Hæstiréttur íslands

Mál nr. 381/2000


Lykilorð

  • Kröfuréttindi
  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Riftun


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. mars 2001.

Nr. 381/2000.

 

Pétur Jónsson ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

 

Kröfuréttindi. Lausafjárkaup. Galli. Riftun.

P keypti víxla af L sem K hafði gefið út. Skömmu síðar fór K fram á greiðslustöðvun. Lýsti P þá yfir riftun á þeim forsendum að ólíklegt væri að þeir myndu greiðast. Hélt P því fram að söluverð víxlanna hefði verið langt yfir raunvirði þeirra á söludegi og gæti L ekki hafa dulist hvert stefndi með fjárhag K, enda hefði L verið viðskiptabanki K. L krafðist sýknu vegna aðildarskorts þar sem hann hefði aðeins haft milligöngu um viðskiptin. Ekki var fallist á það, enda hafði sú viðbára ekki komið fram fyrr en á síðari stigum málsins þrátt fyrir að fullt tilefni hefði verið til að setja hana fram fyrr, auk þess sem L hafði tekið efnislega afstöðu til kröfunnar strax í upphafi. Á hinn bóginn var ekki talið að það teldist galli á seldri kröfu í skilningi 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup að skuldari reyndist ekki fær um að greiða hana að fullu á gjalddaga. Voru skilyrði riftunar því ekki talin fyrir hendi. Þar sem áfrýjandi reisti dómkröfur sínar eingöngu á því að sér væri heimilt að rifta kaupunum en ekki á því að þau væru ógild eða að L bæri að greiða sér skaðabætur var L sýknaður af kröfum P.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2000. Hann krefst þess að viðurkennd verði heimild hans til að rifta kaupum 15. mars 1999 á tveimur víxlum með gjalddaga 3. júní 1999, hvorum að fjárhæð 5.000.000 krónur, og að stefnda verði gert að greiða sér 9.785.998 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. mars 1999 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til þess að áfrýjandi keypti 15. mars 1999 tvo víxla útgefna af Kaupfélagi Þingeyinga hjá viðskiptastofu stefnda. Gjalddagi víxlanna var 3. júní sama árs og var hvor um sig að fjárhæð 5.000.000 krónur. Kaupverð víxlanna tók mið af kröfu um 10,5% ársávöxtun og nam þannig samtals 9.785.998 krónum. Um miðjan maí 1999 var haldinn aðalfundur Kaupfélags Þingeyinga. Voru þar lagðir fram reikningar ársins 1998, sem undirritaðir voru af stjórn félagsins 10. þess mánaðar og áritaðir af endurskoðendum þess sama dag. Samkvæmt reikningunum nam tap félagsins á árinu 1998 rúmlega 177 milljón krónum og var eigið fé alls í árslok rúmlega 68 milljón krónur. Var ljóst að fjárhagsstaða félagsins var alvarleg og samþykkti aðalfundurinn að grípa til ýmissa ráðstafana af því tilefni. Meðal annars var stjórn félagsins veitt umboð til að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar.

Áfrýjandi ritaði stefnda bréf 20. maí 1999. Taldi hann ljóst vegna frétta af fjárhagsstöðu Kaupfélags Þingeyinga að litlar sem engar líkur væru á að félagið myndi standa við víxilskuldbindingar sínar. Lýsti hann yfir riftun á víxilkaupunum frá 15. mars 1999 og krafðist endurgreiðslu á kaupverði þeirra. Þessu bréfi svaraði stefndi 31. maí 1999. Í bréfi hans var rakið að starfsmenn viðskiptastofu hans hafi ekki haft yfir öðrum upplýsingum að ráða um fjárhag Kaupfélags Þingeyinga en öllum voru aðgengilegar er kaupin voru gerð. Áfrýjandi hafi snúið sér til viðskiptastofu stefnda með ósk um að kaupa víxla og valið víxla með hárri ávöxtunarkröfu. Honum hafi því verið ljós sú áhætta, er í kaupunum fólst. Síðan segir: „Landsbankinn getur því ekki fallist á riftunarkröfu umbj. þíns um riftun kaupa á umræddum víxlum sem gefnir voru út af KÞ...“. Áfrýjandi ítrekaði kröfu sína um riftun með bréfi 7. júní 1999. Hafnaði stefndi riftunarkröfunni á ný með bréfi 28. sama mánaðar og byggði afstöðu sína á svipuðum rökum og fyrr.

Kaupfélag Þingeyinga mun hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar 21. maí 1999 og hana framlengda 10. september sama árs. Í málinu liggur fyrir frumvarp að nauðasamningi fyrir félagið 25. september 1999, þar sem lánardrottnum, sem fara með samningskröfur, var boðin greiðsla á 78% krafna sinna. Af gögnum málsins verður ráðið að nauðasamningur þessa efnis hafi tekist. Liggur fyrir Hæstarétti staðfesting á því að inneign áfrýjanda samkvæmt bókhaldi Kaupfélags Þingeyinga sé 7.800.000 krónur, en engar greiðslur hafi samkvæmt bókhaldinu verið inntar af hendi til hans.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 20. september 1999. Lýtur kröfugerð hans að riftun víxilkaupanna og endurgreiðslu kaupverðs þeirra. Er sérstaklega tekið fram í stefnu að ekki sé gerð krafa um skaðabætur.

II.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að áfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu, þar sem umræddir víxlar séu handhafabréf og áfrýjandi hafi ekki lagt þá fram, heldur einungis ljósrit þeirra. Þá felist í kröfugerð áfrýjanda að nái riftunarkrafan fram að ganga skuli stefndi endurgreiða kaupverð víxlanna án þess að gert sé ráð fyrir skilum þeirra af hálfu áfrýjanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir að hann hefði nýlega fengið í hendur umrædda víxla frá stefnda og að frumrit þeirra verði afhent áfrýjanda gegn endurgreiðslu kaupverðs nái riftunarkrafan fram að ganga. Verður sýkna stefnda því ekki byggð á framangreindum forsendum.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að málinu sé ranglega beint að sér. Hann hafi einungis annast milligöngu um að koma á samningi milli áfrýjanda og Kaupfélags Þingeyinga, sem hafi verið seljandi víxlanna. Viðskiptin hafi því farið fram fyrir reikning þriðja manns samkvæmt a. lið 1. töluliðs 8. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Hafi því áfrýjandi átt að beina kröfum sínum að Kaupfélagi Þingeyinga. Eins og að framan er rakið lýsti áfrýjandi yfir riftun á víxilkaupunum með bréfi til stefnda 20. maí 1999. Við þessari yfirlýsingu brást stefndi með áðurnefndu bréfi 31. sama mánaðar, þar sem hann tók efnislega afstöðu til riftunarkröfunnar og hafnaði henni. Benti stefndi áfrýjanda hvorki á að hann teldi sig einungis hafa haft milligöngu um viðskiptin né upplýsti hann áfrýjanda um hver verið hefði raunverulegur seljandi víxlanna, sem áfrýjandi ætti þá að beina riftunaryfirlýsingu sinni að. Var þó brýnt að upplýsa áfrýjanda tafarlaust um þetta, enda kom ekkert fram í kvittun stefnda 15. mars 1999 fyrir viðskiptunum með víxlana um að þau hefðu farið fram fyrir reikning þriðja manns. Getur því stefndi ekki á síðari stigum borið fyrir sig að kröfunni hafi ranglega verið beint að sér.

III.

Áfrýjandi byggir riftunarkröfu sína á því að umrædda víxla hafi skort þá kosti, sem ætla má að áskildir hafi verið. Þeir hafi verið haldnir verulegum galla, sem heimili kaupanda riftun samkvæmt 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Heldur hann því fram að ársreikningur Kaupfélags Þingeyinga fyrir árið 1997 og uppgjör félagsins fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1998 sýni glöggt versnandi fjárhagsstöðu þess með lækkandi hlutfalli eiginfjár og veltufjár, svo og aukningu skammtímaskulda, þar á meðal vegna víxla og skuldabréfa. Viðurkennt sé af stefnda að hann hafi haft þessar upplýsingar undir höndum þegar kaupin voru gerð. Þá liggi fyrir að mun verri staða félagsins en þessi gögn sýndu hafi orðið opinber skömmu eftir kaupin. Geti stefnda ekki hafa dulist hvert horfði með fjárhag félagsins, enda hafi stefndi verið viðskiptabanki þess um áratugaskeið. Allt þetta sýni að víxlarnir hafi í raun verið mun minna virði á söludegi en söluverði þeirra nam, en það hafi ráðist af ávöxtunarkröfu, er stefndi hafi krafist í viðskiptunum.

Söluhlutur telst gallaður í merkingu 42. gr. laga nr. 39/1922 ef hann hefur ekki þá eiginleika, sem hann samkvæmt kaupsamningi á að hafa eða almennt má búast við að hlutir af slíku tagi hafi. Tekur ákvæðið meðal annars til viðskipta með fjárkröfur. Við kaup á kröfum má almennt ganga út frá því að hin seldu kröfuréttindi séu til, svo og að skuldaviðurkenningarnar að baki þeim séu í réttu formi og veiti kröfuhafanum rétt á að leita fullnustu hjá skuldara samkvæmt efni sínu. Verði misbrestur á þessu gæti seld krafa talist gölluð í fyrrgreindum skilningi. Það telst hins vegar ekki galli á seldri kröfu í þessum skilningi að skuldari reynist ekki fær um að greiða hana að fullu á réttum gjalddaga. Með því að kaupa kröfu tekur kaupandi áhættu varðandi greiðslugetu skuldara. Á íslenskum fjármagnsmarkaði er til sölu fjöldi skuldaviðurkenninga, víxla og skuldabréfa til skemmri og lengri tíma, sem út hafa verið gefnar af opinberum aðilum og einkaaðilum til að afla lánsfjár. Ræðst verð þeirra meðal annars af mati á líkum á því að útgefandinn muni standa við skuldbindingar sínar. Á þessum markaði eykst hagnaðarvon kaupenda í samræmi við þá auknu áhættu, sem þeir eru tilbúnir að taka. Fullvissa um greiðslugetu skuldara er ekki meðal áskildra kosta kröfu í slíkum viðskiptum í merkingu 42. gr. laga nr. 39/1922. Eru skilyrði riftunar því ekki fyrir hendi. Með því að áfrýjandi hefur eingöngu reist dómkröfur sínar í málinu á því að sér sé heimilt að rifta kaupunum, en hvorki krafist ógildingar á samningi aðilanna né skaðabóta, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Pétri Jónssyni ehf., kt. 461097-2519, Dalavegi 26, Kópavogi, á hendur Helga Sigurði Guðmundssyni, kt. 291248-7569, Dísarási 14, Reykjavík, sem stjórnarmanni f.h. Landsbanka Íslands, kt. 710169-3819, Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu sem birt var 20. september 1999.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru: Að viðurkennt verði með dómi heimild stefnanda til að rifta kaupum á tveimur víxlum með gjalddögum 3. júní 1999, hvorum að fjárhæð 5.000.000 króna, skv. samningi dags. 15. mars 1999 og stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 9.785.998 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 15. mars 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

I.

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig:

„Þann 15. mars 1999 keypti stefnandi, Pétur Jónsson ehf., tvo víxla útgefna af Kaupfélagi Þingeyinga, hvorn að fjárhæð kr. 5.000.000,00 af stefnda, sem bauð þá til sölu á skipulögðum verðbréfamarkaði í gegnum verðbréfadeild sína, svokallaða viðskiptastofu.  Kaupverð víxlanna var samtals kr. 9.785.998,00 og er það dómkrafan í þessu máli.  Ávöxtunarkrafa víxlanna var samtals 10,5% og gjalddagi þeirra var 3. júní 1999.  Landsbanki Íslands og arftaki hans Landsbanki Íslands hf., hefur um langt skeið verið viðskiptabanki Kaupfélags Þingeyinga.  Hinn 11 maí 1999 var aðalfundur Kaupfélags Þingeyinga haldinn og um viku fyrir aðalfundinn lá ársreikningur ársins 1998 fyrir.  Kom þá í ljós að fjárhagsleg staða Kaupfélags Þingeyinga var mjög slæm.  Endurskoðandi Kaupfélags Þingeyinga hafði í tvígang á árinu 1998 sent stjórn Kaupfélagsins alvarlegar aðvaranir um stöðu þess, eins og fram kemur í ummælum Halldóru Jónsdóttur stjórnarformanns Kaupfélags Þingeyinga í Degi 21. maí 1999.  Var þá orðið ljóst að til verri vegar stefndi og skv. ummælum Halldóru Jónsdóttur stjórnarformanns Kaupfélags Þingeyinga í Morgunblaðinu þann 19. maí 1999, var skömmu eftir páska 1999 rætt við fulltrúa hjá Landsbanka Íslands hf. um stöðuna.  Í sömu blaðagrein kemur fram í ummælum Halldóru Jónsdóttur að liður í erfiðri stöðu væri aukning á svokölluðum markaðsvíxlum til að fjármagna félagið, en slíkir víxlar hefðu verið góð leið til skammtímafjármögnunar fyrir nokkrum árum.  Samningsstaða gagnvart skuldum af þessu tagi væri lítil og vanskil fljót að setja af stað mikinn hrunadans.  Segir Halldóra í þessari sömu Morgunblaðsgrein eftirfarandi: „Í fáum orðum var ljóst að slík skriða yrði fjárhagsstöðunni ofviða.  Þá varð að bregðast skjótt við."  Jafnframt er eftirfarandi haft eftir Halldóru: „En það verður að vera mönnum ljóst að í viðkvæmri viðskiptastöðu skiptir miklu máli hvaða skilaboð umhverfið fær.  Neikvæð skilaboð um stöðuna eru fljót að hafa þau áhrif að mál snúast til verri vegar og enn erfiðara verður að hafa tök á þróuninni".  Í sömu Morgunblaðsgrein er einnig haft eftir Erlingi Teitssyni, varaformanni stjórnar Kaupfélags Þingeyinga, að það hraða ferli sem í gang fór hefði fyrst og fremst orðið vegna þess að félagið hefði neyðst til að fjármagna rekstur sinn með markaðsvíxlum, langt út yfir það sem nokkurt vit var í.  Á aðalfundi Kaupfélags Þingeyinga var síðan samþykkt samhljóða að vinna að lausn á fjárhagsvanda félagsins á þeim grundvelli sem undirbúinn hafði verið í samvinnu við Landsbanka Íslands hf. og fleiri.  Var gripið til þess ráðs að selja eignir félagsins og varð því Kaupfélag Þingeyinga að einhvers konar eignar-haldsfélagi að mestu án eigna, eins og stjórnarformaður félagsins Halldóra Jónsdóttir orðaði það í samtali við Morgunblaðið 19. maí 1999.

Þann 21. maí 1999 fékk Kaupfélag Þingeyinga greiðslustöðvun sem þann 10. september 1999 var framlengt til 10. desember 1999 og ljóst er að víxlarnir munu ekki fást greiddir að fullu.

Þegar stefnanda urðu þessi tíðindi ljós lýsti hann þann 20. maí 1999 yfir riftun á víxilkaupunum frá 15. mars 1999 og krafðist endurgreiðslu á kaupverði þeirra, auk vaxta og alls kostnaðar.  Af hálfu Landbanka Íslands hf. var riftuninni hafnað og er málssókn því óhjákvæmileg."

Stefndi kýs að lýsa málavöxtum með eftirfarandi hætti:

„Eins og fram kemur í stefnu annaðist Pétur Stefánsson, ..., framkvæmdastjóri stefnanda, fyrir hönd félagsins, hinn 15. mars sl. kaup á víxlum í Kaupfélagi Þingeyinga svf. ( hér eftir KÞ) fyrir milligöngu stefnda ...  Nafnverð víxlaanna var samtals 10 milljónir króna og ávöxtunarkrafan 10,5%.  Fyrir víxlana voru greiddar kr. 9.758.998, stefnufjárhæð málsins, og var sú fjárhæð þegar að kaupunum frágengnum lögð inn á reikning KÞ að frádreginni umsaminni þóknun stefnda fyrir milligönguna og lögbundnu stimpilgjaldi.  Milliganga stefnda við kaupin fól í sér þjónustu við stefnanda sem lengi hefur verið í viðskiptum hjá bankanum.  Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að stefndi hafi selt umrædda víxla til að tapa sem minnstu sjálfur vegna viðskipta við KÞ.

Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað lágu fyrir allnokkrar upplýsingar um fjárhagslega stöðu KÞ.  Er þar að nefna ársreikning félagsins fyrir árið 1997 ... og milliuppgjör fyrir tímabilið janúar til ágúst 1998 ...  Eins og nefnd skjöl bera með sér  var tap af rekstri kaupfélagsins nálægt 30 milljónum króna árið 1997, að meðtalinni hlutdeild í afkomu dótturfélaga og hlutdeildarfélaga, og eiginfjárstaðan í lok ársins metin 243 milljónir króna.  Í uppgjöri fyrir átta fyrstu mánuði ársins 1998 kom fram að tapið á því tímabili nam 11,5 milljónum króna í stað 22 milljón króna taps á sama tíma árið áður.  Má segja að þetta hafi bent til þess að heldur horfði til betri vegar í rekstri félagsins frá því sem áður var.  Af þessum gögnum að dæma varð því engin sérstök ástæða til að ætla að KÞ yrði ekki fært um að standa skil á greiðslu víxlanna á gjalddaga enda þótt ljóst væri að félagið yrði rekið með nokkru tapi.

Stefndi hafði ekki aðgang að öðrum en ofannefndum upplýsingum við kaup stefnanda á víxlunum umrætt sinn.  Það sem síðar kom í ljós, að staða félagsins hafi í raun verið verri en reikningar kaupfélagsins gáfu tilefni til að ætla, var stefnda ókunnugt um.  Málsatvikalýsing stefnanda um annað er mótmælt sem rangri og ósannaðri.  Því er sérstaklega mótmælt að stefndi hafi mátt vita um raunverulega stöðu félagsins.  Bendir í raun allt til þess að stjórnarmönnum KÞ hafi sjálfum ekki verið það kunnugt hversu bág staðan raunverulega var.

Stefnanda var fullljóst hvaða áhætta fylgdi því að kaupa umrædda víxla.  Þar sem ávöxtun þeirra var umtalsvert hærri en samkvæmt öðrum fyrirtækjavíxlum, svo ekki sé talað um ríkis- og/eða bankavíxlum, kaus hann að fjárfesta með þeim hætti sem hann gerði og lét svo um mælt að tæpast færi elsta kaupfélag landsins „á hausinn" á þremur mánuðum.  Það er því ekki rétt sem ráða má af málatilbúnaði stefnanda, að stefndi hafi beinlínis ráðlagt honum að kaupa umrædda víxla.  Fyrirsvarsmaður stefnanda tók sjálfur ákvörðun um kaupin og áttu þar starfsmenn stefnda engan hlut að máli annan en þann að annast milligöngu.

Því er mótmælt að ávöxtunarkrafa víxlanna, sem var eins og áður sagði 10,5%, hafi ekki bent til þess að um áhættusöm viðskipti væri að ræða.  Á þessum tíma stóðu til boða hjá stefnda a) ríkisvíxlar með svipaðan binditíma þar sem ávöxtunarkrafan var 7,93%, b) víxlar útgefnir af Landsbanka Íslands hf. með ávöxtunarkröfu 8,11%, c) víxlar útgefnir af Samvinnusjóði Íslands með 8,43% ávöxtunarkröfu, d) víxlar útgefnir af Kaupfélagi Eyfirðinga svf. með ávöxtunarkröfu 9,30% og e) víxlar útgefnir af Snæfelli hf. með 9,25% ávöxtunarkröfu.  Þá er hér að minnast annarra fjárfestingakosta, svo sem kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum, sem vegna dreifðrar áhættu eru miklum mun tryggari en kaup á fyrirtækjavíxlum.  Stefnandi valdi hins vegar þann kost sem gerði ráð fyrir hæstri ávöxtun af þeim sem til boða stóðu og mátti hann vita að því fylgdi líklegast mest áhætta.

Stefndi tekur loks fram að stefnandi málsins hefur þann tilgang samkvæmt samþykktum félagsins að starfa við útgerð, fiskvinnslu og skyldan rekstur, svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.  Samkvæmt ársreikningi félagsins ... fyrir árið 1998 var hagnaður af reglulegri starfsemi nálægt tug milljón króna.  Eignir félagsins voru í árslok metnar á tæpar 100 milljónir króna en eigið fé alls ríflega kvarthundrað milljónir.  Samkvæmt þessu hefur stefnandi haft veruleg viðskiptaleg umsvif.

Framkvæmdastjóri stefnanda, Pétur Stefánsson, er eini stjórnarmaður félagsins.  Pétur hefur áratuga reynslu að útgerð, viðskiptum og fyrirtækjarekstri.  Báðir þessir aðilar, þ.e. stefnandi og Pétur Stefánsson persónulega, hafi á liðnum árum átt í verulegum viðskiptum um verðbréf og gjaldeyri, meðal annars í því skyni að hafa af því fjárhagslegan ávinning.  Í viðskiptum sínum hafi þessir aðilar gjarnan leitað eftir hárri ávöxtun og samfara því mikilli áhættu."

II.

Riftunarkröfu sína kveðst stefnandi styðja við 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.  Víxlana hafi skort þá kosti sem hefði mátt ætla að stefnandi gerði að skilyrði að þeir hefðu.  Stefnandi hefði verið í góðri trú um að víxlarnir væru góð fjárfesting „enda benti ávöxtunarkrafa þeirra og upplýsingar stefnda við söluna ekki til þess að um áhættusöm viðskipti gæti verið að ræða."

Á því er byggt að stefndi, Landsbanki Íslands hf., hafi brotið gegn 15. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996 með því að selja stefnanda tvo víxla 15. mars 1999, sem Kaupfélag Þingeyinga hafði gefið út.  Bankinn hefði haft eða hefði mátt hafa fulla vitneskju um slæma fjárhagstöðu Kaupfélags Þingeyinga en leynt stefnanda þeirri vitneskju.  Af hálfu stefnanda er talið að stefndi hafi í þessum verðbréfaviðskiptum við stefnanda einnig brotið gegn ákv. 27. gr. og 28. gr. sömu laga.  Krafa stefnanda sé grundvölluð á því að stefndi hafi lengi verið viðskiptabanki Kaupfélags Þingeyinga og kaupfélagið hefði haft samráð við bankann um aðgerðir vegna fjárhagserfiðleika kaupfélagsins.  Útgáfa markaðsvíxla af hálfu kaupfélagsins hafi verið liður í því að koma því út úr fjárhagserfiðleikum.  Með útgáfu víxlanna hafi stefndi viljað koma því þannig fyrir að bankinn, sem lánadrottinn Kaupfélags Þingeyinga svf., tapaði sem minnstu á viðskiptum sínum við kaupfélagið.  Tapið kæmi í þess stað niður á öðrum, þ.e. kaupendum víxlanna.

Með framangreindu framferði stefnda gagnvart stefnanda sé brotið gegn því hvernig góður og gegn verðbréfamiðlari rækir störf sín.  Beri stefndi því bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir „er hann fylgdi ráðleggingum viðskiptastofu stefnda."

III.

Stefndi byggir á því að stefnandi sé ekki réttur aðili máls þessa sóknarmegin.  Víxlar þeir, sem hér um ræðir, séu handhafabréf og hafi ekki verið lagðir fram í dómi.  Eigandi víxlanna sé réttur aðili málsins sóknarmegin.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á aðild sína.

Þá byggir stefndi á því að hann sé ekki réttur aðili máls þessa varnarmegin.  Stefndi hefði einvörðungu haft milligöngu um að koma á samningi milli stefnanda og kaupfélagsins þegar stefnandi fjárfesti í víxlum útgefnum af Kaupfélagi Þingeyinga svf. þann 15. mars 1999.  Hér hafi verið um hefðbundin umboðsviðskipti að ræða skv. a-lið 1. tl. 8. gr. laga nr. 13/1986.  Stefndi hafi eingöngu borið út býtum þóknun miðlara.  Andvirði víxlanna hefði runnið til eiginlegs seljanda, útgefanda víxlanna, að frádreginni þóknun.  Óhjákvæmilegt sé því annað en að sýkna stefnda vegna aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnda, er byggt á því, að ekki séu skilyrði fyrir riftun kaupa stefnanda á víxlunum.  Ekki sé sýnt fram á að samningur við stefnanda hafi verið verulega vanefndur eða um svik af hálfu stefnda sé að ræða.  Stefndi hafi hvorki gengist í ábyrgð fyrir víxlunum né fullyrt það við stefnanda að þeir fengjust greiddir.  Hér hafi verið um áhættuviðskipti að ræða eins og ávöxtunarkrafan hefði borið með sér.  Að baki víxla af því tagi, sem hér um ræðir, standi raunar ekkert til tryggingar annað en loforð útgefanda.

Stefndi mótmælir því að hafa vanrækt upplýsingaskyldu gagnvart stefnanda og telur að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum í þá veru.  Raunar hefði stefnda ekki verið kunnugt um að staða kaupfélagins væri eins bágborin og síðar hefði komið í ljós.  Ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi brotið gegn 15. gr. laga nr. 13/1996 og enn síður að hann hafi gerst brotlegur við 27. gr. sömu laga eða önnur lagaákvæði sem stefnandi vísar til.

IV.

Forsvarsmaður stefnanda, Pétur Stefánsson, gaf skýrslu fyrir réttinum.  Hann sagði m.a. að aðdragandi þess að hann keypti umrædda víxla hafi verið sá að hann hefði haft peninga á lausu, tímabundið talsvert fé, og hefði hugsað sér að fá hærri ávöxtun en á venjulegum innlánsreikningum.  Kvaðst hann hafa haft samband við „kontakt- mann" sinn í Landsbankanum, Magnús Magnússon.  Magnús hefði hringt í sig fyrir jólin [1998] og tjáð honum að hann væri kontaktmaður hans við Landsbankann, öll hans viðskipti við bankann færu fyrst til hans áður en þau færu lengra.  Kvað hann þá síðan hafa verið í miklu sambandi.  Sagði hann að Magnús hefði bent sér á þessa víxla.  Hann hefði tilnefnt víxla frá KEA og Kaupfélagi Þingeyinga með 10% ávöxtum eftir því sem hann minnti.  Hafi hann ákveðið að kaupa þessa víxla sem voru til þriggja mánaða.  Magnús hefði sagt að þeir hefðu þessa víxla til sölu en ekki sérstaklega mælt með því að hann keypti þá.  Hann hefði ekki tjáð honum neitt um áhættu af kaupum víxla sem væru útgefnir af Kaupfélagi Þingeyinga.  Hann hefði ekki upplýst hann um að fjárhagsstaða kaupfélagsins væri slæm, hvorki gagnvart bankanum né öðrum.  Hann hefði engar upplýsingar veitt honum um atriði sem unnt sé að sjá í ársreikningum kaupfélagsins 1997 eða milliuppgjöri frá 1998.  Hann kvaðst ekki hafa fengið að sjá þessa reikninga.  Hann kvað bankann hafa haft þessa víxla til innheimtu fyrir hann en ekki hafi hann fengið neitt greitt inn á þá.  Hann hafi enga tilkynningu fengið frá Landsbankanum um innheimtuna.  Hann kvaðst alla sína tíð hafa verið í viðskiptum við Landsbankann og á síðustu árum hafi þau verið mjög mikil og engin áföll á neinn veg.  Viðskiptin hafi verið happasæl, hvorugur skaðað hinn.  Engin ástæða hefði verið fyrir bankann að koma honum í þessa klemmu. 

Aðspurður kvaðst Pétur hafa byrjað viðskiptaleg umsvif með rekstri  hlutafélags með föður sínum 1967.  Hann hafi hafið rekstur ásamt bróður sínum 1972.  Síðan hafi hann verið einn með rekstur frá 1984.  Hann kvaðst hafa tekið landspróf og hafa skipstjórnarmenntun.  Hann kvaðst hafa persónulega reynslu af verðbréfa-viðskiptum síðan 1985 eða 1986.  Kvaðst hann hafa keypt fasteignatryggð verðbréf og ríkisskuldabréf en ekki bréf, sem fela í sér meiri áhættu.  Aðspurður kvaðst hann, í fyrsta skipti með kaupum á þeim markaðsvíxlum sem hér um ræðir, hafa keypt verðbréf, sem flokkast gætu undir að hafa meiri áhættu.  Aðspurður kvaðst hann hafa reynslu af framvirkum samningum.  Kvaðst hann hafa framvirkan samning við Landsbankann með erlendan gjaldeyrir, það sé eina þekking sín á framvirkum samningum.

Lögmaður stefnda upplýsti að Magnús Magnússon, starfsmaður stefnda sem áður er getið, væri látinn og spurði hvort Pétri væri kunnugt um það.  Játaði Pétur því.  Lögmaðurinn sagði að haft væri eftir Magnúsi að Pétur hefði haft að orði þegar þessi viðskipti áttu sér stað: „Að varla færi elsta kaupfélag landsins á hausinn á þremur mánuðum."  Kvaðst Pétur ekki kannast við það.  Hann kvaðst hafa valið víxlana frá Kaupfélagi Þingeyinga fram yfir víxlana frá KEA vegna þess að hann væri að uppruna Húsvíkingur.  Hann sagði að honum hefði ekki verið kunnugt um hversu mikil miðlaraþóknun Landsbankans var í þessum viðskiptum.  Hafi hann talið það vera  mál milli kaupfélagsins og bankans.  Hann sagði að Magnús hefði gefið í skyn að þeir hefðu þessa víxla til sölu, ekki að þetta væru víxlar í eigu bankans sem bankinn þyrfti að koma út.  Ekki hefði verið rætt hvernig bankinn væri kominn að víxlunum.  Hann kvaðst ekki hafa séð ástæðu til að spyrjast nánar fyrir um þetta vegna þess að hann hafi treyst Landsbanka Íslands og hefði ekki ætlað að bankinn væri að selja viðskiptavini sínum einhverja vafasama pappíra.  Hann hefði litið svo á að þetta væru örugg bréf frá öruggum aðila.  Hann upplýsti að þetta væru einu viðskipti hans með verðbréf sem hann hefði tapað á.

V.

Niðurstaða:

Af hálfu stefnda er bent á að stefnandi krefjist þess að fá endurgreidda víxla, sem stefnandi hafi keypt fyrir milligöngu stefnda, án þess að gert sé ráð fyrir skilum á víxlunum af hálfu stefnanda eða framsali þeirra til stefnda.  Í þessu sambandi verður að álykta að gangi dómur um riftun, sé samningur um kaup felldur úr gildi, og niðurstaðan verði þá hin sama og hann hefði aldrei verið gerður.  Þess vegna er engin þörf á því að taka fram í kröfu um riftun samnings að fullu að sá aðilanna, sem riftir, muni skila því aftur, sem hann kann að hafa tekið við hjá hinum.  Ekki er því fallist á þessa málsástæðu stefnda.

Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að stefnandi sé ekki réttur aðili máls þessa sóknarmegin.  Víxlarnir, sem hér um ræðir, séu handhafabréf, en stefnandi hafi ekki lagt víxlana fram í dómi.  Á dskj. nr. 4. í málinu kemur fram að Landsbanki Íslands hf., Austurbæjarútibú, Laugavegi 77, Rvík., hafi tekið víxlana til innheimtu 18. mars 1999 frá stefnanda.  Hafi bankinn látið þá af hendi.  Hefur frá upphafi þessa máls legið fyrir, að stefndi gerði grein fyrir hverjum hann afhenti víxlana.  Verður því litið svo á að stefndi hafi víxlana enn í sínum vörslum fyrst ekkert hefur komið fram um að víxlarnir séu annars staðar en hjá honum.

Stefndi krefst sýknu einnig á þeim grundvelli að hann sé ekki réttur aðili máls þessa varnarmegin.  Stefndi hafi einvörðungu komið á samningi milli stefnanda og Kaupfélags Þingeyinga um að stefnandi keypti víxlana af kaupfélaginu.  Af hálfu stefnda hafi um hefðbundin umboðssöluviðskipti verið að ræða en ekki um viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning.  Ekki verður af gögnum málsins og framburði Pétur Stefánssonar fyrir réttinum annað ráðið en stefndi hafi selt stefnanda víxlana fyrir kaupfélagið og andvirðið runnið til kaupfélagsins að frádreginni þóknun til bankans fyrir hans framlag.  Í máli þessu reynir því á, hvort stefndi hafi með aðkomu sinni að málinu átt slíkan þátt í kaupum stefnanda á víxlunum, að hann beri ábyrgð á hugsanlegu tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna kaupanna.  Með þeim hætti verður að líta á aðild stefnda.

Riftunarkröfu sína kveðst stefnandi styðja við ákv. 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.  Fallist er á með stefnda að víxlarnir hafi ekki verið gölluð vara í skilningi 42. greinar.  Er málsástæðu stefnanda sem á því byggir vísað á bug.

Stefnandi reisir kröfu á því að stefndi hafi ekki gætt ákv. 15. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti þegar bankinn seldi honum víxlana 15. mars 1999.  Landsbanki Íslands hf. hefði haft eða mátt hafa fulla vitneskju um slæma fjárhagsstöðu Kaupfélags Þingeyinga en leynt stefnanda þeirri vitneskju.  Þá hafi stefndi einnig gerst brotlegur við ákv. 27. gr., sbr. 26. gr. sömu laga, en stefndi hefði nýtt sér trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til hagsbóta.  Raunar hafi stefnda verið óheimilt að annast milligöngu um verðbréfaviðskipti fyrir kaupfélagið skv. 18. gr. sömu laga.  Gegn mótmælum stefnda hvílir á stefnanda að sanna þessar staðhæfingar.

Ekki verður með afdráttarlausum hætti ráðið af gögnum málsins að stefnda hafi verið kunnugt um að Kaupfélag Þingeyinga stæði á barmi gjaldþrots 15. mars 1999.  Þá er ekki sannað að tæknilega hefði verið unnt fyrir stjórn bankans að ráða af upplýsingum, sem fyrir hendi voru hjá bankanum skömmu áður en stefnandi keypti víxlana, að geta kaupfélagsins til að greiða markaðsvíxla, sem bankinn var að selja fyrir kaupfélagið, væri ekki fyrir hendi.  Verður það því ekki metið til skaða-bótaskyldrar vanrækslu af hálfu bankans að hafa ekki hafnað því að sjá um umrædda umboðssölu og koma þannig í veg fyrir að viðskiptamenn bankans yrðu fyrir tjóni vegna ógjaldfærni kaupfélagsins.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Jónssonar ehf.

Málskostnaður fellur niður.