Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2009


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. október 2009.

Nr. 186/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Ólafi Pétri Péturssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Skilorðsrof.

 

X var sakfelldur fyrir átta þjófnaðarbrot. Með brotunum rauf hann skilorð eldri dóms þar sem hann hafði hlotið 21 mánaða fangelsi skilorðsbundið í fimm ár. Þá hafði X einnig hlotið dóm eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms þar sem X hafði enn verið dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir fjölmörg hegningarlagabrot auk umferðarlagabrots, en átta brot samkvæmt þeim dómi höfðu verið framin eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var skilorðsdómur X tekinn upp og honum gerð refsing með hliðsjón af 77. gr. laganna. Var X dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærði hafði hlotið níu dóma, þar af sjö sinnum verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir auðgunarbrot, þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 19. mars 2009. Með honum var tekinn upp 21 mánaða skilorðsdómur frá 25. maí 2007 og heildarrefsing ákveðin fangelsi tvö og hálft ár. Hinn 1. september síðast liðinn var ákærði enn dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir fjölmörg hegningarlagabrot og auk þess umferðarlagabrot, voru átta brotanna framin eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms sem birtur var sama dag. Ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða verður staðfest með vísan til 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði verður dæmdur til þess að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti að viðbættum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 207.126 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009.

Ár 2009, fimmtudaginn 19. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 268/2009:  Ákæruvaldið (Guðjón Magnússon) gegn Ólafi Pétri Péturssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.), sem tekið var til dóms í sama þinghaldi.

Málið var höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 10. mars sl. á hendur ákærða, Ólafi Pétri Péturssyni, kt. 200378-3509, Geitlandi 8, Reykjavík, og A, kt. [...].  Málið hefur verið skilið í sundur vegna útivistar A og er því dæmt um hlut ákærða Ólafs Péturs eins.  Málið er höfðað “fyrir eftirgreinda þjófnaði í Reykjavík nema annars sé getið:

                I.  Ákærðu báðum fyrir að hafa í félagi brotist inn í hesthús í nóvember 2007 og stolið þar munum.

                                                                                                1.

Hesthús nr. 12. B-tröð í Víðidal og stolið hnakk og tveimur beislum að verðmæti um 210.000 kr.

                                                                                                2.

Hesthús við Hólmsheiði 1A og stolið dýnu, hnakk, tveimur stallmúlum, krossmúl, tveimur nasamúlum, fjórum beislum, písk og tveimur teymigjörðum alls að verðmæti um 220.000 kr.

 

                II.  Ákærða Ólafi Pétri fyrir þjófnaði með því að hafa:

                                                                                                1.

Föstudaginn 19. júlí 2008 stolið tveimur gaskútum við hústjald í Arahólum.

                                                                                                2.

Fimmtudaginn 7. ágúst 2008 stolið vöru að verðmæti 23.506 kr. í versluninni Europris, Fiskislóð 3.

                                                                                                3.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008 stolið vöru að verðmæti 40.877 kr. í versluninni Krónunni, Fiskislóð 15 -21.

                                                                                                4.

Þriðjudaginn 9. desember 2008 stolið vöru að verðmæti 81.442 í verslun Hagkaupa við Holtaveg.

                                                                                                5.

Mánudaginn 13. október 2008 stolið tveimur ilmvatnsglösum að verðmæti 13.298 kr. í verslun Hagkaupa í Smáralind, Kópavogi.

                                                                                                6.

Miðvikudaginn 28. janúar 2009 stolið lambalæri að verðmæti 3.899 kr. í versluninni Krónunni, Fiskislóð 15-21.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

                III.  Ákærðu A fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 13. september 2008 stolið gervinöglum að verðmæti 1.143 kr. í lyfjaversluninni Lyfju, Lágmúla 5.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.”

Málavextir

Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um verknaði þá sem lýst er í ákærunni og réttilega eru þar færðir til refsiákvæðis. 

Ákærði á að baki talsverðan sakaferil allt frá því að hann hlaut ákærufrestun árið 1999.  Hefur hann hlotið átta dóma fyrir margvísleg brot og þar af hefur hann verið dæmdur sjö sinnum fyrir auðgunarbrot.  Samkvæmt dómi 25. maí 2007 hlaut hann 21 mánaðar fangelsi skilorðsbundið í 5 ár.  Var um að ræða uppsafnaða refsingu samkvæmt sex fyrri skilorðsdómum.  Ákærði hefur rofið skilorð dóms þessa og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár.

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson sæti fangelsi í  tvö og hálft ár.

                Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun.