Hæstiréttur íslands

Mál nr. 662/2010


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur


                                                                                              

Fimmtudaginn 13. október 2011.

Nr. 662/2010.

Margrét Reynisdóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur

M krafði H og T um bætur fyrir líkamstjón sem hún varð fyrir við vinnu hjá H er hún rann til í bleytu á gólfi í eldhúsi og skall á bakið. Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins en að beiðni T skoðaði Vinnueftirlitið gólfefni eldhússins síðar og gerði ekki athugasemdir við notkun þess. Taldi Hæstiréttur að M hefði ekki sýnt fram á að eldhúsgólfið hefði verið óforsvaranlegt og breytti þar engu um þótt Vinnueftirlitið hefði ekki verið kallað á staðinn í kjölfar slyssins. Í ljósi þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans um að slysið hefði orðið vegna óhappatilviks sem hvorki yrði rakið til vanbúnaðar, ófullnægjandi verkstjórnar né þess að öryggismálum hafi verið ábótavant hjá H. Voru H og T því sýknuð af kröfum M í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2010. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 2.192.278 krónur auk 4,5% ársvaxta af 521.515 krónum frá 21. ágúst 2005 til 21. nóvember sama ár og af 2.192.278 krónum frá þeim degi til 30. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 30. maí 2007 að fjárhæð 787.947 krónur. Til vara krefst hún þess að dráttarvextir reiknist frá síðara tímamarki. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður falli þá niður.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til slyss sem áfrýjandi varð fyrir 21. ágúst 2005 er hún féll í svokölluðu uppvöskunarrými í eldhúsi stefnda Hrafnistu, en hún starfaði þar sem matartæknir. Í héraðsdómsstefnu segir að búið hafi verið að ganga frá uppvaskinu þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu og hafi sá starfsmaður sem því sinnti átt að taka upp úr uppþvottavélinni, ganga frá og skafa bleytu af gólfinu niður í niðurföll með sérstakri gólfsköfu. Hafi engin bleyta átt að vera á gólfinu. Áfrýjandi hafi farið inn í rýmið og gengið framhjá „uppvöskunaraðstöðunni“. Á leiðinni út úr rýminu hafi hún gengið í poll eða blautan blett og fallið. Í tilkynningu stefnda Hrafnistu til Vinnueftirlits ríkisins um slysið 7. október 2005 og í tilkynningu til Tryggingastofnunar ríkisins 18. október sama ár er tildrögum slyssins lýst þannig að áfrýjandi hafi runnið til í bleytu á gólfi og skollið á bakið. Á sömu lund er atvikum lýst í matsgerð dómkvaddra matsmanna og í skriflegri aðilaskýrslu áfrýjanda. Af hálfu stefndu er því ekki mótmælt að atvik hafi verið með þessum hætti.

Af málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti má ráða að byggt sé á því að ástæða þess að hún féll umrætt sinn hefði verið sú að fyrir utan að gólfið hafi verið blautt hefðu svokallaðar „granólkúlur“ verið á gólfinu en þær munu vera settar í uppþvottavélina til að losa fastar matarleifar af því sem verið er að þvo upp hverju sinni. Óumdeilt er að gólfið hafði verið þrifið þegar slysið varð. Verður því við það miðað að áfrýjandi hafi dottið vegna þess að gólfið var blautt í kjölfar þrifanna, án þess að nefndar kúlur hafi þar haft áhrif.

Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Að ósk stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. skoðaði Vinnueftirlitið gólfefni eldhússins 31. janúar 2007 en óumdeilt er að ekki hafði verið skipt um gólfefni frá slysinu. Í bréfi Vinnueftirlitsins 13. febrúar sama ár kemur fram að umrætt gólfefni sé talið henta vel á gólf í eldhúsum og mötuneytum og að ekki virðist ástæða til að gera athugasemdir við notkun þess. Af því sem best verði séð séu heldur engar misfellur á því né sjáanlegar skemmdir. Hefur áfrýjandi ekki hnekkt þessu áliti. Af framburði þeirra vitna sem áfrýjandi leiddi fyrir héraðsdóm verður ekki fullyrt með vissu að fleiri en áfrýjandi hafi fallið á umræddum stað eftir að skipt hafði verið um gólfefni í byrjun árs 2005. Hefur áfrýjandi þannig ekki sýnt fram á að eldhúsgólfið hafi verið óforsvaranlegt, svo sem vegna halla, gerðar gólfefnis eða ófullnægjandi frágangs niðurfalla. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki séð að neinu hafi breytt að Vinnueftirlitið var ekki kallað á staðinn í kjölfar slyssins.

Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að slys áfrýjanda hafi orðið vegna óhappatilviks sem hvorki verði rakið til vanbúnaðar, ófullnægjandi verkstjórnar né þess að öryggismálum hafi verið ábótavant hjá stefnda Hrafnistu.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Það athugist að greinargerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti er mun lengri og ítarlegri en gert er ráð fyrir í 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. ágúst 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Margréti Reynisdóttur, kt. 150181-3729, Álftahólum 6, Reykjavík, gegn Hrafnistu, dvalarheimili aldraða, kt. 640169-7539, Laugarási, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 6602269-2079, Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu sem birt var 25. september 2009.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum gert að greiða stefanda 2.192.278 kr. auk 4,5% ársvaxta af 521.515 kr. frá 21.8.2005 til 21.11.2005 en af 2.192.278 kr. frá þeim degi til upphafsdags dráttarvaxta, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist aðallega að dráttarvextir reiknist frá 30.6.2007 en til var frá síðara tímamarki.  Þess er krafist að vextir höfuðstóls færist á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti þann 21.8.2005,  allt að frádreginni innborgun þann 30.5.2007 að fjárhæð 787.947 kr.  Þá er krafist málskostnaðar, aðallega að fjárhæð 952.680 kr. en til vara að fjárhæð 550.450 kr.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndu, Hrafnista, dvalarheimili aldraðra, og Tryggingamiðstöðin hf., verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.  Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn niður falla.  Verði bætur að einhverju leyti tildæmdar er þess krafist að þær beri 4,5% ársvexti af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska frá 21.8. 2005 til 21.11. 2005 af fyrrgreindum bótum auk bóta fyrir varanlega örorku en að frádregnum 736.743 krónum frá þeim degi til 25.9.2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Stefnandi, Margrét Reynisdóttir, vann sem matartæknir hjá stefnda, Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra, er hún slasaðist í eldhúsi dvalarheimilisins hinn 21. ágúst 2005.  Samkvæmt tilkynningu Margrétar til stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dags. 19. júní 2006, rann hún í bleytu á gólfi og skall á bakið.

Í læknisvottorði Skúla Gunnarssonar hjá Heilsugæslunni Salahverfi í Kópavogi varðandi Margréti, dagsett 11. mars 2007, sbr. dskj. nr. 22, segir m.a.:  „Þann 08.11.2006 kom Margrét í skoðun þar eð hún þurfti nýja beiðni í sjúkraþjálfun.  Að lokinni skoðun var svohljóðandi beiðni rituð:  Vinnuslys er hún rann til og datt á bakið í eldhúsi á Hrafnistu 20. ágúst 2005.  Viðvarandi verkir í baki síðan, frá hnakka niður í mjóbak.  Við skoðun nú áberandi thoracal kyfosa, eðl. hreyfigeta í hálsi, stirð í mjóbaki, vantar 20 sm á að fingur nemi við gólf í frambeygju. Eymsli í hnakkavöðvafestum og paravertebral vöðvum frá miðjum brjósthrygg og niður að mótun mjó- og spjaldhryggjar.  Eðl. taugafræðileg skoðun mtt krafta og reflexa.

Með beiðni, dags. 3. apríl 2007, fóru aðilar fram á við læknanna Atla Þór Ólason og Leif N. Dungal að þeir mætu líkamstjón Margrétar vegna slyssins 21. ágúst 2005 og færi matið fram í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993.  Þeir tóku þetta að sér.  Matsgerðin er dags. 23. apríl 2007.  Undir fyrirsögninni Niðurstaða segir:

Margrét Reynisdóttir hafði nokkra fyrri sögu um vöðvabólgur í hálsi og herðum og hafði nokkrum sinnum verið send í sjúkraþjálfun þess vegna.  Þá liggur fyrir saga um tognun á lendahrygg er Margrét bakkaði á staur rúmum 4 árum fyrir það slys sem hér er til umfjöllunar.  Margrét fékk bólgueyðandi lyf, ekki varð um sérstaka aðra meðferð að ræða þess vegna.

Í vinnuslysi 210805 mun Margrét hafa runnið á steingólfi við vinnu sína, datt fremur illa á vinstri síður og herð, kvartaði strax um verki á því svæði og þurfti hjálp við að komast á fætur.  Ekki er skrásett heimild um læknisskoðun fyrr en 4 dögum síðar, Margrét fór reyndar á slysdegi á bráðamóttöku með veikan maka sinn, segist hafa verið skoðuð lauslega þar.  250805 leitað Margrét á heilsugæslu vegna verkja aftan á vinstri axlarsvæði og í neðanverðum brjóstkassa vinstra megin.  Talið var að um mareinkenni væri að ræða og fékk Margrét bólgueyðandi lyf.  Rúmum mánuði síðar leitaði Margrét til Skúla Gunnarssonar heimilislæknis, kvartaði um verki í ofanverðum mjóhrygg og upp á herðasvæði.  Var send í sjúkraþjálfun, sem Margrét hefur stundað æ síðan og hefur átt erfitt með að slíta sig frá þessari meðferð.  Í mars 2006 leitaði Margrét til SG vegna skyndilegra mjóbaksverkja, sem hafi byrjað án utanaðkomandi áhrifa.  Margrét segist eftir þetta hafa verið mjög slæm af verkjum í mjóbaki og leiðni niður í ganglimi, meira hægra megin.

Kvartanir Margrétar lúta nú einkum að mjóbaksverkjum en einnig að versnun fyrri óþæginda í hálsi, herðum og vinstri axlarsvæði.

Við skoðun finnast að mestu eðlilegir hreyfiferlar í háls og brjósthrygg en stirð frambeygja í baki og alldreifðar vöðvabólgur meðfram mestöllum hrygg.

Ljóst virðist að Margrét muni hafa fengið mar- og tognunaráverka á hryggjarsúlu við umrætt vinnuslys en þó telja matsmenn að ekki sé með neinni vissu unnt að tengja mjóbaksóþægindi, sem aðallega virðast hefjast í mars 2006, við vinnuslysið 210805.

Varanlegur miski er metinn vegna dreifðs tognunaráverka á hryggjarsúlu og telst hæfilega metinn 7 stig.

Tímabundið atvinnutjón er metið samkvæmt framlögðum vottorðum og telst hafa varað frá slysdegi og fram til 300905.

Margrét telst hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga í 2 mánuði eftir þetta slys og matsmenn telja að 3 mánuðum eftir slysdag hafi lítilla frekari breytinga verið að vænta á ástandi hennar.  Batahvörf miðast við dagsetninguna 211105.

Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að Margrét gat unnið fullt starf eftir að hún kom aftur til vinnu eftir slysið, skipti um vinnustað og er nú í heldur léttara starfi.  Hún segir sjálf að þessi vistaskipti hafi ekki verið vegna afleiðinga slyssins og að minnkun í 90% starfshlutfall sé vegna þess að núverandi vinnuveitandi ráði ekki í hærra hlutfall.  Hún hafi þó dregið úr yfirvinnu og aukavöktum en gögn liggja ekki fyrir um skertar tekjur.  Matsmenn telja að miski Margrétar sé með þeim hætti að trúlega verði að telja að geta hennar til aukastarfa sé lítillega minnkuð.  Varanleg örorka af þessum sökum telst hæfilega metin 5%.

Ekki liggur fyrir í málinu að Vinnueftirliti ríkisins hafi verið tilkynnt um vinnuslysið fyrr en með tilkynningu sem dagsett er 7. október 2005, sbr. dskj. nr. 3.  En eins og áður sagði tilkynnti Margrét stefnda, Tryggingamiðstöðunni hf., um slysið hinn 19. júní 2006, sbr. dskj. nr. 5.  Með bréfi 14. nóvember 2006 fór Tryggingamiðstöðin hf. þess á leit við Vinnueftirlit ríkisins að það tæki út aðstæður í eldhúsi Hrafnistu með tilliti til laga um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og annarra reglna.  Einkum var óskað eftir áliti á því hvort gólfefni eldhússins teldist fullnægjandi miðað við þá starfsemi sem þar færi fram.  Ítrekað var að Tryggingamiðstöðin hf. óskað ekki eftir álitsgerð um orsakir slyssins, heldur eftir hlutlægu mati á aðstæðum á vinnustaðnum og hvort aðbúnaður þar uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru samkvæmt lögum og reglugerðum.  Með bréfi tryggingafélagsins til Vinnueftirlits ríkisins fylgdi m.a. greinargerð Margrétar um slysið sem fylgdi bréfi lögmanns hennar til tryggingafélagsins, dags. 27. september 2006, sbr. dskj. nr. 9.

Gylfi Már Guðjónsson, aðstoðarumdæmisstjóri hjá Vinnueftirliti ríkisins, kveðst í bréfi fyrir hönd vinnueftirlitsins til Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dags. 13. febrúar 2007, hafa skoðað gólfefni í eldhúsi Hrafnistu í Reykjavík hinn 31. janúar 2007.  Þar segir að ekki sé þarna um gólfdúk að ræða heldur „flotefni, þ.e. sérstöku dufti er blandað saman við bindiefni á staðnum og lagt um leið.  Í efninu er sandur sem ætlað er að mynda hálkuvörn, en hugsanlegt er að með tímanum dragi úr áhrifum hans.  Þetta efni er talið henta vel á gólf í eldhúsum og mötuneytum og virðist ekki ástæða til að gera athugsemdir við notkun þess.  Að sögn yfirmanns eldhússins hefur ekki verið skipt um gólfefni síðan slysið varð og að því er best verður séð eru engar misfellur á því og ekki sjáanlegar skemmdir“.

Ágreiningsefni aðila er hvort slysið verði rakið til atvika eða aðstæðna sem leitt geti til skaðabótaskyldu stefnda, Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðar.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hún byggir á:  Stefnandi, Margrét Reynisdóttir, byggir á því að ræsin á gólfinu hafi verið ófullnægjandi, ekki dugað til að losa alla bleytu af því.  Í öðru lagi byggir hún á því að hallinn á gólfinu og gólfefnið hafi verið til þess fallin að gera gólfið hættulegt í bleytu.  Hafa beri í huga að úr matsalnum og eldhúsinu var gengið um með diska með matarleifum að uppþvottavélinni.  Fita og annað slíkt hafi því óhjákvæmilega slest á gólfið.  Er vatn er að auki á gólfinu verði það mjög hált; úr verði slysagildra.  Í þriðja lagi hafi verið bleyta á gólfinu; enda þótt notkun uppþvottavélarinnar hafði verið lokið hafi ekki verið búið að ræsa allt vatnið fram og þurrka það upp.  Í fjórða lagi hafi verið óforsvaranlegt að gangbraut fyrir starfsmenn lægi fram hjá uppþvottavélinni.  Óhjákvæmilega hafi verið að fita og vatn væri í gangveginum.  Í fimmta lagi hefði það endurtekið gerst að fólk hefði dottið á þessum stað án þess að gripið hefði verið til öryggisráðstafana.  Í sjötta lagi hafi verkstjórn verið ábótavant.  Verkstjóri hafi átt að sjá til þess að allt sem að framan greinir væri í lagi, m.a. að allir ynnu sitt verk, svo sem að ræsa allt vatn af gólfinu eða þurrka það upp.  Í sjöunda lagi er á því byggt að vinnu hefði ekki verið hagað þannig að gætt væri fyllsta öryggis.  Í áttunda lagi er á því byggt að ekki hafi verið unnið að öryggismálum sem skyldi á vinnustaðnum.  Í níunda lagi er á því byggt að Hrafnista, dvalarheimili aldraðar, hafi brotið fyrirmæli 25. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 um þjálfun starfsmanna, bæði Margrétar og þeirra sem unnu við uppþvottavélina umrætt sinn.

Stefnandi sundurliðar tölulega bótakröfu sína með eftirfarandi hætti:

1.Þjáningabætur reiknast frá tjónsatburði þann 21.8.2005 til stöðugleikapunkts þann 21.112005 eða alls í 61 dag.  Þjáningabætur á dag eru 1.130 kr. eða samtals 68.930 kr.

2.Varanlegur miski reiknast 7% af 6.465.500 kr. eða 452.581 kr.

3.Varanleg örorka reiknast 55 miðað við viðmiðunarlaun síðustu þrjú almanaksár fyrir slys eða meðaltal áranna 2002, 2003 og 2004 uppfært til launavísitölu á stöðugleikapunkti (272,3 stig):

SamantektUpphæðLaunavísitalaUppfært

Árið 20042.125.870250,32.312.722 kr.

Árið 20031.702.154239,11.938.843 kr.

Árið 20021.596.994226,01.920.625 kr.

Meðaltal2.057.397 kr.

Skyldubundin lífeyrisréttindi   144.018 kr.

Viðmiðunarlaun2.201.414 kr.

Stuðull samkvæmt. 6. gr. skaðabótalaga er 15,179 stig.  Því reiknast fjárhæðin þannig:  2.201.414 x 15,179 x 5% = 1.670.763

Krafan sundurliðast því þannig:

Þjáningarbætur68.930 kr.

Varanlegur miski452.585 kr.

Varanleg örorka1.670.763 kr.

Samtals2.192.278 kr.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð.  Þá er vísað til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, einkum 6. gr., 8.-9. gr., 16. gr. 21.-23 gr., 25. gr., 42. gr., 65. gr.A og 78.- 79 gr.  Einnig er vísað til reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, einkum 6. gr., 21. gr. IV. kafla, V. kafla og VIII kafla.  Þá er vísað til Evróputilskipana 89/391/EBE og 89/654/EBE.

Helstu málsástæður stefndu og réttarheimildir er þau byggja á:  Stefndu, Hrafnista, dvalarheimili aldraða, og Tryggingamiðstöðin hf. byggja á því að slys stefnanda Margrétar verði fyrst og síðast rakið til óhappatilviljunar sem engum verði kennt um, ellegar að hún hafi sjálf valdið slysinu með gáleysi sínu.  Byggt er á því að ekkert liggi fyrir um að niðurföll á gólfinu hafi verið ófullnægjandi, hvað þá að slysið verði rakið til þess að svo hafi verið.  Þá er því hafnað að halli á gólfinu og gólfefni hafi verið til þess fallið að gera gólfið hættulegt í bleytu.  Hvernig sem gönguleiðum var háttað eða ástæður voru á svæðinu, þar sem Margrét slasaðist, bendi ekkert til sakar hjá starfsmönnum dvalarheimilisins í því sambandi.  Starfsfólkið hafi verið að störfum í eldhúsinu þegar hún slasaðist.  Meðan svo er geti það ætíð gerst að gólfið í eldhúsinu blotni.  Ekkert verði fullyrt um að svo eigi ekki að vera.  Margrét hafi ekki getað gengið út frá því að bleyta gæti ekki leynst einhvers staðar á gólfinu.  Þá er byggt á því að rangt sé og ósannað að gönguleiðir og aðstæður í eldhúsinu hafi að öðru leyti verið með þeim hætti að óforsvaranlegt geti talist.  Af gögnum málsins verði ekki ráðið að vatn og fita sé að jafnaði í gangveginum þar sem starfsfólk á leið um milli eldhúss og matsalar.  Slíkt geti gerst fyrir tilviljun, en alls ekki á þann veg að skaðabótaábyrgð stofnist hjá dvalarheimilinu.  Ósannað sé að ítrekað hafi gerst að fólk hafi dottið á umræddum stað.  Að minnsta kosti sé fyrirsvarsmönnum dvalarheimilisins ókunnugt um það.  Hafi því ekki komið til þess að ástæða þætti til að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á að starfsmönnum yrði fótaskortur í eldhúsinu.

Byggt er á því að verkstjórn hafi ekki verið ábótavant.  Gætt hafi verið fyllsta öryggis á vinnustaðnum.  Unnið hafi verið að öryggismálum lögum samkvæmt og haldin skrá yfir slys.  Þótt slysið hafi ekki verið tilkynnt vinnueftirlitinu strax í kjölfar þess þá breyti það engu.  Gólfið hafi verið rannsakað síðar af vinnueftirlitinu og niðurstað rannsóknarinnar hafi verið sú að ekkert væri athugavert við gólfefnið.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.  Byggt er á því að aðgæsluleysi stefnandi hafi fyrst og síðast valdið slysinu.  Þá er bent á að Margrét hafi ekki borið fram afmarkaða bótakröfu áður en stefna var birt.  Samkvæmt áralangri dómvenju sé ekki tilefni til að bótafjárhæð, sem kunni að verða tildæmd, beri dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá þeim degi er dómsmál þetta var höfðað 25. september 2009.  Til samræmis sé því rétt að bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska, að því marki sem slíkar bætur verði dæmdar, njóti verðbóta skv. 1. mgr. 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til upphafsdags dráttarvaxta.  Í þessu ljósi sé á það fallist að þjáningabætur reiknist út frá 1.450 krónum (700 x 6814/3282) fyrir hvern dag sem stefnandi telst eiga rétt til slíkra bóta og varanlegur miski reiknist út frá 8.304.500 krónum (4.000.000 x 6814/3282).  Nemi líkamstjón stefnanda þannig útreiknað samtals 1.603.785 krónum sem nánar sundurliðist þannig:

Þjáningabætur (1.450 x 61)88.450 kr.

Varanlegur miski (8.304.500 x 7%)581.315 kr.66.765 kr.

Varanleg örorka (2.201.414 x 15,179 x 5%)1.670.763 kr.

Tjónsdagsverðm. örorkub. úr slysatr. launþega-736.743 kr.934.020 kr.

Samtals1.603.785 kr.

Örorkubætur úr slysatryggingu launþega hafi numið 787.947 krónum er þær voru greiddar 30. maí 2007.  Frá upphafsdegi varanlegrar örorku 21. nóvember 2005 til greiðsludags séu vextir samtals 6,95% (4,5% p.a.).  Þegar bæturnar hafi verið afvaxtaðar sem nemi þessum vöxtu sé verðmæti bótanna á upphafsdegi örorkunnar 736.743 krónur (787.947/1,0695).  Sé sú upphæð dregin frá bótum fyrir varanlega örorku, sbr. 2. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999 um breytingu á þeim.  Þannig fáist að höfuðstóll bóta fyrir varanlega örorku á upphafsdegi örorkunnar nemi að eftirstöðvum 934.020 krónum en ekki 1.670.763 krónum eins og gengið sé út frá í kröfugerð stefnanda.  Ef bætur verði á annað borð tildæmdar í máli þessu beri að taka mið af framangreindu.

Þá segir í greinargerð stefndu: „Með vísan til 16. gr. skaðabótalaga skulu bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska, að teknu tilliti til þeirrar sakarskiptingar sem ákveðin verður, ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu, bera 4,5% ársvexti frá tjónsdegi, 21. ágúst 2005, til upphafsdags dráttarvaxta.  Til sama dags skulu eftirstöðvar bóta fyrir varanlega örorku, að teknu tilliti til sakarskiptingar, bera 4,5% ársvexti frá upphafsdegi örorkunnar eða frá 21. nóvember 2005 að telja.“

Um réttarheimildir vísa stefndu til 6. gr., 8. gr., 9. og 16. gr., 21. gr., 22. gr., 23. gr. og 25. gr. 65. gr., sbr. 65 gr. a, 78. gr. og 79. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 með síðari breytingum.  Málskostnaðarkröfu styðja stefndu við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi, Margrét Reynisdóttir, bar m.a. fyrir rétti að slysið, sem hér um ræðir, hafi gerst kl. 15.30 [sunnudaginn 21. ágúst 2005].  Hún sagði að vinnutíma hafi átt að verið lokið kl. 16.00.

Hún kvaðst hafa verið að koma með tóman skítugan stálbakka úr eldhúsinu og inn þar sem uppvaskið fer fram og lagt hann þar frá sér.  Hún hafi verið að koma frá eldavélinni.  Hún hafi verið á leiðinni að halda áfram þar til vinnu væri lokið og verið á leiðinni aftur inn í eldhúsið [þegar slysið varð].  Hún kvaðst hafa verið í öryggisskóm.

Vísað var til þess að í stefnu segi m.a. „ [a]ð sögn stefnanda var engin virk verkstjórn í eldhúsinu.“  Spurt var hvað hún ætti við með því.  Margrét sagði að Þorsteinn [Gunnlaugsson kokkur] hefði átt að stjórna þessu, en hún hafi náttúrlega alveg vitað hvað átti að gera.  Hann hafi bara verið kokkurinn á staðnum sem var yfir þessari vakt.  Starfsmennirnir hefðu vitað nákvæmlega hvað þeir áttu að gera.  Hann hafi samt borið ábyrgð á þessari helgarvakt.

Guðrún Aðalsteinsdóttir bar m.a. fyrir rétti að hún væri fyrrum starfskona á Hrafnistu.  Hún hafi starfað í eldhúsinu.  Hún kvaðst sjálf hafa dottið í eldhúsinu á Hrafnistu.  Hún hafi verið að fara með leirtau í uppvask og stigið í bleytu og á svokallaðar granont kúlur, sérstakar kúlur sem settar séu í uppþvottavél fyrir erfiðan uppþvott, og runnið eins og á skautsvelli; steinlegið og legið lengi.  Sem betur fer hafi hún ekki meitt sig.  Hún kvaðst halda að skipt hefði verið um gólfefni þarna á þessum tíma.

Birna Kristinsdóttir bar m.a. fyrir rétti að hún hefði unnið í eldhúsinu á Hrafnistu og verið að vinna þar þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Hún kvaðst ekki hafa séð hana detta en komið og hjálpað henni á fætur.  Birna kvaðst sjálf hafa dottið í eldhúsinu en ekki á þeim stað sem Margrét datt.

Eva Hrund Harðardóttir bar m.a. fyrir rétti að hún héldi að hún hefði verið hætt störfum hjá Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra, þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Á þeim tíma sem hún starfað hjá Hrafnistu kvaðst Eva Hrund hafa vitað til þess að einhverjir aðrir hafi dottið í bleytu á Hrafnistu.  Elísabet hafi orðið fyrir því.  Eva Hrund sagði að breytingar á gólfefninu hafa „orðið til hins betra“.  Til dæmis hafi gólfið ekki verið jafn hált.

Margrét Pétursdóttir bar m.a. fyrir rétti að hún hefði unnið í eldhúsinu á Hrafnistu en verið hætt störfum þar þegar stefnandi, Margrét Reynisdóttir, slasaðist 21. ágúst 2005.  Hún kvað sér ekki vera kunnugt um slysið.  Hún kvaðst hafa hætt störfum hjá Hrafnistu í byrjun mars 2004.

Herdís Eiríksdóttir bar m.a. fyrir rétti að hún hefði unnið á Hrafnistu þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Herdís kvaðst hafa unnið í eldhúsinu á þessum tíma.  Gólfið í eldhúsinu, þar sem vaskað var upp, hafi verið heldur sleipt.

Þorsteinn Emil Gunnlaugsson bar m.a. fyrir rétti að hann hafi verið matreiðslumaður á Hrafnistu þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Hann kvað vera þrjú ár síðan hann hætti störfum þar.  Um helgar hafi matreiðslumaður að störfum þurft að sjá um verkskipulag í eldhúsinu.  Hinn 21. ágúst 2005 hafi hann verið að störfum.  Hann kvaðst ekki hafa séð þegar Margrét slasaðist.  Hann kvaðst ekki muna að hafa komið henni til hjálpar.  Hann kvaðst ekki muna glöggt hvernig uppþvottaraðstaðan var þarna.  Hann kvaðst muna að aðstaðan hafi verið svipuð og í öðrum stórum eldhúsum.

Aron Kristján Birgisson bar m.a. fyrir rétti að hann hafi unnið á Hrafnistu þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Hann hafi verið til aðstoðar í eldhúsinu.  Hann kvaðst hafa verið farinn þegar Margrét slasaðist en frétt um slysið síðar.  Hann kvaðst vita að fleiri hefðu dottið í bleytu á Hrafnistu.  Hann hafi dottið við uppvaskið og Beta hafi dottið.  Hann kvaðst ekki hafa tilkynnt yfirmönnum þegar hann datt.

Birgitta Elísabet Aradóttir bar m.a. fyrir rétti að hún hefði starfað við að vaska upp á Hrafnistu.  Hún hafi hætt þar í október fyrir fjórum árum.  Hún kvaðst ekki hafa séð þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Hún kvaðst muna að Ingibjörg hafi dottið og handleggsbrotnað, en ekki muna hvenær það gerðist, en það hafi verið áður en hún sjálf datt.  Kvaðst hún hafa runnið til á gamla gólfinu og dottið og rekið sig í hornið á borðinu, skorist og þurft hefði að sauma fjögur fimm spor á henni á slysadeildinni sama dag.  Magnúsi og þeim á Hrafnistu væri kunnugt um þetta.  Birgitta Elísabet kvað nýja gólfefnið hafa verið eins og skautasvell.  Hún hafi stundum þurft að láta hveiti á gólfið til að verjast falli.  Nýja gólfefnið hefði verið helmingi verra en það gamla.  Bláu kúlurnar, sem komu úr uppþvottavélinni, hafi aukið hálkuna.

Magnús Margeirsson, yfirmaður eldhúss Hrafnistu, bar m.a. fyrir rétti að hann hefði verið yfirmaður í eldhúsinu, þegar Margrét slasaðist 21. ágúst 2005.  Hann vinni ekki um helgar og hafi því ekki verið á staðnum þann dag.  Hann hefði frétt um slysið daginn eftir.  Engar sértakar ráðstafanir hafi verið gerðar vegna slyssins.  Starfsmannastjóra á Hrafnistu hafi verið tilkynnt um atvikið.  Hann kvaðst ekki vita til að nokkuð hefði verið gert í kjölfarið.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa verið í öryggisnefnd á þessum tíma.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa sjálfur dottið í bleytu í eldhúsinu.  Ekki hafi borist honum til eyrna að aðrir en Margrét hefðu dottið í eldhúsinu.

Magnús sagði að gólfið hafi verið gert upp um áramót 2005.  Vatnshalli hafi verið tekinn sem nægilegur var talinn til að sinna rennsli að niðurföllum.  Gólfið hafi verði lagt að athuguðu máli um hvað væri best og viðurkennt í svona aðstöðu.  Þetta hafi dugað í þau fimm ár sem liðin væru síðan gólfið var endurnýjað.  Ekki hafi verið talin nein þörf á að breyta því.

Magnús sagði að ekki væri óvenjulegt verklag í eldhúsum eins og á Hrafnistu að nota vatnssköfur og síðan þurrkur til að koma vatni niður í niðurföllin.  Hann kvaðst ekki vita hvaðan svo mikið vatnsmagn gæti komið sem niðurföllin önnuðu ekki.  Vatn er nokkru nemi sé ekki sett á gólfið af ásetningi nema til að þrífa það.

Magnús sagði að rangt væri að gengið væri úr matsalnum með diska með matarleifum að uppþvottavélinni eins og haldið væri fram í stefnu [á bls. 3.].  Í fyrsta lagi berist skítugir diskar ekki úr matsal; þeir séu vaskaðir upp á hæð fyrir ofan.  Þarna væri einungis vaskaðir upp stálílát og svokallaðar kantónur úr eldhúsi.  Enginn utanaðkomandi eigi erindi í uppvaskið samkvæmt vinnuferlum.  Þarna komi menn að ákveðnu borði og leggi þar frá sér það sem vaska á upp.  Uppvaskarinn taki við og fari síðar með í hring og aftur í annað herbergi.  Þarna hafi ekki verið umgangur.  Þeir sem koma með óhrein ílát fari sömu leið til baka og þeir komu.

Magnús sagði að borist gæti vatn á gólfið í uppvöskunarrými.  Mönnum væri ljóst að í svona vinnurými gæti óhjákvæmilega gerst að vatn rynni á gólfið.

Vísað var til þess að á bls. 1 í stefnu sé þess getið að búið hefði verið að ganga frá uppvaski þegar stefnandi slasaðist um kl. 15:30.  En þar segi m.a.: „Sú sem það gerði var stúlka, Millý að nafni, frá Filippseyjum, sem hafði byrjað um 2-3 vikum fyrr.  Átti Millý að taka úr uppþvottavélinni og ganga frá og skafa gólfin eftir uppvaskið, þ.e. að skafa alla bleytu af gólfinu með sérstakri gólfsköfu, niður í niðurföll.“  Spurt var, hvort þessi lýsing á starfssviði Millýjar væri eitthvað öðruvísi en þarna komi fram.  Magnús kvað svo ekki vera.  Hún hafi væntanleg verið búin að þrífa gólfið með vatni svo sem fólk gerir.  Síðan hafi hún skafið bleytuna af gólfinu og þurrkað gólfið.  Þarna hafi líklega verið búið að slökkva ljósið og fólk hætt að vinna.  Magnús kvaðst ekki kannast við að Millý hafi ekki sinnt sínum störfum; hún vær enn að störfum hjá Hrafnistu og væri með betri starfsmönnum.  Gólfin væru hreinsuð í lok hvers vinnudags.  Magnús sagði að ólíklegt væri að bleyta gæti hafa verið í einhverjum mæli þarna svo að hætta stafaði að, en þar sem Margrét datt væri [vatns]hallinn mestur í rýminu.

Magnús sagði að rangt væri að gangbraut „fyrir annað vinnandi fólk“, sbr. stefnu á bls. 3, hafi legið fram hjá uppþvottavélinni.  Þeir sem starfa við uppþvottinn séu þeir einu sem gangi um á uppþvottasvæðinu, engin gangbraut sé þar í gegn fyrir aðra starfsmenn.

Magnús kvað hvorki yfirmenn sína né undirmenn sína hafa fundið að verkstjórn hans svo honum sé kunnugt.  Hann hafnar þeirri staðhæfingu stefnanda „að vinnu hafi ekki verið hagað þannig að gætt væri fyllsta öryggis“.

Halldóra Helgadóttir bar fyrir rétti m.a. að hún hefði verið í öryggisnefnd Hrafnistu í ágúst 2005.  Hún kvaðst ekki hafa verið kölluð til út af slysi Margrétar Reynisdóttur 21. ágúst 2005.  Kvaðst hún heldur ekki vita til þess að einhver annar úr nefndinni hafi verið kallað til út af slysinu.

Niðurstaða:  Ósannað er að ræsin á gólfinu í eldhúsi Hrafnistu hafi verið ófullnægjandi og ekki dugað til að losa bleytu af gólfinu svo sem stefnandi staðhæfir.  Þá hefur ekki með óyggjandi hætti verið sýnt fram á að halli á gólfinu og gólfefnið í eldhúsinu þar sem vaskað er upp sé óvenjulega hættulegt þegar gólfið er blautt.

Fyrir liggur að gólfefnið í eldhúsinu var skoðað af starfsmanni Vinnueftirlitsins í janúar 2007, sem taldi efnið henta vel á gólf í eldhúsum og mötuneytum.  Ekki er sýnt að sönnunaraðstaða stefnanda hafi breyst við að skoðun Vinnueftirlitsins varð svo síðbúin.

Þó líklegt sé að rakablettur hafi verið á gólfi í eldhúsi Hrafnistu eftir hreingerningar undir lok vinnudags, hinn 21. ágúst 2005, getur það hvorki talist óvenjulegt né óforsvaranlegt í eldhúsi af þeirri stærð sem hér um ræðir.  Í lýsingu málavaxta í stefnu segir m.a. að stefnandi hafi hafið störf sem matartæknir í eldhúsinu á Hrafnistu í Reykjavík í apríl 2003.  Störf hennar hafi einkum falist í að elda sérfæði en einnig hafi hún gengið í hin og þessi störf í eldhúsinu.  Telja verður því að aðstæður og umgengni í eldhúsinu hafi ekki átt að koma henni á óvart í ágúst 2005.  Sjálf bar hún fyrir rétti að hafa vitað hvernig hún átti að standa að verki og taldi sig ekki þurfa á verkstjórn frá öðrum að halda við vinnu sína.

Magnús Margeirsson, yfirmaður í eldhúsi Hrafnistu, bar fyrir rétti m.a. að þeir sem starfa við uppþvottinn væru þeir einu, sem gangi um á uppþvottasvæðinu; ekki sé um að ræða gangbraut þar í gegn fyrir aðra starfsmenn.  Ekki liggur því fyrir með ótvíræðum hætti að gangbraut fyrir starfsmenn liggi fram hjá uppþvottavélinni svo sem stefnandi staðhæfir.

Að undanskilinni Margréti Reynisdóttur, stefnanda í máli þessu, er ósannað að þau, sem báru fyrir rétti að hafa dottið í bleytu í eldhúsinu á Hrafnistu, hafi tilkynnt forsvarsmönnum Hrafnistu um það.  Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að rekja megi slysið til skorts á verkstjórn.

Af hálfu stefndu er mótmælt staðhæfingum stefnanda, að ekki hafi verið unnið að öryggismálum sem skyldi á vinnustaðnum í samræmi við ákvæði 6., 8., 9. og 16. gr. laga nr. 46/1980.  Þá sé rangt og ósannað að stefndi, Hrafnista, dvalarheimili aldraða, hafi ekki gert áætlanir um öryggi og heilbrigði starfsmanna skv. 65. gr., sbr. 65. gr. a laganna.  Þá hafi dvalarheimilið haldið skrá yfir slys eins og mælt er fyrir um í 78. gr. laganna.

Stefnandi hefur á hinn bóginn ekki sýnt fram á, að stjórnendur dvalarheimilisins hafi með vítaverðum hætti vanrækt að fara að lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þannig valdið slysinu hinn 21. ágúst 2005.

Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður lagt til grundvallar dómi að slysið hafi orðið fyrir óhapp, sem stefndu bera ekki bótaábyrgð á.  Stefndu verða því sýknuð af kröfum stefnanda.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að málskostnaður falli niður.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Hrafnista, dvalarheimili aldraða, og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Margrétar Reynisdóttur.

Málskostnaður fellur niður.