Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Mánudaginn 30. apríl 2012. |
|
Nr. 266/2012.
|
Kristrún Grétarsdóttir (Sigurður Gizurarson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Stefna. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli K á hendur T og Í var vísað frá dómi að því er varðar Í vegna galla á málatilbúnaði K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi að því er íslenska ríkið varðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðallega lagt fyrir héraðsdómara að dómtaka málið gagnvart varnaraðilanum íslenska ríkinu, en til vara að taka málið að því leyti til efnismeðferðar. Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að málskostnaður í héraði úr sinni hendi til þessa varnaraðila verði felldur niður eða lækkaður. Gagnvart varnaraðilanum Tryggingastofnun ríkisins krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði látinn standa óraskaður um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur úr hendi varnaraðilans. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Tryggingastofnun ríkisins gerir enga kröfu fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum íslenska ríkinu kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti fellur hann niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Kristrún Grétarsdóttir, greiði varnaraðila íslenska ríkinu 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2012.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 7. mars 2012 var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar 2011. Sakaukastefna í málinu var þingfest 18. október 2011.
Málið var upphaflega höfðað af Kristrúnu Grétarsdóttur, Skaftahlíð 34 í Reykjavík, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík, og íslenska ríkinu.
Með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2011 var málið, vegna útivistar, dómtekið á hendur stefnda íslenska ríkinu en jafnframt var dómkröfum stefnanda á hendur íslenska ríkinu vísað frá dómi ex officio. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 29. júlí 2011 í máli nr. 370/2011var kröfum stefnanda á hendur íslenska ríkinu vísað frá héraðsdómi.
Við fyrirtöku í máli þessu 18. október 2011 lagði stefnandi fram sakaukastefnu á hendur íslenska ríkinu. Af hálfu íslenska ríkisins var mætt í málinu og óskað eftir fresti til greinargerðar í sakaukasök. Stefnandi mótmælti því að frestur yrði veittur. Með úrskurði uppkveðnum 11. nóvember 2011 var sakaukastefnda veittur frestur til greinargerðar til 25. nóvember. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi uppkveðnum 9. desember 2011 í máli nr. 631/2011 vísaði Hæstiréttur kærunni frá.
Við fyrirtöku í máli þessu 11. nóvember 2011, sem boðuð var vegna uppkvaðningar framangreinds úrskurðar, var ekki sótt þing af hálfu frum- og sakaukastefnanda. Boðað hafði verið til fyrirtökunnar með tölvupósti til lögmanns frum- og sakaukastefnanda eins og tíðkanlegt er. Í ljós kom í framhaldi af fyrirtökunni að lögmaðurinn hafði ekki staðfest móttöku boðunarinnar með svarpósti og hefur hann síðar haldið því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um boðunina fyrr en daginn eftir fyrirtökuna. Um formlega útivist af hálfu frum- og sakaukastefnanda var því ekki að ræða.
Greinargerð stefnda í sakaukasök var lögð fram 19. janúar 2012. Sakaukastefnandi mótmælti framlagningu greinargerðarinnar. Dómari hafnaði mótmælunum og heimilaði framlagninguna með svofelldum rökstuðningi:
Með úrskurði uppkveðnum 11. nóvember 2011 var sakaukastefnda, íslenska ríkinu, veittur frestur til 25. nóvember 2011 til að skila greinargerð í sakaukasök. Sakaukastefnandi skaut þeim úrskurði til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2011. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 631/2011, uppkveðnum 9. desember 2011 var kærumálinu vísað frá Hæstarétti. Framlagningu greinargerðar af hálfu sakaukastefnda við fyrirtöku málsins þann 25. nóvember var frestað með vísan til 3. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til framangreinds úrskurðar dómara frá 11. nóvember 2011 og þess sem rakið hefur verið um frestun á framlagningu greinargerðar þann 25. nóvember er sakaukastefnda íslenska ríkinu heimilt að leggja fram greinargerð við fyrirtöku málsins nú, sbr. 1. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991. Mótmælum gagnaukastefnanda við framlagningu greinargerðarinnar er því hafnað.
Kröfur aðila
Dómkröfur stefnanda í frumsök á hendur stefndu, Tryggingastofnun ríkisins, eru þær aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 3.149.933 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2010 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.484.787 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags.
Til vara vara krefst stefnandi þess ennfremur til vara að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.484.787 krónur með skaðabótavöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2007, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Jafnframt krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefnda beri bótaskyldu á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vaxta og tapaðra vaxta, vegna greiðsludráttar á umstefndri kröfu, að því hámarki sem lög heimili.
Til þrautavara krefst stefnandi að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum þess að hann hafi þurft að leggja í kostnað vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins hafi hafnað að hann uppfyllti það skilyrði í lögum til heimilisuppbótar, að njóta ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, ásamt að stefnda beri bótaskyldu er nemi fjárhæð vaxta að því hámarki er lög leyfi hverju sinni, af fjárhæð bótakröfu sem stefnandi fái til sín, með því að ofangreind krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda verði tekin til greina, frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, annað hvort skv. málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Í sakaukasök gerir sakaukastefnandi eftirgreindar dómkröfur á hendur, sakaukastefnda, íslenska ríkinu:
Aðallega : Að stefnda íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 3.149.933, með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. desember 2010 til greiðsludags.
Til vara : Að stefnda íslenska ríkið verði in solidum með Tryggingastofnun ríkisins, dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 3.149.933, með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá, 28. desember 2010 til greiðsludags.
Til vara vara : Að stefnda íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 1.484.787 með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags.
Til vara vara vara : Að stefnda íslenska ríkið verði in solidum með Tryggingastofnun ríkisins, dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 1.484.787 með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags.
Til þrauta vara : Að stefnda íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 1.484.787 með skaðabótavöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2007, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Til þrauta þrauta
vara : Að stefnda íslenska ríkið verði in solidum með Tryggingastofnun ríkisins, dæmt til að greiða stefnanda,
Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 1.484.787 með skaðabótavöxtum,
samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24.
janúar 2007 til 10. desember 2007, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt
1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Til frekari þrauta þrauta vara : Að stefnda íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda, Kristrúnu Grétarsdóttur, krónur 1.484.787, með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. desember 2007 til greiðsludags. Jafnframt er krafist að viðurkennt verði að stefnda íslenska ríkið beri bótaskyldu á tjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna vaxta og tapaðra vaxta, vegna greiðsludráttar á umstefndri kröfu, að því hámarki sem lög heimila og til vara að viðurkennt verði að stefnda íslenska ríkið beri in solidum með Tryggingastofnun ríkisins, þessa sömu bótaskyldu.
Til enn og frekari þrauta þrauta vara krefst stefnandi að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, á tjóni sem stefnandi varð fyrir sökum þess að hann þurfti að leggja í kostnað vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins hafnaði að hann uppfyllti það skilyrði 9. gr. laga nr. 118/1993 til heimilisuppbótar, að njóta ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, ásamt að stefnda beri bótaskyldu er nemi fjárhæð vaxta að því hámarki er lög leyfa hverju sinni, af fjárhæð sem stefnandi getur fengið sér dæmda frá stefnda ísl. ríkinu í framhaldi þess að ofangreind krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda ríkisins verði tekin til greina, frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags. Hér til vara að viðurkennt verði að stefnda ísl. ríkið beri in solidum með Tryggingastofnun ríkisins sömu bótaskyldu og greinir í síðastgreindri enn og frekari þrauta þrauta vara kröfu.
Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, íslenska ríkinu, að mati réttarins eða skv. málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað, en til vara er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður og til vara vara lágmarkaður.
Þess er krafist að málið verði aftur dómtekið, skv. 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi í frumsök, Tryggingastofnun ríkisins, krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara krefst stefndi í frumsök þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi í sakaukasök, íslenska ríkið, krefst aðallega frávísunar sakaukastefnu frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Í þessum þætti málsins eru til meðferðar kröfur stefndu í frumsök og sakaukasök um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi í frumsök og sakaukasök krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hrundið og honum tildæmdur hæfilegur málskostnaður að mati dómsins.
Atvik máls
Með bréfi dagsettu 27. júlí 2005 tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins stefnanda, að hún uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkulífeyri, frá og með 1. janúar 2005. Þann 22. ágúst 2005 sótti stefnandi um heimilisuppbót hjá stofnuninni. Tryggingastofnun ríkisins hafnaði beiðninni með bréfi dagsettu 9. september 2005 með þeim rökum að þar sem dóttir stefnanda væri skráð til heimils á sama stað og stefnandi og væri öryrki, uppfyllti stefnandi ekki það skilyrði 9. gr. laga nr. 118/1993 um almannatryggingar og reglugerðar nr. 595/1997, fyrir greiðslu heimilisuppbótar, að vera ein um heimilisrekstur. Stefnandi fór þess á leit við Tryggingastofnun með bréfi dagsettu 3.október 2005 að framangreind synjun yrði endurupptekin. Með bréfi dagsettu 11. nóvember 2005 synjaði Tryggingastofnun stefnanda á ný um heimilisuppbót með vísan til fyrri rökstuðnings og þar sem engin ný gögn hefðu verið lögð fyrir Tryggingastofnun sem staðfestu fullyrðingu stefnanda um að hún nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli við dóttur sína. Með bréfi til Tryggingastofnunar 9. febrúar 2006 fór stefnandi þess enn á leit við stofnunina að hún endurskoðaði fyrri ákvörðun um að synja stefnanda um greiðslu heimilisuppbótar en vísaði málinu annars til Úrskurðarnefndar almannatrygginga. Úrskurðarnefnd almannatrygginga kvað upp úrskurð í málinu 29. mars 2006, sbr. mál nr. 48/2006, og var niðurstaða nefndarinnar að aðstæður stefnanda hefðu ekki verið rannsakaðar nægilega af Tryggingastofnun. Var synjun stofnunarinnar á umsókn stefnanda um heimilisuppbót felld úr gildi og málinu heimvísað til nýrrar meðferðar. Þann 10. maí 2006 ritaði Tryggingastofnun stefnanda bréf með vísan til niðurstöðu Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 29. mars. Með bréfinu var stefnanda gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og upplýsingum áður en ákvörðun yrði tekin í máli hennar. Stefnandi svaraði þessu erindi Tryggingastofnunar með bréfi dagsettu 29. maí 2006 og fylgdu því m.a. yfirlýsingar prests og læknis, þar sem fram kom að mat þeirra væri að stefnandi nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli með dóttur sinni. Tryggingastofnun taldi framangreind gögn ekki staðfesta fullyrðingar stefnanda um að hún nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli með dóttur sinni og veitti stefnanda með bréfi dagsettu 7. júní 2006 viðbótarfrest til að leggja fram gögn sem staðfestu að fjárhagslegt hagræði væri ekki til staðar. Stefnanda ritaði Tryggingastofnun bréf 23. júní 2006. Í bréfinu var með vísan til fyrirliggjandi gagna ítrekað að stefnandi nyti ekki sambýlis við aðra manneskju. Tryggingastofnun ritaði stefnanda bréf 22. ágúst 2006 og voru í því talin upp í dæmaskyni þau gögn sem kynnu að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Var stefnanda veittur þriggja vikna frestur til að koma að nýjum gögnum. Með bréfi 21. september 2006 tilkynnti Tryggingastofnun stefnanda að umsókn hennar um greiðslu heimilisuppbótar væri synjað þar sem hún uppfyllti ekki það skilyrði laga- og reglugerðarákvæða, fyrir greiðslu heimilisuppbótar, að vera ein um heimilisrekstur. Stefnandi kærði ákvörðun Tryggingastofnunar 18. október 2006 til Úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þann 29. nóvember 2006 kvað Úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu, sbr. mál nr. 282/2006, og var niðurstaðan að stefnandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar frá og með 1. september 2005, þar sem að hún nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af nábýli við dóttur sína. Kröfu stefnanda um vexti, verðbætur og málskostnað var vísað frá nefndinni. Þann 28. desember 2006 fór stefnandi þess á leit við Tryggingastofnun að hún fengi greidda óskerta uppsafnaða heimilisuppbót fyrir n.k. áramót. Með bréfi dagsettu 29. desember 2006 tilkynnti Tryggingastofnun stefnanda að vegna tekna á árunum 2005 og 2006 ætti hún ekki rétt til heimilisuppbótar fyrir þessi ár. Hins vegar ætti hún rétt á heimilisuppbót frá og með 1. janúar 2007. Með bréfi Tryggingastofnunar 8. október 2007 gerði stofnunin stefnanda að endurgreiða meintar ofgreiddar bætur vegna ársins 2006. Stefnandi kærði þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar almannatrygginga 11. desember 2007, jafnframt því sem stefnandi gerði athugasemdir við framangreinda ákvörðun Tryggingastofnunar frá 29. desember vegna heimilisuppbótar. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 12. mars 2007, sbr. mál nr. 319/2007. Staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu á hendur stefnanda vegna ofgreiddra bóta á árinu 2006 og synjun á greiðslu heimilisuppbótar vegna áranna 2005 og 2006, vegna tekna stefnanda á þessum árum. Í málinu liggur fyrir reikningur Hönduls ehf. til stefnanda dagsettur 16. janúar 2007, að fjárhæð 1.484.787 krónur. Af reikningnum kemur fram að hann sé fyrir vinnu vegna Tryggingastofnunar ríkisins og er vísað til meðfylgjandi gagna til nánari skýringa. Í þeim kemur fram að um sé að ræða vinnu vegna málatilbúnaðar og bréfaskipta við Tryggingastofnun og vinnu við kærumál nr. 48/2006 og 282/2006. Reikningurinn mun hafa borist Tryggingastofnun 24. janúar 2007. Tryggingastofnun endursendi Höndli ehf. reikninginn með bréfi dagsettu 31. janúar 2007 með þeirri athugasemd að engin heimild væri samkvæmt almannatryggingalögum til að greiða reikninginn. Með bréfi dagsettu 10. desember 2007 fór stefnandi þess á leit við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að það hlutaðist til um greiðslu reikningsins. Með bréfi dagsettu 15. janúar framsendi ráðuneytið erindi stefnanda frá 10. desember 2007 til Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, með vísan til breytinga á ýmsum lögum um verkefni innan Stjórnarráðs Íslands. Með bréfi dagsettu 12. febrúar 2008 endursendi Félags- og tryggingamálaráðuneytið framangreint erindi til Heilbrigðisráðuneytisins, til þóknanlegra afgreiðslu, eins og það er orðað.
Málsástæður stefnanda skv. frumstefnu og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því að
hún, sem úrskurðuð hafi verið öryrki á árinu 2005, hafi ekki átti að þurfa að stofna til
sérstaks kostnaðar við að sanna að hún uppfylli skilyrði til bótagreiðslna skv.
almannatryggingalögum
nr. 117/1993, sbr. nú lög nr. 100/2007, og lögum nr. 118/1993 um félagslega
aðstoð. Þar sem Tryggingastofnun hafi hins vegar orðið þess valdandi að hún
hafi ekki komist hjá að kaupa út vinnu í þessu skyni, þá sé á því byggt að í
reynd sé það þannig að Tryggingastofnun hafi stofnað til hlutaðeigandi
kostnaðar og að Tryggingastofnun hafi þá einnig borið að greiða þann kostnað. Að auki sé á því byggt
að Tryggingastofnun, þ.e. þáverandi forstjóri
Tryggingastofnunar, Karl Steinar Guðnason, hafi lýst því yfir og lofað að allur
kostnaður stefnanda, af hér viðkomandi ágreiningi við Tryggingastofnun,
yrði greiddur af stofnuninni, ef í ljós kæmi að mat Tryggingastofnunar í hennar
málum reyndist rangt. Stefnandi hafi treyst þessum orðum forstjórans. Á því sé
og byggt að stefnandi hafði ekki haft efni á
að ná fram samþykkt þess efnis að hún uppfyllti skilyrði til heimilisuppbótar og að hún hefði ekki tekið slaginn þar um
nema vegna loforðs um að
Tryggingastofnun myndi greiða af því kostnaðinn Auk þess sé byggt á að eðlilegt
sé að Tryggingastofnun greiði kostnað
sem reynst hafi nauðsynlegur til leiðréttinga á skilningi stofnunarinnar um
beitingu ákvæða laga varðandi
skilyrði fyrir bótagreiðslum eins og hér um ræði. Jafnframt sé byggt á
að leiðrétting, sem hér um ræði, snúi ekki einvörðungu að stefnanda heldur sé hún einnig almenns eðlis, þannig að hún
muni í framhaldi leiða til réttlátari og farsælli afgreiðslu
Tryggingastofnunar varðandi afstöðu stofnunarinnar til bótaréttar, öryrkja og
aldraðra, við svipaðar kringumstæður. Það
að Tryggingastofnun hafi ekki leitað endurskoðunar dómstóla á úrskurði
Úrskurðarnefndar almannatrygginga, skv. heimild 3. mgr. 7. b. gr.
þágildandi laga nr. 117/1993, sé sönnun þess að Tryggingastofnun hafi viðurkennt þessa leiðréttingu sem stefnandi hafi
náð fram, með þeim kostnaði sem hér um ræði, sem þarfaverk til
réttmætrar leiðréttingar á viðkomandi afstöðu og skilningi Tryggingastofnunar. Einnig sé á
því byggt að ekki sé hægt að leggja það á einstaka bótaþega að fjármagna sambærilegt og hér um ræði. Stefnandi hafi sótt, skv. leiðbeiningum
Tryggingastofnunar og án kostnaðar, um heimilisuppbót en fengið synjun með þeim rökum frá Tryggingastofnun að hún
uppfyllti ekki skilyrði, þar sem hún nyti hagræðis af sambýli. Stefnandi hafi óskað, án kostnaðar, eftir
endurupptöku á umsókn en aftur fengið synjun og rökin þá einnig þau sömu af hálfu Tryggingastofnunar. Skýrt komi þó
fram í umsóknarferli hjá stefnanda að
hún hafi verið ein um heimilisrekstur og ekki notið fjárhagslegs hagræðis af
sambýli. Auk þess sé byggt á að
Tryggingastofnun hafi haft hjá sér gögn, m.a. skýrslur og vottorð lækna og
fleiri gögn sem hafi verið óræk
sönnun þess að stefnandi hafi sagt Tryggingastofnun rétt og satt frá, að hún
naut einskis fjárhagslegs eða annars
hagræðis af dóttur sinni. Þrátt fyrir þessar upplýsingar stefnanda og þau gögn
sem Tryggingastofnun hafi haft hjá sér, um stefnanda og dóttur hennar, hafi
Tryggingastofnun samt haldið hinu gangstæða fram og synjað enn, án þess að sinna ótvíræðri skyldu og lagaskyldu að
kanna eða rannsaka mál. Byggt sé á að
vegna þessa hafi stefnandi ekki komst hjá að kaupa sér aðstoð til að sýna fram
á að hún uppfyllti þau atriði sem Tryggingastofnun hafi haldið fram að
hún uppfyllti ekki. Með tveimur úrskurðum Úrskurðarnefndar almannatrygginga
hafi verið leitt í ljós að stefnandi hafi haft rétt fyrir sér en
Tryggingastofnun ekki. Þetta hafi kostað stefnanda það sem í dómkröfum sé farið
fram á. Einnig sé á því byggt að stefnandi
hafi á tímanum sem um ræði verið fjölsjúk og fársjúk, sárþjáð og yfirbuguð af kvíða og sorg.
Samkvæmt því hafi borið að virða 1. mgr. 76. gr.
stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, en þar segi „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar
vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar
og sambærilegra atvika." Líta
verði einnig svo á að þetta mannúðarákvæði stjórnarskrár nái einnig til
aðstoðar í þeim tilvikum sem hér um ræði, með því að stefnandi fái dómkröfu
dæmda og greidda. Byggt sé á að krafan um greiðslu kostnaðar, sem dómkröfur
taki til, hafi í engu verið mótmælt
af hlutaðeigandi opinberum aðilum, hvorki af Tryggingastofnun né af ráðuneytum,
og að bæði krafan og fjárhæð
kostnaðar hafi þá einnig með aðgerðarleysi verið samþykkt. Því hafi
heldur ekki verið mótmælt, sem haldið sé fram í fylgibréfi, sem stefnandi hafi
sent Tryggingastofnun ásamt reikningi frá
Höndli ehf., en þar sé því lýst yfir að Tryggingastofnun hafi stofnað
til og beri ábyrgð á kostnaði að baki reikningnum og þá sé það einnig ígildi viðurkenningar greiðsluábyrgðar að gera enga
athugasemd. Í bréfi Tryggingastofnunar samhliða að stofnunin endursendi
reikninginn sé því einu borið við að ekki sé heimild í almannatryggingarlögum til að greiða hann. Byggt sé þá einnig á að
Tryggingastofnun hafi hér gefið þau skilaboð
og samþykkt að krafan væri réttmæt en að beina þyrfti henni í annað opinbert
hús upp á greiðslu að gera. Eftir þetta hafi krafan þvælst á milli
ráðuneyta. Ekkert svar hafi fengist um hvað
liði efndum þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir, áminningar, óskir og kröfu í því skyni að sá kostnaður sem reikningurinn taki
til fáist bættur og greiddur. Byggt sé á að fullnægjandi rökstuðningur fyrir kröfu stefnanda í ljósi reiknings sé
m.a. í bréfinu og fylgiskjölum sem
fylgt hafi reikningnum til Tryggingastofnunar 24. janúar 2007. Að auki sé
vísað til bréfs stefnanda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins undir
yfirskriftinni „Vegna ógreiddur
reikningur", dagsetts 10. desember 2007, sem ráðuneytið hafi móttekið samhliða að móttaka reikning og fylgiskjöl.
Stefnda, Tryggingastofnun og ráðuneytin hafi ekki óskað eftir frekari
rökstuðningi fyrir kröfunni. Jafnframt, hvað þetta varði, sé vísað til fjölda
annarra bréfa dreifðra um þann tíma sem
liðinn sé. Byggt sé á að Tryggingastofnun og ráðuneyti hafi borið að leiðbeina
stefnanda hafi hún ekki farið rétt eða þóknanlega að því að óska eða krefja
þessa aðila um greiðslu á nú umstefndum
kostnaði. Byggt sé á að kostnaður er um ræði, að baki hlutaðeigandi
reikningi, sé ennfremur til kominn vegna
þess að Tryggingastofnun hafi ekki gætt ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993,
m.a. ekki 7., 9., 10., 11., 12. og 25. gr. þeirra laga og einnig vegna þess að
Tryggingastofnun hafi brotið ákvæði laga
nr.
118/1993 um félagslega aðstoð, m.a. ákvæði 9. gr. þeirra laga, ásamt að virða
ekki stjórnarskrá Íslands og ekki
heldur meginreglur og tilgang almannatryggingalaga. Stefnandi reisi kröfur
sínar um skaðabætur m.a. á eftirfarandi atriðum til viðbótar ofangreindu. Við meðferð umsóknar stefnanda um heimilisuppbót
hafi Tryggingastofnun rangtúlkað og misbeitt á saknæman hátt viðeigandi lagaákvæði með þeim afleiðingum að stefnandi hafi orðið að leggja í þann kostnað sem í
dómkröfu greini, í þeim tilgangi að fá skorið
úr um réttarstöðu sína. Niðurstaðan hafi orðið sú að stefnandi hefði haft rétt
fyrir sér en Tryggingastofnun rangt, sbr. einnig m.a. úrskurð
Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 282/2006, 29. nóvember 2006. Fyrir þessar sakir hafi stefnandi orðið jafnframt
fyrir miklu erfiði, miska og raunum. Samhliða
hér umræddu hafi Tryggingastofnun einnig brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Tryggingastofnun hafi ekki sinnt
lagaboði við hæfismat á rétti til uppbótar og ekki í framhaldi viljað samsinna réttmætum ábendingum þar um, né heldur
þeim skjalföstu staðreyndum sem stofnunin sjálf hafi haft hjá sér um
hagi stefnanda og dóttur hennar.
Skv. 13. gr. stjórnsýslulaga hafi átt að leita eftir sjónarmiðum stefnanda
áður en Tryggingastofnun hafi í upphafi tekið ákvörðun þá sem leitt hafi til
synjunar á heimilisuppbót til hennar. Byggt sé á að afstaða Tryggingastofnunar hefði orðið önnur, ef þetta hefði verið gert
og að Tryggingastofnun hafi m.a. valdið stefnanda hér umstefndu tjóni með því
að ganga m.a. fram hjá þessum rétti hennar. Á það sé ekki fallist að það
hafi verið augljóslega óþarft að veita henni færi á að tjá sig nánar á fyrri stigum máls þessa. Í ljósi lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði synjun um lögmæta
samfélagsaðstoð auk þess að hafa fullnægjandi stoð í lögum og vera
málefnaleg. Þá verði ástæður synjunar að vera
það skýrar að efni til að sá sem fyrir verði geti lagt mat á lögmæti hennar,
ásamt að meta réttarstöðu sína með tillit til ástæðna synjunar og ákveðið
hvernig bregðast skuli við, m.a. ef
um það sé að ræða að uppfylla skilyrðið með nánari upplýsingum og útlistun.
Fram hafi komið í rökstuðningi
stefnanda á fyrstu stigum að aðstæður væru það bágar hjá henni og dóttir hennar
að engin leið væri til að uppfylla það sem Tryggingastofnun hafi ranglega gert
að skilyrði fyrir heimilisuppbót.
Byggt sé á að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við lög og
vandaða stjórnsýsluhætti. Byggt sé á að
Tryggingastofnun hafi jafnframt brotið gegn meðalhófsreglu m.a. með því að skilyrða
uppbótina til stefnanda meira
íþyngjandi en nauðsynlegt hafi verið, hvað varði að fullnægt væri markmiðinu að fyrirbyggja að
viðkomandi heimild laganna um heimilisuppbót væri misnotuð. Þá byggi stefnandi skaðabótakröfu jafnframt á því
að synjun Tryggingastofnunar hafi verið andstæð lögum eins og málið hafi legið fyrir, þegar um umsókn
hafi verið fjallað, ásamt að gallar á málsmeðferð, efnislegir og formlegir, við afgreiðslu
Tryggingastofnunar á umræddri umsókn, hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi og afgreiðslu, er valdið hafi
því að stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni sem í dómkröfum stefnunnar greini. Augljóst sé að bein
orsakatengsl séu milli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna
Tryggingastofnunar við afgreiðslu á umsókn stefnanda og þess að hún hafi
stofnað til réttmæts kostnaðar í því skyni
að framfylgja umsókn og hafi orðið fyrir samsvarandi tjóni í formi kostnaðar, sem Tryggingastofnun
eigi alla sök á og sé bótaskyld fyrir. Á Tryggingastofnun hafi hvílt skylda
til að rannsaka aðstæður stefnanda og taka út frá því afstöðu til umsóknar
hennar. Byggt sé á að Tryggingastofnun hafi ekki gert þetta á réttan hátt og
ekki á fullnægjandi
hátt. Byggt sé einnig á að það sé meginregla að sá sem sæki um bætur til
Tryggingastofnunar eigi ekki að þurfa aðkeypta aðstoð til að fá fram hjá
Tryggingastofnun rétta og réttláta niðurstöðu varðandi skilyrði fyrir
greiðslu heimilisuppbótar og að sá sem þess þarfnist og Tryggingastofnun sé um að kenna, eins og verið hafi í
tilviki stefnanda, eigi þann rétt að Tryggingastofnun eða ríkissjóður
endurgreiði honum slíkan kostnaðar, en ef ekki þá eigi eða eignist hann kröfu
til skaðabóta á hendur sömu aðilum.
Stefnandi byggi jafnframt á að hún hafi í góðri trú og ásetningi keypt sér
aðstoð til að fá skorið úr um réttindi, þannig að þau væru virt í ljósi
réttlætis og að lögum og að kostnað sinn því samfara fengi hún bættan. Samhliða að byggja á sök og saknæmi af hálfu
Tryggingastofnunar gagnvart stefnanda, þá
sé í málssókn þessari að auki byggt á hlutlægri bótaábyrgð og í því tilviki
m.a. haldið fram að óforsvaranlegt hafi verið hvernig Tryggingastofnun
hafi tekist til gagnvart stefnanda og staðið að þeirri málmeðferð og afgreiðslu
sem um ræði í stefnu. Byggt sé á að
Tryggingastofnun geti ekki úr þessu haldið fram að afgreiðslumáti hafi verið
eðlilegur og með þeim hætti að
stefnanda hafi verið óþarft að leita aðstoðar til að fá samþykkt að hún
uppfyllti skilyrði til heimilisuppbótar í ljósi heimilishalds, ásamt að byggt
sé á að stefnda hafi ekki heldur andmælt
fjárhæð kostnaðar og ekki heldur andmælt að bera ábyrgð á hér hlutaðeigandi kostnaði. Vegna þessa þurfi ekki að gera
frekari grein fyrir þessum þáttum máls. Áskilinn sé þó allur réttur til
að setja fram gögn, rök og málsástæður ásamt
að leiða vitni þessum atriðum til stuðnings, ætli stefnda í máli þessu
að andmæla að þessu leyti, auk þess sem byggt sé einnig á að slík andmæli af
hálfu stefnda séu nú allt of seint fram komin. Einnig hafi 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða verið brotin og skylda til
að upplýsa um hvað valdi afgreiðsludrætti m.a. Það athugist að stefnandi hafi ekki getað notfært sér kvörtunarleið til
Umboðsmanns Alþingis vegna tómlætis
af hálfu viðkomandi ráðuneyta að afgreiða ekki og svara ekki erindi hennar,
sem hér um ræði. Sú leið hefði þó verið henni bæði ódýrari kostur en dómstólaleiðin ásamt að þá hefði hún ekki átt á
hættu að fá dæmdan á sig málskostnað.
Jafnframt verði að líta svo á að stefndu sé um að kenna ef stefnandi sé
nú að stefna að ósekju og ef slík verði niðurstaðan þá væri auk þess
sanngjarnara að hún fengi dæmdan til sín málskostnað. Málshöfðun sé á grundvelli laga nr. 91/1991. Byggt sé á reglum
samninga- og kröfuréttar um loforð, um gildi loforða, um stofnun
kröfuréttar og efndir fjárskuldbindinga,
innan sem utan samninga. Kröfu um skaðabætur styðji stefnandi við meginregluna um
fébótaábyrgð ríkissjóðs vegna skaðaverka í stjórnsýslu og meginreglur
skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð, ásamt
við meginreglu íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum, ásamt að byggt sé á að stefnda beri
einnig hlutlæga ábyrgð. Auk þess við
skaðabótalög nr. 50/1993. Þá byggi stefnandi á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. ákvæðum 7., 9.,
10., 11., 12., 13., 22., 24. og 25. gr. þeirra laga, ásamt á stjórnarskrá Lýðveldis Íslands nr. 33/1944. M.a.
sé vísað til 1. mgr. 76. gr.
stjórnarskrárinnar. Vísað sé til almannatryggingalaga, nr. 117/1993, nú laga
nr. 100/2007 og laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Að auki sé byggt
á lögmætis- og réttmætisreglu íslensks
réttar og meginreglum laga um skuldbindingargildi stjórnvaldsákvarðana og stjórnsýslusamninga og gildi loforða.
Jafnframt sé höfðað til almenns réttlætis-,
sanngirnis- og mannúðarsjónarmiða. Að auki sé vísað til annarra þeirra réttarheimilda
og lagaákvæða er við geti átt. Kröfu um vexti, dráttarvexti og
skaðabótavexti styðji stefnandi
við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, m.a. 6. gr., 8. gr. og 9. gr. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI.
kafla laga nr. 91/1991. Varðandi
virðisaukaskatt sé byggt á lögum nr. 50/1988. Réttur til að krefjast dóms til viðurkenningar á bótaskyldu sé m.a.
studdur við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Við ákvörðun málskostnaðar til stefnanda, ef til komi, verði tekið
tillit þess að hann þurfi að greiða
virðisaukaskatt þar af, sem ekki fáist endurgreiddur.
Málsástæður stefnanda skv. sakaukastefnu og tilvísun til réttarheimilda
Sakaukastefnandi hefur í sakaukastefnu m.a. hvað málsástæður varðar vísað til framangreindra málsástæðna í frumstefnu. Er ekki ástæða til að endurtaka þær. Þá má greina eftirgreindar málsástæður í sakaukastefnu.
Sakaukastefnandi byggir
á því að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr.
91/1991 fyrir höfðun sakaukamáls séu uppfyllt með því að dómkröfur í sakaukasök
séu af sömu rót og vegna sömu atvika,
aðstöðu og löggernings og dómkröfur gegn Tryggingastofnun ríkisins í frumsök.
Sakaukastefnandi kveður dómkröfur í sakaukasök byggja á kostnaði sem stefnandi
hafi orðið fyrir vegna brots
Tryggingastofnunar ríkisins gegn ákvæðum 9. gr. laga nr. 118/1993 og kostnaði
sem stefnandi hafi orðið fyrir af málarekstri gegn Tryggingastofnun vegna
kærumála fyrir Úrskurðarnefnd almannatrygginga. Í ljós hafi komið að
Tryggingastofnun hafi haft rangt fyrir sér og telji stefnandi að henni beri réttur til að fá þennan kostnað greiddan eða
bættan sem sé tilkominn vegna saknæmrar og ólögmætrar afstöðu
Tryggingastofnunar ríkisins. Þá byggir stefnandi á því að Heilbrigðis- og
tryggingamálráðuneytinu, nú Velferðarráðuneytinu, hafi borið að hlutast til um
að stefnandi fengi umræddan kostnað greiddan og
byggi stefnandi á
að ráðuneytið hafi brotið á stefnanda m.a. með tómlæti, svarleysi,
vanrækslu á rannsókn og rökstuðningi, ásamt
að virða ekki meðalhóf
og jafnræði og veita ekki leiðbeiningar eða upplýsingar, ásamt að virða ekki
reglu um málshraða og þannig hunsa með öllum tiltækum reglu- og lagabrotum að afgreiða formlegt og margítrekað
erindi réttborins íslensks ríkisborgara. Þá hafi íslenska ríkið og ráðuneyti auk þess brotið á stefnanda stjórnsýslulög og stjórnarskrá. Þá byggir stefnandi á að íslenska
ríkinu hafi borið og beri að greiða stefnukröfuna en Tryggingastofnun ríkisins hafi upplýst að
stofnunin hefði ekki heimild né
ákvörðunarvald til að greiða en mótmæli ekki réttmæti né fjárhæð kröfunnar. Þá
sé á því byggt að ráðuneyti hafi ekki andmælt að beina hafi
átt kröfunni að ráðuneytinu. Málið sé því höfðað á hendur
íslenska ríkinu vegna vanefnda ráðuneytis á greiðslu umstefnda kostnaðar, ásamt
einnig vegna skaðabótaábyrgðar ríkisins vegna sama kostnaðar. Þá sé íslenska
ríkinu einnig stefnd við hlið Tryggingastofnunar ríkisins vegna
húsbóndaábyrgðar og að auki samábyrgðar. Íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð
á tjóni stefnanda á grundvelli meginreglunnar um fébótaábyrgð ríkis og
ríkissjóðs vegna saknæmra athafna og eða mistaka í
stjórnsýslu.
Málsástæður frumstefnanda og sakaukastefnanda í þessum þætti málsins
Frum- og sakaukastefnandi mótmælir öllum framkomnum málsástæðum frum- og sakaukastefndu fyrir frávísun málsins. Kröfugerð stefnanda í frum- og sakaukasök sé ekki reist á vanefnd Tryggingastofnunar, hvað varði greiðslu heimilisuppbótar, heldur ógreiddum kostnaði samkvæmt fyrirliggjandi reikningi Höldurs ehf., á hendur stefnanda, sem frum- og sakaukastefndu hafi í reynd neitað að greiða. Þá byggir stefnandi á því að skilyrði fyrir sakarauka séu til staðar, sbr. 3., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður frumstefndu í þessum þætti málsins
Frumstefndi byggir á því að kröfugerð og málsástæður í frumstefnu séu óljósar og ruglingslegar. Ekki sé ljóst hverjar dómkröfurnar séu, hvort verið sé að stefna vegna endurkröfu á reikningi eða hvort verið sé að stefna til greiðslu heimilisuppbótar, sem sé löngu frágengin eða verið sé að stefna til greiðslu skaðabóta vegna þess að stefndi hafi valdið stefnanda saknæmu tjóni eins og segi á einum stað í stefnunni. Stefnan feli auk þess í sér skriflegan málflutning. Telji stefndi stefnuna því ekki uppfylla kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að vísa eigi málinu frá dómi á grundvelli 100. gr. sömu laga.
Málsástæður sakaukastefnda í þessum þætti málsins
Sakaukastefndi byggir á því að í sakaukastefnu sé íslenska ríkinu að nýju stefnt til varnar í málinu, eftir að stefnandi hafi sjálf haft frumkvæði að því að málið yrði dómtekið á hendur því sökum útivistar. Frávísunarkrafa sakaukastefnda styðst í fyrsta lagi við að ekki sé fyrir hendi afsakanleg vanræksla stefnanda á því að hafa ekki sett fram þær dómkröfur og málsástæður sem hún nú setji fram í sakaukastefnu. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé heimilt að stefna nýjum aðila eftir þingfestingu máls til að svara til saka með þeim sem þegar hefur verið stefnt, ef stefnanda verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki stefnt nýja aðilanum áður en málið var þingfest. Í ljósi forsögu þessa máls og því að kröfur stefnanda á hendur sakaukastefnda hafa þegar verið dómteknar í aðalsök og vísað frá dómi á grundvelli vanreifunar fái sakaukastefndi ekki séð að stefnanda sé heimill sakarauki þannig að uppfylli lagaskilyrði 1. og 3. mgr. 19. gr. laga 91/1991. Sakaukastefndi telji að virða verði stefnanda það til vanrækslu að hafa ekki sett fram í frumsök þær kröfur og málsástæður sem hún vilji nú koma að í málinu á hendur sakaukastefnda. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi verið skýrð svo að ef sá galli sé á sakaraukningu að vanrækslu varnaraðila verði um kennt að málinu hafi ekki verið beint að sakaraukastefnda frá byrjun, verði að ganga út frá því að dómari gæti að þessu að sjálfsdáðum og vísi þá máli frá án kröfu, ef þannig standi á. Með sömu rökum krefjist sakaukastefndi þess að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um „varaaðild” á grundvelli 2. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Í forsendum framangreinds úrskurðar héraðsdóms sem kveðinn hafi verið upp í frumsök þann 23. maí 2011, komi fram að óljóst sé að hverju sé stefnt með aðild tilgreindra ráðuneyta, ríkissjóðs og íslenska ríkisins í málinu. Kröfugerð stefnanda, eins og hún hafi verið fram sett beinist eingöngu að stefnda Tryggingastofnun ríkisins. Ekki komi fram í stefnu á hvaða sjónarmiðum fjárkröfur séu reistar. Málsástæður stefnanda virðist allar beinast að stefnda Tryggingastofnun nema hvað því sé haldið fram að „ráðuneyti” hafi látið hjá líða að leiðbeina stefnanda varðandi fjárkröfur hans á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Málið sé því svo vanreifað hvað varði stefndu íslenska ríkið og tilgreind ráðuneyti og ríkissjóð að ekki hafi verið unnt að leggja efnisdóm á það og því vísað frá dómi ex officio. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 370/2011 segi m.a. að af kröfugerð stefnanda megi ráða að kröfum hennar hafi einungis verið beint að Tryggingastofnun ríkisins. Í stefnu væri ekki að finna skýringu á því hvers vegna íslenska ríkinu væri stefnt við hlið Tryggingastofnunar. Hæstiréttur hafi því talið aðild íslenska ríkisins til varnar vanreifaða og staðfest úrskurð héraðsdóms um að vísa kröfum stefnanda frá dómi. Það sé óumdeild staðreynd að íslenska ríkinu hafi verið stefnt í upphafi, en kröfugerð og aðild þess að málinu samhliða Tryggingastofnun verið svo vanreifuð af hálfu stefnanda að þeim kröfum hafi verið vísað frá dómi ex officio. Stefnandi geti ekki bætt úr þeirri vanreifun á aðild og kröfugerð með sakaukastefnu. Stefnandi hafi lagt grundvöll málsins með stefnu birtri 28. desember 2010 þar sem Tryggingastofnun og tilgreindum ráðuneytum, ríkissjóði og íslenska ríkinu hafi verið stefnt til að greiða stefnanda reikningskröfu. Sakaukastefndi telji það vera meginreglu íslensks einkamálaréttarfars að grundvöllur máls verði í upphafi málsmeðferðar að vera skýrt og greinilega markaður þannig að stefndi hafi færi á að bregðast við málsókninni með málefnalegum hætti. Þannig skapist skilyrði fyrir afdráttarlausri málsmeðferð og málflutningi. Óbirt sakaukastefna sem lögð hafi verið fram í þinghaldi þann 18. október 2011 brjóti gegn þessari meginreglu og telji stefndi því að vísa eigi sakaukamálinu frá dómi þegar af þeirri ástæðu, á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá telji sakaukastefndi að vísa eigi sakaraukastefnu frá dómi á grundvelli 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála, á grundvelli s.k. “litis pendens”, þar sem kröfur stefnanda í sakaukastefnu séu þær sömu og gerðar hafi verið í stefnu, sem þingfest hafi verið þann 11. janúar 2011. Það sé einnig óumdeild staðreynd að stefnandi hafi ekki greitt þá reikningskröfu sem liggi til grundvallar málsókn hennar á hendur aðalstefnda sem hún vilji nú einnig beina að sakaukastefnda. Stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þær kröfur, enda bendi þau gögn sem stefnandi hafi sjálf lagt til málsins til þess að krafan sé í eigu annars aðila. Beri því einnig skv. 25. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi. Þá sé það sjálfstæð frávísunarástæða að sakaukastefnan felur í sér skriflegan málflutning og brjóti því gegn 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Frumstefndi, Tryggingastofnun ríkisins, byggir frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð og málsástæður stefnanda í frumstefnu séu óljósar og ruglingslegar. Ekki sé ljóst hverjar dómkröfurnar séu, hvort verið sé að stefna vegna endurkröfu á reikningi eða hvort verið sé að stefna til greiðslu heimilisuppbótar, sem sé löngu frágengin eða verið sé að stefna til greiðslu skaðabóta vegna þess að stefndi hafi valdið stefnanda saknæmu tjóni eins og segi á einum stað í stefnunni. Þá feli stefnan auk þess í sér skriflegan málflutning. Uppfylli frumstefnan því ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eigi að vísa málinu frá dómi á grundvelli 100. gr. sömu laga.
Taka má undir það með frumstefnda að kröfugerð i frumstefnu sé um margt óljós. Hins vegar er málsatvikum og málsástæðum lýst í stefnunni og þeim réttar-heimildum sem frumstefnandi byggir kröfugerðina á. Verður því ekki séð að frumstefndi hafi ekki getað tekið til efnislegra varna í málinu, sem hann hefur og gert. Verður þessari frávísunarástæðu frumstefnda því hafnað.
Þá verður heldur ekki fallist á það með frumstefnda að frumstefna fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 vegna skriflegs málflutnings. Að sönnu má finna þess dæmi að í stefnunni sé skriflegur málflutningur en það er ekki í þeim mæli að varða eigi frávísun og er þeirri málsástæðu því hafnað.
Sakaukastefndi, íslenska ríkið, byggir frávísunarkröfu sína í sakaukasök m.a. á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagmuni af að fá dóm um reikningskröfu þá sem liggi til grundvallar kröfugerð hennar í sakaukasök, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hún hafi ekki greitt reikninginn og gögn málsins bendi til þess að krafa samkvæmt reikningnum sé í eigu annars en stefnanda. Lögmaður sakaukastefnanda andmælti því ekki við málflutning um frávísunarkröfu sakaukastefnda að framangreindur reikningur væri enn ógreiddur. Stefnandi byggir kröfugerð sína í bæði frum- og sakaukasök m.a. á tjóni vegna kostnaður sem á stefnanda hafi fallið við kröfugerð á hendur Tryggingastofnun ríkisins, vegna heimtu svonefndrar heimilisuppbótar, en stefnandi hafi neyðst til að kaupa sér faglega aðstoð við þann erindisrekstur. Framangreindur reikningur er sagður endurgjald fyrir þá þjónustu. Ekki verður fallist á það með sakaukastefnda að sakaukastefnandi hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af kröfu um greiðslu á fjárhæð reikningsins úr hendi sakaukastefnda enda liggur ekkert fyrir í málinu um að reikningseigandi hafi fallið frá kröfu á hendur sakaukastefnanda, samkvæmt reikningnum, eða krafan sé af öðrum ástæðum niður fallin. Bíður sönnum um það atriði efnismeðferðar málsins. Er frávísunarkröfu sakaukastefnda á grundvelli framangreindrar málsástæðu því hafnað.
Þá byggir sakaukastefndi frávísunarkröfu sína á því að vísa eigi sakaukastefnu frá dómi samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, á grundvelli „litis pendens”, þar sem kröfur í sakaukastefnu á hendur íslenska ríkinu séu þær sömu og gerðar hafi verið á hendur íslenska ríkinu í frumstefnu, sem þingfest hafi verið 11. janúar 2011. Eins og áður hefur verið rakið var mál þetta dómtekið á hendur íslenska ríkinu, vegna útivistar, með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2011. Jafnframt var dómkröfum stefnanda á hendur íslenska ríkinu vísað frá dómi ex officio. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 29. júlí 2011, í máli nr. 370/2011, var kröfum stefnanda á hendur íslenska ríkinu vísað frá héraðsdómi. Litis pendens áhrifa vegna þingfestingar málsins 11. janúar 2011, á hendur íslenska ríkinu, gætir því ekki lengur og er þessari málsástæðu sakaukastefnda því hafnað.
Sakaukastefndi byggir frávísunarkröfu sína ennfremur á því að skilyrði 3., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, fyrir höfðun sakaukasakar, séu ekki uppfyllt. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er höfðun sakaukasakar því aðeins heimil að dómkröfur í frumsök og sakaukasök sé að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, sbr. 1. mgr. 19. gr. og stefnanda verði ekki metið til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýja aðilanum áður en frumsök var þingfest. Eins og áður hefur verið rakið höfðaði stefnandi, upphaflega, frumsök í máli þessu á hendur Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu. Þá hefur verið rakið að kröfur stefnanda á hendur íslenska ríkinu hafi verið dómteknar en jafnframt vísað frá dómi sökum vanreifunar. Framangreinda vanreifum stefnanda, hvað varðar málatilbúnað á hendur íslenska ríkinu, verður að jafna til vanrækslu í merkingu 3. mgr. 19. gr. laga nr. 19/1991 og stendur hún í vegi fyrir höfðum sakaukasakar á hendur íslenska ríkinu í máli þess, í framhaldi af frávísuninni, á grundvelli sömu krafna og gerðar voru á hendur íslenska ríkinu í frumstefnu. Þá er til þess að líta að skilyrðinu um að höfðum sakaukasakar sé ekki að rekja til vanrækslu er ætlað að koma í veg fyrir að máli verði raskað með því að nýjum aðila sé aukið við mál, nema afsakanlegt sé að honum hafi ekki verið stefnt fyrir þingfestingu frumsakar. Ljóst er að yrði sakaraukinn heimilaður í máli því sem hér er til meðferðar, myndi það raska verulega framgangi málsins, sem nú þegar hefur tafist umtalsvert af réttarfarslegum ástæðum. Sakaukastefna í máli þessu er 16 blaðsíður að lengd. Að stórum hluta felur stefnan í sér skriflegan málflutning m.a. til stuðnings kröfugerð stefnanda í frumsök. Brýtur það m.a. í bága við 1. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Hvað lýsingu málsatvika og málsástæður varðar er í sakaukastefnunni vísað til stefnu í frumsök, þótt í bland við málflutning sé á nokkrum stöðum í sakaukastefnunni vikið að málsástæðum til grundvallar kröfugerð í sakarauka. Þá hefur sakaukastefnandi lagt fram í málinu dómskjal nr. 61 sem inniheldur nánast eingöngu skriflegan málflutning. Öll er uppbygging og efni sakaukastefnunnar í svo miklu ósamræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einkum liði d. og e., að varðar frávísun.
Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að frávísunarkröfu frumstefndu skuli hrundið. Hins vegar er fallist á frávísunarkröfu sakaukastefnda og sakaukasök vísað frá dómi í heild. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna frumsakar bíði efnisdóms en sakaukastefnandi greiði sakaukastefnda, með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, 200.000 krónur í málskostnað.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu frumstefndu, Tryggingastofnunar ríkisins, um frávísun frumsakar er hafnað. Sakaukasök er vísað frá dómi. Ákvörðun um málskostnað vegna kröfu um frávísun frumsakar bíður efnisdóms. Sakaukastefnandi, Kristrún Grétarsdóttir, greiði sakaukastefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.