Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2003


Lykilorð

  • Víxill
  • Auðgunarkrafa
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 249/2003.

Sparisjóður Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Víxill. Auðgunarkrafa. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.

Víxilréttur samkvæmt víxli sem S hafði undir höndum fyrntist á hendur útgefandanum A og ábekingi. Bú samþykkjanda víxilsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta áður en víxilkrafan fyrntist á hendur útgefandanum. S stefndi A til greiðslu skuldarinnar á grundvelli bótareglu 74. gr. víxlillaga nr. 93/1933 og reisti kröfur sínar á því að A hefði auðgast á kostnað S. Lögskiptum sem að baki víxilkröfunni lágu var að engu lýst í stefnu og sáralítið var bætt úr þessu undir rekstri málsins. Þá var málatilbúnaður S varðandi aðild sína að málinu óljós. Sökum vanreifunar varð ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál  þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2003. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 32.696.058 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. apríl 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 10. október 2002. Er því lýst í stefnu að skuld sú, sem krafið sé um greiðslu á í málinu, sé upphaflega samkvæmt víxli útgefnum 3. október 2000 af stefnda, samþykktum til greiðslu í Sparisjóði Hafnarfjarðar af Aðalbirni Jóakimssyni pr. pr. Útgerðarfélagið Marína ehf. 3. apríl 2001 og ábektum af útgefanda og Aðalbirni Jóakimssyni. Á gjalddaga víxilsins hafi annar víxill verið afhentur, sem ætlaður var til framlengingar og greiðslu á fyrri víxlinum. Sá víxill hafi reynst ógildur og því ónýtur sem greiðsla á hinum fyrri. Víxilréttur samkvæmt eldri víxlinum hafi hins vegar fyrnst á hendur útgefanda og ábekingi og bú samþykkjanda hans, Útgerðarfélagsins Marínu ehf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 16. janúar 2002. Víxilhafi eigi því ekki annan kost en að stefna útgefanda víxilsins, stefnda hér fyrir réttinum, til greiðslu skuldarinnar á grundvelli bótareglu 74. gr. víxillaga nr. 93/1933. Reisir hann dómkröfur sínar á því að þar sem bú samþykkjanda víxilsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta áður en víxilrétturinn féll niður á hendur stefnda hafi hann auðgast á kostnað áfrýjanda sem víxilhafa í skilningi 74. gr. víxillaga.

Enda þótt krafa áfrýjanda sé samkvæmt framansögðu reist á bótareglu 74. gr. víxillaga var þeim lögskiptum, sem að baki víxlilkröfunni lágu, að engu lýst í stefnu. Hefur sáralítið verið úr því bætt undir rekstri málsins. Er það því að þessu leyti vanreifað af hálfu áfrýjanda.

Eins og að framan er rakið lagði áfrýjandi þann málsgrundvöll í stefnu að hann ætti sem víxilhafi kröfu á bótum samkvæmt auðgunarreglu 74. gr. víxillaga. Var þess þar í engu getið að hann hefði haft víxilinn að handveði þegar víxilkrafa á hendur útgefanda fyrntist. Í þinghaldi í héraði 10. febrúar 2003 lagði hann hins vegar fram „lánssamning með handveði“ 2. maí 2000 þar sem Aðalbjörn Jóakimsson, sem var ábekingur á fyrrgreindum víxli, setti áfrýjanda að handveði til tryggingar láni í erlendri mynt „allar eignir“ sínar á tilteknum fjárvörslureikningi. Skyldu „breytingar á eignum“ á fjárvörslureikningnum einnig standa að handveði til tryggingar skuldinni. Yfirlit yfir stöðu fjárvörslureikningsins, sem tilgreint var sem fylgiskjal með samningnum, hefur hins vegar ekki verið lagt fram í málinu. Í sama þinghaldi lagði áfrýjandi fram tilkynningu til Aðalbjörns Jóakimssonar 19. september 2002 þess efnis að hann hafi ákveðið að „leysa til sín“ fyrrgreindan víxil, sem settur hafi verið áfrýjanda að handveði samkvæmt framangreindum samningi. Var á grundvelli þessara gagna við það miðað í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafi ekki verið eigandi víxilsins er hann gjaldféll heldur haft hann að handveði. Verður greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar ekki skilin öðru vísi en svo að hann reisi kröfu sína á þeim grunni. Við munnlegan málflutning fyrir réttinum hélt áfrýjandi því hins vegar fram að Aðalbjörn Jóakimsson hefði framselt víxilinn til sín með eyðuframsali áður en víxilkrafan á hendur stefnda fyrntist og hann hafi því verið eigandi hans í skilningi 74. gr víxillaga. Teldist það ósannað, hélt hann því fram til vara að hann hefði haft víxilinn að handveði á þeim tíma, en að innlausn víxilsins samkvæmt tilkynningunni 19. september 2002 mætti jafna til framsals á auðgunarkröfu á grundvelli víxilsins samkvæmt 74. gr víxillaga. Skortir verulega á að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um hvort og með hvaða hætti umræddur víxill hafi verið settur að handveði samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi sem og hver staða þess láns er. Samkvæmt framansögðu er málatilbúnaður áfrýjanda einnig að þessu leyti óljós og misvísandi.

Þegar af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 8. maí 2003.

Mál þetta, sem var dómtekið 13. mars sl., höfðaði Sparisjóður Hafnarfjarðar hinn 10. október sl. gegn Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni, Lyngholti 5, Ísafirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 32.696.058 krónur, með dráttarvöxtum frá 3. apríl 2001 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Hinn 3. október 2000 gaf stefndi út víxil með ofangreindri fjárhæð.  Aðalbjörn Jóakimsson samþykkti hann til greiðslu fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf.  Átti að greiða hann hjá stefnanda 3. apríl 2001, án undangenginnar afsagnar.  Stefndi og síðan Aðalbjörn framseldu víxilinn eyðuframsali. 

Á gjalddaga víxilsins var afhentur annar víxill með sömu fjárhæð, með gjalddaga 3. október 2001.  Segir í stefnu að hann hafi verið með sömu víxilskuldurum og ætlaður til framlengingar og greiðslu þeim fyrri og við honum tekið sem slíkum.  Nafn stefnda sem útgefanda var vélritað á þennan nýja víxil, en stefndi hafði ekki gefið hann út með því að rita nafn sitt á hann.  Stefndi tók til varna í dómsmáli sem höfðað var til heimtu þessa víxils. Segir stefnandi að víxillinn hafi reynst ónýtur og ógildur sem greiðsla á fyrri víxli og hafi sá víxill því í raun verið í fullu gildi.  Víxilréttur samkvæmt honum hafi fyrnst gagnvart öðrum en samþykkjanda hinn 3. apríl 2002 og bú samþykkjandans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 16. janúar 2002.  Höfðar stefnandi þetta mál á grundvelli bótareglu 74. gr. víxillaga nr. 93/1933.  Byggir hann á því að samþykkjandinn hafi verið orðinn gjaldþrota áður en víxilréttur féll niður á hendur stefnda.  Stefndi hefði því orðið að bera tjón af því að verða að greiða víxilinn, án þess að geta endurkrafið samþykkjandann, ef víxilrétturinn hefði ekki fallið niður á hendur honum.  Hann teljist því hafa auðgast á kostnað stefnanda sem víxilhafa í skilningi 74. gr. víxillaga.

II.

Stefndi telur ósannað að stefnandi sé víxilhafi og eigi hann ekki aðild að málinu. Eigi því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda.  Þá sé ósannað að stefnandi myndi verða fyrir tjóni ef fjárheimtan félli niður.  Bendi gögn málsins til þess að framseljandi víxilsins, Aðalbjörn Jóakimsson, beri ábyrgð á því gagnvart stefnanda að hugsanleg víxilfjárhæð greiðist.  Hafi víxillinn verið settur til tryggingar fyrir öðrum skuldbindingum Aðalbjörns við stefnanda verði ekki tjón í þessum skilningi fyrr en reynt hafi á allar aðrar tryggingar og sýnt sé fram á ógjaldfærni Aðalbjörns.  Eins og stefnandi leggi málið fyrir sé þetta algerlega óupplýst og beri því að sýkna stefnda einnig af þessari ástæðu.  Þá færir stefndi fram til stuðnings sýknukröfunni að auðgunarkröfu samkvæmt 74. gr. víxillaga verði eingöngu beint að þeim sem hafi hagnast af því að fjárheimtan féll niður.  Stefnandi virðist byggja á því að allir víxilskuldarar hagnist í þessum skilningi, en ekki beri að skýra ákvæðið á þann veg.  Sá hagnist sem njóti góðs af því að víxillinn varð til, þ.e. fékk einhver verðmæti í hendur gegn samþykki víxils eða framsali á honum.  Þurfi því að skoða lögskiptin að baki útgáfu víxilsins og innbyrðis réttarsamband skuldaranna.  Sá sem hagnist í þessum skilningi sé sá sem enga endurkröfu geti gert á hendur öðrum víxilskuldurum ef hann þurfi að greiða víxilkröfu.  Þurfi röð nafna á víxlinum ekki að gilda þar óbreytt.

Enn er á því byggt af hálfu stefnda að með móttöku framlengingarvíxils hafi fallið niður réttur samkvæmt þeim víxli sem byggt sé á í þessu máli.  Hafi víxilkrafan því verið greidd þegar víxilrétturinn fyrndist og því eigi 74. gr. víxillaga ekki við.  Þá kveðst stefndi benda á að meint tjón stefnanda hafi orðið vegna vanrækslu starfsmanna hans og verði hann að bera það sjálfur.  Einnig er mótmælt tölulegri kröfugerð og vaxtakröfum.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á raunverulegt tjón og umfang þess.

III.

Um atvik að baki því að víxillinn var gefinn út liggur ekki annað fyrir í málinu en það að samkvæmt upplýsingum í rafpósti frá 30. júlí 2002, sem virðist stafa frá starfsmanni stefnanda, keypti Aðalbjörn Jóakimsson víxil af Útgerðar­félaginu Marínu ehf. á árinu 1998.  Var hann samþykktur af því félagi, gefinn út af stefnda og með Aðalbjörn sem ábyrgðarmann.  Fjárvangur sá um að kaupa víxilinn fyrir hönd Aðalbjörns og greiddi andvirðið af fjárvörslureikningi hans.  Víxillinn var alltaf framlengdur á þriggja til sex mánaða fresti.  Sá starfsfólk Fjárvangs og síðar SPH um að reikna út vexti og fylla út víxileyðublöð.  Við hverja framlengingu var ávallt gefinn út nýr víxill, samþykktur af Útg. Marínu ehf., gefinn út af stefnda og með Aðalbjörn sem ábyrgðarmann. 

Í málinu hefur verið lagður fram lánssamningur með handveði, dagsettur 2. maí 2000, þar sem Aðalbjörn Jóakimsson viðurkennir að skulda stefnanda nánar greindar fjárhæðir, sem skyldi greiða ásamt tilteknum vöxtum 3. nóvember 2000.  Til tryggingar fullnustu voru settar að veði allar eignir á tilgreindum fjárvörslureikningi.  Með bréfi 19. september 2002 tilkynnti stefnandi Aðalbirni að hann hefði ákveðið að leysa til sín ofangreindan víxil, útgefinn af stefnanda 3. október 2000, sem hefði verið settur að handveði með framangreindum láns­samn­ingi.  Yrði víxillinn innheimtur hjá útgefanda hans á grundvelli 74. gr. víxillaga, þar sem samþykkjandi hans væri gjaldþrota frá 16. janúar 2002 og andvirði hans, bæri innheimtan árangur, varið til greiðslu inn á framangreindan lánssamning.

Samkvæmt ofansögðu var stefnandi ekki raunverulegur eigandi víxilsins er hann gjaldféll 3. apríl 2001, heldur Aðalbjörn Jóakimsson, en stefnandi hafði hann að handveði samkvæmt nefndum samningi. 

Samkvæmt 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 er eiganda víxils rétt að sækja víxilskuldara um þá fjárhæð sem hann myndi vinna honum úr hendi ef fjárheimtan félli niður, sem um hverja aðra skuld.  Eins og málið liggur fyrir verður ekki fallist á að stefndi hafi unnið víxilfjárhæðina úr hendi stefnanda vegna þess að fjárheimtan féll niður, þar sem ljóst er af ofansögðu að hugsanlegt tjón af því lendir á nefndum Aðalbirni.  Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsuppsaga hefur dregist umfram þann tíma sem kveðið er á um í 115. gr. laga nr. 91/1991.  Lögmenn aðila hafa lýst því yfir skriflega að þeir álíti óþarft að flytja málið á ný.

Dómsorð:

Stefndi, Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, í þessu máli.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.