Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Vistun á stofnun
|
|
Mánudaginn 15. apríl 2013 |
|
Nr. 250/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Vistun á stofnun.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta áfram vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun á grundvelli 2. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun allt til þriðjudagsins 7. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa kveikt í húsnæði að [...] í [...] aðfaranótt [...]. [...] 2013. Hefur verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila þar sem hann er meðal annars ákærður fyrir þessa háttsemi og er brot hans talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar sérfróðs manns hefði íkveikjan getað valdið skemmdum á húseigninni og lausamunum, sem þar voru, en á hinn bóginn hafi íbúum í húsinu ekki verið bersýnilegur lífsháski búinn. Ekki hafi stafað almannahætta af íkveikjunni utan hússins, hvorki fyrir menn né eignir. Þá kvaðst varnaraðili við skýrslutöku hjá lögreglu ekki hafa ætlað með framferði sínu að valda öðrum íbúum líkamstjóni. Samkvæmt þessu verður ekki ráðið af gögnum málsins að fyrir liggi sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.
Í álitsgerð geðlæknis sem falið var að leggja mat á sakhæfi varnaraðila kom fram að varnaraðili væri ekki hættulegur, hvorki sjálfum sér né öðrum, og iðraðist hann gerða sinna. Vegna þunglyndis þarfnist hann þó áfram meðferðar og vistunar á sjúkrahúsi.
Brot gegn 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga getur varðað 10 ára fangelsi, sbr. 34. gr. þeirra laga. Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, verður hins vegar ekki talið að brot varnaraðila sé þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna, svo sem áskilið er í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þar með eru ekki skilyrði til að mæla fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2013.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...]-[...], til heimilis að [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, allt til þriðjudagsins 7. maí 2013, kl. 16:00.
Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að rannsóknargögn hafi borist ríkissaksóknara 7. febrúar sl., og hafi mál verið höfðað með útgáfu ákæru þann 21. febrúar sl.
Í ákæru sé ákærða gefin að sök eftirtalin brot framin aðfaranótt þriðjudagsins [...]. [...] 2013 í [...], nema annað sé tekið fram:
1. Brennu með því að hafa, á efri hæð húsnæðisins að [...], þar sem gistiheimilið [...] er starfrækt, hellt bensíni úr plastbrúsa á gólf stigagangs í suðurenda og norðurenda húsnæðisins, og einnig á stigapallinn og þrjú efstu þrep stigans, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og eignatjón á efri hæð húsnæðisins auk hættu á yfirgripsmikilli eyðingu eigna annarra hefði eldurinn náð að breiðast frekar út.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2013-[...]
2. Vopnalagabrot með því að hafa, á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, Reykjavík, haft í vörslum sínum og átt úðavopn sem fannst í úlpuvasa ákærða og lögreglan lagði hald á.
Telst þetta varða við 4. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
M. 007-2013-[...]
3. Vopnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 15. janúar 2013, á heimili sínu að [...], íbúð [...], haft í vörslum sínum og átt rafmagnsvopn af gerðinni RAPTOR, en lögreglan lagði hald á vopnið við leit á heimili ákærða.
Telst þetta varða við c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga.
M. 007-2013-[...]
Málið sem hafi fengið númerið S[...]-/2013, hafi verið þingfest þann [...]. mars sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur. Við þingfestingu málsins hafi ákærði tekið afstöðu til ákærunnar. Kvaðst ákærði kannast við að hafa kveikt í húsnæðinu að [...], en neitaði að hafa séð fram á það að eldsvoðinn mundi valda hættu á yfirgripsmikilli eyðingu eigna annarra hefði eldurinn náð að breiðast frekar út. Þá hafi ákærði játað sök samkvæmt 2. og 3. tölulið ákærunnar. Í sama þinghaldi hafi verið ákveðið að aðalmeðferð málsins yrði þann 18. apríl nk. kl. 9:15 í dómsal 401.
Sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti brotið því varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi. Að mati ríkissaksóknara sé um að ræða alvarlegt brot sem hafi ollið eldsvoða og verði að telja mildi að ekki fór verr. Ákærða hafi mátt vera það ljóst að brotið væri þess eðlis að það hafi í för með sér almannahættu auk hættu á yfirgripsmikilli eyðingu eigna annarra.
Þá liggi fyrir í gögnum málsins mat A, byggingaverkfræðings, en hann hafi verið dómkvaddur sem matsmaður til að meta almannahættuna af íkveikju ákærða að [...]. Niðurstaða matsins sé sú að að telja megi öruggt að um hafi verið að ræða eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga. Íkveikjan á bensíninu á göngum og stigahúsi á 2. hæð hefði þróast á þann veg að eldurinn myndi breiðast út í millihurðina og í lausamuni á ganginum sem myndu eyðileggjast. Því hafi verið til staðar almannahætta vegna eigna af íkveikjunni. Íbúarnir í íbúðum á 2. hæð hafi verið í hættu að fá reykeitrun hefðu þeir opnað fram á ganginn, þá sérstaklega sá íbúi sem hafi farið fram á ganginn að slökkva eldinn. Íbúunum hafi þó ekki verið bersýnilegur lífsháski búinn og því ekki til staðar almannahætta gagnvart þeim. Þá hafi verið hætta á að fjárhagsmunir færu forgörðum eða spilltust í sameign hússins og á 1. hæð en ekki hafi verið til staðar hætta fyrir líf manna og limi þar.
Þá sé einnig að finna í gögnum málsins geðrannsókn B, geðlæknis á ákærða, dags. 11. febrúar s.l. Niðurstöður geðrannsóknarinnar séu í grófum dráttum þær að ákærði hafi verið á mörkum ósakhæfis á verknaðarstundu. Þó hafi hann verið afhamlaður af völdum áfengis á verknaðarstund og áfengisáhrifin og lífstíll hans áður í [...] virðast hafa verið sterkur sálfræðilegur þáttur í aðsóknarhugsun og hegðun hans á verknaðarstund en þau einkenni hafi þó horfið við lengri skoðun, án inngripa. Ekkert bendi til þess að ákærði hafi þróað sjálfstæðan eiginlegan geðrofssjúkdóm enn sem komið er. Skoðun og mati á hugsanlegum veikleika hans ljúki þó ekki með fullu öryggi fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum.
Þá telji ríkissaksóknari það vera ljóst að brot það sem ákærða sé gefið að sök, samkvæmt 1. tölulið ákærunnar, sé þess eðlis að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna en ákærði hafi játað að hafa kveikt í húsnæðinu að [...]. Óforsvaranlegt þykir að ákærði gangi laus þegar hann hafi játað að hafa framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Telji ríkissaksóknari brotið í eðli sínu svo svívirðilegt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Með vísan til framangreinds sé það mat ríkissaksóknara að uppfyllt séu skilyrði til að ákærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé það mat ríkissaksóknara að heilsufari ákærða sé þannig háttað að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði ákærða gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, sbr. framangreinda geðrannsókn B, geðlæknis.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, 2. mgr. 95 gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Ákærði hafi sætt vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun frá 16. janúar 2013 fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2013 og síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-[...]/2013, allt til dagsins í dag kl. 16:00.
Ákæra var gefin út 21. febrúar sl. Við þingfestingu málsins hinn [...]. mars sl. játaði ákærði að hafa kveikt í efri hæð húsnæðisins að [...] sem og játaði hann sök varðandi 2. og 3. tölulið ákærunnar. Aðalmeðferð í málinu fer fram 18. apríl nk. Með vísan til greinargerðar ríkissaksóknara og rannsóknargagna málsins er fallist á það með ríkissaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95 gr. nr. 88/2008 séu uppfyllt til að ákærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Ákærði hefur frá 16. febrúar sl. verið vistaður á sjúkrahúsi í stað gæsluvarðhalds. Engin rök hníga til þess að breyta því fyrirkomulagi nú. Því er fallist á kröfu ríkissaksóknara að skilyrði séu fyrir hendi til þess að ákærða verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt 100. gr. laga nr. 88/2008, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 7. maí 2013, kl. 16:00, svo sem krafist er.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, kt. [...] -[...], skal áfram sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, allt til þriðjudagsins 7. maí 2013, kl. 16:00.