Print

Mál nr. 839/2016

Rannsóknarnefnd Alþingis (Kjartan Bjarni Björgvinsson skipaður stjórnandi rannsóknar samkvæmt ályktun Alþingis 2. júní 2016)
gegn
A (Gísli Guðni Hall hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu R um að A yrði gert að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Talið var að ekki yrði fyrirfram úr því skorið hvort spurningar sem R hygðist leggja fyrir A væru þess eðlis að ákvæði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011, þar sem mælt er fyrir um undantekningar frá hinni almennu vitnaskyldu, tækju til spurninganna en heimild til handa A til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi yrði ekki fundin stoð í ákvæðunum. Var því fallist á kröfu R.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili gefi skýrslu fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðili úrskurðar héraðsdóms um hvort honum verði gert að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011. Byggði hann kröfuna annars vegar á því að skipun sóknaraðila ætti sér ekki stoð í lögum og að varnaraðila yrði ekki gert skylt að svara spurningum nefndar sem þannig væri skipuð. Hins vegar byggði varnaraðili kröfu sína á því að varnaraðili nyti ekki réttlátrar málsmeðferðar við meðferð og rannsókn málsins.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um fyrri málsástæðu varnaraðila er staðfest niðurstaða hans um að ekki verði dregin í efa heimild sóknaraðila til að rannsaka á grundvelli laga nr. 68/2011 þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 getur rannsóknarnefnd óskað þess að héraðsdómari kveðji þá fyrir dóm til þess að bera vitni, sem ekki verða við ósk nefndarinnar um skýrslugjöf. Um þá skýrslugjöf skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Í XVIII. kafla laga nr. 88/2008 er fjallað um vitnaskyldu. Þar er í 116. gr. kveðið á um hina almennu skyldu manns til að koma fyrir dóm sem vitni og svara spurningum sem er beint til hans um málsatvik. Í 1. mgr. 118. gr. laganna er kveðið á um þá undantekningu frá hinni almennu vitnaskyldu að vitni sé heimilt að skorast undan því að svara tilteknum spurningum ef ætla má að í svari þess geti falist játning eða bending um að það eða þeir sem vísað er til í 1. og 2. mgr. 117. gr. laganna hafi framið refsiverðan verknað og einnig ef ætla má að í svari vitnisins geti falist atriði sem valdi því eða öðrum nánum vandamönnum þess eða nákomnum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 er einnig mælt fyrir um að ekki sé fyrir hendi skylda til að láta af hendi upplýsingar við skýrslugjöf ef ætla má að í henni geti falist játning eða bending um að viðkomandi hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni.

Ekki verður fyrirfram úr því skorið hvort spurningar sem sóknaraðili hyggst leggja fyrir varnaraðila séu þess eðlis að ákvæði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 taki til þeirra, en heimild til handa varnaraðila til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi verður ekki fundin stoð í fyrrgreindum lagaákvæðum. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu sóknaraðila.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Rannsóknarnefndar Alþingis, um að varnaraðili, A, verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2016.

I

         Með beiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 22. nóvember sl., krefst Kjartan Bjarni Björgvinsson þess fyrir hönd rannsóknarnefndar Alþingis að B, kt. [...], A, kt. [...], C, kt. [...], og D, kt. [...], verði kvaddir fyrir dóminn til þess að gefa skýrslu samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarefndir.

         Í kröfu sóknaraðila kemur fram að Alþingi hafi ályktað 2. júní 2016 að fram skyldi fara rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Forseti hafi 16. júlí sama ár skipað Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara til að stýra ofangreindri rannsókn. Í kröfunni kemur fram að hann hafi boðað framangreind vitni, þar á meðal vitnið A, fyrrverandi stjórnarformann [...], til skýrslutöku á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011, sem fram átti að fara 11. nóvember sl. Þar segir enn fremur að vegna viðbragða vitnisins, sem er nánar lýst í kröfunni, telji sóknaraðili að vitnið hafi ekki orðið við ósk hans um skýrslutöku fyrir nefndinni. Því sé óskað eftir því að vitnið verði kvatt fyrir dóm til skýrslutöku og til að svara spurningum sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011.

         Á grundvelli beiðninnar gaf dómari út vitnakvaðningar 22. nóvember 2016 þar sem framangreind vitni voru kvödd til þess að mæta fyrir dóminn 23. nóvember 2016 og gefa skýrslu fyrir dómi. Varnaraðili mætti fyrir dóminn þann dag, kl. 10.30, í samræmi við kvaðningu. Í þinghaldinu var þess krafist af hálfu varnaraðila að dómari viki sæti vegna starfstengsla við Kjartan Bjarna Björgvinsson. Dómari hafnaði þeirri kröfu með úrskurði sem kærður var til Hæstaréttar Íslands. Með dómi réttarins 28. nóvember sl. var niðurstaða héraðsdómara staðfest. Dómari gaf að nýju út vitnakvaðningar 2. desember 2016 þar sem framangreindum vitnum var gert að mæta fyrir dóminn 6. sama mánaðar og gefa skýrslu í málinu. Með samkomulagi aðila var ákveðið að þinghaldinu skyldi frestað til 8. sama mánaðar og voru gefnar út nýjar vitnakvaðningar í samræmi við það. Varnaraðili mætti þann dag fyrir dóminn kl. 10.30 í samræmi við kvaðninguna. Í þinghaldinu krafðist hann að dómari úrskurðaði hvort sóknaraðila væri heimilt að leiða hann sem vitni í málinu.

 

II

         Krafa varnaraðila, vitnisins A, er á því reist að hann telur að sóknaraðila sé óheimilt að leiða hann sem vitni í umræddu máli. Hann reisir þá afstöðu sína í meginatriðum á því að skipun rannsóknarnefndar Alþingis eigi sér ekki stoð í lögum og að vitninu verði ekki gert skylt að svara spurningum nefndar sem þannig hafi verið skipuð. Þá bendir varnaraðili á að honum sé ekki ætlað að njóta réttlátrar málsmeðferðar við meðferð og rannsókn málsins.

         Varnaraðili vísar til gagna um tilurð umræddrar rannsóknar, þar á meðal bréfs umboðsmanns Alþingis, dags. 19. maí 2016, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Af þessum gögnum dregur hann þá ályktun að ástæða þess að rannsóknarnefnd hafi verið skipuð til þess að varpa ljósi á þessi fjórtán ára gömlu viðskipti sé að ekki hafi verið skilyrði til þess að hefja sakamálarannsókn á þeim, enda hugsanleg refsiábyrgð vegna þeirra löngu fyrnd. Með þeirri rannsókn sem sóknaraðila sé falið að annast sé því stofnað til ígildis sakamálarannsóknar á löngu fyrndu máli. Telur hann að í raun hafi verið stofnað til rannsóknarréttar til að fjalla um háttsemi varnaraðila og annarra sem hafi farið fyrir svonefndum S-hópi sem keypti umræddan hlut af íslenska ríkinu í Búnaðarbanka Íslands hf. Rannsóknarefnið snúi að því hvort lögbrot hafi verið framin í viðskiptunum og í því ljósi telur varnaraðili sig hafa réttmæta ástæðu til að óttast mannorðsmissi.

         Varnaraðili tekur fram að í þingsályktuninni, sem liggur til grundvallar starfi sóknaraðila, eigi að rannsaka þátttöku þýska bankans í kaupum á eignarhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Sérstaklega sé lagt fyrir rannsóknarmanninn að draga saman og búa til birtingar upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur hafi veitt íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess. Samkvæmt þessu sé ekki ætlunin að rannsaka meðferð opinbers valds eða fyrirtækja sem heyri undir framkvæmdarvaldið á neinn hátt, heldur eingöngu háttsemi einkaaðila sem kaupenda í viðskiptunum. Enginn grunur sé um að handhafar opinbers valds eða hagsmuna hafi misbeitt valdi sínu.

         Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að viðskiptin sem um ræðir hafi verið margrannsökuð af opinberum aðilum. Fjallað hafi verið um þau af Ríkisendurskoðun árið 2003. Þá hafi þau komið við sögu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem hafi rannsakað aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, auk þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu hennar. Hafi nýjar upplýsingar komið fram um viðskiptin, eins og vísað sé til í framangreindu bréfi umboðsmanns Alþingis, telur varnaraðili að vandkvæðalaust hafi verið að fela viðkomandi embættum að endurskoða fyrri niðurstöður sínar með tilliti til þeirra. Telur varnaraðili að ekki hafi verið lagt mat á hvort önnur úrræði en skipun rannsóknarnefndar væru tæk, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 68/2011, og því hafi meðalhófsreglu ekki verið gætt í þessu tilviki.

         Af hálfu varnaraðila er gagnrýnt að með fyrrgreindu bréfi umboðsmanns Alþingis, sem sé tilefni rannsóknarinnar, hafi umboðsmaður farið langt út fyrir starfssvið sitt eins og það er afmarkað í 2. og 3. gr. laga nr. 85/1997. Þá sé það aðfinnsluvert að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki séð tilefni til þess að ganga úr skugga um hvaða upplýsingar umboðsmaður Alþingis vísaði til í bréfi sínu og hvaðan þær væru komnar.

         Varnaraðili vísar til 1. gr. laga nr. 68/2011 þar sem segir að forseti Alþingis skipi rannsóknarnefnd á vegum Alþingis ef þingið samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning. Hann tekur fram að í upphaflegu frumvarpi til laga um þetta efni hafi að auki verið áskilið að rannsókn beindist að málsatvikum er tengdust meðferð á opinberu valdi. Eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpinu hafi þessi afmörkun átt rætur að rekja til hliðstæðra laga í Noregi og Danmörku. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi hafi niðurlag 1. mgr. 1. gr. þess, um að rannsókn tengdist meðferð á opinberu valdi, verið fellt brott úr frumvarpinu. Samkvæmt framhaldsnefndaráliti allsherjarnefndar, sem hafi lagt til þessa breytingu, hafi ástæða þess verið að það orðalag gæti mögulega leitt til ágreinings um það hvort starfsemi á vegum opinberra aðila fæli í sér meðferð opinbers valds. Hafi þar t.d. verið vísað til starfsemi opinberra hlutafélaga og ýmiss konar þjónustustarfsemi á vegum opinberra aðila sem fæli ekki nauðsynlega í sér meðferð á opinberu valdi eins og það hafi verið afmarkað í íslenskri réttarframkvæmd. Með vísan til þessa, sem og orðalags 2. mgr. 1. gr. og 1. til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011, telur varnaraðili að ekki sé ætlunin að þessu úrræði, að skipa rannsóknarnefnd, sé beitt gegn einstaklingum og einkaaðilum sem hafi átt í viðskiptum af einkaréttarlegum toga. Eftirlit með þeim sé ekki í höndum þjóðkjörinna fulltrúa sem fari með pólitískt vald. Þá sé rannsóknarnefnd á vegum Alþingis alls ekki ætlað að sinna sakamálarannsókn eða ígildi slíkrar rannsóknar. Tilgangur laga nr. 68/2011 sé ekki að búa til úrræði til að rannsaka mál sem séu fyrnd að lögum.

         Varnaraðili byggir einnig á því að sú málsmeðferð sem honum sé boðið upp á standist ekki meginreglur stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferðar. Vísar varnaraðili þar til þess að eins og sóknaraðili afmarki viðfangsefnið sé ætlunin að sniðganga þá vernd sem einstaklingar njóti samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011. Í hnotskurn telur varnaraðili réttarstöðu sína vera með þeim hætti að á honum hvíli vitnaskylda þó að rannsóknin lúti að þátttöku hans sjálfs í viðskiptunum. Hann eigi þess hins vegar ekki kost að velja sér aðstoðarmann samkvæmt lögum nr. 68/2011. Þá eigi hann engan aðgang að gögnum og hafi engin gögn séð. Hann eigi heldur ekki rétt á því að tjá sig um efni fyrirhugaðrar skýrslu jafnvel þó að fjallað verði um háttsemi hans í skýrslunni. Þá sé málskotsréttur hans ekki tryggður í lögum, auk þess sem rannsakandi beri sjálfur takmarkaða ábyrgð ólíkt því sem gildi t.d. um dómara. Varnaraðili telur þessa réttarstöðu sína vera á skjön við nútímahugmyndir um réttarríki, stjórnsýslu og réttarfar. Þátttaka varnaraðila í málsmeðferð fyrir rannsóknarnefnd, eins og viðfangsefni hennar hafi verið lýst af henni sjálfri, geti ekki falist í öðru en að verða við kröfu hennar um að afhenda gögn og svara spurningum, án þess þó að hann teljist hlutlaust eða óaðfinnanlegt vitni. Væri hann þá í raun að vitna í máli sem snúi að honum sjálfum án þess að njóta grundvallarréttinda.

         Af hálfu sóknaraðila er talið að með framangreindum röksemdum varnaraðila sé verið að gera einfaldan hlut flókinn. Hann leggur áherslu á að með rannsókninni sé einungis ætlunin að upplýsa málsatvik, en ekki sé verið að eltast við lagalega ábyrgð. Öfugt við það þegar stofnað sé til sakamálarannsóknar ljúki þessari rannsókn ekki með því að afstaða verði tekin til ábyrgðar. Sóknaraðili hafnar því enn fremur að farið sé á svig við nútímahugmyndir um réttarríkið með umræddri rannsókn. Það sé alþekkt að stofnað sé til rannsóknar af þessu tagi og hafi löggjafarþingið svigrúm til þess að álykta á þann veg. Sóknaraðili hafnar því enn fremur að réttarstaða varnaraðila sé ekki tryggð. Vísar hann í því sambandi til 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011. Þá bendir sóknaraðili á að Alþingi hafi með samþykkt ályktunarinnar lýst afstöðu sinni til túlkunar laga nr. 68/2011 sem gangi þvert á skilning varnaraðila á þeim.

 

III

         Krafa sóknaraðila um að varnaraðili gefi skýrslu fyrir dómi er reist á 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Á þessum grunni hefur varnaraðili verið kvaddur til að mæta fyrir dóminn í því skyni að gefa skýrslu í tilefni af beiðni sóknaraðila. Varnaraðili hefur orðið við því að mæta fyrir dóminn en mótmælir því að honum verði gert að gefa skýrslu í málinu að beiðni sóknaraðila. Með vísan til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, á varnaraðili rétt á því að fá skorið úr um skyldu sína í því efni fyrir dómi.

         Eins og rakið hefur verið dregur varnaraðili í efa að lagaheimild hafi staðið til þess af hálfu Alþingis að ýta úr vör rannsókn á framgöngu einkaaðila í viðskiptum með hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Þá kveður hann réttarstöðu sína við þá rannsókn sem sóknaraðila hafi verið falið að annast vera óviðunandi eins og hann hefur fært nánari rök fyrir.

         Við úrlausn á fyrra atriðinu verður að hafa í huga að samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá og öðrum lögum fara með framkvæmdarvaldið, en dómendur með dómsvaldið. Eins og segir í 14. gr. stjórnarskrárinnar ber ráðherra ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Þessa ábyrgð ber hann gagnvart Alþingi, hvort sem hún er reist á þingræðislegum grunni eða lagalegum. Til þess að þingið geti axlað hlutverk sitt að þessu leyti verður það að hafa aðgang að ráðherra og eftirlit með stjórnarframkvæmdinni. Í grunninn byggist eftirlitshlutverk Alþingis á þessari forsendu og því beinist þingeftirlit fyrst og fremst að ráðherra. Þar sem ráðherra fer almennt með yfirstjórn þeirra málefna sem honum hafa verið falin með skiptingu starfa með ráðherrum, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar og  1., 2., 3. og 4. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, nær eftirlitshlutverk Alþingis almennt einnig til annarra stjórnvalda ríkisins. Það fellur hins vegar utan stjórnskipunarlegs hlutverks Alþingis að hafa beint eftirlit með borgurum landsins. Krefjist almannahagsmunir að slíkt eftirlit sé haft með framgöngu einstaklinga, t.d. í viðskiptum, verður löggjafinn að mæla fyrir um það með almennri löggjöf.

         Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, eru slíkar nefndir skipaðar „til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning“. Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á þessum grunni er gerð að undangengnu mati þingnefndar á tilefni og grundvelli rannsóknar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þar á jafnframt að leggja mat á mögulegt umfang rannsóknarinnar og afmörkun. Í greininni er sérstaklega kveðið á um að meta skuli hvort önnur úrræði en skipun rannsóknarnefndar séu tiltæk.

         Í frumvarpi því er varð að fyrrgreindum lögum nr. 68/2011 var að auki við það miðað að mál sem tekið yrði til rannsóknar tengdist meðferð opinbers valds. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins var tilgangur þessa áskilnaðar að árétta „að rannsóknarnefnd megi ekki skipa til athugunar á máli sem varðar einkaréttarlega hagsmuni nema þeir tengist með einhverjum hætti meðferð opinbers valds“. Þar er einnig tekið fram að „hér sé sett inn í frumvarpstextann skilyrði sem hefur verið talið felast í því í norskum og dönskum rétti, að mál varði almannahagsmuni eða hafi almenna þýðingu“.

         Að tillögu allsherjarnefndar var framangreint skilyrði um að rannsókn tengdist meðferð opinbers valds fellt brott úr frumvarpinu. Ástæða þeirrar breytingar var að þessi áskilnaður þótti vera til þess fallinn að þrengja gildissvið laganna, eins og fram kemur í framhaldsnefndaráliti allsherjarnefndar. Kynni orðalagið þannig að valda ágreiningi um það hvort „starfsemi á vegum opinberra aðila feli í sér meðferð opinbers valds“ og var þar vísað til starfsemi opinberra hlutafélaga og ýmiss konar þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera. Kemur þar fram að þess háttar starfsemi feli „ekki nauðsynlega í sér valdbeitingu eða meðferð opinbers valds, eins og það hefur verið afmarkað í íslenskri réttarframkvæmd, og myndi því ekki falla undir gildissvið laganna“. Því næst segir orðrétt: „Enginn vafi er hins vegar á að sú starfsemi sem hér er nefnd gæti talist hafa þýðingu fyrir það mikilvæga viðfangsefni Alþingis að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Samkvæmt þessu yrði því nokkur hætta á að heimild til að skipa rannsóknarnefnd yrði sniðin þrengri stakkur en rök standa til.“

         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber að leggja þá merkingu í þann áskilnað 1. mgr. 1. gr. laga nr. 68/2011, að rannsókn lúti að mikilvægu málefni sem varði almenning, að málefnið tengist jafnframt stjórnarframkvæmdinni. Fær sú túlkun stoð í framangreindum lögskýringargögnum, sem og þeirri almennu meginreglu sem leidd verður af stjórnarskrá að þingeftirlit beinist að handhöfum framkvæmdarvalds. Það útilokar ekki að aðgerðir og framganga borgaranna og einkaréttarlegra lögaðila sæti athugun rannsóknarnefndar í tengslum við rannsókn á stjórnarframkvæmdinni. Hins vegar má á það fallast að rannsókn, sem einskorðast við framgöngu einstaklinga í tilteknum viðskiptum, eigi almennt ekki undir lög nr. 68/2011.

         Í þingsályktuninni sem liggur til grundvallar rannsókn sóknaraðila segir að hún beinist að „þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands“. Var rannsakanda nánar tiltekið falið að draga saman og búa til til birtingar „upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess“. Samkvæmt þessari afmörkun verður ekki séð að rannsóknin beinist að framgöngu starfsmanna ríkisins og annarra handhafa framkvæmdarvalds við sölu bankans. Þvert á móti virðist tilgangur hennar fremur að upplýsa hlut þýska bankans í kaupunum og aðkomu þeirra sem veitt höfðu seljanda, íslenska ríkinu, upplýsingar um þátttöku erlends banka í aðdraganda sölunnar.

         Eftir sem áður leikur enginn vafi á því að ráðstöfun íslenska ríkisins á stórum eignarhluta sínum í viðskiptabanka er mikilvægt mál er varðar almenning og tengist stjórnarframkvæmdinni. Almenn þýðing málsins sem hér um ræðir snýr meðal annars að því hvaða lærdóm íslenska ríkið megi draga af sölu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003. Í því efni má m.a. vísa til greinargerðar með þingsályktunartillögunni sem liggur til grundvallar rannsókn sóknaraðila, en þar segir eftirfarandi: „Hér þarf líka að hafa í huga að mikilvægi rannsóknarinnar felst ekki síst í því að leiða í ljós úrræði stjórnvalda, sem annast sölu á eignum ríkisins, til þess að ganga úr skugga um hvaða aðilar standi í raun að baki þeim sem lýst hafa áhuga sínum á að eignast slíkar eignir eða fjármagna kaupin.“ Í greinargerð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er jafnframt lögð áhersla á að leitt yrði í ljós hverjir hefðu verið „möguleikar stjórnvalda eða Ríkisendurskoðunar til þess að átta sig á raunverulegum þætti þýska bankans í kaupunum á grundvelli þeirra upplýsinga sem þessum aðilum voru veittar og þeir öfluðu“.

         Þá er til þess að líta að fjallað hefur verið um sölu bankans af eftirlitsaðilum á vegum Alþingis og af þinginu sjálfu, þar sem meðal annars hefur verið vikið að hlut [...] í kaupunum og mikilvægi þess hverjir stóðu að baki því félagi. Má þar meðal annars vísa til umfjöllunar í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja 1998 til 2003 og síðari umfjöllunar Ríkisendurskoðunar um þetta atriði, umfjöllunar í fyrsta bindi skýrslu rannsóknarnefnda Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og ályktun þingmannanefndar um þá skýrslu. Með þeirri rannsókn sem hleypt var af stokkunum með ályktun Alþingis 2. júní sl. var þráðurinn tekinn upp að nýju, í ljósi ábendingar frá umboðsmanni Alþingis til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, og kastljósinu beint að atriði í viðskiptunum sem virðist fram til þessa hafa verið talið óljóst. Verður mati Alþingis á nauðsyn frekari rannsóknar á þessum þætti viðskiptanna ekki hnekkt. Þá er heldur ekki tilefni til að hnekkja þeirri afstöðu þingsins að rannsókninni skuli hagað með þeim hætti að skipa einn mann til að stýra henni á grundvelli laga nr. 68/2011.

         Af framangreindu leiðir að ekkert tilefni er til þess að draga í efa heimild sóknaraðila til þess að rannsaka, á grundvelli laga nr. 68/2011, þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Í ljósi þess ágreinings sem uppi er verður eftir sem áður að taka til sérstakrar skoðunar hvort varnaraðila verði gegn vilja sínum gert að gefa skýrslu fyrir dómi um þetta viðfangsefni.

         Samkvæmt því sem fram hefur komið var varnaraðili stjórnarformaður [...] sem var stærsti einstaki kaupandi eignarhluta íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Við undirritun kaupsamnings um söluna 16. janúar 2003 mun hafa verið upplýst að þýski bankinn væri eigandi 50% hlutafjár í [...]. Af gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn virðast efasemdir um að það sé sannleikanum samkvæmt hafa verið tilefni þess að rannsókninni var ýtt úr vör. Varnaraðili hefur lýst þeirri skoðun sinni að rannsóknin feli í sér ígildi sakamálarannsóknar á hendur honum vegna ætlaðra lögbrota sem þó teljast fyrnd og geta því ekki leitt til refsiábyrgðar. Það má til sanns vegar færa í ljósi stöðu varnaraðila við kaupin á sínum tíma og með hliðsjón af því hvernig rannsóknarefnið er afmarkað í ályktun Alþingis.

         Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 getur rannsóknarnefnd kallað einstaklinga til skýrslugjafar og skulu þeir þá segja satt og rétt frá fyrir nefndinni. Engum er hins vegar skylt að verða við beiðni rannsóknarnefndar um að gefa skýrslu fyrir henni. Verði viðkomandi ekki við slíkri beiðni getur rannsóknarnefnd aftur á móti krafist þess að héraðsdómari kveðji hann fyrir dóm „til að bera vitni“ telji nefndin það nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Um kvaðningu og skýrslugjöf fyrir dómi gilda þá reglur laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Í ljósi orðalags ákvæðins verður að líta svo á að þar sé vísað til fyrirmæla laga nr. 88/2008 um kvaðningu og skýrslugjöf vitna fyrir dómi, sbr. einkum kafla XVIII í lögunum. Í þeim kafla er m.a. fjallað um vitnaskyldu í 116. gr., með undantekningum sem koma fram í 117. gr. laganna, og ábendingu dómara til vitnis um skyldu þess til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan, sem og um þá refsi- og siðferðisábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði, sbr. 1. mgr. 122. gr. laganna. 

         Þegar litið er til þess sem að framan greinir um viðfangsefni rannsóknarinnar, stöðu varnaraðila við kaupin á Búnaðarbanka Íslands hf. og afstöðu hans til beiðni sóknaraðila um að hann gefi skýrslu fyrir dómi, verður að draga þá ályktun að verði á hana fallist sé varnaraðila í raun gert að vitna gegn sjálfum sér í máli sem getur valdið honum alvarlegum mannorðshnekki. Telur dómurinn að við þessar aðstæður geti honum ekki verið skylt, gegn vilja sínum, að gefa skýrslu sem vitni með þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgir að lögum. Þar sem tilefni rannsóknarinnar beinist í raun að framgöngu varnaraðila í viðskiptunum telur dómurinn að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 og 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 megni ekki að tryggja honum þá réttarvernd sem felst í meginreglunni um þagnarrétt, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Í þessu ljósi verður að játa varnaraðila heimild til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi í málinu. Þar sem hann hefur þegar mótmælt því að skýrslutaka yfir honum fari fram verður kröfu sóknaraðila þess efnis hafnað eins og úr úrskurðarorði greinir.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, rannsóknarefndar Alþingis, um að varnaraðili, A, gefi vitnaskýrslu fyrir dómi.