Hæstiréttur íslands

Mál nr. 671/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Útivist í héraði
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 27

 

Föstudaginn 27. nóvember 2009.

Nr. 671/2009.

X

(sjálfur)

gegn

sýslumanninum á Selfossi

(enginn)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist í héraði. Frávísun máls frá Hæstarétti.

X kærði úrskurð héraðsdómara þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. X sótti ekki þing í héraði þegar krafa um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að því hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2009, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar krafa varnaraðila um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir 4. nóvember 2009 og gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því. Allt frá dómi Hæstaréttar 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2028, hefur ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Heimild brestur af þeim sökum til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2009.

Með beiðni, dagsettri 6. ágúst 2009, sem móttekin var 7. ágúst s.á., krafðist Sýslumaðurinn á Selfossi, kt 461278-0279, Hörðuvöllum 1, Selfossi, þess að bú X, kt. [...],[...], yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Málið var þingfest 7. október sl., og var ekki mætt af hálfu varnaraðila og málið því tekið til úrskurðar að kröfu skiptabeiðanda. Við vinnslu úrskurðar kom í ljós sá galli á fyrirkalli að málið yrði tekið fyrir miðvikudaginn 10. október 2009 kl. 10.00 en ekki miðvikudaginn 7. október 2009 kl. 10.00. Vegna þessa var gefið út nýtt fyrirkall þar sem varnaraðili var boðaður á ný með fyrirkalli að mæta fyrir dóm miðvikudaginn 4. nóvember 2009, kl. 10.00. Var fyrirkallið birt að [...], af stefnuvotti þann 28. október sl., en viðtakandi neitaði móttöku. Var fyrirkallið skilið eftir á heimili varnaraðila. A, [...], afhenti skrifstofu dómsins þann 30. október sl., bréf þar sem hún kvað varnaraðila hafa flutt lögheimili sitt og hefði hún tjáð stefnuvottinum það ásamt því jafnframt að neita að móttaka fyrirkallið.

Þegar krafa um gjaldþrotaskipti barst dóminum átti varnaraðili lögheimili í umdæmi þessa dómstóls. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991 verður farið með kröfu í því umdæmi þar sem hún kom réttilega fram þótt skuldarinn flytji lögheimili sitt úr umdæminu áður en endanleg afstaða er tekin til hennar. Um birtingu fyrirkalls gilda ákvæði einkamálalaga nr. 91/1991. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 85. gr. laganna er birtin nægjanleg fari hún fram á skráðu lögheimili stefnda, fyrir heimilismanni hans, þeim sem dvelst á skráðu lögheimili stefnda eða þeim sem þar hittist fyrir. Sá sem tekur við birtingu eða fyrirkalli getur ekki komið sér undan því með því að neita að undirrita móttöku. Er óundirrituð birting því jafngild og móttakandi hafi kvittað fyrir hana.

Skiptabeiðandi krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og fram kemur í beiðni hans að hún sé vegna kröfu að höfuðstól 10.399.813 króna.

Skiptabeiðandi byggir kröfu sína á árangurslausu fjárnámi sem gert var 4. júní 2009 hjá varnaraðila. Um lagarök vísar hann til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Með vísan til framangreindra atvika og 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, er bú X, kt. [...], tekið til gjaldþrotaskipta.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Bú X, kt. [...],[...], er tekið til gjaldþrotaskipta.