Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2005
Lykilorð
- Stjórnsýsla
- Gjaldtaka
- Endurgreiðsla
- Landbúnaður
|
|
Fimmtudaginn 27. október 2005. |
|
Nr. 213/2005. |
Íslenska ríkið(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) gegn Sléttusvíni ehf. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Stjórnsýsla. Gjaldtaka. Endurgreiðsla. Landbúnaður.
Árið 2001 greindist salmónella í saursýnum, sem tekin voru á svínabúi, sem S ehf. rekur. Til að ganga úr skugga um hvort kjöt svína frá búinu hefðu smitast af salmónellu við slátrun voru tekin stroksýni af kjötinu og þau rannsökuð með svokölluðu tecra-prófi. Ágreiningur reis milli S ehf. og Í hvort kostnaður af þessum sýnatökum og rannsóknum ætti að greiðast af S ehf. eða úr sérstökum sjóði samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, þar sem kveðið sé á um landbúnaðarráðherra innheimti gjald af sláturleyfishöfum til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum. Á það var fallist að kostnaður, sem hafði hlotist af sýnatökunni og rannsóknunum, félli undir umrætt ákvæði, svo og undir b. lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 708/1996, eins og það ákvæði hljóðaði á þeim tíma sem kostnaðurinn féll til. Var Í því gert að endurgreiða S ehf. þann kostnað, sem félagið hafði þurft að standa undir vegna rannsóknanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. maí 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var skaðabótakröfu stefnda að fjárhæð 489.522 krónur vísað ex officio frá dómi og áfrýjandi sýknaður af skaðabótakröfu stefnda að fjárhæð 331.739 krónur. Aðilar una þeirri niðurstöðu og kemur hún ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum er ekki gerður greinarmunur á greiðsluskyldu úr sérstökum sjóði samkvæmt þeirri grein eftir því hvort eftirlitsaðgerðir eru reglubundnar og beinast að öllum sláturafurðum eða hvort þær eru sértækar og beinast að afurðum frá einstökum býlum. Þá var ekki heldur gerður greinarmunur að þessu leyti, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 708/1996 um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum, sem í gildi var, þegar kostnaður sá féll til, sem um er deilt í máli þessu. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Sléttusvíni ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 25. janúar sl., höfðaði Sléttusvín ehf., [...], Sléttabóli, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árnessýslu gegn íslenska ríkinu með stefnu birtri 29. júní 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði honum kr. 1.986.267 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. júní 2004 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.
II
Stefnandi rekur svínabú og greindist salmonella þar um mitt ár 2001. Sama máli gegndi um nokkur önnur svínabú, en sýni voru tekin til rannsóknar á öllum svínabúum á landinu. Til að kanna hvort salmonella greindist í kjöti þeirra svína sem stefnandi lét slátra í sláturhúsi voru frá því á síðari hluta árs 2002 fram í janúar 2004 tekin stroksýni af kjötinu og þau rannsökuð með svokölluðu tecra-prófi. Sé niðurstaðan úr tecra-prófinu sú að kjötið sé smitað geta frekari rannsókir leitt í ljós að svo sé ekki. Kosturinn við tecra-prófið er sá að niðurstaða um það hvort smit er í kjötinu eða ekki liggur fyrir innan mjög skamms tíma og því hægt að selja kjötið ferskt sé það smitlaust. Annars þarf að sjóða kjötið til þess að það megi selja og fæst þá fyrir það lægra verð. Að öðrum kosti er kjötinu hent. Með fyrri aðferðum þurfti oft að bíða 7-10 daga eftir niðurstöðum að sögn stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að fyrir tecra-prófin eigi að greiða úr eftirlitssjóði samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum. Því hefur verið hafnað af hálfu stefnda og hefur stefnandi sjálfur orðið að greiða kostnaðinn við töku sýnanna og rannsóknir á þeim. Á árunum 2002-2004 greiddi stefnandi vegna þessa Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum og Rannsóknaþjónustunni Sýni ehf. samtals kr. 1.706.035 samkvæmt reikningum sem lagðir hafa verið fram í málinu. Stefnandi fékk styrk úr Bjargráðasjóði að fjárhæð kr. 541.029 til þess að mæta þessum kostnaði og nemur endurgreiðslukrafa hans á hendur stefnda því kr. 1.165.006. Útreikningi þessarar kröfu er ekki mótmælt af stefnda.
Stefnandi gerir einnig skaðabótakröfu á hendur stefnda og er hún tvíþætt. Stefnandi seldi Stjörnugrís ehf. svín á fæti á árinu 2002. Þegar þeim var slátrað var tekið stroksýni af kjötinu og fyrir það mun Stjörnugrís ehf. hafa greitt. Hefur stefnandi endurgreitt fyrirtækinu samtals kr. 815.870 af þessum sökum.
Það kjöt sem var smitað samkvæmt niðurstöðu tecra-rannsóknar mátti selja eftir að það hafði verið soðið, en lægra verð fékkst þá fyrir kjötið eins og fyrr greinir. Stefnandi heldur því fram að með frekari rannsóknum hefði getað komið í ljós að kjötið væri ósýkt þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu úr tecra-rannsókninni. Kjötið hafi því verðfallið vegna þess að frekari rannsóknir voru ekki gerðar á því og telur stefnandi sig hafa þar af leiðandi orðið fyrir tjóni sem nemi kr. 552.897. Frá þessum fjárhæðum, kr. 815.870 og 552.897 samanlögðum, dregur stefnandi styrk sem hann fékk frá Bjargráðasjóði að fjárhæð kr. 547.506 og nemur því skaðabótakrafa hans samtals kr. 821.261. Endurgreiðslukrafan og skaðabótakrafan nema því samanlagt stefnukröfum kr. 1.986.267.
III
A
Eins að framan greinir byggir stefnandi endurgreiðslukröfu sína á 11. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir m.a. þetta: „Þá skal heilbrigðisskoðun á öllum sláturafurðum fara fram í sláturhúsinu áður en frekari vinnsla fer fram eða þær eru afhentar til dreifingar.“ Í 2. mgr. segir m.a. eftirfarandi: „Til þess að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum skal landbúnaðarráðherra innheimta gjald af sláturleyfishöfum af öllu innvegnu kjöti í sláturhúsi sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins.“ Eftirleiðis verður sjóður þessi kallaður eftirlitssjóðurinn.
Stefnandi heldur því fram að samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum sé skylt að greiða honum kostnaðinn við tecra-rannsóknirnar. Ekki sé heimilt að ákveða að úr eftirlitssjóðnum skuli aðeins greitt fyrir sumar sýnatökur en ekki aðrar, eins og landbúnaðarráðherra hafi ákveðið.
Í gildistíð laga nr. 30/1966 um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum hafi sláturleyfishafar greitt kostnað við heilbrigðiseftirlitið beint til þeirra sem það önnuðust, sbr. og reglugerð nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum. Lögum nr. 30/1966 hafi verið breytt með lögum nr. 160/1994 og reglugerð nr. 168/1970 með reglugerð nr. 597/1994 og núverandi fyrirkomulag tekið upp, það sem sé kveðið á um í 11. gr. laga nr. 96/1997. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 160/1994 komi fram að eftirlitsaðilar heilbrigðisyfirvalda í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum hafi gert athugasemdir við það að sláturleyfishafar greiddu sjálfir eftirlitsmönnum í sláturhúsum kostnað við heilbrigðisskoðun á lifandi dýrum og sláturafurðum og mælingar á aðskotaefnum. Þessir erlendu eftirlitsaðilar hafi gert kröfu um að kostnaðurinn yrði greiddur af opinberum aðilum sem innheimti hann síðan hjá sláturleyfishöfum. Einnig komi fram að ekki myndi fást viðurkenning á sláturhúsum til útflutnings sláturafurða nema greiðslufyrirkomulaginu yrði breytt. Þetta hafi verið gert til að forðast hagsmunaárekstra og því hafi sérstakur sjóður verið settur á laggirnar. Sömu sjónarmið hafi ráðið því að þessu nýja fyrirkomulagi var haldið í lögum nr. 96/1997 eins og fram komi í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga.
Þá byggir stefnandi kröfu sína einnig á ákvæðum reglugerðar nr. 708/1996 um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum, en sú reglugerð hafi haldið gildi sínu samkvæmt ákvæði í lögum nr. 96/1997. Í b-lið 3. gr. reglugerðarinnar sé tekið fram fyrir hvaða þætti heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum eigi að greiða úr eftirlitssjóðnum og hverja ekki. Þar segi að greiða eigi kostnað við töku sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra. Frá þessu sé engin undantekning gerð. Samkvæmt c-lið sömu greinar eigi og að greiða fyrir rannsóknir á sýnum vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnum í sláturafurðum.
Þá bendir stefnandi á ákvæði í 6. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, eins og henni var breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 597/1994, en þar sé sagt m.a. að kostnað vegna mælinga á aðskotaefnum í sláturafurðum skuli greiða af gjaldi sem innheimtist af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð og sé þar augljóslega um að ræða gjaldið sem renni í eftirlitssjóðinn.
Stefnandi vísar einnig til reglugerðar nr. 461/2003 um slátrun og meðferð sláturafurða en þar segi í niðurlagi 13. gr. að þóknun fyrir heilbrigðisskoðun skuli greidd úr eftirlitssjóði landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997.
Stefnandi telur þannig ljóst að eftirlitssjóðnum sé ekki einungis ætlað að standa straum af eftirliti með sláturhúsum heldur einnig sláturafurðum.
Stefnandi bendir á að fjárhæð gjaldsins sem runnið hafi í eftirlitssjóð landbúnaðarráðuneytisins hafi verið breytt með lögum eftir því hver kostnaður hafi reynst við eftirlitið á hverjum tíma. Komi til aukið eftirlit, eða nýjar aðferðir sem hafi aukinn kostnað í för með sér, verði eðlilega að hækka gjaldið sem honum nemi.
Allt þetta renni stoðum undir það að stefnda beri að greiða úr eftirlitssjóðnum kostnaðinn við sýnatöku af kjöti stefnanda. Enginn greinarmunur sé gerður í lögum á heilbrigðiseftirliti því sem greiða eigi fyrir úr sjóðnum og sé stefnda því lögskylt að greiða fyrir tecra-prófin. Sá skilningur sem stefndi byggi synjun sína á eigi enga stoð í lögum og sé því í andstöðu við lögmætisregluna.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að tecra-prófin hafi verið tekin upp sem valkostur fyrir svínabændur í því skyni að draga úr tjóni þeirra vegna salmonellusmits án þess að slakað væri á öryggiskröfum. Gjaldinu, sem renni í eftirlitssjóðinn, sé ætlað að standa straum af kostnaði vegna reglubundins eftirlits með sláturhúsum. Því sé hins vegar ekki ætlað að standa straum af kostnaði við sérstakar rannsóknir á einstökum lifandi sláturdýrum fyrir slátrun eða vegna verðflokkunar sláturafurða, sem sé gerð til hagsbóta fyrir seljendur afurðanna. Hér sé um að ræða sérstakt heilbrigðiseftirlit sem beinist að framleiðanda sláturafurða eða öðrum eigendum þeirra og kostnað vegna þess verði þeir sjálfir að bera.
Stefndi heldur því fram að forsaga 11. gr. laga nr. 96/1997 styðji þetta sjónarmið. Þau lög hafi leyst af hólmi lög nr. 30/1966 en í 2. mgr. 5. gr. þeirra laga svo og 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 168/1970 hafi verið kveðið á um þóknun dýralæknis við heilbrigðisskoðun sláturgripa og eftirlit með hreinlæti og þrifnaði í sláturhúsum. Hér sé um að ræða launakostnað við skoðun og eftirlit en ekki kostnað við rannsóknir eins og tecra-prófið. Sama máli gegni í lögum nr. 160/1994, sem sett hafi verið í stað laga nr. 30/1996, og reglugerð nr. 597/1994 um breyting á reglugerð nr. 168/1970. Þar sé kveðið á um að laun kjötskoðunarlækna vegna heilbrigðiseftirlits og kostnað við mælingar á aðskotaefnum eigi að greiða af gjaldinu sem renni í eftirlitssjóðinn. Kostnaðarliðunum hafi ekki verið breytt, þótt ný aðferð hafi verið tekin upp við greiðslu þeirra. Hafa beri og í huga að engar salmonellurannsóknir hafi verið gerðar á þeim tíma þegar lögin og reglugerðirnar voru settar.
Í reglugerð nr. 708/1996 um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum sé kveðið á um hverja þætti í heilbrigðiseftirliti með sláturafurðum eigi að greiða af gjaldinu. Ekki fái staðist að í b- og c-liðum 3. gr. þeirrar reglugerðar felist það að greiða skuli fyrir tecra-prófin úr eftirlitssjóðnum. Þær rannsóknir og sýnatökur sem þar greini varði eftirlit með sláturhúsinu sjálfu, s.s. sýnatökur og rannsóknir á búnaði, vatni o.fl. og sláturhóparannsóknir en ekki rannsókn á einstökum skrokkum. Undir c-liðinn falli reglubundnar mælingar á lyfjaleifum og aðskotaefnum í sláturafurðum og þá séu tekin sýni úr þvagi, fitu vöðvum og lifur. Aðeins örfá sýni af þessu tagi séu tekin árlega.
Þá bendir stefndi á að í 13. gr. reglugerðar nr. 461/2003 um slátrun og meðferð sláturafurða sé kveðið á um eftirlit kjötskoðunarlæknis og að kostnað við eftirlitið eigi að greiða úr eftirlitssjóðnum. Samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar geti yfirdýralæknir fyrirskipað rannsóknir til að tryggja öryggi afurða meðal annars samkvæmt reglugerð nr. 650/ 2001 um heilbrigðiseftirlit sláturafurða, sláturhús, kjötfrystihús, meðferð og verkun sláturafurða til Bandaríkja Noður-Ameríku. Fyrir þær rannsóknir eigi sláturleyfishafi að greiða.
B
Eins og áður er greint gerir stefnandi einnig skaðabótakröfu á hendur stefnda og er hún tvíþætt. Fyrri hluta skaðabótakröfunnar segir stefnandi vera vegna þátttöku hans í kostnaði við tecrapróf á svínum sem hann seldi Stjörnugrís hf. en það fyrirtæki greiddi. Á árinu 2002 hafi stefnandi selt Stjörnugrís ehf. 5477 grísi. Stefnandi kveðst hafa samþykkt að greiða Stjörnugrís ehf. kr. 815.870 í bætur vegna þessa. Til að mæta þessum kostnaði hafi hann fengið styrk frá Bjargráðasjóði að fjárhæð kr. 326.348, sem komi til frádráttar. Nemi því skaðabótakrafa þessi kr. 489.522.
Stefnandi byggir á því að þennan kostnað eigi stefndi að greiða úr eftirlitssjóðnum á sömu forsendum og endurgreiðslukröfu hans. Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á fjórum kreditreikningum til Stjörnugríss hf., sem eru samtals að fjárhæð kr. 815.870. Einnig kveðst stefnandi byggja þessa kröfu sína á yfirlýsingu Stjörnugríss hf. frá 21. janúar 2005 þar sem fram komi að það fyrirtæki hafi greitt kr. 3.235.826 fyrir tecrasýni á árinu 2002 vegna svína sem keypt hafi verið m.a. á fæti frá stefnanda og hafi hann samþykkt að taka þátt í kostnaðinum með greiðslu á kr. 815.870. Þá hefur stefnandi lagt fram hreyfingarlista til stuðnings þessari skaðabótakröfu. Þá heldur stefnandi því fram að styrkurinn frá Bjargráðasjóði feli í sér viðurkenningu á því að stefnandi eigi rétt á skaðabótum.
Af hálfu stefnda er skaðabótakröfunni mótmælt á sömu forsendum og endurgreiðslukröfunni. Stefndi heldur því einnig fram að enginn grundvöllur sé fyrir því að greiða skaðabætur af þessu tagi. Greiðsla stefnanda byggist á samkomulagi hans við Stjörnugrís ehf. og sé krafan bæði vanreifuð og ósönnuð. Ekki komi t.d. fram í yfirlýsingu Stjörnugríss ehf. hve mikið fyrirtækið hafi greitt fyrir tecrapróf vegna svína sem það hafi keypt af stefnanda. Kröfunni sé því alfarið hafnað.
C
Síðari hluti skaðabótakröfu stefnanda er vegna þess að hann telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar kjöt af sláturgripum hans var verðfellt eða því hent þegar í ljós kom með tecra-prófun að það var smitað af salmonellu. Stefnandi heldur því fram að kjötskoðunarlæknar á vegum stefnda hafi mælt fyrir um þetta án þess að láta frekari rannsóknir fara fram, sem hefðu getað leitt í ljós að kjötið væri ósýkt af salmonellu.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á fimm reikningum sem sýni að verðfelling á kjöti, og kostnaður vegna kjöts sem hent var, nemi samtals kr. 552.897. Bætur úr Bjargráðasjóði vegna þessa, kr. 221.158, komi á móti þessu tjóni og því nemi það kr. 331.739.
Stefndi hafnar þessari skaðabótakröfu og heldur því fram sem fyrr að tecra-prófun hafi verið notuð að ósk svínabænda og að kjötið yrði verðmetið á grundvelli hennar. Framhaldsrannsóknir hefðu tekið a.m.k. fimm daga og því sjálfgefið að eftir það hefði ekki verið hægt að selja kjötið ferskt auk þess sem hver ein framhaldsrannsókn hefði kostað kr. 10.000. Stefnandi hafi ekki óskað eftir framhaldsrannsóknum og hér sé engu saknæmu né ólögmætu athæfi stefnda til að dreifa sem stefnandi geti byggt skaðabótakröfu á.
IV
A
Þegar sú löggjöf var sett sem stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á var ekki til að dreifa rannsóknum á sláturafurðum með tecra-prófum. Álitaefnið, að því er endurgreiðslukröfu stefnanda varðar, er því fyrst og fremst það hvort kostnaður sem þessum prófunum fylgir eigi engu að síður að greiðast úr eftirlitssjóðnum með sama hætti og sá kostnaður sem lög og reglugerðir þar að lútandi kveða á um að skuli greiddur úr sjóðnum.
Eins og að framan er rakið var í 5. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, gert ráð fyrir heilbrigðisskoðun á öllum sláturfénaði sem lögin náðu til fyrir slátrun og eins á öllu kjöti og slátri af sláturfénaðinum í sláturhúsinu sjálfu áður en verkun þess fyrir sölu á opinberum markaði fór fram. Í reglugerð nr. 168/1970, um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, var síðan kveðið nánar á um það hvernig þessu eftirliti skyldi háttað. Lögum nr. 30/1966 var breytt með lögum nr. 160/1994 og eftirlitssjóðnum komið á fót. Í breytingalögunum var jafnframt ákveðið að gjaldið skyldi innheimt af hverju kílói kjöts og að nánari ákvæði um framkvæmd á innheimtu þess skyldi sett í reglugerð. Aðrar breytingar á lögunum voru ekki gerðar í það skiptið.
Í 11. gr. gildandi laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, er lagaákvæðið um heilbrigðisskoðun efnislega óbreytt, að öðru leyti en því að sú breyting er gerð að heilbrigðisskoðun þarf ekki að fara fram fylgi sláturgrip í sláturhús upplýsingar um eldi, heilbrigði og lyfjagjöf samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur.
Ákvæði framangreindra laga og reglugerða eru almennt orðuð en þau verður þó að skilja svo að fyrst og fremst sé kveðið á um almenna, reglubundna heilbrigðisskoðun á öllum fénaði sem slátrað er í sláturhúsum, og sláturafurðum af þeim fénaði, og nái því efni sínu samkvæmt jafnt til salmonellusmits sem annars smits sem kann að vera í sláturafurðum.
Í 1. gr. laga nr. 160/1994 um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum segir eftirfarandi:
„Til þess að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit dýralækna með sláturafurðum skal landbúnaðarráðherra innheimta gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins.“
Í núgldandi lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, segir um sama efni eftirfarandi:
„Til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum skal landbúnaðarráðherra innheimta gjald af sláturleyfishöfum af öllu innvegnu kjöti í sláturhúsi sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins.“
Í reglugerð nr. 597/1994, en með henni var breytt reglugerð nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, segir m.a. þetta:
„Laun kjötskoðunarlækna, aðstoðarfólks við heilbrigðiseftirlit og kostnað vegna mælinga á aðskotaefnum í sláturafurðum skal greiða af gjaldi sem innheimt er af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð og rennur í sérstakan sjóð í vörslum yfirdýralæknis. Sláturleyfishafar skulu greiða vinnu við merkingu sláturafurða.“
Í reglugerð nr. 708/1996 um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum, sem nú er í gildi, segir eftirfarandi í 1. gr.:
„Greiða skal gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð, sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Gjaldið skal vera kr. 2,25 á hvert kíló kjöts fyrir árin 1996 og 1997 og skal gjaldið standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum. Gjaldið miðast við raunkostnað við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum.“
Í 3. gr. segir eftirfarandi:
„Gjaldið skal standa straum af eftirtöldum þáttum í heilbrigðiseftirliti sláturafurða:
a. Launum og ferðakostnaði kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólks þeirra.
b. Kostnaði við töku sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra.
c. Rannsóknum á sýnum vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnum í sláturafurðum.
d. Nauðsynlegu námsskeiðahaldi fyrir kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólk þeirra, til viðhaldsmenntunar og samræmingar eftirlits á milli afurðastöðva.
Gjaldið tekur ekki til greiðslu á fæðiskostnaði og kostnaði vegna hlífðarfatnaðar eftirlitsaðila.“
Því er ekki haldið fram að reglugerð nr. 708/1996 eigi ekki fulla stoð í lögum. Þessi ákvæði reglugerðarinnar eru til fyllingar lögum nr. 96/1997 og ákvæði c-liðar 1. mgr. 3. gr. er afdráttarlaust um það að kostnað við töku sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra eigi að greiða úr eftirlitssjóðnum, Hér er enginn greinarmunur gerður á sýnum og ekki heldur á því í hvaða tilgangi þau eru tekin eða hver úrvinnsla þeirra er. Enda þótt sýnt hafi verið fram á af hálfu stefnda að tecra-prófin hafi verið tekin upp fyrir tilstilli svínabænda og þeim bændum sérstaklega til hagsbóta, sem ráku svínabú þar sem salmonella hafði greinst, verður að fallast á það, eins og efni laga nr. 96/1997 og fortakslaust ákvæði í c-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 708/1996 eru, að stefnandi geti engu að síður byggt kröfu sína um endurgreiðslu á þeim. Samkvæmt því ber að taka endurgreiðslukröfuna, kr. 1.165.006, til greina með þeim dráttarvöxtum sem krafist er.
B
Fyrr er rakið að stefnandi kveðst hafa greitt Stjörnugrís hf. kr. 815.870 vegna tecra-prófa sem það fyrirtæki hafi greitt. Á móti komi styrkur stefnanda úr Bjargráðasjóði að fjárhæð kr. 326.348. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér mismuninn, kr. 489.522, sem skaðabætur. Stefndi hefur mótmælt þessari kröfu sem órökstuddri og vanreifaðri.
Enda þótt fallist hafi verið á það að framan að stefnda beri að endurgreiða stefnanda kostnað sem hann greiddi sjálfur vegna tecra-rannsókna er þessi krafa stefnanda annars eðlis. Um er að ræða skaðabótakröfu sem byggð er á samningi sem stefnandi og Stjörnugrís hf. gerðu sín á milli, en stefndi kom á engan hátt að og verður að telja honum óviðkomandi. Stefnandi hefur auk kreditreikninganna lagt fram ýmis gögn sem hann segir styðja skaðabótakröfu sína. Þar á meðal er yfirlýsing frá Stjörnugrís hf. um að fyrirtækið hafi greitt ákveðna fjárhæð fyrir tecra-próf á árinu 2002 vegna svína sem keypt hafi verið af stefnanda bæði til slátrunar og eldis. Ekki er hægt að sjá af gögnum málsins hvernig þessum greiðslum var háttað en engir reikningar frá þeim er greiðslurnar fengu hafa verið lagðir fram. Þá er mikið álitamál, sem ekki hefur verið reifað í málinu, hvort eftirlitssjóðurinn eigi að standa straum af prófunum á þeim svínum sem seld voru Stjörnugrís hf. til eldis, en enginn greinarmunur virðist gerður á því í málsókninni hvort svínin voru seld til eldis eða slátrunar. Þá er óupplýst hvort Stjörnugrís ehf. á rétt til þess að fá endurgreiddan kostnað vegna tecra-prófa eða ekki. Þrátt fyrir þetta þykir ekki alveg útilokað að stefnandi geti átt einhvern bótarétt á hendur stefnda vegna framangreindra viðskipta við Stjörnugrís hf. Því þykir ekki unnt að taka sýknukröfu stefnda til greina heldur verður þessari skaðabótakröfu stefnanda vísað frá dómi ex officio.
C
Þá gerir stefnandi kröfu um skaðabætur á hendur stefnda að fjárhæð kr. 331.739 vegna þess að kjöt af svínum, sem reyndist samkvæmt niðurstöðum tecra-prófa smitað af salmonellu, hafi ýmist verið verðfellt eða því hent. Frekari prófanir hefði átt að gera sem leitt hefðu getað í ljós að kjötið væri ósmitað.
Engan veginn verður séð að sú skylda hafi hvílt á þeim sem önnuðust heilbrigðisskoðun að láta fara fram frekari rannsóknir á því kjöti sem reyndist smitað samkvæmt tecra-prófum og ekki er upplýst að stefnandi hafi gert kröfu til þess. Auk þess eru miklar líkur á því að niðurstaðan úr frekari prófum hefði orðið hin sama og úr tecra-prófunum og tjón stefnanda því óumflýjanlegt. Stefnandi hefur þannig ekki leitt sönnur að því að hann hafi beðið tjón sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi verður því sýknaður af þessari skaðabótakröfu stefnanda.
Niðurstaða dómsins, samkvæmt því sem segir að framan, er sú sem greinir í dómsorði. Málskostnaður sem stefndi greiði stefnanda þykir hæfilega ákveðinn kr. 300.000 auk virðisaukaskatts.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Skaðabótakröfu stefnanda, Sléttusvíns ehf., að fjárhæð kr. 489.522, er vísað frá dómi.
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af skaðabótakröfu stefnanda, að fjárhæð kr. 331.739.
Stefndi greiði stefnanda kr. 1.165.006 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. júní 2004 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.