Hæstiréttur íslands

Mál nr. 650/2015


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 650/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Samia Mohammedi og

(Björn Jóhannesson hrl.)

Madina Afif

(Björgvin Jónsson hrl.)

Fíkniefnalagabrot.

S og M voru í héraði sakfelldar fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með því að hafa flutt inn samtals 505,46 grömm af kókaíni. Var refsing þeirra ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Við þingfestingu málsins höfðu S og M játað skýlaust þá háttsemi sem þeim var gefin að sök, en fyrir Hæstarétti var einungis deilt um refsiákvörðun héraðsdóms. Til refsimildunar leit Hæstiréttur til ungs aldurs S og M og þess að þær hefðu játað brot sín og ekki áður gerst sekar um refsiverða háttsemi sem áhrif gæti haft við ákvörðun refsingar í málinu. Þá var litið til þess að þeim væri einungis gefið að sök brot gegn lögum nr. 65/1974 en ekki brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn var það virt þeim til refsiþyngingar að þær hefðu flutt inn talsvert magn hættulegra fíkniefna og að styrkur þeirra hefði verið umtalsverður. Var refsing S og M hvors um sig ákveðin fangelsi í 15 mánuði en gæsluvarðhaldsvist sem þær höfðu sætt kom til frádráttar refsingunni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast þess að refsing þeirra verði milduð og gæsluvarðhald sem þær hafa sætt frá 25. maí 2015 komi til frádráttar refsingu.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldar fyrir innflutning á 505,46 g af kókaíni. Í fórum ákærðu Samia fundust samtals 350,48 g af kókaíni og við líkamsrannsókn á ákærðu Madina fundust þrjár pakkningar sem hún hafði falið innvortis og reyndust þær innihalda 154,98 g af kókaíni. Samkvæmt matsgerðum frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands var styrkur kókaínsins 68 og 69%. Við þingfestingu málsins játuðu ákærðu skýlaust þá háttsemi sem þeim var gefin að sök, en fyrir Hæstarétti er einungis deilt um refsiákvörðun héraðsdóms.

Tekið er undir með héraðsdómi að skýlaus játning ákærðu fyrir dóminum og aldur þeirra hafi áhrif til mildunar refsingarinnar. Er hér sérstaklega litið til þess að ákærða Samia var 19 ára þegar brotið var framið. Þá er ákærðu einungis gefið að sök brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni en ekki brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er til þess að líta að hvorug þeirra hefur áður gerst sek um refsiverða háttsemi sem áhrif getur haft við ákvörðun refsingar í máli þessu. Á hinn bóginn horfir það til þyngingar refsingunni að ákærðu fluttu inn talsvert magn hættulegra fíkniefna og var styrkur þeirra umtalsverður. Er hér litið til þess að magnið í fórum ákærðu Samia var sérstaklega mikið. Með hliðsjón af framansögðu er refsing ákærðu hæfilega ákveðin fimmtán mánaða fangelsi og kemur gæsluvarðhald sem þær hafa sætt frá 25. maí 2015 til frádráttar að fullri dagatölu. Ekki eru tilefni til þess að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og fram kemur í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Samia Mohammedi, sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hennar frá 25. maí 2015.

Ákærða, Madina Afif, sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hennar frá 25. maí 2015.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærðu greiði, hvor fyrir sig, málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Björns Jóhannessonar og Björgvins Jónssonar, 496.000 krónur til hvors um sig, en annan áfrýjunarkostnað, 42.920 krónur, skulu ákærðu greiða óskipt.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. september 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 3. september sl. og dómtekið sama dag, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 13. ágúst sl., á hendur Samiu Mohammedi, f. 16. janúar 1996, Rue des Phacéens 13002, Marseille, Frakklandi, og Madinu Afif, f. 31. júlí 1991, 28 Rue Saint Savaernin, 13001 Marseille, Frakklandi, 

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 24. maí 2015, í sameiningu flutt hingað til lands samtals 505,46 g af kókaíni, sem hafði að meðaltali 69% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ákærðu fluttu fíkniefnin til landsins sem farþegar með flugi [...] frá London, Bretlandi. Í fórum ákærðu Samiu fundust samtals 350,48 g af kókaíni. Annars vegar fannst pakkning, sem reyndist innihalda 199,52 g af kókaíni, límd á innanvert læri ákæru Samiu, við leit tollvarða sunnudaginn 24. maí 2015. Hins vegar fannst pakkning sem reyndist innihalda 150,96 g af kókaíni falin undir rúmdýnu í fangaklefa ákærðu Samiu, við leit fangavarða á Litla-Hrauni, þriðjudaginn 26. maí 2015. Við líkamsrannsókn á ákærðu Madinu, fimmtudaginn 28. maí 2015, fundust þrjár pakkningar sem ákærða Madina hafði falin innvortis og reyndust þær innihalda samtals 154,98 g af kókaíni.

Telst háttsemi þessi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerð verði upptæk framangreind 505,46 g af kókaíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Ákærðu komu fyrir dóminn við þingfestingu málsins ásamt skipuðum verjendum sínum og játuðu skýlaust sök.

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjendum ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Játning ákærðu er í samræmi við önnur gögn málsins. Kröfðust ákærðu vægustu refsingar er lög leyfa og að gæsluvarðhald er þær hafa sætt frá 25. maí sl. verði dregið frá refsingunni.

Verða ákærðu sakfelldar fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru en brot þeirra er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærðu hafa með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Ekki er vitað til að ákærðu hafi áður verið gerð refsing sem gæti haft áhrif við ákvörðun refsingar nú.

Í matsgerðum frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, sem liggja fyrir í málinu, segir að annars vegar hafi styrkur kókaíns í sýni mælst 68% og hins vegar 69%. Þá segir einnig í matsgerð frá sömu stofnun, dagsettri 8. júlí sl., að neyslustyrkleiki kókaíns hér á landi hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega en vitað sé að neyslustyrkleiki fíkniefna geti verið breytilegur frá einu landi til annars, frá ári til árs og jafnvel milli borga í sama landi. Í útreikningum í matsgerðinni sé gengið út frá tölum um neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku en hann hafi verið að meðaltali 29% á landsvísu á árinu 2013. Þá er bent á í matsgerðinni að mikill breytileiki hafi verið í neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku frá aldamótum. Hæstur hafi hann verið 48% árið 2001 en lægstur 18% árið 2009. Þá segir enn fremur að úr 350,48 g af dufti, sem innihaldi 68% kókaín, sé samkvæmt framangreindum forsendum hægt að búa til 822 g af efni sem væri 29% að styrk.

Við mat á refsingu verður ofangreind matsgerð ekki lögð til grundvallar en rétt er að hafa hana til hliðsjónar um það magn sem hægt hefði verið að framleiða í götustyrkleika við sölu efnisins. Þá verður einnig að líta til þess að allt frá handtöku ákærðu 24. maí sl. og til þingfestingar málsins hefur framburður ákærðu verið á reiki, þversagnarkenndur og misvísandi. Meðal annars faldi ákærða Samia hluta af efninu undir rúmdýnu í fangaklefa sínum eftir að hún hafði verið handtekin. Neituðu báðar við upphaf rannsóknar að fara í sneiðmyndatöku svo að hægt væri að ganga úr skugga um það hvort þær væru með efni innvortis. Þegar þær síðar samþykktu sneiðmyndatöku yfirsást lækni pakki sem ákærða Samia hafði á milli rasskinna og fannst við leit í klefa hennar.  Reyndist það vera 150,96 g af kókaíni.

Við ákvörðun refsingar verður þó að líta til skýlausrar játningar ákærðu fyrir dóminum. Þá verður að líta til 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 til refsiþyngingar  þar sem um samverknað er að ræða. Að auki verður að horfa til ungs aldurs ákærðu en ákærða Samia var einungis nítján ára en ákærða Madina tuttugu og þriggja ára þegar brotið var framið. Með vísan til dómaframkvæmdar, styrkleika efnanna og þess sem að ofan er rakið þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald er ákærðu sættu frá 25. maí sl. skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærðu sæti upptöku á ofangreindum efnum eins og í dómsorði segir.

Sakarkostnaður er samkvæmt yfirliti 400.565 krónur sem ákærðu verða dæmdar til að greiða in solidum. Þá verða ákærðu dæmdar til að greiða þóknun skipaðra verjenda sinna á rannsóknarstigi og fyrir dóminum. Ákærða Samia greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Snorra Snorrasyni hdl., 439.890 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti og akstur 41.760 krónur og Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum 900.240 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagðan kostnað, 63.700 krónur. Ákærða Madina Afif greiði þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl, á rannsóknarstigi 409.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 11.600 í aksturskostnað og Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 900.240 krónur  að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði hún einnig útlagðan kostnað hans, 51.640 krónur. Ákærðu sæti upptöku á 505,46 g af kókaíni. 

 Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærða Samia Mohammedi, franskur ríkisborgari, skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærða sætti frá 25. maí sl. skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærða Madina Afif, franskur ríkisborgari, skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærða sætti frá 25. maí sl. skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærðu sæta upptöku á 505,46 g af kókaíni.

Ákærðu greiði in solidum 400.565 krónur í sakarkostnað.

Ákærða Samia greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Snorra Snorrasyni hdl., 439.890 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti og 41.760 krónur vegna aksturskostnaðar og Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 900.240 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagðan kostnað, 63.700 krónur.

Ákærða Madina Afif greiði þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl, á rannsóknarstigi 409.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 11.600 krónur í aksturskostnað og Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 900.240 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað 51.640 krónur.