Hæstiréttur íslands

Mál nr. 783/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                     

Föstudaginn 20. nóvember 2015.

Nr. 783/2015.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X og

(Reimar Pétursson hrl.)

Y

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Vitni

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu X um að nánar tilgreindu vitni yrði gert að svara ákveðinni spurningu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans X um að vitninu A yrði gert að svara þeirri spurningu varnaraðilans hvort vitnið B hefði farið fram á í öðrum málum en því sem hér um ræðir að njóta ívilnunar samkvæmt 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrrgreind spurning varðar ekki atvik þau er lágu að baki ákæru í máli þessu og vitnið A getur borið um, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2015.b

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 10. febrúar 2014 voru ákærðu gefin að sök umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar [...] til félaganna [...] og [...]., í nóvember 2007 og janúar 2008.

Í þinghaldi dag hafði ákærði X uppi kröfu um að vitnið A [...] myndi svara þeirri spurningu verjanda ákærða hvort vitnið B hefði farið fram á í fleiri málum en þessu að njóta ívilnunar skv. 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara.

Ákærði rökstyður kröfu sína á þann hátt að vitnið B hafi breytt framburði sínum við rannsókn málsins hjá lögreglu eftir að B hafi verið veitt ívilnun skv. 5. gr. Ef slík ívilnun nái til fleiri mála í rannsókn þá feli það í sér staðfestingu á því að vitnið hafi haft enn ríkari hagsmuni til að breyta framburði sínum í málinu. Upplýsingar um það geti haft þýðingu við sönnunarmat í málinu. Af þeim ástæðum verði að heimila verjanda að beina þessari spurningu til [...]. Ákærði vísar til þess að 110. gr. laga nr. 88/2008 geti ekki átt við í málinu. Þá sé vísað til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Ákærði Y tekur undir kröfu ákærða X. Vísar hann til þess að í 119. gr. laga nr. 88/2008 séu talin upp þau atvik sem geri það að verkum að vitnum sé óheimilt að svara spurningum. Ekkert þeirra atriða sem þar komi fram banni vitninu að svara spurningunni.

Ákæruvald hefur mótmælt því að spurningin verði lögð fyrir A. A sé [...]. Geti vitni ekki borið um atvik málsins af eigin raun. Þá lúti krafan að öðru sakamáli sem sé til rannsóknar og meðferð nefndrar 5. gr. í þeirri rannsókn. Í þessu máli hafi verið gerð krafa um aðgang að upplýsingum að baki ákvörðun um beitingu nefndrar greinar með aðgangi að samskiptum á milli ákæruvaldshafa og aðgang að innanhúsgögnum. Þeim kröfum hafi verið hafnað af dómstólum. Varði kröfur ákærða ekki atvik í þessu máli. Sækjandi vísar til 4. mgr. 117. gr. og c liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. [...] sé bundinn þagnarskyldu samkvæmt lögreglulögum. Engar heimildir séu til staðar sem heimili honum að greina frá þeim upplýsingum sem hér er gerð krafa um.

Niðurstaða:

Í málinu er gerð krafa um að A [...] svari þeirri spurningu verjanda ákærða X hvort vitnið B hafi farið þess á leit við lögreglu að vitnið fengi fráfall saksóknar skv. 5. gr. laga nr. 135/2008 í annarri rannsókn sem til meðferðar væri hjá ákæruvaldi og vitnið væri með réttarstöðu sakbornings í.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki ákærði eða fyrirsvarsmaður hans, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik. A [...] getur ekki borið vitni um atvik þessa máls. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki lagt fyrir vitnið að svara þeirri spurningu er verjandi ákærða X beindi til vitnisins. Verður kröfu ákærða því hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu ákærða X um að vitnið A [...] svari þeirri spurningu verjanda ákærða hvort vitnið B hafi farið fram á í öðrum málum en þessu að njóta ívilnunar skv. 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, er hafnað.