Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2016 þar sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 1.200.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dæmdur málskostnaður í héraði verði lækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál þetta 9. febrúar 2016 á hendur sóknaraðila til endurgreiðslu ofgreiddra afborgana samkvæmt tveimur lánssamningum, samtals að fjárhæð 7.723.711 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2014 til greiðsludags. Áður en sóknaraðili skilaði greinargerð í málinu tókst sátt með aðilum 22. mars 2016 um annað en málskostnað, sem ákveðinn var með úrskurði héraðsdómara, sbr. síðari málslið 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991. Sáttin var þess efnis að sóknaraðili skyldi innan tíu daga greiða varnaraðila stefnufjárhæð málsins að fullu með dráttarvöxtum frá 20. desember 2014. Að þessu gættu og að virtum gögnum málsins er rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila 800.000 krónur vegna reksturs málsins í héraði.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðila, Íslenskum sjávarréttum ehf., 800.000 krónur í málskostnað í héraði.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2016.
Mál þetta höfðaði Íslenskir sjávarréttir ehf., Kothúsvegi 16, Garði, með stefnu birtri 9. febrúar 2016 á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Sátt var gerði um efni málsins 22. mars, en ágreiningur aðila um málskostnað tekinn til úrskurðar.
Stefnandi hefur lagt fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 2.672.250 krónur. Stefndi bauðst til að greiða 600.000 krónur í málskostnað.
Málið var höfðað til endurgreiðslu ofgreiddra afborgana af tveimur lánssamningum. Samkvæmt sáttinni greiðir stefndi 7.723.711 krónur með dráttarvöxtum frá 20. desember 2014. Lögmaður stefnanda hefur lýst því að hann hafi þurft að eyða miklum tíma í skoðun gagna og endurútreikning, svo og lestur fræðirita og dómafordæma.
Að virtum málsatvikum eins og þeim er lýst í stefnu og framlögðum gögnum verður ráðið að málið er hvorki sáraeinfalt né mjög flókið. Ljóst er að vinnuskýrsla lögmanns stefnanda, sem þó er handskrifuð og ekki glögg, tekur einnig til vinnu við kvörtun til úrskurðarnefndar. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi voru og því sem telja mætti eðlilegt vinnuframlag við höfðun málsins, af hálfu lögmanns með staðgóða þekkingu á réttarreglum, er málskostnaður ákveðinn 1.200.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Stefndi, Landsbankinn, greiði stefnanda, Íslenskum sjávarréttum ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað.