Hæstiréttur íslands
Mál nr. 448/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 2010. |
|
Nr. 448/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Jóni Sverri Bragasyni(Hilmar Ingimundarson hrl. Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl. Lilja Jónasdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A frá fyrstu mánuðum ársins 2006 til aprílmánaðar 2008, þegar pilturinn var á aldrinum 13 til 15 ára, með því að hafa í mörg skipti haft munnmök við piltinn og í 4-5 skipti fengið A til að hafa við sig endaþarmsmök. X tældi piltinn til kynmakanna með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi hans af kynlífi og tölvufíkn, en X greiddi fyrir kynmökin með tölvuleikjum eða peningum. Talið var að hafið væri yfir skynsamlega vafa að X hefði haft þau kynmök við A sem í ákæru greindi, þó þannig að ekki væri, að virtum gögnum málsins, fram komin sönnun þess að hann hefði brotið gegn A fyrr en um vorið 2006. Brot X voru ýmist talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með lögum nr. 61/2007 og 3. mgr. 202. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hluti brota X varðaði við 3. mgr. 202. gr. laganna, en refsimörk hennar eru mun lægri en samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Þá hafði engin viðhlítandi skýring verið gefin á þeim töfum sem urðu á að senda málið til ríkissaksóknara eftir að rannsókn lauk og heldur ekki á því hvers vegna það dróst í rúma átta mánuði að ljúka gerð málsgagna. Jafnframt var litið til þess að brot X voru alvarleg og beindust að ungum, þroskaskertum dreng með áráttukennda hegðun. X hefði notfært sér þessa veikleika drengsins til að misnota hann kynferðislega og sýnt sterkan og einbeittan brotavilja við framkvæmd brotanna. Var refsing X ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Þá var honum gert að greiða A 1.500.000 í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér aðallega 4.000.000 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð að mati dómsins, sem nemi þó hærri fjárhæð en dæmdar bætur í héraði. Í báðum tilvikum krefst hann vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2006 til 24. október 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar á ákvæðum hins áfrýjaða dóms um kröfu sína.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að bætur samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, þó þannig að ekki er, að virtum gögnum málsins, fram komin sönnun þess að hann hafi brotið gegn A eins og lýst er í héraðsdómi fyrr en um vorið 2006. Brot ákærða sem framin voru frá vori 2006 til 24. júlí sama ár, þegar A varð 14 ára, varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með lögum nr. 61/2007, sem öðluðust gildi 4. apríl 2007, svo og brot hans frá þeim degi til 24. júlí 2007. Þau brot sem ákærði framdi frá 24. júlí 2006 til 4. apríl 2007 og eftir 24. júlí 2007 eru á hinn bóginn heimfærð undir 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hluti brota hans varðar við 3. mgr. 202. gr. laganna, en refsimörk hennar eru mun lægri en samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Rannsókn máls þessa hófst 3. apríl 2008 og lauk henni 25. september sama ár. Málsgögn voru send ríkissaksóknara 17. desember 2008 og var ákæra gefin út 28. janúar 2009. Héraðsdómur var kveðinn upp 10. júní 2009, en sem fyrr segir var honum áfrýjað 29. júlí sama ár. Málsgögn bárust Hæstarétti ekki fyrr en 4. febrúar 2010 og eru þau ekki umfangsmikil. Engin viðhlítandi skýring hefur verið gefin á þeim töfum sem urðu á að senda málið til ríkissaksóknara eftir að rannsókn lauk og heldur ekki á því hvers vegna það dróst í rúma átta mánuði að ljúka gerð málsgagna. Að öllu framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um bætur til A verða staðfest. Brotum ákærða lauk í byrjun apríl 2008 og var honum kynnt bótakrafan 24. september sama ár. Verða vextir dæmdir því til samræmis eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jón Sverrir Bragason, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2008 til 24. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 476.893 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. maí sl., var höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 28. janúar 2009 á hendur Jóni Sverri Bragasyni, kt. [...], með lögheimili í [...], fyrir kynferðisbrot gegn A frá fyrstu mánuðum ársins 2006 til aprílmánaðar 2008, þegar pilturinn var á aldrinum 13 til 15 ára, með því að hafa í mörg skipti haft munnmök við piltinn og í 4-5 skipti fengið A til að hafa við sig endaþarmsmök. Ákærði tældi piltinn til kynmakanna með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi hans af kynlífi og tölvufíkn, en ákærði greiddi fyrir kynmökin með tölvuleikjum eða peningum. Brotin áttu sér oftast stað í bifreið ákærða í nágrenni við [...] í [...] eða í bílskúr við heimili A að [...] í Reykjavík, en í eitt skipti í bílskúr við dvalarstað ákærða að [...] í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007, en til vara við 4. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sbr. 1. gr. laga nr. 14/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu X, kt. [...], er krafist bóta að fjárhæð 4.000.000 auk ýtrustu vaxta samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá september 2005 þar til einn mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt í samræmi við 9. gr. sömu laga.
Ákærði hefur neitað sök og hafnað framkominni bótakröfu. Krefst hann þess aðallega að verða sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði ákvörðuð vægasta refsing sem lög leyfi. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfu frá dómi, en að öðrum kosti verði hún lækkuð verulega. Loks krefst hann þess að verjandaþóknun, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, verði greidd úr ríkissjóði með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda.
Málavextir
Upphaf þessa máls má rekja til þess að fimmtudaginn 3. apríl 2008 komu þeir B og C til lögreglu og lögðu fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots gagnvart A, syni B og fóstursyni C. Í kæruskýrslu er haft eftir C að kvöldið áður er hann kom heim hafi sambýliskona hans og móðir brotaþola, D, sagt honum frá því að brotaþoli hefði farið út sem þeim hefði þótt fremur óvenjulegt. Hafi dóttir D þá farið í heimilistölvuna og fundið þar tölvusamskipti brotaþola á MSN við mann sem kallaði sig E. Þar hafi meðal annars komið fram að drengurinn ætti að hitta hann ,,á sama stað“ og jafnframt að maðurinn ætlaði að ,,ríða honum og borga fyrir“ og hafi tölur verið nefndar í því sambandi. Hafi C því farið að leita drengsins og fundið hann skammt frá [...]. Hafi hann þar virst bíða eftir einhverjum en hann hafi þó í fyrstu neitað því. Hann hafi þó samþykkt að setjast inn í bílinn hjá C og þeir beðið þar saman í nokkrar mínútur. Hafi þeir svo séð hvar gráhærður karlmaður, um fimmtugt, kom akandi og skimaði í allar áttir. Að svo búnu hafi hann ekið á brott. Kvaðst C hafa tekið niður skráningarnúmer bílsins og því ekki talið ástæðu til að fylgja honum eftir. Er heim var komið hafi verið haft samband við B, föður brotaþola, sem hafi staðfest að um ákærða væri að ræða, en hann væri kallaður Nonni. Greinir C og frá því að brotaþoli sé seinþroska og hafi hann greinst með kvíðaröskun og athyglisbrest. Sökum þessarar fötlunar hafi hann ekki mikið verið í samskiptum við jafnaldra sína. Þá er haft eftir B að hann hafi verið í vinasambandi við fjölskyldu ákærða og hafi ákærði og brotaþoli kynnst í gegnum það fyrir um fjórum árum. Kvaðst hann hafa vitað um samskipti brotaþola og ákærða í gegnum MSN en hann hafi þó ekki lesið þessi samskipti þar sem hann hafi trúað því að ákærði væri í sambandi við drenginn vegna góðmennsku sinnar. Þá kemur og fram hjá B að brotaþoli sæki mikið í tölvur og tölvuleiki og sé hann í raun haldinn tölvufíkn. Hafi verið leitað aðstoðar hjá fagaðilum vegna þessa og komi þeir reglulega á heimili hans til að aðstoða þau við að reyna að hafa stjórn á tölvufíkninni. Framvísaði hann tölvudiski til lögreglu sem hann kvað geyma samskipti ákærða og brotaþola á MSN.
Ákærði var handtekinn kl. 12.50 hinn 4. apríl 2008. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann dag kannaðist hann við að hafa spjallað við brotaþola á MSN. Sagði ákærði þá hafa rætt saman um ,,hvað hann langar að gera og hvað mig langar stundum að gera“. Kvað hann tengsl við drenginn vera ,,sáralítil, fyrst og fremst í gegnum spjallrásir“. Kannaðist hann við spjall þeirra þar sem hann hefði lofað drengnum tölvum, tölvuleikjum og peningum gegn kynferðislegum samskiptum. Aldrei hefði þó verið um að ræða nein raunveruleg kynferðisleg samskipti milli þeirra.
Við húsleit sem fram fór á heimili ákærða skömmu eftir handtöku hans hinn 4. apríl 2008 fannst ekkert athugavert. Kemur fram í skýrslu að fartölvur ákærða og eiginkonu hans hafi verið kannaðar og hafi stilling á MSN í tölvunum reynst vera með þeim hætti að spjall þar vistaðist ekki sérstaklega.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu öðru sinni hinn 24. september 2008. Kvaðst hann þá aðspurður telja að hann hafi gefið drengnum þrjá eða fjóra tölvuleiki. Hefði hann komið leikjunum til drengsins þegar þeir mæltu sér mót og kvaðst hann telja að það hefði verið í fjögur
eða fimm skipti. Kom fram hjá ákærða að þeir hefðu hist í bílskúr heima hjá brotaþola en annars við [...]. Þá hefði hann og látið brotaþola hafa peninga, eitt til tvö þúsund krónur, öðru hvoru þegar brotaþola vantaði peninga fyrir einhverju í skólann og nefndi hamborgara í því sambandi. Kvaðst ákærði neita því að hafa átt munnmök við brotaþola og neitaði því einnig að hafa átt við hann endaþarmsmök.
Fyrir liggur vottorð F, læknis á Barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (BUGL), þar sem fram kemur að brotaþoli hafi verið þar til meðferðar vegna hegðunar og námserfiðleika. Niðurstaða greiningar hafi verið athyglisbrestur, óyndi, ofkvíðaröskun og mótstöðuþrjóskuröskun. Þá kemur fram í vottorðinu að hann sé haldinn áráttu- og þráhyggjuhegðun og sé ósveigjanlegur í hugsun. Óhætt sé að fullyrða að meint brot gagnvart honum hafi áhrif á hann nú og í framtíðinni. Eins og með öll önnur börn sé slíkt brot ofbeldi gagnvart þeim misnotkun á trausti barnsins. Brotaþoli sé á þeim aldri sem gera megi ráð fyrir að kynvitund hans sé að vakna og slíkt ofbeldi geti gert hann óöruggan varðandi eigin kynhegðun. Þegar í ofanálag komi hans flóknu veikleikar geti skilningur hans fyrir því hvað sé leyfilegt og ekki leyfilegt í þeim efnum, gagnvart honum sjálfum og öðrum, brenglast. Einmitt vegna þessara veikleika hans geti orðið erfiðara en ella að hjálpa honum að vinna sig í gegnum áfallið sem hann hafi orðið fyrir vegna hins meinta brots.
Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði G, sálfræðings hjá Barnahúsi, hefur hún haft brotaþola til meðferðar og hitt hann í 15 skipti. Kemur þar fram að drengurinn sé fáskiptinn og félagslega einangraður ásamt því að hann eigi erfitt með tjáskipti. Auðvelt sé að misnota hann og hann eigi erfitt með að ,,lesa aðra og setja mörk“. Í samantekt vottorðsins kemur fram að viðtölin við brotaþola hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt séu meðal barna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi í langan tíma. Hann glími við margvísleg einkenni kvíða. Sjálfsmat hans sé lágt og skapsveiflur og vantraust valdi honum umtalsverðum erfiðleikum, einkum í félagslegum samskiptum. Þá kemur fram að ákveðnir þættir misnotkunarinnar, m.a. gjafir sem hann hafi þegið, séu til fallnir til að auka mjög á sektarkennd og skömm. Þá sé þekkt að þar sem þolandi og gerandi séu af sama kyni geti þolandi upplifað efasemdir að því er varði eigin kynhneigð.
Í málinu liggur fyrir endurrit af MSN-samskiptum ákærða og brotaþola á tímabilinu 7. febrúar til 3. apríl 2008. Koma þar meðal annars fram eftirgreind samskipti þeirra hinn 10. mars, um kl. 22:
Ákærði: Hvað með borgun á þessu öllu? Brotaþoli: Ég borga þú veist það. Ákærði: Já ég veit en við verðum að hafa það á hreinu hvað við gerum fyrir hvern hlut. Brotaþoli: Já við erum allavega búnir að gera klárt með borgunina á tölvunni ekki satt? Ákærði: Jú gerum allt nokkrum sinnum. Brotaþoli: Nei bara einu sinni þú ríður mér bara einu sinni. Ákærði: Og þú tottar. Brotaþoli: Já. Ákærði: Ókey en leikina? Brotaþoli: Bara eins og venjulega. Ákærði: Þú ríður og ég totta. Brotaþoli: Já. Ákærði: Ókey einu sinni fyrir hvern leik. Brotaþoli: Já.
Eftirfarandi samskipti þeirra koma svo fram 3. apríl, upp úr kl. 18.41, skömmu áður en brotaþoli fer til fundar við ákærða í síðasta skiptið:
Brotaþoli: Geturu hist? Ákærði: Já eftir smá, hvað ertu að spá? Brotaþoli: Pening. Ákærði: Ok og hvað ætlar þú að gera í staðinn? Brotaþoli: Ríða. Ákærði: Ok, hún er að koma heim á bílnum ég kem þá, en vertu hérna á meðan, ok? Brotaþoli: Ok, ég vil fá 10.000. Ákærði: Fæ ég þá að ríða þér? Brotaþoli: Nei ég ríð þér þá fæ ég 5000, ok? Ákærði: Ok. Og um klukkustund síðar eru eftirfarandi samskipti milli þeirra: Ákærði: Ertu til núna? Brotaþoli: Sko.. ok getum við gert þannig að þú tottar mig og ég fæ pening? Ákærði: Nenni því ekki, gerum þetta bara seinna þá. Brotaþoli: Ok gerum þetta þá að ég ríð þér og ég fæ peninginn. Ákærði: Ok er að leggja af stað. Brotaþoli: Verð kominn eftir tuttugu mín á staðinn.
Þá má sjá samskonar samskipti milli þeirra 14. febrúar kl. 21.30 þar sem rætt er um greiðslu brotaþola fyrir tölvuleik en þá segir ákærði: „...en þú verður að segja mér nákvæmlega hvað þú ætlar að gera í staðinn.“ Og brotaþoli svarar: „Ríða.“ Í framhaldi koma svo hugleiðingar þeirra hvað varðar framkvæmd þess verknaðar.
Skýrslur fyrir dómi
Tekin var skýrsla af brotaþola, A, í Barnahúsi 17. apríl 2008 í samræmi við a-lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Skýrði drengurinn þá frá því að hann hefði fyrst hitt ákærða, sem verið hefði kunningi pabba hans, í veiðiferð fyrir þremur til fjórum árum. Hefði ákærði þá alltaf verið að segja honum að koma til sín og þá snert á honum rassinn. Fram kom hjá brotaþola að nokkru síðar, eða eftir að hann var orðinn þrettán ára, hefði hann byrjað að nota MSN. Fljótlega eftir það hefði ákærði „addað“ honum þar inn hjá sér og þeir þá verið þar í sambandi öðru hvoru. Hefði ákærði svo einhverju síðar spurt hann hvort hann langaði í eitthvað, eins og t.d. tölvuleik eða peninga, og hvort þeir ættu að hittast. Hefðu þeir síðan ákveðið að ákærði myndi sækja hann á einhvern tiltekinn stað. Kvaðst hann ekki muna nákvæmlega eftir fyrsta skiptinu en þessir fundir þeirra hefðu oftast byrjað þannig að ákærði byrjaði á því að spyrja hvort hann mætti snerta typpið á honum og svo einnig hvort hann mætti totta hann. Sagðist drengurinn ekki svara spurningum ákærða en ákærði „gerir það samt“. Er drengurinn var spurður hvort eitthvað annað hefði átt sér stað á fundum hans með ákærða sagði hann að ákærði hefði ,,spurt mig að því hvort ég vilji ríða honum“. Kvaðst hann ekki svara ákærða en ,,svo bara segir hann mér bara að ég ætti að gera það“, og hefði hann þá gert það. Hefði þetta byrjað nýlega og taldi drengurinn það hafa gerst í um fimm skipti. Spurður hvort þetta hefði einhvern tímann verið „öfugt“ svaraði drengurinn því til að ákærði hefði spurt hann hvort hann „eigi að gera við mig“? Kvaðst drengurinn hafa neitað því og ákærði þá sagt: Ókey. Hins vegar hefðu munnmökin átt sér stað í hvert skipti sem þeir hittust sem hefði örugglega verið oftar en tíu sinnum.
Brotaþoli kvaðst hafa hitt ákærða við [...] þegar hann var heima hjá mömmu sinni. Hefði ákærði þá ekið með hann á einhverja staði og væri einn þeirra einhvers staðar á leiðinni á [...]. Þegar hann aftur á móti hefði dvalið hjá pabba sínum hefðu þeir ákærði hist þar í bílskúrnum. Þá kvaðst hann einu sinni hafa farið heim til ákærða, í einhvern skúr hjá húsinu hans, og þá hefði ákærði í fyrsta skipti beðið hann um að ríða sér. Gat hann þess að ákærði hefði sagt honum að hann mætti engum segja og að ef hann segði frá myndi hann aldrei geta farið aftur í tölvuna. Þá gæti barnaverndarnefndin einnig komist í málið. Sagði hann vikur og stundum mánuði líða á milli þess að hann hefði hitt ákærða þar sem ákærði væri alltaf í útlöndum. Hefði ákærði alltaf gefið honum eitthvað í þau skipti sem þeir hefðu hist. Ef um peninga væri að ræða hefði hann fengið um 5.000 krónur. Þá ætti hann um sex tölvuleiki sem ákærði hefði gefið honum og kvaðst drengurinn hafa valið þá sjálfur.
Ákærði kvaðst upphaflega hafa kynnst brotaþola með því að faðir brotaþola hefði verið í sambandi við mágkonu ákærða. Vegna þessara tengsla hefði hann farið í ferðalög með fjölskyldu drengsins og dvalið með þeim í sumarbústað á [...]. Þá hefði hann verið með þeim feðgum í veiðiferð á árinu 2005. Samskiptin við drenginn í gegnum MSN hefðu byrjað skömmu síðar. Hefði brotaþoli þá lýst yfir miklum áhuga á PSP-tölvu sem ákærði hefði gefið syni sínum. Hefði ákærði sagt brotaþola að sjálfsagt væri að kaupa slíka tölvu og síðar hefði faðir drengsins haft samband vegna þessa og sagt að hann hygðist gefa syni sínum tölvuna. Í MSN-samskiptunum hefði brotaþoli beðið ákærða um leiki og hefði ákærði keypt þá fyrir hann og afhent honum er þeir hittust. Um önnur samskipti milli þeirra hefði ekki verið að ræða. Hins vegar hefði brotaþoli átt það til að hringja í hann, bæði heim og í farsíma. Samskiptin við drenginn á netinu hefðu því miður leiðst út í kynferðislegt tal á ákveðnum tímapunkti. Hefðu þeir, haustið 2006, rætt saman í hálfkæringi um stúlku, sem drengurinn hefði talað um sem kærustu sína, og þá meðal annars hvað hún ,,hafi leyft honum að gera og annað“. Hefði drengurinn, sem þá hefði nýlega verið orðinn 14 ára, svo sagt sér frá öðrum stúlkum og þeir síðan farið að ,,tala svona saman“. Þótt honum hefðu fundist þessar frásagnir drengsins ótrúlegar hefðu þeir í framhaldi farið að ræða um aðra kynferðislega hluti.
Ákærði sagði þá yfirleitt hafa mælt sér mót við [...] og drengurinn þá komið inn í bíl til hans. Hefðu þeir þá setið saman í nokkrar mínútur, keyrt svo einn hring um planið og drengurinn að því búnu fengið tölvuleik. Kvaðst ákærði ekki hafa hitt drenginn oftar en fjórum til fimm sinnum á því tímabili sem ákæra málsins tekur til. Kannaðist hann við að hafa látið brotaþola fá peninga að minnsta kosti þrívegis, einu sinni 2.000 krónur og 1.000 krónur í hin skiptin. Hefði drengurinn þá beðið hann um peninga, t.d fyrir hamborgara í skólanum, og hann fallist á það. Hefði hann og millifært 2.000 krónur á drenginn í tilefni af fermingu hans vorið 2006. Sagðist ákærði hafa hitt drenginn og keypt fyrir hann tölvuleikina vegna kynferðislegra samskipta þeirra á netinu. Drengurinn hefði hins vegar ekkert greitt honum í staðinn. Hefði drengurinn verið nokkuð heimtufrekur og jafnvel hótað að hann myndi segja foreldrum sínum frá hvað þeir væru að tala um. Hefði ákærði ekki viljað að kynferðisleg samskipti þeirra á netinu kæmust í hámæli og kvaðst hann telja að drengurinn hefði verið sama sinnis. Hins vegar hefði ekkert kynferðislegt gerst á milli þeirra og hefðu þeir ekki einu sinni rætt saman á kynferðislegum nótum er þeir hittust. Aðspurður sagði ákærði skýringuna á frásögnum drengsins af samskiptum þeirra hljóta að vera þá að drengurinn hefði verið að gera foreldrum sínum til geðs með því að segjast hafa verið neyddur með ofbeldi til að gera það sem fram kemur í tölvusamskiptunum. Ekkert af því sem um hefði verið rætt hefði gerst annað en það að hann hefði stundum keypt tölvuleikina fyrir drenginn.
Ákærði kvaðst hafa unnið mikið erlendis á því tímabili sem ákæran tekur til, lengst af í [...] en einnig lengi í [...]. Spurður hvort brotaþoli hefði verið upptekinn af tölvum og tölvuleikjum kvað ákærði hann ekki hafa verið það neitt ,,það mikið“. Hann hefði þó sýnt nýjum leikjum áhuga og kvaðst ákærði hafa keypt leiki fyrir hann þegar verðið var hagstætt. Spurður um hvað hann hefði vitað um andlegt atgervi brotaþola kvað ákærði hann mjög dulan og að oft hefði verið erfitt að tala við hann. Í kringum fjölskylduna hefði hann hins vegar virst ósköp eðlilegur. Ákærði kvaðst ekki hafa haft vitneskju um að drengurinn hefði í tvígang verið lagður inn á barnageðdeild enda hefðu veikindi hans ekki verið rædd af fjölskyldu hans.
Ákærði var spurður um MSN-samskipti hans við brotaþola 10. mars 2008 um kl. 22 sem áður hafa verið rakin. Var ákærði sérstaklega spurður hvort orðin ,,bara eins og venjulega“ mætti ekki skilja sem svo að þeir tveir hefðu í raun haft kynmök. Svaraði ákærði því þá til að þeir hefðu oft áður talað saman á þessum nótum án þess að neitt hefði gerst. Og varðandi ummælin: ,,Ég borga þú veist það“, sagði ákærði að drengurinn væri þar að vísa til þess að hann myndi borga með þeim hætti sem fram kæmi í samtölunum. Drengurinn hefði hins vegar ekki fengið neinn tölvuleik þá og hefði aldrei borgað með þessum hætti fyrir leikina. Spurður um áðurgreint samtal er ákærði átti við brotaþola hinn 3. apríl 2008 kvaðst ákærði hafa mælt sér mót við brotaþola umrætt sinn. Kvaðst hann ekki hafa verið með neinn leik fyrir drenginn en drengurinn hefði í fyrstu beðið um 10.000 krónur en svo lækkað sig í 5.000 krónur. Þá kvaðst hann hafa vitað að hann yrði að tala við drenginn ,,og reyna að settla þetta mál við hann“. Hefði drengurinn hringt heim til hans og hann því ætlað sér að hitta drenginn til að ,,settla málið“. Spurður um kynhneigð sína taldi ákærði sig vera tvíkynhneigðan en hann hefði ekki stundað kynlíf með karlmönnum. Þá kvaðst hann hafa, á tímabilinu 15. mars til loka júlí 2007, starfað erlendis og aðeins komið heim einu sinni í nokkra daga í maímánuði. Loks kom fram hjá honum að innréttuð væri íbúð í bílskúrnum við heimili hans og væri hún í útleigu.
B, faðir brotaþola, kvaðst hafa kynnst mágkonu ákærða á árunum 2002-2003. Hefðu samskipti hans við hana staðið í um ár og á því tímabili hefði sonur hans kynnst fjölskyldu konunnar og haft samskipti við ákærða. Hefðu þau farið í ferðalög saman, að minnsta kosti í tvígang. Í september 2005 hefðu þeir svo farið í veiðiferð en á þeim tíma hefðu samskiptin verið lítil. Hefði hann haft vitneskju um að sonur sinn væru í samskiptum við ákærða á MSN. Hefði hann hins vegar ekki skoðað þau samskipti neitt og ekki grunað neitt misjafnt í þeim efnum. Lýsti ákærði því að sonur hans hefði verið greindur með svokallaða ódæmigerða einhverfu, en megineinkenni hennar væru vandamál með félagsleg tengsl. Væri enginn vafi um að sonur hans væri ekki eins og aðrir krakkar á hans aldri. Talaði hann til að mynda ekki við fólk af fyrra bragði, væri afskaplega feiminn og óframfærinn. Kvað hann drenginn nota tölvuna fyrst og fremst í samskiptum en vitninu kvaðst ekki hafa dottið í hug að það ,,væri einhver viðbjóður í gangi þar“. Sagði hann son sinn hafa sagt sér af því að hann hefði rætt við ákærða á MSN og svo sagði hann drenginn hafa einhverju sinni hringt í ákærða. Sagði hann tölvunotkun drengsins alltaf hafa verið vandamál og hefði hann þurft að stýra notkuninni. Við það hefði hann fengið aðstoð frá BUGL og hefði verið hannað plan þar sem fram kæmi hvenær hann mætti vera í tölvu og hvenær ekki. Að öðrum kosti væri drengurinn í tölvunni allan sólarhringinn. Hann væri haldinn tölvufíkn. Spurður um það hvort sonur hans hefði átt kærustu eða kærasta sagði vitnið það ekki hafa verið og hann hefði aldrei farið á skólasamkomur. Spurður hvort sonur hans hefði tjáð sig um það sem hefði gerst á milli hans og ákærða sagði hann son sinn hafa gert það fyrst eftir að málið kom upp en ekkert eftir það. Hefði sonur hans ,,ekki farið nákvæmlega út í það“ en talað um að kynferðislegt samband hefði verið á milli þeirra. Kvaðst hann hafa fundið fyrir að drengnum væri nokkuð létt eftir að hann gaf skýrslu vegna málsins. Spurður hvort hann hefði greint einhverjar breytingar á drengnum á því tímabili er meint brot áttu sér stað sagði vitnið að drengurinn hefði alla tíð verið erfiður og hann hefði einnig verið erfiður á þessu tímabili. Kvaðst hann ekki geta greint hvort drengurinn hefði verið öðruvísi þá en alla jafna.
D, móðir brotaþola, sagði son sinn ekki vera eins og hvert annað barn. Hann væri félagsfælinn og með mikla kvíðaröskun. Hann væri í litlum sem engum samskiptum við aðra krakka og hefði átt einn eða tvo vini. Spurð um það hvort hann hefði einhvern tímann átt kærustu eða kærasta sagðist hún geta fullyrt að svo væri ekki. Sagði hún son sinn hafa byrjað á MSN-samskiptum í kringum 2005, en kvaðst þó ekki muna það nákvæmlega. Hann væri með þráhyggju hvað tölvunotkun varðaði og væri hann mestmegnis í tölvuleikjum. Spurð um það hvernig málið hefði komið upp sagði vitnið að sér hefði fundist sérkennilegt að drengurinn hefði verið byrjaður að fara nokkuð oft einn út í göngutúra. Hefði henni fundist það jákvætt af því að hún hefði talið hann vera að fara út til að sparka bolta eða eitthvað því um líkt. Hefði hann þá oftast verið í tölvunni og svo farið út í kjölfar þess. Hefði hann ekki svarað spurningum um ferðir sínar öðruvísi en svo að hann væri að fara út að ganga. Vegna grunsemda um að ekki væri allt með felldu hefði hún beðið systur hans um að vista samskipti hans á MSN. Þegar mál þetta kom upp hinn 3. apríl 2008 hefði drengurinn nýlega verið búinn að fá Playstation-tölvu inn í herbergi til sín. Eftir að hann hefði verið búinn að sitja við tölvuna stutta stund hefði hann allt í einu rokið út. Hefði hún þá orðið þess fullviss að eitthvað einkennilegt væri á seyði. Hefði hún því beðið systur hans um að kanna málið og hún þá séð MSN-samtalið og um leið hvers eðlis var. Hefði hún þá hringt í C eiginmann sinn sem hafi þá verið á leið heim úr vinnu. Hefði hann rokið af stað til þess að leita að drengnum og fundið hann fljótlega. Hefði drengurinn verið niðurbrotinn á eftir og ekki viljað koma inn fyrr en að hálftíma liðnum. Hefði hann í fyrstu ekkert sagt og þau þá tekið þá ákvörðun að leyfa honum að jafna sig. Hefðu þau rætt málið við hann en hann ósköp lítið sagt. Daginn eftir hefði hann svo sagt henni af samskiptum sínum við ákærða. Hefði það orðið til þess að hún hefði þurft að fara fram á bað og kasta upp. Hefði sonur hennar er frá leið rætt við hana meira og meira um málið og sagt henni að upphafið hefði verið í veiðiferð. Hefði drengurinn átt erfitt með að ræða málið en hins vegar hefði hún fengið greinargóða lýsingu á því sem þeim ákærða fór í milli og að um kynmök hefði verið að ræða. Kvaðst hún telja að það hefði verið töluverður léttir fyrir drenginn er málið komst upp, en að hann ætti jafnframt erfiðara uppdráttar á eftir. Sonur hennar hefði alltaf átt erfitt og ,,þetta væri kannski ekki á það bætandi“. Kvaðst hún hafa heyrt af því að ákærði hefði haft samband við drenginn þá um haustið og sagt honum að segja að þetta væri allt saman lygi og draga framburð sinn tilbaka. Hefði drengurinn sagt sér frá því og hefði hann jafnframt sagst sjálfur hafa haft samband við ákærða í tengslum við tölvuleik. Væri það til marks um áráttuhegðun hans í tengslum við tölvur að hann hefði ekki getað beðið með að fá svar við tilteknu vandamáli í tengslum við tölvuleik og hefði hann því hringt í ákærða til að fá hjálp.
C, fósturfaðir brotaþola, lýsti því er mál þetta kom upp. Sagði hann D, konu sína, hafa komið hlaupandi á móti sér er hann kom heim umrætt kvöld og sagt að drengurinn hefði farið út og að dóttir hennar hefði athugað tölvuna og séð samskipti hans við ákærða. Hefði vitnið þá strax farið á bílnum til að leita að drengnum og fundið hann við rafmagnsskúr hjá [...], eins og hann væri þar að bíða eftir einhverju. Hefði vitnið þá boðið honum að koma inn í bíl til sín sem hann hefði þegið. Kvaðst vitnið hafa fært bílinn aðeins í skjól og beðið. Eftir örfáar mínútur hefði bíll komið þar að og hefði hann séð ökumanninn skimandi í allar áttir. Hefði hann svo elt bílinn og tekið niður bílnúmer en að því búnu farið heim. Drengurinn hefði ekki viljað koma inn í fyrstu og ekkert viljað tjá sig. Sjálfur kvaðst hann hafa haft aðgang að bifreiðaskrá og því getað flett upp eiganda bílsins. Eftir það hefði tengingin við ákærða legið fyrir. Kvaðst vitnið ekki hafa rætt mikið við drenginn um það sem gerst hefði. Hann hefði þó sagt honum að það væri ekki eðlilegt og ekki hans sök, enda væri hann bara barn. Vitnið kvað drenginn hafa verið stjúpson sinn í 13 ár. Sagði hann að sumir gætu í fyrstu haldið að ekkert væri að honum, en að engum gæti dulist sem ætti við hann einhver samskipti að hann væri veikur og öðru vísi en flest börn.
F læknir staðfesti vottorð sem hún hefur gefið vegna málsins og skýrði það frekar. Kom meðal annars fram hjá henni að eftir því sem árin hefðu liðið hefði betur komið í ljós að einkenni brotaþola féllu undir ódæmigerða einhverfu. Hefði drengnum reynst mjög erfitt að fara eftir settum reglum um tölvunotkun og hefði mikil hætta verið á því að tölvunotkunin færi að stjórna lífi hans. Um hugsanlegar afleiðingar meintra brota sagði hún ljóst að vinna þyrfti mikið með drenginn vegna kynhegðunar hans í kjölfarið og að sú hætta væri fyrir hendi að hún gæti brenglast vegna þeirra. Gæti þetta því haft varanleg áhrif á hann. Sagði vitnið brotaþola sannarlega vera þroskaskertan á vissum sviðum. Sagði hún að krakkar með ódæmigerða einhverfu segðu yfirleitt satt og rétt frá þegar þau væru spurð og að þau væru ekki mikið gefin fyrir ýkjur. Þá sagði hún þekkt með slík börn að þau átti sig ekki alltaf á því hvað sé rétt eða rangt við tilteknar aðstæður og að auðvelt sé að fá þau til að gera hluti sem þau eigi ekki að gera. Í tilviki brotaþola taldi hún svo vera, sér í lagi ef hann fengi góða umbun fyrir. Kvað hún þau verðlaun sem í boði voru hafa hentað honum vel því á sama tíma hefðu foreldrar hans verið að reyna að minnka tölvunotkun hans.
Vitnið G sálfræðingur sagði brotaþola eiga mjög erfitt með að lesa félagsleg samskipti, en vilji þó vera í slíkum samskiptum. Togist mjög á í honum tilfinningar gagnvart ákærða í tengslum við mál þetta. Hafi komið fram hjá honum að áður en málið kom upp hafi þeir hist oft og verið mikið í sambandi. Um afleiðingar hinna meintu brota sagði vitnið að vissulega fléttist mikið saman þær raskanir og þeir andlegu erfiðleikar sem drengurinn hafi verið greindur með og hugsanlegar afleiðingar hins meinta brots. Hún horfi hins vegar aðallega á sektarkennd drengsins, sem komið hafi sterkt fram í viðtölum við hann, endurupplifanir vegna samskiptanna við ákærða og skömm vegna þeirra, en drengurinn hafi sjálfur tengt þessar afleiðingar við umrædd atvik. Sagði hún að þekkt væri að þegar um sé að ræða slíkt brot af hendi einstaklings af sama kyni þá geti það haft meiri áhrif á þolandann en annars væri. Eigi þetta enn frekar við þegar það gerist á unglingsárunum og í tilviki brotaþola sérstaklega þar sem hann taki allt mjög bókstaflega vegna annmarka sinna. Aðspurð sagði hún sitt mat vera það að tvímælalaust eigi að blasa við hverjum þeim sem hefði einhver samskipti við drenginn að hann sé ekki venjulegur unglingur og að hann eigi við einhverja þroskaskerðingu eða röskun að stríða. Hann hefði mjög erfitt samskiptamunstur og erfitt væri að ná til hans.
Niðurstaða
Eins og fyrr greinir kemur mál þetta upp með þeim hætti að móðir A varð þess vör að hann fór óvænt að heiman frá sér rétt eftir kvöldmat með þeim orðum að hann væri að fara í göngutúr. Kom fram hjá henni að henni hafi þótt orðið grunsamlegt að hann væri farinn að fara í slíka göngutúra og fengið á tilfinninguna að ekki væri allt með felldu. Hefði sá grunur verið staðfestur þegar hún og dóttir hennar sáu í tölvu brotaþola þau samskipti sem hann hafði þá átt þar við einhvern sem kallaði sig E þar sem þeir mæla sér mót og ræða um að drengurinn „ríði“ honum og fái í staðinn 5.000 krónur.
Ákærði hefur kannast við að hafa ætlað að hitta brotaþola við [...] í greint sinn og að hann hafi verið í þeim MSN-samskiptum við brotaþola sem fram koma í gögnum málsins og áður hefur að hluta verið lýst. Viðurkennir ákærði að hafa hitt drenginn áður í nokkur skipti, yfirleitt hjá [...]. Hafi þeir þá setið saman í nokkrar mínútur, keyrt svo einn hring þar um planið og drengurinn að því búnu fengið tölvuleik sem ákærði hafi keypt fyrir hann á ferðum sínum erlendis. Þá kannast ákærði við að hafa látið drenginn að minnsta kosti þrisvar fá peninga, einu sinni 2.000 krónur og 1.000 krónur í hin skiptin. Ákærði neitar því hins vegar að þær kynlífsathafnir milli þeirra, sem þeir hafi rætt um sín í milli á netinu, hafi í raun átt sér stað.
Brotaþoli hefur lýst því að þeir ákærði hafi mælt sér mót fljótlega eftir að þeir fóru að spjalla saman á MSN. Hafi ákærði strax fyrir fyrsta fundinn spurt hvort hann vildi fá tölvuleik eða eitthvað annað og á móti hafi ákærði spurt hvort hann mætti „totta“ brotaþola. Hafi þetta síðan gengið eftir og þeir margsinnis hist í þessum tilgangi. Þetta hafi síðar þróast út í að ákærði hafi viljað, eftir að hafa „tottað“ hann, að brotaþoli myndi „ríða“ ákærða. Hafi það gengið eftir síðustu skiptin sem þeir hittust, líklega um fimm síðustu skiptin. Verður að skilja framburð þennan svo, með hliðsjón af MSN-spjalli þeirra, að um munnmök og endaþarmsmök hafi verið að ræða.
Við mat á trúverðugleika framburða ákærða og brotaþola lítur dómurinn til þeirra tölvusamskipta á milli þeirra sem fyrir liggja í málinu. Er það mat dómsins að framsetning þeirra og það orðfæri sem þar kemur fram bendi eindregið til þess að samræður þeirra um kaup á tölvuleikjum og endurgjald drengsins í formi kynlífsgreiða hafi haft skírskotun til raunverulegra atvika sem ýmist höfðu gerst eða vilji stóð til að framkvæma. Þá verður hér og horft til viðurkenningar ákærða á því að hann hafi, án vitundar foreldra drengsins, verið í umræddum tölvusamskiptum við drenginn, hitt hann í nokkur skipti og gefið honum tölvuleiki og peninga, og ótrúverðugra skýringa ákærða í þá veru að tilgangur þessa hafi einungis verið sá að geta haldið áfram kynferðislegum samræðum sínum við drenginn á netinu. Loks verður hvað þetta varðar litið til vottorðs og vættis F læknis og vitnisburðar foreldra drengsins og fósturföður um þroskaskerðingu hans og tölvuáráttu og framburður læknisins um að krakkar með ódæmigerða einhverfu, eins og brotaþoli sé greindur með, segi yfirleitt satt og rétt frá þegar þau séu spurð og séu ekki mikið gefin fyrir ýkjur. Auðvelt sé að fá þau til að gera hluti sem þau eigi ekki að gera, og í tilviki brotaþola sér í lagi ef hann fái góða umbun fyrir. Að þessu virtu, og eftir að hafa horft og hlýtt á upptöku af skýrslu drengsins í Barnahúsi og farið að öðru leyti vandlega yfir framburð hans, er það niðurstaða dómsins að frásögn hans sé í alla staði trúverðug og að leggja beri hana til grundvallar niðurstöðu í málinu. Engu breyta í þessu sambandi þær staðhæfingar ákærða að hann hafi á því tímabili sem ákæran nær yfir verið bundinn erlendis vegna verksamninga og því ekki á því tímabili komið eins oft hingað til lands og þar er lýst. Ákærði hefur sjálfur kannast við að hafa hitt drenginn í nokkur skipti og gögn þau sem ákærði hefur lagt fram vegna þessa útiloka engan veginn að hann hafi getað hitt drenginn eins og nánar er lýst í ákæru.
Þegar allt framangreint er metið heildstætt telst því hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi haft þau kynmök við brotaþola sem í ákæru greinir, í þau skipti og á þeim stöðum sem þar er nánar lýst. Þá er það og niðurstaða dómsins, með hliðsjón af framangreindum tölvusamskiptum og gögnum um veikindi og áráttukennda hegðun drengsins, að ákærði hafi vitað um aldur hans og hlotið, eftir samskipti við hann allt frá því að þeir hittust fyrir þremur til fjórum árum síðan, að hafa gert sér grein fyrir þroskaskerðingu hans, reynsluleysi af kynlífi og tölvufíkn. Hafi ákærði notfært sér veikleika hans og tælt hann til kynmakanna. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir. Varðar háttsemi hans við ákvæði 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að öðru leyti en því að vegna tímabilsins frá 24. júlí 2006, er ákærði varð 14 ára, og til gildistöku laga nr. 61/2007, er aldursmark ákvæðis 1. mgr. 202. gr. var hækkað í 15 ár, varðar hún við ákvæði 3. mgr. 202. gr. laganna eins og nánar greinir í ákæru.
Ákvörðun refsingar, skaðabóta o.fl.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Brot þau sem hann hefur verið fundinn sekur um eru alvarleg og beindust að ungum, þroskaskertum dreng með áráttukennda hegðun. Hefur ákærði notfært sér þessa veikleika drengsins til að misnota hann kynferðislega og sýnt styrkan og einbeittan brotavilja við framkvæmd brotanna. Brot ákærða voru að hluta framin eftir 4. apríl 2007, en þá öðluðust gildi lög nr. 61/2007, sem meðal annars breyttu ákvæði 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Verður til þess litið við ákvörðun á refsingu ákærða. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin, með vísan til 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í 4 ár.
Af hálfu brotaþola er gerð krafa um að ákærði greiði honum miskabætur að fjárhæð 4.000.000 króna, að viðbættum vöxtum skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er krafan rökstudd þannig að brotaþoli hafi liðið miklar andlegar kvalir út af verknaði ákærða, allt frá því að brot ákærða hófust gagnvart honum. Hafi drengurinn við það glatað sakleysi sínu, öryggistilfinningu og trausti til fullorðinna og fyrirsjáanlegt sé að hann þurfi á að halda langvinnri sálrænni meðferð vegna þessa.
Ákærði hefur með athöfnum sínum brotið alvarlega og ítrekað gegn brotaþola þegar hann var á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Með vísan til þess og vottorða og framburða G sálfræðings og F læknis verður fallist á að brotaþoli eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða og þykja þær, með tilliti til alvarleika brotanna, hæfilega ákveðnar 1.500.000 króna. Ber sú fjárhæð vexti eins og greinir í dómsorði.
Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara féll enginn útlagður kostnaður til við rannsókn málsins. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, þóknun hans fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákvarðast allt með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Mál þetta sótti af hálfu ákæruvaldsins Sigríður Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.
Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Ingimundur Einarsson og Kristjana Jónsdóttir.
Dómsorð:
Ákærði, Jón Sverrir Bragason, sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2006 til 5. apríl 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði greiði 752.976 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., og 334.656 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lilju Jónasdóttur hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi.