Hæstiréttur íslands

Mál nr. 559/2007


Lykilorð

  • Samningur
  • Efndabætur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. júní. 2008.

Nr. 559/2007.

Vestmannaeyjabær

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Ragnari Þ. Guðmundssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

og gagnsök

 

Samningur. Efndabætur.

R krafðist efndabóta á samningum í tilefni af sölu fyrirtækisins Ö ehf., sem var í eigu R og fjölskyldu hans, til Þ. Var meðal annars um að ræða sölu á tækjum auk þekkingar R og viðskiptasambanda. Þá skuldbatt Þ sig til að stofna nýtt félag um reksturinn og afsala hlutafé í því félagi til félagsins B ehf. sem var í eigu R. Talið var að Þ hefði vanefnt skyldur sínar með því að stofna ekki nýtt félag um rekstur, sem það hafði skuldbundið sig til að gera samkvæmt samningum við R. Bar V ábyrgð á ætlunum um stofnun fyrirtækisins og starfrækslu þess. Hafði V ekki lagt neitt fram því til styrktar að ómöguleiki hefði komið í veg fyrir að félagið kæmist á legg og því ekki sýnt fram á að samningsbundinn eignarhlutur R í félaginu hafi ekki getað orðið raunhæfur. Var V því gert að greiða R efndabætur og voru þær miðaðar við þetta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2007. Hann krefst þess aðallega að þeim hluta dómkröfu gagnáfrýjanda, sem tekinn var til greina í héraðsdómi og er að fjárhæð 2.028.105 krónur, verði vísað frá héraðsdómi, en að dómurinn verði staðfestur að öðru leyti nema um málskostnað. Til vara krefst hann sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 20. desember 2007. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 10.360.033 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.294.649 krónum frá 1. desember 2003 til greiðsludags, af 270.857 krónum frá 1. janúar 2004 til greiðsludags, af 271.410 krónum frá 1. febrúar 2004 til greiðsludags, af 272.959 krónum frá 1. mars 2004 til greiðsludags, af 273.733 krónum frá 1. apríl 2004 til greiðsludags, af 275.945 krónum frá 1. maí 2004 til greiðsludags, af 277.714 krónum frá 1. júní 2004 til greiðsludags, af 278.046 krónum frá 1. júlí 2004 til greiðsludags, 278.710 krónum frá 1. ágúst 2004 til greiðsludags, af 279.263 krónum frá 1. september 2004 til greiðsludags, af 280.037 krónum frá 1. október 2004 til greiðsludags, af 280.700 krónum frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags, af 282.581 krónu frá 1. desember 2004 til greiðsludags, af 1.788.774 krónum frá 1. janúar 2005 til greiðsludags, af 289.659 krónum frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags, af 290.765 krónum frá 1. mars 2005 til greiðsludags, af 292.203 krónum frá 1. apríl 2005 til greiðsludags, af 294.083 krónum frá 1. maí 2005 til greiðsludags, af 295.300 krónum frá 1. júní 2005 til greiðsludags, af 296.406 krónum frá 1. júlí 2005 til greiðsludags, af 297.401 krónu frá 1. ágúst 2005 til greiðsludags, af 298.396 krónum frá 1. september 2005 til greiðsludags, af 299.281 krónu frá 1. október 2005 til greiðsludags og af 301.161 krónu frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 300.000 krónur þann 5. júlí 2003. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi gerir ekki kröfu um dráttarvexti fyrir Hæstarétti vegna dráttar á hluta samningsgreiðslna sem Þróunarfélag Vestmannaeyja innti af hendi nokkru eftir að þær féllu í gjalddaga. Í héraði var þessari kröfu vísað frá dómi. Aðaláfrýjandi lýsir yfir því að hann falli frá skuldajafnaðarkröfu, sem hann hafði uppi í héraði gegn þessari kröfu.

Aðilar hafa ekki gert athugasemdir við aðild málsins. Liggur því fyrir að aðaláfrýjandi tekur ábyrgð á skuldbindingum Þróunarfélags Vestmannaeyja í málinu og viðurkennd er aðild gagnáfrýjanda vegna Blokkar ehf.

I.

Frávísunarkrafa aðaláfrýjanda snýr að þremur reikningum gagnáfrýjanda, sem teknir voru til greina með héraðsdómi. Aðaláfrýjandi gerði ekki frávísunarkröfu í héraði þótt hana hafi mátt hafa þar uppi á sömu forsendum og fyrir Hæstarétti. Krafa þessi kemst því ekki að í Hæstarétti, en rétturinn gætir þess af sjálfsdáðum hvort annmarkar séu á kröfugerð sem leiða eigi til frávísunar.

Gagnáfrýjandi lagði ekki fram gögn fyrir þessum kröfum úr bókhaldi fyrirtækis síns Blokkar ehf., enda þótt hann hafi lýst þeirri fyrirætlun sinni í þinghaldi 1. júní 2007. Reikningar vegna þessara krafna eru allir frá 20. október 2003 eða eftir að sýnt var að ekkert yrði af frekari störfum hans samkvæmt samningum þeim sem hann gerði við Þróunarfélag Vestmannaeyja. Samkvæmt aðilaskýrslu hans hafði hann ekki haft í huga að gera þessar reikningskröfur „ef allt hefði gengið eðlilega.“ Verður því við það að miða að fjárhæð reikninganna sé hugsuð sem hluti efndabóta verði talið að gagnáfrýjandi eigi rétt á þeim. Skilja verður því málatilbúnað gagnáfrýjanda svo að hann reisi þessar kröfur sínar á bótum fyrir samningsrof, svo sem hann hefur haldið fram til vara.

II.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Kemur þar fram að í apríl 2001 hafi tekist um það samningur milli Öndvegisrétta ehf., sem var í eigu gagnáfrýjanda og fjölskyldu hans, og Þróunarfélags Vestmannaeyja að það keypti af Öndvegisréttum ehf. vélar og búnað verksmiðju fyrir fjórar milljónir króna. Í framhaldi af því hafi vélarnar og búnaðurinn verið sendur til Eyja. Með samningi 14. desember sama ár skuldbundu gagnáfrýjandi og fyrirtæki í hans eigu að nafni Blokk ehf. sig til að aðstoða við stofnun, uppsetningu og rekstur matvælaverksmiðju í Vestmannaeyjum. Samkvæmt samningnum skyldi Þróunarfélag Vestmannaeyja stofna nýtt félag um reksturinn og átti það í fyrstu vera í eigu Þróunarfélagsins. Það átti að leggja til nýja félagsins þau tæki sem keypt höfðu verið af Öndvegisréttum ehf. og þau verðmæti að auki sem í samningnum greindi. Verðmætin voru þau að gagnáfrýjandi átti að leggja hinu nýja fyrirtæki til þekkingu sína. Hann skyldi láta félaginu í té uppskriftir allar og þróunarvinnu á ýmsum réttum svo og öll viðskiptasambönd sín innan lands sem utan. Skuldbatt hann sig jafnframt til að vinna við hið nýja fyrirtæki í að minnsta kosti tvö ár frá því að framleiðsla hæfist. Blokk ehf. afsalaði svo til Þróunarfélagsins vélum og tækjum, sem verið höfðu í eigu sonar gagnáfrýjanda en notuð við rekstur Öndvegisrétta ehf. og hann hafði afsalað til Blokkar ehf. Skyldi Þróunarfélagið greiða Blokk ehf. 6.500.000 krónur fyrir verðmæti þessi. Gagnáfrýjanda voru ákveðin grunnlaun hjá hinu nýja félagi að fjárhæð 240.000 krónur á mánuði sem hækka áttu í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu. Þróunarfélag Vestmannaeyja skyldi ábyrgjast launagreiðslur til hans þar til hið nýja félag hæfi framleiðslu. Þá átti að útvega gagnáfrýjanda og konu hans húsnæði í Eyjum til tveggja ára þeim að kostnaðarlausu. Yrðu eigandaskipti að rekstrinum átti Þróunarfélagið að ábyrgjast gagnáfrýjanda fullar efndir á launasamningi og afnotasamningi um húsnæðið til 1. desember 2003.

Jafnframt þessu var gerður annar samningur sama dag, 14. desember 2001. Í honum segir að Þróunarfélagið muni stofna einkahlutafélag um rekstur þennan og leggja til þess þau verðmæti sem að framan greinir og það hafði keypt af gagnáfrýjanda og félögum honum tengd. Í samningnum er sagt að reiknað sé með því að framlög Þróunarfélagsins til nýja félagsins verði að lágmarki 10.500.000 krónur og að hámarki 15.000.000 krónur og sé þar miðað við kaupverð eigna og kostnað við samningsgerð og standsetningu verksmiðjunnar. Síðan segir í samningum að við stofnun hins nýja félags muni Þróunarfélagið afsala til Blokkar ehf. 10% af hlutafé félagsins án annars endurgjalds en þess sem Blokk ehf. lætur af hendi með áður gerðum samningi. Sé við það miðað að eignir félagsins séu við stofnunina á því bili sem að ofan greinir.

III.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en aðilar hafi gert ráð fyrir að félagið yrði stofnað og hæfi rekstur fljótlega eftir undirritun framangreindra samninga. Það komst hins vegar aldrei á laggirnar. Jafnframt er fram komið að gagnáfrýjandi efndi skyldur sínar samkvæmt samningum að því marki sem honum var unnt og verið reiðubúinn til að vinna að rekstri hins nýja félags enda flutti hann til Eyja og hóf undirbúning að rekstrinum. Það voru hins vegar atvik sem Þróunarfélag Vestmannaeyja bar ábyrgð á, sem komu í veg fyrir að reksturinn hæfist og er því  ekki mótmælt af hálfu aðaláfrýjanda. Félagið efndi hins vegar við gagnáfrýjanda afnotasamning um húsnæði og greiddi honum laun hvort tveggja til 1. desember 2003, svo sem það hafði ábyrgst honum samkvæmt lokaákvæði fyrri samningsins. Ekki er fallist á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi hafi skuldbundið sig til að greiða honum laun lengur en þetta í því tilviki að hætt yrði við rekstraráform aðila. Gagnáfrýjanda verða því ekki dæmd frekari laun en hann hefur fengið.

       Reikningar gagnáfrýjanda frá 20. október 2003 benda til þess að hann hafi lagt út fyrir félagið, sem stofna átti. Þeir eru hins vegar því marki brenndir að þar er meðal annars reiknað með sérstöku kaupi til hans sjálfs en hann þáði laun frá Þróunarfélaginu fyrir að minnsta kosti hluta tímabils þess sem hann gerir kröfu um. Hann hefur ekki lagt fram gögn að baki þessum reikningum. Verða efndabætur ekki við þá miðaðar.

        Gagnáfrýjandi flutti til Eyja ásamt eiginkonu sinni. Þegar ekki varð af rekstri félagsins varð ljóst að hann gæti ekki nýtt í þess þágu kunnáttu sína og viðskiptasambönd. Þróunarfélagið stofnaði ekki hið nýja félag um rekstur matvælaverksmiðjunnar, sem það hafði skuldbundið sig til að gera samkvæmt samningunum 14. desember 2001, og vanefndi þannig skyldur sínar. Samkvæmt síðari samningnum, sem rakinn er að framan ætlaði Þróunarfélag Vestmannaeyja að afsala til félags gagnáfrýjanda Blokkar ehf. hlutafé sem næmi 10% af heildarhlutafé hins nýja hlutafélags. Gagnáfrýjandi hefur krafist 1.500.000 króna efndabóta vegna þessa sem 10% af hámarki framlags Þróunarfélagsins. Aðaláfrýjandi bar ábyrgð á ætlunum sínum um stofnun fyrirtækisins og starfrækslu þess. Hann hefur ekkert lagt fram því til styrktar að ómöguleiki hafi komið í veg fyrir að félagið kæmist á legg og því ekki sýnt fram á að eignarhlutur gagnáfrýjanda í félaginu hafi ekki getað orðið raunhæfur. Verða efndabætur til handa gagnáfrýjanda við þetta miðaðar. Réttara er þó að líta fremur til lágmarks skuldbindingarinnar en hámarksins. Greiðsla aðaláfrýjanda 5. júlí 2003 að fjárhæð 300.000 krónur telst þessari skuldbindingu óviðkomandi og kemur því ekki til frádráttar.

 Niðurstaða málsins verður samkvæmt framansögðu sú að aðaláfrýjanda ber að greiða gagnáfrýjanda 1.050.000 krónur í efndabætur með dráttarvöxtum frá 1. janúar 2005 eins og hann gerir kröfu um.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vestmanneyjabær, greiði gagnáfrýjanda Ragnari Þ. Guðmundssyni, 1.050.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til greiðsludags og 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.         

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 25. júlí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. júní s.l., er höfðað með tveimur stefnum þingfestum 8. mars 2006 og 11. október sama ár.

Stefnandi er Ragnar Þ. Guðmundsson, kt. [...].

Stefndi er Vestmannaeyjabær, kt. [...], Ráðhúsinu v/Kirkjuveg, Vestmannaeyjum.

            Dómkröfur stefnanda samkvæmt fyrri stefnunni eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda  9.860.033 krónur auk eftirfarandi vanskilavaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001: Af kr. 1.000.000 frá 15. janúar 2002 til greiðsludags, af kr. 2.294.649 frá 1. desember 2003 til greiðsludags, af kr. 270.857 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags, af kr. 271.410 frá 1. febrúar sama ár til greiðsludags, af kr. 272.959 frá 1. mars sama ár til greiðsludags, af kr. 273.733 frá 1. apríl sama ár til greiðsludags, af kr. 275.945 frá 1. maí sama ár til greiðsludags, af kr. 277.714 frá 1. júní sama ár til greiðsludags, af kr. 278.046 frá 1. júlí sama ár til greiðsludags, af kr. 278.710 frá 1. ágúst sama ár til greiðsludags, af kr. 279.263 frá 1. september sama ár til greiðsludags, af kr. 280.037 frá 1. október sama ár til greiðsludags, af kr. 280.700 frá 1. nóvember sama ár til greiðsludags, af kr. 282.581 frá 1. desember sama ár til greiðsludags, af kr. 288.774 frá 1. janúar 2005 til greiðsludags, af kr. 289.659 frá 1. febrúar sama ár til greiðsludags, af kr. 290.765 frá 1. mars sama ár til greiðsludags, af kr. 292.203 frá 1. apríl sama ár til greiðsludags, af kr. 294.083 frá 1. maí sama ár til greiðsludags, af kr. 295.300 frá 1. júní sama ár til greiðsludags, af kr. 296.406 frá 1. júlí sama ár til greiðsludags, af kr. 297.401 frá 1. ágúst sama ár til greiðsludags, af kr. 298.396 frá 1. september sama ár til greiðsludags, af kr. 299.281 frá 1. október sama ár til greiðsludags og af kr. 301.161 frá 1. nóvember sama ár til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum: 500.000 krónum 2. september 2002, 500.000 krónum 15. október sama ár og 300.000 krónum 5. júlí 2003, samtals 1.300.000 krónur sem ráðstafast fyrst inn á áfallna vexti en síðan inn á höfuðstól skuldarinnar, fyrst til greiðslu elstu skuldar.

Dómkröfur stefnanda samkvæmt síðari stefnunni (mál  nr. E-622/2006) eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.500.000 krónur auk vanskilavaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2005 til greiðsludags.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við málskostnaðaryfirlit.

Dómkröfur stefnda eru þær  í báðum tilvikum að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt reikningi.

Með samþykki aðila voru mál þessi sameinuð.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi ásamt fjölskyldu sinni rekið matvælaverksmiðjuna Öndvegisrétti ehf. frá árinu 1995 og sérhæft sig í vinnslu á tilbúnum fisk- og kjötréttum. Blokk ehf. mun hafa verið einn af eigendum Öndvegisrétta. Hafi framkvæmdastjóri Þróunarfélags Vestmannaeyja, Þorsteinn Sverrisson og þáverandi bæjarstjóri stefnda, Guðjón Hjörleifsson, hafa upp úr áramótum 2001 skoðað rekstur Öndvegisrétta úti á Granda með það í huga að kaupa rekstur verksmiðjunnar til Vestmannaeyja.  Stefndi segir að á þessum tíma hafi verið mikill áhugi á að huga frekar að fullvinnslu sjávarafurða í Vestmannaeyjum og að mati forsvarsmanna Þróunarfélagsins gæti verksmiðja Öndvegisrétta verið álitlegur kostur.  Telur stefndi að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki gengið vel og að mati hans stefndi í gjaldþrot félagsins.  Samningar munu hafa tekist um að Þróunarfélagið keypti vélar og búnað verksmiðjunnar í apríl 2001 fyrir fjórar milljónir króna og í framhaldi af því voru allar vélar og tæki verksmiðjunnar sendar til Vestmannaeyja.  Mun umræddur búnaður hafi verið veðsettur Búnaðarbanka Íslands hf. en bankinn mun hafa aflétt veðinu gegn ráðstöfun kaupverðs inn á skuld Öndvegisrétta við bankann.  Forsvarsmenn Þróunarfélagsins munu  hafa haft hug á að fá stefnanda tímabundið til verkefnisins og hafi verið rætt um að hann myndi skuldbinda sig til að starfa við það í tvö ár og myndi Þróunarfélagið ábyrgjast greiðslur launa þann tíma.  Stefnandi heldur því fram að skilyrði fyrir kaupunum hafi verið að hann kæmi til Vestmannaeyja og starfaði að uppbyggingu verksmiðjunnar og síðan í tvö ár frá því að starfsemi hæfist.  Hann skyldi láta í té uppskriftir allar og þróunarvinnu á ýmsum réttum, svo og viðskiptasambönd innanlands sem utan.  Stefnandi segist hafa beðið lengi eftir svörum um hvenær hann ætti að  koma til vinnu í Vestmannaeyjum og hefði eiginkona hans sagt upp vinnu sinni.  Stefnandi segist hafa farið tvívegis til Vestmannaeyja um sumarið 2001 til að ýta á eftir mönnum en lítið hafi gengið að fá svör.  Hafi Þróunarfélagið  á þessum tíma ekki verið tilbúið til þess að taka á móti verksmiðjunni m.a. vegna seinagangs og skipulagsleysis. 

Þróunarfélagið og stefnandi, þ.e.a.s. hann persónulega og fyrir hönd Blokkar ehf., gerðu með sér tvo samninga vegna ofangreindra viðskipta og eru báðir dagsettir 14. desember 2001.   Í öðrum samningum kemur fram að stefnandi og Blokk ehf. skuldbindi sig til að aðstoða við stofnun, uppsetningu og rekstur matvælaverksmiðju í Vestmannaeyjum.  Skuli Þróunarfélagið stofna nýtt félag um reksturinn og verði það í fyrstu alfarið í eigu Þróunarfélagsins sem leggi til félagsins þau tæki sem þegar hafi verið keypt og þau verðmæti sem keypt séu með samningi þessum, en umsamið kaupverð var 6.500.000 krónur.  Þá segir að stefnandi muni leggja hinu nýja fyrirtæki til þekkingu sína.  Hann muni láta félaginu í té uppskriftir allar og þróunarvinnu á ýmsum réttum svo og öll viðskiptasambönd innan lands sem utan.  Þá skuldbindi hann sig til að vinna við hið nýja fyrirtæki í a.m.k. 2 ár frá því að framleiðsla hefst.   Stefnandi skyldi hafa í grunnlaun hjá hinu nýja félagi 240.000 krónur á mánuði miðað við dagvinnu.  Skyldu launin hækka í réttu hlutfalli við  hækkun launa samkvæmt launavísitölu miðað við grunnvísitölu desembermánaðar 2001 og greiðast frá 1. desember sama ár.  Þá segir að Þróunarfélagið ábyrgist launagreiðslur til stefnanda þar til hið nýja félag hefði hafið framleiðslu og jafnframt skuldbindi félagið sig til að útvega stefnanda og eiginkonu hans viðunandi húsnæði í Vestmannaeyjum til  tveggja ára honum að kostnaðarlausu.  Að lokum segir í samningum að verði eigendaskipti að þeim rekstri sem fyrirhugað sé að hefja skuli Þróunarfélagið ábyrgjast gagnvart stefnanda fullar efndir á launasamningi og afnotasamningi um húsnæði til 1. desember 2003.  Í hinum samningnum kemur fram að Þróunarfélagið muni stofna einkahlutafélag um rekstur matvælaverksmiðju í Vestmannaeyjum og hafi félagið í þeim tilgangi keypt af Öndvegisréttum og Blokk ehf. eignir sem notaðar hafi verið við rekstur Öndvegisrétta ehf. og samið við stefnanda um að hann leggi hinu nýja félagi til alla þekkingu sína við reksturinn og gert við hann starfssamning til tveggja ára.  Þá segir að reiknað sé með að framlög Þróunarfélagsins til hins nýja félags verði að lágmarki 10.500.000 krónur og að hámarki 15.000.000 krónur og er þar miðað við kaupverð eigna og kostnað við samningagerð og standsetningu verksmiðjunnar.  Þá kemur fram að Þróunarfélagið muni við stofnun hins nýja félags afsala til Blokkar ehf. 10% af hlutafé félagsins án annars endurgjalds en þess sem Blokk ehf. láti af hendi með áðurgerðum samningi.  Sé við það miðað að eignir félagsins við stofnun verði á því bili sem að ofan greini.

Stefnandi segist hafa á meðan hann beið eftir að flytja til Eyja unnið að sölu- og markaðsmálum fyrir verksmiðjuna.  Í júlí 2001 hafi verið unnið að breytingum á þróun fiskborgara hjá Iðntæknistofnun vegna fyrirhugaðs útflutnings á Evrópumarkað.  Hafi vinnan aðallega falist í því að aðlaga framleiðsluna að reglum ESB um innflutning á fullunnum matvælum.  Hafi stefnandi greitt allan kostnað við framleiðsluna, þ.e. hráefni, vinnulaun og tækjaleigu, alls kr. 1.052.025.  Stefnandi hafi einnig unnið við þróun á marningi úr kolmunna og hafi sú vinna verið unnin hjá Vinnslustöðinni undir stjórn Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum og hafi stefnandi greitt allan kostnað.  Þá hafi mikil vinna verið lögð í markaðssetningu á þessari afurð.  Stefnandi heldur því fram að þessi vinna og greiðsla útlagðs kostnaðar hafi verið í samráði við Þróunarfélagið og hafi aðilar ráðgert að félagið greiddi kostnaðinn og legði andvirði hans sem nýtt hlutafé í nýju félagi um reksturinn eða að það félag myndi greiða hann og eignast árangur vinnunnar.

Stefndi segir að fljótlega hafi verið hafist handa við að finna húsnæði undir starfsemina í kjölfar undirritunar samninganna og hafi stefnandi flutt til Vestmannaeyja í byrjun árs 2002.  Hafi verið tekið á leigu húsnæði sem notað hefði verið undir saltfiskframleiðslu.  Hafi kostnaður vegna standsetningar verksmiðjunnar reynst umtalsvert meiri en áætlað hefði verið í upphafi og þegar komið hafi verið fram á árið 2003 hafi verksmiðja enn ekki verið komin í gagnið þrátt fyrir að tugum milljóna hafi verið varið til verkefnisins.  Hafi frekari framkvæmdum þá verið hætt og stefnanda gerð grein fyrir því með bréfi 29. október 2003 að ekki kæmi til framlengingar ráðningarsamningsins og yrði launagreiðslum til hans hætt 1. desember sama ár.  Þá hafi stefnandi verið beðinn um að rýma húsnæði það sem hann hefði fengið til afnota til tveggja ára og honum gerð grein fyrir því að húsaleigu yrði krafist frá og með 1. desember sama ár.  Hafi Þróunarfélaginu verið slitið í lok árs 2003 og hafi heildartap þess numið 40.933.955 krónum.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á samningi aðila og reglum um skuldbindingargildi samninga.  Hann vísar til reglna um efndabætur, almennra reglna vinnuréttar og kröfuréttar.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að greiðsla samkvæmt kaupsamningi pr. 15. janúar 2002 sé 1.000.000 krónur, laun í tvö ár frá uppsögn 1. desember 2003 séu  6.831.928 krónur, greiðsla vegna reiknings nr. 15 frá 20. október sama ár sé 268.920 krónur, greiðsla vegna reiknings nr. 16 frá sama degi sé 1.052.025 krónur, greiðsla vegna reiknings nr. 17 frá sama degi sé 707.160 krónur og krafa vegna 10% hlutar af  15.000.000 króna hlutafé, sbr. síðari stefna, sé 1.500.000 krónur.  Frá þessum fjárhæðum dregur stefnandi innborganir 2. september 2002, 500.000 krónur, 15. október sama ár, 500.000 krónur og 5. júlí 2003 300.000 krónur.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt samningi aðila skyldi Þróunarfélagið greiða honum 6.500.000 krónur og af þeirri fjárhæð hafi 5.500.000 krónur verið greiddar með skilum.  Greiðsla sem inn hafi átt af  hendi 15. janúar 2002 hafi farið í vanskil ekki verið greidd fyrr en 2. september það ár, 500.000 krónur og 15. október sama ár, 500.000 krónur.  Stefnandi segir ágreining aðila því snúast um útreikning á dráttarvöxtum.

Að því er launakröfuna varðar byggir stefnandi á því að gerður hafi verið ráðningarsamningur við hann með ábyrgð stefnda þess efnis að  hann ynni við fyrirtækið í tvö ár eftir að framleiðsla hæfist.  Stefnandi skilur samninginn þannig að hann hafi annars vegar verið ráðinn til vinnu þar til framleiðsla hæfist og hins vegar í tvö ár eftir það.  Þegar stefnanda hafi verið sagt upp frá og með 1. desember 2003 hafi framleiðsla enn ekki verið hafin og því hafi verið lýst yfir að hún myndi ekki hefjast.  Hafi á þeim tímapunkti lokið þeim hluta ráðningarsamningsins sem lotið hafi að tímabili þar til framleiðsla hæfist og hafi stefnanda því borið laun í tvö ár eftir það.  Virðist stefnanda sem stefndi telji sig geta losnað undan skyldum að þessu leyti með því að vanefna sjálfur loforð sitt um að leggja til hlutafé svo framleiðsla gæti hafist.  Þróunarfélagið hafi átt aðild að öllum samningum við stefnanda þótt óskilgreint síðar stofnað félag gæti einnig átt aðild á síðari stigum.  Aldrei hafi komið til aðilaskipta og sé Þróunarfélagið því samningsaðili auk þess sem það hafi lýst yfir ábyrgð á efndum.  Til vara byggir stefnandi á því að vanefndir á að stofna hlutafélag og leggja því til hlutafé leiði til þess að Þróunarfélagið verði að bæta allt það tjón sem af því leiði.  Af þessu leiði einnig að þótt ekki yrði fallist á aðalmálsástæðu stefnanda, beri stefnda að greiða fullar efndabætur sökum þess að stefndi hafi orðið af starfi sínu áður en umsömdum tíma hafi lokið.

Stefnandi byggir kröfur sínar á greiðslur samkvæmt reikningum á samningi aðila þar sem fram komi að Þróunarfélagið hygðist leggja í alls kyns kostnað og leggja andvirði hans inni í félagið sem hlutafé.  Hafi aðilar orðið sammála um að stefnandi ynni ýmis störf af hendi og legði út  í kostnað sem hann skyldi fá endurgreiddan.  Hafi það getað orðið með þrennu móti, Þróunarfélagið greiddi honum og færði framlagið sem  hlutafé inn í nýja félagið, það legði hinu nýja félagi til peninga sem það greiddi stefnanda eða, ef um semdist, stefnandi tæki við greiðslu í formi hlutafjár.  Sé þar ekki um að ræða þau 10% sem átt hafi að vera endurgjaldslaus.  Stefnandi miðar dráttarvexti við 1. desember 2003, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því stefndi lýsti því yfir að samningar við stefnanda yrðu ekki efndir.  Hafi falist í því að þróunarkostnaður yrði ekki lagður inn sem hlutafé af hálfu Þróunarfélagsins og hafi krafan við það orðið gjaldkræf.  Stefnandi telur stefnda hafa viðurkennt kröfuna með 300.000 króna innborgun 5. júlí 2003.  Stefnandi segir reikning nr. 15 vera vegna aksturs frá desember 2001 í 18  mánuði.  Sé um að ræða sendibíl sem notaður hafi verið til útréttinga við uppsetningu hinnar fyrirhuguðu verksmiðju.  Reikningur nr. 16 sé vegna þróunar- og tilraunaframleiðslu á marningi í uppsjávarfiski og reikningur nr. 17 stafi af söluvinnu vegna fiskborgara.

Að því er varðar kröfu á greiðslu á 10% af hámarkshlutafénu 15.000.000 krónur, eða 1.500.000 krónur, byggir stefnandi á samningi aðila og því að Þróunarfélagið hafi vanrækt að koma hinu nýja félagi, Westmar ehf., af stað.  Hafi stefnandi orðið af þessum fjármunum og er krafa stefnanda á því byggð að tjón hans verði örugglega að fullu bætt.  Sé aðallega um að ræða efndabætur, til vara vangildisbætur sömu fjárhæðar.

Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi telur dráttarvaxtakröfu stefnanda sökum þess að 1.000.000 krónur voru ekki greiddar á réttum tíma vera réttmæta en krefst sýknu af þessum kröfulið á grundvelli skuldajafnaðar.  Stefndi telur sig eiga kröfu á hendur stefnanda vegna vangoldinnar húsaleigu og dráttarvaxta.  Réttur stefnanda til húsnæðisins hafi verið á enda í lok nóvember 2003 en stefnandi hafi haldið húsnæðinu fram í júnímánuð 2004.  Húsaleiga í desember 2003 og janúar 2004 hafi verið 36.515 krónur á mánuði, en  36.690 krónur mánuðina febrúar, mars og apríl.  Leiga í maí og júní hafi síðan verið 36.993 krónur og samtals séu þetta 257.086 krónur auk dráttarvaxta sem séu 127.066 krónur miðað við stöðu kröfunnar 1. júní 2006.  Stefndi telur öll skilyrði skuldajafnaðar fyrir hendi og ljóst að gagnkrafa stefnda sé umtalsvert hærri en krafa stefnanda samkvæmt þessum lið.

Að því er varðar kröfu stefnanda um greiðslu launa í tvö ár frá því framleiðsla hæfist í verksmiðjunni byggir stefndi á því að hvergi í samningi aðila sé að finna skuldbindingu af hálfu Þróunarfélagsins þess efnis að stefnandi eigi kröfu til starfa við verkefnið í tvö frá því að framleiðsla hefst.  Í samningnum sé tekið fram að Þróunarfélagið ábyrgist launagreiðslur til stefnanda þar til hið nýja félag hefði hafið framleiðslu.  Þar sem til hafi staðið að stofna nýtt félag um rekstur verksmiðjunnar hafi verið sett fram krafa um það af hálfu stefnanda að Þróunarfélagið ábyrgðist launagreiðslur  til hans.  Í þessu hafi það eitt falist að stefnandi hafi ekki þurft að reiða sig á launagreiðslur frá einkahlutafélagi sem ekki hefði hafið starfsemi þegar samningurinn var undirritaður.  Stefndi hafi viljað tryggja aðkomu stefnanda að verkefninu í tvö ár og nýta þannig þekkingu hans og reynslu á þessu sviði til að koma framleiðslu af stað í Vestmannaeyjum.  Í samræmi við þetta hafi Þróunarfélagið skuldbundið sig til þess að útvega stefnanda og eiginkonu hans húsnæði í Vestmannaeyjum til tveggja ára og jafnframt hafi verið tekið fram að kæmi til eigendaskipta að fyrirhuguðum rekstri ábyrgðist Þróunarfélagið gagnvart stefnanda fullar efndir á launasamningi og afnotasamningi um húsnæði til 1. desember 2003.  Sé því ljóst af þessum ákvæðum samningsins að sá skilningur stefnanda að hann hafi átt kröfu til launa í tvö frá því framleiðsla hæfist eigi ekki við rök að styðjast.  Þá sé kröfugerð stefnanda að þessu leyti enn fremur í fullkomnu ósamræmi við samhliða samning sem gerður hafi verið milli aðila sama dag þar sem gerð hefði verið grein fyrir kaupum Þróunarfélagsins á tækjum og búnaði af Öndvegisréttum ehf. og Blokk ehf. og því lýst að samið hefði verið við stefnanda um að hann myndi leggja rekstrinum til alla þekkingu sína og að Þróunarfélagið hefði gert við hann starfssamning til tveggja ára.  Sé skilningur stefnanda vægast sagt afar óvenjulegur enda hafi hvorugur samningsaðila nokkuð vitað um það við gerð samningsins hvort og þá hvenær framleiðsla hæfist í þeirri verksmiðju sem til hafi staðið að koma á laggirnar.  Þá vekur stefndi athygli á ummælum stefnanda í tölvubréfi til Björgvins Þorsteinssonar, hrl., frá 16. febrúar 2003, þar sem stefnandi segist hafa verið ráðinn til tveggja ára til að byggja upp verksmiðjuna.

Stefndi byggir einnig á því að verði talið að skuldbinding gagnvart stefnanda hafi tekið til tveggja ára frá því framleiðsla hæfist hafi forsendur slíkrar skuldbindingar brostið.  Í samningi aðila sé tiltekið að lágmarksframlag Þróunarfélagsins til rekstrarins sé 10,5 milljónir króna en að hámarki 15 milljónir króna.  Hafi þar verið litið til alls kostnaðar af kaupum tækja og búnaðar og standsetningar verksmiðjunnar.  Við lok tveggja ára ráðningartíma stefnanda hafi Þróunarfélagið lagt ríflega 30 milljónir króna til verkefnisins án þess að séð yrði hvort eða hvenær starfsemi gæti hafist.  Það hafi verið forsenda þessa verkefnis og skilyrði af hálfu stefnda að heildarkostnaður færi ekki fram úr 15 milljónum króna.  Hafi stefnanda verið þetta fullkunnugt enda tilgreint sérstaklega í samningi aðila.  Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi haft yfir að ráða sérkunnáttu á þessu sviði.  Þegar fjármagn sem varið hafi verið til verksins hafi náð tvöföldu umsömdu hámarki hafi orðið ljóst að forsendur hafi verið brostnar fyrir frekari tilraunum til að hefja framleiðslu við verksmiðjuna.  Þegar svo hátti geti stefndi ekki gert kröfu til áframhaldandi tilrauna og launa frá stefnda.

Stefndi mótmælir því að hann hafi samið við stefnanda um notkun sendibifreiðar í tengslum við uppbyggingu verksmiðjunnar.  Er á því byggt að þessi kröfuliður sé vanreifaður og engin grein gerð fyrir því í stefnu hvers vegna krafist sé greiðslu í 18 mánuði, hvers vegna krafist sé 12.000 króna greiðslu fyrir hvern mánuð eða með hvaða hætti stefndi eigi að hafa skuldbundið sig til greiðslu reiknings nr. 15.

Stefndi mótmælir reikningi nr. 16 og segir engin gögn hafa verið lögð fram um kostnað vegna þróunar- og tilraunaframleiðslu fyrir Þróunarfélagið.  Skorti verulega á að því sé nægilega lýst hvenær umræddur kostnaður eigi að hafa fallið til og með hvaða hætti verkið hafi tengst stefnda.  Stefnandi hafi í starfi sínu lotið boðvaldi stefnda í einu og öllu og enga heimild haft til að leggja út í kostnaðarsamar framkvæmdir eða tilraunir án þess að fyrir lægi skýrt samþykki.  Ekkert liggi fyrir um að verkið hafi verið unnið í þágu stefnda enda viti stefndi ekki að mótteknar hafi verið neins konar afurðir þess.  Stefndi telur stefnanda hafa verið með ýmis verkefni í gangi á þessum tíma sem ekki hafi tengst störfum hans fyrir stefnda.  Eigi hann því enga kröfu á stefnda um að hann greiði kostnað vegna tilrauna sem hann kunni að hafa staðið að á þessum tíma.

Stefndi mótmælir reikningi nr. 17 á sama grundvelli og reikningi nr. 16 og vekur athygli á því að umrætt verk hafi verið unnið á árinu 2001 áður en gengið hafi verið frá samningum aðila.  Þá telur stefndi sig ekki með síðari athöfnum hafa fallist á skyldu til greiðslu reikninganna eða móttekið verðmæti frá stefnanda sem tengst gætu þessum verkum.

Þá telur stefndi alla þessa reikninga eiga það sammerkt  að vera vegna verka sem eigi að hafa verið unnin talsvert löngu fyrir útgáfu þeirra 20. október 2003.  Á þeim tíma hafi orðið ljóst að ráðningarsamningur við stefnanda yrði ekki framlengdur og frekari fjármunum yrði ekki varið í tilraunir til að koma verksmiðjunni í gagnið.  Þá verði ekki séð að stefnandi hafi fram til þess tíma talið að hann ætti kröfu til greiðslu vegna þessara verka.  Þá sé með öllu órökrétt að halda því fram að þess hafi verið krafist af stefnanda að hann legði út í persónulegan kostnað vegna verkefnis á vegum Þróunarfélagsins.  Sjá megi af reikningum að hvers kyns framkvæmdir og fjárfestingar sem tengst hafi verkefninu hafi félagið greitt.  Standi engin rök til þess að önnur regla hafi átt að gilda um verk af því tagi sem stefnandi hafi lýst.

Stefndi mótmælir því að með greiðslu á 300.000 krónum til stefnanda í júlímánuði 2002 hafi hann staðfest réttmæti krafna stefnanda.  Stefnandi mótmælir því að greiðslan hafi verið ætluð til að mæta útlögðum kostnaði stefnanda vegna framangreindra verka og bendir á að á þessum tíma hafi stefnandi ekki gefið út reikninga eða sett fram kröfur um greiðslu kostnaðar.  Hafi einhliða færsla stefnanda á umræddri greiðslu sem innborgun inn á reikning sem gefinn sé út rúmu ári síðar enga þýðingu í þessu sambandi.

Að því er varðar kröfu stefnanda samkvæmt síðari stefnunni byggir stefndi á því að í samningi aðila sé tiltekið að Þróunarfélagið muni stofna einkahlutafélag um rekstur matvælaverksmiðju í Vestmannaeyjum.  Hafi verið reiknað með að framlag Þróunarfélagsins til rekstrarins yrði að lágmarki 10,5 milljónir króna en að hámarki 15 milljónir króna.  Hafi þar verið litið til alls kostnaðar af kaupum tækja og búnaðar og standsetningar verksmiðjunnar.  Við lok tveggja ára ráðningartíma stefnanda hafi legið fyrir að Þróunarfélagið hafi lagt til verkefnisins ríflega 30 milljónir króna án þess að séð yrði hvort eða hvenær starfsemi gæti hafist.  Hafi það verið forsenda að heildarkostnaður færi ekki fram úr 15 milljónum króna og hafi stefnanda verið þetta fullkunnugt, enda tilgreint sérstaklega í samningi aðila.  Hafi Þróunarfélagið átt við stofnun hins nýja félags að afsala til Blokkar ehf. 10% af hlutafé félagsins.  Til þess hafi aldrei komið, enda hafi ekkert orðið af fyrirhuguðum rekstri.  Af þeim sökum hafi þeir fjármunir sem félagið hafi átt að leggja til verkefnisins aldrei verið lagðir inn í Westmar ehf. í formi hlutafjár.  Hins vegar sé ljóst að Þróunarfélagið stóð við samning aðila um framlag á bilinu 10,5-15 milljónir króna og gott betur.  Sé því ljóst að sakarskilyrði sé ekki uppfyllt.  Þá áréttar stefndi að umrætt framlag hafi verið viðmið en ekki skýr skuldbinding eins og orðalag samningsins beri með sér.  Þróunarfélagið hafi hins vegar gengið mun lengra en viðmið hafi sagt til um.  Þá sé ljóst að fjárhagslegt tap stefnda af verkefninu skipti tugum milljónum króna og verðmæti hlutafjár sé ekkert ef allar eignir og skuldir af verkefninu væru lagðar inn í félagið.  Hafi stefnandi því ekki sannað eða gert líklegt að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við það að fá ekki hlut í Westmar ehf.  Stefndi byggir á því að hugleiðingar stefnanda um að veruleg verðmæti hafi verið fólgin í umræddum eignarhlut geti enga þýðingu haft í þessu sambandi.  Það liggi í hlutarins eðli að áhætta hafi verið fólgin í þessu verkefni fyrir báða aðila.  Hafi hvorki stefnandi né stefndi mátt ætla eða getað vænst þess að verkefnið myndi skila verulegum arði.  Hafi stefndi ekki skuldbundið sig til að tryggja reksturinn til framtíðar heldur þvert á móti sett þau skilyrði í samningi aðila að framlag til rekstrarins yrði að hámarki 15 milljónir króna.  Vilji stefnda hafi staðið til að koma af stað arðbærri framleiðslu og hafi miklu verið til kostað til þess að reyna að tryggja að þær fyrirætlanir yrðu að veruleika.  Hins vegar hafi þurft að stöðva frekari framkvæmdir til að koma í veg fyrir frekara tjón.

Komi til þess að fallist verði á einhvern hluta framangreindra krafna krefst stefndi skuldajafnaðar á grundvelli gagnkröfu stefnda sem gerð er grein fyrir hér að framan.  Þá er enn fremur krafist skuldajafnaðar á grundvelli skuldar Blokkar ehf. við stefnda og telur stefndi ljóst að greiðslur til Blokkar ehf. hafi verið 300.000 krónum umfram það sem félaginu hafi borið samkvæmt samningi aðila.  Stefnandi beitir þessari skuldajafnaðarkröfu gegn kröfum stefnanda sem hann hafi fengið framseldar frá Blokk ehf. og eigi það við um allar kröfur nema kröfu stefnanda um greiðslu launa í tvö ár.

Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að miðað sé við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti.  Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ekki er um það deilt í máli þessu að stefnandi var ráðinn til þess að aðstoða Þróunarfélag Vestmannaeyja við stofnun, uppsetningu og rekstur matvælaverksmiðju í Vestmannaeyjum í kjölfar kaupa félagsins á vélum, tækjum og öllum búnaði Öndvegisrétta ehf., fyrirtækis sem stefnandi hafði rekið ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavík og sérhæfði sig í vinnslu á tilbúnum fisk- og kjötréttum.  Var lögð á það áhersla í samningi aðila að stofnað yrði nýtt félag um reksturinn, stefnandi legði hinu nýja félagi til þekkingu sína og léti því í té allar uppskriftir og þróunarvinnu. 

Óumdeilt er að dráttur varð á greiðslu hluta samningsgreiðslunnar, þ.e. 1.000.000 krónur sem greiða átti 15. janúar 2002 voru greiddar í tveimur hlutum, 500.000 krónur þann 2. september sama ár og sama fjárhæð 15. október sama ár.  Ágreiningur aðila snýst um útreikning dráttarvaxta, en stefnandi hefur við flutning málsins viðurkennt skuldajafnaðarkröfu stefnda, en hún er á því byggð að stefnandi hélt afnotum húsnæðis eftir uppsögn.  Ekki hafa verið lögð fyrir dóminn gögn um það hvenær stefnandi flutti úr húsnæðinu og verður dómur því ekki lagður á þessa kröfu.  Verður þessum kröfulið því vísað frá dómi.

Stefnandi skilur samning aðila svo að stefndi hafi ábyrgst launagreiðslur til hans í tvö ár eftir að framleiðsla verksmiðjunnar hæfist.  Hafi stefnandi annars vegar verið ráðinn til vinnu þar til framleiðsla hæfist og hins vegar í tvö ár eftir það.  Þegar stefnanda hafi verið sagt upp störfum frá og með 1. desember 2003 hafi framleiðsla enn ekki verið hafin og beri honum því laun í tvö ár eftir þann tíma.  Stefndi byggir hins vegar á því að hann hafi ekki ábyrgst fullar efndir á launasamningi og afnotasamningi um húsnæði lengur en til 1. desember 2003.  Í samningnum segir að stefnandi skuldbindi sig til að vinna við hið nýja fyrirtæki í a.m.k. 2 ár frá því að framleiðsla hefst.  Þá er kveðið á um tiltekin grunnlaun til hans sem hækki samkvæmt launavísitölu og skyldu laun greiðast frá 1. desember 2001.  Þá segir að Þróunarfélag Vestmannaeyja ábyrgist launagreiðslur til stefnanda þar til hið nýja félag hafi hafið framleiðslu.  Þá er að lokum tekið fram í lok samningsins að verði eigendaskipti að þeim rekstri sem fyrirhugað sé að hefja, skuli Þróunarfélagið ábyrgjast gagnvart stefnanda fullar efndir á launasamningi og afnotasamningi um húsnæði til 1. desember 2003.  Ljóst er að framleiðsla hófst aldrei og ekki varð af því að nýtt félag yrði stofnað um reksturinn.  Hvað sem líður ákvæðum samningsins um væntanleg störf stefnanda við nýtt fyrirtæki í 2 ár eftir að framleiðsla hæfist og ábyrgð Þróunarfélagsins í því sambandi verður ekki fram hjá því litið að samkvæmt skýrum ákvæðum samningsins ábyrgðist Þróunarfélagið ekki fullar efndir á launasamningi lengur en til 1. desember 2003, enda ljóst að á þeim tíma sem samningurinn var gerður var ekki fyrirsjáanlegt hver örlög verkefnisins yrðu.  Á stefnandi því ekki ekki kröfu á hendur stefnda um launagreiðslur til lengri tíma en í samningi greinir og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda að þessu leyti.

Stefnandi gerir einnig kröfu um greiðslu ýmiss konar kostnaðar sem hann telur sig hafa haft vegna vinnu við að koma framleiðslunni á fót.  Hefur stefnandi lagt fram 3 reikninga sem allir eru dagsettir 20. október 2003 og varðar reikningur nr. 15 kostnað vegna notkunar á sendibíl í 18 mánuði.  Reikningur nr. 16 er sagður vera vegna þróunar- og tilraunaframleiðslu á marningi og uppsjávarfiski og er þar tilgreindur hráefnis- og flutningskostnaður, vinna hjá Rf, vinnulaun, umbúðir og sendingarkostnaður.  Reikningur nr. 17 varðar tilraunavinnslu og söluvinnu vegna fiskborgara og er þar tiltekinn hráefnis- og ferðakostnaður, greiðsla til Iðntæknistofnunar og vinnulaun.

Samkvæmt áðurgreindum samningi aðila skuldbatt stefnandi sig til að leggja hinu nýja félagi til þekkingu sína og aðstoða við stofnun, uppsetningu og rekstur matvælaverksmiðjunnar.  Er ekki annað í ljóst leitt en að stefnandi hafi staðið við þennan hluta samningsins og þegið laun fyrir það.  Hins vegar verður ekki ráðið af samningi aðila að stefnandi skyldi einn bera þann kostnað sem af þessu hlytist og verður því fallist á réttmæti kröfu hans að þessu leyti.   Hafa reikningar stefnanda ekki verið hraktir og verða þeir teknir til greina.  Frá kröfunni verða dregnar 300.000 krónur sem stefndi greiddi stefnanda 5. júlí 2003.

Samkvæmt síðari stefnunni krefst stefnandi greiðslu vegna þeirrar skuldbindingar Þróunarfélagsins að afsala til Blokkar ehf. 10% af hlutafé hins nýja félags, Westmars ehf., án annars endurgjalds en þess sem Blokk ehf. hafi látið af hendi með áðurgerðum samningi.  Segir í samningnum að reiknað sé með að framlög Þróunarfélagsins til hins nýja félags verði að lágmarki 10.500.000 krónur en að hámarki 15.000.000 krónur.  Sé þar miðað við kaupverð eigna og kostnað við samningagerð og standsetningu verksmiðjunnar.  Eins og rakið hefur verið hér að framan varð ekkert af stofnun félagsins en fyrir liggur að Þróunarfélagið stóð við  ákvæði samningsins um framlög til hins nýja félags.  Er raunar upplýst að fjárhagslegt tap stefnda af verkefninu nemur tugum milljóna króna.  Hefur ekki verið sýnt fram á hvers virði 10% hlutur stefnanda í félaginu hefði orðið við þessar aðstæður.  Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þessum sökum og verður stefndi því sýknaður af þessari kröfu stefnanda.

Eftir þessum úrslitum og með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur upp í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Vestmannaeyjabær, greiði stefnanda, Ragnari Þ. Guðmundssyni, 2.028.105 krónur ásamt vanskilavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2003 til greiðsludags að frádregnum 300.000 krónum sem greiddar voru stefnanda 5. júlí sama ár.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur upp í málskostnað.