Hæstiréttur íslands
Mál nr. 745/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Fjárnám
- Skuldajöfnuður
|
|
Miðvikudaginn 18. nóvember 2015. |
|
Nr. 745/2015.
|
Háfell ehf. (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) gegn Vegagerðinni (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Aðför. Fjárnám. Skuldajöfnuður.
H ehf. krafðist þess að fjárnám yrði gert í eigum V til tryggingar kröfu sem félagið hafði öðlast á hendur V og íslenska ríkinu með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Í málinu lá fyrir að tollstjóri hafði, áður en aðfararbeiðni H ehf. var lögð fram, lýst yfir skuldajöfnuði gegn dómkröfu H ehf. vegna vangoldins virðisaukaskatts félagsins. Við fyrirtöku gerðarinnar féllst sýslumaður á kröfu V um að fella gerðina niður þar sem skuldin hafði þegar verið greidd með skuldajöfnuði. Talið var að skilyrðum skuldajafnaðar hefði verið fullnægt þegar tollstjóri lýsti yfir skuldajöfnuði og að þess réttar hefði hann notið sem innheimtumaður ríkissjóðs án tillits til þess hvort íslenska ríkið hefði verið dómfelldi í áðurgreindu máli. Var því fallist á það með V að krafa H ehf. hefði þegar verið greidd með skuldajöfnuði og að sýslumanni hefði verið rétt að stöðva framgang gerðarinnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2015 sem barst réttinum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila fyrir nánar tilgreindri skuld. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að tekin verði til greina krafa sín um fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld að fjárhæð 66.283.017 krónur auk dráttarvaxta og nánar tilgreinds kostnaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Atvik málsins eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var varnaraðila með dómi Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013 gert ásamt íslenska ríkinu að greiða sóknaraðila óskipt 44.819.764 krónur með dráttarvöxtum frá 21. nóvember 2011 til greiðsludags. Þá var dómfelldu einnig gert að greiða sóknaraðila óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Í bréfum tollstjóra 2. og 21. október 2014 til sóknaraðila var vísað til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar og sagt að tollstjóri hefði til innheimtu gjaldfallnar kröfur ríkissjóðs á hendur sóknaraðila vegna vangoldins virðisaukaskatts. Í fyrra bréfinu var lýst yfir skuldajöfnuði gegn dómkröfunni vegna vangoldins virðisaukaskatts árin 2009 og 2010 en í því seinna gegn málskostnaðarkröfunni vegna virðisaukaskattskulda frá árinu 2010. Í málinu er ekki deilt um fjárhæðir og er ágreiningslaust að eftir framangreindar yfirlýsingar tollstjóra um skuldajöfnuð nam skuld sóknaraðila við ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts 91.618.477 krónum. Með aðfararbeiðni 5. desember 2014 óskaði sóknaraðili eftir að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila fyrir kröfu sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar sem samkvæmt aðfararbeiðni nam samtals 66.283.017 krónum. Í hinum kærða úrskurði eru rakin atvik málsins frá því aðfararbeiðnin var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni og þar til hann féllst á þau rök varnaraðila að krafa sóknaraðila hefði verið greidd með skuldajöfnuði og felldi gerðina niður.
Í 40. gr. laga nr. 90/1989 segir að heimilt sé gerðarþola að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu gerðarbeiðanda með kröfu sem orðin er aðfararhæf eða kröfu sem gerðarbeiðandi viðurkennir rétta ef almennum skilyrðum skuldajafnaðar er fullnægt. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 16. október 1995 í máli nr. 321/1995, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 2270, taka ákvæði 40. gr. laga nr. 90/1989 einungis til þess tilviks þegar gerðarþoli setur fram skuldajafnaðarkröfu við framkvæmd fjárnáms. Í því tilviki er til viðbótar þeirri kröfu að almennum skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt áskilið að gagnkrafan sé aðfararhæf eða viðurkennd af gerðarbeiðanda. Öðru máli gegnir þegar svo hagar til að skuldajöfnuði er lýst yfir áður en aðför hefst eins og í því máli sem hér er til úrlausnar. Þá getur gerðarþoli við aðför ítrekað fyrri yfirlýsingu um skuldajöfnuð og borið því við að krafa gerðarbeiðanda sé fallin niður og gilda þá almennar reglur kröfuréttar um skilyrði skuldajafnaðar.
Eins og áður greinir var íslenska ríkið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 gert að greiða sóknaraðila óskipt með varnaraðila nánar tilgreinda fjárhæð ásamt málskostnaði. Krafa ríkissjóðs á hendur sóknaraðila um greiðslu virðisaukaskatts vegna áranna 2009 og 2010 var gjaldfallin þegar tollstjóri lýsti yfir skuldajöfnuði 2. og 21. október 2014. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að skilyrðum skuldajafnaðar samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hafi verið fullnægt þegar tollstjóri sem innheimtumaður ríkissjóðs lýsti með gagnkröfu vegna vangoldins virðisaukaskatts yfir skuldajöfnuði gegn aðalkröfu sóknaraðila um greiðslu dæmdra fjárhæða í máli nr. 778/2013. Þessa réttar til skuldajafnaðar naut tollstjóri sem innheimtumaður ríkissjóðs án tillits til þess hvort íslenska ríkið var dómfelldi í fyrrgreindu máli ásamt varnaraðila. Í framhaldi af því að varnaraðili ítrekaði fyrri skuldajafnaðaryfirlýsingu tollstjóra þegar aðfararbeiðni sóknaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanni og sýndi fram á réttmæti hennar bar sýslumanni að stöðva framgang gerðarinnar, sbr. ákvæði 27. gr. laga nr. 90/1989. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2015 að stöðva framgang aðfarargerðar nr. 011-2014-12917.
Sóknaraðili, Háfell ehf., greiði varnaraðila, Vegagerðinni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2015.
Mál þetta var þingfest 10. apríl 2015 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. september 2015. Sóknaraðili er Háfell ehf., kt. [...], Skeifunni 19, Reykjavík og varnaraðili er Vegagerðin, kt. [...], Borgartúni 5-7, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 6. febrúar 2015 „um að ljúka aðfarargerð nr. 011-2014-12917 án þess að gera fjárnám“ og að „lagt verði fyrir sýslumann að gera fjárnám“ í eignum varnaraðila til tryggingar á kröfu sóknaraðila, sem við dagsetningu aðfararbeiðni, 5. desember 2014, nam samtals 66.283.017 krónum, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags, auk innheimtuþóknunar og alls kostnaðar við gerðina og frekari innheimtuaðgerðir. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Verði krafa sóknaraðila að einhverju leyti viðurkennd er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.
I
Málavextir
Með dómi Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013 var ágreiningur aðila máls þessa útkljáður en málið höfðaði sóknaraðili á hendur varnaraðila og íslenska ríkinu til heimtu ætlaðrar skuldar vegna vinnu sóknaraðila við gerð Héðinsfjarðarganga. Deila aðila laut meðal annars að uppgjöri verklauna og verðbóta á þau vegna vinnu sóknaraðila við verkið, sem og viðbótarverklauna, sem sóknaraðili taldi sig eiga rétt á. Fallist var á kröfu sóknaraðila um verklaun fyrir ákveðinn þátt verksins, auk verðbóta á þau en kröfu um viðbótarverklaun var hafnað. Varnaraðila, Vegagerðinni, ásamt íslenska ríkinu, var þannig gert að greiða sóknaraðila óskipt 44.819.764 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. nóvember 2011 til greiðsludags.
Í bréfi tollstjóra, innheimtumanns ríkissjóðs, til sóknaraðila, 2. október 2014, kom fram að tollstjóri hefði til innheimtu gjaldfallnar kröfur ríkissjóðs á hendur sóknaraðila og var í framhaldi af því lýst yfir skuldajöfnuði fyrrgreindrar kröfu vegna áðurnefnds Hæstaréttardóms upp í vangoldinn virðisaukaskatt félagsins frá árunum 2009-2010. Með bréfi tollstjóra til sóknaraðila, 21. október 2014, var einnig lýst yfir skuldajöfnuði á 1.500.000 krónum, sem varnaraðili og íslenska ríkið voru dæmd til að greiða sóknaraðila í málskostnað í fyrrgreindu máli, upp í vangoldinn virðisaukaskatt félagsins frá árinu 2010.
Með aðfararbeiðni 5. desember 2015 fór sóknaraðili fram á það hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, að fjárnám yrði gert hjá varnaraðila til tryggingar fyrrnefndri kröfu, sem þá nam 66.283.017 krónum, að viðbættum dráttarvöxtum, málskostnaði, innheimtuþóknun og öllum kostnaði við gerðina og frekari innheimtuaðgerðir. Aðilar voru boðaðir í fjárnám sem tekið var fyrir hjá sýslumanni 4. febrúar 2015. Við fyrirtöku fjárnámsins mótmælti varnaraðili því að gerðin næði fram að ganga með vísan til þess að krafa sóknaraðila hefði þegar verið greidd með skuldajöfnuði. Sóknaraðili hélt því fram að skilyrði skuldajafnaðar væru ekki uppfyllt þar sem kröfurnar væru ekki hæfar til að mætast. Þá gerði sóknaraðili kröfu um að varnaraðili legði fram tryggingu fyrir kröfunni í formi peninga sem sýslumaður varðveitti.
Sýslumaður frestaði gerðinni til 6. febrúar 2015 til að varnaraðili gæti kannað eignastöðu sína áður en hann benti á eignir til tryggingar kröfunni eða tæki frekari afstöðu til gerðarinnar. Við síðari fyrirtöku gerðarinnar hjá sýslumanni 6. febrúar 2015 lagði varnaraðili fram bókun með mótmælum sínum frekar rökstuddum. Í kjölfar þess féllst fulltrúi sýslumanns á rök varnaraðila um að krafa sóknaraðila hefði verið greidd með skuldajöfnuði og ákvað að fella gerðina niður. Sóknaraðili lýsti því þá yfir að krafist yrði úrlausnar héraðsdómara um framkvæmd gerðarinnar og var ágreiningi þess efnis skotið til héraðsdóms 5. mars 2015. Var beiðni hans móttekin í héraðsdómi degi síðar.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að ljúka aðfarargerð án þess að gera fjárnám og að sýslumanni verði gert að gera fjárnám í eignum varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að tildæmd krafa hans samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2015 sé enn ógreidd og hafnar því að hún sé niður fallin fyrir skuldajöfnuð, enda hafi skuldajöfnuður sá er tollstjóri beitti ekki verið lögmætur. Kveðst sóknaraðili byggja á því að tollstjóri hafi ekki haft heimild til skuldajafnaðar. Í grunninn snúist málið um hvort yfirlýsingar tollstjóra um skuldajöfnuð séu gildar. Yfirlýsingar tollstjóra séu í eðli sínu stjórnvaldsákvarðanir og verða í vera í samræmi við viðhlítandi heimildir í lögum, sér í lagi þar sem þær eru íþyngjandi fyrir sóknaraðila. Þá þurfi yfirlýsingarnar að vera í samræmi við almennar reglur um skuldajöfnuð, ákvæði stjórnsýslulaga og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Yfirlýsingarnar brjóti í bága við allar þessar reglur og geti því ekki talist gildar. Kveðst sóknaraðili byggja á fjórum meginmálsástæðum. Í fyrsta lagi að skuldajöfnuður byggi ekki á viðhlítandi lagaheimild. Í öðru lagi að skuldajöfnuður uppfylli ekki almennar reglur um skuldajöfnuð. Í þriðja lagi að skuldajöfnuðurinn sé í andstöðu við reglur stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar og í fjórða lagi að skuldajöfnuður sé málsástæða sem sé of seint fram komin.
Sóknaraðili kveður almennar reglur kröfuréttar ekki gilda um rétt ríkisins til skuldajafnaðar en samkvæmt lögmætisreglu íslensks réttar, þurfi stjórnvöld sérstaka lagaheimild til þess að þeim sé heimilt að skuldajafna kröfum sínum á móti þeim kröfum sem skuldarar kunna að eiga á hendur stjórnvaldinu. Skuld sóknaraðila sem íslenska ríkið noti til skuldajöfnunar í málinu sé vegna vangoldins virðisaukaskatts.
Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé kveðið á um heimild ríkisins til að skuldajafna kröfum vegna virðisaukaskatts en þar komi fram að kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs, ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum, skuli skuldajafna á móti endurgreiðslum samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 komi einnig fram að endurgreiðsla til byggingaraðila, sem byggi íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu og sé skattskyldur samkvæmt 2. mgr. 3. gr., megi því aðeins fara fram á að hann hafi staðið skil á virðisaukaskattskýrslu fyrir sama tímabil og endurgreiðslubeiðni hans taki til. Endurgreiðslu samkvæmt þessum málslið skuli skuldajafnað á móti álögðum virðisaukaskatti sama tímabils. Á grundvelli laga um virðisaukaskatt hafi verið sett reglugerð nr. 667/1995 um framtal og skil á virðisaukaskatti. Mælt sé fyrir um skuldajöfnun í 5. mgr. 10. gr. hennar. Þar sé um tæmandi talningu að ræða á heimildum ríkisins til að skuldajafna vangoldnum virðisaukaskatti. Þetta sé í samræmi við það viðhorf sem fram komi í álitum umboðsmanns Alþingis í málum nr. 1437/1995 og 1538/1995 en í þeim sé fjallað um skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum. Skuldajöfnun ráðist ekki af almennum reglum í þessum tilvikum þar sem um þær hafi verið settar tæmandi reglur.
Sóknaraðili telur því einungis heimilt að skuldajafna vangoldnum virðisaukaskatti á móti endurgreiðslukröfu frá skatti. Um afmarkaða heimild sé að ræða sem gildi einungis í ákveðnum tilvikum þegar um er að ræða rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts og vangoldin opinber gjöld eða skatta. Engin heimild sé til þess að skuldajafna vangoldnum virðisaukaskatti á móti samningskröfum sem eiga uppruna sinn að rekja til verksamnings eins og gert hafi verið í þessu máli. Sóknaraðili telur þannig ljóst að íslenska ríkið hafi ekki lagaheimild til þess að skuldajafna vangreiddum sköttum á móti kröfum borgaranna á hendur ríkinu, öðrum en kröfum sem stofnist vegna skattheimtu. Skuldajöfnunin sé aðeins heimil ef báðar kröfur sem mætast eiga rót sína að rekja til laga um skatta og opinber gjöld. Þá verði ofangreind ákvæði ekki skýrð með rýmkandi hætti og þannig sé óheimilt að skuldajafna á móti öðrum fjárkröfum sem ekki eru samrættar kröfum um opinber gjöld. Þá sé þessi túlkun í samræmi við upplýsingar sem fram komi á heimasíðu tollstjóra þar sem segi að í skuldajöfnuði felist að inneign gjaldanda í skattkerfinu sé notuð til að greiða gjaldfallna kröfu og að frumskilyrði þess að unnt sé að beita skuldajöfnuði um skattkröfur sé að gjaldandi eigi inneign og sé á sama tíma í vanskilum við innheimtumenn ríkissjóðs.
Þá telur sóknaraðili að beiting skuldajafnaðar í þessu tilviki sé í raun þvingunarúrræði til að ná fram innheimtu virðisaukaskatts. Í lögum um virðisaukaskatt og áðurnefndri reglugerð sé mælt fyrir um úrræði ríkisins til innheimtu vangoldins virðisaukaskatts sem felist í því að leggja álag á vangoldnar skattgreiðslur, að skattgreiðslur beri dráttarvexti frá ákveðnum tíma, krafan njóti lögtaksréttar og loks stöðvun atvinnurekstrar þeirra sem standa ekki skil á þessum skatti. Í reglugerðinni sé svo að finna ákvæði um innheimtu vangoldins virðisaukaskatts og um stöðvun atvinnurekstrar. Þar sé líka að finna heimild til að leggja á álag. Þarna séu tæmandi talin úrræði innheimtumanns ríkissjóðs til að innheimta vangoldinn virðisaukaskatt. Skuldajöfnuður er ekki þar á meðal. Löggjafinn hafi því ekki mælt svo fyrir að tollstjóra sé heimilt að innheimta vangoldinn virðisaukaskatt með skuldajöfnuði. Yfirlýsing tollstjóra hafi því verið ólögmæt og krafan enn ógreidd.
Þá byggir sóknaraðili á því að svo að yfirlýsing ríkisins um skuldajöfnuð geti talist gild verði hún að uppfylla öll almenn skilyrði sem um hann gilda. Í því felist að kröfur verði að vera gagnkvæmar og sambærilegar og, hvað greiðslutíma snertir, hæfar til að mætast. Þá verði gagnkrafan að vera gild krafa og loks verði gagnkrafan að meginstefnu til að vera skýr og ótvíræð.
Sóknaraðili bendir á að krafa hans samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 sé ekki á hendur ríkinu, nánar tiltekið hvorki á hendur ríkisskattstjóra né öðrum stjórnvöldum sem fari með skattamál. Í máli þessu sé um að ræða tvær kröfur. Annars vegar kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila og hins vegar kröfu tollstjóra á hendur sóknaraðila. Kröfurnar séu því ekki á milli sömu aðila enda sé tollstjóri kröfuhafi annarrar kröfunnar en varnaraðili skuldari hinnar. Þótt tollstjóri og varnaraðili tilheyri báðir íslenska ríkinu verði að telja að heimildin til skuldajafnaðar takmarkist við að um sömu einingu innan ríkisins sé að ræða. Ekki sé hægt að líta á íslenska ríkið sem eina heild við mat á skilyrðum skuldajafnaðar þannig að allir angar þess og allar stofnanir þess geti skuldajafnað með kröfum sem tilheyra íslenska ríkinu. Ekki sé til neitt stjórnvald sem kallist ríkið heldur séu innan ríkisins ákveðin stjórnvöld sem hefur verið falið vald til að fara með tiltekin málefni. Sóknaraðili telur ekki skipta máli í þessu sambandi þótt íslenska ríkið hafi verið aðili að umræddu dómsmáli sem sé rót máls þessa og að skuld varnaraðila sé samkvæmt dómsorðinu óskipt með íslenska ríkinu. Aðild íslenska ríkisins að dómsmáli standi alltaf með fyrirsvarsmanni ákveðinnar ríkiseiningar því að ríkið sé ekki til sem lögpersóna. Það sé fyrst og fremst af réttarfarslegum ástæðum sem íslenska ríkinu sé stefnt samhliða ákveðnum ríkiseiningum. Þá bendir sóknaraðili á að verkefnum sé með lögum skipt milli stjórnvalda með ákveðnum hætti. Eitt stjórnvald megi ekki fara yfir á verksvið annars stjórnvalds. Tollstjóri og varnaraðili séu aðgreindar einingar sem hvor um sig telst stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga og hvorri um sig hafa með lögum verið falin afmörkuð verkefni. Ekki sé hægt að líta á þessi stjórnvöld sem sama aðilann hvað varðar skilyrði um skuldajöfnuð. Kröfurnar séu því ekki gagnkvæmar og þar af leiðandi eru almenn skilyrði um skuldajöfnuð ekki uppfyllt. Varnaraðili sé sjálfstæður aðili og ekki hluti af skattkerfinu. Kröfur um vangoldinn virðisaukaskatt og kröfur gegn Vegagerðinni séu þannig ekki kröfur á milli sömu aðila, þær séu því ekki gagnkvæmar og heldur ekki samrættar. Þannig séu skilyrði fyrir skuldajöfnuði ríkisins ekki uppfyllt hvað þetta snertir. Á hinn bóginn verði önnur skilyrði um skuldajöfnuð að teljast uppfyllt og því ekki nánar vikið að þeim.
Þá verði við úrlausn málsins að hafa í huga hvers eðlis krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé en telja verði að krafan sæti takmörkuðum rétti til skuldajafnaðar vegna þess. Krafan sé einkaréttarleg krafa sem stofnast hafi með verksamningi. Hún sé um vangoldin verklaun og bætur vegna verkframkvæmda sem varnaraðili bauð út sem verkkaupi. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að sóknaraðili ætti rétt á frekari greiðslum vegna framkvæmdarinnar og á krafan því eftir fyrirmælum réttarins og eðli málsins að greiðast í reiðufé. Slík krafa geti ekki takmarkast af mótkröfu ríkisins um vangoldin opinber gjöld sem séu ótengd kröfunni. Það verði að teljast ómálefnalegt að stjórnvöld noti slíkar kröfur til að ná fram markmiðum í skattheimtu. Það að krafan sé um greiðslu verklauna styðji enn frekar það sjónarmið að hún skuli sæta takmörkunum við skuldajöfnuð því að sömu sjónarmið eigi við um slíka kröfu og um launakröfu.
Þá telur sóknaraðili skuldajöfnun með skattkröfu íslenska ríkisins á móti skuld varnaraðila á grundvelli einkaréttarlegs samnings ómálefnalega þar sem ríkið noti skuld vegna verksamnings til að ná fram markmiðum um skattheimtu sem sé óheimilt. Þessar tvær kröfur séu á mismunandi sviðum stjórnsýslunnar og að láta þær mætast sé brot gegn aðgreiningarreglum íslensks stjórnsýsluréttar. Í henni felist að þegar stjórnvald á að ná ákveðnu markmiði með ákvörðun leiði það af eðli máls að önnur markmið eru ekki málefnaleg og ekki heldur það sjónarmið að stefna að öðrum markmiðum. Varnaraðili sé veghaldari íslenskra þjóðvega samkvæmt ákvæðum vegalaga. Þvert á hið lögmæta markmið varnaraðila telji hann rétt að annað stjórnvald, tollstjóri, geti notað kröfuna til að ná markmiðum sínum í skattheimtu. Þetta sé ómálefnalegt af hálfu varnaraðila. Þá telur sóknaraðili að einnig sé brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem sóknaraðila var meðal annars ekki veittur andmælaréttur áður en ákvörðun um skuldajöfnun var tekin. Þá sé ákvörðunin íþyngjandi þar sem sóknaraðili hafi verið þvingaður til að nota kröfu sína á hendur varnaraðila með tilteknum hætti alveg óháð því hvort hann hafi sjálfur kosið að ráðstafa kröfu sinni með þeim hætti. Þá feli yfirlýsing tollstjóra í sér misbeitingu valds á leiðum til úrlausnar máls. Löggjafinn hafi ákveðið þær leiðir sem fara skuli við innheimtu vangoldins virðisaukaskatts. Stjórnvaldi ber skylda til að velja þær leið sem lög mæli fyrir um. Stjórnvald geti ekki stytt sér leið þótt sú rétta sé erfiðari og tímafrekari. Geri stjórnvald það, misbeiti það valdi sínu.
Þá sé það einnig ómálefnalegt af varnaraðila að halda því statt og stöðugt fram fyrir dómstólum í fyrrgreindu hæstaréttarmáli að krafan sé sér óviðkomandi en nýta hana svo til skattheimtu eftir að dómur hefur fallið. Þá sé þetta í raun enn ómálefnalegra í ljósi þess að Hæstiréttur tók undir það með íslenska ríkinu í dómi sínum um að aðild þess hefði ekki verið nauðsynleg.
Einnig tekur sóknaraðili fram að yfirlýsing fyrirsvarsmanns sóknaraðila um ráðstöfun fjármuna inn á skuld vegna virðisaukaskatts hafi enga þýðingu í málinu líkt og varnaraðili haldi fram. Yfirlýsingin breyti því ekki að óheimilt er að taka íþyngjandi ákvarðanir án lagaheimildar og hún geri ekki ólögmætan gerning lögmætan.
Þá heldur sóknaraðili því að lokum fram að málsástæða varnaraðila um rétt hans til skuldajafnaðar sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hún komist því ekki að við uppgjör kröfunnar samkvæmt dómsorði Hæstaréttar. Málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til en í dómsmálinu, sem hafi lokið með fyrrnefndum Hæstaréttardómi í máli nr. 778/2013, hafi varnaraðilar ekki borið fyrir sig þá málsástæðu að þeir ættu kröfu til skuldajafnaðar. Hefði hún komið fram á seinni stigum málsins, t.d. við meðferð þess fyrir Hæstarétti, hefði hún ekki komist að nema með samþykki sóknaraðila. Það sé í andstöðu við framangreinda meginreglu ef aðili heldur ekki fram málsástæðu í dómsmáli en nýtir hana strax eftir að dómur fellur til þess að koma í veg fyrir fullnustu hans.
Til nánari útskýringar á kröfugerð sinni áréttar sóknaraðili að lokum að höfuðstóll kröfunnar byggi á dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Samkvæmt dómsorði skuli varnaraðili greiða sóknaraðila 44.819.764 krónur með dráttarvöxtum frá 21. nóvember 2011 til greiðsludags. Í útreikningaskjali hafi verið gerð grein fyrir því hvernig dráttarvextir hefðu verið reiknaðir á kröfuna fram til 5. desember 2014 er beiðnin hafi verið borin undir sýslumann. Þar hafi komið fram að áföllnum vöxtum hefði verið bætt við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þannig hafi verið reiknaðir dráttarvextir af 44.819.764 krónum fyrir tímabilið 21. nóvember 2011 til 31. október 2014 og nýir vextir af samanlagðri fjárhæð reiknaðir á 12 mánaða fresti. Með þessum útreikningum hafi höfuðstóll kröfunnar hinn 31. október 2014 verið 63.916.907 krónur. Dæmdur málskostnaður hafi verið 1.500.000 krónur og beri hann dráttarvexti frá 15. degi eftir uppkvaðningu dómsins, þ.e. frá 10. desember 2014. Reiknaðir dráttarvextir frá 1. nóvember 2014 til 5. desember 2014 séu 807.839 krónur. Annar kostnaður, t.a.m. vegna aðfararbeiðni, birtingar og fjárnámsgjalds í ríkissjóð, beri dráttarvexti frá og með mánuði eftir dagsetningu aðfararbeiðni, þ.e. 5. janúar 2015.
Krafan sundurliðist þannig miðað við 5. desember 2014:
Höfuðstóll 63.916.907 krónur
Dráttarvextir frá 1. nóvember 2014 807.839 krónur
Dæmdur málskostnaður með dráttarvöxtum 1.529.792 krónur
Aðfararbeiðni 8.500 krónur
Fjárnámsgjald í ríkissjóð 19.100 krónur
Samtals: 66.283.017 krónur
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 90/1989 um aðför og um málskostnað til laga nr. 91/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 6. febrúar 2015, um að ljúka aðfarargerð nr. 011-2014-12917, án þess að gera fjárnám, standi óhögguð.
Varnaraðili telur það óumdeilt í málinu að íslenska ríkið hafi lýst yfir skuldajöfnuði á gjaldföllnum kröfum ríkissjóðs á hendur sóknaraðila, á móti kröfu sem íslenska ríkinu hafi verið gert að greiða sóknaraðila með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Tollstjóri hafi tilkynnt sóknaraðila um skuldajöfnuð með yfirlýsingum, dagsettum 2. og 21. október 2014. Ekki verði séð að þeim yfirlýsingum hafi verið mótmælt. Þá liggi fyrir í málinu kvittanir tollstjóra vegna skuldajafnaðar og einnig yfirlit um sundurliðun hans. Með vísan til framangreindra gagna sé ljóst að íslenska ríkið hafi þegar greitt þá kröfu sem sóknaraðili krefst fjárnáms fyrir með skuldajöfnuði. Krafan sé því fallin niður.
Varnaraðili byggir kröfu sína fyrst og fremst á því að sú krafa sem krafist sé fjárnáms fyrir hafi verið greidd að fullu samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, beri sýslumanni að hafna fjárnámsbeiðni, meðal annars ef óvíst er hvort gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefjist fullnægt. Þar sem krafan hafi verið greidd sé ekki tilefni til þess að heimila fjárnám í eignum varnaraðila, enda fæli sú niðurstaða í sér viðurkenningu á því að sama krafan skyldi tvígreidd sóknaraðila. Skilyrði aðfarar hafi því ekki verið fyrir hendi og gerðin ekki náð fram að ganga. Þá hafnar varnaraðili því alfarið að skilyrði skuldajafnaðar hafi ekki verið fyrir hendi og vísar til neðangreinds rökstuðnings í því sambandi og eftirfarandi málsástæðna.
Í fyrsta lagi sé það skilyrði skuldajafnaðar að kröfur séu gagnkvæmar. Nánar tiltekið þurfi skuldari annarrar kröfunnar jafnframt að vera kröfuhafi hinnar kröfunnar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að þetta skilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt, þar sem sóknaraðili sé skuldari virðisaukaskatts og íslenska ríkið sé eigandi þeirrar kröfu. Þá sé íslenska ríkið skuldari kröfu að fjárhæð 44.819.764 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013, en þeirri kröfu hafi verið skuldajafnað gegn fyrrnefndri kröfu. Kröfurnar séu því gagnkvæmar.
Varnaraðili hafnar alfarið málsástæðu sóknaraðila um að framangreindu skilyrði skuldajafnaðar hafi ekki verið fullnægt þar sem réttur greiðandi kröfunnar sé varnaraðili en ekki íslenska ríkið, með vísan til þess að sóknaraðili og íslenska ríkið hafi verið dæmd til þess að greiða kröfuna óskipt með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Dómurinn bindur báða aðila, greiðsluskylda hvílir á báðum aðilum og skiptir þá ekki máli þótt óþarfi hafi verið að stefna íslenska ríkinu með varnaraðila. Í óskiptri ábyrgð felist að hver skuldari sé skyldur til þess að greiða kröfu að fullu og þegar einn skuldari hafi greitt slíka kröfu að fullu sé skyldum annarra skuldara þar með lokið. Sé fyrir hendi óskipt ábyrgð fleiri aðila á kröfu sé meginreglan sú að einn aðalskuldaranna, sem þá sé jafnframt gagnkröfuhafi, geti notað gagnkröfu sem hann einn eigi til skuldajafnaðar á móti aðalkröfunni. Þetta hafi meðal annars verið staðfest með dómi Hæstaréttar frá árinu 1932, blaðsíðu 634. Það sé síðan mál milli aðila hvernig þeir hagi svo uppgjöri sín á milli en það komi aðalkröfuhafanum ekkert við.
Í þessu sambandi bendir varnaraðili einnig á að það hafi alfarið verið ákvörðun sóknaraðila að höfða dómsmál bæði á hendur varnaraðila og íslenska ríkinu til greiðslu kröfunnar óskipt. Kröfugerðin hafi leitt til þess að varnaraðili og íslenska ríkið voru dæmd til þess að bera óskipta ábyrgð á kröfu sóknaraðila. Ekki hafi verið gerð grein fyrir því í málinu hvaða röksemdir byggju að baki því að beina kröfum að báðum aðilum, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 778/2013, en fram komi í dóminum að enga nauðsyn hafi borið til að haga málatilbúnaði með þessum hætti. Sóknaraðili hafi hins vegar kosið að stefna bæði varnaraðila og íslenska ríkinu til greiðslu kröfunnar óskipt og verði þannig að una því að íslenska ríkið greiði kröfuna með skuldajöfnuði sem sjálfstæður skuldari kröfunnar, sbr. niðurstöðu dómsins. Þá telur varnaraðili að sóknaraðila hafi við málshöfðunina væntanlega verið ljóst að hann skuldaði meðstefnda, íslenska ríkinu, töluverða fjármuni.
Þess megi einnig geta að í aðfararbeiðni sóknaraðila hafi hann viðurkennt að íslenska ríkið hafi borið óskipta greiðsluskyldu með varnaraðila á þeirri kröfu sem sé til umfjöllunar í málinu. Það sé enn fremur til staðfestingar á því að óumdeilt sé að íslenska ríkið hafi haft heimild til þess að greiða kröfuna sem réttur skuldari hennar samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Varnaraðili telur ljóst að almennar reglur kröfuréttar um skuldajöfnuði gildi í þessu máli á tímabilinu frá uppkvaðningu dóms og upphafs fjárnámsgerðar. Öllum skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt.
Í öðru lagi sé það skilyrði skuldajafnaðar að sambærilegar kröfur séu fyrir hendi Þar sem báðar kröfurnar hér séu peningakröfur sé ljóst að þessu skilyrði skuldajafnaðar sé fullnægt og þarfnist þetta atriði því ekki frekari rökstuðnings. Í þriðja lagi sé óumdeilt að gildar kröfur séu fyrir hendi og í fjórða lagi séu þær báðar fallnar í gjalddaga. Óumdeilt er að þessum skilyrðum er fullnægt.
Varnaraðili hafnar og mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri málsástæðu sóknaraðila, að óheimilt sé að skuldajafna kröfum sem ekki séu samrættar. Þær kröfur sem um sé að ræða eigi rætur að rekja til eins og sama dómsmálsins, sem lauk með áðurnefndum hæstaréttardómi. Þá sé það ekki almennt skilyrði skuldajafnaðar að kröfur séu samrættar. Í því sambandi bendir hann á að í framkvæmd hafi verið gert að skilyrði að kröfur séu samrættar svo að yfirlýsingar um skuldajöfnuð geti haft afturvirk réttaráhrif, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 185/2010. Það skipti því fyrst og fremst máli varðandi afturvirkni skuldajafnaðar. Þó að varnaraðili telji þetta ekki skilyrði fyrir skuldajöfnuði þá séu kröfurnar samt sem áður samrættar. Upphaflega sé krafan einungis gerð á varnaraðila sem annan aðila verksamningsins en í dómsmálinu sjálfu var ríkinu einnig stefnt og var dómþoli ásamt varnaraðila. Þá verði að hafa í huga að verkið var unnið á sama tíma og skuld vegna virðisaukaskatts varð til. Þá bendir varnaraðili á að ekki verði betur séð af gögnum málsins sem stafi úr tekjubókhaldi ríkissjóðs en að megnið af hinum ógreidda virðisaukaskatti sem skuldajafnað hafi verið á móti sé vegna framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. Ráðstafað sé inn á virðisaukaskattstímabilin 2009 og 2010. Um sömu tímabil sé að ræða og er verkið hafi átt sér stað. Því sé óskiljanlegt að ekki megi skuldajafna ógreiddum virðisaukaskatti vegna verklauna á sama tímabili og fyrir sama verk. Greiðslur frá varnaraðila til sóknaraðila vegna verksins hafi verið með virðisaukaskatti sem sóknaraðili skilaði ekki aftur til ríkissjóðs. Virðisaukaskatturinn hafi því verið ákveðinn hluti verklauna og skuldin orðið til á þeim tíma er verkið var unnið.
Varnaraðili telur ljóst að almennar reglur kröfuréttar gildi um rétt ríkisins til skuldajafnaðar og sé staðhæfingum sóknaraðila um annað hafnað sem röngum og ósönnuðum. Í framkvæmd hafi verið litið svo á að almennar reglur um skuldajöfnuð gildi um kröfur ríkisins nema þegar fyrir hendi séu kröfur borgarans samkvæmt sérstökum fyrirmælum eða kröfur sem samkvæmt eðli sínu eigi að greiðast honum í reiðufé. Skuld sóknaraðila á virðisaukaskatti til ríkissjóðs feli hvorugt í sér og gildi því almennar reglur kröfuréttar um skuldajöfnuð þeirra krafna sem þetta mál fjalli um. Skuld sóknaraðila sé jafnframt allt annars eðlis en þær sem undanþegnar séu rétti ríkisins til skuldajafnaðar. Hér sé fyrir hendi skuld á svokölluðum vörsluskatti, sem sóknaraðili hafi þegar innheimt, en hins vegar vanrækt að skila til ríkissjóðs, líkt og skylt er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Ekkert í þessum lögum banni skuldajöfnuð við kröfu vegna dómsmáls milli sömu aðila. Almennar reglur kröfuréttar gilda nema lög bjóði annað. Þá hafi skipting ríkisins í einingar ekki afgerandi þýðingu um heimild ríkisins til skuldajafnaðar. Hagsmunir ríkisins af því að fá kröfur greiddar vegi þar þyngra. Sérsjónarmið um barnabætur og framfærslueyri eigi ekki við í þessu tilviki.
Í málatilbúnaði sóknaraðila komi fram að í 3. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 séu tilgreindar þær kröfur sem tækar séu til þess að mætast með skuldajöfnuði. Þá vísi sóknaraðili einnig til 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 þar sem kveðið sé á um skyldu til þess að skuldajafna endurgreiðslu til byggingaraðila, sem byggi íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu og sé skattskyldur samkvæmt 2. mgr. 3. gr. Laganna, á móti álögðum virðisaukaskatti sama tímabils. Sóknaraðili haldi því fram að af framangreindum ákvæðum leiði að óheimilt sé að skuldajafna virðisaukaskattskröfum á móti kröfum borgaranna á hendur ríkinu í öðrum tilvikum en þeim sem getið sé um í framangreindum ákvæðum. Varnaraðili telur að tilvitnuð lagaákvæði sóknaraðila fjalli um skyldu til skuldajafnaðar við tilteknar aðstæður en ekki um heimild til skuldajafnaðar virðisaukaskattskrafna almennt. Í þeim tilvikum sem skylt er að skuldajafna þurfi enga sérstaka yfirlýsingu þar um. Ríkinu er aðeins skylt að skuldajafna. Skuldajafnað sé inni í kerfinu áður en greitt er út. Að mati varnaraðila felur túlkun sóknaraðila í sér að einvörðungu sé heimilt að skuldajafna kröfum um virðisaukaskatt ef kveðið er á um skyldu þess efnis í lögum nr. 50/1988. Slík lögskýring eigi ekki við rök að styðjast, eigi sér ekki stoð í lögskýringargögnum og brjóti í bága við meginreglur kröfuréttar og 40. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Ekki sé hægt að gagnálykta frá þessum ákvæðum á þann hátt að í öðrum tilvikum sé óheimilt að skuldajafna. Þessum málsástæðum sóknaraðila hafnar varnaraðili því alfarið.
Samkvæmt framangreindu sé ljóst að almennar reglur kröfuréttarins gildi um skuldajöfnuð krafna ríkisins og að almenn skilyrði skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi. Krafan hafi því verið greidd að fullu af réttum skuldara hennar og því til stuðnings liggi fyrir ótvíræð gögn í málinu, t.a.m. liggi fyrir sundurliðun greiðslna til sóknaraðila á yfirliti sem lagt hafi verið fram hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 4. febrúar 2015. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um aðför á þeim grundvelli að krafan hafi þegar verið greidd og sé því fallin niður. Í þessu sambandi vísast enn fremur til 1. og 2. mgr. 27. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, þar sem segi að sýslumanni beri að hafna fjárnámsbeiðni, meðal annars ef óvíst er hvort gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefjist að verði fullnægt. Þar sem krafan hafi verið greidd að fullu sé alveg ljóst að sóknaraðili eigi ekki þau réttindi sem krafist sé að verði fullnægt og beri því að hafna kröfu hans. Á sóknaraðila hvíli að sanna tilvist kröfu sinnar en það hafi hann ekki gert og beri því samkvæmt framangreindu að hafna kröfum hans.
Þá bendir varnaraðili á að samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 sé heimilt að leita skuldajafnaðar sem sé ávallt fyrir hendi ef gagnkrafan er orðin aðfararhæf. Þá sé þetta einnig hægt ef gerðarbeiðandi viðurkennir kröfuna sem rétta þótt krafan sé ekki orðin aðfararhæf. Í þessu máli hafi sóknaraðili aldrei mótmælt tilvist eða upphæð kröfunnar. Hann hafi eingöngu talið að kröfurnar væru ekki hæfar til að mætast. Í raun skipti þó þessi aðgreining í 40. gr. ekki neinu máli því að skuldajöfnuði var lýst tveimur mánuðum áður en fjárnámsbeiðnin var lögð fram en þá gilda aðeins almennar reglur og gerðarþoli þarf ekki að sæta þeim takmörkunum sem 40. gr. gerir ráð fyrir.
Þá telur varnaraðili með öllu óljóst til hvaða stjórnsýslureglna sóknaraðili vísi til í málsástæðu hans um að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að nota skuld vegna verksamnings til að ná fram markmiðum um skattheimtu og um að það sé brot á aðgreiningarreglu íslensks stjórnsýsluréttar að láta kröfurnar mætast. Hvorki sé tilgreint gegn hvaða lagaákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sóknaraðili telji varnaraðila hafa brotið í bága við, né heldur sé skýrt hvað viðkomandi reglur feli í sér. Staðhæfing sóknaraðila sé ósönnuð og órökstudd og sé henni hafnað af hálfu varnaraðila. Varnaraðili ítreki málsástæðu sína um að íslenska ríkið beri óskipta ábyrgð með varnaraðila á greiðslu kröfunnar. Ríkið beri þannig sjálfstæða ábyrgð á greiðslu kröfunnar. Samkvæmt framangreindu sé það ekki álitaefni í málinu hvaða stjórnvaldi hafi verið rétt að skuldajafna kröfunni, þar sem íslenska ríkið hafi borið ábyrgð á greiðslu hennar samkvæmt dómsorði Hæstaréttar í máli nr. 778/2013.
Þá mótmælir varnaraðili staðhæfingu sóknaraðila sem rangri og ósannaðri um að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans, þar sem meðal annars hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðun um skuldajöfnuð hafi verið tekin. Í fyrsta lagi sé með öllu óljóst á hvaða grundvelli sóknaraðili hafi átt rétt á að andmæla yfirlýsingu íslenska ríkisins um skuldajöfnuð kröfunnar. Í öðru lagi verði ekki séð hvaða forsendur séu fyrir því að beina framangreindri málsástæðu að varnaraðila. Hafi sóknaraðili átt rétt á andmælarétti hafi það að minnsta kosti ekki verið í höndum varnaraðila að veita slíkan rétt, enda sé varnaraðili ekki það stjórnvald sem lýst hafi yfir skuldajöfnuði. Í þriðja lagi sé skuldajöfnuður einhliða yfirlýsing þess sem honum beiti og ein tegund greiðslu. Í því sambandi sé rétt að taka fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi einungis um stjórnvaldsákvarðanir. Yfirlýsing um skuldajöfnuð geti ekki falið í sér slíka ákvörðun, enda feli hún ekki í sér beitingu opinbers valds heldur greiðslu íslenska ríkisins á kröfu sem sé til komin vegna einkaréttarkröfu. Þá sé ekkert fram komið af hálfu sóknaraðila um á hvern hátt tilkynning um skuldajöfnuð hafi getað verið ómálefnaleg, ekkert í málsgögnum styðji þá fullyrðingu og sé þeirri málsástæðu alfarið hafnað. Með vísan til þess sem að framan greini sé því hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti sóknaraðila eða að skuldajöfnuður hafi verið ómálefnalegur. Eðlilegt sé að ríkissjóður verji kröfur sínar og það sé málefnalegt markmið. Þá bendir varnaraðili á tölvupóstssamskipti fyrirsvarsmanns sóknaraðila við innheimtumann ríkissjóðs. Þar komi fram að fyrirsvarsmaðurinn hafi óskað eftir fresti þar sem hann gæti ekki greitt en að hann væri með dómsmál í gangi vegna ógreiddra verklauna. Þá komi fram vilji hans til að ráðstafa þeirri fjárhæð sem hann eigi von á til tollstjóra til greiðslu krafnanna.
Þá mótmælir varnaraðili málsástæðu sóknaraðila sem rangri og ósannaðri um að það sé í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verði til, að varnaraðili hafi ekki borið fyrir sig málsástæðu um skuldajöfnuð í fyrrnefndu máli, sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013, en hafi síðan nýtt sér hana strax eftir að dómur féll til að koma í veg fyrir fullnustu hans. Bendir hann á 40. gr. aðfararlaga því til stuðnings.
Í fyrsta lagi telur varnaraðili að ekki verði séð með hvaða hætti framangreind meginregla geti átt við í öðru dómsmáli sem rekið sé í tengslum við fullnustu dómsins. Varnaraðila hljóti að vera heimilt að hafa uppi hverja þá málsástæðu sem hann kjósi í nýju dómsmáli, þar sem hann taki til varna. Varnaraðili sé óbundinn af þeim málsástæðum sem hafðar hafi verið uppi í dómsmáli sem sé lokið og þegar hafi verið dæmt í. Í öðru lagi hafi eðli málsins samkvæmt ekki verið tilefni til þess að halda uppi kröfu um greiðslu kröfunnar með skuldajöfnuði í fyrrnefndu dómsmáli, enda hafi varnaraðili þar krafist sýknu á kröfunni.
Nú þegar áðurnefndur dómur liggi fyrir og annar skuldaranna hafi greitt kröfuna að fullu með skuldajöfnuði, sé sjálfgefið að varnaraðili beri fyrir sig að krafan hafi þegar verið greidd að fullu með skuldajöfnuði, enda séu þá ekki skilyrði til þess að veita heimild til fjárnáms vegna hennar. Ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila jafngilti það því að krafa hans fengist greidd tvisvar en á því eigi sóknaraðili ekki lögvarða kröfu. Samkvæmt framangreindu beri því að hafna kröfum sóknaraðila.
Að lokum tekur varnaraðili fram að samkvæmt fyrirliggjandi samskiptum sóknaraðila við tollstjóra, innheimtumann ríkissjóðs, hafi það verið vilji sóknaraðila að nota þá fjármuni sem kæmu í hlut hans vegna dómsmála til þess að gera fyrst upp við tollstjóra. Skuldajöfnuður ríkisins á kröfum sínum á hendur sóknaraðila sé þannig til samræmis við yfirlýstan vilja hans. Hafi verið einhver vafi um heimild ríkissjóðs til skuldajafnaðar sé honum eytt með þessari yfirlýsingu.
Þá ítrekar varnaraðili að skuld sóknaraðila á virðisaukaskatti við íslenska ríkið sé skuld á svokölluðum vörsluskatti. Í því felist nánar tiltekið að sóknaraðili hafi þegar innheimt skattinn en vanrækt skyldu sína til þess að skila honum til ríkissjóðs líkt og skylt sé samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Það sé til frekari stuðnings því að eðlilegt og sjálfsagt hafi verið að íslenska ríkið skuldajafnaði framangreindum kröfum á móti þeirri kröfu sem íslenska ríkinu hafi verið gert að greiða með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 en í þessu felist gæsla almannahagsmuna.
Þá sé rétt að geta þess að sóknaraðili standi jafnframt í skuld við varnaraðila, sbr. ógreidda reikninga sem fallið hafi í gjalddaga árið 2012 og 2014 og ekki hafi fengist greiddir. Samtals skuldi sóknaraðili varnaraðila 1.175.532 krónur að nafnverði. Það endurspeglast í þessu máli að sóknaraðili vill einhverra hluta vegna ekki greiða skuld sína við ríkissjóð. Sóknaraðili hafi skuldað ríkissjóði um 160.000.000 króna vegna vangoldins virðisaukaskatts og eftir að skuldajöfnuði hafi verið beitt skuldi hann enn um 90.000.000 króna. Þá sé því mótmælt að ákvörðun tollstjóra hafi verið ómálefnaleg og í raun sé óskiljanlegt að sóknaraðili haldi slíku fram í ljósi skuldar hans við ríkissjóð sem enn sé umtalsverð. Þá sé því hafnað að um misbeitingu valds sé að ræða á nokkurn hátt eða að skuldajöfnuði hafi verið beitt án tengsla við tiltekið málefni. Í raun sé beiting skuldajafnaðar sóknaraðila í hag með því að skuld hans við ríkissjóð sé lækkuð. Því sé málatilbúnaður sóknaraðila sérkennilegur. Komi til þess að sóknaraðili teljist eiga einhverjar sjálfstæðar kröfur á hendur varnaraðila verði þær kröfur uppreiknaðar með dráttarvöxtum og kostnaði og beitt til skuldajafnaðar.
Að lokum tekur varnaraðili fram að ekki sé ekki byggt á því af hálfu sóknaraðila hvort framkvæmd aðfarargerðarinnar hafi verið andstæð lögum eða ekki heldur eingöngu á því hvort skilyrði skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna kröfuréttar, almennra reglna réttarfars, laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um málskostnaðarkröfu sína vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar varnaraðili til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennra reglna stjórnsýsluréttar og til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðili hefur í máli þessu krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 6. febrúar 2015 um „að ljúka aðfarargerð nr. 011-2014-12917 án þess að gera fjárnám, og lagt verði fyrir sýslumann að gera fjárnám í eignum gerðarþola (varnaraðila) til tryggingar á kröfu gerðarbeiðanda (sóknaraðila)“. Efnislegur ágreiningur í málinu lýtur að því hvort skilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt er innheimtumaður ríkissjóðs skuldajafnaði kröfu sóknaraðila, er honum hafði verið dæmd með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 auk dráttarvaxta og málskostnaðar, við skuld sóknaraðila vegna vangoldins virðisaukaskatts.
Þótt ekki sé í sjálfu sér ágreiningur með aðilum um hvort framkvæmd gerðarinnar hjá sýslumanni hafi verið áfátt tekur dómurinn þó fram að bókanir af hálfu sýslumanns í málinu mættu að ósekju vera skýrari. Í endurriti af fyrirtöku málsins 6. febrúar sl. segir að „eftir að hafa skoðað betur skrifleg mótmæli gerðarþola fellst fulltrúi sýslumanns á þau rök gerðarþola að krafan hafi þegar verið greidd með skuldajöfnuði“. Þá segir „þrátt fyrir að fulltrúi sýslumanns hafi ákveðið að halda gerðinni áfram gegn mótmælum gerðarþola við fyrirtökuna 4. febrúar fellst fulltrúi sýslumanns nú á að ekki séu forsendur til að halda gerðinni áfram og ákveður að fella hana niður“. Jafnframt segir: „Gerðarbeiðandi lýsir því yfir að krafist verði úrlausnar héraðsdómara um framkvæmd gerðarinnar.“
Dómurinn telur að skilja verði málsmeðferð sýslumanns svo að gerðin hafi stöðvast í ljósi mótmæla sóknaraðila þar sem óljóst væri hvort hann ætti þau réttindi sem hann krafðist að yrði fullnægt með aðför sbr. 27. gr. laga nr. 90/1989 og á meðan úr því yrði skorið fyrir dómstólum. Sóknaraðili lýsti því strax yfir við gerðina að krafist yrði úrlausnar héraðsdóms um „framkvæmd gerðarinnar“ í samræmi við 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989 eins og fram kemur í endurriti sýslumanns. Mál þetta er því rekið á grundvelli 14. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 27. gr. þeirra laga. Beiðni sóknaraðila um úrlausn málsins barst héraðsdómi 6. mars sl. Verður að líta svo á að það sé í samræmi við áskilnað 4. mgr. 86. gr. um framgang málsins. Þykir ofangreind framsetning kröfugerðar sóknaraðila og vísan hans til 15. kafla laga nr. 90/1989 með vísan til þessa ekki getað valdið því að kröfu hans verði hafnað og verður málið því tekið til efnislegrar úrlausnar.
Líta verður svo á að ágreiningsefnið fyrir dóminum lúti að gildi ákvörðunar sýslumanns og hvort honum hafi vert rétt að gera ekki fjárnám í eignum varnaraðila til tryggingar á kröfu sóknaraðila þar sem sóknaraðili ætti ekki þau réttindi sem hann krefðist því að krafa hans væri þegar greidd með skuldajöfnuði.
Í málinu liggur fyrir að með dómi Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013 var ágreiningur aðila máls þessa útkljáður en málið höfðaði sóknaraðili á hendur varnaraðila og íslenska ríkinu til heimtu ætlaðrar skuldar vegna vinnu sóknaraðila við gerð Héðinsfjarðarganga. Þá liggur fyrir og er óumdeilt að tollstjóri sem innheimtumaður ríkissjóðs lýsti yfir skuldajöfnuði á gjaldföllnum kröfum ríkissjóðs á hendur sóknaraðila, á móti kröfu sem varnaraðila og íslenska ríkinu hafði verið gert að greiða óskipt sóknaraðila með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013.
Sóknaraðili hefur í málinu m.a. byggt á því að skuldajöfnuður tollstjóra hafi ekki byggt á viðhlítandi lagaheimild þar sem einungis sé heimilt að skuldajafna vangoldnum virðisaukaskatti á móti endurgreiðslukröfu frá skatti samkvæmt lögum nr. 50/1988. Þá hafi hann ekki uppfyllt almennar reglur um skuldajöfnuð þar sem kröfurnar hafi ekki verið gagnkvæmar, hann hafi verið í andstöðu við reglu stjórnsýslulaga um andmælarétt og meginreglur stjórnsýsluréttar. Þá sé sjónarmið varnaraðila um að krafan sé þegar greidd með skuldajöfnuði og því niður fallin málsástæða sem sé of seint fram komin þar sem henni hafi ekki verið haldið fram í dómsmáli því er krafan byggir á. Jafnframt hafi beiting skuldajafnaðar í þessu tilviki verið ómálefnaleg af hálfu ríkisins og falið í sér misbeitingu valds þar sem valið hafi verið að fara ólögmæta leið til að ná fram markmiðum í skattheimtu auk þess sem hún hafi verið í andstöðu við aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttarins þar sem skuld varnaraðila hafi verið notuð til að sinna lögbundnu hlutverki tollstjóra við innheimtu skatta.
Varnaraðili hefur í málinu m.a. haldið því fram að krafa sú er sóknaraðila var dæmd með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 sé að fullu greidd með skuldajöfnuði. Um gagnkvæmar og sambærilegar kröfur hafi verið að ræða, þær hafi báðar verið fallnar í gjalddaga og hæfar til að mætast. Um skuldajöfnuð ríkisins í þessu tilviki gildi almennar reglur kröfuréttar og öll skilyrði skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi. Þá mótmælir hann því að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar reglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar í málinu. Skuldajöfnuður í málinu sé liður í fjárhagslegu uppgjöri í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar en ekki eiginlegt stjórnsýslumál. Þá varði málið ekki skattheimtu. Þá hafnar hann því að unnt sé að líta á skuldajöfnuð sem málsástæðu sem sé of seint fram komin. Engin skylda hafi hvílt á íslenska ríkinu að gera kröfu um skuldajöfnuð í dómsmálinu þar sem leyst var efnislega úr kröfu sóknaraðila. Þá bendir varnaraðili á að skuldajöfnuður við virðisaukaskattskuld sóknaraðila hafi verið í samræmi við yfirlýstan vilja fyrirsvarsmanns sóknaraðila sem fram komi í gögnum málsins.
Þegar hafa verið rakin þau ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og reglugerðar nr. 667/1995 þar sem mælt er fyrir um tilvik þar sem skuldajafna skal inneign eða endurgreiðslum samkvæmt lögunum við vangoldinn virðisaukaskatt.
Hefur sóknaraðili með vísan til lögmætisreglunnar talið að þessi ákvæði feli í sér tæmandi talningu á heimildum ríkisins til skuldajafnaðar við vangoldinn virðisaukaskatt og að í öðrum tilvikum sé óheimilt að draga skuld vegna vangreidds virðisaukaskatts frá kröfu sem aðili kann að eiga á hendur ríkinu. Dómurinn telur ekki unnt að fallast á þessi sjónarmið sóknaraðila. Ljóst má vera að áðurnefnd ákvæði laga nr. 50/1988 mæla fyrir um skyldu ríkisins til að beita skuldajöfnuði í þeim tilvikum sem þar eru nánar tilgreind og felur í sér ákveðið hagræði við beitingu þessa úrræðis. Þar sem ákvæðum þessum sleppir verður að líta svo á að um heimild ríkisins til skuldajafnaðar fari í öðrum tilvikum samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og að hann sé heimill séu skilyrði hans að öðru leyti uppfyllt. Verður því ekki talið að skuldajöfnuður innheimtumanns ríkissjóðs í máli þessu hafi verið í andstöðu við lögmætisreglu íslensks réttar.
Sóknaraðili hefur einnig byggt á því að hin almennu skilyrði skuldajafnaðar séu ekki uppfyllt þar sem þær kröfur sem um ræði og skuldajafnaði var beitt um geti ekki talist gagnkvæmar. Annars vegar sé um að ræða kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna áðurnefnds dómsmáls og hins vegar kröfu ríkisins eða tollstjóra á hendur sóknaraðila vegna vangoldins virðisaukaskatts. Þótt tollstjóri og varnaraðili tilheyri báðir íslenska ríkinu verði að telja að heimildin til skuldajafnaðar takmarkist við að um sömu einingu innan ríkisins sé að ræða. Kröfurnar séu því ekki milli sömu aðila.
Dómurinn telur að líta verði svo á umrætt skilyrði um gagnkvæmni krafna sé uppfyllt en í því felst að skuldari annarrar kröfunnar sé jafnframt kröfuhafi hinnar kröfunnar. Sóknaraðili er skuldari virðisaukaskatts og íslenska ríkið er eigandi þeirrar kröfu. Þá er íslenska ríkið skuldari kröfu að fjárhæð 44.819.764 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013 sem skuldajafnað var gegn fyrrnefndri skuld sóknaraðila. Verður því að telja kröfurnar gagnkvæmar og var það skilyrði uppfyllt er skuldajöfnuði var lýst yfir. Þá verður að hafna þeim sjónarmiðum sóknaraðila að skilyrði um gagnkvæmni sé ekki uppfyllt þar sem réttur greiðandi kröfunnar sé varnaraðili en ekki íslenska ríkið. Ljóst er að varnaraðili og íslenska ríkið voru dæmd til þess að greiða kröfuna óskipt með dómi Hæstaréttar í máli nr. 778/2013. Dómurinn bindur báða aðila og greiðsluskylda hvílir á þeim báðum. Þegar um óskipta ábyrgð fleiri aðila á aðalkröfu er að ræða er meginreglan sú að einn aðalskuldaranna, sem þá jafnframt er gagnkröfuhafi, getur notað gagnkröfuna sem hann einn á til skuldajafnaðar á móti aðalkröfunni. Ekki skiptir máli um skilyrði skuldajafnaðar í þessu tilviki þótt Hæstiréttur hafi talið óþarft að stefna íslenska ríkinu með varnaraðila. Auk þess verður ekki annað séð en að í aðfararbeiðni sóknaraðila felist viðurkenning á því að íslenska ríkið hafi borið óskipta greiðsluskyldu með varnaraðila á þeirri kröfu sem til umfjöllunar er í málinu. Þá telur dómurinn það ekki skipta máli þótt íslenska ríkið hafi ekki verið aðili að verksamningi þeim er áðurnefnt Hæstaréttarmál snerist um þar sem íslenska ríkið er dómþoli samkvæmt dómsorðinu. Samkvæmt dóminum ber íslenska ríkið óskipta ábyrgð með varnaraðila hvað varðar greiðslu kröfunnar. Þá verður ekki talið að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að greiða kröfu sóknaraðila samkvæmt dómi Hæstaréttar með skuldajöfnuði vegna skiptingar ríkisins í stjórnsýslueiningar. Slík skipting hefur ekki afgerandi þýðingu fyrir skuldajafnaðarréttinn og verður ekki talin girða fyrir rétt ríkisins til skuldajafnaðar.
Þá er ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að skuldajafnaðarréttur ríkisins vegna greiðslna samkvæmt verksamningi sé sömu takmörkunum háður og talið hefur verið gilda varðandi launagreiðslur og barnabætur vegna sjónarmiða um framfærslu. Verður ekki litið svo á að í þessu tilliti jafngildi greiðslur verklauna fyrir vöru og þjónustu greiðslum til launamanns. Því verður ekki talið að í máli þessu séu fyrir hendi þær aðstæður eða sérstök sjónarmið sem takmarka skuldajafnaðarrétt ríkisins.
Þá tekur dómurinn fram að málið varðar fjárhagslegt uppgjör vegna virðisaukaskattsskuldar en það snýst ekki um skattheimtu sem slíka eins og sóknaraðili vék að í munnlegum málflutningi enda er enginn ágreiningur um álagningu skattsins, fjárhæð hans eða að hann hefur ekki verið greiddur. Því telur dómurinn ljóst að beiting skuldajafnaðar í máli þessu getur ekki talist stjórnvaldsákvörðun er lúti reglum er um slíkar ákvarðanir gilda, heldur ákvörðun um uppgjör vegna krafna sóknaraðila á grundvelli verksamnings að fenginni niðurstöðu dómstóla um greiðsluskyldu. Uppgjörið fer því fram á einkaréttarlegum grunni en felur ekki í sér beitingu opinbers valds sem valdi því að ákvörðunin geti talist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Þá verður ekki fallist á sjónarmið sóknaraðila um að beiting skuldajafnaðar hafi verið ómálefnaleg. Ljóst má vera að ríkið hefur almennt ríka hagsmuni af því að fá greiddar kröfur með skuldajöfnuði sem ella væri hætta á að fengjust ekki greiddar. Þá verður ekki talið að umræddur skuldajöfnuður hafi falið í sér misbeitingu valds á leiðum til úrlausnar máls eða að með þeirri ráðstöfun hafi eitt stjórnvald gengið yfir á verksvið annars stjórnvalds.
Þá verður á engan hátt talið að sjónarmið um skuldajöfnuð geti talist málsástæða sem sé of seint fram komin þar sem henni hafi ekki verið haldið fram í dómsmáli því þar sem leyst var úr efnislegri kröfu sóknaraðila. Bendir dómurinn á að þegar reynt er að koma fram skuldajöfnuði á tímabilinu frá lokum dómsmáls til upphafsgerðar fjárnámsgerðar gilda almennar reglur kröfuréttarins um skilyrði skuldajafnaðar. Er örðugt að sjá hvernig reglur réttarfarslaga um að málsástæður aðila skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til undir rekstri máls geti átt við í máli þessu er varðar uppgjör vegna þegar gengins dóms.
Með vísan til alls framangreinds verður því kröfu sóknaraðila hafnað en staðfest aðfarargerð sýslumanns í samræmi við kröfugerð varnaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sigríður Dís Guðjónsdóttir hdl. vegna Daníels Isebarn Ágústssonar hrl. en af hálfu varnaraðila Einar Farestveit hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 29. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2015 í máli nr. 011-2014-12917.
Sóknaraðili, Háfell ehf., greiði varnaraðila, Vegagerðinni, 450.000 krónur í málskostnað.