Hæstiréttur íslands
Mál nr. 264/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 13. maí 2011. |
|
Nr. 264/2011.
|
A (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn B (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt fjárræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2011, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt fjárræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að fjárræðissvipting verði bundin við fasteignina Vesturberg 140 í Reykjavík, íbúð 0202, en að því frágengnu að fjárræðissviptingin standi ekki lengur en í sex mánuði. Þá krefst sóknaraðili í öllum tilvikum þóknunar til skipaðs verjanda.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, hæstaréttarlögmannanna Páls Arnórs Pálssonar og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2011.
Með beiðni, dagsettri 9. þ.m. hefur af hálfu B, kt. [...], [...], [...], þess verið krafist, með vísan til a- liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að systir hennar, A, kt. [...], [...], [...], verði svipt fjárræði í 12 mánuði. Var málið þingfest 7. þ. m. og tekið til úrskurðar í dag.
Um aðild sóknaraðilanna vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Í beiðninni og staðfestu læknisvottorði, sem henni fylgir, kemur fram að ástæða hennar er sú að varnaraðili, sem hefur ekki aðrar tekjur á að treysta en örorkubætur, sé vegna [...] [...] og geðsjúkdóms ([...]-,[...]- og [...]) ófær um að ráða fé sínu. Þá er komið fram í málinu að varnaraðili hefur sent nokkuð á aðra milljón króna til einhvers eða einhverra í [...]. Hún hefur sagt að viðtakandinn sé [...] auðmaður sem hafi ratað í tímabundnum vandkvæði þar syðra en nú væri hann kominn hingað til lands og þau tekið upp sambúð. Maður þessi hefur ekki fengist fyrir dóm, þrátt fyrir boðun sem varnaraðili tók við á heimili sínu fyrir hans hönd. Að sögn sóknaraðila hefur þessi maður ekki komið hingað til lands en varnaraðili muni vera í tölvusambandi við hann. Þá er komið fram í málinu að varnaraðili hefur þurft að taka dýr smálán til þess að lifa á og sé hún komin í mikil vanskil. Þar á meðal sé lán sem hvíli á íbúð hennar.
Með vísan til alls þessa álítur dómurinn að nægilega sé í ljós leitt að varnaraðili er vegna vanþroska og geðsjúkdóms ófær um að ráða fé sínu. Fellst dómurinn því á beiðnina og ákveður með heimild í a- lið 4. gr. lögræðislaga að A, kt. [...], [...], [...], skuli vera svipt fjárræði í 12 mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þar með talda þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], er svipt fjárræði í 12 mánuði.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. málsvarnarlaun til talsmanna aðilanna, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl. 250.000 krónur og Páls Arnórs Pálssonar hrl. 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, svo og 30.000 króna kostnaður vegna læknisvottorðs.