Hæstiréttur íslands

Mál nr. 620/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Frestur
  • Aðfinnslur


                                     

Þriðjudaginn 9. október 2012.

Nr. 620/2012.

Kaupþing hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

gegn

Jens Bernward Guðjónssyni

(Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Frestur. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa J um að skaðabótamáli hans gegn K hf. yrði frestað þar til endanleg niðurstaða fengist í sakamáli gegn fyrrum stjórnendum K hf. Hinn kærði úrskurður var felldur úr gildi þar sem J hafði ekki leitast við að skýra út hvernig þau ætluðu brot sem fjallað var um í sakamálinu gætu leitt til þess að hann ætti skaðabótakröfu á hendur K hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að máli hans gegn sóknaraðila yrði frestað. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frestun málsins, svo og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Þegar af þeirri ástæðu getur krafa hans um málskostnað í héraði ekki komið til álita hér fyrir dómi.

I

Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila keypti hann á árinu 2002 hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands hf., sem eftir sameiningu við annað félag fékk heitið Kaupþing banki hf., að nafnverði 1.400 krónur. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili átti enn hlutabréf í félaginu sem þessu svaraði þegar Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í félaginu, víkja stjórn þess frá og setja yfir það skilanefnd. Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009 var skipuð slitastjórn í félaginu og gaf hún út innköllun til kröfuhafa, en félagið ber nú heiti sóknaraðila.

Varnaraðili lýsti 28. desember 2009 kröfu við slit sóknaraðila. Í kröfulýsingunni var liður með fyrirsögninni: „Lýsing kröfu“, þar sem sagði eftirfarandi: „Ofangreind krafa er andvirði þess hlutafjár að nafnvirði, sem framangreindur kröfuhafi var skráð fyrir skv. hlutaskrá Kaupþing banka hf þann 24.11.2008. Framangreint nafnverð hlutabréfanna að fjárhæð kr. 1.400 þ.e. uppreiknað stofnverð/kaupverð á sölugengi 1.284 ásamt dráttarvöxtum og kostnaði er ógreitt til kröfuhafa.“ Þess var krafist að krafan fengi notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Að því leyti, sem máli skiptir, var þar að öðru leyti eingöngu að finna sundurliðun á fjárkröfu varnaraðila, þar sem fram kom að „nafnverð hlutabréfa“ væri 1.400 krónur og „stofnverð/kaupverð á gengi 1.284“ væri 1.797.600 krónur. Við síðastgreinda fjárhæð var síðan bætt dráttarvöxtum frá 24. nóvember 2008 til 23. desember 2009, 377.496 krónum, innheimtuþóknun að fjárhæð 137.000 krónur, 16.900 krónum í þóknun fyrir ritun kröfulýsingar og 33.565 krónum í virðisaukaskatt, en alls nam krafan þannig 2.362.561 krónu. Í skrá um lýstar kröfur, sem slitastjórn sóknaraðila gerði, var kröfu varnaraðila hafnað. Með því að varnaraðili felldi sig ekki við þessa afstöðu til kröfu sinnar og ekki tókst að leysa ágreining um hana beindi sóknaraðili honum til héraðsdóms 11. febrúar 2011 og var mál þetta þingfest af því tilefni 11. maí sama ár.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk varnaraðili ítrekað fresti þar til hann lagði fram greinargerð af sinni hendi í þinghaldi 7. mars 2012, en í málinu er hann sóknaraðili í héraði. Í greinargerðinni var getið um áðurnefnd hlutabréfakaup varnaraðila á árinu 2002 og sagði að við „hrun bankans 8. október 2008 féllu hlutabréf hans og er fullyrt af varnaraðila að þau hafi orðið að engu þar með. Sóknaraðili andmælir þessum skilningi varnaraðila og krefst þess að litið verði á kröfur hans sem skaðabótakröfu á hendur bankanum, sem falli undir 113. gr. laga nr. 21/1991.“ Að þessu sögðu var gerð grein fyrir fjárhæð fyrrnefndrar kröfu varnaraðila, svo og tveggja varakrafa sem hann hafði uppi, en í því sambandi var tekið fram að gengið 1.284 á hlutabréfum hans tæki mið af viðskiptaverði þegar það hafi „hæst farið ... á árinu 2007 eða 2008“. Því næst var rakið að varnaraðili teldi tjón sitt hafa orðið „vegna bótaskyldrar hegðunar yfirmanna og stjórnenda“ sóknaraðila, sem voru nafngreindir þrír að tölu. Þessir stjórnendur hafi sýnt af sér „ólögmætt atferli“ af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, varnaraðili hafi orðið fyrir tjóni „í formi glataðra hlutabréfa ásamt innheimtukostnaði og vöxtum“ og hafi þetta tjón verið fyrirsjáanleg og sennileg afleiðing saknæmrar hegðunar stjórnendanna. Sóknaraðili bæri vinnuveitendaábyrgð á tjóninu. Þess var og getið að varnaraðili hafi ekki verið fagfjárfestir og hafi hann því átt rétt á „leiðsögn og raunsönnum upplýsingum um rétta fjárhagsstöðu bankans allan þann tíma, sem hann átti umrædd hlutabréf“, en slíks hafi hann ekki notið. Að öðru leyti geymdi greinargerð varnaraðila endursögn af nokkrum meginatriðum í ákæru, sem sérstakur saksóknari gaf út 16. febrúar 2012 á hendur þeim þremur stjórnendum Kaupþings banka hf., sem áður var getið, ásamt einum manni öðrum vegna ætlaðra brota þeirra í september 2008 gegn nánar tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Eftir að sóknaraðili hafði lagt fram greinargerð í héraði krafðist varnaraðili þess í þinghaldi 26. júní 2012 að málinu yrði frestað í ótiltekinn tíma þar til endanleg niðurstaða yrði fengin í sakamálinu, sem höfðað var með ákærunni 16. febrúar sama ár. Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu og var málið munnlega flutt um ágreiningsefnið 30. ágúst 2012. Með hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila tekin til greina.

II

Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi er ekki frekar en að framan getur leitast við að skýra út hvernig þau ætluðu brot, sem talin eru hafa verið drýgð í september 2008 samkvæmt áðurnefndri ákæru frá 16. febrúar 2012, geti leitt til þess að hann eigi skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila, sem svari til gangverðs „á árinu 2007 eða 2008“ á hlutabréfum í forvera sóknaraðila, sem varnaraðili keypti á árinu 2002. Þegar af þessum sökum getur ekki komið til álita að beita undantekningarheimild í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, til að fresta máli þessu þar til niðurstaða verður fengin í sakamálinu, sem hér um ræðir. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að eins og ráðið verður af því, sem að framan greinir, varð aðfinnsluverður dráttur á rekstri þessa máls fyrir héraðsdómi áður en hinn kærði úrskurður gekk.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Jens Bernward Guðjónsson, greiði sóknaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2012.

Mál þetta, sem þingfest var 11. maí 2011, var tekið til úrskurðar 30. ágúst sl., um kröfu sóknaraðila um ,,að aðalmeðferð verði frestað eða fari ekki fram fyrr en niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun varnaraðila liggur fyrir, eða eftir atvikum að niðurstaða í refsimálum svo sem sakamálinu nr. S-127/2012 liggur fyrir“. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts að mati dómsins, í þessum þætti málsins.

Sóknaraðili er Jens Bernward Guðjónsson, Arnartanga 43, Mosfellsbæ.

Varnaraðili er Kaupþing banki hf.

Varnaraðili mótmælir því að aðalmeðferð verði frestað þar til niðurstaða ofangreinds sakamáls liggi fyrir. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins.

Málsatvik

Hinn 9. október 2008 sagði stjórn varnaraðila af sér og með vísan til ákvæða laga nr. 125/2008 skipaði Fjármálaeftirlitið bankanum skilanefnd. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila 28. desember 2009 og með bréfi dags. 4. júní 2010 var kröfu sóknaraðila hafnað. Fundur til að jafna ágreining var haldinn 3. febrúar 2011. Þar sem ekki reyndist unnt að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar var ágreiningsefninu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Sóknaraðili krefst viðurkenningar á því að aðalkrafa hans að fjárhæð 2.362.561 króna verði viðurkennd sem almenn krafa í bú varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Telur sóknaraðili sig hafa orðið fyrir tjóni sem nemi umræddri fjárhæð og falli krafan undir 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Til vara gerir sóknaraðili þá kröfu að ,,hlutafjárkrafa“ hans að fjárhæð 1.797.600 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Einnig er þess krafist að kostnaður og dráttarvextir að fjárhæð 564.961 krónur falli undir eftirstæða kröfu, samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.

Til þrautavara er þess krafist að ,,hlutafjárkrafa“ sóknaraðila að nafnverði 1.400 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er krafist viðurkenningar á því að gengismunur, vextir og kostnaður af innheimtu að fjárhæð 2.362.561 króna falli undir eftirstæða kröfu.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Ágreiningur í þessum þætti málsins snýr að því hvort þau atvik séu uppi í máli þessu að rétt sé að fresta aðalmeðferð málsins þar til niðurstaða sakamálsins nr. S-127/2012: Ákæruvaldið gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Ólafi Ólafssyni og Magnúsi Guðmundssyni, liggur fyrir.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður kröfu sína vera skaðabótakröfu og sé tjón hans að rekja til bótaskyldrar hegðunar yfirmanna og stjórnenda varnaraðila, þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Magnúsar Guðmundssonar. Tjón sóknaraðila sé sennileg afleiðing af hinu saknæma atferli stjórnarmanna varnaraðila. Varnaraðili beri vinnuveitandaábyrgð á umræddum stjórnarmönnum og saknæmri hegðun þeirra. Gefin hafi verið út ákæra á hendur ofangreindum stjórnarmönnum sóknaraðila vegna meintra umboðssvika.

Í þessum þætti málsins sem snýr að því hvort fallast beri á að fresta aðalmeðferð málsins í tilefni af því að höfðað hafi verið sakamál á hendur fyrrum stjórnarmönnum sóknaraðila, hefur sóknaraðili bent á dóma Hæstaréttar í málum nr. 188/2012 og 679/2011 til stuðnings kröfu sinni, sem hafi fordæmisgildi í máli þessu. Hann kveður að engin niðurstaða geti fengist í þetta mál fyrr en niðurstaða fáist í refsimál á hendur fyrirsvarsmönnum Kaupþings. Þá bendir sóknaraðili á að vera kunni að ný gögn berist frá sérstökum saksóknara sem styðji málstað sóknaraðila.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili hefur krafist þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Í þessum þætti málsins hefur varnaraðili krafist þess að aðalmeðferð málsins verði ákveðin sem allra fyrst og málskostnaður ákvarðaður í þessum þætti málsins. Varnaraðili bendir á að krafa sóknaraðila um ótilgreindan frest sé í andstöðu við 177. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, þar sem hraða beri meðferð þessara mála. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila. Ekki hafi verið sýnt fram á neinar ástæður sem réttlætt geti frávik frá þeirri reglu sem fram komi í 177. gr. laga um gjaldþrotaskipti

Þá verði sóknaraðili að sýna fram á að úrslit máls nr. S-127/2012 hafi verulega þýðingu fyrir mál þetta, en meint tjón sóknaraðila verði ekki rakið til þeirra atriða sem ákært er fyrir í því máli. Erfitt sé að átta sig á hvernig niðurstaða í því sakamáli  varði kröfur sóknaraðila í máli þessu, sem byggi á virði hlutabréfa eftir fall Kaupþings. Varnaraðili bendir á að verulegur vafi leiki á því að úrslit títtnefnds sakamáls hafi nokkra þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls, en sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að svo sé. Þá bendir varnaraðili á að það sé í andstöðu við 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 177. gr. laga um gjaldþrotaskipti að veita ótilgreindan frest. Varnaraðili kveður að sóknaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra atriða sem ákært er fyrir.

Niðurstaða

Samkvæmt 177. gr. laga nr. 21/1991 skal hraða meðferð mála sem þessara eins og kostur er. Eðli þess máls sem hér er til úrlausnar er þó með þeim hætti að það er ekki frábrugðið venjulegu einkamáli og gilda því hliðstæð sjónarmið um málshraða og fresti og um væri að ræða mál sem farið væri með samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Í 3. mgr. 102 gr. laga nr. 91/1991 er kveðið svo á um að fresta megi einkamáli ef úrslit sakamáls sem höfðað hefur verið geti skipt verulegu máli um úrslit einkamálsins.

Fyrir liggur að höfðað hefur verið sakamál á hendur tilgreindum fyrrum stjórnarmönnum varnaraðila og kveður sóknaraðili tjón það sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í varnaraðila stafa af saknæmri hegðun þessara stjórnarmanna, en þeir hafa í máli nr. S-127/2012 m.a. verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun. Sóknaraðili byggir þannig á því að úrslit sakamálsins skipti verulegu máli fyrir úrslit þess máls sem hér er til úrlausnar.

Til stuðnings þeirri kröfu sinni að aðalmeðferð máls þessa verði frestað, hefur sóknaraðili bent á dóm Hæstaréttar í máli nr. 188/2012, sem upp var kveðinn 2. apríl 2012, þar sem málsatvik eru sambærileg og í þessu máli. Í því máli var byggt á sömu málsástæðum af hálfu sóknaraðila og í máli þessu, þ.e. að fyrirsvarsmenn varnaraðila hafi orðið uppvísir að markaðsmisnotkun, sem leitt hafi til tjóns fyrir sóknaraðila og var skaðabótakröfu vegna þess meinta tjóns lýst í bú varnaraðila, líkt og gert hefur verið í þessu máli. Niðurstaða dómsins var að úrslit þess máls gætu að verulegu leyti ráðist af því hvort markaðsmisnotkun af hálfu varnaraðila teldist sönnuð. Þar sem málsatvik og málsástæður sóknaraðila eru alveg sambærilegar í málum þessum verður ekki komist hjá því að líta til fordæmisgildis ofangreinds hæstaréttardóms og verða við kröfu sóknaraðila um að máli þessu verði frestað þar til niðurstaða í sakamáli nr. S-127/2012 liggur fyrir, en ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Aðalmeðferð máls þessa er frestað þar til niðurstaða í sakamálinu nr. S-127/2012 liggur fyrir. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.