Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-274
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lánssamningur
- Aðildarskortur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 5. nóvember 2021 leitar dánarbú Birgis H. Þórissonar leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. október sama ár í máli nr. 351/2020: SJ fasteignafélag ehf. gegn dánarbúi Birgis H. Þórissonar á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi 28. september 2006 að fjárhæð 35.000.000 króna. Birgir H. Þórisson, þáverandi framkvæmdastjóri gagnaðila, skrifaði undir samninginn bæði fyrir sína hönd sem lánveitanda og gagnaðila sem lántaka. Þá ritaði eiginkona hans undir samninginn fyrir hönd gagnaðila sem stjórnarformaður félagsins.
4. Héraðsdómur féllst á kröfur leyfisbeiðanda. Með dómi Landsréttar var gagnaðili hins vegar sýknaður vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Landsréttur rakti hvernig lánsfjárhæðin hefði verið færð milli reikninga lánveitanda og 50.000.000 króna verið millifærðar af honum á reikning í eigu nafngreinds manns sem hafi á þeim tíma hvorki verið hluthafi né fyrirsvarsmaður gagnaðila. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að lánið hefði runnið til lánveitanda sjálfs en ekki til gagnaðila. Leyfisbeiðandi hefði hvorki sýnt fram á að lánið hefði verið greitt til gagnaðila né að það hefði verið nýtt á nokkurn hátt í hans þágu sem væri forsenda þess að lögvarin krafa gæti talist hafa stofnast á hendur honum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, auk þess sem málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Hann hafi undir rekstri málsins sýnt fram á að lánssamningurinn hafi í raun verið grundvöllur greiðslna til fyrrgreinds manns sem hafi rík tengsl við gagnaðila. Þá hafi umræddir fjármunir verið notaðir í þágu gagnaðila. Leyfisbeiðandi boðar frekari gagnaframlagningu fyrir Hæstarétti máli sínu til stuðnings.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.