Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2001
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Skaðabætur
- Líkamsleit
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2001. |
|
Nr. 69/2001. |
Elsa Jónsdóttir(Kristján Stefánsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) og gagnsök |
Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Líkamsleit. Gjafsókn.
E var handtekin vegna rökstudds gruns um aðild að fíkniefnainnflutningi með skipinu B. Fannst mikið magn fíkniefna í bifreið sem E var farþegi í og ekið var frá skipshlið. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 1991 til handtöku E. Einnig var talið að fullnægt hefði verið skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga til að úrskurða E í gæsluvarðhald. Með hliðsjón af málsatvikum, rannsóknargögnum og skýringum var talið að yfirheyrslum hefði verið unnt að ljúka fyrr en gert var og að gæsluvarðhald í sjö daga hefði fullnægt rannsóknarþörfum. Með því að gæsluvarðhaldstími umfram það hafði ekki verið réttlættur var E talin eiga rétt á miskabótum með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Gögn málsins studdu ekki fullyrðingu E um að líkamsleit, sem gerð var á henni, hefði farið fram gegn andmælum hennar. Voru því ekki skilyrði til að taka bótakröfu E til greina að þessu leyti. Þá var og hafnað bótakröfu E vegna atvinnutjóns, þar sem sú krafa var ekki studd nægilegum gögnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2001 og krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi lægri fjárhæðar að mati dómsins með sömu vöxtum og í aðalkröfu greinir. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en hún nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum. Aðaláfrýjandi krefst og frávísunar gagnsakar, en ella sýknu af kröfum gagnáfrýjanda.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 24. apríl 2001 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda, sem verði dæmd til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og verði málskostnaður þá látinn falla niður.
I.
Krafa aðaláfrýjanda um frávísun gagnsakar var gerð með vísan til 152. gr. og 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var fallið frá tilvísun til síðargreinda ákvæðisins en því hins vegar haldið fram, að gagnáfrýjun stæðist ekki vegna ákvæða 152. gr. um áfrýjunarfjárhæð. Á þetta verður ekki fallist, enda hljóta öll sjónarmið um bótagrundvöll og fjárhæð bóta að komast að við áfrýjun málsins. Verður frávísunarkröfu aðaláfrýjanda því hafnað.
II.
Gagnáfrýjandi hefur lagt nýtt skjal fyrir Hæstarétt, greinargerð Tryggva Kr. Ólafssonar lögreglufulltrúa 23. apríl 2001 um gang rannsóknar á innflutningi á fíkniefnum með Breka VE-61 dagana 9.-14. janúar 1999. Kemur þar meðal annars fram að sunnudaginn 10. janúar var unnið að skipulagningu á rannsókn, svo og að leit um borð í áðurnefndu skipi með leitarhundi. Næsta dag var aflað heimilda til að leita eftir upplýsingum um símanotkun og bankareikninga aðaláfrýjanda og sambúðarmanns hennar, svo og konu þeirrar, sem hafði verið handtekin með þeim. Þá var alþjóðadeild ríkislögreglustjóra skrifað og næsta dag höfð samskipti við hana. Þann dag voru yfirlit bankareikninga og um símanotkun hinna handteknu móttekin og yfirfarin. Miðvikudaginn 13. janúar var gengið frá haldlögðum hlutum til sendingar og skýrslum í tengslum við það. Var og tekin skýrsla af sambúðarmanni aðaláfrýjanda. Fimmtudaginn 14. janúar fóru fram skýrslutökur yfir aðaláfrýjanda og fyrrnefndri konu.
III.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi var aðaláfrýjandi handtekin á Friðarhafnarbryggju í Vestmannaeyjum árla morguns 9. janúar 1999 ásamt sambúðarmanni sínum og konu, er ók bifreið þeirri, sem þau voru í. Höfðu aðaláfrýjandi og sambúðarmaður hennar komið til Vestmannaeyja fyrr um morguninn með Breka VE-61 úr siglingu til Bremerhaven í Þýskalandi. Við leit í bifreiðinni fannst taska í aftursæti með fjórum pökkum, sem höfðu að geyma tæp fimm kíló af hassi. Auk þess fundust fleiri fíkniefni í fórum sambúðarmanns aðaláfrýjanda. Læknir framkvæmdi líkamsleit á aðaláfrýjanda í framhaldi af handtöku, en engin fíkniefni fundust á henni. Þá fór fram leit á heimili hennar síðar sama dag með samþykki sambúðarmannsins og að honum viðstöddum og fannst þar áhald, sem lögregla taldi tengjast hassneyslu. Aðaláfrýjandi var fyrst yfirheyrð vegna málsins um kl. 16.00 þennan dag að viðstöddum réttargæslumanni og neitaði hún allri vitneskju um fíkniefni þau, sem fundist höfðu í aftursæti bifreiðarinnar. Hún kvað sig hins vegar hafa grunað að sambúðarmaður hennar væri með einhver fíkniefni fyrir sjálfan sig.
Aðaláfrýjandi var úrskurðuð í Héraðsdómi Suðurlands um kl. 22.30 umræddan dag til að sæta gæsluvarðhaldi allt til 19. janúar 1999 kl. 16.00. Úrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti 13. janúar 1999. Var aðaláfrýjandi látin laus úr gæsluvarðhaldi á þeim tíma, er því skyldi ljúka samkvæmt úrskurðinum.
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum tilkynnti aðaláfrýjanda 27. október 1999, að ákveðið hefði verið með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að aðhafast ekki frekar gagnvart henni í máli þessu.
IV.
Hinn 1. maí 1999 tóku gildi lög nr. 36/1999, en með 42. gr. þeirra laga var 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 breytt. Ljóst er af athugasemdum með frumvarpi að ofangreindum lögum að markmið löggjafans með breytingu þessari var að taka af tvímæli um það að ákvæði laga nr. 19/1991 væru í samræmi við 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Breytingin tók gildi áður en aðaláfrýjanda var tilkynnt um niðurfellingu málsins. Að þessu athuguðu er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að byggt skuli við úrlausn málsins á 1. mgr. 175. gr. í núgildandi horfi.
Ljóst er að handtöku aðaláfrýjanda að morgni 9. janúar 1999 má rekja til rökstudds gruns um fíkniefnainnflutning með Breka VE-61, en hún hafði komið með skipinu til Vestmannaeyja þennan morgun, eins og áður er fram komið. Mikið magn fíkniefnis fannst í bifreið þeirri, sem hún var í og ekið var frá skipshlið. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, til handtöku aðaláfrýjanda.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að fullnægt hafi verið skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að úrskurða aðaláfrýjanda til að sæta gæsluvarðhaldi.
Í héraðsdómi er greint frá yfirheyrslum yfir aðaláfrýjanda á þeim tíma er gæsluvarðhald hennar stóð. Var hún fyrst yfirheyrð 14. janúar, en síðan 16., 18. og 19. janúar. Sambúðarmaður hennar var yfirheyrður hjá lögreglu 13., 15. og 17. janúar 1999. Kom fram nokkurt misræmi í framburði þeirra, en það var fyrst við skýrslutöku 19. janúar að leitað var eftir skýringum aðaláfrýjanda á því.
Af bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til sýslumannsins í Vestmannaeyjum 19. janúar 1999 þykir mega ráða að aðstæður fyrir gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslu lögreglunnar þar í bæ séu ekki að öllu leyti fullnægjandi, en aðaláfrýjandi var höfð þar í haldi allan gæsluvarðhaldstímann. Í bréfinu segir meðal annars að kannaðar hafi verið upplýsingar sýslumanns um stærð og fjölda klefa í lögreglustöðinni og aðbúnað allan. Að jafnaði skuli eigi vista sakborning, er hnepptur hafi verið í gæsluvarðhald á grundvelli 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, lengur en 7 sólarhringa í fangageymslunni, þegar um sé að ræða gæsluvarðhald samkvæmt a-lið greinarinnar. Þegar um gæsluvarðhald samkvæmt öðrum liðum sé að ræða skuli að jafnaði senda sakborninga innan fjögurra sólarhringa í fangelsi, sem Fangelsismálastofnun ríkisins ákveði. Hamli veðurskilyrði ferðum milli lands og Eyja, mál sé óvenjulega umfangsmikið eða brot óvenjulega gróft að almenningsáliti sé heimilt að vista gæsluvarðhaldsfanga í allt að 15 sólarhringa í fangageymslunni.
Þegar litið er til þeirra gagna, sem fyrir liggja um framgang rannsóknar lögreglunnar í Vestmannaeyjum, verður ekki talið að henni hafi verið hraðað svo sem gera verður kröfu um, þegar gæsluvarðhaldi er beitt. Þannig var aðaláfrýjandi fyrst yfirheyrð 14. janúar 1999 eftir gæsluvarðhaldsúrskurðinn 9. janúar. Þykja framkomin gögn og skýringar ekki réttlæta þann drátt þótt lögreglumenn hafi þurft að sinna öðrum þáttum rannsóknarinnar. Ekki verður séð að fleiri hafi verið yfirheyrðir við rannsóknina en aðaláfrýjandi, sambúðarmaður hennar og kona sú, sem handtekin var með þeim. Er á það fallist með héraðsdómi að yfirheyrslum hefði verið unnt að ljúka fyrr en gert var. Það kallaði og sérstaklega á að rannsókninni yrði hraðað svo sem kostur var, að aðaláfrýjandi sat í gæsluvarðhaldi í fangageymslu, sem ekki var talin fullnægja öllum skilyrðum til slíks varðhalds. Þótt framangreint bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafi ekki verið ritað fyrr en sama dag og gæsluvarðhaldi aðaláfrýjanda lauk þykir eðlilegt að það sé haft til viðmiðunar. Þegar horft er til málsatvika og rannsóknargagna verður ekki á það fallist að mál þetta hafi verið ýkja margbrotið og umfangsmikið. Verður að telja að gæsluvarðhald í sjö sólarhringa hefði fullnægt rannsóknarþörfum og að gæsluvarðhaldstími umfram það hafi ekki verið réttlættur.
Samkvæmt framansögðu á aðaláfrýjandi rétt á bótum vegna gæsluvarðhalds að ósekju að þessu leyti með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum.
V.
Aðaláfrýjandi gerir einnig kröfu um bætur vegna líkamsleitar, sem framkvæmd var í framhaldi handtöku 9. janúar 1999. Í handtökuskýrslu segir að Karl Björnsson heilsugæslulæknir hafi framkvæmt líkamsleit, en í gögnum málsins kemur ekkert frekar fram um hana. Í stefnu segir að líkamsleitin hafi farið fram gegn andmælum aðaláfrýjanda án þess að fyrir lægi leitarheimild.
Líta verður til þess að aðaláfrýjandi fékk réttargæslumann sér til fulltingis í framhaldi handtöku. Þann dag kom hún til skýrslutöku hjá lögreglu með réttargæslumanni og þá um kvöldið fyrir dóm vegna gæsluvarðhaldskröfu. Engin mótmæli komu þá fram vegna líkamsleitar og heldur ekki síðar undir rannsókn málsins. Ekki liggur fyrir skýrsla aðaláfrýjanda um þetta atriði eða önnur gögn, sem styðja framangreinda fullyrðingu í stefnu. Eru því ekki skilyrði til að taka kröfu hennar að þessu leyti til greina og verður niðurstaða héraðsdóms um þetta staðfest.
VI.
Dæma ber aðaláfrýjanda bætur eftir 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 vegna gæsluvarðhalds þess, sem hún sætti að ósekju samkvæmt framansögðu. Hún gerir kröfu um bætur vegna atvinnutjóns, að fjárhæð 200.000 krónur. Reisir hún kröfuna á því að hún hafi, áður en hún fór umrædda ferð með Breka VE-61, starfað við ræstingar á hóteli í Vestmannaeyjum, en þá vinnu hafi hún misst vegna rannsóknar málsins og gæsluvarðhaldsins. Hún hefur ekki stutt þessa kröfu öðrum gögnum en launamiða vegna ársins 1998 frá viðkomandi atvinnurekanda. Er þetta ekki nægur stuðningur fyrir kröfunni og verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu af henni því staðfest.
Gerð er krafa um 500.000 krónur vegna röskunar á högum. Engin grein hefur verið gerð fyrir grundvelli þeirrar kröfu og verður henni hafnað.
Aðaláfrýjandi á rétt á miskabótum samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Með hliðsjón af öllum atvikum þykja þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Einungis er krafist dráttarvaxta af dæmdum bótum. Rétt þykir að þeir skuli reiknaðir frá 8. apríl 2000, eins og ákveðið var í héraðsdómi og nánar er mælt fyrir um í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Elsu Jónsdóttur, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 19. apríl s.l.
Stefnandi er Elsa Jónsdóttir, kt. 060864-2849, Stjörnusteinum 16, Stokkseyri.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 1. febrúar 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.
Stefnanda var með bréfi dómsmálaráðuneytis dagsettu 9. október s.l. veitt gjafsókn í málinu.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að lögreglunni í Vestmannaeyjum mun í ársbyrjun 1999 hafa borist upplýsingar um að Svavar Guðnason, kt. 090957-4309, stæði í innflutningi á fíkniefnum. Var því ákveðið í samráði við Tollgæsluna í Vestmannaeyjum að fylgjast með ferðum hans frá skipinu Breka VE-61, en skipið mun hafa verið að koma frá Bremerhaven í Þýskalandi. Kona Svavars, stefnandi máls þessa, var í för með honum og mun Elín Sigurðardóttir, kt. 030156-5019, hafa gætt sonar þeirra, Daníels Arnar á meðan foreldrar hans voru í siglingunni. Samkvæmt lögregluskýrslu kom skipið til hafnar í Vestmannaeyjum um kl. 04:40 9. janúar 1999 og hófst tollskoðun í beinu framhaldi af því og lauk kl. 06:20. Segir í skýrslunni að kl. 06:40 hafi Elín komið á bifreiðinni R-7049 og var Daníel Örn með henni. Hafi Elín og stefnandi síðan hjálpast að við að setja varning í bifreiðina og hafi þær síðan farið á bifreiðinni með varninginn að Heiðarvegi 11, heimili stefnanda og Svavars, en hann og sonur hans hafi orðið eftir um borð í skipinu á meðan. Stefnandi og Elín hafi síðan komið aftur að skipshlið um kl. 07:00 og setti Svavar þá tösku í aftursæti bifreiðarinnar. Bifreiðin var síðan stöðvuð á Friðarhafnarbryggju og var Elínu og farþegum hennar kynnt að þau væru handtekin vegna gruns um fíkniefnamisferli. Við leit á Svavari fundust 1,5 g af marihuana og þá framvísaði hann 33 g af hassi. Þá var skoðað innihald umræddrar tösku, sem var í aftursæti bifreiðar Elínar og fundust í henni fjórir pakkar vafðir með einangrunarlímbandi og við rannsókn kom í ljós að um var að ræða tæp fimm kíló af hassi. Stefnandi var færð á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum og kemur fram í lögregluskýrslu að Karl Björnsson gerði líkamsleit á henni, en ekki fundust fíkniefni á henni.
Við húsleit á heimili stefnanda, sem fram fór samdægurs kl. 15:30, fannst áhald, sem lögregla taldi að væri ætlað til hassreykinga, í plastpoka í kjallara. Stefnandi var yfirheyrð hjá lögreglu síðdegis sama dag og hófst yfirheyrsla kl. 16:02 og lauk kl. 16:25. Stefnandi neitaði þar allri vitneskju um fíkniefni þau sem fundust í töskunni og aðspurð hvort hún hafi verið í neyslu fíkniefna neitaði hún því, en sagðist hafa neytt fíkniefna fyrir mörgum árum. Stefnandi kvaðst hafa verið í siglingu með Svavari og kvað hún sig hafa grunað að hann væri með fíkniefni fyrir sjálfan sig, en ekki hafi hvarflað að henni að um svo mikið magn væri að ræða. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gerði samdægurs þá kröfu til Héraðsdóms Suðurlands að stefnandi yrði úrskurðuð í gæsluvarðhald til laugardagsins 30. janúar 1999 kl. 16:00. Krafan var tekin fyrir í dómi kl. 18:50. Stefnandi, sem naut aðstoðar verjanda, mótmælti kröfunni og kvaðst hafa vitað til þess að Svavar hafi haft meðferðis lítilræði af fíkniefnum, þ.e. tvo litla poka af hassi. Hún kvað magn þess fíkniefnis sem fannst hafa komið sér verulega á óvart og ítrekaði að hún tengdist ekki broti Svavars. Héraðsdómari féllst á kröfu sýslumanns með svofelldum rökstuðningi: „Samkvæmt framlögðum gögnum er rannsókn máls þessa skammt á veg komin, en um er að ræða innflutning á miklu magni af fíkniefnum. Lögregla kveður rannsókn máls þessa verða umfangsmikla og nauðsynlegt sé að yfirheyra frekar kærðu og aðra, sem að öllum líkindum tengjast hinu meinta broti kærðu. Sýnist því ekki verða komist hjá að varna því, að kærða nái hugsanlega að spilla sakargögnum. Samkvæmt framansögðu og með vísan til a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að fallast á kröfu sýslumannsins í Vestmannaeyjum um að kærða skuli sæta gæsluvarðhaldi, en þó ekki lengur en til 19. janúar 1999 kl. 16:00.” Stefnandi skaut úrskurði þessum til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti hann með dómi upp kveðnum 13. janúar 1999.
Svavar og Elín voru einnig úrskurðuð í gæsluvarðhald og við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi viðurkenndi Svavar strax að hafa verið beðinn um að flytja fíkniefni til landsins og kvað hann stefnanda og Elínu ekki hafa vitað af því.
Stefnandi var ekki yfirheyrð aftur fyrr en að kvöldi fimmtudagsins 14. janúar 1999. Skýrði hún þá nánar frá ferðum þeirra Svavars í Bremerhaven og kvað hún þau hafa hitt þar mann, Bernhard Speer að nafni. Hún kvað þau Svavar nokkrum sinnum hafa orðið viðskila þarna úti. Misræmi var í framburði stefnanda og Svavars um frágang á stórri íþróttatösku sem þau höfðu meðferðis. Sagðist stefnandi hafa séð um að taka upp úr töskunni daginn sem þau komu á hótelið og Svavar sagðist hafa troðið skjalatösku með fíkniefnunum ofan í töskuna að kvöldi 4. janúar. Stefnandi bar hins vegar að hún hafi pakkað ofan í töskuna að morgni 5. janúar og þá ekki hafa orðið vör við annað en að eingöngu fatnaður væri í henni. Stefnandi kvaðst hafa orðið vör við hass í fórum Svavars þegar þau voru í Bremerhaven, en það hafi verið lítilræði eða tveir bútar á stærð við strokleður hvor. Stefnandi kannaðist við að Svavar ætti áhald það til neyslu fíkniefna sem fannst á heimili þeirra. Hún kannaðist ekki við að hafa vitað um fíkniefni þau sem fundust í bifreiðinni. Stefnandi var yfirheyrð nánar um málsatvik 16., 18. og 19. janúar 1999, en þann dag losnaði hún úr gæsluvarðhaldi. Þá höfðu rannsóknarar aflað sér heimildar til að afla upplýsinga um fjárreiður stefnanda og notkun hennar á talhólfi og SMS búnaði. Einnig var fenginn dómsúrskurður um símhlerun á síma stefnanda og Svavars.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, upp kveðnum 15. október 1999 var Svavar fundinn sekur um innflutning á fíkniefnum og dæmdur til árs fangelsisvistar. Ákæra var hvorki gefin út á hendur stefnanda né Elínu og með bréfi sýslumannsins í Vestmannaeyjum dagsettu 27. október sama ár var stefnanda tilkynnt í samræmi við 114. gr. laga nr. 19/1991 að ekkert frekar yrði aðhafst í máli hennar með vísan til 112. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi telur að hún hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju og vísar til meginreglna skaðabótaréttar svo og ákvæða XXI. kafla laga nr. 19/1991. Stefnandi byggir einnig á því að henni hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi lengur en nauðsynlegt gat talist í þágu rannsóknar.
Stefnandi byggir einnig á því að ekki hafi verið farið að lögum við rannsókn málsins og framkvæmd gæsluvarðhaldsins. Í fyrsta lagi segir stefnandi að framkvæmd hafi verið á henni líkamsleit gegn andmælum hennar og án leitarheimildar og þá sé ekki getið um framkvæmdina í lögregluskýrslu. Í öðru lagi segist stefnandi hafa setið í gæsluvarðhaldi á lögreglustöðinni í Vestmanneyjum við ófullnægjandi aðbúnað, en samkvæmt úttekt dóms- og kirkjumálaráðuneytis séu þær fangageymslur ekki nýtanlegar nema til skammtíma vistunar. Í þriðja lagi bendir stefnandi á að henni hafi ekki verið gert ljóst um símahleranir eftir að þeim linnti eins og ákvæði 88. gr. laga nr. 19/1991 áskilji. Þá telur stefnandi að ekki verði séð að ákvæða 51. gr. sömu laga hafi verið gætt er hún var þráspurð um háttsemi Svavars.
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig að hún telur atvinnutjón sitt nema 200.000 krónum, bætur fyrir röskun á högum telur hún hæfilegar 500.000 krónur, miskabætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju, heimildarlausrar líkamsleitar og annarra aðgerða telur hún hæfilegar 1.800.000 krónur. Stefnandi rökstyður kröfur sínar þannig að gæsluvarðhaldið hafi verið henni mjög þungbært, hún hafi verið borin alvarlegum sökum, læst inni við ófullnægjandi aðstæður, svipt sambandi við barn og fjölskyldu og telur hún afleiðingar þessa mjög þungbærar. Stefnandi segist hafa unnið hjá Hótel Bræðraborg við ræstingar og haft 80.000 krónur á mánuði í tekjur. Segist hún hafa misst atvinnu og gerir kröfu um að fá atvinnutjón sitt bætt með launum í tvo og hálfan mánuð, en hún kveðst fyrst hafa fengið vinnu aftur í apríl 1999. Þá kvað stefnandi gæsluvarðhaldið hafa leitt til þess að hún missti húsnæði og varð að flytja frá Vestmannaeyjum.
Stefnandi reisir málskostnaðarkröfur á 178. gr. laga nr. 19/1991 og XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Við munnlegan flutning málsins tók lögmaður stefnanda fram að byggt væri á 175. gr. laga nr. 19/1991 eins og henni var breytt með lögum nr. 36/1999. Kvað hann kröfugerð sína í stefnu byggða á gildandi lögum, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands upp kveðinn 12. október s.l. í máli nr. 175/2000.
Stefndi byggir á því að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda með vísan til 97. gr. laga nr. 19/1991. Fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um að stefnandi hafi framið afbrot sem sætt gæti ákæru og þá hafi lögmælt skilyrði verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda, enda hafi úrskurður héraðsdóms og dómur Hæstaréttar verið reistir á 103. gr. sömu laga. Þá byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en efni stóðu til og hafi tíminn verið nýttur til rannsóknar málsins. Stefndi byggir á því að framburður þeirra Svavars og stefnanda hafi ekki að öllu leyti verið samrýmanlegur. Hafi þeim ekki borið saman um frágang á stórri íþróttatösku, en í þá tösku segist Svavar hafa sett skjalatösku með fíkniefnunum. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi viðurkennt að hafa orðið vör við fíkniefni í fórum Svavars í ferðinni og telur stefndi með ólíkindum að stefnandi hafi ekki orðið vör við u.þ.b. fimm kíló af fíkniefnum í ljósi þess að þau voru sambúðarfólk og ferðafélagar, deildu hótelherbergi í Bremerhaven og káetu um borð í Breka og voru með sameiginlega farangurstösku.
Stefndi bendir á varðandi það atriði að láðst hafi að gæta ákvæða 51. gr. laga nr. 19/1991 að stefnandi var yfirheyrð sem sakborningur í málinu og var brýnt fyrir henni að henni væri ekki skylt að svara spurningum er vörðuðu sakarefnið. Þá hafi skipaður verjandi hennar ávallt verið viðstaddur yfirheyrslur.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi samþykkt líkamsleit, en slík leit sé ekki gerð nema með samþykki viðkomandi, ella sé aflað dómsúrskurðar.
Stefndi byggir á því að aðbúnaður í fangageymslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum hafi verið sérstaklega kannaður. Komi fram í bréfi dómsmálaráðuneytis að sé mál óvenjulega umfangsmikið sé heimilt að vista gæsluvarðahaldsfanga þar í allt að 15 sólarhringa. Stefnanda hafi hins vegar verið haldið í gæsluvarðhaldi í 10 sólarhringa.
Stefndi bendir á að hafi ekki verið tilkynnt að símahlerunum hafi linnt skapi það ekki bótarétt á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991, en þar sé fjallað um bætur fyrir handtöku, leit, haldlagningu, rannsókn á heilsu manna, gæsluvarðhaldi og öðrum aðgerðum sem hafi frelsisskerðingu í för með sér.
Stefndi byggir á því að um umfangsmikið fíkniefnamál var að ræða. Verði því að leitast við að útiloka að þeir sem tengist málinu geti komið upplýsingum til hugsanlegra vitorðsmanna sinna og tafið þannig eða eyðilagt möguleika lögreglu að ná til þeirra. Slík mál séu oft þannig vaxin að töluverður fjöldi tengist þeim, t.d. þeir sem útvega efnin, flytja þau inn, fjármagna kaupin og selja og dreifa þeim. Stefndi byggir á því að til þess að lögregla eigi möguleika á að varpa ljósi á sem flesta þætti fíkniefnamála verði hún að hafa næði til að rannsaka þau og koma í veg fyrir að sakborningar beri sig saman.
Stefndi byggir á því að að ekki séu uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta og verði því að sýkna stefnda. Í kaflanum séu tæmandi talin þau tilvik sem geta orðið grundvöllur bóta, en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu. Stefndi tekur fram að lög nr. 36/1999 um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. maí 1999. Eigi þau því ekki við í málinu, enda ekki á þeim byggt af hálfu stefnanda að mati stefnda.
Varakrafa stefnda um lækkun á dómkröfum er á því reist að kröfur stefnanda séu allt of háar. Atvinnutjón stefnanda sé ósannað og liggi ekkert fyrir um störf hennar hjá Hótel Bræðraborg. Stefndi mótmælir kröfu um bætur vegna röskunar á högum og segir hana án lagastoðar. Þá sé miskabótakrafa of há og ekki í samræmi við dómvenju. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og bendir á að skaðabótakrafa sé fyrst lögð fram 8. mars 2000 og þá án rökstuðnings fyrir fjárhæð. Með vísan til 15. gr. vaxtalaga krefst stefndi þess að krafan beri ekki vexti frá fyrri tíma en dómsuppkvaðningu eða til vara frá þingfestingu málsins.
Stefndi vísar um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu krefst stefnandi bóta vegna gæsluvarðhalds að ósekju, en hún sat í gæsluvarðhaldi frá 9. til 19. janúar 1999. Stefnandi reisir kröfur sínar á XXI. kafla laga nr. 19/1991, og við munnlegan flutning málsins vísaði stefnandi einkum til 1. mgr. 175. gr. eins og henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999 og 176. gr. laganna. Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 12. október s.l. í máli nr. 175/2000, fellst dómarinn á það með stefnanda að við mat á bótarétti hennar verði byggt á 1. mgr. 175. gr. í því horfi sem hún er nú. Fyrir liggur að rannsókn málsins leiddi ekki til saksóknar á hendur stefnanda, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framansögðu verður því ekki lagt mat á sekt eða sakleysi stefnanda.
Ekki er um það deilt í máli þessu að fíkniefni fundust í tösku sem stefnandi og Svavar Guðnason, sambýlismaður hennar höfðu í fórum sínum í siglingu til útlanda eins og rakið er hér að framan. Stefnandi bar frá upphafi að hún hafi ekkert vitað um innflutning Svavars á fíkniefnum, en hún skýrði strax svo frá við yfirheyrslu 9. janúar 1999 að hana hafi grunað að Svavar hefði fíkniefni í fórum sínum en ekki hafi hvarflað að henni að um svo mikið magn væri að ræða. Lögregla vann að rannsókn á innflutningi á talsverðu magni af hassi og hafði Svavar þegar kannast við að hafa flutt efnið inn og jafnframt kvað hann stefnanda og Elínu engan hlut eiga að máli. Framburður stefnanda við fyrstu yfirheyrslu var til þess fallinn að fella á hana grun um að hún byggi yfir meiri vitneskju um málavexti en hún vildi vera láta. Bar brýna nauðsyn til að kanna hvort Svavar ætti sér vitorðsmenn og koma í veg fyrir að sakargögnum yrði spillt. Varð því ekki hjá því komist með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Ekki hefur annað verið í ljós leitt en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi verið fyllilega lögmætur og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
![]()
Stefnandi
var yfirheyrð stuttlega 9. janúar 1999 og skýrði hún þá strax svo frá að hún
hefði enga hugmynd um fíkniefnin sem fundust í bifreiðinni. Stefnandi skýrði hins vegar strax frá þeim
grun sínum að Svavar hefði haft fíkniefni í fórum sínum í ferðinni. Svavar var yfirheyrður sama dag og kvaðst
hann þá strax hafa verið einn að verki.
Svavar var ekki yfirheyrður aftur fyrr en 13. janúar sama ár og skýrði
hann þá nánar frá atvikum og ítrekaði að hann hefði verið einn að verki. Stefnandi var hins vegar ekki yfirheyrð
aftur fyrr en 14. janúar eða rúmum fimm sólarhringum síðar og var hún þá spurð
ítarlega um frágang á farangri þeirra Svavars.
Í yfirheyrslum 16., 18. og 19. janúar var stefnandi spurð nánar um þetta
atriði og þá var borið undir hana misræmi í framburði þeirra Svavars.
Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 19/1991 skal gæsluvarðhaldi markaður ákveðinn tími. Sá sem krafist hefur gæsluvarðhalds skal láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi. Samkvæmt gögnum málsins liðu fimm sólarhringar frá því stefnandi gaf fyrstu skýrslu sína þar til hún gaf ítarlega skýrslu um málsatvik. Það er álit dómsins að hefði stefnandi verið spurð fyrr og ítarlegar um málavexti hefði gæsluvarðhaldsvist hennar orðið styttri en raun bar vitni. Ber einnig að líta til þess að lagt hafði verið hald á fíkniefnin, Svavar og Elín höfðu verið úrskurðuð í gæsluvarðhald og húsleit hafði farið fram á heimilum þeirra. Enda þótt því verði ekki slegið föstu hvenær það tímamark kom að láta bar stefnanda lausa, þykir stefnandi hafa sætt gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn bar og á hún því með vísan til 2. mgr. 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 rétt á miskabótum af þeim sökum. Þykja bætur til hennar hæfilega ákveðnar 100.000 krónur með dráttarvöxtum frá 8. apríl 2000 til greiðsludags, en þá var liðinn mánuður frá því stefnandi krafðist bóta, sbr. 15. gr. vaxtalaga. Ekki verður fallist á að stefnanda hafi tekist að sýna fram að hún hafi orðið fyrir fjártjóni. Þá verður ekki séð að líkamsleit hafi verið framkvæmd í óþökk stefnanda og ekki hefur verið sýnt fram á að aðbúnaður stefnanda í gæsluvarðhaldinu hafi verið óviðunandi. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir sérstöku tjóni af þeim sökum að ekki var gætt ákvæða 51. gr. og 88. gr. laga nr. 19/1991.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 greiðist kostnaður stefnanda af málinu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Kristjáns Stefánssonar hrl., 250.000 krónur, úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Elsu Jónsdóttur, 100.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 8. apríl 2000 til greiðsludags.
Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda af málinu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Kristjáns Stefánssonar, hrl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkisjóði.