Hæstiréttur íslands

Mál nr. 625/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. nóvember 2009.

Nr. 625/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bragi Björnsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. nóvember 2009 klukkan 16, og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. nóvember 2009, kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að skömmu fyrir miðnætti 10. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu um borð í flugvél Iceland Express sem hafi verið að koma frá Varsjá, Póllandi, vegna farþega sem hefði verið mjög æstur og ógnandi um borð í vélinni. Hafi umræddur farþegi reynst vera litháísk kona, sem sagðist heita A og hefði hún framvísað „breytifölsuðu“ nafnskírteini því til staðfestingar. Hafi hún verið yfirbuguð af flugliðum og eftir lendingu verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Athygli lögreglu hafi vakið að þrír Litháar hafi verið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að taka á móti konunni, en þeir hafi jafnframt spurst fyrir um hana á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo og á lögreglustöðinni á Hringbraut, Keflavík. Eftir að konan hafi verið flutt á lögreglustöðina á Hverfisgötu, í Reykjavík, hinn 11. október sl., hafi mennirnir verið þar fyrir utan og verið að grennslast fyrir um hana, en hún hafi virst vera mjög óttaslegin við mennina. Hún hafi því fengið að gista í fangahúsi lögreglu að eigin ósk þar til unnt væri að fá far fyrir hana úr landi, en hún hafi eigi haft fjármuni meðferðis.

Hinn 12. október hafi verið rætt við konuna með milligöngu fagaðila, en lögregla hafi þá haft rökstuddan grun til að ætla að hún kynni að vera ætlað fórnarlamb mansals. Konan hafi virst vera mjög illa áttuð og ekki vitað hvar í heiminum Ísland væri. Hún hafi borið um það að hafa komið hingað til lands til að stunda vinnu sem henni hafi verið útveguð. Að kvöldi 12. október sl. hafi konan yfirgefið þann stað sem lögreglan hafði úthlutað henni og ekkert spurst til hennar fyrr en fimmtudagskvöldið 15. október sl., en þann dag hafi hún verið skráð inn á hótel sem annar maður hafi greitt fyrir hana. Hinn 13. október sl. hafi kærði verið handtekinn ásamt tveimur öðrum mönnum, grunaður um aðild að ætluðu mansali. Kærði hafi borið hjá lögreglu að konan (A) hafi komið á hans vegum hingað til lands eftir að þau hafi átt í tölvusamskiptum og að hann hafi beðið þrjá félaga sína um að sækja hana í flugstöðina. Fyrir liggi í málinu að símatengingar hafi verið á milli símanúmers kærða og konunnar á meðan hún hafi horfið úr umsjá lögreglu en þrátt fyrir það hafi kærði neitað að hafa verið í samskiptum við hana á þeim tíma og að vita hvar hún hafi verið niðurkomin. Þá liggi jafnframt fyrir í málinu að kærði hafi verið í samskiptum við litháískt símanúmer sem meðkærði Y hafi jafnframt verið í samskiptum við, en það sé það númer sem gögn málsins bendi til að sé símanúmer aðila í Litháen, sem rökstuddur grunur leiki á um að tengist málinu. Kærði hafi nú viðurkennt að hafa sótt ætlaðan þolanda mansals til Keflavíkur aðfaranótt 13. október sl. og farið með hana til Reykjavíkur en neitað að greina frá nánari staðsetningum eða atvikum að öðru leyti. Við húsleit á heimili kærða hafi fundist armbandsúr úr innbroti þar sem mikil verðmæti hafi verið tekin ófrjálsri hendi og jafnframt miklar skemmdir unnar. Einnig hafi fundist munir úr sama innbroti hjá meðkærðu Y og Z.

Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Málið sé mjög umfangsmikið og teygi anga sína víða og telji lögreglan að rökstuddur grunur sé um að um verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Enn sé verið að rannsaka aðdraganda að ferð konunnar hingað til lands, bakgrunn og forsögu hennar og tengsl hennar við hugsanlega aðila sem stundi mansal á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða en í því skyni sé unnið í nánum samskiptum við erlend lögregluyfirvöld og sérstaklega í Litháen. Sú háttsemi sem kærða hafi verið gefin að sök telji lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ætlað brot gegn því ákvæði geti varðað fangelsisrefsingu allt að 8 árum. Rannsókn málsins á ætluðu mansali sé verulega flókin og telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka og eða vitni, eða koma undan sönnunargögnum gangi hann laus. Sjö manns sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins og gæti verulegs ósamræmis í framburði þeirra hjá lögreglu.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liði 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. nóvember 2009, kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er í fullum gangi og enn á viðkvæmu stigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. nóvember 2009, kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.