fallhæðar fyrir landi hverrar jarðar fyrir sig, þ.e. 50%, sbr. 1. mgr. 51. gr. vatnalaga nr. 15/1923, enda sé því hvergi háttað svo að stefnendur máls þessa eigi land beggja vegna ár. Með yfirlýsingu sem stefnendur hafi skrifað undir og þinglýst á jarðir sínar hafi stefnda verið veitt þessi réttindi. Yfirlýsingarnar hafi verið sendar stefnda með ábyrgðarbréfum í lok árs 2007 þar sem jafnframt hafi verið skorað á stefnda að greiða inn á bótakröfu, sbr. dskj. nr. 170, stefndi hafi lýst því yfir að hann geti unað við niðurstöðu nefndarinnar um umfang réttindanna, sbr. dskj. nr. 175.

                Ákvörðun matsnefndar um bótafjárhæð fyrir vatnsréttindi byggi á framangreindri niðurstöðu um vatnsréttindi. Ákvörðunin komi fram í úrskurðarorði á bls. 83 til 86 í úrskurði nefndarinnar.

                Um forsendur ákvörðunarinnar sé vísað til umfjöllunar í rökstuðningi fyrir matsfjárhæð og skiptingu bóta, einkum bls. 62 – 63 í niðurstöðu meirihluta matsnefndar. Forsenda niðurstöðu fyrir jörðum stefnenda sé sú skoðun matsnefndar að vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar megi meta að verðmæti 1.540.000.000 króna, auk 4,254% bóta vegna skerðingar réttinda sem ekki séu beinlínis virkjuð af Kárahnjúkavirkjun. Þá sé hlutfall Jökulsár á Dal 76,15% af vatnsréttindum virkjunarinnar en hlutfall Kelduár 6,71 %. Stefnendur telji niðurstöðu matsnefndar um verðmæti vatnsréttinda vegna virkjunarinnar og þeirra vatnsréttinda sem skerðist vegna hennar ranga. Ákvörðunin um verðmæti vatnsréttinda vegna jarða stefnenda sé því röng. Stefnendur telji jafnframt að aðferðafræði sem meirihluti matsnefndar byggi á til að komast að niðurstöðu um fjárhæð vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar samræmist ekki viðurkenndum lagareglum um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta.

                Í samningi stefnda og vatnsréttarhafa, sem stefnendur hafi allir gerst aðilar að hafi verið gert ráð fyrir því að aðilar hefðu sex vikna frest til að ákveða hvort þeir myndu una við niðurstöðu matsnefndarinnar. Með tilkynningu stefnenda til stefnda 2. október 2007 hafi stefnda verið gert kunnugt um að stefnendur myndu ekki una úrskurði matsnefndarinnar, sbr. dskj. nr. 179. Stefnendur hafi jafnframt skorað á stefnda að greiða inn á kröfu þeirra, sbr. dskj. 170. Þrátt fyrir að stefndi hafi lýst því yfir að hann hygðist greiða hluta vatnsréttarhafa bætur í samræmi við niðurstöðu meirihluta matsnefndar hafi stefndi ekkert greitt inn á viðurkennda skuld sína við stefnendur.

                Í samræmi við allt framangreint hafi stefnendum verið nauðsynlegt að höfða mál þetta. 

                Fram kemur í greinargerð í gagnsök, sem stefnendur vísuðu að nokkru til við munnlegan málflutning, að eftir að málið hafi verið höfðað og þingfest hafi gagnstefna komið fram og hafi verið þingfest 19. febrúar 2008. Í kjölfar gagnstefnunnar hafi Regulu lögmannsstofu borist bréf dags. 19. febrúar 2008, þar sem tilkynnt hafi verið um að stefndi hefði greitt inn á fjárvörslureikning lögmannsstofunnar. Í bréfinu hafi verið kynnt að fjárhæð greiðslu miðaðist við aðalkröfu gagnstefnanda í gagnstefnu, en hún byggi á því að verðmæti umdeildra réttinda nemi 50% af þeirri niðurstöðu sem meirihluti hinnar sérstöku matsnefndar hafi komist að í úrskurði 22. ágúst 2007. Jafnframt líti stefndi svo á að hann greiði vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fjárhæðinni frá 22. ágúst 2007 til greiðsludags. Í fylgiskjali með bréfinu sé sundurliðað hvernig útreikningi á greiðslum milli einstakra jarða sé háttað.

                Af hálfu stefnenda sé ekki viðurkennt að umrædd greiðsla stefnda skiptist í greiðslu 50% af höfuðstól og vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefnendur líti á greiðsluna sem innborgun á skuld, þar sem fyrst sé greitt upp í elstu vaxtaskuld, en ef einhverjar eftirstöðvar séu komi greiðslan til lækkunar á höfuðstól. Gera verði ráð fyrir að stefndi geri grein fyrir innborgun til stefnenda í greinargerð sinni. Frekari sjónarmið um meðferð þeirrar greiðslu í skuldaskilum aðila muni koma fram við málflutning.

                Í málsatvikalýsingu gagnstefnu sé vikið að undirbúningi stefnda að framkvæmdum og leyfisveitingum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Stefndi hafi fengið heimild til að nýta vatnsréttindi í þjóðlendum með leyfisbréfi dags. 30. júlí 2002. Á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hvar þjóðlendur væru á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Í málsatvikalýsingu í gagnstefnu sé þess ekki getið að fyrstu formlegu samskipti við eigendur vatnsréttinda sem fyrirsjáanlega yrðu skert vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið með bréfi dags. 25. maí 2005. Samhljóða bréf hafi verið sent til allra þinglýstra eigenda jarða, en eitt bréfanna sé lagt fram í málinu sem dæmi (dskj. 198). Fyrir þann tíma hafi stefndi átt samskipti við sveitarstjórnir á svæðinu sem ekki hafi haft umboð til að koma fram fyrir eigendur vatnsréttinda.  

Málsatvikalýsing stefnda.

                Stefndi lýsir málsatvikum með þeim hætti að frá miðri tuttugustu öld hafi ýmsar áætlanir verið gerðar af hálfu opinberra aðila um stórvirkjanir á Austurlandi. Hafi þær einkum lotið að virkjun Jökulsár í Fljótsdal, Jökulsár á Dal og Jökulsár á  Fjöllum í ýmsum útfærslum. Undirbúningur að virkjun Jökulsár í Fljótsdal hafi verið langt kominn er hætt hafi verið við þá framkvæmd árið 2000. Þess í stað hafi verið ráðist í Kárahnjúkavirkjun þar sem jökulsárnar tvær í Fljótsdal og Jökuldal séu virkjaðar saman og leiddar í jarðgöngum að stöðvarhúsi við Teigsbjarg í Fljótsdal og renni til sjávar í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts. Á þeim tíma hafi verið fyrirhugað að álverið í Reyðarfirði yrði í eigu Norsk Hydro. Um forsögu málsins sé einnig vísað til dskj. 15, kafla 4. og dskj. 16, kafla 4 og 5.

                Ekki hafi áform um byggingu Kárahnjúkavirkjunar farið framhjá íbúum á Austurlandi, enda mikið fjallað um málið opinberlega. Sem dæmi megi nefna að haldinn hafi verið opinn fundur á Egilsstöðum 15. júní 2000, þar sem almenningi hafi verið kynntar tillögur um hvernig staðið yrði að mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og um virkjunarframkvæmdirnar sjálfar. Verði því að mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda í málsatvikalýsingu í stefnum að þeir hafi fyrst fengið vitneskju um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir við útgáfu virkjunarleyfis 2. september 2002. Ljóst sé að stefnendur hafi vitað af þessum áætlunum eða mátt vera um þær kunnugt a.m.k. tveimur árum fyrr en fullyrt sé. Í framhaldi af framangreindum kynningarfundi hafi stefndi afhent Skipulagsstofnun tillögu að mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, allt að 750 MW, 14. júlí 2000, svonefnda matsáætlun. Matsskýrsla fyrir virkjunina hafi verið tilkynnt Skipulagsstofnun til athugunar 20. apríl 2001, en stofnunin hafi lagst gegn framkvæmdinni með úrskurði 1. ágúst 2001. Í kjölfar stjórnsýslukæru stefnda, þar sem krafist hafi verið endurskoðunar framagreinds úrskurðar, hafi umhverfisráðherra fallist á framkvæmdina með 20 skilyrðum í úrskurði 20. desember 2001, sbr. dskj. nr. 20. Sá úrskurður hafi síðar verið staðfestur af dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 frá 22. janúar 2004.

                Árið  2002 hafi Norsk Hydro hætt við að reisa álver í Reyðarfirði en þess í stað hafi bandaríska fyrirtækið Alcoa Inc. komið að verkinu og hafi Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, G. John Pizzey aðstoðarforstjóri Alcoa Inc. og Friðrik Sophusson forstjóri stefnda, undirritað, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og fyrirtækjanna tveggja viljayfirlýsingu 19. júní 2002 um framhald viðræðna um mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni sem tæki til byggingar álvers á Austurlandi. Í framhaldi hafi náðst samningar um þessar framkvæmdir og ráðist hafi verið í byggingu Kárahnjúkavirkjunar með orkuflutningsvirkjum (Fljótsdalslínum 3 og 4) og álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði.

                Alþingi hafi veitt stefnda heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun og veita Jökulsá á Dal frá miðlunarlóni (Hálslóni) um aðrennslisgöng undir Fljótsdalsheiði að stöðvarhúsi í Fljótsdal og út í farveg Jökulsár í Fljótsdal, sbr. 1. gr. laga nr. 38/2002. Heimildin nái einnig til að veita Jökulsá í Fljótsdal ásamt vatni af Hraunum (veitu Kelduár, Grjótár, Innri-Sauðár og Ytri-Sauðár, svonefndri Hraunaveitu) inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar á Fljótsdalsheiði. Þá  hafi svæðisskipulagi miðhálendisins verið breytt með tilliti til fyrirhugaðrar framkvæmdar og sérstakt svæðisskipulag fyrir Kárahnjúkavirkjun verið staðfest af umhverfisráðherra, sbr. tvær auglýsingar í B – deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2002. Iðnaðarráðherra hafi veitt stefnda virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun með bréfi 2. september 2002, sbr. dskj. nr. 22. Leyfi forsætisráðherra á grundvelli 2. gr. laga nr. 58/1992 (þjóðlendulaga), sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, liggi fyrir, sbr. dskj. nr. 25, svo og önnur tilskilin leyfi og umsagnir til handa stefnda, meðal annars framkvæmdaleyfi sveitarstjórna Norður-Héraðs (nú Fljótsdalshéraðs) og Fljótsdalshrepps sem afhent hafi verið með formlegum hætti 2. febrúar 2003, sbr. dskj. nr. 23 og 24.

                Virkjunartilhögun sé í megindráttum þannig að Jökulsá á Dal er stífluð við Fremri-Kárahnjúk og myndað miðlunarlón, Hálslón. Lítið lón, Ufsarlón er myndað í Jökulsá í Fljótsdal um tvo kílómetra neðan við Eyjabakkafoss, með stíflu í ánni og með Hraunaveitu er vatni veitt í Kelduárlón og þaðan í Ufsarlón. Úr Hálslóni renni vatnið um jarðgöng austur um Fljótsdalsheiði og þau tengist öðrum göngum úr Ufsarlóni nokkru suðaustan við Þrælaháls. Eftir það renni allt vatnið í einum göngum til norðausturs út í Teigsbjarg og að stöðvarhúsi  inni í fjallinu um tvenn fallgöng. Vatnið greinist á sex aflvélar í stöðvarhúsinu og renni svo um jarðgöng frá því og um skurð út í farveg Jökulsár í Fljótsdal austur undan Valþjófsstað.

                Kárahnjúkavirkjun framleiði rafmagn fyrir álver Alcoa í Reyðarfirði og sé það eina ástæðan fyrir byggingu hennar. Frá tengivirki við stöðvarhús í Fljótsdal liggi tvær háspennulínur, Fljótsdalslínur 3 og 4, hvor um sig um 50 km. löng. Séu þær gerðar fyrir 420 kV spennu en reknar á 220 kV spennu. Þessar háspennulínur sem séu í eigu Landsnets hf. hafi eingöngu það hlutverk að flytja raforku til álversins. Hluti byggðalínu, Kröflulína 2, 132 kV, sem liggi frá Kröflu og að Hryggstekk sé tengd tengivirkinu í Fljótsdal.

                Vísað sé nánar til greinargerðar á dskj. nr. 16 um tilhögun Kárahnjúkavirkjunar og korta á dskj. nr. 19.

                Fyrri hluta árs 2003 hafi stefnandi hafið viðræður við Fljótsdalshrepp og Norður-Hérað (nú sameinað Fljótsdalshéraði) um vatnsréttindamál og hafi sveitarfélögin gefið út kynningarbækling, sbr. dskj. nr. 182, fyrir hagsmunaaðila innan sveitarfélaganna. Stefndi hafi kostað gerð bæklingsins en hafi að öðru leyti ekki komið að efni hans. Hafi kynningarbæklingnum sérstaklega verið beint til vatnsréttarhafa gagngert til að aðstoða þá við að taka afstöðu til hvernig hagsmunum þeirra væri best borgið í samningaviðræðum við stefnda, sbr. sérstaklega bls. 27-28 í bæklingnum. Á árinu 2004 hafi orðið ljóst að ekki hafi verið áhugi meðal hagsmunaaðila innan þessara sveitarfélaga að sveitarfélögin ættu beinan þátt í samningaviðræðum um verðmæti vatnsréttinda og á því ári hafi tekið sig saman hópur vatnsréttarhafa á Jökuldal, gagngert til að koma fram gagnvart stefnda í samningaviðræðum um vatnsréttindi. Af málsatvikalýsingu í stefnu megi skilja að stefndi hafi ekki haft samskipti við vatnsréttarhafa fyrr en á árinu 2005. Því sé mótmælt sbr. framangreinda lýsingu á samskiptum við hagsmunaaðila. Auk þess hafi enginn vatnsréttarhafi á öllu þessu tímabili beint sérstaklega athugasemd að stefnda vegna málsmeðferðarinnar. Þannig verði að telja ljóst að öllum vatnsréttarhöfum hafi mátt vera ljóst að verið væri að vinna að niðurstöðu í réttindamálum þeirra og þeim hafi mátt vera ljóst að hér væri um flókið og vandasamt úrlausnarefni að ræða, sbr. dskj. nr. 182, bls. 3 og 28. Eftir samningaviðræður sem staðið hafi allt árið 2005 hafi verið undirritaður samningur 13. desember 2005 um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um málsmeðferð til að ákvarða endurgjald fyrir þau. Aðilar hafi verið stefndi og þeir eigendur vatnsréttinda við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá sem kosið hafi að eiga aðild að samningnum, auk íslenska ríkisins sem eiganda vatnsréttinda, með ákveðnum skilyrðum. Störf hinnar sérstöku matsnefndar hafi byrjað snemma árs 2006. Stefndi hafi skilað greinargerð 7. apríl það ár og hafi hún byggt á hefðbundnum sjónarmiðum í eignarrétti og eldri fordæmum. Vatnsréttarhafar hafi skilað greinargerðum sínum 7. júní 2006. Í greinargerð landeigenda við Jökulsá á Dal fyrir matsnefndinni hafi fyrst komið fram hinar stjarnfræðilega háu kröfur sem ratað hafi alla leið inn stefnukröfur máls þessa. Af hálfu stefnda hafi því þegar verið lýst yfir að kröfugerð sem þessi væri fráleit. Þrátt fyrir langan  aðdraganda, mikil samskipti og samningaviðræður hafi ekki fram að þessum tíma komið fram þau sjónarmið stefnenda að við gildistöku raforkulaga nr. 65/2003 hefðu orðið slík þáttaskil sem réttlættu kröfur þeirra um að réttindin yrðu talin langtum verðmætari en eignarnámsreglur og fordæmi gæfu vísbendingu um. Þannig hafi landeigendur við Jökulsá á Dal gert kröfu um að greiddar yrðu 95.970.000.000 krónur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar í heild sinni, en það sé nær því sama fjárhæð og áætlaður framkvæmdakostnaður við þessa stærstu framkvæmd Íslandssögunnar hafi verið á þeim tíma.

                Matsnefndin hafi lokið störfum sínum með úrskurði 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 3. Kröfum og sjónarmiðum stefnenda hafi þar verið hafnað af meirihluta matsnefndar. Einn nefndarmanna hafi skilað séráliti. Í sérálitinu hafi hæfilegar bætur þó ekki verið metnar heldur hafi matsmaðurinn sett þar fram verðbil sem hann hafi talið hæfilegar bætur liggja á. Það verðbil hafi numið 50 milljörðum króna. Slíkt mat verði ekki lagt til grundvallar í dómsmáli og hafni stefndi þeim sjónarmiðum stefnenda að sú aðferðafræði samræmist meginreglum um fjárhæð eignarnámsbóta. Sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Stefndi hafi boðið stefnendum í máli þessu greiðslu í samræmi við niðurstöðu úrskurðarins með bréfi 20. september 2007, sbr. dskj. nr. 181, en hafi um leið gert fyrirvara þess efnis að ef vatnsréttarhafar myndu skjóta málinu áfram til dómstóla myndi stefndi láta reyna þar á sinn ýtrasta rétt. Hluti vatnsréttarhafa hafi þegið tilboð stefnda. Þeim sem ekki hafi þegið tilboðið hafi engu að síður verið greiddar bætur í samræmi við sjónarmið sem fram hafi komið í úrskurði matsnefndar sem ákvarðað hafi bætur fyrir vatnsréttindi Blöndu, en sá úrskurður hafi verið kveðinn upp 10. ágúst 1992, og stefndi hafi byggt áætlanir sínar á en hin sérstaka matsnefnd hafi byggt niðurstöðu sína í grunnatriðum á þeim úrskurði, sbr bréf Lögmanna Höfðabakka dags. 19. febrúar 2008, sbr. dskj. 194. Sú greiðsla hafi verið innt af hendi eftir að stefnt hafi verið í málinu.

                Að gefnu tilefni vilji stefndi taka fram að hann telji umfjöllun stefnenda um hestöfl hrárrar vatnsorku ekki skipta máli við úrlausn máls þessa og sé henni mótmælt sem slíkri.

                Stefnendur hafi ekki unað þeim bótum sem stefndi hafi greitt og hafi tilkynnt stefnda þá afstöðu sína með bréfi dags. 19. desember 2007, sbr. dskj. nr. 170. Í framhaldinu hafi stefnendur kosið að skjóta úrskurði matsnefndar til dómstóla með stefnu þessari, sbr. gr. 5.1 í samningi aðila frá 13. desember 2005. Stefndi hafi talið að matsnefndin hafi teygt sig of langt í átt að sjónarmiðum stefnenda og hafi því talið nauðsynlegt að gagnstefna til að vera ekki bundinn af niðurstöðu matsnefndarinnar í kröfugerð sinni í máli þessu.

                Með sameiginlegri bókun málsaðila á dómskjali nr. 205 sem gerð var 2. mars 2010 var því lýst yfir að það væri skilningur stefnenda að stefndi væri ekki bundinn af niðurstöðu matsnefndar frá 22. ágúst 2007 eftir að stefnendur hafi borið þá niðurstöðu undir dómstóla. Var því þá lýst að stefndi félli þar með frá gagnsök í málinu. Aðilar bókuðu einnig um að þess væri óskað að ákvörðun um málskostnað vegna gagnsakar  yrði tekin samhliða efnislegri úrlausn málsins.

III

Niðurstöður matsgerða

Niðurstaða meirihluta matsnefndar sem skipuð var á grundvelli samnings aðila frá 13. desember 2005 til að meta verðmæti hinna umdeildu vatnsréttinda

                Eins og fram er komið í málavaxtalýsingu málsaðila hér að framan komst matsnefnd að niðurstöðu 22. ágúst 2007. Fjórir af fimm nefndarmönnum voru samdóma um niðurstöðu en einn nefndarmanna skilaði sératkvæði. Í niðurstöðukafla meirihlutans kemur fram að verkefni nefndarinnar sé skilgreint í 2. gr. 2. tl. samnings málsaðila frá 13. desember 2005. Þar segi að matsnefndin skuli í fyrsta lagi ákveða umfang þeirra vatnsréttinda, sem vatnsréttareigendur láti Landsvirkjun í té. Í annan stað skuli matsnefnd ákveða skiptingu vatnsréttinda milli vatnasvæða. Í þriðja lagi beri matsnefndinni að ákveða verðmæti vatnsréttindanna og skiptingu þeirra milli vatnsréttarhafa. Loks skuli matsnefndin ákveða málskostnað vatnsréttarhafa og þóknun nefndarmanna, sbr. 6. gr. samningsins.

                Ekki þykir ástæða til að rekja hér frekar niðurstöðu matsnefndarinnar um kostnað af störfum hennar sem og málskostnað.

                Þá er ekki ágreiningur um niðurstöðu matsnefndarinnar um umfang þeirra vatnsréttinda sem framseld voru stefnda, eða um hlutfallslega skiptingu bóta milli vatnasviða.

                Ágreiningur snýst eingöngu um hver eru verðmæti umræddra vatnsréttinda og hverjar vera skuli svokallaðar grunnbætur vegna þeirra, en ágreiningslaust er í hvaða hlutfalli ber að skipta þeirri fjárhæð, sem talin yrði rétt, á milli stefnenda. Þá er ágreiningslaust að eigendum vatnsréttinda við Kelduá beri 7,339% álag á grunnbætur en stefndi hefur borið brigður á að eigendur vatnsréttinda við Jökulsá á Dal eigi rétt á því 4,254% álagi ágrunnbætur sem þeim var ákveðið í úrskurði matsnefndar. Ekki er ástæða til að gera nánari grein fyrir þessu atriði hér.   Rétt er hins vegar að gera nákvæmari grein fyrir þeim forsendum meirihluta nefndarinnar sem helst er deilt um, þ.e.a.s. um verðmæti vatnsréttinda.

                Kemur fram í niðurstöðukafla í úrskurði meirihlutans að meginverkefni matsnefndar sé að ákvarða vatnsréttareigendum bætur fyrir þau vatnsréttindi sem þeir láti Landsvirkjun í té til raforkuvinnslu í Fljótsdalsstöð.

                Í gr. 4.6. í samningi aðila frá 13. desember 2005 segi, að matsnefnd skuli við mat sitt byggja á almennum reglum um eignarnámsbætur, raforkulögum og lagareglum um eignarnám á sviði vatnamála. Málsaðilar séu í meginatriðum sammála um þau lagaákvæði, sem matsnefnd beri að fylgja í störfum sínum, en líti ólíkum augum, hvernig beri að túlka þau, einkum ákvæði  72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð.

                Sú meginregla gildi við ákvörðun eignarnámsbóta, að eignarnámsþoli eigi kröfu til þess að fá bætt fjárhagslegt tjón sitt. Bætur miðist við tjón eignarnámsþolans en ekki þann ávinning sem eignarneminn kunni að öðlast við eignarnámið. Í eignarnámsrétti sé einkum litið til eftirfarandi sjónarmiða við ákvörðun á verði hins eignarnumda. Í fyrsta lagi sé stuðst við gangverð eignarinnar sé því til að dreifa. Í annan stað sé horft til notagildis eignarinnar, þ.e. þess arðs, sem eignin skili eða geti skilað eiganda sínum. Í þriðja lagi sé litið til enduröflunarkostnaðar, þ.e. kostnaðar við útvegun sambærilegrar eignar í stað hins eignarnumda. Beri að miða við þann mælikvarðann, sem hæst verð gefi. Aðilar séu sammála um, að síðasttalið sjónarmið um enduröflunarkostnað, eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræði.

                Reginmunur sé á verðhugmyndum málsaðila. Eigendur vatnsréttinda í Jökulsá á Dal krefjist þess aðallega að fullt verð vatnsréttinda allra vatnsfalla, sem tekin verði til beinnar nýtingar í Fljótsdalsstöð verði ákveðið 93.330.000.000 krónur sem skiptist hlutfallslega á alla vatnsréttarhafa í samræmi við umfang vatnsréttinda sem látin hafi verið af hendi. Auk þess verði vatnsréttareigendum í Jökuldal metnar bætur vegna stækkunar Lagarfossvirkjunar, sem aukið vatnsmagn í Lagarfljóti geri mögulega. Þær bætur skuli nema 2.640.000.000 krónum og skiptast á alla vatnsréttareigendur Jökulsár á Dal. Varakrafan nemi 60 milljörðum króna að viðbættum bótum, sem renni óskiptar til Jökuldælinga vegna stækkunar Lagarfossvirkjunar að fjárhæð 1.696.500.000 krónur.

                Aðalkrafa Jökuldælinga svari til u.þ.b. 50% hærri fjárhæðar en numið hafi eigin fé Landsvirkjunar í árslok 2006, samkvæmt framlögðum ársreikningi, en varakrafan til matsverðs, sem lagt hafi verið til grundvallar við kaup ríkisins á eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar í Landsvirkjun árið 2006.

                Bótakröfur eigenda vatnsréttinda í Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá séu mun lægri.

                Landsvirkjun hafi talið við upphaf málsins að heildarverðmæti vatnsréttinda næmi á bilinu 150 til 375 milljónir króna, en hafi upplýst undir rekstri þess að í kostnaðaráætlun hafi af varúðarástæðum verið gert ráð fyrir bótum til vatnsréttareigenda að fjárhæð 700 milljónir króna og hefði verið höfð hliðsjón af úrskurði í Blöndumálinu við þá áætlun.

                Eins og áður sé lýst byggist kröfur Jökuldælinga og reyndar annarra varnaraðila á því að miða beri bætur við hlutfall af árlegum brúttótekjum Landsvirkjunar af rekstri Kárahnjúkavirkjunar (7-15%). Framtíðartekjurnar séu núvirtar til eingreiðslu með afvöxtun, þar sem breytilegir vextir séu notaðir. Varnaraðilar vísi til þess að tíðkast hafi í Noregi og einnig á Íslandi í seinni tíð að  meta vatnsréttindi með hliðsjón af líklegu gangverði í sölu á almennum markaði. Einnig bæri að taka tillit til þess, hvernig réttindin verði best og hagkvæmast nýtt með þekktri tækni á hverjum tíma, fremur en að horfa til nýtingar sem eignarnemi fyrirhugi. Vatnsréttarhafar telji að 15% hlutfall af heildsöluverði raforku sé hófleg viðmiðun með vísan til þess að Kárahnjúkavirkjun sé afar hagstæður virkjunarkostur. Þeir bendi á, að nýtt umhverfi hafi skapast á raforkumarkaði við setningu raforkulaga nr. 65/2003. Áður hafi ríkt einokun ríkisins á raforkumarkaði, en nokkur raforkuver hafi verið byggð eftir að starfræksla raforkuvera hafi verið gefin frjáls, sem gefi tóninn fyrir nýja verðmyndunar- og samkeppnishugsun.

                Matsnefndin líti svo á að ekki liggi fyrir nein gögn sem sýni hvert hafi verið markaðsverð vatnsréttindanna fram til þess tímamarks sem réttindin hafi flust til eignarnema samkvæmt gr. 2.1., sbr. grein 9 í samningi aðila. Fyrir liggi að vatnsréttindin séu ekki sérgreind til verðmætis í fasteignamati þeirra jarða, sem í hlut eigi. Engum sölusamningum muni vera til að dreifa um jarðir á því svæði, sem hér um ræði, þar sem verðmæti vatnsréttindanna sé tilgreint í viðskiptum. Verði því ekki séð að nein merki finnist um, að vatnsréttindi sem nýtt séu við Kárahnjúkavirkjun hafi verið verðlögð í frjálsum samningum.

                Matsnefndin telji að ekki sé unnt að horfa til verðlagningar vatnsréttinda í samningum tengdum þeim fáu smávirkjunum sem varnaraðilar nefni til sögunnar þegar komi að ákvörðun um verðmæti vatnsréttinda sem nýtist við Kárahnjúkavirkjun. Um tvo ólíka heima sé að ræða. Annars vegar nokkrar virkjanir, flestar örsmáar, þar sem skilyrði séu til þess að selja framleiðsluna á innlendum raforkumarkaði. Smávirkjanir tengist dreifikerfi í heimabyggð og samningur við dreifiveitu eða flutningsfyrirtækið, sbr. 3. mgr. 5. gr. raforkulaga, skuli liggja fyrir, þegar sótt sé um virkjunarleyfi til ráðherra.

                Hins vegar sé um að ræða stórvirkjun, sem að óbreyttu hafi engar forsendur til þess að dreifa framleiðslu sinni á innlendum markaði heldur sé háð því að stórkaupandi komi á fót starfsemi hér á landi til nýtingar raforkunnar eða skilyrði skapist til þess að flytja orkuna á erlendan markað. Ekki hafi verið sýnt fram á að síðari kosturinn sé hagkvæmur, a.m.k. ekki á þeim tíma sem hér skipti máli og óvíst sé hvort eða hvenær slíkt kynni að verða arðsamt.

                Forsendur Kárahnjúkavirkjunar tengist því álframleiðslu eða annarri orkufrekri starfsemi, þar sem rafmagnsverð þurfi að vera samkeppnishæft við verð, sem bjóðist annarsstaðar í heiminum.

                Samningur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um raforkuverð til fyrirhugaðrar álbræðslu í Helguvík frá júníbyrjun 2007 sé nærtækt dæmi um mismun á innlendum raforkumarkaði og þeim samkeppnismarkaði sem álframleiðslan starfi á. Umsamið verð til fyrirhugaðrar álbræðslu nemi um 2,1 kr. á kWst., en til garðyrkjubænda 4 kr. samkvæmt frétt í dagblöðum 7. júní 2007. Forstjóri OR hafi lýst því yfir í fréttaviðtali að umsamið verð til álbræðslu væri tengt gengi bandaríkjadals og heimsmarkaðsverði á áli og myndi einhvern tímann á samningstímanum nema 2,1 kr. á kWst.

                Meðal gagna málsins sé bréf iðnaðarráðuneytisins frá 7. mars 2007. Þar sé lýst þrautagöngu íslenskra stjórnvalda til að fá erlenda fjárfesta til að festa fé hér á landi í orkufrekum iðnaði á árunum 1988 til ársins 2003 er raforkulögin hafi tekið gildi. Árangur hafi náðst 1995 þegar Alusuisse hafi dregist á að auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík um 62.000 tonn á ári, fyrir tilmæli íslenskra stjórnvalda. Nokkru síðar hafi tekist samningar við Columbia Ventures Company um kaup á álverksmiðju, sem íslensk stjórnvöld hefðu keypt á árinu 1994 og látið endurhanna. Álverksmiðja með 60.000 tonna afkastagetu hafi verið reist á Grundartanga í kjölfarið og hafi tekið til starfa um mitt ár 1998. Á allra síðustu árum hafi mál skipast á annan veg. Mikil eftirspurn hafi skapast hjá erlendum aðilum, sem vilji fjárfesta hér á landi í áliðnaði. Sé svo komið að mörgum þyki nóg um. Einnig hafi aðrir stórnotendur raforku  sýnt íslenskum aðstæðum áhuga.

                Að áliti matsnefndar beri við mat á verðmæti vatnsréttinda varnaraðila að líta til aðstæðna í aðdraganda þess, að samið hafi verið við Alcoa-Fjarðaál hf. um kaup á raforku til álvinnslu á Reyðarfirði. Á árinu 1997 hafi hafist viðræður Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (hér eftir MIL) við Hydro Aluminium AD, dótturfélag Norsk Hydro, sem lotið hafi að því, að dótturfélagið kannaði möguleika þess að ráðast í byggingu og rekstur álverksmiðju hér á landi. Álverinu hafi verið valinn staður að Hrauni í Reyðarfirði, eftir að nokkrir staðir hafi verið kannaðir. Undirbúningsfélagið Reyðarál hf. hafi verið stofnað á árinu 2000 og skyldi það verða framkvæmdaraðili og eigandi fyrirhugaðs álvers. Að félaginu hafi staðið auk Hydro Aluminium AS, félagið Hæfi hf. sem nokkrir fjársterkir íslenskir aðilar hafi átt. Álverksmiðjan hafi átt að framleiða 360-420 þúsund tonn áls á ári. Sótt hafi verið um að reisa 690 MW virkjun, sem byggð skyldi í tveimur áföngum. Hún hafi síðar hlotið nafnið Kárahnjúkavirkjun. Skipulagsstofnun hafi hafnað byggingu Kárahnjúkavirkjunar með úrskurði í ágúst 2001, sem ráðherra hafi ógilt með úrskurði í desember sama ár og hafi þá aðeins verið eftir að reka endahnútinn á samningaferlið með formlegum hætti. Í mars 2002 hafi Norsk Hydro ákveðið einhliða í annað sinn á viðræðutímanum að fara fram á frestun á byggingu álvers á Reyðarfirði um óákveðinn tíma vegna fjárfestinga félagsins í Þýskalandi, sem þótt hafi álitlegri kostur. Mikil og kostnaðarsöm rannsóknar- og undirbúningsvinna hafi þá staðið yfir í fjölmörg ár og því hafi orðið niðurstaða íslenskra stjórnvalda að slíta samningaviðræðum við Norsk Hydro og leita eftir samstarfi við aðra álframleiðendur um byggingu álvers í Reyðarfirði væri þess kostur. Stuttu síðar hafi komist á samband sóknaraðila við Alcoa, sem leitt hafi til sameiginlegrar aðgerðaáætlunar milli MIL og Alcoa-Fjarðaáls hf. 19. apríl 2002 með það fyrir augum að Alcoa tæki yfir verkefnið. Hlutirnir hafi síðan gerst hratt, enda hafi verkið þá verið nánast fullhannað og öll leyfi frá stjórnvöldum hafi legið fyrir. Lokasamningur aðila hafi verið undirritaður 15. mars 2003. Samningur Landsvirkjunar og Alcoa-Fjarðaáls hf. um raforkuviðskipti hafi verið til 40 ára með endurskoðunarrétti eftir 20 ár. Þessi langi samningstími hafi verið báðum samningsaðilum nauðsynlegur vegna þeirra gríðarlegu fjárfestinga, sem ráðast hafi þurft í. Bjarni Bjarnason formaður samninganefndar Landsvirkjunar við Alcoa hafi upplýst nefndina um að raforkuverð til Alcoa væri í meginatriðum hið sama og náðst hefði í samningum við Norsk Hydro, enda hafi fyrrefnda félagið yfirtekið samning þess síðaranefnda við stjórnvöld nánast óbreyttan.

                Fyrir liggi að Kárahnjúkavirkjun hafi verið sérhönnuð fyrir álverið á Reyðarfirði. Bygging álverksmiðju á Reyðarfirði og framkvæmdin við Kárahnjúka hafi haldist í hendur og hvorug fjárfestingin hafi getað án hinnar verið. Á sama hátt og Kárahnjúkavirkjun hafi verið forsenda fyrir byggingu álvers á Reyðarfiðri hafi álverið verið forsenda fyrir gerð virkjunarinnar.

                Breytingin á rekstrarumhverfi raforkuvera sem orðið hafi við gildistöku raforkulaga á árinu 2003 hafi aðeins náð til innanlandsmarkaðar, enda hafi sá einn verið tilgangur laganna að virkja innlenda samkeppni á raforkumarkaði. Eftir sem áður hafi landið verið eyland í raforkusölu og verði svo, þar til tenging náist um sæstreng eða sæstrengi við Evrópu, verði það einhvern tímann að veruleika. Landið sé á hinn bóginn í harðri samkeppni á heimsvísu um raforkusölu til stóriðju. Augljóst sé að erlendir stórnotendur raforku festi því aðeins fé hér á landi að þeir sjái sér hag í því. Sá hagur felist fyrst og fremst í samkeppnishæfu orkuverði og e.t.v. einnig í öruggu rekstrarumhverfi. Landið liggi hins vegar langt frá hráefnum til álframleiðslu. Ekki verði farið fleiri orðum um þann mun sem sé á raforkumarkaði til stóriðju annars vegar og til almennra nota hins vegar, svo augljós sé sá mismunur. Rétt sé þó að vekja athygli á því, þessu til sérstakrar áréttingar, að orkugeta Kárahnjúkavirkjunar svari til ætlaðrar 60 ára raforkuaukningar almenna markaðarins. Almenni markaðurinn nýti nú um 3000 GWst á ári eftir því sem næst einnar aldar rafvæðingu, en orkugeta Kárahnjúkavirkjunar sé a.m.k. 4.600 GWst á ári. Ljóst sé því að almenni markaðurinn myndi aldrei geta tekið við framleiðslugetu Kárahnjúkavirkjunar, ef vanefndir yrðu af hálfu Alcoa-Fjarðaáls hf. á raforkukaupum.

                Varnaraðilar telji en fremur að líta beri til Noregs við ákvörðun á verði fyrir vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar, enda séu aðstæður þar og hér á landi samanburðarhæfar og Norðmenn byggi á aldargömlum grunni á þessu sviði. Varnaraðilar vísi einkum til dóms, sem gengið hafi í héraðsdómi Kristiansand 30. júní 2005. Um sé að ræða vatnsréttindi í smáá (10MW), þar sem aðstæður hafi verið mjög hagstæðar, m.a. virðist miðlun hafa verið fyrir hendi. Niðurstaða dómsins sýnist vera nýmæli og hafi honum verið áfrýjað.

                Matsnefnd telji aðstæður í Noregi vera gerólíkar íslenskum aðstæðum. Raforkukerfi Noregs sé til að mynda tengt við raforkukerfi nágrannalandanna og þar með Evrópu. Því sé raforkuþörf markaðarins nær ótakmörkuð. Í minnisblaði Friðriks Más Baldurssonar, (mskj. nr. 45) segi m.a. „Raunar er það þannig að stóriðja í Noregi á orðið erfitt um vik sökum þess að verð á almennum raforkumarkaði er orðið mun hærra en í þeim löndum sem nú keppa um sölu á raforku til stóriðju. Þarna liggja ýmsar ástæður að baki, en fyrir utan slök vatnsár í Noregi þá má nefna að verð á gasi og CO2 heimildum í Þýskalandi og öðrum Evrópuríkjum hefur áhrif á raforkuverð til hækkunar, þessar hækkanir valda síðan hækkunum í Noregi og á öðrum norrænum mörkuðum.“

                Önnur gögn málsins styðji það, að fordæmi verði ekki sótt til Noregs. Þar sé vatnsorka nánast fullnýtt og þau óvirkjuðu vatnsföll, sem eitthvað kveði að, verði það áfram af náttúruverndarástæðum. Þessar aðstæður leiði til þess að verð vatnsréttinda í þeim ám sem leyft sé að virkja verði hærra fyrir vikið.

                Þá sé það niðurstaða matsnefndar að fordæmi verði ekki sótt til norsks raforkuumhverfis.

                Ákvörðunin um fullt verð samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar hljóti ávallt að vera háð mati, þegar gangverði hlutaðeigandi hagsmuna sé ekki til að dreifa. Notagildi þeirra fallréttinda sem hér sé um að ræða, sé bundið við virkjun þeirra til raforkuvinnslu. Ekki hafi verið sýnt fram á, að varnaraðilar hafi haft sérstakan arð eða önnur not af fallréttindum sínum til þessa.

                Matsnefndin telji notagildi fallréttindanna bundið við að einhver fáist til að virkja þau, ella séu þau verðlaus. Því vinni hagsmunir málsaðila saman að þessu leyti. Engin virkjun sé án vatns og engin verðmæti án virkjunar.

                Því megi velta fyrir sér hvaða verðmæti felist í ónýttum vatnsréttindum í höndum vatnsréttarhafa og/eða hver önnur úrræði þeir hafi átt til að koma þeim í verð, ef stóriðjuver Alcoa hefði ekki komið til sögunnar. Ekkert liggi fyrir um það að hærra verð fengist nú eða síðar þótt markaðsaðstæður séu nú hagstæðari en þær hafi verið fyrri hluta árs 2002. Á móti komi að viðhorf til náttúruverndar hafi breyst og orðið vatnsaflsvirkjunum andhverf. Ekki sé sjálfgefið að eign í ónýttum vatnsréttindum svari til bankainnistæðu, sem vaxi eftir því sem tíminn líði. Eigendur vatnsréttinda Jökulsár á Fjöllum, hverjir sem þeir séu, safni ekki í sjóði, þótt virkjun árinnar sé með hagstæðustu virkjunarkostum hérlendis.

                Samningur Landsvirkjunar og Alcoa-Fjarðaáls hf. sé gerður af aðilum sem báðir hafi yfirgripsmikla þekkingu á hlutaðeigandi viðskiptasviði og hljóti báðir að hafa talið samninginn sé hagstæðan eða a.m.k. viðunandi. Óvíst sé hvort einhver annar aðili hefði verið reiðubúinn til að greiða hærra raforkuverð. Hann hafi a.m.k. ekki verið tiltækur þegar á hafi þurft að halda.

                Ljóst sé að Norsk Hydro hafi talið eftirsóknarverðara að festa fé í öðru en álverksmiðju á Reyðarfirði einhverra hluta vegna.

                Sóknaraðili hafi byggt á því að lækka beri bætur vegna ýmiss ávinnings, sem varnaraðilar hafi haft af framkvæmdum í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

                Matsnefnd fallist ekki á að neinn sérhagur hafi myndast hjá varnaraðilum vegna framkvæmdarinnar, sem leiða eigi til lækkunar bóta.

                Matsnefnd hafni þeirri málsástæðu varnaraðila að þar sem eignarnámsbætur séu skattlagðar sem atvinnutekjur beri að hækka bæturnar til að fullnægja skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð.

                Í 22. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segi, að eignarnámsbætur skuli skattleggja sem söluhagnað eða með 10% af mismun eignarnámsbóta og stofnkostnaðar, sbr. 66. gr. sömu laga. Það athugist í þessu sambandi að 3. mgr. 15. gr. tekjuskattslaga veiti skattþegn kost á vali um að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað söluhagnaðar.

                Hér að framan hafi verið lýst ýmsum aðferðum sem málsaðilar hafi talið koma til álita að beitt verði við ákvörðun á verðmæti vatnsréttinda varnaraðila. Megi sem dæmi nefna til upprifjunar, mishátt hlutafall af brúttóheildsöluverði raforku, ýmist til stóriðju, eða almennra nota; hlutfall af núvirtum arði; hlutfall af byggingarkostnaði; aðferð Lofts Þorsteinssonar verkfræðings, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 388/2005; margfeldi af kostnaði við öflun hvers MW; norsku hestaflaregluna um virkjanir stærri en 10 MW o.fl.

                Matsnefndin telji nærtækast að horfa til þeirra fordæma, sem fyrri matsgerðir veiti við ákvörðun á verði vatnsréttinda varnaraðila, einkum matsgerðar, sem lúti að virkjun Blöndu, sem bæði sé næst í tíma og líkust Kárahnjúkavirkjun, hvað stærð snerti. Að mati nefndarinnar hafi gildistaka raforkulaga á árinu 2003 ekki breytt fordæmisgildi Blönduúrskurðarins um verðmæti fallréttindanna, sem þar hafi verið nýtt, enda mótist raforkuverð til stóriðju ekki af innlendri samkeppni, eins og áður sé rakið. Þar ríki önnur lögmál s.s. heimsmarkaðsverð á áli.

                Í úrskurði í Blöndumálinu hafi niðurstaðan verið byggð á ýmsum sjónarmiðum, án þess að fram komi vægi hvers þáttar um sig. Höfð hafi verið hliðsjón af fyrri matsgerðum; verðlagningarsjónarmiðum fallvatnsréttinda í Noregi, þar sem ekki væri útilokað að til þess kæmi að raforka yrði flutt út um sæstreng; stofnkostnaði, hagkvæmni virkjunar hafi verið talin til hækkunar bóta, en stærð hennar og afkastageta til lækkunar þeirra. Einnig hafi verið talið að hagræði vatnsréttarhafa að eingreiðslu hefði áhrif á upphæð bóta til lækkunar. Fram komi í forsendum úrskurðarins að eðlilegt og sanngjarnt hlutfall verði að vera milli verðs vatnsréttinda annars vegar og stofnkostnaðar hins vegar. Í úrskurðinum hafi því verið hafnað að taka bæri tillit til takmarkana á heimildum vatnsréttareigenda til virkjunar í þágildandi lögum, en krafist hafi verið lækkunar bóta á þeirri forsendu. Að virtum öllum þessum atriðum hafi niðurstaðan fengist. Bætur til vatnsréttareigenda hafi verið ákveðnar 92 milljónir króna, sem svari til ca. 0,7% af stofnkostnaði.

                Áætlað sé að stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar muni nema u.þ.b. 110 milljörðum króna, sbr. mskj. nr. 91, þegar litið sé framhjá kostnaði við gerð flutningslínu til Reyðarfjarðar.

                Sé fjárhæð bóta reiknuð sem hlutfall af stofnkostnaði með sömu aðferð og beitt hafi verið í Blöndumálinu yrði niðurstaðan 770.000.000 krónur.

                Matsnefnd hafni þeirri afstöðu úrskurðarnefndar í Blöndumálinu, að stærð virkjunar skuli leiða til lækkunar bóta til vatnsréttareigenda. Ekki þyki heldur sjálfgefið að lækka beri bætur vegna ætlaðs hagræðis af eingreiðslu, enda megi telja víst að það fari eftir atvikum, hvort einstakir rétthafar hafi í reynd hagræði af eingreiðslu bótanna.

                Ákvörðun um hvort ráðist skuli í virkjunarframkvæmdir sé ávallt byggð á mati á stofnkostnaði fyrirhugaðrar virkjunar og samspili hans og áætlaðra tekna. Því lægri sem stofnkostnaðurinn sé sem hlutfall af væntum tekjum þeim mun meira sé verðmæti þeirra vatnsréttinda, sem virkjuð séu. Því haldist ávallt í hendur arðsemi og kostnaður. Stofnkostnaður muni aukast eftir því sem hagkvæmum virkjunarkostum fækki og fækkun hagstæðra virkjunarkosta og hækkun stofnkostnaðar hafi áhrif á verð vatnsréttinda til hækkunar.

                Matsnefnd telji rétt í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar í Blöndumálinu að miða bætur vatnsréttarhafa við hlutfall af stofnkostnaði virkjunarinnar. Þá þyki rétt að meta hagkvæmni Kárahnjúkavirkjunar í samanburði við Blönduvirkjun til beinnar hækkunar bóta með eftirfarandi hætti: Áætlaður stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar sé 110 milljarðar króna. Framreiknaður stofnkostnaður Blönduvirkjunar miðað við breytingar á byggingavísitölu frá úrskurðardegi í júlí 1991 til og með ágúst 2007 nemi 26,4 milljörðum króna. Orkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar sé áætluð 4.660 GWst á ári en Blönduvirkjunar 750 GWst á ári. Stofnkostnaður á orkueiningu í Kárahnjúkavirkjun nemi þannig 23,6 milljónum á hverja GWst en 35,2 milljónum í Blönduvirkjun. Þegar þetta sé virt og horft til líklegrar vatnsaukningar vegna gróðurhúsaáhrifa, grænna vottorða, kolefniskvóta, líklegrar hækkunar heimsmarkaðsverðs á raforku og annarra atriða sem varnaraðilar hafi vísað til sem röksemda fyrir hækkun bóta telji matsnefndin hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa vera 1,4% af áætluðum stofnkostnaði eða 1.540 milljónir króna. Bæturnar taki til grunnréttindanna, sem nefndin hafi þegar skipt í hlutföllunum 76,15% til vatnsréttareigenda Jökulsár á Dal, 17,14% til rétthafa í Jökulsá í Fljótsdal og 6,71% til eigenda Kelduár.

                Til viðbótar bótum fyrir grunnréttindin skuli Landsvirkjun greiða vatnsréttareigendum Jökulsár á Dal 4,254% álag á þær bætur sem komi í þerra hlut af grunnréttindunum. Með því bætist fallréttindi Jökulsár á Dal sem nýtanleg séu frá skurðenda við Fljótsdalsstöð til sjávar. Heildarbætur til vatnsréttareigenda Jökulsár á Dal verði 1.222.611.305 krónur. Það athugist að við útreikning á niðurstöðutölum séu notaðir sjö aukastafir.

                Sóknaraðili hafi samþykkt að eigendur vatnsréttinda í Jökulsá í Fljótsdal skuli fá til viðbótar hlut sínum í grunnréttindunum, sérstakar bætur fyrir fallréttindi árinnar frá Ufsarstíflu í 625 m.y.s. að skurðsenda í Fljótsdal 25,5 m.y.s. Ákveðist þessar bætur 2,397% af grunnréttindunum. Heildarbætur til vatnsréttareigenda Jökulsár í Fljótsdal verði 300.866.316 krónur.

                Eigendur vatnsréttinda Kelduár skuli fá til viðbótar 6,71% hlut sínum í grunnréttindunum sérstakar bætur fyrir fallréttindi Kelduár úr 669 metra hæð í Kelduárlóni að 625 metra hæð í Ufsarlóni. Reiknist bæturnar 7,339% álag á hlut Kelduár í grunnréttindunum. Heildarbætur til vatnsréttareigenda Kelduár verði 110.918.146 krónur.

                Samkvæmt þessu séu heildarbætur til vatnsréttarhafa fyrir grunnréttindin og sérstök réttindi alls 1.634.395.767 krónur.

                Matsnefnd telji það styrkja þessa niðurstöðu að Landsvirkjun hafi látið leggja mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, áður en farið hafi verið í framkvæmdir við gerð virkjunarinnar. Eigendum Landsvirkjunar hafi þótt rétt að fá utanaðkomandi valinkunna sérfræðinga til að yfirfara arðsemismat Landsvirkjunar enda miklir hagsmunir eigenda við það bundnir að áhætta af framkvæmdinni yrði innan eðlilegra marka. Rökstudd niðurstaða sérfræðinganna hafi orðið sú að þeir hafi fallist á niðurstöður Landsvirkjunar um að núvirtur arður af framkvæmdinni væri 6,6 milljarðar króna miðað við verðlag í janúar 2003, en sú fjárhæð svari til um 8,8 milljarða á úrskurðardegi, sé miðað við breytingar á byggingarvísitölu á þessu tímabili (372,0/278,0). Í forsendunum hafi verið reiknað með því að greiddar yrðu um það bil 700 milljónir króna vegna vatnsréttindanna, sem taka beri tillit til í þessu sambandi. Ákvörðun nefndarinnar að leggja stofnkostnað til grundvallar niðurstöðu sinni, svari til þess að u.þ.b. 17% af reiknaðri arðsemi framkvæmdarinnar, þegar ákvörðun hafi verið tekin um að hefjast handa, hefði komið í hlut vatnsréttareigenda. Sú niðurstaða hefði verið sanngjörn og eðlileg gagnvart vatnsréttarhöfum að mati nefndarinnar. Ekki þyki rétt í þessu sambandi að horfa til endurskoðaðs arðsemismats virkjunarinnar, sem gert hafi verið 23. ágúst 2006 þegar framkvæmdir hafi verið komnar vel á veg. Samkvæmt matinu hafi núvirtur arður af framkvæmdinni lækkað um 2,2 milljarða króna. Matsnefndin telji eðlilegt að sóknaraðili beri áhættuna af breyttri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar eftir að ákvörðun um framkvæmdina hafi verið tekin, enda áskilnaður um 11% ávöxtun eigin fjár m.a. skýrður með áhættu af fyrirhuguðum framkvæmdum.

                Um skiptingu bóta kemur fram í úrskurðinum að þeim sé skipt hlutfallslega milli rétthafa í samræmi við niðurstöður Orkustofnunar í skýrslum, sem nefnist „Vatnamælingar á vatnasviðum Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og Jökulsár á Dal vegna vatnsréttinda í tengslum við Kárahnjúkavirkjun OS-2006/008 og OS-2007/003.“ Hverri landareign fylgi fall árinnar frá efri landamerkjum að þeim neðri. Helmingur fallréttindanna tilheyri hvorum bakka árinnar. Frá því sé undantekning ofan Kárahnjúkastíflu, þar sem skipting milli bakka sé önnur eins og nánar verið skýrt síðar.

                Við útreikning bóta til rétthafa séu notaðar hlutfallstölur með sjö aukastöfum. Það athugist að hlutfallstölurnar í þeim töflum sem sýndar séu í úrskurðinum séu sýndar með færri aukastöfum og því fáist ekki full nákvæmni með því að nota þær við útreikning bóta.

                Skiptingu matsnefndar á verðmætum vatnsréttinda verði samhengis vegna jafnað niður á allar þær jarðir sem land eigi að umræddum vatnsföllum, óháð því hvort eigendur þeirra hafi gerst aðilar að samningnum frá 13. desember 2005 eða ekki.

                Þá eru í úrskurðinum sýndar niðurstöður varðandi hverja jörð við hverja hinna þriggja áa í töfluformi þar sem fram kemur hlutfallstala þeirra af heildarbótum. Kemur þessi hlutfallstala fram hér framar í dóminum þegar grein er gerð fyrir aðilum málsins og kröfugerð og sætir hún ekki ágreiningi utan það sem fyrr er rakið og lýtur að 4,254% álagi á grunnbætur vegna vatnsréttinda við Jökulsá á Dal. Þykir því ekki ástæða til að rekja þessar tölulegu niðurstöður frekar hér.

Niðurstaða Egils B. Hreinssonar

                Fyrir liggur í málinu niðurstaða minnihluta matsnefndar, sem einnig er rökstudd í ítarlegu máli. Kemur fram í sérálitinu að matsmaður sé sammála meirihluta matsnefndar um hlutfallslega skiptingu bóta milli vatnsréttarhafa, þ.e. í hvaða hlutföllum eða prósentum heildarbótum skuli skipt. Einnig sé hann sammála úrskurði meirihluta nefndarinnar um málskostnað.

                Egill kveðst hins vegar ósammála þeirri aðferð sem meirihluti nefndarinnar noti til að meta ofangreinda heildarfjárhæð bóta til vatnsréttarhafa vegna eignarnáms vatnsréttinda og þar með niðurstöðu meirihlutans um þessa heildarfjárhæð. Hann telji að sú grundvallarbreyting sem átt hafi sér stað við setningu raforkulaga árið 2003 þar sem markaður hafi verið innleiddur í stað opinbers einkasöluumhverfis, leiði óhjákvæmilega til gjörbreyttra forsendna og aðferða við mat á verðmæti vatnsréttinda miðað við fyrri forsendur. Þessi breyttu viðhorf og aðferðir, sem lýst sé í sératkvæði hans, leiði að hans mati til mun hærri bóta en þeirra, sem meirihlutinn komist að vegna eignarnáms vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar. Kveðst hann einnig ósammála úrskurði meirihlutans um umfang þeirra vatnsréttinda sem tekin hafi verið eignarnámi, en hann telji að matsnefnd brri að marka þetta umfang miðað við aðstæður eins og þær séu nú, en með tilliti til hugsanlegra breyttra aðstæðna í framtíðinni.

                Egill gerir grein fyrir meginniðurstöðum sínum með eftirfarandi hætti. Kveður hann þær vera þríþættar. Í fyrsta lagi hvaða aðferð skuli beitt til að meta fullar bætur vegna eignarnáms. Í öðru lagi hver sé upphæð heildarbóta samkvæmt sératkvæði hans. Í þriðja lagi hvert sé umfang hinna eignarnumdu vatnsréttinda.

                Kveðst hann telja að meta beri fullar bætur vegna eignarnáms stefnda á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar með hliðsjón af eftirfarandi aðferðum og atriðum:

1.        Tölulegu verðmætamati vatnsréttindanna með mati á auðlindarentu Kárahnjúkavirkjunar, miðað við eftirfarandi viðmiðanir. Ef mismunandi niðurstöður fáist, sé í grundvallaratriðum miðað við hæsta gildið, þ.e. hæstu auðlindarentuna, sem metin sé án verulegrar óvissu. Viðmiðanirnar séu:

a.       Markaðsverð á innlendum raforkumarkaði, þ.e. bæði á almennum markaði og „markaði“ um orkusölu til stóriðju og/eða aðra innlenda stórsölu að frádregnu kostnaðarverði orku frá virkjuninni.

b.       Markaðsverð á erlendum raforkumarkaði í tilteknu nágrannalandi eða löndum miðað við mögulega framtíðartengingu um sæstreng við slíkan markað að frádregnu kostnaðarverði virkjunar og flutnings á markað.

c.        Kostnaðarverð annarra viðmiðunarvirkjanakosta, þ.e. verðmun kostnaðarverðs miðað við aðra orkuöflunarkosti, sem séu tiltækir og gætu komið í stað Kárahnjúkavirkjunar og kostnaðarverðs sjálfrar Kárahnjúkavirkjunar.

2.        Almennum áhrifum stærðar Kárahnjúkavirkjunar, miðað við aðrar virkjanir sem tengist innlendum markaði, á verðmæti vatnsréttinda og hvernig eða hvort stærðin breyti þessu verðmætamati.

3.        Eingreiðslum bóta samkvæmt samningi aðila og verðmætum þess, ef aðilar hefðu val hvenær bætur fyrir þessi verðmæti yrðu greiddar. Hér sé um verðmæti sk. valkvæðra samninga að ræða er taki mið af óvissu og áhættu vegna annarra mögulegra framtíðarkosta er síðar kæmu í ljós til ráðstöfunar vatnsréttinda.

4.        Verðmætum þess valkvæða samnings sem tekinn sé af vatnsréttarhöfum vegna eignarnáms vatnsréttindanna nú.

5.        Líklegri þróun orkuverðs á markaði fyrir endurnýjanlega vistvæna orku einkum á nk. heimsmarkaði. Verðmæti grænna vottorða og kolefniskvóta í tengslum við vistvæna raforku frá Kárahnjúkavirkjun og áhrifum þessara atriða á verðmæti vatnsréttindanna.

6.        Áframhaldandi þróun innlends viðskiptaumhverfis um raforku úr opinberu einkasöluumhverfi í átt til samkeppnismarkaðar á sviði raforku en þessi ferill hafi hafist með setningu raforkulaga 2003.

Kveðst Egill ósammála þeirri aðferð meirihluta matsnefndar að miða bætur fyrir vatnsréttindi við tiltekið hlutfall af stofnkostnaði eða núvirtum arði virkjunar.

                Kveður Egill að meginniðurstöður hans um upphæð heildarbóta til vatnsréttarhafa séu eftirfarandi:

                Með hliðsjón af fyrsta atriði ofangreindrar upptalningar, og eins og rökstutt sé nánar í síðari hluta niðurstöðu hans, svo og samanteknum niðurstöðum í nánar tilgreindri töflu, telji hann að meta beri fullar bætur vegna eignarnáms vatnsréttinda a.m.k. 10.000.000.000 krónur, eða um sjöfalda þá upphæð sem meirihluti matsnefndar meti sem fullar bætur.

                Þar sem hér sé aðeins um sératkvæði lítils minnihluta matsnefndar að ræða, sé aðeins sett fram lágmark bóta að mati hans og gætu bætur átt að vera hærri, þótt ekki sé unnt að fullyrða um slíkt, t.d. ef tekið sé tillit til þróunar verðmætis vistvænnar orku á alþjóðamarkaði á næstu áratugum og annarra þátta, einkum þeirra sem taldir séu nr. 3 til 6 hér að framan.

                Ofangreind niðurstaða byggi á allítarlegu tölulegu mati samkvæmt lið nr. 1 hér að framan, þ.e. mati á auðlindarentu virkjunarinnar, þar sem rentan sé reiknuð með nokkrum mismunandi aðferðum, sem allar beri að sama eða svipuðum brunni.

                Ekki sé lagt nákvæmt tölulegt mat á önnur atriði (nr. 2 til 6) í ofangreindri upptalningu sem að mati Egils hafi áhrif til hækkunar upphæðar, nema atriði nr. 2, þ.e. stærð virkjunar miðað við stærð markaða, enda hér um að ræða sératkvæði minnihluta matsnefndar.

                Þótt Kárahnjúkavirkjun sé allt of stór fyrir innlendan markað einan, sé auðvelt að skipta afurð hennar í minni einingar. Þetta gildi einnig um vatnsréttindin, sem upphaflega séu eign margra aðila og séu auðskiptanleg í margar minni einingar, t.d. í minni virkjunum, þótt þær hefðu líklega orðið dýrari, ef þær hefðu verið hannaðar og virkjaðar. Erfitt sé að sjá rökin fyrir hvernig einhliða ákvörðun virkjunaraðila, að safna vatnsréttindum saman í eina stóra og hagkvæma virkjun, geti minnkað verðmæti vatnsréttinda til einstakra vatnsréttarhafa eða í heild sinni, miðað við minni virkjanir. Ef almannahagur kalli á þessa sameiningu vatnsréttinda og eignarnám, verði fullar bætur til hvers vatnsréttarhafa ekki metnar án þess að taka mið af verðmæti þeirra á markaði, líka ef reistar væru minni virkjanir í staðinn eða með öðrum algildari mælikvarða. Eðlilegt sé að reikna þetta verðmæti sem auðlindarentu og hafi tiltekinn orkusölusamningur virkjunaraðila við orkukaupanda einfaldlega, að mati Egils, engin bein áhrif á verðmæti vatnsréttindanna.

                Að mati Egils leiði einnig núverandi og hugsanlega tímabundin tæknileg takmörkun á möguleika til orkuflutnings og tengingar við aðra stærri markaði, svo og vanþroski innlends markaðar, ekki til varanlegrar lækkunar auðlindarentunnar, heldur sé eðlilegt að líta á verðmæti auðlindarinnar meira og meira sem algild verðmæti til lengri tíma litið þegar tengingar og markaðir þróist.

                Þótt bætur séu samkvæmt samningi aðila greiddar með eingreiðslu, sé að hans mati rétt að meta þær til lengri tíma svipað og núvirðing kostnaðar eða tekna virkjunaraðila. Að hans mati væri leigunám vatnsréttinda og árleg greiðsla heppilegri aðferð en eingreiðsla, þ.e. hugsanlegri óvissu og áhættu um framtíðarþróun markaða væri í því tilfelli jafnað á sanngjarnari hátt milli aðila. Til lengri tíma litið, og hvort sem form bóta sé eingreiðsla eða árleg greiðsla, verði að mati Egils í auknum mæli að horfa á verðmæti vatnsréttindanna sem algild verðmæti auðlindar. Niðurstaða hans í þessu sératkvæði sé að hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa nemi a.m.k. ofangreindri upphæð.

                Þá kveður Egill að meginniðurstöður sínar um umfang vatnsréttindanna séu eftirfarandi:

                Hann kveðst telja að matsnefnd beri að marka umfang hinna eignarnumdu vatnsréttinda miðað við núverandi hönnun Kárahnjúkavirkjunar, þannig að þetta umfang takmarki á engan hátt rekstur stefnda á virkjuninni. Það marki um leið skil milli hinna eignarnumdu vatnsréttinda nú og hugsanlegrar aukningar vatnsréttinda t.d. vegna aukins innrennslis að virkjuninni með hlýnandi loftslagi svo og vegna mögulegra orkuaukandi aðgerða svo sem viðbótarsöfnunar vatns að inntaksmannvirkjum o.s.frv.

                Hann telji að marka beri þetta umfang með hámarksrennsli vatns um hverfla virkjunarinnar að meðaltali á hverri klukkustund og nemi þetta hámark sem stefnda sé heimilt að meðaltali að nota á hverri klukkustund hönnunarrennsli, þ.e. 144 m³/s. Þótt þetta sé meira en meðalrennsli allt árið til virkjunarinnar sé hér verið að marka hvað felist í vatnsréttindunum með hámarksmeðalrennsli vatns á hverri klukkustund, þ.e. skammtímasveiflur rennslis innan klukkustundar séu undanskildar.

Matsgerð dr. Ragnars Árnasonar og dr. Birgis Þórs Runólfssonar

                Með matsbeiðni á dómskjali nr. 179 óskuðu stefnendur þess að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn sérfróðir á sviði viðskiptafræði og/eða hagfræði og æskilega með þekkingu á orkumálum og auðlindafræði til að framkvæma hið umbeðna mat. Hinn 23. júní 2008 voru dómkvaddir dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og Gylfi Magnússon dósent í hagfræði við sömu menntastofnun. Hinn 17. mars 2009 var Gylfi Magnússon að eigin ósk leystur frá matsstörfum og dr. Birgir Þór Runólfsson dósent í hagfræði við Háskóla Íslands dómkvaddur í hans stað. Matsgerð þeirra er dagsett 31. mars 2010 og var lögð fram á dómþingi 6. apríl sama ár.

                Verða hér raktar matsspurningar orðrétt og svör við þeim eins og matsmenn draga þau saman. Til aðgreiningar verða spurningar úr matsbeiðni skáletraðar.

1.            Hvert er meðalverð seldrar raforku á Íslandi árið 2006, m.v. verð á selda kílówattstund við stöðvarvegg?

                Matsmenn svara á þann veg að ekki hafi tekist að afla beinna upplýsinga um téð meðalverð raforku, enda virðist þeim hvergi safnað og þær skráðar. Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar hafi meðalverð félagsins á raforku við stöðvarvegg á árinu 2006, verið 2,07 kr. á kWst. Þessi tala komi bærilega heim og saman við upplýsingar um heildartekjur Landsvirkjunar af sölu raforku og samtölu seldrar raforku á árinu 2006. Á grundvelli þeirra upplýsinga megi finna meðalverðið 2,18 kr/kWst. Á árinu 2006 hafi Landsvirkjun framleitt 76% af öllu rafmagni í landinu og 96% af því rafmagni sem framleitt hafi verið með vatnsafli. Svar: 2,07 – 2,18 kr./kWst.

a.            Eftir því sem unnt er, verði einnig sett fram meðalverð á raforku til stóriðju annars vegar og annarra nota hins vegar.

Matsmenn greina frá að samkvæmt sömu heimild, þ.e. upplýsingum Landsvirkjunar, hafi meðalverð Landsvirkjunar á raforku til stóriðju á árinu 2006 verið 1,69 krónur á kWst. Meðalverð til heildsölukaupenda, sem líklegast séu allir kaupendur hafi verið 2,87 krónur á kWst. Hvort tveggja miðist við stöðvarvegg. Svar: Verð til stóriðju: 1,69 kr./kWst. Verð til annarra nota 2,87 kr./kWst.

b.            Jafnframt verði eftir því sem unnt er, sett fram meðalverð eftir því hvort um er að ræða tryggða orku eða ótryggða.

                Matsmenn greina frá að samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar hafi meðalverð hennar á tryggðri raforku á árinu 2006 verið 2,13 kr./kWst. og ótryggðri orku 0,83 kr./kWst. Svar: Verð á ótryggðri orku: 2,13 kr./kWst. Verð á tryggðri orku 0,83 kr./kWst.          

2.            Hver er líklega þróun á meðalverði raforku á Íslandi, m.v. verð á selda kílówattstund við stöðvarvegg, næstkomandi 25 ár, frá árinu 2006 að telja?

Svar:      Matsmenn segja ekki liggja fyrir spár um líklega þróun raforkuverðs hér á landi næstu 25 ár. Hagræn rök standi til þess að sú þróun muni ráðast mjög af framvindu raforkuverðs erlendis. Unnt sé að framreikna raforkuverð með ýmsum hætti. Slíkur framreikningur sé hins vegar í ýmsu varhugaverður og ekki mjög áreiðanlegur. Einfaldur framreikningur bendi til þess að árlegur meðalvöxtur í meðalorkuverði verði um 0,28% á ári næstu 25 ár. Þetta samsvari um 7-8 % raunhækkun á tímabilinu. Ekki megi þó líta svo á að þetta sé hækkun á gildandi orkuverði á þessu eða nýliðnum árum. Því megi ekki heldur nota þessa hlutfallshækkun til að framreikna orkuverð frá slíkum völdum upphafspunkti. Svar: Árlegur vöxtur um 0,28%, sem samsvari 7-8 % raunhækkun á 25 árum. Ekki megi líta svo á að þetta sé hækkun á gildandi verði á þessum eða nýliðnum árum.

a.            Hvað samsvarar þróun meðalverðs raforku á Íslandi miklum stöðugum vexti (e. constant growth) eða eftir atvikum stöðugri rýrnun, talið í prósentum?

Svar:      Um 0,28% árlega.

b.            Hvað samsvarar þróun meðalverðs raforku á Íslandi til stóriðju, miklum stöðugum vexti (e. constant growth) eða eftir atvikum stöðugri rýrnun, talið í prósentum?

Svar:      Um 0,32% árlega.

3.            Hvert væri hámarks leiguverð fyrir vatnsréttindi sem hlutfall af brúttótekjum Kárahnjúkavirkjunar sem koma á í hlut vatnsréttarhafa sem árleg greiðsla, með hliðsjón af leigusamningum um vatnsréttindi?

Svar:      Með hliðsjón af leigusamningum um vatnsréttindi vegna minni virkjana sem gerðir hafi verið hérlendis á undanliðnum árum megi ætla að leiguverð fyrir vatnsréttindi sem hlutfall af brúttótekjum virkjunar sé um það bil 4-5%. Í þeim samningum sem matsmenn hafi skoðað komi ekkert fram um það hvernig sú hlutfallstala hafi verið fundin, aðeins að aðilar hafi orðið ásáttir um það hlutfall sem upp sé gefið. Ætla megi þó að grunnur að ákvörðun hlutfallstölu sé einhverskonar arðsemismat. Svar: Hámarksleiguverð sem hlutfall af brúttótekjum er 5%.

a.            Hvert væri hlutfallið ef raforkan yrði seld á meðalverði allrar raforku?

Svar:      5%.

b.            Hvert væri hlutfallið ef raforkan yrði seld á meðalverði raforku til stóriðju?

Svar:      Matsmenn kveða ekki forsendur til að segja til um hvert hlutfallið yrði eða yfirleitt að það yrði annað.

c.             Þess er óskað að matsmenn geri grein fyrir því hvort niðurstaða yrði mismunandi og ef svo er, með hvaða hætti, ef miðað væri við 1) febrúar 2006, 2) ágúst 2007 eða 3) matsdag.

Svar:      Matsmenn segja að þar sem spurt sé um hlutfall, breytist svör ekki með verðlagi á hverjum tíma.

4.            Hvert væri hámarks leiguverð fyrir vatnsréttindi sem hlutfall af brúttótekjum Lagarfossvirkjunar sem koma á í hlut vatnsréttarhafa sem árleg greiðsla, vegna þeirrar orkuframleiðslu sem kemur til af vatnsrennsli úr Jökulsá á Dal vegna Kárahnjúkavirkjunar, með hliðsjón af leigusamningum um vatnsréttindi?

Svar:      Matsmenn telja að við það að veita verulegu vatnsmagni úr Jökulsá á Dal í Lagarfljót hafi vatnsmagn til Lagarfossvirkjunar aukist verulega. Þar með hafi framleiðslugeta þeirrar virkjunar aukist. Hafi rafmagnsframleiðsla hennar þrefaldast eftir að virkjunin hafi verið stækkuð til að nýta sér þetta aukna vatnsmagn. Hins vegar sé á það að líta að miðað við ætlaða arðsemi Kárahnjúkavirkjunar megi öruggt telja að ráðist hefði verið í þá virkjun óháð því hvort hún gagnaðist Lagarfossvirkjun eða ekki. Jafnframt sé Lagarfossvirkjun eini aðilinn sem sé í aðstöðu til að nýta sér hið aukna vatnsmagn í Lagarfljóti og geti það án þess að valda Kárahnjúkaframkvæmd neinu tjóni. Það sé mat matsmanna að samningsstaða framkvæmdaaðila Kárahnjúkavirkjunar, Landsvirkjunar og vatnsréttindahafa, gagnvart eiganda Lagarfossvirkjunar, RARIK, hafi verið og sé afar veik. Því sé ólíklegt að frjálsir samningar þessara aðila myndu leiða til greiðslu fyrir vatnsnotkun frá RARIK til Landsvirkjunar. Svar: Núll.

a.            Hvert væri hlutfallið ef raforkan yrði seld á meðalverði allrar raforku?

Svar:      5%.

b.            Hvert væri hlutfallið ef raforkan yrði seld á meðalverði raforku til stóriðju?

Svar:      Líklega um 40% lægra en í lið a. (sic) Við skýrslugjöf fyrir dómi leiðréttu matsmenn þetta og kváðu að þarna hafi átt að standa 5%.

c.             Þess er óskað að matsmenn geri grein fyrir því hvort niðurstaða yrði mismunandi og ef svo er með hvaða hætti ef miðað væri við 1) febrúar 2006, 2) ágúst 2007 eða 3) matsdag.

Svar:      Matsmenn kveða að sem fyrr minni þeir á að spurningin lúti að hlutfalli af brúttótekjum. Þess vegna muni svarið ekki breytast með verðlagi. Sú fjárupphæð sem um ræði myndi hins vegar gera það.

5.            Hver eru verðmæti vatnsréttinda sem látin eru af hendi vegna Kárahnjúkavirkjunar?

a.            Miðað við verðlag í febrúar 2006.

b.            Miðað við verðlag í ágúst 2007.

c.             Miðað við verðlag á matsdegi.

                Í matsgerð er síðastgreindri spurningu svarað með ítarlegum hætti. Kemur þar fram að sérhver orkuframkvæmd sem byggi á nýtingu náttúruauðlinda sé að verulegu leyti einstök. Þetta stafi af því að náttúrulegar aðstæður séu breytilegar. Engar tvær aðstæður séu eins og oft séu þær afar ólíkar m.a. hvað snerti grundvallaratriði eins og mögulegt umfang orkuframleiðslu, kostnað við að framleiða orkuna og áhættuna við framkvæmdina. Þetta eigi í ríkum mæli við vatnsaflsvirkjanir, gufuaflsvirkjanir og jafnvel olíuvinnslu þótt hún sem slík sé auðvitað ekki orkuframkvæmd. Þetta eigi í miklu minna mæli við um orkuframleiðslu þar sem stöðluðum hráefnum sé brennt í sérhæfðum verksmiðjum eins og kola-, gas- og olíukeyrðum orkuverum.

                Kárahnjúkavirkjun sé vissulega einstök framkvæmd hvað snerti náttúrulegar aðstæður, stærð, kostnað og áhættu og raunar einnig markaðssetningu afurðanna. Sé þessi sérstaða rakin í ýtarlegu máli í fjölmörgum dómskjölum málsins, þ.á.m. úrskurði Matsnefndar til ákvörðunar bóta vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar. Því sé það að fyrirliggjandi samningur um verð á vatnsréttindum í öðrum vatnsaflsvirkjunum bæði hér á landi og erlendis varpi að mati matsmanna fremur takmörkuðu ljósi á líklegt markaðsverð þessara réttinda í Kárahnjúkavirkjun. Hvað þetta snerti taki matsmenn undir álit Matsnefndar til ákvörðunar bóta vegna Kárahnjúkavirkjunar en þeir telji þó að Matsnefndin taki heldur djúpt í árinni. Hér sé ekki um tvo aðskilda heima að ræða, heldur illa sambærilega hluti í sama heimi. Upplýsingar um verð vatnsréttinda í ólíkum virkjunum geti verið mikilsverð gögn við mat á verðmæti annarra matsréttinda, sérstaklega ef betri gögn séu ekki fyrir hendi.

                Þá vísa matsmenn til þess að þeir líti svo á að hugtakið „fullt verð“ í stjórnarskrá hljóti jafnframt að vera „rétt verð“ í skilningi hagfræði (þ.e. tilheyra mengi réttra verða).

                Kárahnjúkavirkjun sé óskiptanleg í þeim skilningi að hún sé sett fram gagnvart rétthöfum sem ein eining og ekki um það að ræða að stækka hana eða minnka til að finna þá stærð sem báðum aðilum henti best. Við þær aðstæður sé hagfræðilega rétt verð fyrir vatnsréttindi og önnur réttindi sem virkjuninni tengist á einhverju tölu- eða verðbili. Þetta verðbil sé í stórum dráttum væntanlegur hagnaður af framkvæmdinni umfram allan kostnað Landsvirkjunar þ.m.t. reiknaðan kostnað vegna áhættu.

                Telja matsmenn að þegar rétt verð sé á verðbili sé fullt verð það verð á þessu bili sem frjálsir samningar hefðu leitt til. Hin fræðilega aðferð til að finna líklegustu niðurstöðu frjálsra samninga sé samningsleikjafræði (e. bargaining game theory).

                Þá gera matsmenn grein fyrir fjórum þáttum sem meginmáli skipti við greiningu á samningsleik.

                1. Eðli leiksins

                Viðfangsefni leiksins sé að leita samkomulags milli aðila um að framkvæma Kárahnjúkavirkjun eins og henni sé lýst í málskjölum. Helstu samningsaðilar séu Landsvirkjun, ríkið, vatnsréttarhafar og aðrir rétthafar. Með þeim síðastnefndu sé átt við landeigendur, sveitarfélög og aðra handhafa réttinda á svæðinu hverra samþykki sé nauðsynlegt til að af framkvæmdinni geti orðið. Landsvirkjun sé ríkisstofnun og lúti væntanlega vilja ríkisins. Því sé frá leikjafræðilegu sjónarmiði ekki ástæða til að greina á milli Landsvirkjunar og ríkisins. Telji matsmenn því þrjá aðila að þessum samningsleik: Landsvirkjun (LV), vatnsréttarhafa (VR) og aðra rétthafa (AR). VR og AR séu hópar smærri samningsaðila. Hér sé engu að síður við það miðað að þessir aðilar fylki sér í tvo samstæða hópa í þessum samningum, enda væri staða hvers aðila fyrir sig veik ef þeir gerðu það ekki. Að verulegu leyti sé VR þegar skipulagður sem samstæður hópur.

                2. Staða samningsaðila

                Sérhver hinna þriggja samningsaðila geti komið í veg fyrir framkvæmdina. Samþykki allra sé því nauðsynlegt til að af framkvæmdinni verði.

                3. Hreinn hagnaður af samkomulagi (framkvæmdinni)

                Sérhver framkvæmd hafi einhvern hreinan hagnað. Hreinn hagnaður sé sú stærð sem til skiptanna sé eftir að allur kostnaður hafi verið greiddur. Rétt sé að taka skýrt fram að kostnaður vegna óvissu sé hluti af þeim kostnaði sem reikna beri á verkefnið. Í þessu samhengi sé mikilvægt að gera greinarmun á væntanlegum hreinum hagnaði, þ.e. þeim hagnaði sem talið sé að framkvæmdin skili (ex ante) og hreinum hagnaði í raun þegar upp sé staðið (ex post). Hér sé um það að ræða að ná samkomulagi um framkvæmd sem skila eigi hagnaði í framtíðinni. Það þýði að hinn hreini hagnaður heildarinnar af samkomulagi sé væntur hagnaður af framkvæmdinni.

                Ef hinn hreini hagnaður sé jákvæður megi líta á hann sem hið rétta verðbil. Hinn hreini hagnaður sé þá jafnframt sú upphæð sem til skiptanna sé milli samningsaðila.

                Hinn hreini hagnaður falli til yfir tíma, í þessu tilfelli líftíma virkjunarinnar. Margt mæli með því að reikna fullt verð með sama hætti, þ.e. dreifa því og þar með bótunum á sömu tímabil. Í gögnum málsins til þessa hafi þó verið farin sú leið að reikna núvirði hreins hagnaðar og miða við eingreiðslu fyrir réttindi sem af hendi séu látin. Sjái matsmenn ekki knýjandi nauðsyn til að hverfa frá þessu.

                Nokkrar athuganir hafi verið gerðar á væntanlegum hreinum hagnaði Kárahnjúkaframkvæmdar. Meðal annars hafi Landsvirkjun þrisvar birt niðurstöður um þetta efni; árið 2003 (svokölluð eigendaskýrsla á dómskjali nr. 11), árið 2006 (endurskoðað arðsemismat) og árið 2008 (mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar). Niðurstöður þessara þriggja birtu athugana hafi verið nokkuð ólíkar. Í fyrstu athuguninni 2003 hafi núvirði framkvæmdarinnar verið talið 6,6 milljarðar króna (verðlag 2002). Í annari athuguninni árið 2006 hafi sama núvirði talið 4,4 milljarðar króna (á ótilteknu verðlagi en vegna samhengis megi ætla að miðað sé við verðlag árisins 2002). Í þriðju athuguninni sem framkvæmd hafi verið árið 2008 hafi þetta núvirði verið talið 15,5 milljarðar króna (verðlag 2008). Aðrir hafi einnig metið þennan ábata. Til að mynda hafi Jón Þór Sturluson komist að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni 2006 (dskj. nr. 35) að núvirtur hagnaður af virkjuninni geti verið 35 milljarðar króna og Pétur Stefánsson og Unnur Helga Kristjánsdóttir telji það vera 7,5 milljarða króna (dskj. nr. 10). Á sama ári sé því þetta núvirði metið frá 4,4 milljörðum króna (5 milljarðar miðað við verðlag 2006) að 35 milljörðum króna af þremur mismunandi aðilum. Það sé því veruleg óvissa um hver hinn vænti hreini hagnaður af Kárahnjúkavirkjun sé.

                Því miður hafi Landsvirkjun sem búi yfir fyllstum og bestum upplýsingum um fjármálalegar hliðar framkvæmdarinnar, ekki fengist til að láta forsendur sinna útreikninga í té nema að mjög takmörkuðu leyti. Því sé meiri óvissa um þennan vænta hagnað en vera þyrfti. Ljóst sé þó að þetta reiknaða núvirði sé afar næmt fyrir mjög óvissum þáttum eins og framtíðarverði raforku frá virkjuninni og þeirri ávöxtunarkröfu sem notuð sé (sbr. dskj. nr. 11, eigendaskýrsluna og Capacent 2008). Capacent segi í umsögn sinni um uppfært arðsemismat Landsvirkjunar að lítils háttar breyting á forsendum hennar geti haft heilmikil áhrif á reiknað núvirði framkvæmdarinnar. Þeir segja m.a. að 1% aukning á raforkumagni hækki núvirði um 2 milljarða króna og 1% hækkun raforkuverðs að 20 árum liðnum hækki núvirði um 700 milljónir króna. Í eigendaskýrslu frá 2003 sé fjallað um áhrif álverðs og þar segi að hver 1% hækkun álverðs leiði til 1 milljarðs hækkunar núvirðis. Örlitlar breytingar hafi þannig mikil áhrif. Þriðji þátturinn sem miklu ráði um þetta núvirði sé kostnaðurinn við fjárfestinguna. Nú liggi hann hins vegar fyrir með talsverðri vissu. Þá gera matsmenn ítarlega grein fyrir forsendum við útreikninga sinna, sem óþarfi er að tíunda nákvæmlega hér, og segja að miðað við þær forsendur reiknist þeim til að núvirði framkvæmdar í upphafi árs 2002 og á verðlagi 2008 sé 18,2 milljarðar króna. Reiknað frá árinu 2007 á grundvelli uppsafnaðrar fjárfestingar með vöxtum samkvæmt útgefnum upplýsingum frá Landsvirkjun reiknist þetta núvirði 20,9 milljarðar króna. Þessar niðurstöður megi bera saman við mat Landsvirkjunar árið 2008 upp á 15,5 milljarða króna. Matsmenn telji rétt að minna á að þessar niðurstöður þeirra séu fengnar með því að miða við talsvert hátt óvissuálag, 3% vaxtaálag á vexti, en það jafngildi lækkun reiknaðs núvirðis um a.m.k. 70 milljarða króna á tímabilinu. Þetta sé núvirði þeirrar upphæðar sem á grundvelli gefinna forsendna muni safnast fyrir í sjóðum Landsvirkjunar umfram útlagðan kostnað ef allar rekstrarstærðir reynist jafngildar vongildi (e. expected value) sínu.

                Sem fyrr segi séu niðurstöður um núvirði mjög næmar fyrir forsendum, einkum forsendum um orkuverð, orkusölu og ávöxtunarkröfu. Þetta núvirði sé einnig mjög næmt fyrir fjárfestingarkostnaðinum en hann liggi nú þegar fyrir að mestu og því þekktur með talsverðri vissu. Þá vísa matsmenn til nánar greindra athugana á næmni núvirðisins fyrir breytingum í forsendum, sem og tilviljanakenndra „hermana“ sem þeir hafi framkvæmt  og telja benda til að 90% óvissubil fyrir þetta núvirði kunni að vera talsvert vítt eða á bilinu 2 til 65 milljarðar króna.

                Að öllu samanlögðu þyki matsmönnum hæfilegt að gera ráð fyrir að núvirði þessarar framkvæmdar sé á bilinu 10 til 25 milljarðar króna. Þetta sé með öðrum orðum það verðbil sem samsvari réttu verði í hagfræðilegum skilningi.

                4. Aðrir kostir samningsaðila

                Sem fyrr greini kunni Kárahnjúkavirkjun að koma í veg fyrir að aðilar geti nýtt sér aðra kosti sem þeir eigi eða muni hafa. Tap þessara kosta feli því augljóslega í sér kostnað fyrir þá, sem sé blanda af beinum fórnarkostnaði (e. opportunity cost) og valréttarkostnaði (e. option value cost). Hér að neðan muni matsmenn vísa til þessa kostnaðar sem fórnarkostnaðar aðila við framkvæmdina. Með því að þessi fórnarkostnaður stafi af framkvæmdinni hafi hann greinilega áhrif á samningsferlið og sanngjarna niðurstöðu þess.

                Vatnsréttarhafar

                Kárahnjúkaframkvæmd útiloki nýtingu viðkomandi vatnsréttinda til annarra nota. Þar séu ýmsir kostir fyrir hendi og séu sumir raktir í sératkvæði Egils B. Hreinssonar í Matsnefnd um verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar og öðrum málsskjölum. Á meðal slíkra kosta megi nefna smærri virkjanir til afhendingar orku inn á landsnet, stærri virkjun til afhendingar orku til útlanda yfir sæstreng, stærri virkjun til stóriðju í samvinnu við erlendan aðila, verndun landsvæðisins til ferðamennsku o.s.frv. Enda þótt enginn þessara kosta sé tiltækur nú og sumir væntanlega fyrst raunhæfir eftir einhver ár séu hér engu að síður hugsanlega verðmætir valkostir, sem Kárahnjúkaframkvæmd komi í veg fyrir. Tap þeirra jafngildi því kostnaði vatnsréttarhafa. Telji matsmenn núvirði þessara kosta hæfilega metna 0,5 til 2 milljarðar króna.

                Landsvirkjun

                Kárahnjúkaframkvæmd útiloki vissulega aðra orkunýtingarkosti Landsvirkjunar á svæðinu. Með því að Landsvirkjun hafi samt kosið að leggja í þá virkjun megi ganga að því vísu að þeir séu allir óhagkvæmari frá sjónarmiði hennar. þar að auki yrði þá væntanlega einnig við aðra vatnsréttarhafa að semja. Það séu því ekki tilefni til að gera ráð fyrir valréttarkostnaði Landsvirkjunar af þessum ástæðum.

                Landsvirkjun eigi ýmsa virkjunarkosti aðra en á vatnasvæðum Kárahnjúkavirkjunar. Í sjálfu sér komi Kárahnjúkavirkjun ekki í veg fyrir að þeir séu nýttir. Vegna stærðar og kostnaður við Kárahnjúkavirkjun sé þó ekki ólíklegt að þeim framkvæmdum þurfi að fresta vegna Kárahnjúkavirkjunar. Því fylgi Kárahnjúkavirkjun einhver valréttarkostnaður (e. option value cost) fyrir Landsvirkjun. Sé t.d. fyrir hendi annar kostur með hreint núvirði upp á 5 milljarða króna sem tefist um fimm ár vegna Kárahnjúkavirkjunar og ávöxtunarkrafa sé 6,9% sé sá kostnaður (5x(1-1/(1+0.069)5)) um það bil 320 milljónir króna. Telji matsmenn að núvirði þessa fórnarkostnaðar Landsvirkjunar sé hæfilega metinn á bilinu 0-1,0 milljarður króna.

                Aðrir rétthafar

                Matsmenn segjast ekki sjá að aðrir rétthafar verið fyrir umtalsverðum fórnarkostnaði vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þvert á móti sýnist þeim að ýmsir þeirra (t.d. sveitarfélög) telji sig hafa hag af framkvæmdinni, jafnvel þótt beinar bætur fyrir hugsanlegan réttindamissi séu engar. Telji matsmenn að núvirði fórnarkostnaður fyrir aðra rétthafa sé hæfilega metinn enginn.

                5. Reikningar

                Á grundvelli framangreinds og með aðferðum leikjafræði segja matsmenn unnt að finna líklega niðurstöðu aðila í frjálsum samningum.

                Niðurstöður þeirra reikninga séu auðvitað háðar forsendum um núvirði (hreinan hagnað) framkvæmdarinnar og fórnarkostnað aðila eins og að framan hafi verið greint. Miðað við óvissuna um þessar stærðir séu ýmsir möguleikar um niðurstöður samninga um greiðslur til vatnsréttarhafa og eru þær nánar raktar í töflum sem fram koma í matsgerð, en ekki þykir ástæða til að taka upp hér, en vísað beint til niðurstöðu matsmanna sem rakin er hér að neðan. Koma þar fram niðurstöður samninga um greiðslur til vatnsréttarhafa samkvæmt annars vegar Nash samningsjafnvægi og Shapley gildum miðað við líklegt bil hreins núvirðis af framkvæmdinni (10-25 milljarðar króna) og mat á núvirði fórnarkostnaðar vatnsréttareigenda (0,5-2 milljarðar króna. Gert sé ráð fyrir að núvirði fórnarkostnaðar Landsvirkjunar sé 0,5 milljarðar króna.

                Í matsgerð segir að eðli máls samkvæmt sé mikil óvissa um réttar stærðir í matsmálinu. Raunveruleg arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé háð óorðnum hlutum, gögn séu takmörkuð o.s.frv. Þessi óvissa endurspeglist m.a. í talsverðu bili eða svigrúmi fyrir líklega samningsniðurstöðu í frjálsum samningum aðila, hefðu þeir komið til. Miðtala á því talnabili sem hér um ræði sé 6,294 milljarðar króna. Athugun á grundvelli einfaldra líkindafræðilegra reikninga leiði til svipaðrar niðurstöðu eða 6,421 milljarðar króna. Báðar upphæðir séu á verðlagi í janúar 2008.

                Matsmenn telji ekki nægar forsendur til að miða við hina líkindafræðilegu niðurstöðu og er niðurstaða þeirra að verðmæti hinna umdeildu vatnsréttinda sé 6,294 milljarðar króna á verðlagi í janúar  2008.

                Svör við spurningu nr. 5 eru því eftirfarandi og vísar fyrri talan til neysluverðsvísitölu en hin síðari til byggingarvísitölu:

a.            Miðað við verðlag í febrúar 2006.

Svar:      5,975-6,294 milljarðar króna.

b.            Miðað við verðlag í ágúst 2007.

Svar:      6,089-6,196 milljarðar króna.

c.             Miðað við verðlag á matsdegi.

Svar:      8,091-8,413 milljarðar króna.

                Matsmenn segja að ofangreindar bætur fyrir vatnsréttindi megi bera saman við stofnkostnað Kárahnjúkavirkjunar og væntanlegar tekjur hennar af raforkusölu. Sem hlutfall af stofnkostnaði Kárahnjúkavirkjunar sé hún um 4,7%. Sem hlutfall af núvirtri raforkusölu yfir áætlaðan líftíma framkvæmdarinnar (til 2100) sé hún um 4,1%. Síðara hlutfallið sé í hátt við það sem oft hafi verið um samið í samningum um vatnsréttindi til smærri virkjana hér á landi að undanförnu.

               

Matsgerð Dans Valgarðs S. Wiium og Björns Þorra Viktorssonar

                Hin síðari dómkvaðning fór fram 21. október 2008 að beiðni stefnda og voru þá dómkvaddir þeir Dan Valgarð S. Wiium héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali og Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali. Matsgerð þeirra er dagsett 28. febrúar 2010 og var lögð fram í dómi 15. apríl sama ár.

                Fyrir matsmenn voru lagðar fimm matsspurningar. Verða spurningarnar hér settar fram skáletraðar og svör matsmanna í beinu framhaldi og nánari rökstuðningur þeirra eftir því sem efni standa til.

1.            Hvert hefur verið talið virði vatnsréttinda við sölu einstakra jarða við jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá árin 1980 til 2005?

Svar:      Þar sem verðmæti vatnsréttinda hefur ekki verið tilgreint eða metið sérstaklega í kaupsamningum er engu hægt að slá föstu um það.

2.            Hvert væri líklegt samanlagt markaðsverð þeirra jarða og jarðarparta með öllum gögnum og gæðum sem aðild eiga að vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar, annars vegar í árslok 2002 og hins vegar í árslok 2005?

Svar:      Matsmenn telja að samanlagt markaðsverðmæti allra þeirra jarða og jarðarparta sem tilgreindir eru í matsbeiðni hafi í árslok 2002 verið 1.364 milljónir og í árslok 2005 1.955 milljónir.

3.            Hver er sérstakur ávinningur landeigenda við Jökulsá á Dal og Kelduá af framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun umfram almennan ávinning af framkvæmdinni, t.d. vegna samninga um veiðiréttindi?

Svar:      Matsmenn telja að ekki sé rétt að meta neina sérhagsmuni af framkvæmdinni til beinnar lækkunar á bótum vegna vatnsréttinda vatnsréttarhafa Jökulsár á Dal og Kelduár.

4.            Hvert er líklegt söluverð vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, annars vegar í árslok 2002 og hins vegar í árslok 2005, með hliðsjón af þekktum fordæmum og að virtri sérstöðu Kárahnjúkavirkjunar?

Svar:      Matsmenn telja að hvorki séu forsendur til að áætla söluverð á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar í árslok 2002 né í árslok 2005.

                Rökstuðningur matsmanna er á þá leið að þeir telji ekki að hægt sé að tala um „söluverð“ vatnsréttindanna á árinu 2002, enda lagaumhverfi þá ólíkt því sem við hafi tekið með setningu raforkulaga á árinu 2003 og enginn virkur markaður hér á landi fyrir orkuréttindi af þessu tagi. Matsmenn telji hins vegar að með setningu raforkulaganna hafi verið skapaðar forsendur til frjálsra samninga um vatnsréttindi, bæði til sölu á almennum neyslumarkaði og til stórvirkjana fyrir orkufreka starfsemi. Á hinn bóginn hafi þær breytingar ekki leitt af sér virkan markað í árslok 2005 og raunar megi segja að virkur markaður með vatnsréttindi af því umfangi sem hér um ræði, hafi enn ekki myndast. Gera megi ráð fyrir að talsverðan tíma taki fyrir einkaaðila að fóta sig í hinu nýja lagaumhverfi og þar með að mynda markaðsforsendur, enda að mörgu að hyggja þegar ráðist sé í svo umfangsmikil, flókin og kostnaðarsöm verkefni. Matsmenn telji hins vegar að í árslok 2005 hafi flestum verið ljóst að bætur yrðu greiddar til vatnsréttarhafa a.m.k. í samræmi við það sem tíðkast hefði fram að því og einnig með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hefðu verið á því lagaumhverfi sem raforkuframleiðsla byggi á. Markaðsverð hafi hins vegar ekki myndast í frjálsum samningum og engin þekkt fordæmi liggi fyrir sem hægt væri að miða við.

5.            Hverjar eru hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa samkvæmt samningi aðila frá 13. desember 2005?

Svar:      Matsmenn telja að hæfilegar bætur til vatnsréttarhafa vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar séu 3.936.438.724 krónur miðað við verðlag á matsdegi.

                Rökstuðningur matsmanna er sá að matsmenn telji að með setningu raforkulaga á árinu 2003 hafi skipan lagaumhverfis varðandi framleiðslu og sölu á raforku verið breytt með afgerandi hætti. Með lagasetningunni hafi einkaréttur ríkisfyrirtækja til raforkuframleiðslu verið afnuminn og komið á frjálsum markaði með framleiðslu og sölu á raforku í landinu. Eigi það bæði við um framleiðslu og sölu til almenns neytendamarkaðar og til stóriðju.

                               Í kjölfar setningar raforkulaganna hafi einkaaðilar sem ráðist hafi í gerð nokkurra minni vatnsaflsvirkjana sem selji orkuna að stærstum hluta á almennum neytendamarkaði, samið við vatnsréttarhafa í frjálsum samningum um endurgjald fyrir vatnsréttindi þau er virkjuð hafi verið eða áformað sé að virkja. Sé eðlilegt að einkaaðilar horfi fyrst til smærri verkefna til að afla sér reynslu og þekkingar á þessu sviði. Þeir samningar sem lagðir hafi verið fram í málinu séu að áliti matsmanna fremur ófullkomnir og virðist sjaldan vera mjög ítarlegir. Þeir séu almennt tímabundnir til fremur skamms tíma og gjarnan með endurskoðunar- og forleiguréttarákvæðum.

                               Í greinargerð með frumvarpi til raforkulaganna sé bent á að þessi þróun muni taka nokkurn tíma hér á landi. Í framhaldinu megi gera ráð fyrir að einkafyrirtæki horfi í auknum mæli til stærri verkefna, enda hafi myndast mikil og vaxandi eftirspurn eftir raforku til orkufrekrar starfsemi hér á landi á liðnum misserum og árum.

                               Matsmenn telji að innkoma einkaaðila á þennan markað muni taka nokkurn tíma, sérstaklega varðandi stærri virkjanir og sölu á raforku til stóriðju. Matsmenn hafi í matsniðurstöðum sínum haft hliðsjón af þessu breytta umhverfi og metið bætur til hækkunar m.t.t. þeirra breytinga sem hin nýja skipan raforkumála hafi í för með sér.

                               Matsmenn telji því að þessi skipan hafi vissulega mikil áhrif á markað með raforku til stórnotenda einnig, enda þótt umfang slíkra verkefna sé slíkt að það sé almennt torsóttara fyrir einkarekin fyrirtæki að afla fjár til að ráðast í slík verkefni. Í því sambandi megi þó benda á, að hin nýja löggjafarskipan og samkeppnisumhverfi í orkuframleiðslu og dreifingu sé hluti af EES rétti og tekin upp í hérlenda löggjöf sem hluti hans. Öllum aðilum á hinu evrópska efnahagssvæði sé heimilt að fjárfesta í raforkuframleiðslu hér á landi og því hafi aðkoma fjármagns og nýrra aðila verið stóraukin samfara hinni nýju skipan. Því megi gera ráð fyrir að erlendir aðilar sem búi yfir þekkingu, reynslu og hafi fjárhagslegt bolmagn, sýni í auknum mæli áhuga á að taka þátt í raforkuframleiðslu hér á landi, a.m.k. á meðan eftirspurn sé næg og verðlag orkunnar hagstætt.

                               Í þessu sambandi megi benda á að orkuverð erlendis, t.d. í Noregi og víða í Evrópu hafi almennt farið hækkandi á liðnum misserum og árum eins og fjallað sé um í minnisblaði Friðriks Más Baldurssonar. Þar reki hann að stóriðja í Noregi eigi orðið erfitt um vik sökum þess að verð á almennum raforkumarkaði sé orðið mun hærra en í þeim löndum sem nú keppi um sölu á raforku til stóriðju. Ýmsar ástæður liggi að baki þessu, en fyrir utan slök vatnsár í Noregi, þá megi nefna að verð á gasi og CO2-heimildum í Þýskalandi og öðrum Evrópuríkjum hafi áhrif á raforkuverð til hækkunar. Þessar hækkanir valdi síðan hækkunum í Noregi og á öðrum norrænum mörkuðum.

                               Eins og áður sé getið, sé nú talsverð umframeftirspurn eftir raforku til orkufrekrar starfsemi hér á landi. Hafi talsvert verið um þetta fjallað á opinberum vettvangi og í fréttum á liðnum misserum og árum. Hafi þar komið til ýmsir aðilar aðrir en álframleiðendur, sem sjái kost í því að koma sinni starfsemi fyrir hér á landi og nýta þá orku sem hér sé að finna. Því til viðbótar hafi þeir álframleiðendur sem fyrir séu lagt drög að mikilli aukningu á framleiðslu sinni hér á landi. Verði því ekki talið að sú staðreynd að sæstrengur til flutnings á raforku til útlanda sé ekki enn til staðar, valdi því að ekki sé eðlilegt að gera ráð fyrir að þessi aukni áhugi frá erlendum aðilum til að nýta orkuna hér á landi, leiði til hækkunar á orkuverði til stórnotenda einnig. Þvert á móti megi gera ráð fyrir að þessi aukni áhugi og eftirspurn eftir orku til stórnotenda, sem stafi m.a. af hækkun orkuverðs erlendis, leiði til þess að hærra verð muni í náinni framtíð fást fyrir raforku til stórnotenda hér á landi.

                               Kárahnjúkavirkjun sé einsdæmi hér á landi hvað stærð og orkugetu varði. Fram hafi komið að orkuframleiðsla hennar sé u.þ.b. 60 MW meiri en áætlanir hafi gert ráð fyrir eða 750 MW í stað 690 MW eins og stefnt hafi verið að. Sé því ljóst að framkvæmdin sé afar vel heppnuð og mun hagkvæmari og arðsamari en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Í þeim útreikningum sem fyrir liggi í málinu komi fram að jafnvel þó einungis hafi verið reiknað með að virkjunin myndi framleiða 690 MW, sé virkjunin ein allra hagkvæmasta virkjun landsins m.t.t. stofnkostnaðar á orkueiningu. Með framangreindri aukningu framleiðslugetu megi enn frekar vera ljóst hversu vel hafi til tekist. Þá sé einnig talið að rekstrarkostnaður virkjunarinnar verði mjög hagstæður m.t.t. stærðar hennar og afkastagetu. Matsmenn telji að ekki beri að lækka bætur til vatnsréttarhafa vegna stærðar virkjunarinnar.

                               Í málinu liggi fyrir að samið hafi verið við einn kaupanda, þ.e. Alcoa-Fjarðaál, að allri framleiðslu virkjunarinnar. Matsmenn telji það engan veginn skilyrði fyrir byggingu og rekstri virkjana af þessari stærðargráðu, að einungis einn aðili kaupi alla orkuframleiðsluna, þó vissulega kunni að felast í því kostir. Þannig megi auðveldlega selja orkuna til nokkurra minni stórnotenda sem tilbúnir hefðu verið að flytja starfsemi sína hingað til lands. Í þessu sambandi beri að hafa í huga, að stórnotendur byggi almennt upp starfsemi sína á þeim svæðum þar sem orkan sé fáanleg á samkeppnishæfu verði. Matsmenn telji því að staðsetning virkjunarinnar komi því ekki til álita til lækkunar á verðmætum vatnsréttindanna. Hafa beri í huga að nánast öll framleiðsla virkjunarinnar hafi verið seld frá fyrsta degi framleiðslu, en því hafi ekki verið þannig farið með Blönduvirkjun í upphafi.

                               Afnotasamningur um smærri virkjanir frá síðustu árum geri almennt ráð fyrir áhættuskiptingu og árlegu endurgjaldi, enda hafi matsmenn í niðurstöðum sínum ekki reiknað bætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar með hliðsjón af þeim. Engu að síður telji matsmenn að gera megi ráð fyrir að í frjálsum samningum um ráðstöfun vatnsréttinda vegna stórvirkjana, verði í framtíðinni í auknum mæli horft til árlegs endurgjalds fyrir afnot réttindanna, enda sé sá háttur að mati matsmanna að mörgu leyti sanngjarnari og eðlilegri, m.t.t. óvissu til framtíðar, bæði vegna rekstraráhættu virkjana og þróunar orkuverðs. Forsenda þess sé þó að ef slíkir samningar miðist á einhvern hátt við rekstrarlega afkomu virkjana, að fullkomnar upplýsingar liggi fyrir um orkuverð og vatnsréttarhafar hafi jafnvel aðkomu að samningum um orkuverð.

                                Matsmenn bendi sérstaklega á ákvæði 139. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þar sem tiltekið sé að með samkomulagi sé aðilum heimilt að semja um árlegt afgjald vegna eignarnuminna réttinda í stað eingreiðslu. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1988 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sé einnig gert ráð fyrir árlegu endurgjaldi fyrir nýtingu á orkuréttindum. Fram hafi komið í málinu að aðilar óski þess að matsniðurstaðan verði sett fram sem eingreiðsla fyrir öll vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar. Matsmenn telji að ekki bera að lækka bætur vegna eingreiðslu, enda liggi ekkert fyrir í málinu sem staðreyni að vatnsréttarhafar hafi hagræði af eingreiðslu þeirra.

                               Matsmenn telji að þó lagaumhverfi raforkuframleiðslu og raforkusölu hafi verið breytt með afgerandi hætti með setningu laga nr. 65/2003, séu ekki forsendur nú til að horfa til annarra viðmiða við ákvörðun bóta fyrir vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar. Hafa beri í huga að markaður með réttindi af því umfangi sem hér sé til umfjöllunar hafi ekki myndast og því ekki þróast hér á landi. Ekki liggi fyrir samningar eða önnur viðmið, þannig að hægt sé að rökstyðja aðrar matsaðferðir en þær sem notast hafi verið við fram til þessa. Matsmenn séu því sammála meirihluta matsnefndarinnar frá 2007, um að Blönduúrskurðurinn frá 1992 hafi ennþá afgerandi fordæmisgildi varðandi mat á vatnsréttindum stórvirkjana. Vænta megi frekari þróunar í orkusölu á samkeppnismarkaði á næstu árum og áratugum, bæði til hins almenna neytendamarkaðar og til stórnotenda. Margt bendi til að verð á raforku og áli muni hækka í náinni framtíð, enda byggi áætlanir Landsvirkjunar m.a. á því.

                               Matsmenn telji að horfa þurfi til framtíðarþróunar á orkumarkaði við ákvörðun bóta fyrir vatnsréttindin, enda ráði eigendur fasteigna og fasteignatengdra réttinda því almennt hvenær þeir ráðstafi réttindum sínum. Þeir geti því geymt þau og ráðstafað þeim síðar þegar hagkvæmast þyki. Því sé ekki að heilsa þegar um eignarnám sé að ræða og þess vegna sé eðlilegt að við ákvörðun bóta sé horft til þessa. Þá beri einnig að hafa í huga að með auknum fjölda virkjana fækki álitlegustu virkjunarkostum og því megi vænta hækkunar á verði vatnsréttinda af þeim sökum.

                               Meta skuli fullar bætur til vatnsréttarhafa sbr. ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Matsmenn séu sammála því að við ákvörðun bóta til vatnsréttarhafa skuli horfa til sjónarmiða skaðabótaréttar og meta einungis fjárhagslegt tjón vatnsréttarhafa. Þá telji matsmenn einnig að við mat á bótum fyrir vatnsréttindi, beri almennt að horfa aðstæðna í hverju tilviki og sé þannig ekki rétt að horfa til meðaltalsútreikninga á bótum sem ákveðnar hafi verið fram til þessa í hinum ýmsu mötum og úrskurðum. Fyrir liggi að Kárahnjúkavirkjun sé mun hagkvæmari en „meðalvirkjun“ eins og að framan sé rakið og horfi það til hækkunar á bótum vegna vatnsréttindanna. Matsmenn telji að þegar vatnsréttindum sé safnað saman í stóra hagkvæma virkjun, leiði það frekar til hækkunar bóta, en lækkunar. Matsmenn telji eðlilegt að horfa til þróunar orkuverðs í Evrópu og á hinum norræna markaði, jafnvel þótt tenging við þá markaði um sæstreng sé enn ekki til staðar, enda liggi fyrir að stórnotendur flytji starfsemi sína þangað sem hagstæða orku sé að fá á hverjum tíma. Því sé nú, að áliti matsmanna, þegar til staðar virkur innanlandsmarkaður með raforku til stórnotenda, sem raunar séu flestir erlend fyrirtæki.

                               Matsmenn telji að eðlilegt og sanngjarnt hlutfall eigi að vera á milli stofnkostnaðar virkjunarframkvæmdanna og áætlaðrar arðsemi af fjárfestingunni annars vegar og verðmæti vatnsréttindanna hins vegar. Hafa beri í huga að vatnið og fallréttindin séu sú frumorkulind sem raforkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana byggi á. Vatnsaflsvirkjun verði ekki reist án vatns- og fallréttinda og slík réttindi verið heldur ekki verðmæt nema að framkvæmdakostnaður og arðsemi séu viðunandi.

                               Matsmenn hafi velt fyrir sér öðrum atriðum sem vatnsréttarhafar hafi teflt fram sem rökum fyrir hækkun bóta fyrir vatnsréttindin, svo sem hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa og auknu vatnsmagni af þeim sökum, sölu grænna vottorða og hækkaðs verðs á kolefniskvótum. Þá hafi þeir einnig velt fyrir sér auknum kröfum til mengunar- og umhverfismála á heimsvísu, en þar sé bæði að finna rök með og á móti vatnsaflsvirkjunum til framtíðar litið. Fyrir liggi að Landsvirkjun hafi þegar undirgengist íþyngjandi og kostnaðarsamar skyldur vegna umhverfissjónarmiða og náttúruverndar vegna virkjunarinnar og horfur séu á að slíkar almennar kröfur muni enn aukast til framtíðar litið. Þá liggi einnig fyrir að Landsvirkjun hafi kostað umfangsmiklar mælingar, rannsóknir og athuganir í tengslum við virkjunina. Þá hafi fyrirtækið einnig tekist á hendur kostnaðarsamar framkvæmdir við uppgræðslu á svæðinu sem og vegna ýmissa mótvægisaðgerða í tengslum við framkvæmdirnar. Enn fremur hafi Landsvirkjun greitt allan kostnað við störf hinnar samningsbundnu matsnefndar og kostnað lögmanna vatnsréttarhafa og greiðslur til sérfræðinga vegna álitsgerða.

                               Matsmenn gera fyrr í matinu grein því að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafi verið fyrst metin af stefnda árið 2002, en matið hafi verið endurskoðað tvívegis, 2006 og nú síðast 2008. Kemur fram að matsmenn telji útreikninga í matinu frá 2008 að mörgu leyti gagnrýniverða og vísa m.a. til fyrirliggjandi athugasemda fyrirtækisins Capacent þar um. Í fyrsta lagi telji matsmenn arðsemikröfu eiginfjár of háa. Þá telji þeir að virkjunin muni að öllum líkindum standa mun lengur en þar sé gert ráð fyrir. Óraunhæft virðist vera að meta mannvirkið verðlaust eftir 63 ár. Þá telji þeir meiri líkur en minni á að raforkuverð og álverð muni hækka á samningstímabilinu, en fyrir liggi að orkuverð verði endurskoðað eftir 20 ár af 40 ára samningi við Alcoa-Fjarðaál. Þá liggi fyrir að arðsemismatið miði við minni orkusölu en fyrir liggi skv. núgildandi samningi og meti Capacent þá skekkju til núvirtrar u.þ.b. tveggja milljarða hækkunar á niðurstöðu matsins. Þá liggi fyrir að engar upplýsingar séu í arðsemismatinu um orkuverð virkjunarinnar og veiki það vissulega gildi þess. Þá liggi fyrir að kostnaður við flutningsvirki sé tekin með í kostnaðarútreikninga arðsemismatsins, en matsmenn telji það óeðlilegt m.t.t. þess aðskilnaðar á raforkuframleiðslu og raforkuflutningi sem komið hafi verið á með lögfestingu raforkulaga. Orkuflutningurinn skapi hinu nýja fyrirtæki, Landsneti hf., sjálfstæðan tekjugrundvöll, en ekki sé horft til þess í arðsemismatinu. Engu að síður innifeli heildarkostnaðartölur vegna virkjunarinnar kostnað við flutningskerfið líka og sé það í samræmi við eldri kostnaðartölur vegna virkjunarframkvæmda sem fram komi í fyrri úrskurðum og matsniðurstöðum. Fyrir liggi að í þessum kostnaðartölum Landsvirkjunar, sé gert ráð fyrir að bætur fyrir vatnsréttindin muni nema 700.000.000 króna. Síðast en ekki síst liggi fyrir, að orkugeta virkjunarinnar sé u.þ.b. 60 MW meiri eða 8,7% umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir í útreikningunum. Skv. niðurstöðum Capacent þýði hvert 1% í aukinni orkugetu virkjunarinnar u.þ.b. 2 milljarða í núvirtri arðsemi eins og áður sé rakið. Það þýði að niðurstaða arðsemismatsins ætti að hækka um 17,4 milljarða vegna þessarar umframorkugetu virkjunarinnar. Fulltrúar Capacent segi í niðurstöðum sínum að forsendur arðsemismatsins séu að þeirra áliti í nokkrum tilvikum óþarflega varfærnar.

                               Matsmenn telji því að sú aðferðafræði sem beitt hafi verið við ákvörðun um bætur vegna vatnsréttindanna, í sératkvæði úrskurðarnefndarinnar frá 2007, eigi sér ekki lagastoð við núverandi aðstæður, jafnvel þó vera kunni að þau viðmið sem þar sé lýst kunni síðar að hafa áhrif á þróun viðskipta með vatnsréttindi fyrir stórvirkjanir í frjálsum samningum. Slíkum samningum sé hins vegar ekki til að dreifa, þó líklegt megi telja að í framtíðinni muni einkaaðilar standa saman að ráðstöfun slíkra réttinda, eða einstök félög eða einstaklingar leiti leiða til að safna vatnsréttindum saman á eina hendi í þeim tilgangi að nýta þau til raforkuframleiðslu eða ráðstafa þeim til slíkrar vinnslu.

                               Í ljósi alls þess sem að framan sé rakið, sé það niðurstaða matsmanna að sanngjarnar og hæfilegar bætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar skuli nema 2,1% af framreiknuðum heildarstofnkostnaði virkjunarinnar, að frádregnum kostnaði við flutningsvirki, sem grunnbætur vegna vatnsréttindanna. Þyki ekki rétt að horfa til kostnaðar af flutningsvirkjum, eftir að raforkuframleiðsla og raforkuflutningur hafi verið aðskilin rekstrarlega með setningu raforkulaga nr. 65/2003, enda falli tekjur af raforkuflutningi frá virkjuninni ekki til Landsvirkjunar heldur Landsnets hf.

                               Skv. upplýsingum Landsvirkjunar hafi heildarkostnaður við virkjunina eina og sér numið 133.307.000.000 króna miðað við 30. september 2007, en upplýsingar um þetta komi fram í tilkynningu fyrirtækisins sem send hafi verið í tilefni af endurskoðuðu arðsemismati virkjunarinnar dags. 21. janúar 2008. Þá hafi kostnaður við flutningsvirki verið tekinn út úr kostnaðartölum virkjunarinnar og hafi matsmenn fengið það staðfest í tölvupóstsamskiptum við lögmann Landsvirkjunar. Fram hafi komið að áfallinn kostnaður við flutningsvirkin hafi þá verið 12.033 milljónir króna.

                               Framreiknaður stofnkostnaður virkjunarinnar skv. byggingarvísitölu frá þeim tíma til matsdags sé því 179.992.873.667 krónur (506,6/375,2). Grunnréttindi vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar nemi því 3.779.850.347 krónum og skiptist á milli vatnsréttarhafa Jökulsár á Dal (76,15%), Jökulsár í Fljótsdal (17,14%) og Kelduár (6,71%) í framangreindum hlutföllum sem ákveðin hafi verið í úrskurði matsnefndarinnar frá árinu 2007, enda sé ekki ágreiningur um þessi hlutfallsskipti á milli vatnsréttarhafa.

                               Skv. þessu nemi grunnbætur til vatnsréttarhafa Jökulsár á Dal 2.878.356.039 krónum. Grunnbætur til vatnsréttarhafa Jökulsár í Fljótsdal nemi 647.866.349 krónum. Þá nemi grunnbætur til vatnsréttarhafa Kelduár 253.627.958 krónum.

                               Þessu til viðbótar liggi fyrir ákvörðun nefndarinnar frá árinu 2007 um álag á bætur til allra framangreindra vatnsréttarhafa og sæti sú ákvörðun ekki ágreiningi. Þannig skuli vatnsréttarhafar Jökulsár á Dal fá 4,254% álag á þær bætur sem komi í þeirra hlut af grunnréttindunum. Með því bætist fallréttindi Jökulsár á Dal sem nýtanleg séu frá skurðsenda við Fljótsdalsstöð til sjávar. Reiknist þetta álag á bæturnar því 122.445.266 krónur. Nemi því heildarbætur til vatnsréttarhafa Jökulsár á Dal 3.000.801.305 krónum.

                               Með sama hætti skuli vatnsréttarhafar Jökulsár í Fljótsdal fá 2,39% álag á þær bætur sem komi í þeirra hlut af grunnréttindunum. Með því bætist fallréttindi árinnar frá Ufsarstíflu í 625 metra hæð yfir sjávarmáli að skurðsenda í Fljótsdal í 25,5 metra hæð yfir sjávarmáli. Reiknist þetta álag á bæturnar því 15.529.356 krónur. Nemi því heildarbætur til vatnsréttarhafa Jökulsár í Fljótsdal 663.395.705 krónum.

                               Þá skuli vatnsréttarhafar Kelduár fá 7,339% álag á þær bætur sem komi í þeirra hlut af grunnréttindunum. Með því bætist fallréttindi Kelduár, úr 669 metra hæð yfir sjávarmáli í Kelduárlóni að 625 metra hæð yfir sjávarmáli í Ufsarlóni. Reiknist þetta álag á bæturnar því 18.613.756 krónur. Nemi því heildarbætur til vatnsréttarhafa Kelduár 272.241.714 krónum.   

IV

Helstu málsástæður og lagarök stefnenda

                Aðalkrafa:

                1. Samningur aðila um sérstaka matsnefnd og um eignarnumin réttindi.

                1.1. Stefnendur kveðast byggja á því að þeir hafi í samræmi við úrskurð sérstakrar matsnefndar, dags. 22. ágúst 2007, látið af hendi vatnsréttindi í samræmi við ákvörðun nefndarinnar, sbr. tilvitnun í málavaxtalýsingu hér að framan, en hér eftir verði vísað til þessa sem vatnsréttinda sem látin hafi verið af hendi.

                1.2. Í samræmi við samninginn frá 13. desember 2005 (dskj. nr. 7) og almennar reglur eignarréttar beri stefnendum að fá fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár fyrir eignarnumda eign, sem séu þau vatnsréttindi sem látin hafi verið af hendi. Jafnvel þótt slíkar reglur teldust ekki eiga við sé ljóst að stefndi hafi skert vatnsréttindi jarða stefnenda og því eigi þeir allt eins samningsbundna kröfu á hendur stefnda, þar sem kveðið sé á um að verðmat réttindanna skuli fara fram í samræmi við reglur sem gildi um eignarnám, þ.e. reglur um fjárhæð eignarnámsbóta.

                1.3. Stefnendur byggi á því að niðurstaða matsnefndar frá 22. ágúst 2007 um fjárhæð bóta vegna þeirra vatnsréttinda sem látin hafi verið af hendi feli ekki í sér fullar bætur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Réttarstaða stefnenda í máli þessu og fyrir umræddri matsnefnd ráðist m.a. af samningi aðila dags. 13. desember 2005.

                1.4. Með vísan til greinar 1.2. í samningnum hafi honum verið ætlað að koma í stað eignarnáms á vatnsréttindum stefnenda, skv. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2002, hlutaðeigandi ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Þá hafi verið skýrlega byggt á því í samningnum að þau réttindi sem Landsvirkjun hafi öðlast við gerð og framkvæmd samningsins skyldu að öllu leyti vera jafngild og vera myndi, ef vatnsréttindin hefðu verið numin eignarnámi lögum samkvæmt. Á sama hátt skyldu vatnsréttarhafar eiga allan þann rétt á hendur stefnda sem vera myndi ef um væri að ræða beint eignarnám á réttindum þeirra, sbr. grein 1.3. í samningi aðila. Stefnendur byggi á því að með vísan til samnings aðila beri við hvers kyns túlkun á honum að byggja á því að réttindi stefnenda séu eins og ef þau hefðu verið tekin eignarnámi.

                1.5. Í samræmi við réttarstöðu við eignarnám hafi umræddum samningi verið ætlað að mynda umgerð fyrir ígildi eignarnámsákvörðunar, þ.e. annars vegar að ákveða hvaða vatnsréttindi yrðu látin af hendi og á hinn bóginn að fjalla um verðmæti þeirra í samræmi við reglur um fjárhæð eignarnámsbóta. Aðild að samningnum hafi ekki falið í sér ígildi eignarnáms.

                1.6. Stefnendur byggi á því að með vísan til þessa eðlis samningsins hafi endanleg ákvörðun um það hvaða vatnsréttindi yrðu látin af hendi ekki verið tekin fyrr en með uppkvaðningu úrskurðar 22. ágúst 2007, sbr. ákvæði 2.2. í samningnum. Ákvæði greinar 2.1. í samningnum um framsal réttinda verði að skoða í ljósi markmiða samningsins, sbr. málsástæðu 1.4., og því beri ekki að leggja þann skilning í ákvæðið að tiltekin réttindi hafi verið framseld við gildistöku hans. Ákvæðið hafi alls ekki átt að breyta grundvallarréttindum samningsaðila, heldur einungis að undirstrika að matsferlið skv. samningnum hefði ekki áhrif á fyrirætlanir stefnda, sbr. einnig ákvæði 2.4. í samningnum. Til frekari stuðnings þessa vísist til ákvæðis 7.1. sem kveði á um þinglýsingu réttinda stefnda eftir að fyrir lægi hver þau yrðu.

                1.7. Með vísan til samnings aðila byggi stefnendur á því að úrskurður matsnefndar frá 22. ágúst 2007 hafi annars vegar falið í sér ígildi eignarnámsákvörðunar um hvaða réttindi stefnendur létu af hendi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnendur byggi á því að hið ætlaða eignarnám hafi byggt á 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, enda hefði eignarnámið ekki getað verið byggt á öðrum lagaheimildum. Því hafi sérákvæði vatnalaga um eignarnámsbætur ekki þýðingu í máli þessu, enda hafi eignarnámsheimild laganna vegna orkunýtingar  verið felld úr gildi. Hins vegar hafi ákvörðun matsnefndar falið í sér ígildi ákvörðunar um eignarnámsbætur. Síðari ákvörðuninni sé hægt að skjóta til dómstóla, sbr. gr. 5.1. í samningi aðila í samræmi við 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

                1.8. Stefnendur byggi á því að vatnsréttindi séu þau nýtingarréttindi á vatni sem þeir hafi lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Langverðmætasti hluti vatnsréttinda stefnenda, sem þeir hafi látið af hendi, séu orkunýtingarréttindi, þ.e. rétturinn til að nýta fall vatns til orkuframleiðslu, t.d. raforkuframleiðslu, sbr. 49. gr. vatnalaga. Umfang orkunýtingarréttar ráðist af vatnsrennsli og falli þess. Í samræmi við ákvörðun matsnefndar sé umfangið það rennsli sem stefnda geti veitt að aflstöð í Fljótsdal og fallið fyrir jörðum stefnenda sé í samræmi við tilgreiningu fallhæðar jarðanna, hverrar fyrir sig, sbr. einnig forsendur og niðurstöður úrskurðar matsnefndar.

                2. Grunnreglur um vernd eignarréttar. Meginreglur um fjárhæð eignarnámsbóta.

                2.1. Stefnendur byggi á grundvallarreglu 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og rétti til fullra bóta við eignarnám. Þá verði af umræddu stjórnarskrárákvæði dregnar ófrávíkjanlegar meginreglur um fjárhæð eignarnámsbóta. Reglurnar séu fyrst og fremst ólögfestar. Reglurnar miði að því að tryggja að fullar bætur séu ákvarðaðar við eignarnám vegna eignarnuminnar eignar, sem feli í sér þá skýringarreglu að við vafa um bætur skuli byggt á hæstri fjárhæð.

                2.2. Stefnendur byggi á því að við ákvörðun eignarnámsbóta skuli einungis fjárhagslegt tjón bætt. Við verðlagningu eignar skuli litið til markaðsverðs sé það fyrir hendi, en notagildis eignar ella og jafnframt ef sá mælikvarði leiði til hærri bóta. Markaðsverð ráðist af gangverði sambærilegra eigna í frjálsum samningum, en notagildi miðist við þann arð sem eign skili eða geti skilað eiganda hennar. Þá verði þessum mælikvörðum beitt saman ef markaðsverð eignar komi fram í samningum um nýtingu eignar, s.s. leigusamningum. Þannig skuli við mat á vatnsréttindum byggja á þeim frjálsu samningum sem gerðir hafi verið um nýtingu slíkra réttinda á síðustu árum, sem byggi á því að vatnsréttarhafar fái árlega greidda fjárhæð sem sé hlutfall af brúttótekjum af sölu rafmagns sem framleitt sé á grunni vatnsréttindanna. Í raun sé um að ræða markaðsverð á notagildi vatnsréttinda.

                2.3 Stefnendur byggi á því að við ákvörðun eignarnámsbóta vegna vatnsréttinda skuli litið til hlutlægs og almenns notagildis. Þannig verði notagildið ekki bundið við nýtingu stefnenda á vatnsréttindum fram að eignarnámi og því hvort þeir gætu nýtt þau sjálfir með tilteknum hætti. Byggi þetta á þeirri meginreglu að í eignarráðum felist val um hvort, hvenær og hvernig eign sé nýtt og á því að vatnsréttindi eru framseljanleg, m.a. til hvers þess sem geti og vilji nýta þau, s.s. innan Evrópska efnahagssvæðisins og víðar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Réttarframkvæmd samrýmist þessu, s.s. þegar einstaklingar fái bætur fyrir land sem byggingarland óháð fyrirætlunum um framkvæmdir og samkvæmt matsmálum um orkunýtingarréttindi, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta vegna Deildartunguhvers, sbr. dskj. nr. 30.

                2.4. Nátengt málsástæðu 2.3. telji stefnendur að verðmæti vatnsréttinda þeirra skuli metið í samræmi við hagkvæmasta nýtingarkost réttindanna. Þannig skuli meta vatnsréttindin miðað við að þau geti verið nýtt sem hluti af stórri virkjun þar sem vatnsréttindi fleiri en eins aðila séu nýtt saman. Stefnendur telji Kárahnjúkavirkjun vera dæmi um mjög hagkvæma nýtingu vatnsréttinda þeirra, sem einn hagkvæmasta virkjunarkost vatnsaflsvirkjana á Íslandi, sem talinn hafi verið umhverfislega tækur. Stefnendur eigi því rétt á að vatnsréttindi þeirra séu metin sem hluti af öllum þeim vatnsréttindum sem skerða þurfi og nýtt séu vegna hins hagkvæma virkjunarkosts. Hins vegar ef nýta mætti vatnsréttindi hvers stefnenda fyrir sig á hagkvæmari hátt með öðrum hætti, sem hluta af stærri eða minni virkjun, yrðu fullar bætur einungis ákvarðaðar miðað við það. Það sé í öllu falli ljóst að nýting vatnsréttinda stefnenda, skv. þeirri skipulagsákvörðun sem Kárahnjúkavirkjun byggi á sé möguleg og hagkvæm nýting, sem litið skuli til við verðmat réttindanna. Þá tryggi jafnræðisreglur að möguleiki á byggingu Kárahnjúkavirkjunar verði ekki einskorðaður við stefnda. Jafnframt sé ljóst að 52. og 53. gr. vatnalaga hefðu tryggt eigendum meirihluta vatnsréttinda fyrir Kárahnjúkavirkjun möguleika til eignarnáms vatnsréttinda annarra.

                2.5 Þá byggi stefnendur á viðurkenndum reglum um tímamark viðmiðunar eignarnámsbóta. Þannig gildi sú meginregla að fjárhæð bóta skuli miðast við það tímamark þegar stefnendur hafi verið sviptir eign sinni. Stefnendur telji réttast að það miðist við það tímamark þegar ígildi eignarnámsákvörðunar um skilgreiningu umfangs vatnsréttinda  hafi farið fram, með úrskurði matsnefndar 22. ágúst 2007, sbr. málsástæðu 1.6. Þetta sé jafnframt í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 89/1980. Allt fram að framangreindum tímapunkti hafi stefnendur borið áhættu um verðbreytingar á vatnsréttindum. Stefnendur byggi þó á því að viðmiðunartímamark bóta skuli ákveðið sem síðast, ef slík ákvörðun skili hærri niðurstöðu (fullum bótum) en ákvörðun með fyrra viðmiðunartímamarki auk skaðabótavaxta og dráttarvaxta. Til vara byggi vatnsréttarhafar við Jökulsá á Dal sérstaklega á því að tímamark miðist við 28. september 2006 þegar rennsli Jökulsár á Dal hafi verið skert með því að botnrás Hálslóns hafi verið lokað. Allir stefnendur byggja á því að viðmiðunartímamark geti aldrei verið fyrr en 14. febrúar 2006 og sé upphafsdagur vaxta miðaður við það í dómkröfum.

                2.6. Stefnendur byggi á því að við ákvörðun bóta verði ávallt að líta til verðlagsbreytinga á vatnsréttindum, en eftir að vatnsréttindi hafi verið látin af hendi skuli litið til almennra verðlagsbreytinga og fjármagnskostnaðar. Í samræmi við ákvörðun um hvenær viðmiðunartímamark eignarnámsbóta teljist vera fyrir hendi, sbr. málsástæðu 2.5. skuli ákveða upphaf vaxtadaga, sbr. málsástæður 6.1. til 6.6.

                2.7. Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi fengið heimild til byggingar Kárahnjúkavirkjunar með leyfi iðnaðarráðherra 2. september 2002, sbr. lög nr. 38/2002. Á grundvelli þeirrar heimildar hafi stefndi haft tilefni til þess að hefja samningaviðræður við stefnendur, sem og aðra eigendur vatnsréttinda sem nauðsynleg hafi verið framkvæmd stefnda. Frjálsir samningar stefnda um vatnsréttindi hefðu byggt á því markaðsverði sem verið hafi á vatnsréttindum á þeim tíma sem samningar hefðu náðst. Eins hefði stefndi getað óskað eignarnáms áður en hann hefði hafið framkvæmdir og þá hugsanlega horfið frá framkvæmdum teldi hann þær ekki vænlegar að fenginni niðurstöðu um fjárhæð eignarnámsbóta, sbr. 15. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 15/1973. Stefnendur byggi á því að réttargæsla stefnda á þessu sviði geti engin áhrif haft á ákvörðun bótafjárhæðar og/eða leitt til frávika frá viðurkenndum reglum um fullar bætur og viðmiðunarmark eignarnámsbóta.

                2.8. Stefnendur byggi á því að við verðmat vatnsréttinda þurfi að líta til gildandi réttar og almennra aðstæðna í þjóðfélaginu, s.s. um frelsi í viðskiptum, aðgang að lánsfé o.fl. Þá sé sérstaklega vísað til ákvæða samkeppnislaga um sölu á staðgönguvöru. Ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta um verðmæti vatnsréttinda verði að fela í sér niðurstöðu sem samræmist slíkum reglum og þannig verði vatnsréttindi vegna 690 MW virkjunar stefnda ekki metin á fáeina milljarða króna þegar aðrir virkjunaraðilar þurfi að tryggja sér slík réttindi gegn greiðslum sem nemi háu hlutfalli af brúttótekjum virkjunar, sbr. t.d. samning vegna Fjarðarárvirkjunar sem meta megi til núvirðis upp á 200 til 400 milljónir vegna tæplega 10 MW virkjunar. Til samanburðar þá nemi verðmæti fullkomins eignarréttar vatnsréttinda um 2,3 milljónum króna fyrir hvert MW Kárahnjúkavirkjunar skv. úrskurði meirihluta matsnefndar. Verðmæti 50 ára leiguréttar Fjarðarárvirkjunar nemi um 35,9 milljónum króna fyrir hvert MW, sbr. t.d. dskj. nr. 121 og 122. Of lágt verðmat umdeildra vatnsréttinda leiði þannig til þess að samkeppnisstaða á raforkumarkaði skekkist og geti slíkt verðmat ekki falið í sér fullar bætur.

                3. Ágallar á úrskurði meirihluta matsnefndar.

                3.1. Stefnendur byggi á því að niðurstaða meirihluta matsnefndar, þ.e. úrskurðurinn frá 22. ágúst 2007, verði með engu móti lagður til grundvallar ákvörðun bóta fyrir vatnsréttindi stefnenda. Úrskurðurinn sé haldinn ógildingarannmörkum og því ónothæfur sem sönnunargagn um fjárhæð bóta. Þannig hafi matsnefnd hvorki byggt mat sitt á sjónarmiðum um markaðsverð né notagildi réttindanna, eða öðrum viðurkenndum reglum um fjárhæð eignarnámsbóta. Andstætt því sem matsnefnd haldi sjálf fram í niðurstöðu sinni, feli mat á verðmæti vatnsréttinda sem hlutfall af stofnkostnaði virkjunar ekki í sér mat eftir notagildismælikvarða.

                3.2. Úrskurður matsnefndar sé haldinn þeim lagalegu annmörkum að verulega hafi skort á að matsnefnd hafi lagt sjálfstætt mat á vatnsréttindi stefnenda með tilliti til hagkvæmustu nýtingarmöguleika þeirra á réttu viðmiðunartímamarki eignarnámsbóta. Í stað sjálfstæðs óvilhalls mats hafi sönnunarbyrði verið lögð á stefnendur af matsnefnd um ýmis atriði sem matsnefnd hafi átt að taka til mats. Jafnframt byggi matsnefnd á að aðstæður stefnda og einhliða ákvarðanir um nýtingu réttinda stefnda séu lagðar til grundvallar varðandi verðmatið, en það sé í beinu ósamræmi við reglur um fjárhæð eignarnámsbóta.

                3.3. Þá hafi matsnefnd lagt til grundvallar aðstæður eignarnema, stefnda, í beinni andstöðu við skýrar reglur um fjárhæð eignarnámsbóta. Þannig líti matsnefnd til aðstæðna eignarnema í sögulegu samhengi. Jafnframt sé fjárhagsleg staða stefnda látin hafa áhrif á bótafjárhæð, sbr. t.d. samanburð krafna um vatnsréttindabætur við eigið fé stefnda.

                3.4. Þá byggi niðurstaða matsnefndar á ályktunum sem séu í beinu ósamræmi við gildandi lög, t.d. varðandi breytingar raforkumarkaðarins vegna gildistöku raforkulaga nr. 65/2003. Matsnefnd byggi á því að breytingar á rekstrarumhverfi raforkuvera vegna gildistöku raforkulaga hafi einungis gilt um innanlandsmarkað, í þeim skilningi að stóriðjunot rafmagns teldust ekki hluti þess markaðar. Raforkulög geri engan skilsmun á þessu og í raun hafi þau haft mun ríkari áhrif á samkeppni í rafmagnssölu til stóriðjunotenda en annarra.

                3.5. Þá sé niðurstaða matsnefndar sett fram í ósamræmi við þær kröfur sem gerðar séu til nefndarinnar, í samræmi við 10. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Þannig sé ekki gerð fullnægjandi grein fyrir atvikum og réttarreglum sem liggi til grundvallar niðurstöðu mats. Um þetta vísist m.a. til sjónarmiða sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 2960/2000.

                3.6. Þá sé niðurstaða nefndarinnar í veigamiklum atriðum í ósamræmi við lagareglur sem nefndin telji sig sjálfa byggja á. Þannig virðist matsnefnd byggja á því að viðmiðunartímamark ákvörðunar eignarnámsbóta sé 13. desember 2005, jafnvel þótt nefndin byggi niðurstöðu sína fyrst og fremst á aðstæðum frá árinu 2002 og fyrr. Með vísan til fyrri málsástæðna hafi stefnendur ekki verið í neinu samningssambandi við stefnda á framangreindum tímum. Í úrskurði sé vísað til þess að litið sé til notagildismælikvarða en rökstuðningur fyrir niðurstöðu beri það ekki með sér enda sé verðmæti vatnsréttinda ákveðið sem hlutfall af stofnkostnaði.

                3.7. Stefnendur byggi á því að niðurstaða meirihluta matsnefndar sé jafnframt efnislega röng, enda væri það hrein tilviljun að niðurstaða fengist um fullar bætur þegar byggt sé á aðferðafræði sem samræmist ekki reglum um ákvörðun eignarnámsbóta. Auk vísan til annarra málsástæðna sé bent á að niðurstaða meirihlutans byggi á að stefndi nái þeirri ávöxtun á eigið fé sem hann hafi áskilið sér en jafnframt renni stærstur hluti hagnaðar umfram ávöxtunarkröfu eiginfjár einnig til hans, skv. áætlunum stefnda sjálfs (sbr. umfjöllun á bls. 71 – 73 á dómskjali nr. 3).  Þetta gildi jafnvel þótt í áætlunum stefnda sjálfs sé byggt á hærri ávöxtunarkröfu eigin fjár en eigendur fyrirtækisins hafi gert til þess á sínum tíma og að framkvæmdin sé kostuð af lánsfé í meira mæli en ráðgert hafi verið í upphafi. Annað dæmi um það hversu fjarri úrskurðurinn sé um fullar bætur sé sú ályktun að þrátt fyrir að stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar sé um 54 milljörðum króna lægri en stofnkostnaður Blönduvirkjunar, miðað við verðlagsþróun og stofnkostnað á orkueiningu, þá verði verðmæti vatnsréttinda virkjunarinnar hækkuð úr hlutfallinu 0,7% í 1,4% af stofnkostnaði virkjunarinnar frá því sem verið hafi við Blönduvirkjun, þ.e. um 700 milljónir (sbr. bls. 71 í dskj. nr. 3). Þessi hækkun sé jafnframt gerð með vísan til annarra sjónarmiða sem stefnendur hafi byggt á um aukið verðmæti réttindanna, en án sundurliðunar.

                3.8. Þá sé úrskurður matsnefndarinnar háður þeim veigamikla ágalla að mati stefnenda að matsmenn hafi verið vanhæfir við matið. Matsnefndarmenn hafi átt sérstaka fundi með fulltrúum stefnda án vitneskju stefnenda, fyrr en síðar. Stefnendur hafi því ekki getað komið að athugasemdum sínum. Þá hafi stefnendum ekki verið heimilaður aðgangur að þeim upplýsingum sem stefndi hafi lagt fyrir matsnefnd á fundinum. Með þessu hafi matsnefnd brotið jafnræðisreglur sem henni hafi borið að hafa í heiðri við matið og ákvæði 8. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, sbr. gr. 4.2. í samningi aðila, sbr. einnig málsástæðu 1.4. (sjá dskj. nr. 149 og 153 og fundargerð matsnefndar dags. 24. apríl 2007, dskj. 5)

                4. Verðmæti vatnsréttindanna skv. reglum um fjárhæð eignarnámsbóta. Notagildismælikvarðinn.

                4.1. Stefnendur byggi á því að sú aðferðafræði sem lögð sé til grundvallar í séráliti eins matsmanns samræmist meginreglum um fjárhæð eignarnámsbóta, sbr. málsástæður 2.1. – 2.7. Matið verði því notað sem sönnunargagn í málinu um verðmæti vatnsréttinda. Í matinu sé lagt sjálfstætt mat á verðmæti vatnsréttinda stefnenda á matsdegi með tilliti til þess að hægt sé að nýta þau með hagkvæmum hætti með Kárahnjúkavirkjun, án þess þó að aðstæður og ákvarðanir stefnda séu látnar hafa áhrif á verðmatið. Aðferðafræði matsins byggi á notagildi réttindanna á þeim grundvelli að verðmæti auðlindar (vatnsréttinda) ráðist af markaðsverði afurðar (raforku) að frádregnum nýtingarkostnaði (byggingarkostnaði, með tilliti til ávöxtunarkröfu virkjunaraðila). Aðferðafræðin byggi á því að verðmæti vatnsréttinda séu ákveðin á fullkomlega upplýstum markaði þar sem virkjunaraðili fái þá ávöxtun sem sé eðlileg og viðbótarávöxtun renni til vatnsréttarhafa. Aðferðafræðin sé því afar eðlileg þar sem ekki sé til staðar mótaður markaður á tilteknum réttindum, enda óeðlilegt við eignarnámsmat að gera ráð fyrir því að annaðhvort eignarnemi eða eignarnámsþoli semdu af sér, hefðu samningar náðst.

                4.2. Þar sem niðurstaða sérálitsins feli í sér að heildarvatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar séu metin a.m.k. 10 milljarðar króna og allt að 65 milljörðum króna, skuli byggt á hæstri niðurstöðu til að tryggja fullar bætur. Í öllu falli sé þó unnt að ákveða bætur á því verðbili sem fram komi í sérálitinu. Á því sé byggt að dómstóll hafi endanlegt mat á því hvað séu fullar bætur við eignarnám, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973, sem veiti dómstólum heimild til að ákveða bætur að álitum innan kröfugerða aðila.

                4.3. Þá byggi stefnendur á því að verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar megi meta á grundvelli aðferðar sem byggi á því markaðsverði vatnsréttinda sem komið hafi fram í samningum um leigu á vatnsréttindum, sbr. dskj. nr. 38 – 45 og 120. Vatnsréttindi séu þannig leigð gegn árlegri greiðslu sem nemi hlutfalli af brúttótekjum af nýtingu réttindanna, þ.e. markaðsverð sé til staðar á notagildi vatnsréttinda. Í fyrirliggjandi samningum fari það hlutfall upp að 10%. Mun hærri hlutföll þekkist í Noregi, sem búi við sambærilegar meginreglur við mat eignarnámsbóta og í nýlegu eignarnámsmáli hafi verið miðað við allt að 21% leigugreiðslu af brúttótekjum. Við verðmat á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar skuli ákveða brúttóhlutfall allt að 15% vegna gæða réttindanna, þ.e. hagstæðra nýtingarmöguleika þeirra og af tilliti til þess að um varanlegt framsal sé að ræða en ekki tímabundna leigu. Brúttótekjur verði að reikna út frá tæknilegum forsendum bestu tæku virkjunarkosta og meðalverði raforku, enda verði einhliða ákvarðanir eignarnema ekki lagðar til grundvallar. Við uppreikning árgreiðslu til eingreiðslu þurfi að margfalda árgreiðslu með eingreiðslustuðli sem taki mið af öruggri ávöxtun langtíma innlána til framtíðar. Jafnframt þurfi að taka tillit til spáa um hækkun raforkuverðs til framtíðar enda aukist þar með árlegar tekjur. Stöðug hækkun til lengri tíma hafi þannig áhrif á stuðul til uppreiknings eingreiðslu. Vísist að öðru leyti um aðferðafræði þessa til málsástæðu 5.3. og dskj. 31 bls. 24-43.

                4.4. Byggt sé á því að aðferðafræði skv. málsástæðum 4.1. og 4.3. byggi á sambærilegum sjónarmiðum um tengingu við almennt notagildi hinnar eignarnumdu eignar. Á því sé byggt að dómur geti, með vísan til fyrirliggjandi gagna um orkugetu Kárahnjúkavirkjunar og Lagarfossvirkjunar, meðalorkuverð o.fl. ákveðið fullar bætur vegna þeirra vatnsréttinda sem stefnendur hafi látið af hendi, á grundvelli málsástæðu 4.3.

                4.5. Auk þeirra gagna sem stefnendur leggi fram þ.á.m. sérálits eins matsnefndarmanns, sem jafna megi við álit dómkvadds sérfróðs aðila, muni stefnendur leggja fram frekari sönnunargögn undir rekstri málsins í samræmi við áskilnað.

                4.6. Varðandi aðferðafræði við verðmat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar, hafi stefndi byggt á því í matsmálinu að verðmæti ætti að finna út á grundvelli arðsemismats fyrirtækisins á framkvæmdinni, sbr. dskj, nr. 17 og endurskoðunar á því sbr. dskj. nr. 98. Stefnendur telji þá aðferðafræði ekki eiga við, enda byggi sú aðferðafræði á að einhliða ákveðnar forsendur og ákvarðanir stefnda séu þar lagðar til grundvallar. Jafnframt sé ljóst að matið hafi þjónað þeim tilgangi að meta hvort Kárahnjúkaverkefnið væri fýsilegur virkjunarkostur og því hafi forsendur verið valdar af fyllstu varfærni m.t.t. neikvæðustu þróunar. Vegna þess þurfi að endurmeta allar forsendur arðsemismatsins, miðað við sjónarmið um fullar bætur og raunverulegar upplýsingar um orkuverð o.fl., ef aðferðafræðin eigi að teljast tæk, sbr. t.d. umfjöllun á bls. 54-66 í dskj. 31 og dskj. 35 og 36. Þá feli arðsemismatið í sér að stefndi reikni sér arð af eigin fé, þ.e. 11% sem í raun hafi verið hærri en áskilinn arður skv. vilja eigenda stefnda sem verið hafi 5-6 %. Sé þessi aðferð lögð til grundvallar þá ætti arður sem verkefnið beri umfram arðsemiskröfu eigin fjár stefnda að koma í hlut vatnsréttarhafa enda hafi stefndi áður fengið þann arð sem hann hafi áskilið sér. Þannig hafi stefndi í raun viðurkennt að notagildi vatnsréttinda sem Kárahnjúkavirkjun nýti næmi 6,6 milljörðum króna, sbr. núvirtan arð umfram ávöxtunarkröfu eiginfjár samkvæmt varfærnum spám 2002 (sbr. dskj. nr. 17) miðað við mun óhagstæðari forsendur til raforkusölu en komið hafi fram, sbr. t.d. dskj. 31, 35 og 36.

                4.7. Stefnendur byggi á því að við verðmat vatnsréttindanna þurfi að líta til eiginleika hinna eignarnumdu réttinda, þ.e. gæða þeirra. Orkunýtingarréttindi Jökulsár á Dal og Kelduár séu áreiðanleg orkuauðlind með augljósa orkuframleiðslumöguleika. Virkjunarkostur þeirra sé sérstaklega hagkvæmur á íslenskan mælikvarða. Möguleiki sé á nýtingu réttindanna með hagkvæmri miðlun og stór hluti orkugetu virkjunarinnar sé tryggð orka. Þá sé ljóst með vísan til loftslagshlýnunar á Íslandi að meðalrennsli ánna aukist sífellt, sem hafi í för með sér betri tryggingu orku virkjunarinnar, aukningu tryggðar orku og meiri framleiðslu ótryggðar orku. Auk vísunar í greinargerð á dskj. nr. 31 sé vísað í dskj. nr. 142 sem sé skýrsla stefnda um áhrif loftslagshlýnunar á afrennsli jökulvatna. Þá sé vísað til dskj. nr. 95 sem sé minnisblað stefnda um orkugetu Kárahnjúkavirkjunar.

                4.8. Stefnendur telji  að við verðmat vatnsréttinda þurfi sérstaklega að taka til skoðunar hagkvæmni nýtingar umdeildra vatnsréttinda, s.s. gagnvart öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum, jarðhitavirkjunarkostum og öðrum orkunýtingarkostum á landsvísu og á alþjóðlega vísu, s.s. með jarðefnaeldsneyti. Líta þurfi til áhrifa loftslagshlýnunar og þróunar á þjóðlegum og þjóðréttarlegum vettvangi við að sporna við útblæstri gróðurhúsalofttegunda, s.s. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, með s.k. Kyotobókun og einnig á vettvangi Evrópusambandsins. Þannig sé vísað til áhrifa kolefniskvóta og viðskipta með græn og hvít vottorð á orkuverð. Jafnframt þurfi að líta til þróunar orkuverðs á Íslandi og á alþjóðlegum orkumörkuðum. Eins sé mikilvægt að taka tillit til samkeppnislegra víxlverkana alþjóðlegs orkuverðs og verðs orkuafurða, s.s. áls, til hækkunar raforkuverðs á Íslandi. Þá þurfi að líta til mögulegrar lagningar sæstrengs frá Íslandi sem tengi íslenskan orkumarkað með beinum hætti við háverðsorkumarkaði, s.s. á Bretlandseyjum, meginlandi Evrópu og/eða N – Ameríku. Um þetta sé t.d. vísað til dskj. nr. 31 bls. 43 – 52.

                5. Um útreikning dómkrafna.

                5.1. Dómkröfur stefnenda byggi á forsendum sem byggt hafi verið á í áliti minnihluta og meirihluta matsnefndar og aðilar máls hafi að hluta til verið sammála um við rekstur matsmálsins. Þannig sé byggt á því að vatnsréttindi stefnenda verði metin sem hluti af vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar, nema beinlínis verði sannað að vatnsréttindi einstakra aðila hafi verið verðmætari á grunni annars tæks virkjunarkosts. Þá sé byggt á því að vegna vatnsréttinda við Jökulsá á Dal þurfi ætíð að taka tillit til þess að umrædd réttindi muni nýtast til aukningar raforkuframleiðslu við Lagarfossvirkjun, sbr. dskj. 31, bls. 39 – 41. Bætur vegna þess skuli koma sem viðbót fyrir vatnsréttarhafa við Jökulsá á Dal, enda hafi stefndi haft bæði markaðsleg og lagaleg úrræði til þess að tryggja sér greiðslur fyrir þessi réttindi, skv. IV. kafla vatnalaga nr. 15/1923 um vatnsmiðlun, sbr. t.d. 68., 69. og 3. mgr. 70. gr. og ákvæði raforkulaga nr. 65/2003, t.d. 4. mgr. 5. gr. um samning um samrekstur vatnsmiðlunar á vatnasvæði, sbr. skilyrði í virkjunarleyfi vegna Lagarfossvirkjunar, dskj. nr. 53. Á því sé byggt að hugsanlegt skeytingarleysi stefnda á að tryggja sér afgjöld frá eiganda Lagarfossvirkjunar, varði engu um rétt stefnenda til að bætur verði reiknaðar með hliðsjón af þessari hagkvæmu nýtingu.

                5.2. Þó byggja stefnendur, sem vatnsréttindi eiga í Jökulsá á Dal, á því, leiði það til hærri bóta, að metin fjárhæð vatnsréttinda við Jökulsá á Dal sem nýtt séu með beinum hætti með Kárahnjúkavirkjun, verði uppreiknuð með tilliti til þess að annar hluti réttindanna sé jafnverðmætur, þ.e. með stuðlinum 1,04254. Stefnendur sem eiga vatnsréttindi í Kelduá byggi á því að metin fjárhæð vatnsréttinda í ánni sem nýtt séu við virkjunina verði uppreiknuð á sama hátt með tilliti til að þess að annar hluti réttindanna sé jafnverðmætur og að í þeirra tilfelli skuli miða við stuðulinn 1,07339. Í báðum tilvikum sé vísað til aðferðafræði sem byggt sé á í úrskurði matsnefndar, sbr. bls. 71.

                5.3. Hluti vatnsréttinda við Jökulsá á Dal vegna bóta fyrir Kárahnjúkavirkjun verði 76,15 % og Kelduár 6,71 % en 17,14 % vegna Jökulsár í Fljótsdal, sbr. t.d. bls. 62-64 í dskj. 3. Við Jökulsá á Dal skiptist bætur miðað við fallhæð fyrir hverri jörð í samræmi við helming þess meðalvatnsrennslis sem látið sé af hendi, sbr. 51. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Fallhæðin sé frá 625 m.y.s., þ.e. hæstu lónhæð Hálslóns, og niður til sjávarmáls, þ.e. lægstu mörk þess þar sem vatnsréttindi séu látin af hendi. Hver fallmetri jarðar við Jökulsá á Dal svari þannig til 1/1250 hluta af þeim heildarvatnsréttindum sem látin séu af hendi við ána. Þá sé jafnframt byggt á því að vatnsréttindi sem látin séu af hendi skuli bæta með jöfnum hætti, nema sannað verði að hluti þeirra sé verðmætari. Við Kelduá skiptist bætur með sama hætti miðað við fallhæð fyrir hverri jörð í samræmi við helming meðalrennslis með sama hætti og fyrr segir varðandi Jökulsá á Dal. Fallhæðin sé frá 669 m.y.s., þ.e. hæstu lónhæð Kelduárlóns og niður í 25,5 m.y.s., þ.e. innrennslis vatns Kelduár í upprunalegan farveg við ármót hennar og Jökulsár í Fljótsdal. Hver fallmetri jarðar við Kelduá svari þannig til 1/1287 hluta (2x(669 – 25,5)) af þeim heildarvatnsréttindum sem látin séu af hendi við ána. Þá sé jafnframt byggt á því að vatnsréttindi sem látin séu af hendi skuli bætt með jöfnum hætti, nema sannað verði að hluti þeirra sé verðmætari.

                5.4. Með vísan til málsástæðu 4.3. og annarra byggjast fjárhæðir stefnukrafna upp með eftirfarandi hætti:

                Meðalverð raforku á Íslandi (við stöðvarvegg), kr. 2,33 kr/kwst x tryggð orkugeta Kárahnjúkavirkjunar 4.600 Gwst (4.600.000.000 kwst) x hlutfall vatnsréttarhafa af brúttótekjum af raforkusölu á ári 15% x stuðull til framreiknings eingreiðslu (um 43,5) x hækkun um 5% vegna umfangs réttinda 1,05 = Fullar bætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. kr. 73.395.000.000.

                2,33 x 4.600.000.000 x 15% x (1/(3,5% - 1,2 %)) x 1,05 = 73.395.000.000.

                Samkvæmt ársskýrslu stefnda sé meðalverð ársins 2006 2,2 kr/kWst., sbr. dskj. nr. 171. Stefndi selji ekkert í smásölu  þar sem mun hærri verð séu við lýði. Hér sé farið varlega í að hækka meðalverðið, en áskilinn sé réttur til hækkunar, komi fram ný gögn undir rekstri málsins.

                Stuðullinn sé reistur á 3,5% öruggum langtímavöxtum og 1,2 % stöðugum vexti raforkuverðs til framtíðar. Fullar bætur verði því fengnar með því að margfalda árlega greiðslu með um 43,5 (1/0,023 = 43,48).

                Fyrir matsnefnd hafi vatnsréttarhafar krafist þess að umfang vatnsréttinda sem stefndi fengi miðaðist við fast nýtanlegt langtíma meðalrennsli, þ.e. 110 m³/sek. Vatnsréttindi aukins rennslis yrðu því eign vatnsréttarhafa. Niðurstaða matsnefndar, sem vatnsréttarhafar hafi ákveðið að una, hafi hins vegar verið sú, að stefndi hafi fengið öll þau réttindi sem hann gæti nýtt miðað við núverandi hönnun Kárahnjúkavirkjunar. Hönnunarrennsli sé 144 m³/sek, eða 30% meira en viðmiðið. Vatnsréttarhafar telji hæfilegt að hækka bætur um 5% til að tryggja þeim fullar bætur vegna ákvörðunar um umfang. (bls. 3 – 9 í dskj. nr. 131).

                Hlutur vatnsréttarhafa við Jökulsá á Dal sé 76,15%, þ.e. kr. 55.890.292.500. Við þann hlut bætist greiðsla sem nemi aukinni orkugetu Lagarfossvirkjunar vegna vatnsrennslis frá Jökulsá á Dal. Sé miðað við 130 Gwst reiknaðar skv. sömu aðferð, þá sé verðmæti þess hluta vatnsréttindanna kr. 2.074.206.522. Sé miðað við 4,254% hækkun líkt og matsnefnd geri, þá sé verðmæti þessa hluta vatnsréttindanna 55.890.292.500 x 0,04254 = 2.377.573.043 krónur. Fullt verð eignarnuminna vatnsréttinda við Jökulsá á Dal sé því 58.267.865.543 krónur.

                Hlutur vatnsréttarhafa við Kelduá sé 6,71%, þ.e. kr. 4.924.804.500. Við þann hlut bætist greiðsla sem taki til þeirra vatnsréttinda Kelduár sem skerðist ofan  625 m.y.s. og nýtist þar með ekki beint við orkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar, en séu nauðsynlegur þáttur í veitumannvirkjum. Sé miðað við 7,339% hækkun líkt og matsnefnd geri þá sé verðmæti þessa hluta vatnsréttindanna 4.924.804.500 x 0,07339 = 361.431.402 krónur. Fullt verð eignarnuminna vatnsréttinda við Kelduá sé því 5.286.235.902 krónur.

                Á grundvelli hlutfallstölu hverrar jarðar fyrir sig sem byggi á falli fyrir hverri jörð sé stefnukrafa fundin í hverju einstöku tilviki. Tölur þessar eru tilgreindar hér framar í dóminum þar sem gerð er grein fyrir kröfugerð málsaðila.

                5.5. Dómkrafa stefnenda feli í sér svigrúm til ákvörðunar lægri fjárhæðar. Þannig sé vísað til sérálits eins matsnefndarmanns, sbr. dskj. nr. 4 Með vísan til hámarks fjárhæðar skv. því, 65.000.000.000,- króna sé fullt verð vatnsréttinda einstakra stefnenda sem eiga vatnsréttindi við Jökulsá á Dal: 65.000.000.000 x 76.5 % x F/1250 x 1,04254 = B. Með sama hætti sé fullt verð vatnsréttinda einstakra stefnenda sem eiga vatnsréttindi við Kelduá: 65.000.000.000 x 6,71 % x F/1287 x 1,07339 = B. Í báðum dæmunum stendur F fyrir fallhæð fyrir landi jarðar og B fyrir niðurstöðutölu um fjárhæð bóta í tilviki einstakra stefnenda.

                5.6 Þá vísi stefnendur að öðru leyti til greinargerðar og viðbótargagna sem lögð hafi verið fram undir rekstri matsmáls fyrir hinni sérstöku matsnefnd, sem og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.

                6. Um vexti.

                6.1. Varðandi kröfur um vexti sé vísað til málsástæðna hér að framan um viðmiðunartímamark mats á fjárhæð eignarnámsbóta og málsástæðu um áhrif verðlagsþróunar og fjármagnskostnaðar á bótafjárhæð. Kröfur um vexti séu settar fram á grundvelli þess að vextir skuli reiknast á bótafjárhæð eftir viðmiðunartímamark bótaákvörðunar, en uppreikna megi á grundvelli vaxta eða fjármagnskostnaðar fyrir þann tíma, enda leiði það til hærri niðurstöðu en verðbreytingar á hinni eignarnumdu eign.

                6.2. Stefnendur byggi á því að ákvörðuð bótafjárhæð beri skaðabótavexti skv. 8. gr. sbr. IV. kafla laga nr. 38/2001 frá viðmiðunartímamarki bótaákvörðunar. Byggt sé á því að fjármagnskostnað þurfi að bæta við það bótaskylda atvik að stefnendur hafi látið af hendi vatnsréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvörðun eignarnámsbóta sé í raun skaðabætur, þrátt fyrir að sérstakar reglur gildi um bótagrundvöll og útreikning bóta. Þá sé dómafordæmi fyrir því að skaðabótavextir séu reiknaðir á eignarnámsbætur frá því að réttindi séu látin af hendi, sbr. Hrd. í málinu nr. 18/1995.

                6.3. Krafa um dráttarvexti byggi á því að þeir skuli falla á við fyrsta tækifæri, en þó ekki fyrr en m.v. viðmiðunartímamark bóta, sbr. málsástæðu 2.5. Stefnendur byggi á að kröfur þeirra beri dráttarvexti skv. 9. gr. sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá því mánuði eftir að stefnendur hafi lagt fram viðbótargögn fyrir matsnefnd 26. febrúar 2007, þ.e. 26. mars 2007, sbr. bls. 6 á dskj. nr. 131. Þá hafi stefnendur verið búnir að leggja fram kröfugerð sína m.v. mælingar á falli fyrir landi hverrar jarðar fyrir sig og gögn til ákvörðunar tjóns þeirra.

                6.4. Verði ekki fallist á þá dagsetningu sé byggt á því að upphaf dráttarvaxta miðist við 22. ágúst 2007, enda hafi greiðsluskylda þá verið skýr, eftir uppkvaðningu úrskurðar matsnefndar og umráðatöku réttindanna, sbr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Um það sé m.a. vísað til 13. gr. laga nr. 11/1973 og 15. gr. sömu laga, enda hafi stefndi ekki fallið frá eignarnámi réttindanna.

                6.5. Einnig sé af hálfu stefnenda sem eigi vatnsréttindi við Jökulsá á Dal vísað til 28. september 2006 þegar rennsli þeirrar ár hafi verið skert með því að botnrás Hálslóns hafi verið lokað. Um þetta sé einkum vísað til 13. gr. laga nr. 11/1973 sem byggi á þeirri meginreglu að umráðataka hins eignarnumda leiði almennt til þess að eignarnámsbætur falli í gjalddaga.

                6.6. Þá sé vísað til 12. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 um vaxtavöxtun á tildæmdum vöxtum.  

                7. Varakröfur:

                7.1. Á því sé byggt að niðurstaða sérálits eins matsnefndarmanns, sbr. dskj. nr. 4, um verðmæti vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar feli í sér eðlilega fjárhæð fullra bóta sem fundin hafi verið á grundvelli mats sem byggi á lögmætum grunni. Þannig sé sérstaklega vísað til miðgildis þess mats, þ.e. lágmarkið hafi verið 10 milljarðar króna en hámarkið 65 milljarðar króna. Miðgildið sé 37,5 milljarðar króna. Hlutur Jökulsár á Dal væri því 76,15% af því. Jafnframt yrði tekið tillit til þess að umrædd vatnsréttindi nýtist til virkjunar neðan frárennslis Kárahnjúkavirkjunar, sbr. málsástæður 5.1. og 5.2. Fjárhæð kröfunnar byggi á því að álag sé reiknað á bætur með stuðlinum 1,04254, sbr. málsástæðu nr. 5.1. Hlutur Kelduár sé með sama hætti 6,71 % en sem fyrr yrði tekið tillit til þess að vatnsréttindi þeirrar ár séu nýtt til nauðsynlegarar aðveitu úr Kelduárlóni í 669 m.y.s. að 625 m.y.s. í Ufsarlóni, sbr. fyrrgreindar málsástæður 5.1. og 5.2. Eins og varðandi aðalkröfu sé byggt á að álag sé reiknað á bætur vegna fallréttinda við Kelduá með stuðlinum 1,07339, sbr. málsástæðu 5.2. Hlutur stefnenda vegna hverrar jarðar fyrir sig yrði sú fjárhæð sem varakrafa þeirra hljóði uppá og sé nánar gerð grein fyrir í fyrri kafla um dómkröfur aðila hér að ofan.

                8. Þrautavarakröfur:

                8.1. Þessar kröfur vegna hverrar og einnar jarðar eru einnig raktar í kafla fyrr í dómnum þar sem gerð er grein fyrir kröfugerð aðila.  Þrautavarakrafa er sögð byggja á lægsta verðmati í sératkvæði, þ.e. 10 milljörðum króna vegna Kárahnjúkavirkjunar, en að öðru leyti sé byggt á sömu rökum og aðferðafræði og í lið 7.1. hér að framan.

                9. Málskostnaðarkröfur:

                Um málskostnaðarkröfur stefnenda, sem þeir haldi uppi vegna hverrar kröfu fyrir sig, vísist einkum til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaður stefnenda muni ákvarðast í samræmi við gjaldskrá Regula lögmannsstofu ehf., sbr. dskj. 176. Þar sé kveðið á um töku hagsmunatengdrar þóknunar. Einnig verði lagt fram yfirlit um útlagðan kostnað. Þá verði gerð grein fyrir stöðu málskostnaðarákvörðunar m.t.t. virðisaukaskattskyldu stefnenda.

                Þá sá jafnframt byggt á því að við málskostnaðarákvörðun beri að líta til 72. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til fullra bóta. Í því felist m.a. réttur til þess að fá bættan kostnað af því að leita til sérfræðinga vegna eignarnámsmáls. Með höfðun dómsmáls þessa hafi stefnendur einungis verið að sækja rétt sinn til að fá skorið úr um, hvað séu fullar bætur, í samræmi við þá leið sem lög bjóði. Tilefni málskots hafi verið ærið, enda hafi matsnefnd, sem fjallað hafi um fjárhæð bóta, klofnað og úrskurður meirihlutans hafi verið háður verulegum annmörkum. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnenda höfð uppi krafa um að útlagður kostnaður þeirra vegna vinnu dómkvaddri matsmanna að fjárhæð 12.675.500 krónur bæri dráttarvexti frá 3. júlí  2010 en þann 3. júní sama ár hefðu stefnendur krafist greiðslu kostnaðarins úr hendi stefnda. Þeirri kröfu hafnaði stefndi með bréfi 14. júní 2010.

                Stefnendur kveðast vísa helst til eftirfarandi lagaákvæða:

                Í fyrsta lagi vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum. Þá kveðast þeir vísa til laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, s.s. 8., 10., 13., 15. og 17. gr. Einnig vísa þeir til meginreglna íslensks réttar um fjárhæð eignarnámsbóta, sérstaklega til meginreglna um notagildismælikvarða sem beitt sé með almennum og hlutlægum hætti. Þá vísa þeir til meginreglna um tímamark viðmiðunar um ákvörðun eignarnámsbóta og sjónarmiða um að sem hæstar bætur séu ákveðnar við mat á tímamarki og við tillit til breytinga verðlags. Þá kveðast þeir vísa til vatnalaga nr. 15/1923, sérstaklega 2. gr., V. kafla og VII. kafla, ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, einkum 4., 5. og 23. gr. og grundvallarreglna laganna um samkeppnisumhverfi orkumarkaðar, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum III. kafla um dráttarvexti og IV. kafla um vexti af skaðabótakröfum, auk almennra ákvæða laganna. Loks vísa stefnendur um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.

V

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi kveðst auk neðangreindra röksemda einnig vísa til röksemda sem hann hafi haft uppi í gagnstefnu málsins, þó gagnsök hafi verið felld niður.

                Grundvöllur málsins

                Af hálfu stefnda er vísað til þess að um endurgjald til stefnenda fari eftir þeim reglum sem gildi um bætur til matsþola við eignarnám. Stefndi telji málatilbúnað stefnenda ekki byggja á réttum lagareglum og mótmæli honum í heild sinni. Aðilar séu þó sammála um það að skilyrði eignarnáms hafi verið fyrir hendi og samningur aðila byggi á þeirri forsendu. Jafnframt séu aðilar sammála um að íslensk stjórnvöld hafi stutt verkefnið Kárahnjúkavirkjun og þá uppbyggingu sem því hafi fylgt. Fram komi í stefnum málsins að stefnendur telji að sú aðferðafræði sem meirihluti hinnar sérstöku matsnefndar hafi byggt á til að komast að niðurstöðu um verðmæti vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar samræmist ekki viðurkenndum lagareglum um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta. Þeir haldi því hins vegar fram í stefnum að sérálit eins matsmannsins samræmist þeim reglum. Hér sé í hnotskurn ágreiningur aðila og það úrlausnarefni sem ekki verði leyst úr nema fyrir dómstól, þar sem hér sé um deilu um lögfræðileg atriði að ræða. Stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir sínum fullyrðingum og málsástæðum. Sé þeim mótmælt í heild sinni sem röngum og ósönnuðum.

                Varðandi tímamark sem verðmæti vatnsréttinda séu miðuð við byggi stefndi á því að undirbúningur að byggingu Kárahnjúkavirkjunar hafi að meginstefnu farið fram á árunum 1999 – 2002. Á árinu 2002 og í janúar 2003, sbr. dómskjal nr. 17 (eigendaskýrslu), hafi verið teknar ákvarðanir um byggingu virkjunarinnar, á grundvelli þeirra forsendna sem þá hafi legið fyrir, s.s. verðmats vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, fasteignaverðs á Austurlandi, almennra sjónarmiða í eignarnámsrétti og fordæma á því sviði. Inn í stofnkostnað virkjunarinnar hafi því verið áætluð fjárhæð er byggt hafi á úrskurði um verðmæti vatnsréttinda Blönduvirkjunar, að teknu tilliti til verðbreytinga og stærðarmunar virkjananna, þá um 500 milljónir króna. Sökum stærðar Kárahnjúkavirkjunar og þess að hún sé reist til að framleiða raforku fyrir einn raforkukaupanda (stóriðju) hafi verið talið að vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar væru verðminni en vatnsréttindi Blönduvirkjunar og því væri áætlunin rífleg. Í framkvæmdaleyfum Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps frá 3. febrúar 2003 sé staðfest að stefndi hafi, að fenginni heimild iðnaðarráðuneytisins, heimildir til eignarnáms á nauðsynlegum réttindum vegna byggingar virkjunarinnar, og leyfin hafi m.a. verið veitt á þeim grundvelli, sbr. dskj. nr. 23 og 24.

                Málið hafi einnig frá upphafi byggst á almennum eignarréttarreglum, m.a. þeim sjónarmiðum sem gildi um eignarnám og þeim grundvelli sem þær hafi byggst á þegar ákvörðun um byggingu virkjunarinnar hafi verið tekin, enda ekki unnt að byggja á öðrum forsendum en þeim sem legið hafi til grundvallar þegar stefndi hafi ákveðið að ráðast í svo mikla og áhættusama fjárfestingu. Stefnendur hafi ekki borið neina fjárhagslega áhættu af framkvæmdunum. Síðari tíma sjónarmið eða réttarreglur geti ekki raskað þeim grundvelli sem ákvörðunin byggi á, m.a. hvað varði verðmæti vatnsréttinda. Í öllu falli byggi stefndi á því að gildistaka raforkulaga nr. 65/2003, hinn 1. júlí 2003, ein og sér, hafi engu breytt um verðmæti vatnsréttinda stórra vatnsaflsvirkjana, sem felist í nýtingu stórra vatnsfalla sem falli um fjölmargar landareignir og líkt og hér eigi við í fyrsta sinn, flutningi einnar ár yfir í farveg annarrar með sérstakri lagaheimild til handa stefnda. Hefðbundnar lagareglur og sjónarmið við ákvörðun eignarnámsbóta eigi við þegar vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar séu metin, enda hefði með skýrum hætti þurft að mæla fyrir um það í lögum ef gildistaka raforkulaga nr. 65/2003 hafi átt að hafa þau áhrif að breyta gildandi rétti á sviði eignarnámsbóta eins og stefnendur virðist halda fram. Vatnsréttindi séu tengd fasteign og taki mið af verðmæti hennar. Verðhækkun vatnsréttinda taki því í þessu tilviki einvörðungu mið af almennum hækkunum á fasteignamati eða verði fasteigna á hlutaðeigandi svæði. Skerðing réttindanna muni auk þess engin áhrif hafa á nýtingu landeigenda á fasteign sinni. Engin vinnanleg hráefni hafi verið fjarlægð af jörðunum, heldur hafi hluti vatnsréttinda verið virkjuð en til þess hafi þurft mikið fjármagn og þróaða tækni.

                Við undirbúning málsins fyrir matsnefndinni hafi stefndi óskað eftir því að tveir ráðgjafaverkfræðingar frá Almennu verkfræðistofunni  hf. þau Pétur Stefánsson og Unnur Helga Kristjánsdóttir, semdu greinargerð um verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar er tæki til skoðunar annars vegar fordæmi um ákvörðun endurgjalds fyrir nýtingu auðlinda til raforkuvinnslu og hins vegar aðstæður og tæknilega útfærslu Kárahnjúkavirkjunar. Hafi það m.a. verið liður í að endurskoða þá áætlun sem stefndi hafi haft um verðmæti vatnsréttinda til að unnt væri að lýsa sjónarmiðum um þau fyrir matsnefndinni með rökstuddum hætti. Greinargerð þeirra sé á dskj. nr. 16 og sé vísað til hennar í heild sinni, en meginniðurstaða þeirra hafi verið að verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar gæti verið á bilinu 150-375 milljónir króna miðað við verðlag fyrri hluta árs 2006. Telji stefndi enga ástæðu til að draga gildi þessarar matsgerðar í efa.

                Grunnheimild í máli þessu sé samningur aðila frá 13. desember 2005 um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um málsmeðferð til að ákvarða endurgjald fyrir þau, sbr. dskj. nr. 7. Í 1. gr. samningsins komi fram að markmið samningsaðila sé að leggja ágreining um verðmæti vatnsréttinda sem látin verði af hendi vegna Kárahnjúkavirkjunar og skiptingu þeirra á milli rétthafa fyrir sérstaka matsnefnd í samræmi við ákvæði samningsins. Ennfremur segi að gerð samningsins komi í stað eignarnáms á vatnsréttindum skv. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, hlutaðeigandi ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Skuli þau réttindi sem stefndi öðlist við gerð og framkvæmd samnings þessa vera að öllu leyti jafngild og vera myndi ef þau hefðu verið numin eignarnámi lögum samkvæmt. Í samningnum segi ennfremur að við matið skuli skera úr um umfang og verðmæti vatnsréttindanna, skil réttinda milli einstakra jarðeigna og/eða vatnsréttarhafa og greiðslur vegna hverrar þeirra um sig, sbr. 2. mgr. 2. gr. Matsnefndin skuli við mat sitt byggja á almennum reglum um eignarnámsbætur, raforkulögum og lagareglum um eignarnám á sviði vatnamála, sbr. 6. mgr.4. gr. samningsins. Ljóst sé að við ákvörðun tímamarks bóta beri að líta til þess tímamarks þegar ákvörðun um byggingu álversins hafi verið tekin á árunum 2002 – 2003, en alla hækkun fasteigna- og vatnsréttinda stefnenda frá þeim tíma megi rekja til ákvörðunar um byggingu virkjunarinnar. Í síðasta lagi verði miðað við það tímamark þegar stefnendur hafi framselt vatnsréttindi sín til stefnda með samningnum dags. 13. desember 2005. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu, sem fram komi á bls. 5 í stefnum, að samningur aðila hafi ekki falið í sér ígildi eignarnáms. Þrátt fyrir að umfang þeirra réttinda sem látin hafi verið af hendi hafi ekki orðið endanlega ljós hinn 13. desember 2005, sé ljóst að óafturkræft framsal hefði farið fram og samningur gerður um ákvörðun endurgjalds þessara réttinda og nánari afmörkun þeirra. Þessu geri stefnendur ekki greinarmun á.

                Tekið skuli fram að bæði stefnendur og stefndi uni niðurstöðu matsnefndarinnar frá 22. ágúst 2007 um skil og skiptingu réttinda milli einstakra jarðeigna og/eða vatnsréttarhafa og um umfang réttindanna og verði á þeim byggt, en málsaðila greini verulega á um verðmæti þeirra.

                Helstu lagasjónarmið

                Vatnsréttindi séu að lögum flokkuð sem sérstök eignarréttindi að fasteignum, sbr. 2. mgr. 16. gr. vatnalaga. Þau fjalli um þær heimildir fasteignareiganda sem beinlínis lúti að umráðum og hagnýtingu vatns á landareign. Sú meginregla komi fram í 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923, að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á henni sé, á þann hátt sem lögin heimili. Þar sé hins vegar um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir sem máli skipti, þar á meðal réttinn til orkuvinnslu skv. 49. gr. laganna. Í nýjum vatnalögum nr. 20/2006, sé í 4. gr. mælt fyrir um að fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgi eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni sé, eða um hana renni. Gildistöku laganna hefur ítrekað verið frestað og er þeim nú ætlað að öðlast gildi 1. október 2011 og til standi að efni þeirra sæti endurskoðun.

                Ljóst sé samkvæmt samningi aðila frá 13. desember 2005 að greiðsla stefnda til vatnsréttarhafa eigi að vera sú sama og ef eignarnám hefði átt sér stað á réttindunum skv. m.a. vatnalögum. Í íslenskum lögum sé ekki að finna almennar reglur um hvernig meta skuli verðmæti eigna sem teknar séu eignarnámi en um framkvæmd eignaráms gildi lög nr. 11/1973. Í löggjöfinni megi þó finna ýmis ákvæði um sjónarmið sem hafa beri í huga varðandi fjárhæð eignarnámsbóta við eignarnám, s.s. 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 5. mgr. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. og til hliðsjónar 3. mgr. 30. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Ennfremur sé nauðsynlegt að líta til laga nr. 61/1917, sem verið hafi forveri gildandi laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, en talið sé að sú regla sem komi fram í 2. mgr. 10. gr. hinna eldri laga gildi enn í dag. Þannig sé gert ráð fyrir að allur sérhagur sem landeigendur fái vegna virkjunarinnar skuli koma til frádráttar, en sem dæmi megi nefna að samkvæmt fréttum fjölmiðla hafi vatnsréttarhafar við Jökulsá á Dal gert samninga um veiðirétt í ánni þar sem vonir séu bundnar við að rækta megi upp ána til laxveiði, nú þegar hún hafi verið virkjuð.

                Framangreind meginsjónarmið eigi öll við um þær bætur sem hér sé fjallað um, m.a. eigi aðeins að bæta fjárhagslegt tjón og jafnframt að draga frá bótum þann sérhag sem umrædd framkvæmd hafi í för með sér fyrir landeigendur. Ennfremur beri að taka tillit til þess kostnaðar sem umrædd framkvæmd hafi í för með sér fyrir stefnda en stefnendur beri ekki áhættu af honum.

                Sjónarmið um verðmæti vatnsréttinda

                Varðandi umfjöllun í kafla 2 í stefnum (bls. 5) um meginreglur um fjárhæð eignarnámsbóta sé ljóst að málsaðila greini verulega á og sé því umfjöllun og málsástæðum í þeim kafla mótmælt í heild sinni sem röngum og ósönnuðum. Þess í stað byggi stefndi á eftirfarandi umfjöllun.

                Við ákvörðun bóta vegna eignarnáms hafi einkum þrenns konar sjónarmið komið til álita, þ.e.a.s. söluverð, notagildi og enduröflunarkostnaður sambærilegrar eignar.

                Við bótaákvörðun sé það meginregla að eignarnámsþoli geti krafist þess verðs sem ætla megi að fengist fyrir eign við frjálsa sölu á markaði. Markaðsvirði ráðist að jafnaði af þeim notum eða arði sem hafa megi af eign. Í þeim tilvikum sem markaðsvirðið endurspegli ekki þau not (arð) sem hafa megi af hlutaðeigandi eign eða eignin gangi hreinlega ekki kaupum eða sölu, sé eignarnámsþoli talinn eiga rétt á bótum á grundvelli þeirra nota sem hafa megi af eigninni.

                Ljóst sé að sjónarmið um enduröflunarkostnað eigi ekki við í máli þessu.

                Þegar metin séu verðmæti vatnsréttinda verði almennt að hafa til hliðsjónar þau not sem matsþoli hafi af eigninni. Í íslenskum rétti hafi verið talið að bætur beri að miða við tjón eignarnámsþola en ekki þann hagnað sem eignarnemi kunni að öðlast. Þannig eigi bætur til matsþola að miðast við sannanlega og eðlilega notkun hans af eigninni. Honum sé bætt tjón en hann eigi ekki von á bótum eða endurgreiðslu fyrir hugsanlega verðhækkun í framtíðinni eða verðhækkun sem framkvæmdin er eignarnámið lúti að leiði af sér, líkt og skýrlega komi fram í 2. mgr. 140. gr. vatnalaga, sem feli í sér meginreglu laga. Af þessu leiði einnig að matsþoli þurfi ekki að óttast bakreikninga vegna hugsanlegrar verðlækkunar í framtíðinni.

                Í greinargerð á dskj. nr. 16 sé gerð stuttlega grein fyrir sögu vatnsréttindanýtingar á 20. öld og með eðlilegum fyrirvörum reynt að skoða eftirspurn og verðmyndun frá lokum fyrri heimstyrjaldar. Í kafla 14 sé gerð grein fyrir verðmæti vatnsréttinda þar sem rakin séu þau helstu mál sem til skoðunar komi þegar litið sé til fordæma um ákvörðun bóta fyrir vatnsréttindi. Í kafla 15 sé gerð grein fyrir verðmæti jarðhitaréttinda. Tekið sé sérstaklega fram að umfjöllun um verðmæti jarðhitaréttinda sé ekki unnt að leggja að jöfnu við umfjöllun um vatnsréttindi. Eigi að síður sé vikið að þeim til hliðsjónar. Sé vísað til þessarar umfjöllunar, sem og umfjöllunar á dskj. nr. 15.

                Í máli þessu hafi úrskurður um ákvörðun bóta fyrir vatnsréttindi (virkjunarréttindi) í Blöndu, sem kveðinn hafi verið upp 10. ágúst 1992, sérstakt vægi, þar sem bæði stefndi og hin sérstaka matsnefnd byggi í grunnatriðum á niðurstöðu hans sem helsta fordæmis um mat á sambærilegum réttindum og hér séu til umfjöllunar. Tekið skuli fram að vatnsréttarhafar við Blöndu hafi unað niðurstöðu matsnefndar. Ágreiningur aðila í því máli hafi fyrst og fremst snúist um fjárhæð þeirra bóta sem skyldu koma fyrir vatnsréttindin (virkjunarréttindin). Matsnefndin hafi talið að bætur til matsþola vegna Kárahnjúkavirkjunar bæri að miða við fjárhagslegt tjón eingöngu samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum skaðabótaréttar, sbr. nánar umfjöllun á dskj. nr. 15 og 16 og í niðurstöðu matsnefndar á dskj. nr. 3.

                Af framangreindu megi draga saman eftirfarandi sjónarmið sem leggja beri til grundvallar við úrlausn málsins:

                Fylgja beri fordæmum um endurgjald fyrir vatnsréttindi stórra raforkuvera.

                Nálægð við almennan markað hafi áhrif til hækkunar bóta.

                Virkjunarkostnaður og aðstæður til virkjunar skipti verulegu máli um vatnsréttindaverð, í þessu máli til lækkunar bóta.

                Afl vatnsfalla sem aðallega verði hagnýtt til orkuvinnslu til heimilisnota eða smærri iðnaðar sé, að öðru óbreyttu, verðmeira en afl fallvatna, sem hagrænast væri að virkja til orkuvinnslu fyrir orkufrek stóriðjuver.

                Eðlilegt og sanngjarnt hlutfall skuli vera milli vatnsréttindaverðs og annars stofnkostnaðar orkuvers. Verð vatnsréttinda lækki með hækkandi stofnkostnaði.

                Til grundvallar ákvörðun beri einkum að miða við hvað telja megi líklegt söluverð vatnsréttinda til aðila sem hafi yfir að ráða nægilegri tækniþekkingu, fjárhagslegu bolmagni og markaðsaðstöðu til að hagnýta þau. Í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar sé um þröngan markað vatnsréttinda að ræða, sem rýri verðmæti þeirra.

                Orðalag 72. gr. stjórnarskrárinnar að „fullt verð“ komi fyrir eign sem tekin sé eignarnámi vísi til réttarstöðu eignarnámsþola en ekki eignarnema. Meta þurfi fjárhagslegt tjón eignarnámsþola út frá almennum skaðabótareglum. Hann eigi ekki að hagnast á því að kostnaðarsöm framkvæmd, sem sé ástæða eignarnámsins, leiði til verðmætisaukningar á hinum eignarnumdu réttindum, sbr. t.d. 2. mgr 140. gr. vatnalaga og fyrrnefnda meginreglu sem birtist í 10. gr. laga nr. 61/1917. Með því skapist t.d. ójöfnuður milli þeirra sem sæti eignarnámi og þeirra sem eigi sambærileg réttindi sem ekki nýtist í þágu framkvæmdarinnar því eignarnemi væri að greiða bætur fyrir verðmæti sem framkvæmdin skapi en eignarnámsþoli hafi ekki átt fyrir. Jafnframt skipti máli að eignarnámsþoli leggi ekki til fjármagn til framkvæmdar og beri því ekki af henni neina áhættu. Oft ráði tilviljun ein stöðu hans. Við ákvörðun bóta beri því að miða við ástand og verð þeirrar eignar sem eignarnámsþoli sé sviptur áður en eignarnám fari fram, en ekki þá eign sem framkvæmdin kunni að skapa. Þetta undirstriki einnig þá reglu að ávinning sem framkvæmdin skapi eignarnámsþola að öðru leyti og umfram aðra beri að draga frá eignarnámsbótum, sbr. t.d. 1. mgr. 140. gr. vatnalaga, sem ekki hafi verið numin úr gildi við setningu raforkulaga nr. 65/2003 og hafi því fullt gildi í þessu  máli.

                Fullyrða megi að ekki sé nein frjáls verðmyndun á vatnsréttindum hér á landi, í það minnsta ekki ef um sé að ræða réttindi sem nýta skuli til reksturs stórra raforkuvera. Þrátt fyrir að samkeppni ríki í raforkuframleiðslu sé ótækt að leggja samninga um smávirkjanir til grundvallar markaðsvirði stærri vatnsafla, líkt og stefnendur hafi gert, sbr. m.a. dskj. nr. 38-41 og 119-120. Sé það á engan hátt sönnun fyrir staðhæfingum þeirra og beri þeir hallann af því. Slíkar virkjanir, nær eingöngu svokallaðar toppvirkjanir, dæli rafmagni inn á hið almenna dreifikerfi á þeim tíma sem eftirspurn sé mikil, en hafi ekki jafna raforkuframleiðslu. Ákvörðun um virkjun stærri vatnsafla sé bundin ákaflega mörgum þáttum, bæði opinberum leyfum og skilyrðum, s.s. virkjunarleyfi, skipulagsákvörðunum og mati á umhverfisáhrifum og því að rannsóknir og annar undirbúningur eigi  sér langan og kostnaðarsaman aðdraganda. Þá sé ónefndur sá kostnaður sem felist í byggingu og rekstri raforkuvers og sú óvissa sem kunni að ríkja um rekstur, markað og framtíðartekjur. Leiði þetta til að nær útilokað sé að leggja algildan mælikvarða á verðmæti vatnsréttinda til slíkrar orkuöflunar og verði slíkur mælikvarði allra síst ákvarðaður út frá síðari tíma samningum smávirkjana. Verði því að mótmæla umfjöllun í stefnum sem rangri og ósannaðri. Allir þættir slíkra samninga séu ósamanburðarhæfir við Kárahnjúkavirkjun, hvort sem litið sé til fjölda landeigenda, þess fjármagns sem um ræði, stofnkostnaðar virkjunar og möguleika á sölu raforkunnar. Meta verði því hvert einstakt tilvik fyrir sig.

                Því verði hér eins og oft áður í sambærilegum tilvikum að fara þá leið að meta endurgjald út frá öðrum þáttum en líklegu söluverði. Verði þá að líta til þeirra nota sem eignarnámsþoli hafi mátt hafa af hinu eignarnumda, þ.e.a.s. þeirri arðsemi sem eignarnámsþoli hafi haft af eigninni. Aðilar þessa máls hafi lagt fram ýmis verðmöt og samninga sem þeir telji að sýni fram á verðmæti vatnsréttindanna. Aðilar hafi skrifað undir samning 13. desember 2005, þar sem þeir hafi fallist á að bætur fyrir vatnsréttindin skyldu ákvarðaðar út frá almennum reglum um eignarnámsbætur, raforkulögum og lagareglum um eignarnám á sviði vatnamála. Hafi þeir þar með fallist á að þær reglur og fordæmi sem á þeim væru byggð, endurspegli hæfilegar bætur til eignarnámsþola.

                Eftir málshöfðun stefnenda í máli þessu sé ljóst að koma muni í hlut dómstóla að meta endanlegar bætur fyrir vatnsréttindin og skera úr um réttarágreining um eignarnámsreglur. Við verðmatið beri dómstólum að fara eftir framangreindum lögum. Minnt sé á að eignarnámsþoli eigi ekki að hafa fjárhagslegan ávinning af eignarnáminu vegna þeirra breytinga sem það leiði til á notum eignarinnar. Í 2. mgr. 140. gr. vatnalaga segi að bætur fyrir lögnumið land eða réttindi yfir landi  skuli aldrei meta hærra en þær bætur, sem metnar yrðu fyrir önnur lönd þar í grennd, jöfnum kostum búin, eða samskonar jafnverðmæt réttindi yfir slíkum löndum, enda skuli að engu hækka mat, þótt land kunni að hækka í verði eða réttindi að verða verðmeiri sakir þess fyrirtækis eða þeirra fyrirtækja sem lögnám á því landi eða þeim réttindum er sé framkvæmt fyrir, eða vegna hagnaðar af því fyrirtæki eða fyrirtækjum. Það sé því beinlínis ósamræmanlegt lögum að leggja hagnað eignarnema til grundvallar matinu.

                Eignarnemi beri einn alla óvissu og áhættu af framkvæmdinni og eignarnámsþoli enga. Almennt hafi vatnsréttarhafar hérlendis ekki haft neinn arð af ónýttum orkunýtingarrétti, hann hafi sjaldnast verið metinn til fasteignamats jarða og sjaldnast hafi hann haft áhrif á söluverðmæti jarðanna.

                Frekari málsástæður – um stefnukröfur:

                Um aðalkröfu

                Aðalkrafa stefnda byggi á framangreindum málsástæðum og eftirfarandi greinargerð. Stefndi krefjist þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

                Tekið skuli fram að allar fjárhæðir, hvort sem sé í málsástæðum um aðalkröfu eða varakröfum byggi á verðlagi og þeim forsendum sem matsnefnd hafi byggt á í niðurstöðu sinni, sbr. dskj. nr. 3. Áður hafi komið fram að byggt sé á þeirri skiptingu bóta milli einstakra rétthafa sem nefndin hafi ákveðið.

                Stefnendur byggi aðalkröfu sína á því að sú aðferðafræði sem lögð sé til grundvallar í séráliti eins matsmanns samræmist meginreglum um fjárhæð eignarnámsbóta. Sé þessari málsástæðu stefnenda hafnað sem rangri og ósannaðri. Vatnsréttarhafar beri enga fjárhagslega áhættu af framkvæmdunum og því síður af vinnslu auðlindarinnar. Að auki sé ósamræmi milli aðferðafræði stefnenda og meginreglna eignarnámsréttar, sbr. t.d. meginreglu 2. mgr. 140. gr. vatnalaga sem beinlínis taki fyrir að eignarnámsbætur séu tengdar hagnaði eignarnema.

                Þá byggi stefnendur á því að verðmæti vatnsréttinda við Kárahnjúka megi meta á grundvelli aðferðar sem styðjist við markaðsverð vatnsréttinda sem komið hafi fram í samningum um leigu á vatnsréttindum, og vísi þar til dskj. nr. 38-45 og 120. Stefndi taki undir það sem fram komi í úrskurði matsnefndar til ákvörðunar bóta vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, sbr. dskj. nr. 3, en þar segi að ekki sé unnt að horfa til verðlagningar vatnsréttinda í samningum tengdum þeim fáu smávirkjunum sem stefnendur nefni til sögunnar, þegar komi að ákvörðun um verðmæti vatnsréttinda sem nýtist við Kárahnjúkavirkjun. Því fari fjarri að stefnendur hafi fært fullnægjandi sönnun fyrir þeirri fullyrðingu sinni að leggja beri slíka samninga til grundvallar mati á verðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar. Um tvo ólíka heima sé að ræða þar sem annars vegar séu nokkrar virkjanir, flestar örsmáar, þar sem skilyrði séu til þess að selja framleiðsluna á innlendum raforkumarkaði. Hins vegar sé um að ræða stórvirkjun sem að óbreyttu hafi engar forsendur til þess að dreifa framleiðslu sinni á innlendum markaði, heldur sé háð því að stórkaupandi komi á fót starfsemi hér á landi til nýtingar raforkunnar. Sé þeirri málsástæðu stefnenda því hafnað sem rangri og ósannaðri.

                Samanburður stefnenda í stefnum við raforkumarkaðinn í Noregi sé auk þess ómarktækur þar sem aðstæður í Noregi séu gjörólíkar íslenskum aðstæðum. Vatnsorka þar sé nánast fullnýtt og þau óvirkjuðu vatnsföll sem eitthvað kveði að, verði það áfram af náttúruverndarástæðum. Raforkukerfi Noregs sé auk þess tengt við raforkukerfi Evrópu og raforkuþörf raforkumarkaðarins því ótakmörkuð. Bætur til vatnsréttarhafa verði auk þess ekki byggðar á vangaveltum stefnenda um hækkun raforkuverðs. Sé því mótmælt sem röngu, ósönnuðu og málinu óviðkomandi.

                Í stefnum bendi stefnendur á að virkjunarkostur Jökulsár á Dal sé sérstaklega hagkvæmur á íslenskan mælikvarða. Áður hafi komið fram að vatnsréttindin séu staðsett á ystu mörkum raforkukerfisins, í jaðri íslensks hagkerfis og markaðar fyrir orku í samræmi við það. Hin óumflýjanlega umhverfisröskun sem fylgi nýtingu umræddra vatnsréttinda rýri verðgildi þeirra með afgerandi hætti, sbr. áður dskj. nr. 16. Hagkvæmni virkjunarkosts stefnda, Kárahnjúkavirkjunar, verði þó ekki dregin í efa. Stefndi leggi áherslu á að hagkvæm nýting réttindanna hafi verið gríðarlega kostnaðarsöm, aðstæður til virkjunar hafi verið einstaklega erfiðar og mikil fjarlægð sé við almennan markað. Framangreint leiði til lækkunar bóta. Tilvísun stefnenda til loftslagshlýnunar og áhrifa loftslagshlýnunar á afrennsli jökulvatna sé skírskotun til ófyrirséðrar þróunar og atburða sem ekki verði byggt á. Eins og dæmin sanni geti í framtíðinni brugðið til beggja vona. Niðurstaða hinnar sérstöku matsnefndar, sbr. dskj. nr. 3, hafi verið sú að umfang þess vatnsmagns sem vatnsréttareigendur framselji stefnda með samningnum frá 13. desember 2005 skuli miðast við innrennsli í Kelduárlón, Ufsarlón og Hálslón og svara til þess vatnsrennslis sem stefndi geti nýtt til raforkuframleiðslu á hverjum tíma í aflstöð Fljótsdalsstöðvar. Stefnendur séu því eigendur vatnsréttinda jarða sinna en hafi verið bætt sú skerðing á orkunýtingu sem felist í Kárahnjúkavirkjun. Loftslagshlýnun og aukið vatnsrennsli muni því auka yfirfall og þar með auka þau vatnsréttindi sem stefnendum og öðrum vatnsréttarhöfum sé frjálst að nýta og sé þeim þ.a.l. til góðs í þessu tilliti.

                Stefnendur byggi á því í stefnu að við ákvörðun eignarnámsbóta vegna vatnsréttinda skuli litið til hlutlægs og almenns notagildis. Þannig verði notagildið ekki bundið við það hvað stefnendur hafi nýtt vatnsréttindin fram að eignarnámi og því hvort þeir gætu nýtt þau sjálfir með tilteknum hætti. Máli sínu til stuðnings vísi stefnendur til þeirrar réttarframkvæmdar að einstaklingar fái bætur fyrir land sem byggingarland óháð fyrirætlunum um framkvæmdir. Hér virðist gæta misskilnings hjá stefnendum. Ónýtt byggingaland sé bætt í samræmi við markaðsvirði þess, en ekki almennt notagildi. Þegar eign skuli bætt á grundvelli almenns notagildis beri m.a. að líta til þess hvernig slíkar eignir séu almennt nýttar, hve auðvelt og hagkvæmt sé að nýta þær og síðast en ekki síst hversu kostnaðarsamt sé að hefja slíka nýtingu, líkt og komi fram í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta vegna Deildartunguhvers, sbr. dskj. nr. 30, sem stefnendur vísi sjálfir til máli sínu til stuðnings.

                Stefnendur krefjist þess í stefnum að meta skuli vatnsréttindin miðað við að þau geti verið nýtt sem hluti af stórri virkjun þar sem vatnsréttindi fleiri en eins aðila séu nýtt saman. Stefndi telji óljóst hvaða sjónarmið stefnendur séu með þessu að leggja til grundvallar, en augljóst sé að Kárahnjúkavirkjun byggi á því að vatnsréttindi mjög margra séu nýtt í tilviki hennar. Hins vegar sé ljóst að hver einstakur landeigandi geti ekki gert kröfu um að vatnsréttindi sín séu metin sem hluti af stærri heild. Eigendur vatnsréttinda sem nýtt séu af Kárahnjúkavirkjun hafi myndað stóran og ósamstæðan hóp landeigenda við þrjár ár. Réttindin hafi ekki verið nýtt af nokkrum vatnsréttindahafa, hvað þá saman með réttindum fleiri rétthafa. Samstaða stefnenda sem hóps vatnsréttindahafa hafi ekki hafist fyrr en með viðræðum stefnda við þá. Allar rannsóknir og tæknileg útfærsla virkjunarinnar sé gerð og kostuð af stefnda. Landfræðilegar aðstæður í landi Valþjófsstaðar í Fljótsdal séu nýttar við gerð virkjunarinnar en þar sé stöðvarhúsið staðsett. Eigendur þeirrar jarðar eigi ekki aðild að þessu dómsmáli, líkt og gildi einnig um fleiri vatnsréttarhafa. Af þeim ástæðum sé útilokað að halda því fram að stefnendur eigi rétt á því að réttindi þeirra séu metin sem hluti af órjúfanlegri, stærri heild vatnsréttinda, sem nýtt séu í Kárahnjúkavirkjun. Sé þessum málflutningi stefnenda mótmælt.

                Í stefnum sé því haldið fram að jafnræðisreglur tryggi að möguleiki til byggingar Kárahnjúkavirkjunar verði ekki einskorðaður við stefnda. Líkt og fram hafi komið verði vatnsréttindin sem nýtt séu að Kárahnjúkavirkjun, eingöngu nýtt af aðila er ráði yfir nægilegri tækniþekkingu, fjárhagslegu bolmagni, markaðsaðstöðu og samfélagslegu afli til þess, þar sem um kostnaðarsama framkvæmd sé að ræða sem háð sé vissum tæknilegum og umhverfislegum annmörkum, sbr. dskj. nr. 16. Fullyrða megi að stefndi sé eini íslenski aðilinn sem búi yfir þeim kostum. Þannig sé „markaður“ fyrir vatnsréttindin þröngur og það rýri verðmæti þeirra. Í greinargerð verkfræðinganna Páls Stefánssonar og Unnar Helgu Kristjánsdóttur, dskj. nr. 16, komi enn fremur fram að draga megi í efa að nokkur erlendur virkjunaraðili hefði treyst sér til að kaupa og nýta þessi réttindi miðað við hið óumflýjanlega inngrip í náttúru landsins og það andrúmsloft til athafna sem því hefði hugsanlega fylgt. Í þessu samhengi verði að líta til aðstæðna þegar ákvörðun hafi verið tekin um virkjun Kárahnjúka og stefndi fái til þess heimildir, sbr. sérstaklega lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar nr. 38/2002. Því sé mótmælt þeirri málsástæðu sem ósannaðri að öðrum virkjunaraðila hafi verið til að dreifa eða að jafnræðisreglur leiði til annarrar niðurstöðu.

                Í ljósi ummæla stefnenda í stefnum um samkeppnisstöðu á raforkumarkaði og tilvísun í samkeppnislög, telji stefndi að óljóst sé við hvað sé átt og því sé umfjöllunin málinu óviðkomandi. Stefndi taki þó fram að ekki hafi verið leitt í ljós annað en að þau sjónarmið og lagaákvæði sem hann byggi á, sbr. og úrskurður hinnar sérstöku matsnefndar, sé í fullu samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

                Stefnendur telji úrskurð matsnefndarinnar frá 22. ágúst 2007 m.a. haldinn þeim lagalegum annmörkum að aðstæður stefnda séu hafðar til hliðsjónar. Áður hafi komið fram að engar vísbendingar hafi fundist um eftirspurn eftir vatnsréttindum í jökulsánum á Dal og Fljótsdal fyrr en á allra síðustu árum af hálfu stefnda í tengslum við hugmyndir um stóriðju á Austurlandi. Verðmæti fallréttindanna sé bundið við að einhver fáist til að virkja þau, ella séu þau verðlaus, sbr. dskj. nr. 3. Sögulegur áhugi á nýtingu vatnsréttinda við Kárahnjúka, sem og fjárhagslegt bolmagn mögulegra virkjunaraðila hljóti því að vega þungt í verðmati vatnsréttindanna, enda hafi stefndi yfirgripsmikla þekkingu á hlutaðeigandi viðskiptasviði og hefði ekki gengið að samningum við Alcoa-Fjarðaál hf. ef hann teldi samninginn ekki viðunandi. Ljóst sé t.d. að Norsk Hydro hafi talið eftirsóknarverðara að festa fé í öðru en álverksmiðju á Reyðarfirði, sem hefði keypt orku af stefnda. Öllum málsástæðum stefnenda sem lotið geti að því að úrskurður matsnefndar sé haldinn lagalegum annmörkum, sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

                Stefnendur telji matsnefnd byggja niðurstöðu sína á ályktunum sem séu í beinu ósamræmi við gildandi lög, þar sem hún byggi á því að breytingar á rekstrarumhverfi raforkuvera vegna gildistöku raforkulaganna hafi einungis gilt um innanlandsmarkað, í þeim skilningi að stóriðjunot rafmagns teldust ekki hluti þess markaðar. Með mótmælum sínum snúi stefnendur út úr niðurstöðu matsnefndarinnar. Í úrskurðinum komi réttilega fram að með gildistöku raforkulaga á árinu 2003 hafi verð á raforku til stóriðju ekki breyst, enda mótist raforkuverð til stóriðju ekki af innlendri samkeppni á hinum almenna raforkumarkaði, heldur ríki þar önnur lögmál, s.s. heimsmarkaðsverð á áli. Því sé mótmælt að niðurstaða matsnefndarinnar sé í ósamræmi við raforkulög eða önnur lög.

                Í stefnum komi fram að stefndi hefði ekki aflað sér heimilda til nýtingar orkuréttinda áður en framkvæmdir hafi hafist, þrátt fyrir að honum hefði verið það í lófa lagið og hann beri þá hallann af þeirri breytingu sem leitt hafi af gildistöku raforkulaga 1. júlí 2003. Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að verðmæti vatnsréttinda stefnenda hafi á einni nóttu hækkað um milljarðatugi og hafi frá þeim tíma ekki verið í neinu samræmi við viðurkennd sjónarmið í eignarrétti um ákvörðun eignarnámsbóta, t.d. tengsl við andvirði þeirra fasteigna sem þau fylgi eða fordæmi um mat á sambærilegum vatnsréttindum vegna stórra raforkuvera.

                Stefndi hafi ítrekað bent á að viðræður um vatnsréttindi hafi hafist þegar eftir að ljóst hafi verið að af framkvæmdum yrði og mótmæli fullyrðingum stefnenda um annað, sbr. t.d. dskj. nr. 23 og 24, þ.e.a.s. framkvæmdaleyfin sem veitt hafi verið í janúar og febrúar 2003 og bæklingur um vatnsréttindi sem gefinn hafi verið út vorið 2003 af hálfu þeirra sveitarfélaga þar sem stefnendur búi, sbr. dskj. nr. 182. Þá þegar sé ljós sú viðleitni stefnda að semja um vatnsréttindin og jafnframt þeir örðugleikar sem fylgt hafi því að semja við svo stóran og ósamstæðan hóp landeigenda við þrjár ár. Ekki hafi komið fram á þeim tíma, t.d. við gildistöku raforkulaga, nein sjónarmið vatnsréttarhafa um gífurlegt verðmæti vatnsréttinda sinna eða að aðferðafræði stefnda væri á einhvern hátt ólögmæt, þrátt fyrir að allir vatnsréttarhafar hafi verið sérstaklega upplýstir um sjónarmið vegna samninga um vatnsréttindi á vegum sveitarfélaga þeirra sem málið hafi varðað vegna undirbúnings samninga við stefnda.

                Á árinu 2004 hafi orðið ljóst að sveitarfélögin hafi ekki haft umboð til milligöngu um samninga, en niðurstaðan hafi orðið að ganga til samninga við nokkra hópa vatnsréttarhafa um mat er kæmi í stað hefðbundinna samningaviðræðna við hvern og einn landeiganda og ef ekki næðust samningar, eftirfarandi eignarnáms, að uppfylltum skilyrðum þess. Í þeim samningi frá 13. september 2005, sem allir stefnendur þessa máls hafi gerst aðilar að, sé hvergi vikið einu orði að því, að við matið skuli leggja til grundvallar þá aðferðafræði sem stefnendur nú haldi fram að eigi að beita, eða heldur minnst á neina þá samninga sem þeir síðar hafi byggt á. Þannig sé um algera stefnubreytingu að ræða af hálfu stefnenda þessa máls, eftir að þeir hafi samþykkt að eignarnámsreglur og þar með þau fordæmi sem á þeim byggi, skuli lagðar til grundvallar. Þess í stað virðist sem stefnendur þessa máls hafi talið að í stað þess að matsferlið byrjaði, væru að hefjast samningaviðræður um endurgjald er byggðist á þeim hugsanlega arði sem stefndi gæti haft af framkvæmdinni, en um leið litið framhjá áhættu hans og fjármagnskostnaði sem stefnendur beri enga ábyrgð á. Áður hafi komið fram að slík aðferðaræði sé í beinu ósamræmi við meginreglur eignarnámsréttar, sbr. t.d. 2. mgr. 140. gr vatnalaga, og þar með samning aðila frá 13. desember 2005. Þegar af þessari ástæðu telji stefndi að öll umfjöllun stefnenda um arðsemi virkjunarinnar sé málinu óviðkomandi, sbr. t.d. bréf Lögmanna Höfðabakka dags. 21. janúar 2010 (dskj. 195) og mótmæli þeim endaskiptum sem stefnendur hafi haft á málinu frá réttum grundvelli þessu. Sé þessum málatilbúnaði stefnenda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

                Stefnendur haldi því fram í stefnum að matsnefndarmenn hafi verið vanhæfir við matið þar sem þeir hafi átt sérstaka fundi með fulltrúum stefnda án vitneskju stefnenda. Umboðsmönnum stefnenda hafi undir rekstri matsmálsins verið gerð grein fyrir því að á grundvelli óskar matsnefndarmanna hefði þeim verið kynntur raforkusölusamningur stefnda við Alcoa og hafi þeir ritað undir trúnaðaryfirlýsingu vegna þessa að ósk stefnda. Á fundinum hafi mætt matsnefndarmenn, tilteknir nefndarmenn samninganefndar um raforkukaup Alcoa og þrír starfsmenn stefnda. Lögmenn stefnda hafi ekki setið fundinn. Haldin hafi verið fundargerð um það sem á fundinum hafi farið fram, sbr. dskj. nr. 162 og síðan hafi sú fundargerð verið afhent lögmönnum stefnenda. Lögmönnum stefnenda hafi auk þess verið gefinn kostur á að kynna sér þau gögn sem kynnt hafi verið á fundinum, sbr. dskj. nr. 151. Hafi því boði verið hafnað. Stefndi telji að stefnendur hafi enga ástæðu til að draga hæfi matsmanna í efa og hafi ekki gert athugasemdir við skipun þeirra. Fyrir hafi legið úrskurður nefndarmanna allra, einnig þess sem síðar hafi skilað sératkvæði, dags. 24. apríl 2007, um að þær upplýsingar sem fram hafi komið á fyrrnefndum fundi, hafi ekki leitt til vanhæfis nefndarmanna og að niðurstaða nefndarinnar yrði ekki byggð á upplýsingum sem málsaðilar hafi ekki haft jafnan aðgang að. Sérstaklega hafi verið á það bent að hver og einn vatnsréttarhafi gæti skotið þeim úrskurði matsnefndar til dómstóla. Það hafi stefnendur ekki farið fram á og hafi auk þess ekki gert kröfu til þess að matsferlið yrði stöðvað. Hafi stefnendur því viðurkennt hæfi matsnefndarinnar og geti ekki haft uppi slíkar kröfur nú. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þessari málsástæðu stefnenda. Þá byggi stefnendur í máli þessu á niðurstöðu minnihluta matsnefndarinnar en mótmæli hæfi meirihlutans og komist þannig í mótsögn við sjálfa sig. Sýni þetta að stefnendur dragi hæfi matsnefndarmanna ekki í efa í raun. Stefndi mótmæli því málsástæðu stefnenda sem rangri og ósannaðri, en til vara sé því haldið fram að það sem fram hafi komið á títtnefndum fundi hafi engin áhrif haft á niðurstöðu matsmanna.

                Í úrskurði matsnefndar til ávörðunar bóta vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar, sbr. dskj. nr. 3, komi fram á bls. 70 að hún telji nærtækast að horfa til þeirra fordæma, sem fyrri matsgerðir veiti, við ákvörðun á verði vatnsréttinda stefnenda, einkum matsgerðar sem lúti að virkjun Blöndu, sem bæði sé næst í tíma og líkust Kárahnjúkavirkjun, hvað stærð snerti. Að mati nefndarinnar hafi gildistaka raforkulaga á árinu 2003 ekki breytt fordæmisgildi Blönduúrskurðarins um verðmæti fallréttindanna, sem þar hafi verið nýtt, sbr. umfjöllun hér að framan, Matsnefndin taki fram að í Blönduúrskurði hafi bætur til vatnsréttareigenda svarað til ca. 0,7% af stofnkostnaði virkjunarinnar. Bendi nefndin á að áætlaður stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar sé u.þ.b. 110 milljarðar króna, þegar litið sé framhjá kostnaði við gerð háspennulína til Reyðarfjarðar og væri fjárhæð bóta reiknuð sem hlutfall af stofnkostnaði með sömu aðferð og beitt hafi verið í Blöndumálinu yrði niðurstaðan 770.000.000 krónur.

                Á þessum sjónarmiðum matsnefndarinnar byggi stefndi aðalkröfu sína. Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu að úrskurðurinn sé haldinn ógildingarannmörkum og sé því ónothæfur sem sönnunargagn um fjárhæð bóta. Stefndi bendi til vara á þá meginreglu stjórnsýsluréttar sem hafa megi til hliðsjónar hér, að minniháttar annmarkar valdi ekki ógildi úrskurða. Í úrskurðinum hafi matsnefndin lagt mat á vatnsréttindi stefnenda með tilliti til fordæma og hagkvæmustu nýtingarmöguleika þeirra á réttu viðmiðunartímamarki. Stefndi fallist á aðferðafræði og grunnsjónarmið matsnefndarinnar en fallist þó ekki á þá hækkun sem nefndin hafi ákveðið, þ.e. að bætur skyldu vera 1,4% af áætluðum stofnkostnaði. Telji stefndi að matsnefndin hafi teygt sig of langt í átt að sjónarmiðum stefnenda og að rétt túlkun lagareglna og mat á hinu eiginlega fjártjóni þeirra hefði átt að leiða til þess að bætur yrðu ákveðnar með sama hætti og í Blönduúrskurði og heildarbætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar í heild sinni séu 770.000.000 krónur sem skiptist milli vatnsréttarhafa samkvæmt skiptihlutfalli því sem hin sérstaka matsnefnd hafi ákveðið í úrskurði sínum frá 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 3. Sundurliðun fjárhæðarinnar milli stefnenda sundurgreint eftir þeim jörðum sem hlut eigi  að máli megi lesa út úr töflu á tölulegu yfirliti grunnbóta, sbr. dskj. nr. 193. Fullnaðarbætur til stefnenda nemi því samtals 268.448.925 krónum. Tekið skuli fram að með því að nota það hlutfall sem nefndin hafi ákveðið sé bæði tekið tillit til 4,254% álags á bætur fyrir grunnréttindi sem matsnefndin hafi ákveðið að legðist á bótagreiðslu fyrir vatnsréttindi Jökulsár á Dal vegna falls í ánni frá sömu hæð og við skurðsenda í Fljótsdal, 25,5 m.y.s. og til sjávar og líka 7,339% álags á bætur fyrir vatnsréttindi Kelduár vegna fallréttinda úr 669 m.y.s. hæð frá Kelduárlóni í 625 m.y.s. hæð í Ufsarlóni. Framangreindar bætur hafi stefndi þegar greitt stefnendum, ásamt vöxtum, með greiðslu dags. 22. febrúar 2008, sbr. bréf dags. 19. febrúar 2008 á dskj. nr. 194, og krefjist stefndi því þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

                Til frekari stuðnings þessari kröfu bendi stefndi á að í mati á verðmæti vatnsréttinda jarðarinnar Króks í Ásahreppi í Rangárvallasýslu í Þjórsá hafi verið við það miðað að vatnsréttindi næmu um 20% af heildarverðmæti jarðar ef þau væru aðskilin frá jörðinni en 16% ef þau væru seld með jörðinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 388/2005, sem kveðinn hafi verið upp 19. janúar 2006. Í dskj. nr. 16 sé bent á að engar vísbendingar hafi fundist um eftirspurn eftir vatnsréttindum í jökulsánum á Dal og Fljótsdal fyrr en á allra síðustu árum af hálfu stefnda í tengslum við hugmyndir um stóriðju á Austurlandi. Bent sé á að jarðaverð á Fljótsdalshéraði hafi ekki verið hátt á landsvísu.

                Með kaupsamningi dags. 25. febrúar 2004 hafi einkahlutafélagið Lífsval ehf., sem sé einn stefnenda og muni eiga jarðir víða um landið, keypt jarðirnar Sleðbrjót I og II fyrir 14.000.000 krónur, sbr. dskj. nr. 183. Ljóst sé að kaupandi hafi vitað eða mátt vita um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og því verði að álykta að hann hafi verðmetið vatnsréttindin með venjubundnum hætti enda, eins og áður segi, um að ræða aðila sem hafi keypt margar jarðir í atvinnuskyni. Ef miðað sé við að vatnsréttindin hafi numið 16% af verði jarðarinnar, sem keypt hafi verið í heild sinni, þá væri verðmæti vatnsréttindanna 2.240.000 krónur en ef miðað væri við 20% væri verðmæti þeirra 2.800.000 krónur. Matsnefndin hafi hins vegar metið hæfilegar bætur 5.565.238 krónur sem séu um 40% af kaupverði jarðarinnar. Slíkt sé ekki í samræmi við fordæmi og gildandi sjónarmið. Stefndi telji að þetta sé almennt fordæmi sem renni stoðum undir að eðlilegt sé að miða við 770.000.000 krónur sem heildarverð fyrir vatnsréttindin en ekki þá fjárhæð sem matsnefndin hafi talið enda tryggi sú niðurstaða að vatnsréttindin væru metin á u.þ.b. 20% af kaupverði jarðarinnar Sleðbrjóts.

                Einnig sé vísað til sjónarmiða sem fram komi í greinargerð verkfræðinganna Péturs Stefánssonar og Unnar Helgu Kristjánsdóttur á dskj. nr. 16 um sérstöðu Kárahnjúkavirkjunar. Þar komi fram að „markaður“ fyrir vatnsréttindi sé þröngur og það rýri verðmæti þeirra.

                Bygging Kárahnjúkavirkjunar hafi í för með sér margvísleg jákvæð samfélagsáhrif á Austurlandi sem vatnsréttarhafar njóti til jafns við aðra. Þeir beri hins vegar ekki áhættu af byggingu eða rekstri virkjunarinnar. Þá hvíli á virkjuninni margvísleg skilyrði er lúti að umhverfisþáttum og gæti rekstrarkostnaður Hálslóns orðið umtalsverður ef beita þurfi ýtrustu tækni til mótvægisaðgerða. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 (Þjórsártúnsdóms) sé ljóst að í íslenskum rétti miðist eignarnámsbætur við beint fjárhagslegt tjón eignarnámsþola. Hvað varði vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar verði að telja að fjárhagslegt tjón vatnsréttarhafa af framsali réttindanna til stefnda sé óverulegt og að framangreind krafa stefnda um að heildarbætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar miðist við 770.000.000 krónur bæti það að fullu.

                Þessu til viðbótar sé bent á að aðstæður við Kárahnjúka séu á margan hátt mjög sérstakar og skuli hér drepið á nokkur atriði. Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar sé 690 MW og áætluð orkuvinnslugeta sé 4.660 GWh á ári. Orkuvinnslugeta Kárahnjúkavirkjunar sé þannig rúmlega tvöfalt meiri en orkuvinnslugeta Búrfellsvirkjunar, stærstu virkjunar landsins. Kárahnjúkavirkjun hafi þegar af þessari ástæðu algera sérstöðu meðal vatnsaflsvirkjana hér á landi. Kárahnjúkavirkjun sé staðsett á ystu mörkum raforkukerfisins og í jaðri hins íslenska hagkerfis, þar sem efnahagsleg umsvif hafi verið lítil og markaður fyrir raforku í samræmi við það. Flutningsgeta byggðalínu sé óveruleg í hlutfalli við stærð virkjunarinnar, þannig að segja megi að Kárahnjúkavirkjun sé eyland í núverandi raforkukerfi landsins. Orka verði því ekki með góðu móti flutt frá svæðinu til annarra staða á landinu nema til komi verulegar breytingar og styrkingar á flutningskerfinu með tilheyrandi kostnaði.

                Kárahnjúkavirkjun sé alfarið háð sölu til stórnotanda, en þar sé nær eingöngu erlendum og gjarnan alþjóðlegum stórfyrirtækjum til að dreifa. Orkusala til stóriðju sé þannig í beinni samkeppni við ódýra vatnsorku og náttúrugas úti í heimi. Allt þetta hafi áhrif til lækkunar orkuverðs til stóriðju.

                Ósannað sé með öllu að nokkur eftirspurn hafi verið eftir þeim réttindum sem hér sé um fjallað af hálfu annarra en stefnda. Þá sé jafnframt ósannað að slíkum aðila eða aðilum sé til að dreifa í framtíðinni. Ekki nægi að byggja málflutning á mögulegum framtíðarnotum, sem liggi í óvissri framtíð, því eins og alkunna sé, geti brugðið til beggja vona að því er varði hugsanlega framtíðarþróun.

                Margar virkjanir hér á landi hafi reynst eigendum sínum gott búsílag, einnig eftir að „eðlilegum“ afskriftatíma þeirra hafi verið lokið. Komi þar hvort tveggja til að þessar virkjanir hafi oft reynst í vel rekstrarhæfu ástandi, enda hafi fjármunum verið kostað til viðhalds þeirra og næg þörf verið fyrir orku frá þeim í raforkukerfinu. Þær séu einnig þannig staðsettar að mögulegt hafi verið að flytja orku frá þeim til notenda. Hið sama gildi ekki um Kárahnjúkavirkjun vegna lítillar flutningsgetu byggðalínu og orkugetu virkjunarinnar langt umfram almennan innanlandsmarkað. Hún sé þannig alfarið háð því að stórnotandi sé fyrir hendi, en það skapi óvissu um framtíðarnot hennar umfram flestar aðrar virkjanir á Íslandi. Í því tilliti sé rétt að taka fram að samningur milli Alcoa og stefnda um kaup á orku frá Kárahnjúkavirkjun sé einungis til 40 ára.

                Sérstaða virkjunarinnar tengist einnig áhættu við framkvæmdir. Kárahnjúkavirkjun sé dæmigerð „jarðgangavirkjun“. Forsenda fyrir þessari gangagerð og þar með virkjuninni allri hafi verið að beita nýrri bortækni, stórum borvélum, sem mylji bergið á undan sér og skili sallanum frá sér á færiböndum. Þessi tækni hafi aldrei verið notuð áður hérlendis. Framkvæmdaáhætta við Kárahnjúkavirkjun hafi því verið meiri en flestra eða allra annarra virkjana í landinu.

                Hin óumflýjanlega umhverfisröskun sem fylgi nýtingu umræddra vatnsréttinda rýri verðgildi þeirra með afgerandi hætti. Draga megi í efa að nokkur erlendur virkjunaraðili hefði treyst sér til að kaupa og nýta þessi réttindi miðað við slík inngrip í náttúru annars lands og það andrúmsloft til athafna sem því hefði hugsanlega fylgt.            Allt framantalið hljóti að rýra stórlega verðgildi vatnsréttinda Kárahnjúka í hlutfalli við önnur nytjuð vatnsréttindi í landinu. Samt sem áður telji stefndi eðlilegt að miða við sömu sjónarmið og lögð hafi verið til grundvallar við ákvörðun verðmætis vatnsréttinda vegna Blönduvirkjunar.

                Varðandi umfjöllun í stefnum um verðmæti vatnsréttinda, sbr. bls. 9-11, mótmæli stefndi henni í heild sinni sem rangri og ósannaðri. Þannig sé því alfarið hafnað að sérálit eins matsmanns hinnar sérstöku matsnefndar samræmist meginreglum um fjárhæð eignarnámsbóta og verði notað sem sönnunargagn í málinu. Áður hafi komið fram að fordæmisgildi fyrirliggjandi samninga um leigu vatnsréttinda sé með öllu hafnað. Þá sé því sérstaklega mótmælt sem röngu að stefndi hafi byggt á því að verðmæti vatnsréttinda ætti að finna út á grundvelli arðsemismats stefnda á framkvæmdinni. Eins og fram komi m.a. á dskj. nr. 91, hafi verið skorað á stefnda að leggja fram margvísleg gögn sem tengist m.a. umræddu arðsemismati. Við skoðun á gögnum málsins sé ljóst að hér sé reynt að snúa út úr málatilbúnaði stefnda.

                Með vísan til málsástæðna stefnda, sbr. hér að framan, sé útreikningum dómkrafna á bls. 11 – 12 í stefnu hafnað í heild sinni, þ.m.t. öllum kröfum sem byggi á stækkun Lagarfossvirkjunar.

                Stefndi vísi að öðru leyti til greinargerðar og viðbótargagna sem lögð hafi verið fram undir rekstri matsmáls fyrir hinni sérstöku matsnefnd.

                Af  framangreindum ástæðum öllum krefjist stefndi því sýknu af öllum kröfum stefnenda. Auk þess sé krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Um varakröfu

                Varakrafa stefnda byggi á framangreindum málsástæðum og rökstuðningi með aðalkröfu að öðru leyti en að sé ekki fallist á aðalkröfu stefnda sé óskað eftir því að dómurinn meti að álitum hvað teljist hæfilegt endurgjald vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar að teknu tilliti til innborgunar dags. 22. febrúar 2008 í samræmi við aðalkröfu stefnda, þó þannig að sú fjárhæð sem metin yrði geti aldrei verið meiri en 1,05% af áætluðum 110.000.000.000 króna stofnkostnaði virkjunarinnar sem lagður hafi verið til grundvallar í úrskurði matsnefndarinnar. Heildarbætur vegna vatnsréttindanna myndu þannig nema 1.155.000.000 krónum og skiptast á milli vatnsréttarhafa samkvæmt skiptihlutfalli því sem hin sérstaka matsnefnd hafi ákveðið í úrskurði sínum frá 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 3. Fullnaðarbætur til stefnenda þessa máls næmu því samtals 402.673.396 krónum en sundurliðun fjárhæðarinnar milli einstakra stefnenda  megi lesa úr töflu á tölulegu yfirliti grunnbóta, sbr. dskj. nr. 193, auk þess sem taka þurfi tillit til innborgana, sbr. dskj. nr. 193 og 194. Stefndi telji þannig að helmingshækkun á bótafjárhæð, miðað við Blönduúrskurð, sé mun eðlilegra endurgjald, sé tekið mið af tjóni vatnsréttarhafa, heldur en sú 100% hækkun sem matsnefndin hafi ákveðið í úrskurði sínum.

                Verði ekki fallist á að hæfilegt endurgjald vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar geti aldrei verið meira en 1,05% af áætluðum 110.000.000.000 króna stofnkostnaði virkjunarinnar, byggi stefndi á framangreindum málsástæðum og rökstuðningi með aðalkröfu að öðru leyti en því að lögð sé til grundvallar sú fjárhæð sem matsnefnd hafi ákveðið í úrskurði sínum 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 3 eða 1.540.000.000 krónur að teknu tilliti til innborgunar 22. febrúar 2008 í samræmi við aðalkröfu stefnda en skipting bóta milli stefnenda færi eftir því skiptihlutfalli sem hin sérstaka matsnefnd hafi ákveðið í úrskurði sínum. Fullnaðarbætur til stefnenda næmu því 671.122.321 krónu, en sundurliðun fjárhæðarinnar milli stefnenda megi lesa úr töflu á tölulegu yfirliti grunnbóta, sbr. dskj. 193.

                Verði ekki fallist á að leggja til grundvallar þá fjárhæð sem matsnefnd hafi ákveðið í úrskurði sínum 22. ágúst 2007 sé þess krafist að hæfilegar bætur verði metnar að álitum að teknu tilliti til innborgunar dags. 22. febrúar 2008 í samræmi við aðalkröfu stefnda og kröfur stefnenda lækkaðar verulega enda ljóst að stefnda hafi verið, á hvaða tíma sem valinn sé við undirbúning framkvæmda ómögulegt að fallast á þær kröfur sem stefndu hafi uppi í máli þessu þar sem engum þurfi að dyljast að slíkt hefði leitt til fjárþrots stefnda og kippt grundvelli undan framkvæmdinni.

Um vaxtakröfu stefnenda

                Stefndi mótmæli vaxtakröfu stefnenda. Stefndi hafi boðist til að greiða stefnendum bætur fyrir vatnsréttindi sem nýtt séu í þágu Kárahnjúkavirkjunar í samræmi við úrskurð matsnefndar frá 22. ágúst 2007. Þær bætur hafi verið miðaðar við verðlag þess tíma. Það boð hafi stefnendur ekki þegið en hafi þess í stað kosið að skjóta máli sínu til dómstóla. Stefndi hafi engu að síður greitt bætur fyrir vatnsréttindin í samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í úrskurði matsnefndar sem ákvarðað hafi bætur fyrir vatnsréttindi Blöndu hinn 10. ágúst 1992, sbr. aðalkröfu stefnda. Stefnendur eigi því enga kröfu á hendur stefnda um greiðslu vaxta.

                Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda, en fallist á varakröfu geri stefndi kröfu um að engir vextir verði tildæmdir. Til vara krefst stefndi þess að vextir verði ákvarðaðir í samræmi við 8. gr. laga um vexti og verðbætur, þ.e.a.s. þá vexti sem skaðabótakröfur beri frá 22. ágúst 2007, er úrskurður hinnar sérstöku matsnefndar hafi fallið og til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar dags. 22. febrúar 2008, sbr. bréf lögmanns stefnda til lögmanna stefnenda dags. 19. febrúar 2008  á dskj. nr. 194. Þar sem stefnendur hafi ekki tekið við greiðslu hafi verið um viðtökudrátt að ræða. Beri því að sýkna stefnda af dráttarvaxtakröfu stefnenda.

                Til þrautavara sé þess krafist að stefnda verði gert að greiða vexti í samræmi við 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þ.e.a.s. þá vexti sem skaðabótakröfur beri, frá viðmiðunartímamarki bóta til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar dags. 22. febrúar 2008, sbr. dskj. nr. 194 og dráttarvexti skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá dómsuppkvaðningu.

Um málskostnaðarkröfu

                Málskostnaðarkrafa stefnda styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr.

                Málskostnaðarkröfu stefnenda sé mótmælt með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Sérstaklega sé því mótmælt að lagastoð sé fyrir því að leggja til grundvallar gjaldskrá lögmanna stefnenda um töku hagsmunatengdrar þóknunar, þar sem slíkt teljist ekki til kostnaðar af flutningi málsins. Samningur lögmanna stefnenda við umbjóðendur sína um hlutfallslega þóknun af tildæmdum fjárhæðum séu stefnda óviðkomandi og samræmist á engan hátt reglum um eignarnám.

V. Lagarök

                Stefndi kveðst vísa til helstu lagaraka sem fram komi í framangreindri umfjöllun hans um málsástæður, en sérstaklega vísi hann til eftirtalinna laga:

Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Vatnalaga nr. 15/1923. Raforkulaga nr. 65/2003. Laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 og laga um framakvæmd eignarnáms nr. 61/1917. Vatnalaga nr. 20/2006. Laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar nr. 38/2002. Laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998. Laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998.

                Krafa stefnda um vexti byggi á ákvæðum II. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og málskostnaðarkrafa styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Þá kveðst stefndi vísa til eftirfarandi hæstaréttardóma:

                Hrd. 1997, bls. 52 (Löngumýrardómur)

                Hrd. í máli nr. 349/2004 (Þjórsártúnsdómur)

                Hrd. í máli nr. 388/2005 (Króksdómur)

                Hrd. í máli nr. 562/2008 (Skálmholtshraunsdómur)

                Hrd. í máli nr. 120/2009 (Arnórsstaðadómur)

                Þá kveðst stefndi vísa til matsúrskurða varðandi Sogsvirkjanir frá 1929 og 1935, gerðardóms varðandi fallvötn í Arnarfirði, dags. 22. desember 1961, úrskurðar matsnefndar varðandi vatnsréttindi í Blöndu, dags. 10. ágúst 1992, úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta um Deildartunguhver, dags. 30. desember 1980 og úrskurðar hinnar sérstöku matsnefndar til ákvörðunar bóta vegna Kárahnjúkavirkjunar dags. 22. ágúst 2007.

VI

Niðurstaða

                Hér að framan er ítarlega rakinn aðdragandi byggingar Kárahnjúkavirkjunar og þykja ekki efni til að endurtaka þá umfjöllun hér. Nægir að segja að málið hafði aðdraganda sem fór ekki framhjá almenningi á Íslandi og var frá upphafi rætt um framkvæmdina sem stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Framkvæmdin fól í sér að virkja með einni virkjun jökulsárnar á Dal og Fljótsdal auk Kelduár allt eins og nánar er lýst hér framar.

                Með lögum nr. 38/2002 sem tóku gildi 7. maí 2002 var stefnda veitt heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun. Með b. lið 3. gr. laganna voru einnig gerðar breytingar á 2. mgr. 6. gr. laga nr.  42/1983 um Landsvirkjun og bætt inn í greinina að Landsvirkjun reisi og reki Kárahnjúkavirkjun með allt að 750 MW afli. Í 18. gr. laga um Landsvirkjun er kveðið á um að ráðherra geti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi m.a. vatnsréttindi sem nauðsynleg séu til framkvæmda samkvæmt lögunum. Lagaheimild til eignarnáms þeirra réttinda sem um er deilt í máli þessu lá því fyrir 7. maí 2002. Iðnaðarráðherra veitti stefnda virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun 2. september 2002 og 2. febrúar 2003 veittu sveitarstjórnir Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps  framkvæmdaleyfi vegna hennar. Allt er þetta nánar rakið hér að framan.

                Í málatilbúnaði aðila er einnig rakið hvernig hagað var undirbúningi að samningaviðræðum milli stefnda og stefnenda og annarra vatnsréttarhafa. Kemur m.a. fram að stefndi hafi kostað gerð bæklings sem ætlaður var til að kynna eigendum vatnsréttinda réttarstöðu sína og hvaða möguleikar væru fyrir hendi um lausn á því álitamáli sem ákvörðun verðmæta umræddra vatnsréttinda væri. Liggur þessi bæklingur fyrir í málinu og mun hafa verið dreift á fyrri hluta ársins 2003. Kemur fram í honum að hann hafi verið unninn af tveimur nafngreindum lögmönnum og að hann sé gefinn út af sveitarstjórnum fyrrgreindra tveggja sveitarfélaga á svæðinu í júní 2003.

                Ekki þykja efni til að rekja nánar aðdraganda formlegra samningaviðræðna en látið við það sitja að segja að síðla árs 2005 komust aðilar máls þessa, auk fleiri eigenda vatnsréttinda, að samkomulagi um að leggja fyrir sérstaka matsnefnd ágreining sinn um verðmæti og umfang þeirra réttinda sem vatnsréttarhafar létu af hendi til stefnda. Var samningur þess efnis undirritaður af fulltrúum vatnsréttarhafa og stefnda 13. desember 2005, en í honum var kveðið á um að hann tæki gildi þegar nánar tilgreindur fjöldi vatnsréttarhafa hefði fallist á efni hans. Hér á eftir verður vísað til þessa samnings sem samningsins án nánari tilgreiningar. Á fyrsta fundi matsnefndar sem haldinn var í febrúar 2006 kom fram yfirlýsing af hálfu lögmanna vatnsréttarhafa um að nægilega margir af umbjóðendum þeirra hefðu gengist undir samninginn til að hann tæki gildi. Málið var síðan flutt fyrir matsnefndinni sem kvað upp úrskurð 22. ágúst 2007. Hafa aðilar máls þessa borið niðurstöðu úrskurðarins undir dóminn, eins og þeim var heimilt samkvæmt ákvæðum samningsins. Málsaðilar una úrskurðinum að því er varðar umfang þeirra réttinda sem látin hafa verið af hendi. Hins vegar telja stefnendur að verðmæti réttindanna séu vanmetin í úrskurði matsnefndar en stefndi telur þau ofmetin.

                Ágreiningslaust er, og nákvæmlega tilgreint í greinum 1.2 og 1.3 í samningnum, að réttarstaða samningsaðila á báða bóga skuli hin sama eins og umrædd réttindi hefðu verið tekin eignarnámi og að endurgjald fyrir réttindin, sem og ákvörðun um umfang þeirra skuli ákveðið í samræmi við eignarnámsreglur. Sé samningnum ætlað að koma í stað eignarnáms skv. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, ákvæða vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

                Þá þykir hér rétt að geta þess að í G-lið inngangs samningsins kemur fram að aðilar séu sammála því að verðmæti vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar verði ekki metin nema heildstætt og með aðild eins margra þeirra sem telji til réttinda sem frekast sé kostur.

                Stefnendur byggja á að miða eigi verðmæti vatnsréttinda þeirra við hagkvæmasta nýtingarkost. Verður lagt til grundvallar að nýting stefnda á réttindunum sé sú hagkvæmasta sem til greina komi, enda hefur ekki verið sýnt fram á það í málinu að önnur nýting yrði hagkvæmari.

                Verður hér fyrst hugað stuttlega að ágreiningi aðila um við hvaða tímamark skuli telja að umrædd réttindi hafi skipt um hendur. Í samningi aðila er í grein 2.1. kveðið á um að með því að vatnsréttarhafar undirgangist samninginn með undirritun sinni og að samningurinn hafi tekið gildi skv. 9. gr. hans framselji vatnsréttarhafar Landsvirkjun þar með til eignar vatnsréttindi vatnsfallanna Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár, auk vatnsfalla sem í þær renni, sem séu í þeirra eigu og hefðu verið látin af hendi vegna Kárahnjúkavirkjunar hefði komið til eignarnáms, gegn greiðslu endurgjalds er ákveðið verði af matsnefnd skv. ákvæðum samningsins og greitt í eitt skipti fyrir öll í samræmi við niðurstöðu hennar eða eftir atvikum dómstóla.

                Það er mat dómsins að ekki séu efni til að skilja framangreint samningsákvæði á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan og að með því að gerast aðilar að samningnum framselji aðilar hans umrædd réttindi til stefnda, en ágreiningur um nákvæmt inntak réttindanna og verðmæti þeirra er lagt til mats sérstakrar matsnefndar. Er ekki unnt að fallast á það með stefnendum að sú staðreynd að umfang réttinda hafi ekki legið nákvæmlega fyrir ráði hér úrslitum. Þá er á hinn bóginn ekki heldur hægt að fallast á með stefnda að miða eigi við þann tíma þegar löggjafinn veitti heimild til byggingar virkjunarinnar, eða við annað tímamark í undirbúningi stefnda að framkvæmdum. Með undirritun sinni á samninginn telst stefndi því hafa tekið umráð umræddra réttinda og verður við það miðað að áhættuskipti hafi orðið á þessu tímamarki, með sömu réttaráhrifum og ef um eignarnám réttindanna hefði verið að ræða.

                Matsnefnd var í samræmi við ákvæði samningsins skipuð fimm mönnum. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði formann nefndarinnar og valdi til starfans fyrrum héraðsdómara, en hann nefndi með sér verkfræðing og löggiltan endurskoðanda. Af hálfu stefnda var tilnefndur hæstaréttarlögmaður í nefndina en af hálfu vatnsréttarhafa var tilnefndur rafmagnsverkfræðingur. Var þessi skipan í samræmi við ítarleg ákvæði 3. kafla samningsins. Í 4. kafla samningsins er mælt fyrir um málsmeðferð. Kemur þar m.a. fram í grein 4.2. að matsnefnd ákveði sjálf þær reglur er fylgja skuli um meðferð mála í samræmi við ákvæði samningsins, með hliðsjón af reglum um málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og meginreglum stjórnsýslulaga, eftir því sem við eigi. Matsnefnd úrskurði sjálf um ágreining er kunni að koma upp við málsmeðferð. Slíkir úrskurðir séu endanlegir.

                Undir rekstri matsmálsins kom til þess að lögmenn vatnsréttarhafa kröfðust þess að nefndin úrskurðaði um hæfi sitt. Var krafa þessi höfð uppi í kjölfar þess að formaður nefndarinnar upplýsti að nefndin hefði að eigin ósk átt fund með samninganefnd stefnda um orkuverð til Alcoa-Fjarðaáls hf. þar sem nefndin hefði verið upplýst um orkusölusamning fyrirtækjanna gegn undirritun trúnaðaryfirlýsingar. Fram kom að lögmenn stefnda sátu ekki umræddan fund. Í kjölfar athugasemda lögmanna vatnsréttarhafa bauð stefndi að lögmennirnir gætu fengið samskonar upplýsingar gegn trúnaðaryfirlýsingu. Þessu boði var hafnað. Töldu vatnsréttarhafar að með framangreindu væri ekki jafnræði með aðilum gagnvart nefndinni. Matsnefndin kvað upp einróma úrskurð 24. apríl 2007 þess efnis að ekki hefði valdið vanhæfi nefndarmanna að sitja umræddan fund. Kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar að nefndin hafi rannsóknarskyldu. Nefndarmenn líti svo á að nefndinni sé frjálst að afla upplýsinga um hvaðeina, sem að hennar dómi kunni að varpa ljósi á það álitaefni, sem henni hafi verið falið að fjalla um. Niðurstaða nefndarinnar verði ekki byggð á upplýsingum sem málsaðilar hafi ekki jafnan aðgang að. Fyrir liggur að stefnendur leituðu ekki atbeina dómstóla til að fá hnekkt framangreindri niðurstöðu matsnefndarinnar um hæfi sitt og hélt vinna matsnefndarinnar því áfram og lauk með úrskurði 22. ágúst 2007.

                Hér fyrir dómi byggja stefnendur m.a. á að úrskurður matsnefndar verði ekki lagður til grundvallar sem sönnunargagn í máli þessu þar sem matsnefndarmenn hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins, sbr. það sem hér að framan greinir. Að mati dómsins eru ekki efni til að fallast á röksemdir stefnenda í þessa veru. Verður að telja að með þeim fundahöldum sem þarna áttu sér stað hafi matsnefndarmenn sinnt rannsóknarskyldu sinni, en ætla verður þeim nokkurt svigrúm til að meta hvernig það verður best gert. Þá má hér hafa nokkra hliðsjón af ákvæði 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem gert er ráð fyrir að skjal sem innhaldi atriði sem óskylt eða óheimilt væri að bera vitni um geti dómari ákveðið að lagt verði fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Verður ekki séð að lög um meðferð einkamála geri ráð fyrir að valdi vanhæfi dómara að hafa þannig séð skjal sem trúnaður skal ríkja um. Verður hér fallist á með stefnda að efni orkusölusamnings hans við Alcoa Fjarðaál hf. séu þesskonar upplýsingar sem umræddu ákvæði er ætlað að fjalla um. Er því hafnað að jafnræði málsaðila hafi verið raskað með þessu. Með vísan til þess er að framan greinir er málsástæðum stefnenda um að matsnefnd hafi verið vanhæf til meðferðar málsins hafnað.

                Með samningi um að fela sérstakri matsnefnd að meta umfang réttinda og verðmæti þeirra felldu málsaðilar, sem og aðrir sem aðild áttu að samningnum deilu sína í sérstakan farveg. Í samningnum er kveðið á um að þegar úrskurður matsnefndar liggur fyrir geti málsaðilar skotið þeirri niðurstöðu til dómstóla. Stefnendur nýttu sér þetta ákvæði, en þeir fara með um það bil 35% þeirra réttinda sem stefndi nýtir við Kárahnjúkavirkjun. Aðrir hafa kosið að una úrskurði matsnefndarinnar. Rétt er þó að nefna að einhverjir munu þeir vera sem ekki gerðust aðilar að samningnum og stefndi hefur enn ekki samið við. Þeir aðilar mun þó vera fáir. Með því að stefnendur gengust undir það með samningi að láta meta réttindi sín með framangreindum hætti þykir einsýnt að í því hafi falist ráðstöfun á sakarefni með margvíslegum hætti sem ekki verði horft framhjá við úrlausn málsins. Verður að fallast á með stefnda að það sé fyrst og fremst úrskurður matsnefndarinnar frá 22. ágúst 2007 sem sé til endurskoðunar hér fyrir dómi og málsaðilar beri á báða bóga sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum um að niðurstaða úrskurðarins sé röng að einhverju eða öllu leyti. Kemur þetta skýrt fram í gr. 4.8. í samningnum þar sem segir að úrskurður matsnefndar skuli vera endanlegur og bindandi og verði honum ekki skotið til dómstóla nema eftir því sem um sé mælt í samningnum sjálfum.

                Eins og áður hefur verið nefnt hafa málsaðilar samið svo að um réttindi þeirra í milli skuli fara eins og um eignarnám hefði verið að ræða. Verður því á því byggt að eignarnámsreglur eigi að gilda við ákvörðun endurgjalds sem og um önnur atriði í lögskiptum aðila. Er fallist á með stefnda að með aðild sinni að samningnum hafi stefnendur játast undir að niðurstaða yrði byggð á framangreindum reglum en í því felst óhjákvæmilega að aðferðir við verðmat munu reistar á þeim réttarheimildum sem til hafa orðið í áranna rás á umræddu réttarsviði. Hafa með því móti orðið til aðferðir við mat á hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrár. 

                Er rétt hér í upphafi að fara nokkrum orðum um þessar reglur. Í stuttu máli felst í 72. gr. stjórnarskrárinnar að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan mann megi svipta eign sinni nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og skal fullt verð koma fyrir þá eign sem menn eru sviptir. Þá er óumdeilt í málinu að aðeins skuli bætt fjártjón og einnig er í gildi sú meginregla að bætur verða miðaðar við tjón eignarnámsþola en ekki hagnað eignarnema af þeirri framkvæmd sem verður tilefni eignarnámsins. Þá gildir einnig sú regla að frá bótum skuli draga sérhag sem eignarnámsþoli kann að hafa af þeirri framkvæmd sem er tilefni eignarnámsins. Þó málsaðilar hafi um þetta sjónarmið fjallað í málatilbúnaði sínum þykir ekki ástæða til að víkja verulega að því og verður í málinu talið ósannað að stefnendur hafi haft einhvern þann sérhag af eignarnáminu að leiða eigi til frádráttar af bótum til þeirra.

                Í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 er fjallað um eignarnám og kemur þar fram í 5. mgr. að um framkvæmd eignarnáms á grundvelli laganna fari eftir almennum reglum. Þá kemur einnig fram að við ákvörðun eignarnámsbóta vegna orkulindar skuli taka sérstakt tillit til óvissu um orkulindina og kostnaðar af leit og vinnslu. Í 11. tl. 3. gr. laganna er hugtakið orkulind skilgreint þannig að það sé náttúruleg uppspretta orku í ákveðnu formi, svo sem vatnsfall, jarðhitageymir, sjávarföll, vindur og sólarljós, en einnig olíu- og gaslindir og kolanámur.

                Þá þykir rétt að fara nokkrum orðum um eðli þeirra réttinda sem hér eru til umfjöllunar. Í fyrsta lagi þykir rétt að ítreka að í samræmi við 49. gr., sbr. 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923 eiga stefnendur fallréttindi vatns fyrir jörðum sínum, en í máli þessu er eingöngu uppi krafa um bætur fyrir not þeirra réttinda. Er því enda ekki haldið fram að það vatn sem ekki rennur lengur um lönd stefnenda yrði fénýtt til annars en orkuframleiðslu. Hér er því ekki rætt um andvirði lands heldur tilgreinda nýtingu á náttúrulegum krafti vatns sem um landið rennur. Sjá má af gögnum þessa máls að þessi réttindi sem áður tilheyrðu stefnendum en nú stefnda virðast ekki hafa verið metin til verðs fyrr en nú þegar til stendur að bæta stefnendum missi þeirra. Verður að fallast á það með stefnendum gegn andmælum stefnda að ekki sé unnt að telja að verðmat umræddra orkunýtingarréttinda verði byggt á söluverði eða fasteignamati jarða, enda sýnt að slíkt verð hefur ekki í raun endurspeglað umræddan nýtingarrétt. Í þessu felst ekki fyrirætlun um að verðhækkun sem stafi af þeirri framkvæmd sem er tilefni eignarnámsins renni til eignarnámsþola, en bann er lagt við slíku í 2. mgr. 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Er það mat dómsins að orkunýtingarréttindi séu verðmæt sem slík og að ákvörðun um framkvæmdir kalli fram það verðmæti, óháð því að hvaða marki réttindin hafi ráðið söluverði jarða fram að þeim tíma. Er ekki unnt að fallast á það með stefnda að í þessu felist að verðmæti réttindanna teljist hafa hækkað vegna framkvæmdarinnar í skilningi eignarnámsreglna. Á hinn bóginn er jafnljóst að umrædd verðmæti skila engum arði fyrr en við nýtingu og til nýtingar réttindanna þarf langan og flókinn undirbúning sem staðið getur árum saman. Verður nánar vikið að þýðingu þessa atriðis hér á eftir.

                Við ákvörðun eignarnámsbóta hefur verið talið að beita skuli, einum af þremur mælikvörðum, mælikvarða söluverðs, mælikvarða notagildis eða mælikvarða enduröflunarkostnaðar. Málsaðilar eru sammála um að síðastnefndi mælikvarðinn eigi ekki við í máli þessu og verður ekki nánar að honum hugað. Hafa þarf í huga að hver þessara mælikvarða byggir á sérstakri aðferð og því varasamt að einblína á heiti mælikvarðans án nánari skoðunar. Telja verður að við mat á verðmæti sem taka á eignarnámi yrði ávallt fyrst litið til söluverðsmælikvarða. Sá mælikvarði verður að mati dómsins talinn ná til þess í fyrsta lagi að fyrir liggi markaðsverð umræddra réttinda. Sé svo má telja það meginreglu að slíkt verð beri að leggja til grundvallar við ákvörðun eignarnámsbóta. Hins vegar þykir dóminum rétt að vekja athygli á að vera kann að ekki liggi fyrir hvert markaðsverð á eign er og söluverð/verðmæti sé áætlað t.d. af dómkvöddum matsmönnum. Kemur þetta augljóslega oftar til þegar markaðir eru þröngir, eins og hér á landi, en þegar fyrir liggur mikill fjöldi kaupsamninga um sambærileg verðmæti. Er það mat dómsins að síðastnefnd aðferð feli einnig í sér beitingu söluverðsmælikvarða. Einungis er litið til notagildismælikvarða þegar sýnt þykir að eiginleg not réttinda, en í því sambandi má ætla að horfa megi til fyrirhugaðra eða jafnvel mögulegra nota, séu eiganda þeirra meira virði en sem nemur söluverði réttindanna samkvæmt söluverðsmælikvarða.

                Að mati dómsins verður að telja að þegar horft er til þess hvers eðlis þau réttindi eru sem hér eru til umfjöllunar sé unnt að fullyrða að söluverðsmælikvarða yrði beitt um verðmat þeirra hvort sem þau yrðu seld stefnda eða öðrum aðila sem hygðist nýta þau, eða jafnvel að stefnendur hygðust nýta þau sjálfir. Í öllum þeim tilvikum yrði niðurstaða um verðmæti réttindanna hin sama, enda um það að ræða að þau yrðu nýtt sem fullkomin eign þess sem nýtti. Aðalkrafa stefnenda byggir hins vegar á því að þeim beri endurgjald sem nemi nánar tilgreindu hlutfalli af brúttósölutekjum af seldri kílówattstund í virkjun stefnda. Er hér að framan gerð nánari grein fyrir hvernig stefnendur reikna umræddar greiðslur til eingreiðslu. Byggja stefnendur þessa kröfu á því að fyrir hendi sé markaðsverð á nýtingu slíkra réttinda og vísa um það til nokkurra samninga þar sem eigendum vatnsréttinda hafi verið ákveðið slíkt hlutfall af brúttósölutekjum rafmagns. Enginn þeirra samninga sem stefnendur vísa til kveður á um að umræddar hlutfallsgreiðslur séu uppreiknaðar til eingreiðslu sem innt yrði af hendi miðað við það tímamark þegar réttindi voru eða yrðu látin af hendi. Þvert á móti er gert ráð fyrir að greiðslur falli til smám saman á tiltölulegar löngum samningstíma. Í máli þessu liggur fyrir að stefnendur og stefndi sömdu um að verðmat skyldi miðast við fullnaðargreiðslu í eitt skipti fyrir öll. Er það mat dómsins að með samningi sínum hafi stefnendur ráðstafað sakarefninu m.a. um þetta atriði, sem og stefndi. Greiðslu beri að inna af hendi í einu lagi og ber stefndi alla áhættu eða hagnað af verðbreytingum á umræddum réttindum eftir afhendingu. Stefnendur bera á móti enga áhættu eða njóta verðhækkana eftir það tímamark. Liggur fyrir og kom fram í máli matsmannanna, Björns Þorra Viktorssonar, Dans Valgarðs S. Wiium, sem og Birgis Þórs Runólfssonar og Ragnars Árnasonar í skýrslum þeirra fyrir dómi að það væri hugsanlega betri aðferð við ákvörðun endurgjalds fyrir vatnsréttindi að ákveða endurgjald sem hlutfall af söluverði orku, en með slíkri aðferð væri áhættu dreift með ákveðnum hætti til lengri tíma milli virkjunaraðila og vatnsréttarhafa.

                Það er mat dómsins að þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið, og þá ekki síst þess sem hér síðast var sagt, að ekki sé unnt að fallast á með stefnendum að verðmæti vatnsréttinda þeirra verði ákvarðað með þeirri aðferð að uppreikna hlutfall af brúttósöluverði til eingreiðslu eins og aðalkrafa þeirra byggist á. Eru enda engin dæmi sem vísað hefur verið til sem sýna að slíkri aðferð hafi verið beitt í eignarnámsmálum hér á landi eða annarsstaðar.

                Þá má einnig í þessu samhengi vísa til rökstuðnings matsnefndarinnar um stöðu Kárahnjúkavirkjunar á íslenskum raforkumarkaði og er því hafnað að svo stórri virkjun sem Kárahnjúkavirkjun verði jafnað til þeirra virkjana sem stefnendur vísa til. Má hafa í huga í þessu sambandi að fyrrum eigendur vatnsréttinda í Blöndu sættu sig við verð sem ákveðið var af samningsbundinni matsnefnd sem nokkuð hefur verið fjallað um í máli þessu. Þá eru eigendur um það bil 65% af þeim vatnsréttindum sem nýtt voru með Kárahnjúkavirkjun ekki meðal stefnenda í máli þessu og hefur mikill meirihluti þeirra þegar fallist á niðurstöðu matsnefndarinnar um endurgjald fyrir þau réttindi sem þeir létu af hendi. Er að mati dómsins óraunhæft að horfa algerlega framhjá þessum viðskiptum en líta eingöngu til þeirra dæma sem stefnendur hafa lagt fram og varða vatnsréttindi sem eru að miklum mun umfangsminni. Verður því lagt til grundvallar hér að þau vatnsréttindi sem látin voru af hendi til notkunar í Kárahnjúkavirkjun hafi ekki haft þekkt markaðsvirði.

                Fallast verður á með matsnefndinni að íslenskur raforkumarkaður sé tvískiptur. Annars vegar sé um að ræða almennan rafmagnsmarkað og hins vegar sölu á raforku til stóriðju. Skiptir hér ekki máli að mati dómsins að ekki er gerð slík aðgreining í lögum, heldur ræðst slíkt af raunverulegum markaðsaðstæðum. Hefur að mati dómsins ekki verið gert líklegt að eftirspurn eftir umræddum réttindum hafi verið fyrir hendi til að framleiða raforku sem seld yrði hærra verði en því sem stóriðja greiðir almennt. Að mati dómsins hefur stefnendum heldur ekki tekist að færa sönnur á að öðrum kaupanda hafi verið til að dreifa sem tilbúinn hefði verið að greiða slíkt gjald fyrir umrædd réttindi, eða að gera líklegt að svo gæti orðið í nálægri framtíð. Það er því mat dómsins að ákvörðun söluverðs hinna umdeildu réttinda skuli vera í samræmi við eignarnámsreglur og ákveðast í eitt skipti fyrir öll á grundvelli þess verðs sem ætla megi að fengist fyrir réttindin að gættu réttu viðmiði um tímamark og aðrar aðstæður. Að mati dómsins leiða þær röksemdir sem stefnendur byggja aðalkröfur sínar á ekki til slíkrar niðurstöðu.  

                Varakröfur stefnenda byggjast á séráliti Egils B. Hreinssonar matsnefndarmanns. Í áliti sínu taldi hann að endurgjald sem greiða ætti vatnsréttarhöfum ætti að lágmarki að nema 10 milljörðum króna en gæti numið allt að 65 milljörðum króna. Liggja kröfur stefnenda sem á þessu áliti eru byggðar á þessu bili og miðast þrautvarakrafan við lægsta mat Egils. Við skýrslugjöf fyrir dómi kom fram með afdráttarlausum hætti að Egill taldi niðurstöðu álits síns vera 10 milljarða króna og væri það að hans mati lágmarksbætur, en efri mörkin gætu að hans mati verið mikið hærri og því hefði hann nefnt einnig hærri tölur. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki efni til að taka til greina varakröfur stefnenda. Þá þykir rétt að taka fram hér að dómurinn fellst ekki á þá málsástæðu stefnenda að sú skýringarregla gildi fortakslaust að þegar vafi leiki á um fjárhæð bóta eigi að leggja til grundvallar hæstu fjárhæð sem teflt er fram. Hefur þessi ályktun enga stoð í eignarnámsreglum. Þar er mælt fyrir um þrjá mismunandi mælikvarða og að jafnan skuli leggja þann þeirra til grundvallar sem hæstar gefur bæturnar. Af þessu verður ekki dregin sú víðtæka ályktun að allan vafa skuli ávallt túlka eingarnámsþola í hag. Eru því að mati dómsins engin rök til að byggja á hæstu niðurstöðu Egils B. Hreinssonar á grundvelli framangreindra sjónarmiða. Niðurstaða Egils byggir að meginstefnu á þeirri hugsun að vatnsréttarhafi eigi að fá í sinn hlut svokallaða auðlindarentu, en það sé sá hagnaður sem eftir standi þegar virkjunaraðili hefur fengið nánar tilgreinda ávöxtun á fjárfestingu sína. Aðspurður fyrir dómi hvort hann gæti vísað á sérstakar fyrirmyndir eða hliðastæður við verðmat á erlendum vettvangi kvaðst Egill ekki geta það beinlínis en hugtakið auðlindarenta væri notað beint við svipuð mál í Noregi og þá sem grunnur að verðmæti til skattlagningar. Ekki verður fallist á með stefnendum að með þessari aðferð geti fengist niðurstaða sem er í samræmi við gildandi eignarnámsrétt. Er í séráliti Egils gengið of langt að mati dómsins í að áætla verðmætisaukningu umræddra réttinda til framtíðar og á grundvelli forsendna um ætlað framtíðarsöluverð sem allsendis óvíst er að gangi eftir. Þá er horft framhjá því að réttur viðmiðunartími verðmæta réttindanna er að réttum lögum nálægt áramótum 2005/2006. Er ekki unnt að fallast á að alþekkt sjónarmið um að við eignarnámsmat skuli taka tillit til réttar eiganda til að bíða með að ráðstafa eign sinni, geti leitt til þess að verðmæti réttinda sé marfaldað á grundvelli óljósra spádóma um framtíðarþróun. Má einnig segja um þessa niðurstöðu að með engu móti hafi verið gert líklegt að annar aðili fengist til að greiða framangreinda fjárhæð fyrir umrædd verðmæti hvorki nú né síðar, en það verður að telja grundvöll reglna um eignarnám að ákveða hvert skuli vera rétt verð umræddra réttinda í viðskiptum manna í milli.

                Kröfur stefnenda eru rökstuddar í stefnum á grundvelli framangreindra sjónarmiða en ekki er í stefnum vísað til röksemda sem styðja aðferðafræði þá sem fram kemur í þeim tveimur matsgerðum dómkvaddra manna sem aflað var undir rekstri málsins hér fyrir dómi. Stendur sú málsástæða ein eftir að stefnendur byggi á því að dómurinn geti innan kröfugerða aðila ákveðið bætur að álitum. Stefnendur breyttu ekki kröfugerð sinni í kjölfar niðurstöðu þess mats sem framkvæmt var að þeirra beiðni og þá ekki á grundvelli þess mats sem stefndi aflaði. Stefndi byggir ekki málatilbúnað á þeirri matsgerð sem hann aflaði en kvaðst telja sér skylt að leggja hana fram í málinu engu að síður. Matsgerð Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar byggir í stuttu máli á aðferð við að reikna út á hvaða bili svokallað „rétt verð“ liggi og nota að því búnu aðferðir svokallaðrar leikjafræði til að skera úr um hver hefði verið líkleg samningsniðurstaða ef aðilar hefðu samið til þrautar. Að mati dómsins stenst umrædd aðferð ekki réttar reglur um mat eignarnámsbóta. Við skýrslutöku fyrir dómi gátu matsmenn ekki gefið dæmi um beitingu sambærilegra aðferða við hliðstætt mat hér á landi eða erlendis. Er það og mat dómsins að forsendur „leiksins“ sé um of einfaldaðar til að líklegt sé að aðferðin gefi rétta niðurstöðu. Skiptir þar mestu að ekki er unnt að fallast á að samningsaðilar séu taldir standa jafnfætis með þeim hætti sem matsmennirnir gera. Þarf að horfa til þess að framlag annars aðilans felur í sér vatnið rennandi í farvegi sínum, en hinn aðilinn leggur fram fjármagn, hugvit og vinnu, auk þess að taka þá fjárhagslegu áhættu sem í verkefninu felst. Verður ekki talið að eins og málatilbúnaði stefnenda í málinu er háttað geti niðurstaða mats Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar hnekkt niðurstöðu matsnefndarinnar.

                Í málinu er ekki byggt á niðurstöðu Dans Valgarðs S. Wiium og Björns Þorra Viktorssonar og verður niðurstaða því ekki á henni byggð, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Rétt er þó að geta þess að dómurinn telur að matsgerðin sé haldin þeim ágalla að í niðurstöðu hennar séu lagðar til grundvallar forsendur sem komu til eftir áhættuskipti, en það er mat dómsins að eftir það tímamark verði ekki horft til annarra breytinga á aðstæðum en þeim sem felast í því að verðmæti réttinda ákvarðast á grundvelli verðlags á matsdegi. Verður nánar vikið að þessu síðar.

                Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn hafnað forsendum fyrir þeim fjárkröfum sem stefnendur hafa uppi í málinu. Einnig hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að matsgerðir dómkvaddra matsmanna hnekki ekki mati hinnar samningsbundnu matsnefndar. Stendur þá eftir að fjalla um málsástæður aðila að því er varðar ágalla á niðurstöðu matsnefndarinnar. Tefla stefnendur fram nokkrum málsástæðum um ágalla á mati matsnefndarinnar. Verður talið að skilja verði málatilbúnað stefnenda svo að tilvísun til framangreindra ágalla geti að þeirra mati stutt málsástæðu þeirra um að dóminum sé kleift innan kröfugerða þeirra að hækka bætur að álitum.  Þá liggur einnig fyrir að taka afstöðu til málsástæðna stefnda til stuðnings þeirri kröfu hans að niðurstaða matsnefndarinnar sæti nánar tilgreindri lækkun.

                Verður fyrst hugað að málsástæðum stefnenda og athugasemdum við niðurstöðu matsnefndarinnar.

                Í fyrsta lagi byggja stefnendur á því að matsnefnd hafi hvorki byggt mat sitt á sjónarmiðum um markaðsverð né um notagildi réttindanna eða öðrum viðurkenndum reglum um fjárhæð eignarnámsbóta. Telja stefnendur að mat á verðmæti vatnsréttinda sem hlutfall af stofnkostnaði virkjunar feli ekki í sér mat eftir notagildismælikvarða. Dómurinn fellst ekki á þá einföldun á niðurstöðu matsnefndar sem felst í framangreindri málsástæðu stefnenda. Í úrskurði matsnefndar er byggt á sjónarmiði um að verðmæti vatnsréttindanna skuli nema sanngjörnu og eðlilegu hlutfalli af stofnkostnaði virkjunar. Með þessu er gætt ákvæða 23. gr. raforkulaga sem fyrr er rakin og kveður á um m.a. að taka skuli tillit til kostnaðar af hagnýtingu auðlindar við ákvörðun á verðmæti hennar. Sjónarmið þetta á að mati dómsins trausta stoð í þeirri efnislegu staðreynd að verð ákvarðast ekki einungis af framboði heldur einnig eftirspurn. Það leiðir af sjálfu sér að ef verðleggja á vatnsréttindi m.t.t. virkjunar þá er sá tími sem miða skal við sá tími þegar ákvörðun er tekin um virkjun og áætlanir gerðar um arðsemi hennar. Leiðir framangreind regla sem á sér rætur í fyrri matsmálum vegna eignarnuminna réttinda til þess að horft er til verðmætis vatnsréttinda á því eina tímamarki sem getur ráðið úrslitum þegar horft er til þeirrar staðreyndar að umráðataka réttindanna á sér jafnan stað í upphafi framkvæmdar þegar óvissa ríkir um hvernig til tekst. Sú óvissa er á ábyrgð og áhættu virkjunaraðilans en ekki vatnsréttarhafans. Þá verður að mati dómsins einnig að horfa til þess að matsnefndin leit einnig til arðsemismats sem fyrir lá við upphaf framkvæmda og reiknaði sig að þeirri niðurstöðu að það hlutfall stofnkostnaðar sem hún mat sanngjarnt og eðlilegt, 1,4%, samsvaraði því að 17% af ætluðum rekstrarafgangi virkjunarinnar á líftíma hennar kæmi í hlut vatnsréttarhafa. Þykir því einsýnt að matsnefnd ákvað það hlutfall sem hún taldi eðlilegt og sanngjarnt að stefndi greiddi til vatnsréttarhafa af stofnkostnaði virkjunarinnar með hliðsjón af áætlaðri arðsemi virkjunarinnar. Þá kom einnig fram hjá matsnefnd að hún taldi ekki rétt að horfa til nýs arðsemismats frá árinu 2006 sem sýndi verulega lægri arðsemi virkjunarinnar. Vísaði nefndin til þess að rétt væri að stefndi bæri hallann af þessu þar sem hann hefði tekið umráð réttindanna og áhættuskipti orðið. Tekur dómurinn undir þessar röksemdir og telur á sama hátt ekki unnt að leggja til grundvallar forsendur sem byggja á verðmati sem hefur annað tímamark. Hefur stefnendum ekki tekist að sýna fram á að áætlanir stefnda hafi verið óþarflega varlegar á þeim tímapunkti. Er því hafnað málsástæðum stefnenda um ágalla á úrskurði matsnefndar sem byggðar eru á framangreindum forsendum. Þá er því hafnað að matsnefnd hafi lagt sönnunarbyrði á stefnendur um atriði sem nefndinni hafi borið að rannsaka sjálfstætt. Er það álit dómsins að matsnefnd hafi ákveðið rétt tímamark til viðmiðunar ákvörðunar bóta. Þykir rétt að vísa til þess að matsnefndin taldi að ekki hefðu orðið verðbreytingar, umfram almennar verðlagshækkanir, á umræddum vatnsréttindum frá árinu 2002 til loka árs 2005 þegar viðmiðunartímapunktur eignarnámsbóta er. Er horft til þessa við matið.

                Þá verður að hafna í einu lagi málsástæðum stefnenda um að matsnefnd hafi ekki byggt niðurstöðu sína á réttum eignarnámsreglum, en það er mat dómsins að í engu atriði verði séð að matsnefnd hafi vikið frá þeim sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar á undanförnum árum og áratugum við verðmat eignarnuminna verðmæta. Er það mat dómsins að niðurstaða matsnefndar sé ítarlega rökstudd og í samræmi við eignarnámsreglur og byggð á þeim réttarheimildum sem á réttarsviðinu gilda og verður ekki séð að þær hafi verið ranglega túlkaðar í meðförum nefndarinnar. Á hinn bóginn má hins vegar telja að málatilbúnaður stefnenda hafi að nokkru leyti yfir sér nýstárlegt yfirbragð og röksemdum þeirra og framsetningu málsástæðna verði ekki ótvírætt, að gildandi lögum, að öllu leyti fundinn staður á því réttarsviði sem aðilar eru sammála um að gildi um lögskipti þeirra.

Verður því hafnað málsástæðum stefnenda sem byggja á að matsnefnd hafi ekki gætt réttra eignarnámsreglna eða að ágallar hafi verið á störfum nefndarinnar, forsendum eða niðurstöðu að öðru leyti. Þá er það mat dómsins að röksemdir matsnefndar fyrir því að leggja skuli til grundvallar að endurgjald fyrir vatnsréttindi skuli verið 1,4% af stofnkostnaði virkjunarinnar séu sannfærandi og feli í sér sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir umrædd vatnsréttindi. Er það mat dómsins að með þeirri greiðslu sem matsnefnd ákvað til hvers og eins vatnsréttarhafa séu að fullu bætt þau réttindi sem stefnendur þessa máls létu af hendi til stefnda með samningi í árslok 2005.

                Af framangreindu má ljóst vera að dómurinn telur ekki efni til að verða við kröfu stefnda um að niðurstaða úrskurðar matsnefndarinnar sæti lækkun, enda er niðurstaðan að mati dómsins í eðlilegu samræmi við að kostnaður á orkueiningu Kárahnjúkavirkjunar er mun lægri en kostnaður á orkueiningu Blönduvirkjunar, en niðurstaða matsnefndar um þá virkjun hefur að nokkru verið lagður til grundvallar um aðferðafræði og til hans vísað af hálfu stefnda til stuðnings málsástæðum hans um lækkun þeirra fjárhæða sem ákveðnar voru með úrskurði matsnefndarinnar. Þá eru ekki efni til að breyta niðurstöðu matsnefndar um 4,254% álag á grunnbætur til vatnsréttarhafa við Jökulsá á Dal vegna aukins rennslis í Lagarfljóti, frá skurðsenda við Jökulsá í Fljótsdal til sjávar. Má enda sjá að stefndi greiddi stefnendum inn á kröfur þeirra í samræmi við það hlutfall sem matsnefnd lagði til grundvallar í úrskurði sínum en fyrrnefnt álag er reiknað inn í það hlutfall.

                Með vísan til alls þess sem framan er rakið er það niðurstaða dómsins að staðfesta beri niðurstöðu hinnar samningsbundu matsnefndar um greiðslur til stefnenda.  

                Mat hinnar samningsbundnu matsnefndar á verðmæti umdeildra vatnsréttinda er hér staðfest en í málinu kröfðust stefnendur hækkunar matsins en stefndi lækkunar. Með hliðsjón af þessu verða ekki talin rök til að mæla fyrir um vexti með öðrum hætti en mælt er fyrir um í grein 7.3. í samningi aðila, eins og nánar greinir í dómsorði.

                Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir og rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þess.

                Dómurinn er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni héraðsdómara, Ólafi Ísleifssyni, hagfræðingi og lektor og Óskari Sigurðssyni, hæstaréttarlögmanni og löggiltum fasteignasala.

Dómsorð:

Stefndi, Landsvirkjun, greiði hér síðar tilgreindum stefnendum fjárhæðir sem hér síðar eru taldar, með almennum vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2007 til og með 21. október 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá og með 22. október 2007 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum skal draga frá dæmdri fjárhæð í samræmi við stöðu hverrar kröfu 22. febrúar 2008 hér síðar tilgreinda innborgun sem innt var af hendi þann dag.

Stefndi greiði Sigvarði Halldórssyni og Stefáni Halldórssyni, 59.144.098 krónur að frádregnum 31.110.689 krónum.

Stefndi greiði Braga S. Björgvinssyni, Sigurði Björgvinssyni, Jakobi Bjarnari Grétarssyni, Stefáni Snæ Grétarssyni, Elínu Bergljótu Björgvinsdóttur, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, Jakobi Karlssyni, Grétari Karlssyni, Jóni Snædal, Kristjáni Snædal og Gunnlaugi Snædal, 43.710.100 krónur að frádregnum 22.992.173 krónum.

Stefndi greiði Önnu Björgu Einarsdóttur og Ragnheiði Ragnarsdóttur, 5.203.350 krónur að frádregnum 2.737.040 krónum.

Stefndi greiði Mikael Jónssyni og NBI hf., 2.181.104 krónur að frádregnum 1.147.294 krónum.

Stefndi greiði Jakobi Karlssyni, Grétari Urðari Karlssyni og Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, 15.179.699 krónur að frádregnum 7.984.751 krónu.

Stefndi greiði Þórarni Hrafnkelssyni, Benedikt Hrafnkelssyni og Lárusi Brynjari Dvalinssyni, 6.944.321 krónu að frádregnum 3.652.818 krónum.

Stefndi greiði Sigvalda H. Ragnarssyni og Grétu Dröfn Þórðardóttur, 16.998.916 krónur að frádregnum 8.941.687 krónum.

Stefndi greiði Jónasi Guðmundssyni, Rúnari Guðmundssyni og Helgu Hallgrímsdóttur, 8.587.484 krónur að frádregnum 4.517.146 krónum.

Stefndi greiði Svandísi Sigurjónsdóttur og Guðgeiri Þ. Ragnarssyni Hjarðar, 2.934.220 krónur að frádregnum 1.543.444 krónum.

Stefndi greiði Elísi Hrafnkelssyni og Gerði Bjarnadóttur, 11.511.924 krónur að frádregnum 6.055.446 krónum.

Stefndi greiði Stefáni Sigurðssyni, 5.076.201 krónur að frádregnum 2.670.158 krónum.

Stefndi greiði Benedikt Ólasyni, 54.058.117 krónur að frádregnum 28.435.386 krónum.

Stefndi greiði Eiríki Magnússyni, 4.293.743 krónur að frádregnum 2.258.574 krónum.

Stefndi greiði Svandísi Skúladóttur, 9.477.531 krónu að frádregnum 4.985.325 krónum.

Stefndi greiði Lífsvali ehf., 5.565.238 krónur að frádregnum 2.927.399 krónum.

Stefndi greiði Friðriki Kjartanssyni, Sigurbirni Jóhannssyni, Símoni Árnasyni og Emil Jóhanni Árnasyni,  4.078.566 krónur að frádregnum 2.145.387 krónum.

Stefndi greiði Guðgeiri Þ. Ragnarssyni, 3.090.712 krónur að frádregnum 1.625.761 krónu.

Stefndi greiði Mælivöllum ehf., 15.610.051 krónu að frádregnum 8.211.123 krónum.

Stefndi greiði Jóni Helgasyni, Gyðu Árnýju Helgadóttur, Önnu Guðnýju Helgadóttur og Bjarna Helgasyni, 10.475.166 krónur að frádregnum 5.510.096 krónum.

Stefndi greiði Eiríki S. Skjaldarsyni, Vilhjálmi Snædal og Þorsteini Snædal, 19.757.083 krónur að frádregnum 10.392.524 krónum.

Stefndi greiði Ragnari Sigvaldasyni, 11.864.030 krónur að frádregnum 6.240.660 krónum.

Stefndi greiði Sigrúnu Júlíusdóttur, 10.876.176 krónur að frádregnum 5.721.033 krónum.

Stefndi greiði Emil Jóhanni Árnasyni, 33.606.602 krónur að frádreginni 17.677.581 krónu.

Stefndi greiði Eiríki S. Skjaldarsyni, 9.545.996 krónur að frádregnum 5.021.338 krónum.

Stefndi greiði Snæbirni Val Ólasyni, 14.162.503 krónur að frádreginni 7.449.691 krónum.

Stefndi greiði Hjarðarhaga ehf., 22.554.372 krónur að frádregnum 11.863.940 krónum.

Stefndi greiði Halldóru Hildi Eyþórsdóttur, 7.130.155 krónur að frádregnum 3.750.569 krónum.

Stefndi greiði Bláfeldi ehf., 10.572.974 krónur að frádregnum 5.561.545 krónum.

Stefndi greiði Katrínu Ásgeirsdóttur, 1.956.147 krónur að frádregnum 1.028.963 krónum.

Stefndi greiði Hvannármönnum ehf., 13.468.071 króna að frádregnum 7.084.409 krónum.

Stefndi greiði Arnóri Benediktssyni, 5.134.885 krónur að frádregnum 2.701.027 krónum.

Stefndi greiði Sigvalda H. Ragnarssyni, 17.497.733 krónur að frádregnum 9.204.072 krónum.

Stefndi greiði Helga Árnasyni, 6.582.434 krónur að frádregnum 3.462.460 krónum.

Stefndi greiði Birgi Þór Ásgeirssyni, 18.632.298 krónur að frádregnum 9.800.870 krónum.

Stefndi greiði Valgeiri Magnússyni, 1.427.987 krónur að frádregnum 751.143 krónum.

Stefndi greiði Kjartani Sigurðssyni, 6.073.836 krónur að frádregnum 3.194.930 krónum.

Stefndi greiði Gullvör ehf., 37.910.125 krónur að frádregnum 19.941.299 krónum.

Stefndi greiði Þorsteini Péturssyni, 3.249.979 krónur að frádregnum 1.709.538 krónum.

Stefndi greiði Gunnþórunni Ingólfsdóttur og Jósef Valgarð Þorvaldssyni, 773.928 krónur að frádregnum 407.098 krónum.

Hver aðili skal bera sinn kostnað af málinu.