Hæstiréttur íslands

Mál nr. 722/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 5. desember 2013.

Nr. 722/2013.

Brynjar Ragnarsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf. og

(enginn)

Íbúðalánasjóði

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B vegna nauðungarsölu var vísað frá dómi með vísan til þess að sá tímafrestur sem fram kæmi í 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, hefði verið liðinn.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2013, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum vegna nauðungarsölu, sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 1. mars 2013 á fasteign sóknaraðila að Vesturvangi 8 þar í bæ var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess „aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og til vara að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að dómkröfur sóknaraðila í héraði verði teknar til efnislegrar úrlausnar.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.  

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili ekki viðstaddur uppkvaðningu hins kærðar úrskurðar en honum mun hafa borist úrskurðurinn 25. október 2013. Kæra barst því héraðsdómi innan kærufrests.

Um kröfu sína vísar sóknaraðili til 80. gr. laga nr. 90/1991. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var liðinn sá tímafrestur sem í ákvæðinu greinir er sóknaraðili leitaði í máli þessu úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu sem fram fór 1. mars 2013 á umræddri fasteign. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2013.

                Með bréfi, dags. 25. september 2013, sem móttekið var 27. september s.á., leitar sóknaraðili, Brynjar Ragnarsson, kt. [...], úrlausnar héraðsdómara vegna nauðungarsölu sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði hinn 1. mars 2013, á fasteign að Vesturvangi 8, 0101, með fasteignanúmerið 208-0492.

                Sóknaraðili leggur þetta mál nú fyrir héraðsdóm öðru sinni, eftir að fyrra máli hans hafði verið vísað frá dómi. Nánar tiltekið var hinn 28. mars 2013 móttekið í Héraðsdómi Reykjaness bréf sóknaraðila sem bar yfirskriftina: „Stefnuviðauki-árétting“. Í bréfinu var vísað til nauðungarsölu nr. 036-2012-0398 á fasteigninni að Vesturvangi 8 í Hafnarfirði, sem fram hafi farið á eigninni sjálfri föstudaginn 1. mars 2013. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 24. maí 2013, í máli nr. Z-1/2013, var málinu vísað frá dómi skv. 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, þar sem tilkynning sóknaraðila uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti hann hinn 30. ágúst 2013, með dómi í máli nr. 410/2013.

                Málshöfðunarfrestur samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem er fjórar vikur, er löngu liðinn og er hvorki í XIII. kafla né XIV. kafla laganna sérstök heimild til að bera mál öðru sinni undir héraðsdóm eftir að upphaflegu máli um sama sakarefni hefur verið vísað frá dómi. Samkvæmt þessu og með vísan til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 400/2008 og 401/2008 verður máli þessu vísað frá dómi án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.