Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Forsjá
  • Frestur


Föstudaginn 21

 

Föstudaginn 21. ágúst 2009.

Nr. 385/2009.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Lára V.Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Börn. Forsjá. Frestur.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að fresta bæri meðferð forsjármáls, sem K hafði höfðað gegn  M, með vísan til 1. mgr. 20. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2009, þar sem kveðið var á um frestun máls sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins voru aðilarnir í hjúskap, sem slitið var á árinu 2003, en þau höfðu þá eignast tvö börn, sem fædd eru 1997 og 2000. Við hjúskaparslitin munu aðilarnir hafa verið búsett í Noregi og gert þar samkomulag um að fara sameiginlega með forsjá barnanna, sem hefðu lögheimili hjá sóknaraðila. Ágreiningur mun hafa komið upp milli aðilanna á árinu 2006 í tengslum við ráðagerðir sóknaraðila um að flytja með börnin hingað til lands, en honum var lokið með sátt, sem gerð var fyrir dómi í Noregi 31. júlí 2006, þar sem meðal annars var mælt fyrir um að forsjá skyldi áfram vera sameiginleg. Á grundvelli dómsáttarinnar og samnings aðilanna 23. júlí 2008 munu börnin hafa verið með sóknaraðila hér á landi frá því í ágúst á því ári.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 2. júní 2009 og krefst þess að sér verði dæmd forsjá barna þeirra. Við fyrirtöku málsins í héraðsdómi 22. sama mánaðar var upplýst að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði borist erindi frá norskum stjórnvöldum á grundvelli Haagsamnings 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, þar sem leitað var eftir því að gerðar yrðu ráðstafanir til að börn aðilanna yrðu færð til Noregs. Af því tilefni kvað héraðsdómari upp hinn kærða úrskurð, en með honum var forsjármálinu frestað þar til endanleg ákvörðun lægi fyrir um beiðni um afhendingu barnanna.

Fallist verður á með héraðsdómi að fresta beri meðferð þessa máls með vísan til 1. mgr. 20. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

Með vísan til framlagðra gagna nr. 12 og 13 í málinu og samkvæmt 20. gr. laga nr. 160/1995, sbr. 16. gr. Haagsamningsins frá 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, er það niðurstaða dómsins að máli þessu verði frestað þar til endanleg ákvörðun verður tekin um framkomna beiðni um afhendingu A og B.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er frestað þar til endanleg ákvörðun verður tekin um framkomna beiðni um afhendingu barnanna A og B.