Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2005


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Hraðakstur
  • Akstur án öryggisbeltis
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

Nr. 19/2005.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson  vararíkissaksóknari)

gegn

Guðlaugi Helga Valssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Fjársvik. Akstur án ökuréttar. Hraðakstur. Akstur án öryggisbeltis. Ítrekun.

G var sakfelldur fyrir fjársvik og umferðarlagabrot. Var hann dæmdur til greiðslu skaðabóta og gert að sæta fangelsi í samtals 8 mánuði.

             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar 16. desember 2004 dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2004 og Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Í forsendum héraðsdóms 5. nóvember 2004 eru nefndir tveir dómar frá árinu 2002, sem ákærði hlaut fyrir auðgunarbrot. Þar er hins vegar ekki nefndur dómur Héraðsdóms Austurlands 28. september 2000, þar sem ákærði hlaut 30 daga skilorðsbundið fangelsi, m.a fyrir slíkt brot framið 26. janúar 2000. Þau brot sem ákærði var sakfelldur fyrir í þessum málum hafa öll ítrekunaráhrif á þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í dóminum 5. nóvember 2004, sbr. 1. mgr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði játaði sakargiftir málsins sem dæmt var 5. nóvember 2004 strax við lögreglurannsókn í október og nóvember 2002 og virðast brot hans þá að fullu hafa verið upplýst. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 7. september 2004. Við ákvörðun refsingar fyrir þessi brot er litið til þessa dráttar á meðferð málsins ákærða til hagsbóta.

Að því er varðar héraðsdóminn 18. nóvember 2004 ber við ákvörðun refsingar að líta til hins einbeitta brotavilja ákærða sem sakfelldur er í dóminum fyrir akstur án ökuréttar í átta skipti á tímabilinu 1. júní til 13. ágúst 2004, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  

Við ákvörðun refsingar ákærða er, auk þess sem að framan greinir, litið til 77. gr. almennra hegningarlaga sem og forsendna hinna áfrýjuðu dóma og verða þeir staðfestir.

Ákærði greiði sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinir áfrýjuðu dómar skulu vera óraskaðir.

Ákærði, Guðlaugur Helgi Valsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur  Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2004

Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 7. september sl. á hendur Guðlaugi Helga Valssyni, kt. [...], Hrafnhólum 6, Reykjavík, fyrir fjársvik með því að hafa, á tímabilinu frá 2. september til 20. október 2002, svikið út á bensínstöðvum í Reykjavík bensín að andvirði alls 398.691 króna með notkun þriggja viðskiptakorta Einars og Tryggva ehf., kt. [...], á viðskiptanúmerið [...] hjá Skeljungi hf. sem ákærði hafði komist yfir og látið skuldfæraandvirðið heimildarlaust á reikning félagsins svo sem rakið er:

1)  164.381 krónu á tímabilinu 2. september til 1. október með notkun viðskiptakorts nr. [...] vegna bifreiðarinnar HZ-230.

2)  12.622 krónur þann 5. október með notkun viðskiptakorts nr. [...] vegna bifreiðarinnar KS-758.

3)  221.688 krónur á tímabilinu frá 12.-20. október með notkun viðskiptakorts nr. [...] vegna bifreiðarinnar IT-298.

Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu er þess krafist af hálfu Einars og Tryggva ehf., kt. [...], að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 398.691 króna ásamt vöxtum samkvæmt 8., 9. og 12. gr. vaxtalaga frá 20. október 2002 til greiðsludags og 75.000 krónur í málskostnað.

Verjandi ákærða krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt og samþykkt fram komna skaðabótakröfu Einars og Tryggva ehf.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsi­ákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í desember 1980.  Frá árinu 1999 hefur hann samtals 13 sinnum verið dæmdur eða gengist undir sektir vegna brota á almennum hegningar­lögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 231. gr., 2. mgr. 257. gr. og 244. gr. laga nr. 19/1940. Varðaði sá dómur refsiverða háttsemi ákærða frá í desember 1999. Eftir þann dóm gekkst ákærði undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 25. nóvember 2002 vegna fíkniefnalagabrots. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2002 var ákærði sviptur ökurétti í 6 mánuði vegna umferðarlagabrots, brota gegn 244. gr. laga nr. 19/1940 og lögum um ávana- og fíkniefni. Var honum ekki gerð sérstök refsing að öðru leyti. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. september 2003 var ákærði dæmdur vegna brota á 244. gr. laga nr. 19/1940, en ekki gerð sérstök refsing. Loks var hann með dómi sama dómstóls 4. maí 2004 dæmdur vegna brota á umferðarlögum. Var honum ákvörðuð sekt og svipting ökuréttar. Brot þau er ákærði er hér sakfelldur fyrir eru framin eftir uppsögu dóms Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002. Þrátt fyrir að sá dómur kunni að hafa verið birtur ákærða eftir 2. september 2002, svo sem hann hefur haldið frammi í réttinum, ber að miða ákvörðun hegningarauka skv. 78. gr. laga nr. 19/1940 við dómsuppsögu. Eru brot ákærða nú því ekki hegningarauki við dóm Héraðsdóms Austurlands, heldur ítrekun gagnvart fyrra broti. Að öðru leyti eru brot hans hegningarauki við þá dóma er síðar hafa verið kveðnir upp og ber því um ákvörðun refsingar að því leyti að vísa til 78. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða eru talsverð, og spanna tímabilið frá 2. september til 20. október 2002. Nemur samanlögð fjárhæð þess eldsneytis er hann hefur svikið út á bensínstöðvum 398.691 krónu. Samkvæmt því er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Í ljósi þeirra hagsmuna er um ræðir og sakaferils ákærða þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Ákærði hefur samþykkt skaðabótakröfu Einars og Tryggva ehf., að fjárhæð 398.691 króna, ásamt 75.000 krónum í málskostnað. Verður krafa þessi því tekin til greina, svo sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Guðlaugur Helgi Valsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði greiði Einari og Tryggva ehf., kt. 711090-1189, 398.691 krónu í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 20. október 2002 til 12. maí 2004, en dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, og 75.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2004.

Málið er höfðað með ákæru sýslumannsins í Kópavogi, útgefinni 14. september 2004 á hendur ákærða, Guðlaugi Helga Valssyni, kt. [...] Hrafnhólum 6, Reykjavík, fyrir eftirgreind umferðarlagabrot:

1)   Með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 15. apríl 2004, ekið bifreiðinni MZ-984 með 117 kílómetra hraða miðað við klukkustund og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, vestur Reykjanesbraut við Hvassahraun, eftir vegarkafla þar sem leyfilegur hámarkshraði var 90 kílómetrar á klukkustund.  

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

2)   Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 2. maí 2004, ekið bifreiðinni ZS-376 með 109 kílómetra hraða miðað við klukkustund austur Álftanesveg í Bessastaðahreppi, eftir vegarkafla vestan við Garðaholt þar sem leyfilegur hámarkshraði var 70 kílómetrar á klukkustund. 

Telst þetta varða við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

3)   Með því að hafa að morgni þriðjudagsins 1. júní 2004, ekið bifreiðinni ZS-376, sviptur ökurétti og án þess að nota öryggisbelti vestur Reykjanesbraut í Kópavogi, uns lögregla stöðvaði akstur hans móts við bensínafgreiðslu Skeljungs hf. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

4)    Með því að hafa að kvöldi laugardagsins 12. júní 2004, ekið bifreiðinni ZS-376, sviptur ökurétti norður Skemmuveg í Kópavogi, uns lögregla stöðvaði akstur hans móts við bleika götu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

5)    Með því að hafa að morgni sunnudagsins 20. júní 2004, ekið bifreiðinni ZS-376, sviptur ökurétti vestur Flatahraun í Hafnarfirði, að Sléttuhrauni 24, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

6)    Með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 22. júní 2004, ekið bifreiðinni ZS-376, sviptur ökurétti norður Reykjanesbraut í Kópavogi og Álfabakka í Reykjavík að Stekkjabakka 2, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

7)    Með því að hafa laugardaginn 24. júlí 2004, ekið bifreiðinni LT-169, sviptur ökurétti um Bústaðaveg í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans móts við Veðurstofu Íslands.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

8)    Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. ágúst 2004, um kl. 02:17, ekið bifreiðinni LT-169, sviptur ökurétti, um Bústaðaveg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði akstur hans móts við Kringlumýrarbraut.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

9)    Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. ágúst 2004, um kl. 03:04, ekið bifreiðinni LT-169, sviptur ökurétti, um Blikahóla í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

10)    Með því að hafa föstudaginn 13. ágúst 2004, ekið bifreiðinni LT-169, sviptur ökurétti, austur Suðurlandsveg í Skaftárhreppi, með 107 kílómetra hraða miðað við klukkustund, eftir vegarkafla í Ásahrauni, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 82, 1998, og 57, 1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."

Af hálfu sækjanda var því lýst yfir að í 2 lið ákæru eigi að falla niður heimvísun til 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga sem getið er í frumriti ákæruskjals.

Farið er með mál þetta eftir heimildarákvæði 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Í máli verjanda ákærða kom fram er hann tjáði sig um lagaatriði að ákærði teldi að eftir að honum hafi verið birtur dómur frá 4. maí 2004 þann 26. sama mánaðar og hann lýst því yfir að hann taki sér áfrýjunarfrest frestist verkun dómsins að því er sviptingu ökuréttar varðar. Í 104. gr. umferðarlaga segir að áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu ökuréttar, fresti ekki verkun hans að því leyti. Þó geti dómari ákveðið með úrskurði, að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar, ef sérstaklega stendur á.

Ekki er til að dreifa neinum úrskurði er kveður á um frestun á framkvæmd sviptingar og telur dómari því ótvírætt að svipting ökuréttar ákærða hafi tekið gildi við birtingu dómsins.

Ákærði á að baki umtalsverðan sakarferil. Frá árinu 1999 hefur hann 14 sinnum verið dæmdur eða gengist undir sektir fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana og fíkniefni og umferðarlögum. Hefur ákærði tvívegis áður sætt viðurlögum fyrir sviptingarakstur, fyrst þann 12. janúar 2000 og síðan 14. mars 2001. Er því nú um að ræða ítrekun öðru sinni.

Tvö af þeim brotum sem ákærði er nú fundinn sekur um eru framin eftir uppsögu ofangreinds dóms frá 4. maí 2004. Hin brotin átta eru öll framin eftir birtingu hans þar af eru sjö fyrir sviptingarakstur en eitt fyrir hraðakstur auk sviptingaraksturs. Ákærði var þann 5. nóvember sl. dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í 5 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga og ber því að ákvarða refsingu ákærða nú sem hegningarauka og tiltaka refsinguna eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hrl. 45.000 krónur.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Guðlaugur Helgi Valsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hrl. 45.000 krónur.