Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám


Miðvikudaginn 17

 

Miðvikudaginn 17. janúar 2007.

Nr. 16/2007.

Kaupþing banki hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

Elínu Helgadóttur

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám.

K hf. kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist hafði verið á kröfu E um ógildingu fjárnáms, sem sýslumaðurinn í Keflavík hafði gert hjá henni á grundvelli skuldabréfs, sem gefið hafði verið út af sambúðarmanni E. Hafði hún tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni með undirritun sinni á bréfið. Andvirði skuldabréfsins var öllu varið til greiðslu víxilskuldar, þar sem E var einn víxilskuldara. Talið var að með þessari ráðstöfun hafi formi skuldbindingar hennar einungis verið breytt. Ekki var fallist á að unnt væri að ógilda skuldbindingar af því tagi með vísan til sérstaks samkomulags milli samtaka bankastofnana, neytendasamtakanna og stjórnvalda um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Var kröfu hennar um ógildingu aðfarargerðarinnar því hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði hjá henni 30. nóvember 2005 að kröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var fjárnámið 30. nóvember 2005 gert á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 1.925.000 krónur, sem gefið var út sóknaraðila til handa 12. mars 2002. Útgefandi þess var sambúðarmaður varnaraðila, en hún tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni samkvæmt bréfinu með nafnritun sinni. Er óumdeilt í málinu að öllu andvirði bréfsins var strax varið til greiðslu á víxilskuld við sóknaraðila, þar sem varnaraðili var einn víxilskuldara, en skuldin hafði verið gerð aðfararhæf með áritun á stefnu 13. febrúar 2002. Með þessari ráðstöfun á andvirði bréfsins var lokið greiðslu á víxilskuldinni svo langt sem entist. Af þessu er ljóst að ekki var verið að stofna til skuldar varnaraðila við sóknaraðila er hún áritaði nefnt skuldabréf. Aðeins var um breytingu á formi skuldbindingar hennar að ræða. Ekki verður fallist á með varnaraðila að unnt sé með vísan til „Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“, sem grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði, að ógilda skuldbindingar sem svona háttar um. Leiðir þetta til þess að hafna verður kröfu varnaraðila um ógildingu umræddrar aðfarargerðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Elínar Helgadóttur, um að fjárnám sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði hjá henni 30. nóvember 2005 að kröfu sóknaraðila, Kaupþings banka hf., verði fellt úr gildi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2006.

Mál þetta var þingfest 6. janúar 2006 og tekið til úrskurðar 28. nóvember sl. Sóknaraðili er Elín Helgadóttir, Hafnargötu 26, Vogum en varnaraðili er Kaupþing banki hf. Borgartúni 19, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð sýslumannsins í Keflavík nr. 034-2005-02561 sem fram fór hjá sóknaraðila 30. nóvember 2005 að kröfu varnaraðila, í fasteigninni Hafnargötu 26, Vogum, verði ógilt með úrskurði. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ógildingarkröfu sóknaraðila verði hafnað og að framangreind aðfarargerð á hendur sóknaraðila verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar.

I.

Í málinu krefst sóknaraðili ógildingar á fjárnámi sem fram fór í eigum hennar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hennar á skuldabréfi. Telur hún að varnaraðili hafi brotið rétt á henni með því meðal annars að láta ekki fram fara greiðslumat á aðalskuldara.

Málavextir eru nánar þeir að 12. mars 2002 tókst sóknaraðili á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi sem sambýlismaður hennar, Einar Ingi Sigurbergsson, var aðalskuldari að. Var lánið að fjárhæð 1.925.000 og skyldi greiðast með einni greiðslu tólf mánuðum síðar. Stefán Ö. Stefánsson var einnig sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfinu. Að beiðni útgefanda bréfsins var andvirði þess, 1.856.325 krónur, greitt inn á tékkareikning Einars Inga hjá varnaraðila þann 13. mars 2002 og sama dag var sama fjárhæð tekin út af tékkareikningnum til greiðslu á víxilskuldbindingu fyrirtækisins Kulda ehf. sem Einar Ingi rak á þeim tíma.

Sóknaraðili var ábekingur á þessum víxli sem samþykktur var til greiðslu af Kulda ehf. og var víxillinn kominn í vanskil. Stefna hafði ennfremur verið gefin út og hún árituð 13. febrúar 2002. Sóknaraðili var skráður stjórnarmaður í Kulda ehf. en fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa vitað af því enda hafi hún aldrei komið að rekstri fyrirtækisins og ekki þekkt til fjármála þess. Henni hafi verið sagt, er hún hafi ritað undir skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður, að andvirði þess yrði ráðstafað til greiðslu á tæknileyfi. Einar Ingi hafi komið með bréfið heim og hún undirritað það í eldhúsinu. Henni hafi því ekki verið kynntar reglur um ábyrgðir og samkomulag banka og fjármálastofnana um það efni.

Í framlögðu skuldabréfi segir í texta þess að sóknaraðili hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu. Fyrir aftan nafn sóknaraðila er reitur sem ætlast sé til að hakað sé í eftir því hvort sjálfskuldarábyrgðarmaður óski eftir mati á greiðslugetu aðalskuldara eða ekki. Fyrir aftan þennan reit er ætlast til að sjálfskuldarábyrgðarmaður staðfesti þessa ósk sína með því að rita upphafsstafi sína. Á þessum stað á skuldabréfinu hafa verið ritaðir stafirnir EH. Í framburði sóknaraðila kom fram að hún hafi ekki ritað upphafsstafi sína í þennan reit skuldabréfsins. Taldi hún líklegast að sambýlismaður hennar hefði gert það. Af hálfu sóknaraðila var þess óskað að fram færi skoðun á þessu atriði. Leitaði sóknaraðili til Haraldar Árnasonar sem skilaði álitsgerð í maí 2006. Haraldur fékk rithandarsýni sóknaraðila og Einars Inga og bar saman við umrædda áritun á skuldabréfinu. Niðurstaða hans er sú að afar sterkar vísbendingar séu um að sóknaraðili hafi ekki skrifað véfengda áritun og vísbendingar væru í þá átt að Einar Ingi hafi ritað umrædda upphafsstafi sóknaraðila.

Í skuldabréfinu segir í 6. lið þess að undirritaðir sjálfskuldarábyrgðarmenn hafi kynnt sér fræðslurit bankans um ábyrgðir. Fyrir dómi sagði sóknaraðili að hún hafi ekki gert það heldur hafi Einar Ingi fært henni skuldabréfið  heim og hún undirritað það í eldhúsinu. Hún hafi aldrei komið í útibú varnaraðila í Hafnarfirði og kvaðst ekki hafa heyrt af reglum sem settar hafi verið til verndar ábyrgðarmönnum.

Þá liggur fyrir í málinu að Einar Ingi var á vanskilaskrá er hann undirritaði skuldabréfið. Á árunum 1993 til 2001 hafi fimm sinnum verið gerð árangurslaus fjárnám hjá honum og fjórum sinnum áritaðar stefnur á hendur honum.

Vegna vanskila á skuldabréfinu var greiðsluskilmálum þess breytt 28. febrúar 2003 og aftur 24. nóvember 2003.

Á árinu 2004 ákvað varnaraðili að hefja innheimtur á hendur sóknaraðila. Ritaði sóknaraðili varnaraðila þá bréf dagsett 6. desember 2004 og fór fram á að skuldin yrði felld niður. Með bréfi varnaraðila 30. desember 2004 var beiðninni hafnað. Greiðsluáskorun er dagsett 24. ágúst 2005 og aðfararbeiðni 30. september 2005. Fjárnám fór fram 30. nóvember 2006 og að kröfu varnaraðila var gert fjárnám í Hafnargötu 26, Vogum.

II.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi brotið á henni samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga er samtök banka, sparisjóða, Neytendasamtökin og stjórnvöld hafi gert og gildi hafi tekið 1. nóvember 2001. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi átt að tilkynna henni um þetta samkomulag eins og hann hafi skuldbundið sig til að gera samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samkomulagsins. Þess vegna hafi sóknaraðili ekki haft vitneskju um rétt sinn sem ábyrgðarmaður.

Í 1. mgr. í 3. gr. samkomulagsins segi að sé skuldarábyrgð sett til trygginga fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo sé ekki gert. Þrátt fyrir þetta ákvæði samkomulagsins sé fjármálafyrirtæki ætíð skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð manns á skuldum nemi meira en 1.000.000 króna, sbr. 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins.

Hjónum eða fólki í óvígðri sambúð sé þó heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldum til greiðslumats vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars. Það hafi þó ekki verið gert í þessu tilviki heldur hafi Einar Ingi sjálfur hakað við reit þar sem fallið sé frá að greiðslumeta skuldara. Fyrir aftan hakið hafi hann síðan skrifað upphafsstafi sóknaraðila. Einar Ingi hafi ekki haft umboð sóknaraðila til þessara ráðstafana.

Þá sé einnig að líta til þess að sóknaraðili hafi ekki verið upplýst um þá gríðarlega slæmu fjárhagsstöðu sem sambýlismaður hennar hafi verið í. Einsýnt sé að hún hefði ekki tekið ákvörðun um að gangast í ábyrgð fyrir hann ef hún hefði vitað af vanskilum hans.

Varnaraðili hafi hins vegar búið yfir þessum upplýsingum og ekki látið sóknaraðila vita um slæma fjárhagsstöðu aðalskuldara. Það hafi því verið óheiðarlegt af varnaraðila að byggja á ábyrgðarskuldbindingunni í ljósi þess að hann hafi búið yfir þessum upplýsingum en látið hjá líða að upplýsa sóknaraðila þar um. Ábyrgðarskuldbindingin sé því ógildanleg og beri að víkja henni til hliðar með vísan til 3. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar sóknaraðili enn fremur til reglna um brostnar forsendur og telur að sóknaraðili hafi mátt treysta því að varnaraðili færi að samkomulaginu í einu og öllu.

Sóknaraðili telur einnig að fyrrgreint samkomulag staðfesti að til staðar sé sú viðskiptavenja hjá bönkum og sparisjóðum að greiðslumeta alla þá aðalskuldara sem hafi ábyrgðarmenn á láni að fjárhæð meira en 1.000.000 króna. Varnaraðili hafi því einnig brotið viðskiptavenju. Með vísan til 36. gr. samningalaga sé ábyrgðin því ógild.

Sóknaraðili telur einnig að greiðslumat hafi ekki einvörðungu átt að fara fram við útgáfu skuldabréfsins heldur einnig er skilmálabreytingar hafi verið gerðar á skuldabréfinu í tvígang.

Þá hafi varnaraðili ekki upplýst sóknaraðila um að lánsverðmæti skuldabréfsins yrði notað til að endurgreiða aðrar skuldbindingar aðalskuldara bréfsins. Það sé brot á 2. mgr. 4. gr samkomulagsins. Andvirði skuldabréfsins hafi verið notað til greiðslu víxils hjá varnaraðila. Þetta hafi sóknaraðili ekki vitað og varnaraðili ekki kynnt henni sérstaklega. Þá hafi varnaraðili ekki tilkynnt sóknaraðila um vanskil Einars Inga eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 5. gr. samkomulagsins.

Sóknaraðili telur að hvert og eitt fyrrgreindra atriða og þau öll saman geri það að verkum að ógilda eigi sjálfskuldarábyrgð þá er hún undirgekkst og víkja henni til hliðar. Sóknaraðili telur framgöngu varnaraðila ámælisverða og alls ekki í samræmi við vinnubrögð er góð og gegn fjármálastofnun eigi að hafa í frammi.

Varnaraðili telur að aðfarargerðin fullnægi skilyrðum laga nr. 90/1989 um framkvæmd aðfarar. Þá fullnægi umrætt skuldabréf þeim skilyrðum sem gerð séu til skuldabréfa. Bréfið sé undirritað af útgefanda og ábyrgðarmönnum ásamt tveimur vitundarvottum og ábyrgðarmennirnir hafi merkt við á bréfið að þeir óski ekki eftir að greiðslugeta aðalskuldara sé metin. Varnaraðili hafnar því algjörlega fullyrðingum sóknaraðila sem ósönnuðum um að einhver annar en hún hafi sett upphafstafi hennar við reit þess efnis að hún hafni því að fram fari greiðslumat á útgefanda bréfsins. Telur varnaraðili augljóst að stafirnir EH á bréfinu þýði að sóknaraðili hafi merkt við í reitinn. Telji sóknaraðili að einhver hafi falsað upphafsstafi hennar beri henni að kæra slíka fölsun og sanna það með ótvíræðum hætti að upphafsstafir hennar séu ritaðir af öðrum.

Með útgáfu skuldabréfsins hafi varnaraðili verið að stuðla að tilraun sambýlisfólksins til að koma nýrri skipan á fjármál sín ásamt því að hindra að fjárnám yrði gert hjá þeim. Þess vegna hafi skuldbréfinu verið ráðstafað til greiðslu á víxilskuld við varnaraðila. Sóknaraðila hafi því verið ljóst hvað hafi verið að gerast enda þessar aðgerðir henni til hagsbóta. Víxillinn hafi því verið greiddur upp og innheimtu hætt. Með vísan til framangreinds hafni varnaraðili því  að 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga eigi við í málinu en þar segi að upplýsa eigi ábyrgðarmenn ef verja eigi meira en helmingi lánsfjárhæðar til að endurgreiða önnur lán skuldara hjá fjármálafyrirtæki. Hefði sóknaraðili allt eins getað verið útgefandi skuldabréfsins og sambýlismaður hennar ábyrgðarmaður. Þá sé einnig að líta til þess að umrætt samkomulag eigi ekki við þegar gengist sé í ábyrgðir fyrir fyrirtæki, sbr. 2. gr. samkomulagsins.

Varðandi tilvísun sóknaraðili til 9. gr. samkomulagsins um að sóknaraðila hafi verið kynnt umrætt samkomulag vísar varnaraðili til 6. tl. skuldabréfsins þar sem fram komi að með undirskrift sinni hafi ábyrgðarmaður undirgengist að hafa kynnt sér fræðslurit varnaraðila um ábyrgðir.

Varnaraðili hafnar öllum tilvísunum sóknaraðila til 3. kafla laga nr. 7/1936 og til reglna um brostnar forsendur. Telur hann þessar reglur ekki eiga við í málinu. Ljóst sé að á árinu 2002 hafi samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga ekki talist venja þó það geri það tæpum fimm árum eftir að samkomulagið hafi verið undirritað. Varast verði að leggja að jöfnu réttarástand eins og það er í dag og það var á árinu 2002. Hvað varði þá kröfu sóknaraðila um að reglur samkomulagsins eigi einnig við skilmálabreytingar þá hafnar varnaraðili þeirri kröfu með vísan til eðlis skilmálabreytinga. Þær séu að jafnaði gerðar til hagsbóta fyrir skuldara eftir að lántaka hafi farið fram. Skilmálabreyting sé því ekki lántaka.

III.

Fram er komið í málinu að sóknaraðili var ábekingur á víxli að fjárhæð 1.670.000 krónur, útgefnum 14. júní 2001, sem kominn var í vanskil hjá varnaraðila. Víxillinn var samþykktur til greiðslu af Einari Inga Sigurbergssyni, sambýlismanni sóknaraðila, f.h. Kulda ehf. en útgefinn af Ragnari Sigurðssyni. Stefna á hendur öllum ofangreindum víxilskuldurum var árituð 13. febrúar 2002. Til að greiða þessa víxilskuldbindingu tók Einar Ingi skuldabréfalán hjá varnaraðila 12. mars 2002 að fjárhæð 1.925.000 krónur. Sóknaraðili var sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfinu og krefst nú ógildingar á fjárnámi sem fram fór hjá henni 30. nóvember 2005 til tryggingar skuldinni.

Leggja verður til grundvallar þá frásögn sóknaraðila, sem ekki hefur verið mótmælt af varnaraðila, að sambýlismaður hennar, aðalskuldari bréfsins, hafi fært henni skuldbréfið heim og hún undirritað það þar. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili kynnti sóknaraðila ekki sérstaklega reglur þær sem fram koma í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja standa að ásamt Sambandi íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökunum og stjórnvöldum og gildi tók 1. nóvember 2001. Í stöðluðum texta skuldabréfsins kemur fram að allir sjálfskuldarábyrgðarmenn hafi kynnt sér fræðslurit bankans um ábyrgðir en sóknaraðili heldur því fram að hún hafi ekki haft hugmynd um slíka reglur. Þá segist sóknaraðili ekki heldur hafa vitað af bágri fjárhagsstöðu sambýlismanns síns og að hann væri á vanskilaskrá.

Það er álit dómsins að varnaraðila hafi borið að kynna sóknaraðila umrætt samkomulag og jafnframt upplýsa hana um fjárhagsstöðu aðalskuldara skuldabréfsins. Varnaraðili bjó yfir þeim upplýsingum að Einar Ingi væri á vanskilaskrá og  árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð hjá honum nokkrum sinnum. Varnaraðila mátti því vera ljóst að líkur væru á því að aðalskuldari stæði ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt skuldabréfinu. Með því að láta þetta undir höfuð leggjast braut varnaraðili ákvæði 1. gr. samkomulagsins um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þar sem segir að markmið samkomulagsins sé meðal annars að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingu hans. Varnaraðila bar því að gæta meiri varúðar gagnvart sóknaraðila og ganga úr skugga um að henni væri í raun og veru ljós erfið fjárhagsstaða Einars Inga. Undirritun sóknaraðila undir skuldabréfið og staðlaðan texta þess um að hún hefði kynnt sér fræðslurit bankans um ábyrgðir þykir ekki fullnægjandi varúðarráðstöfun af hálfu varnaraðila eins og hér stendur á.

Ekki þykir koma til álita sú málsástæða varnaraðila að sóknaraðili hafi þá þegar staðið í skuld við varnaraðila sem ábekingur á víxlinum og að skuldabréfsútgáfan hafi í raun verið til hagsbóta fyrir sambýlisfólkið til þess að koma nýrri skipan á fjármál þeirra. Verður litið sjálfstætt á skuldabréfið og ekki talið að fyrri viðskipti aðila skipti máli í þessu sambandi. Verður talið að samkomulagið hafi gilt um áðurnefnda lánveitingu óháð því hvort hún var ætluð til uppgreiðslu á skuld eða í öðrum tilgangi.

Þá verður ekki framhjá því litið við úrlausn málsins að niðurstaða greiðslumats hefði væntalega leitt til þess að aðalskuldari yrði talinn í miklum erfiðleikum með að efna skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins ber lánastofnun í slíkum tilvikum að leita eftir skriflegu samþykki ábyrgðarmanns ef hann óskar eftir að lán verði veitt engu síður.

Þá þykir varnaraðili hafa horft framhjá ákvæði 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins þar sem segir að ef ráðgert sé að verja meiru en helmingi lánsfjár til að endurgreiða önnur lán skuldara skuli ábyrgðarmaður staðfesta skriflega að honum hafi verið kynnt sú ráðagerð. Það var ekki gert í þessu máli.

Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki nauðsyn á að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili hafi fallið frá þeim rétti sínum til að óska mats á greiðslugetu aðalskuldara en um það er deilt í málinu.

Þegar allt framangreint er virt og málið metið í heild þykir mega taka til greina kröfu sóknaraðila um ógildingu á umræddri aðfarargerð með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Fjárnám, að fjárhæð 3.529.059 krónur, samkvæmt aðfaragerð nr. 034-2005-02561, sem fram fór hjá sýslumanninum í Keflavík 30. nóvember 2005 í fasteigninni Hafnargötu 26, Vogum, er fellt úr gildi.

Varnaraðili, Kaupþing banki hf. greiði sóknaraðila, Elínu Helgadóttur, 250.000 krónur  í málskostnað.