Hæstiréttur íslands

Mál nr. 100/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 4

 

Mánudaginn 4. mars 2002.

Nr. 100/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Krafist var framlengingar gæsluvarðhaldsvistar X á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en X var grunaður um aðild að broti sem varðaði innflutning á umtalsverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Ekki var fallist á að hlutur X í brotinu væri slíkur, að gæsluvarðhaldsvist hans yrði framlengd á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til mánudagsins 8. apríl næstkomandi kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili er grunaður um aðild að broti sem varðar innflutning á umtalsverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Hefur varnaraðili skýrt svo frá að barnsmóðir sín, D, hafi í desember á síðastliðnu ári sent honum pakka, sem hafi meðal annars haft að geyma þrjár dósir af niðursuðumat. D hafi síðan beðið hann um að sækja fyrir sig pakka, sem hún hafi sent E annars vegar og F hins vegar. Kveðst hann hafa orðið við beiðninni og fengið afhentar þrjár dósir hjá E og tvær dósir hjá F. Varnaraðili kveður sig hafa grunað að ekki væri allt með felldu með dósirnar og hann því fengið E til að geyma tösku með dósunum í um tíma. Kvaðst varnaraðili síðar hafa sótt dósirnar að beiðni D til E. Nokkru síðar hafi hann farið með töskuna í bifreið á tiltekinn stað, en þar hafi hann átt að hitta mann, sem hann ekki þekkti. Kveðst varnaraðili hafa skilið töskuna eftir í farangursgeymslu bifreiðarinnar og ekki vita hvort maðurinn tók þær. Að öðru leyti hefur varnaraðili neitað aðild sinni að brotinu.

Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er reist á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fallist verður á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að hlutur varnaraðila í málinu sé slíkur að áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum megi telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til mánudagsins 8. apríl 2002 klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að [...].

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni og neitar að hafa haft vitneskju um innihald fyrrnefndra niðursuðudósa.

Kærði er undir grun um að eiga veigamikinn þátt í stórfelldu fíkniefnamisferli. Um er að ræða sendingar til þriggja aðila með mjög miklu magni af hættulegum fíkniefnum í óvenju miklum styrkleika. Hafa aðrir sakborningar borið um þátt hans í því og kærði hefur játað að hafa tekið við niðursuðudósunum, haft þær í vörslum sínum og komið þeim áfram til annarra. Þegar litið er til rannsóknargagna þykir fullnægt því skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að um sterkan grun sé að ræða. Gæti brot kærða varðað hann allt að 12 ára fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómarinn álítur það brot sem kærði er sterklega grunaður um aðild að alvarlegt og að hann eigi yfir höfði sér svo þunga refsingu að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þykir því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins þar til dómur gengur í því.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði X sæti áfram gæsluvarðhaldi þó eigi lengur en til mánudagsins 8. apríl 2002 klukkan 16:00.