Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2001
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sakhæfi
- Öryggisráðstafanir
- Refsiákvörðun
- Dómur
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2002. |
|
Nr. 446/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Jóni Andréssyni (Jón Hjaltason hrl.) |
Líkamsárás. Sakhæfi. Öryggisráðstafanir. Refsiákvörðun. Dómur. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.
J var í héraði fundinn sekur um verknað er varðaði við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Á grundvelli 15. gr. sömu laga hafði J jafnframt verið sýknaður af refsikröfu ákæruvalds. Ekki var talið að gera hefði þurft grein fyrir þessari niðurstöðu í dómsorði. Niðurstaða héraðsdóms um að gera J skylt að gangast undir lyfjameðferð var talin samrýmast ákvæðum 62. gr. laga nr. 19/1940 og að nægilega væri gerð grein fyrir því í forsendum héraðsdóms hvernig læknismeðferð J skyldi háttað. Ómerkingarkröfu ákæruvaldsins var samkvæmt þessu hafnað og stóð héraðsdómur óraskaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds 4. desember 2001. Hann krefst ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að niðurstöðu um að áfrýjandi hafi framið þann verknað, sem honum var gefinn að sök í ákæru, og að hann varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Jafnframt var ákærði sýknaður af kröfu ákæruvalds um refsingu í málinu, þar sem hann hafi verið með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga. Óþarft var að gera nánari grein fyrir þessari niðurstöðu í dómsorði, svo sem ákæruvaldið virðist þó telja til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu héraðsdóms, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997 á bls. 73.
Niðurstaða héraðsdóms um að gera ákærða skylt að gangast undir lyfjameðferð samrýmist ákvæðum 62. gr. almennra hegningarlaga.
Nægilega er gerð grein fyrir því í forsendum hins áfrýjaða dóms hvernig læknismeðferð áfrýjanda vegna geðsjúkdóms þess, sem hann er haldinn, skuli háttað. Var ekki þörf á að endurtaka það sérstaklega í dómsorði, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1995 á bls. 1199.
Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til að verða við kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og skal hann því standa óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Hjaltasonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. nóvember 2001.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. nóvember sl., er höfðað með ákæru Sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 6. september sl., á hendur Jóni Andréssyni, kt. 120764-2769, Faxastíg 41, Vestmannaeyjum „fyrir líkamsárás, með því að hafa, síðdegis föstudaginn 7. apríl 2000, í garði við heimili sitt að Faxastíg 41 í Vestmannaeyjum, ráðist að Aroni Karli Ásgeirssyni, kt. 051192-2739 og sparkað í ofanverðan vinstri fót hans með þeim afleiðingum að vinstri lærleggur hans þverbrotnaði rétt ofan við miðju.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20 frá 1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Þá hefur Óðinn Elíasson héraðsdómslögmaður krafist þess fyrir hönd foreldra Arons Karls, þeirra Ásgeirs Guðmundssonar og Sædísar Kristjönu Gígju, að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim skaða- miska- og þjáningabætur að fjárhæð kr. 837.745,-, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25 frá 1987 frá tjónsdegi og síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”
Við þingfestingu málsins 10. október sl. lagði ákærandi fram svohljóðandi framhaldsákæru með vísan til heimildar í 1. mgr. 118. gr., sbr. 1 mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 84/1996:
„Á eftir kröfu um að ákærði verði dæmdur til refsingar komi: en til vara að honum verði gert að sæta ráðstöfunum á viðeigandi stofnun skv. 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.”
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst verjandi þess að refsing verði felld niður eða ákærði dæmdur til vægustu refsingar sem lög framast leyfi. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Síðdegis föstudaginn 7. apríl 2000 barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning um að Jón Andrésson, ákærði í máli þessu, hefði ráðist á dreng sem var að leik ásamt öðrum börnum á lóðinni við Faxastíg 41 í Vestmannaeyjum. Ákærði og Aron Karl Ásgeirsson, kt. 051192-2739, voru á vettvangi. Aron Karl var fluttur á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum vegna áverka sem hann hafði hlotið. Félagar Arons Karls voru vitni að atburðinum. Vitni, sem gaf sig fram á vettvangi, kvaðst hafa séð mann sem hefði verið að sparka og lemja til nokkurra ungra drengja sem voru þar að leik. Drengirnir hefðu greinilega verið mjög hræddir og hefði einn þeirra legið niðri. Á vettvangi viðurkenndi ákærði að hafa sparkað í dreng sem var að leik við heimili hans. Hann kvaðst eiga við veikindi að stríða sem lýstu sér þannig að hann heyrði raddir. Ákærði kvaðst hafa verið pirraður út af hávaða í drengjunum og því verið mjög æstur er hann fór út og hafi hann tekið fótbolta af einum drengjanna og sparkað í drenginn í leiðinni.
Í áverkavottorði Smára Steingrímssonar skurðlæknis á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum, dags. 9. maí 2000, kom fram að Aron Karl hefði verið lagður inn á Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum 7. apríl það sama ár. Fram kemur að röntgenmyndir hafi sýnt þverbrot á vinstra lærlegg rétt ofan við miðju. Aron Karl hafi gengist undir aðgerð 8. apríl sama ár, en þar sem sú meðferð hafi ekki reynst við hæfi hefði hann verið fluttur á Landspítalann Háskólasjúkrahús í Fossvogi til aðgerðar.
Ákærða var gert að sæta geðrannsókn. Í niðurstöðu Þórðar Sigmundssonar geðlæknis, dags. 12. mars 2001, kemur fram að ákærði sé haldinn geðklofa og sjúkdómsmyndin einkennist af ofsóknarranghugmyndum (paranoid schizophrenia). Hann hafi undanfarna mánuði einnig haft einkenni um alvarlegt þunglyndi, haft sjálfsvígshugmyndir og verið lagður inn vegna alvarlegrar sjálfsvígstilraunar 20. september 2000. Ákærði þurfi á stöðugri lyfjameðferð og eftirliti að halda, en hann sé á þeim tíma sem skýrslan er rituð í meðferð með forðasprautum og lyfjum í töfluformi auk þunglyndislyfja, m.a. vegna lítils sjúkdómsinnsæis og lélegrar meðferðarheldni. Tryggja þurfi að ákærði hafi stuðningsnet kringum sig og að fylgst sé með því að hann taki lyf reglulega. Eingöngu með því móti sé hægt að tryggja að lyfjameðferð haldi einkennum í skefjum. Síðan segir orðrétt í skýrslu geðlæknisins: „Þann 7. apríl 2000 er meint líkamsárás átti sér stað var ákærði með alvarleg og bráð sturlunareinkenni. Hann var með nær stöðugar ofskynjanir í formi heyrnarofskynjana og einnig ofsóknarranghugmyndir. Hann hafði verið svefnlaus margar nætur, spenntur, uppstökkur og þoldi illa ytra áreiti. Örvænting hans var slík að hann hafði ráðgert að fyrirfara sér daginn áður en hann var handtekinn.” Í lokaorðum skýrslunnar segir: „Hvað varðar sakhæfi í þessu máli er það álit undirritaðs að ákvæði 15. gr. hegningarlaga nr. 19 frá 1940 eigi við í þessu tilviki þar sem ákærði var haldinn bráðaeinkennum alvarlegs geðsjúkdóms og því ófær um að hafa stjórn á hugsunum og gerðum sínum. Komist réttur að því að andlegt ástand ákærða hafi ekki verið svo alvarlegt að 15. grein hegningarlaga eigi við en ákvæði 16. greinar sömu laga eigi frekar við í þessu tilviki þá telur undirritaður ekki að refsing muni bera árangur.”
Í málinu hefur verið lögð fram skýrsla Hönnu R. Björnsdóttur, deildarstjóra málefna fatlaðra hjá Félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar, þar sem aðstæðum ákærða er lýst. Í lokakafla skýrslu segir: „Svo framarlega sem Jón fær sín lyf tel ég hverfandi líkur á að hann sé hættulegur umhverfi sínu. Miðað við hans vanlíðan og þunglyndi þá er hann meira hættulegur sjálfum sér en öðrum... Jón á í mínum huga ekki heima með ósakhæfum afbrotmönnum eins og á réttargeðdeildinni á Sogni, enda deild fyrir fólk sem er mjög sjúkt og þarf bæði meðferð og öryggisgæslu. Meint líkamsárás Jóns er hans fyrsta brot framið í sjúklegu ástandi vegna ónógrar læknis- og lyfjahjálpar. Jón er í dag vel meðvitaður um hvað gerist og ber meiri eftirsjá en margir ósjúkir aðilar er fremja slík brot. Sektarkennd hans beinist eingöngu að honum sjálfum og setur hann í verulegan áhættuhóp m.t.t. sjálfsvígshættu. Það er álit undirritaðrar að Jón þurfi fyrst og fremst á meðferð og endurhæfingu að halda frekar en öryggisgæslu. Hann hefur sjálfur óskað eftir því að fá vistun á Arnarholti. Þar tel ég að hann muni fá þá meðferð sem hann þarf til þess að geta lifað eins eðlilegu lífi og hægt er í framtíðinni.”
Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali. Hann kvaðst á umræddum tíma hafa verið mjög veikur og hafi ástand sitt ekki batnað, en hann gangi til læknis og fái forðasprautur hálfsmánaðarlega við geðsjúkdómi sem hann er haldinn. Aðspurður um atburðinn kvaðst ákærði ekki mikið muna eftir honum. Á þeim tíma hafi hann vanrækt að taka lyf. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvaða afleiðingar verknaður hans hafði. Á þessum tíma hafi hann heyrt raddir og eftir atburðinn hefði hann reynt að svipta sig lífi. Í dag haldi lyf niðri sjúkdómi hans og taldi ákærði ólíklegt að hann væri fær um að gera nokkrum mein í dag, auk þess sem hann væri líkamlega mjög slappur af lyfjunum.
Þórður Sigmundsson, geðlæknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi, staðfesti geðheilbrigðisrannsókn sína fyrir dóminum. Fram kom hjá vitninu að ákærði væri haldinn geðklofa á háu stigi. Hann hefði veikst fyrst fyrir rúmum fjórum árum, en haft nær stöðug viðvarandi geðrofseinkenni. Þau væru þó mismikil og minni þegar hann tæki lyf. Ákærði hafi lítið sjúkdómsinnsæi og hætti því oft á tíðum að taka lyf með þeim afleiðingum að sjúkdómurinn versnaði. Vitnið sagði að hægt væri að halda niðri sjúkdómseinkennum með forðasprautum sem gefnar væru undir eftirliti. Aðspurt hvort öðru fólki stafaði háski af ákærða sagði vitnið að alltaf væri erfitt að meta nákvæmlega slíka hættu. Við það mat yrði að líta til fyrri sögu og afbrotaferils. Ekkert í sögu ákærða bendi til að hann sé ofbeldismaður og engin saga um lyfja- eða fíkniefnamisnotkun. Orðrétt sagði vitnið: „Þetta er ekki maður sem að ég mun telja hættulegan, svo framarlega sem hann fái þá meðferð og sé í tengslum við meðferðaraðila.” Vitnið taldi að vistun á Sogni væri ekki við hæfi. Ákærði væri ekki það hættulegur að hann þyrfti að vera í öruggu umhverfi og væri hægt að sinna honum í heimabyggð. Vitnið staðfesti að ákærði hefði á verknaðarstund verið ófær um að hafa stjórn á hugsunum og gerðum sínum, hann hafi ekki verið sakhæfur, og refsing myndi ekki bera árangur.
Niðurstaða
Ákærði hefur skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök. Játning hans er í samræmi við gögn málsins og verknaðarlýsingu í ákæruskjali. Með háttsemi sinni hefur ákærði framið verknað sem varðar við 1. mgr. 218.gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þegar litið er til framburðar geðlæknisins, sem skoðaði ákærða, og framangreindrar geðheilbrigðisrannsóknar, er það mat dómsins að geðsjúkdómur ákærða hafi verið á því stigi, að hann hafi verið með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum, er hann vann það verk sem honum er gefið að sök og því ósakhæfur. Ber því að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins um refsingu í málinu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Vegna eðlis brots ákærða og þess sem fram er komið um geðhagi hans, þykir bera nauðsyn til, vegna réttaröryggissjónarmiða, að gera ráðstafanir til að varna því að háski stafi af ákærða. Með vísan til 62. gr. almennra hegningarlaga er ákveðið að ákærði undirgangist viðeigandi meðferð vegna geðsjúkdóms sem hann er haldinn. Skal meðferðin vera í höndum Sjúkrahússins í Vestmannaeyjum/Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum, í formi forðasprauta á hálfs mánaðar fresti, og á ábyrgð yfirlæknis þar. Er ákærða í þessu skyni gert að mæta til lyfjatöku, eftirlits og meðferðar á hálfsmánaðar fresti, eftir ákvörðun yfirlæknis hverju sinni. Með vísan til 3. mgr. 139. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er ákveðið að áfrýjun fresti ekki framkvæmd dómsins.
Óðinn Elíasson hdl. hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða fyrir hönd foreldra Arons Karls, Ásgeirs Guðmundssonar og Sædísar Kr. Gígju. Höfuðstóll kröfunnar sundurliðast þannig:
„1. Þjáningabætur 120 x 1560 kr.kr.187.000,00
2. Útlagður lækniskostnaður og annar kostnaðurkr.263.245,00
3. Lögfræðikostnaður og virðisaukaskatturkr. 87.500,00
Samtalskr.537.745,00
Með viðauka við bótakröfunna var sett fram krafa um greiðslu á 300.000 krónum vegna miska með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993, þar sem komið hefði í ljós að áverki brotaþola leiddi ekki til varanlegrar örorku. Lögmanni brotaþola var gefinn kostur á að mæta við þingfestingu máls þessa, en hann sótti ekki þing. Ofangreind krafa er þess eðlis að málflutnings hefði verið þörf um hana, en slíkt hefi ekki getað orðið án verulegs óhagræðis í máli þessu, sem farið er með í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991. Verður því ekki hjá því komist að vísa kröfunni frá dómi.
Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal allur sakarkostnaður, þar með talin málflutningsþóknun verjanda ákærða, Helga Bragasonar hdl, sem þykir hæfilega ákveðin 70.000 krónur, greiddur úr ríkissjóði.
Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærða, Jóni Andréssyni, er skylt að undirgangast lyfjatöku og meðferð samkvæmt framangreindu. Áfrýjun frestar ekki áhrifum þessa dómsákvæðis.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málflutningsþóknun Helga Bragasonar hdl., 70.000 krónur, skal greiddur úr ríkissjóði.