Hæstiréttur íslands

Mál nr. 533/2012


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfuréttur
  • Skuldskeyting
  • Veðréttindi
  • Handveð


Fimmtudaginn 14. mars 2013.

Nr. 533/2012.

Auður Arna Eiríksdóttir

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

gegn

MP banka hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Kröfuréttur. Skuldskeyting. Veðréttindi. Handveð.

A setti með handveðsyfirlýsingu 25. júlí 2008 MPF hf. að handveði alla fjármálagerninga sína samkvæmt viðskiptamannayfirliti dagsettu sama dag. Skyldi veðsetningin vera til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á öllum skuldbindingum A og A ehf., félags í hennar eigu, við bankann. Jafnframt setti A bankanum að handveði með sömu handveðsyfirlýsingu tiltekinn reikning sem varðveittur var í K hf. Innstæða sem flutt hafði verið af þeim reikningi til SÍ, vegna óróa á íslenskum fjármálamörkuðum, var 15. desember 2008 lögð inn á reikning A í MPF hf. Þann 16. mars 2009 ráðstafaði MP hf. innstæðunni til greiðslu á fjárskuldbindingum A hf. Í málinu krafði A MP hf. um þá fjárhæð og taldi bankann hafa ráðstafað fjármununum á ólögmætan hátt. MP hf. krafðist sýknu á grundvelli aðildarskorts og taldi sig enga ábyrgð bera á þeirri ákvörðun forvera síns að ráðstafa umræddri fjárhæð af reikningi A. Taldi Hæstiréttur að með samþykki F á yfirfærslu tiltekinna rekstrarhluta, þ.m.t. innlánsreikninga, hafi átt sér stað skuldaraskipti á grundvelli 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og að nýr skuldari hafi komið í stað fyrri skuldara. A hafi því verið rétt að beina endurgreiðslukröfu sinni að MP hf. Þá taldi Hæstiréttur að K hf. hefði sem þriðji maður tekið að sér varðveislu veðsins í skilningi fyrsta málsliðar 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og að til þeirrar ráðstöfunar hafi verið stofnað með samkomulagi A og MPF hf. Þegar sá innlánsreikningur hafi verið færður úr K hf. til SÍ og síðar MPF hf. hafi vörslum þriðja manns á veðandlaginu lokið og MPF hf. hafi sjálfur tekið við varðveislu þess svo sem lægi í eðli handveðréttar. Réttarvernd þeirri sem MPF hf. hafði öðlast í öndverðu við handveðsetningu reiknings A í K hf. hafi því ekki verið fallin niður þegar hin umkrafða fjárhæð var tekin út af reikningi A í MPF hf. Var MP hf. því sýknaður af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2012. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 5.643.919 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Lántökum áfrýjanda hjá MP Fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007 til að fjármagna kaup hennar á stofnfjárhlutum í BYR sparisjóði er ásamt efndum þeirra samninga og uppgjöri nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með samningi 25. júlí 2008 tók einkahlutafélag í eigu áfrýjanda, Auður er afl ehf., lán hjá MP Fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 202.679.228 krónur til að fjármagna kaup þess félags á stofnfjárhlutum í BYR sparisjóði og skuldbatt lántaki sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 26. janúar 2009. Í lánssamningnum kom fram að til tryggingar endurgreiðslu lánsins settu áfrýjandi og sjö nánar tilgreindir einstaklingar lánveitanda að handveði stofnfjárbréf sín í BYR sparisjóði og geymslusafn þar. Sama dag og síðastgreindur lánssamningur var gerður undirritaði áfrýjandi sérstaka handveðsyfirlýsingu þar sem hún setti MP Fjárfestingarbanka hf. að handveði með 1. veðrétti alla fjármálagerninga sína samkvæmt viðskiptamannayfirliti dagsettu þann sama dag. Skyldi veðsetningin vera til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á öllum skuldbindingum veðsala og Auður er afl ehf. við MP Fjárfestingarbanka hf.

Þá setti veðsali lánveitandanum MP Fjárfestingarbanka hf. einnig að handveði með sömu handveðsyfirlýsingu reikning sinn „nr. [...]813, sem er í vörslu og umsjón veðhafa f.h. veðsala, og alla inneign eða innstæðu sem myndast vegna viðskipta veðsala hjá eða við veðhafa og lögð er inn á reikninginn. Reikningurinn er í vörslu og umsjón veðhafa þannig að veðsali hefur engan ráðstöfunarrétt yfir reikningnum og er óheimilt að ráðstafa innstæðu reikningsins nema með skriflegu samþykki veðhafa. Handveðsrétturinn nær til allrar innstæðu á reikningnum, eins og hún er hverju sinni, hverju nafni sem nefnist, hvort sem um höfuðstól, vexti, verðbætur eða annað er að ræða. Handveðsréttur veðhafa nær til hvers konar arðs og vaxta sem falla til á gildistíma veðsetningarinnar enda þótt þær skuldbindingar sem hið veðsetta á að tryggja séu ekki gjaldfallnar. Öllum fjármunum þeim, sem safnast inn á framangreindan reikning, er veðhafa heimilt að ráðstafa einhliða til greiðslu á skuldum veðsala og ábyrgðum á hverjum tíma hjá veðhafa. Þá er veðhafa heimilt, hvenær sem er, að taka sér greiðslu af handveðinu, eins og þörf krefur, allt að mati veðhafa og án afskipta eða atbeina annarra, til lúkningar gjaldföllnum kröfum veðhafa á hendur veðsala samkvæmt framangreindu auk vaxta, dráttarvaxta, gengisálags og alls kostnaðar.“

II

Þegar áfrýjandi og Auður er afl ehf. tóku framangreind lán á árunum 2007 og 2008 hjá MP Fjárfestingarbanka hf. var kennitala þess banka 540599-2469. Á þeim tíma hafði sá banki ekki viðskiptabankaleyfi og mun bankainnstæðan sem vísað var til í handveðsyfirlýsingunni 25. júlí 2008 því hafa verið varðveitt á reikningi nr. [...]813 í Kaupþingi banka hf. Fjárhæð innstæðunnar kom ekki fram í handveðsyfirlýsingunni 25. júlí 2008 en samkvæmt bankayfirliti voru lagðar 5.000.000 krónur inn á reikninginn 11. janúar 2008. 

Vegna þess óróa sem varð á íslenskum fjármálamörkuðum í október 2008 mun MP Fjárfestingarbanki hf. hafa tekið þá ákvörðun að flytja innstæður sínar og viðskiptamanna sinna, þar á meðal innstæðuna á reikningi nr. [...]813, frá Kaupþingi banka hf. til Seðlabanka Íslands og var það gert 8. október 2008. Fram er komið í málinu að MP Fjárfestingarbanki hf. mun hafa fengið viðskiptabankaleyfi 10. október 2008. Þann 12. desember 2008 var stofnaður á nafni áfrýjanda í MP Fjárfestingarbanka hf. innlánsreikningur nr. [...]774. Innstæða sú að fjárhæð 5.000.000 krónur, sem flutt hafði verið úr Kaupþingi banka hf. yfir í Seðlabanka Íslands, var 15. desember 2008 lögð inn á hinn nýja reikning áfrýjanda í MP Fjárfestingarbanka hf. Síðar bættust vextir við höfuðstólinn og nam fjárhæð innstæðunnar 5.643.919 krónum 16. mars 2009.

MP banki hf. ráðstafaði 16. mars 2009 innstæðunni á reikningi áfrýjanda nr. [...]774 í þeim banka samkvæmt því sem á bankayfirliti segir „v/láns“. Er ekki um það deilt að fjárhæðinni mun hafa verið varið til greiðslu upp í vangoldna skuld Auður er afl ehf. samkvæmt lánssamningnum 25. júlí 2008 sem áður er frá greint. Nafni MP Fjárfestingarbanka hf. með kennitöluna 540599-2469 mun hafa verið breytt í MP banki hf. með sömu kennitölu. Ekki kemur fram hvenær sú nafnbreyting var gerð en af gögnum málsins verður þó ráðið að það hafi gerst fyrir 16. mars 2009. Á hinn bóginn er fram komið að nafni MP banka hf. var 11. apríl 2011 breytt í EA fjárfestingarfélag hf. með sömu kennitölu, 540599-2469. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2011 var bú Auður er afl ehf. tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu MP banka hf. með kennitöluna 540599-2469. Var krafa um gjaldþrotaskiptin dagsett 30. mars 2011 og móttekin 14. apríl sama ár.

III

Meðal gagna málsins er frétt af vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, fme.is. Þar segir meðal annars: „Samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir yfirfærslu rekstrarhluta skv. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið samþykkti þann 11. apríl 2011 yfirfærslu á tilgreindum rekstrarhluta EA fjárfestingarfélags hf. (áður MP banki hf.) kt. 540599-2469, til MP banka hf. (áður nb.is-sparisjóður hf.) ... Fjármálaeftirlitið veitti þann 11. apríl 2011 MP banka hf. (áður nb.is-sparisjóður hf.), kt. 540502-2930, Ármúla 13a, 108 Reykjavík, starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Frá sama tíma fellur niður starfsleyfi félagsins sem sparisjóður.“

Í tilefni fyrirspurnar frá lögmanni áfrýjanda 3. nóvember 2011 segir svo í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins sem barst lögmanninum 10. nóvember sama ár: „Með yfirfærslu rekstrarhlutans færðust þann 11. apríl sl. öll innlán EA fjárfestingarfélags (áður MP banki) til MP banka. Með innlánum í þessu tilviki er væntanlega átt við innlánsreikninga. Hvort ábyrgð á ráðstöfun af innlánsreikningi umbjóðanda þíns heyri undir EA fjárfestingarfélag eða MP banka getur Fjármálaeftirlitið ekki lagt mat á. EA fjárfestingarfélag hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 ... og hefur heimild skv. a. lið 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. ... til að taka á móti innlánum.“ Með bréfi 16. október 2012 til lögmanns stefnda frá KPMG ehf., sem ritað er í tilefni dómsmáls þessa, segir svo: „Samkvæmt beiðni yðar, ... staðfestum við sem kjörnir endurskoðendur MP banka hf., kt. 540502-2930, ... að við kaup bankans á tilgreindum rekstrarhlutum af EA fjárfestingarfélagi hf. (áður MP banki hf.), kt. 540599-2469, hinn 1. apríl 2011, fylgdu engar kröfur á hendur Auði er afl ehf. ... Lánssamningur seljanda (EA fjárfestingarfélags hf.) við Auði er afl ehf., dags. 25. júlí 2008, að fjárhæð 202.679.228 krónur, er því ekki og hefur ekki verið meðal eigna MP banka hf., kt. 540502-2930.“ Önnur gögn um yfirtöku stefnda á innlánsskuldbindingum EA fjárfestingarfélags hf. hafa ekki verið lögð fram í málinu.

IV

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda, MP banka hf. með kennitöluna 540502-2930, um endurgreiðslu á þeim 5.643.919 krónum sem MP banki hf. með kennitöluna 540599-2469 ráðstafaði 16. mars 2009 af reikningi áfrýjanda nr. [...]774 í þeim banka. Ágreiningur málsaðila hvað varðar endurgreiðsluskyldu stefnda er í aðalatriðum tvíþættur. Í fyrsta lagi telur stefndi sig enga ábyrgð bera á þeirri ákvörðun MP banka hf. með kennitöluna 540599-2469 að ráðstafa umræddri fjárhæð af reikningi áfrýjanda í bankanum 16. mars 2009. Kveðst stefndi hafa tekið yfir innlánsskuldbindingar í bankanum miðað við stöðu þeirra á yfirtökudeginum 11. apríl 2011, og séu meintar ólögmætar færslur forvera stefnda af reikningnum fyrir þann tíma sér óviðkomandi. Þessu er áfrýjandi ekki sammála og telur þann aðila sem yfirtók innlánsskuldbindinguna bera ábyrgð gagnvart sér á heimildarlausri úttekt forverans af reikningnum. Í öðru lagi deila aðilar um hvort sú réttarvernd, sem MP Fjárfestingarbanki hf. öðlaðist með handveðsyfirlýsingunni 25. júlí 2008 í innstæðu áfrýjanda á reikningi nr. [...]813 í Kaupþingi banka hf., hafi fallið niður við flutning innstæðunnar, fyrst til Seðlabanka Íslands 8. október 2008 og síðar til MP Fjárfestingarbanka hf. 15. desember sama ár, þar sem ekki hafi verið gefin út ný handveðsyfirlýsing sem tryggði lánveitandanum, MP Fjárfestingarbanka hf., veðrétt í innstæðu áfrýjanda á hinum nýja bankareikningi. Eru málsástæður og lagarök aðila í þeim efnum nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

V

Eins og kemur fram í kafla III hér að framan samþykkti Fjármálaeftirlitið 11. apríl 2011, með vísan til 106. gr. laga nr. 161/2002, yfirtöku stefnda á tilgreindum rekstrarhlutum EA fjárfestingarfélags hf. Samningur um yfirtökuna, sem mun vera dagsettur 1. apríl 2011, hefur ekki verið lagður fram í málinu. Samkvæmt bréfi Fjármálaeftirlitsins 10. nóvember 2011 til lögmanns áfrýjanda, sem ritað er í tilefni máls þessa, fól yfirfærsla rekstrarhlutans í sér að öll innlán í EA fjárfestingarfélagi hf., sem áður bar nafnið MP banki hf. með kennitöluna 540599-2469, færðust til stefnda. Er þetta ágreiningslaust með málsaðilum.

Meðan áfrýjandi átti innstæðu í EA fjárfestingarfélagi hf. naut hann sem slíkur stöðu kröfuhafa gagnvart bankanum sem var skuldari í þeim lögskiptum þeirra. Bar bankanum sem skuldara að standa áfrýjanda skil á þeim fjárhæðum er hinn síðarnefndi átti hjá honum í samræmi við þær reglur sem um slíka innlánsreikninga gilda samkvæmt lögum og samningum. Það er meginregla í kröfurétti að skuldaraskipti geta ekki orðið að kröfuréttindum án samþykkis kröfuhafa. Hefur reglan það að markmiði að vernda hagsmuni kröfuhafa þannig að staða hans verði ekki verri við það að nýr skuldari komi í stað hins upphaflega án atbeina kröfuhafa. Frá meginreglunni gilda ákveðnar undantekningar meðal annars á grundvelli skráðra réttarreglna og er 106. gr. laga nr. 161/2002 dæmi slíkrar lagaheimildar. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að með fyrrgreindum samningi 1. apríl 2011, sem hlaut samþykki Fjármálaeftirlitsins 11. sama mánaðar, hafi orðið skuldaraskipti á grundvelli 106. gr. laga nr. 161/2002 og að nýr skuldari, stefndi MP banki hf. með kennitöluna 540502-2930, hafi komið í stað fyrri skuldara. Eins og áður greinir hefur samningur um yfirtöku stefnda á innlánsskuldbindingum EA fjárfestingarfélags hf. ekki verið lagður fram í málinu. Í ljósi fyrrgreindrar meginreglu kröfuréttar um skuldaraskipti verður stefndi gegn andmælum áfrýjanda að bera hallann af sönnunarskorti um það hvort fyrrgreind skuldaraskipti urðu miðað við stöðu innlánsreiknings áfrýjanda í bankanum á yfirtökudegi eða hvort í henni fólst að tekin væru yfir auk innstæðunnar öll réttindi áfrýjanda sem tengdust reikningi hans í bankanum. Breytir engu í þessu sambandi sú yfirlýsing KPMG ehf., sem greinir frá í kafla III hér að framan, að við kaup stefnda á tilgreindum rekstrarhlutum EA fjárfestingarfélags hf. hafi engar kröfur á hendur Auður er afl ehf. frá 25. júlí 2008 fylgt með og þar með ekki áðurgreindur lánssamningur frá 25. júlí 2008. Samkvæmt þessu er áfrýjanda rétt að beina endurgreiðslukröfu í málinu að stefnda og kemur því ekki til álita að hann verði sýknaður af kröfum áfrýjanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ekki er fyllilega upplýst í málinu hver var aðdragandi þess að reikningur nr. [...]813 var stofnaður í Kaupþingi banka hf. Af málatilbúnaði aðila virðist þó mega ráða að það hafi gerst í tengslum við lántökur áfrýjanda hjá MP Fjárfestingarbanka hf. og sem liður í ráðstöfunum til að tryggja endurgreiðslu þeirra lána. Ráðstafanir til tryggingar því að inneign á reikningnum stæði til fullnustu skuldbindingum áfrýjanda og Auður er afl ehf. fólust í handveðsetningu reikningsins. Verður að leggja til grundvallar að Kaupþing banki hf. hafi sem þriðji maður tekið að sér varðveislu veðsins í skilningi fyrsta málsliðar 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og að til þeirrar ráðstöfunar hafi verið stofnað með samkomulagi veðsala og veðhafa. Þegar umræddur innlánsreikningur var af ástæðum þeim er áður greinir færður úr Kaupþingi banka hf. til Seðlabanka Íslands og síðar MP Fjárfestingarbanka hf., eftir að hinn síðastnefndi hafði öðlast heimild til að veita innlánum frá almenningi viðtöku, lauk vörslum þriðja manns á veðandlaginu og veðhafinn sjálfur tók við varðveislu þess svo sem liggur í eðli handveðréttar. Samkvæmt þessu er það niðurstaðan að réttarvernd sú, sem MP Fjárfestingarbanki hf. hafði öðlast í öndverðu við handveðsetningu reiknings nr. [...]813 í Kaupþingi banka hf., hafi ekki verið fallin niður þegar teknar voru út af reikningi nr. [...]774 í MP Fjárfestingarbanka hf. umræddar 5.643.919 krónur. Verður stefndi því sýknaður af kröfum áfrýjanda í málinu.

Þar sem veruleg vafaatriði eru í máli þessu þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2012.

Mál þetta er höfðað með stefnu þingfestri 6. september 2011 og dómtekið 18. apríl sl.

Stefnandi er Auður Arna Eiríksdóttir, Þinghólsbraut 69, Kópavogi.

Stefndi er MP banki hf., Ármúla 13a, Reykjavík. 

Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert skylt að greiða stefnanda 5.643.919 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 16. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar. 

I

Á árinu 2007 fékk stefnandi tvö lán hjá MP Fjárfestingarbanka hf. fyrir kaupum á stofnfé við stofnfjáraukningu í Byr sparisjóði. Eldra lánið var síðar fært inn í einkahlutafélag, Auður er afl ehf., og var stefnandi einn af hluthöfunum. Var af þessu tilefni gerður sérstakur lánssamningur milli þess félags og MP Fjárfestingarbanka hf. Eftir 1. október 2008, eftir að gengi bréfa í Byr sparisjóði tók að lækka,  kallaði MP Fjárfestingarbanki hf. eftir auknum tryggingum af hálfu stefnanda. Niðurstaða viðræðna milli stefnanda og bankans varð sú að stofnbréf sem fjölskylda stefnanda átti voru færð undir hið nýstofnaða félag Auður er afl ehf. Jafnframt voru settar auknar tryggingar fyrir lánunum. Í kjölfar þessara lánssamninga var stefnandi ekki lengur persónulega skuldbundin vegna elsta lánsins. Samhliða þessu ritað stefnandi undir nýja handveðsyfirlýsingu og sett stofnbréf að veði. Sá lánssamningur er stefnandi var í persónulegri ábyrgð fyrir var gerður upp 7. október 2008. Í mars 2009 var fjárhæðin 5.643.919 krónur tekin út af reikningi nr. [...]774 í MP banka hf. Þann 11. janúar 2011 sendi stefnandi stefnda greiðsluáskorun þar sem stefnandi taldi fjármunina ólöglega hafa verið teknar út af reikningi hennar. Var áskoruninni fylgt eftir með kröfubréfi lögmanns 15. febrúar 2011. Í millitíðinni svaraði lögmaður stefnda greiðsluáskoruninni og hafnað endurgreiðslu. Komi fram í því bréfi lögmanns stefnda að umrædd fjárhæð hafi verið til tryggingar skulda Auðar er afl ehf. með vísan til handveðsyfirlýsingar.

II

Stefnandi byggir aðallega á því, að trygging stefnda, samkvæmt handveðsyfirlýsingu 25. janúar 2008, sé fallin niður og hafi stefnanda verið óheimilt að millifæra 5.643.919 krónur af reikningi stefnanda. Umrædd millifærsla hafi verið ólögmæt og beri skilyrðislaust að greiða stefnanda fjárhæðina til baka.

Í fyrsta lagi vísi stefnandi til þess að persónulegir lánssamningar hennar hjá stefnda hafi verið gerðir upp og að sama skapi eigi tryggingar vegna efnda þeirra að falla niður. Umræddur reikningur hjá Kaupþingi banka hafi verið veðsettur vegna persónulegra skulda stefnanda, en hvergi sé minnst á veðsetningu reikningsins vegna skulda Auður er afl ehf. Innstæða reikningsins hafi aldrei verið veðsett vegna lána þess félags og geti því aldrei komið til að stefndi geti notað innstæðuna til greiðslu lána sem það félag hafi tekið. Sérstaklega skuli taka fram vegna varna stefndu að innstæða á bankareikningi sé ekki fjármálagerningur.

Í öðru lagi sé ljóst að stefndi hafi millifært af hinum veðsetta reikningi yfir á persónulegan reikning stefnanda. Sá reikningur sé óumdeilanlega ekki handveðsettur stefnda og hafi stefndi því verið án allra heimilda þegar einhliða ráðstöfun af reikningnum hafi farið fram stefnda til hagsbóta. Sé sú ráðstöfun skýrlega ólögmæt og í samræmi við skýr dómafordæmi Hæstaréttar Íslands beri lánastofnun aukna aðgæsluskyldu vegna skjalagerðar við veðsetningar og beri fulla sönnunarbyrði fyrir því að hafa heimildarskjöl sem sýni fram á réttmæti millifærslna af reikningum viðskiptavina sinna.

Í þriðja lagi vísi stefnandi til þess að stefndi hafi viðurkennt í verki að tryggingarinnistæðan og stefnufjárhæð þessa máls, hafi verið ótengd viðskiptum Auður er afl ehf., með því að millifæra fjárhæðina inn á persónulegan reikning stefnanda hjá MP banka. Stefndi geti ekki síðar skipt um skoðun og dregið millifærsluna til sín án nokkurra skýringa. Réttarvernd handveðsréttar falli niður þegar veðhafi missi umráð veðsins og í þessu tilviki hafi stefndi sem veðhafi afhent stefnanda sem veðsala umráð hins veðsetta á ný. Geti veðhafi þá ekki brigðað til sín veðið á ný nema samkvæmt samningi.

Stefnandi leggi áherslu á að umræddur reikningur í Kaupþingi hafi ekki lengur verið veðsettur, þar sem krafan sem legið hafi til grundvallar veðinu hafi verið fallin niður. Stefnandi hafi því verið í góðri trú um að stefndi væri að efna uppgjör sitt á lánssamningi stefnanda, þegar stefnufjárhæðin hafi verið lögð inn á persónulegan reikning stefnanda hjá stefnda. Stefndi hafi aftur á móti verið grandvís þegar fjárhæðin hafi einhliða og án allra heimilda verið tekin út af reikningi stefnda með þeirri útskýringu að fjárhæðin ætti að ganga upp í vanskil annars lögaðila. Auk þess vísi stefnandi til þess að ítrekað hafi verið reynt að gera upp samning Auðar er afl ehf. haustið 2008. Upphaflega að frumkvæði stefnda, en þegar hluthafar í félaginu hafi samþykkt uppgjörið, hafi stefndi skyndilega ekki kannast við samkomulagið og dregið uppgjörið það lengi að stofnbréfin yrðu verðlaus sem trygging, þrátt fyrir að hafa gert tug veðkalla út árið 2008. Á grundvelli ofangreindra sjónarmiða eigi stefnandi skilyrðislausan og lagalegan rétt til þess að fá stefnda dæmdan til greiðslu stefnufjárhæðarinnar.

Stefnandi vísar til meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar einkum til, reglna um réttaráhrif greiðslu kröfu, óréttmætrar auðgunar, einkum með vísan til laga  nr. 7/1936, laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 einkum 13. gr. laganna, 1. mgr. 6. gr. og 10. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

III

Sýknukröfu sína byggir stefndi aðallega á því að stefndi eigi ekki aðild að málinu. Stefndi hvorki sé né hafi verið aðili að þeim samningum sem stefnandi byggi mál sitt á. Stefndi hafi ekki framkvæmt umdeilda peningafærslu af reikningi nr. [...]774 og hafi ekki móttekið umræddar 5.643.919 krónur. Eins og fram komi í skjölum málsins, eins og t.d. í dómskjölum nr. 3, 4, 5, 7, 8, 9, 10 og 21, sé viðsemjandi stefnanda annar lögaðili en stefndi enda með allt aðra kennitölu. Samkvæmt gögnunum sé viðsemjandi stefnanda MP Fjárfestingarbanki hf., kt. 540599-2469, nú EA fjárfestingarfélag hf. Mögulegt sé að nafnið „MP banki“ hafi ruglað stefnanda í ríminu en staðreyndin sé sú að stefndi hafi tekið við rekstri viðskiptabankans nú á vormánuðum. Stefndi sé því algerlega ótengdur málatilbúnaði stefnanda. Hagsmunir stefnda í máli þessu séu engir því málið sé honum alls óviðkomandi og augljóslega verið að beina því að röngum aðila. Aðalkrafa stefnda sé því að hann verði sýknaður í málinu á grundvelli aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á sýknu sökum aðildarskorts byggi stefndi á því, að samkvæmt handveðsyfirlýsingu 25. júlí 2008 hafi stefndi, sem staðgöngumaður MP Fjárfestingarbanka hf., eða viðtökumaður réttinda hans, haft handveð í innstæðu þeirri á reikningi stefnanda við bankann nr. [...]774, sem stefnandi krefji um endurgreiðslu á, fyrir skuldum Auðar er afl ehf. Á því sé byggt að yfirfærsla innstæðu af reikningi nr. [...]813 við Kaupþing banka hf. á reikning nr. [...]774 við bankann, með viðkomu í Seðlabanka Íslands, hafi ekki leitt til þess að handveð stefnda eða MP Fjárfestingarbanka hf. hafi fallið niður. Fjármunirnir hafi verið veðsettir með heimild í 22. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Uppfyllt hafi verið almenn skilyrði veðréttar um stofnun handveðréttinda í lausafé við útgáfu handveðsyfirlýsingarinnar 25. júlí 2008, enda geti innstæða á bankareikningi verið andlag slíkra veðréttinda. Uppfyllt séu ennfremur skilyrði veðréttar um varðveislu veðhafa á handveðréttindum með órofinni handhöfn stefnda á þeim fjármunum sem veðsettir hafi verið enda öðlist handveðréttur réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hafi að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikum á því að hafa veðið undir höndum, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997.

Augljóst sé að við stofnun veðréttarins hafi Kaupþing banki hf. tekið að sér að hafa með höndum umráð veðsins fyrir MP Fjárfestingarbanka hf. en 4. gr. handveðsamningsins hafi MP Fjárfestingarbanka hf. einhliða verið veitt heimild til að færa hina veðsettu innstæðu annað eftir eigin ákvörðun og mati án afskipta eða atbeina annarra enda yrði það tryggt að veðið héldist áfram þannig að stefnandi væri svipt möguleikum á því að nálgast innstæðuna. Á því sé byggt að svo hafi verið. Reikningur nr. [...]774 við MP Fjárfestingarbanka hf. hafi verið með sama hætti og reikningur nr. [...]813 við Kaupþing banka hf. ekki aðgengilegur stefnanda enda sérstaklega merktur sem bundinn innlánsreikningur í kerfum bankans og óumdeilt í málinu að stefnandi hafi ekki haft aðgang að honum án samþykkis bankans. Við þá fjársýslan MP Fjárfestingarbanka hf., sem að framan sé rakin og varði hina umdeildu innstæðu, hafi því aldrei orðið rof á handhöfn handveðhafans, sem leitt geti til þess að hann glati veðréttindum sínum. Stefnandi hafi ekki haft aðgang að fjármununum á meðan þeir hafi verið á innlánsreikningi í Kaupþing banka hf., hún hafi ekki haft aðgang að þeim á meðan þeir hafi verið á innlánsreikningi í Seðlabanka Íslands og hún ekki haft aðgang að þeim á meðan þeir hafi verið á innlánsreikningi í MP Fjárfestingarbanka hf. Þá sé ljóst að MP Fjárfestingarbanka hf. hafi verið ómögulegt að leggja innstæðuna að nýju inn á innlánsreikninginn hjá Kaupþing banka hf. með því að fjármálaeftirlitið hafði þá sett hann í slitameðferð, yfirtekið eignir hans og stofnað nýjan banka utan um þær, nú Arion banka hf.

Á því sé byggt að stefndi hafi jafnframt uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til fjármálastofnana um að þær tryggi sér með skýrum hætti heimildir sínar og ljóst að umþrætt innstæða hafi frá veðsetningu hennar 25. júlí 2008 og þar til henni var ráðstafað inn á skuld Auðar er afl ehf. 17. mars 2009 ávallt verið í vörslum stefnda í skilningi framangreindrar 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1995.

Stefndi byggi á því, sem málsástæðu til vara, að öll fjársýsla MP Fjárfestingarbanka hf. með innstæðu á hinum handveðsetta reikningi í Kaupþing banka hf. nr. [...]813, sem leitt hafi síðan til stofnunar reiknings nr. [...]774 við bankann í nafni stefnanda, hafi ekki leitt til brottfalls umsaminna veðréttinda skv. handveðssamningnum frá 25. júlí 2011 vegna hinna óvenjulegu aðstæðna á fjármálamarkaði á haustdögum 2008, sem leitt hafi meðal annars til setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði o.fl. MP Fjárfestingarbanka hf. hafi því verið rétt að grípa til aðgerða sem hann hafi talið vera nauðsynlegar til að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna. Þá liggi fyrir að þegar óvissu um innstæðutryggingu innlendra banka hafði verið eytt með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands hafi MP Fjárfestingarbanki hf. verið kominn með viðskiptabankaleyfi og honum þá rétt að stofna reikninga fyrir viðskiptamenn sína í eigin banka. Vegna þessara sérstöku aðstæðna verði því að telja að MP Fjárfestingarbanki hf. hafi ekki glatað handveði sínu og verði á því að byggja að engin breyting hafi í reynd orðið á réttarsambandi aðila í þessu tilliti.

Enn sé á því byggt, sem málsástæðu til vara, að með fjársýslu sinni hafi MP Fjárfestingarbanki hf. í reynd sinnt óbeðnum erindisrekstri fyrir stefnanda og eigi hún af þeim sökum ekki þau kröfuréttindi á hendur stefnda sem málatilbúnaður hennar lúti að. Ákvörðun MP Fjárfestingarbanka hf. um að flytja allar innstæður frá Kaupþing banka hf. til Seðlabanka Íslands hafi verið til þess gerð að koma í veg fyrir að innstæður myndu glatast og af hlytist tjón fyrir stefnanda. Aðgerðir þær sem MP Fjárfestingarbanki hf. hafi ráðist í hafi verið til þess að verja verðmæti viðskiptamanna sinna enda hafi á þeim tímapunkti alls óvíst verið að innstæður í viðskiptabönkum væru tryggðar. Fjársýslan hafi verið því í þágu stefnanda. Stefnandi hefði ekki sjálf getað annast hagsmuni sína á sama hátt og stefndi því Seðlabanki Íslands taki einungis við innlánum frá innlánsstofnunum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/2001. MP Fjárfestingarbanki hf. hafi fært féð til Seðlabanka Íslands í þágu stefnanda. Aðgerðin hafi því verið réttlætanleg og MP Fjárfestingarbanki hf. ekki gengið lengra en nauðsynlegt var til að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón stefnanda.

Í málatilbúnaði stefnanda sé því haldið fram að reikningur [...]813 hjá Kaupþing banka hafi einungis verið veðsettur vegna persónulegra skulda stefnanda en ekki vegna skulda Auður er afl ehf. Stefndi hafni því alfarið og bendi á að stefnandi hafi undirritað handveðsyfirlýsingu 25. júlí 2008 þar sem innstæður og inneign á reikningi [...]813 séu settar til tryggingar greiðslu á öllum skuldbindingum stefnanda og Auður er afl ehf. Þessi málatilbúnaður stefnanda falli því um sjálfan sig og sé með engu móti hægt að taka mark á honum. MP Fjárfestingarbanki hf. hafi því haft fulla heimild til að ganga að veði sínu í umræddum reikningi vegna skulda Auðar er afl ehf.

Stefnandi telji að stefnda hafi verið óheimilt að ráðstafa innstæðu á hennar persónulega reikningi því sá reikningur hafi ekki verið handveðsettur stefnda. Þetta sé rangt. Reikningurinn hafi verið veðsettur MP Fjárfestingarbanka hf. eins og rakið hefur verið. Þá hafi ekki um „persónulegan“ reikning hennar verið að ræða í þeim skilningi að hann hafi verið henni til frjálsrar ráðstöfunar. Um bundinn innlánsreikning hafi verið að ræða til að mæta þeim skuldbindingum sem stefnandi hafði undirgengist með handveðsetningarsamningnum frá 25. júlí 2008. Það hafi alltaf legið ljóst fyrir að innstæða stefnanda hafi verið til tryggingar skulda bæði hennar persónulega sem og Auður er afl ehf. Stefnandi geti ekki haldið öðru fram enda hafi hún undirritað handveðsyfirlýsinguna. Þetta hafi stefnanda ávallt hlotið að vera ljóst enda hún á þeim tíma útibússtjóri hjá Byr sparisjóði og gert sér fullkomlega grein fyrir þýðingu veðsetningarinnar. Stefnandi geti því aldrei talist hafa verið í góðri trú um að veð væri niður fallið. 

Stefnandi telji að millifærsla MP Fjárfestingarbanki hf. hafi í raun verið viðurkenning á því að tryggingarinnstæða og stefnufjárhæð þessa máls hafi verið ótengd viðskiptum bankans við Auði er afl hf. Stefndi hafni þessu alfarið enda ljóst að innstæða á reikningi [...]813 hafi meðal annars verið veðsett MP Fjárfestingarbanka hf. til tryggingar skuldum Auðar er afl hf. Millifærslan hafi ekki átt sér stað til að skila stefnanda tryggingu sinni líkt og stefnandi virðist halda, heldur nauðsynleg ráðstöfun til að koma í veg fyrir glötun verðmæta.

Stefnandi haldi því fram að ítrekað hafi verið reynt að gera upp samning Auður er afl hf. en stefndi hafi skyndilega hætt við og dregið á langinn að uppgjör færi fram, sem hafi gert það að verkum að stofnbréf hafi orðið verðlaus sem trygging. Þessari fullyrðingu sé alfarið hafnað af stefnda sem rangri og óstaðfestri.

Þá sé ljóst að við úrlausn málsins verði að líta til þess að lánveitingar MP Fjárfestingarbanka hf. til stefndu og Auður er afl ehf. hafi verið til fjármögnunar á kaupum þeirra á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum sem stefnandi vann hjá. Hún, sem einn af yfirmönnum sjóðsins, hafi átt að gera sér fyllilega grein fyrir þýðingu þess og að sjálfsögðu að meta með sjálfstæðum hætti þá áhættu sem í þeim kaupum hafi verið fólgin. Ljóst sé að ef stefnandi fái dómkröfur sínar viðurkenndar þá muni hún auðgast á óréttmætan hátt á kostnað stefnda. Liggi að öllu ofangreindu virtu fyrir, að mati stefnda, að sýkna beri hann af framkominni kröfu stefnanda.

Stefndi vísar til 2. mgr. 16. gr.  laga nr. 91/1991 og meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Vísað er til laga um samningsveð nr. 75/1997. Um málskostnað vísar stefndi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða:

Með yfirlýsingu um handveð í fjármálagerningum og innstæðu á bankareikningi, útgefinni 25. júlí 2008, setti stefnda sem veðsali, til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á öllum fjárskuldbindingum veðsala og Auður er afl ehf., við MP Fjárfestingarbanka hf. sem veðhafa, meðal annars reikning nr. [...]813. Samkvæmt yfirlýsingunni átti reikningurinn að vera í vörslu og umsjón veðhafa f.h. veðsala og veðsetningin að ná til allrar inneignar og innstæðu sem myndaðist vegna viðskipta veðsala hjá eða við veðhafa og lögð væri inn á reikninginn. Er í yfirlýsingunni vísað til þess að hún sé byggð á 22. og 43. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Skyldi veðsali engan ráðstöfunarrétt hafa yfir reikningnum og væri honum óheimilt að ráðstafa innstæðu reikningsins nema með skriflegu samþykki veðhafa.

Samkvæmt yfirlitum í gögnum málsins um bankareikninga voru 11. janúar 2008 lagðar 5.000.000 króna inn á reikning nr. [...]813. Fjárhæð þessi er færð út af reikningi 8. október sama ár yfir í Seðlabanka Íslands. Vextir af reikningi að fjárhæð 499.944 krónur eru færðar út af þessum sama reikningi og yfir á reikning nr. [...]774 þann 31. desember 2008. Samkvæmt yfirliti um reikning nr. [...]774 voru lagðar inn á þann reikning 5.000.000 krónur 15. desember 2008. Inn á reikninginn færast síðar vextir, þ. á m. að fjárhæð 499.944 krónur, og nemur heildarfjárhæðar inn á reikningi 16. mars 2009 alls 5.643.919 krónum. Þann dag er fjárhæðin tekin út af reikningi. Í skýringu á yfirliti kemur fram að greiðslan sé tekin út vegna láns.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Að því er þessa málsástæðu varðar hefur stefnandi staðhæft að stefndi sé réttur aðili málsins og um það meðal annars vísað til yfirlýsinga starfsmanns Fjármálaeftirlitsins í tölvupósti frá 10. nóvember 2011 og fréttar af vef Fjármálaeftirlitsins frá 12. apríl 2011. Samkvæmt tilvitnaðri frétt af vef Fjármálaeftirlitsins samþykkti eftirlitið 11. apríl 2011 yfirfærslu á tilgreindum rekstrarhluta EA-fjárfestinga hf. (áður MP banki hf.) til MP banka hf. (áður nb.is - sparisjóður hf.) Hafi Fjármálaeftirlitið sama dag veitt MP banka hf. (áður nb.is – sparisjóður hf.), Ármúla 13a, Reykjavík, starfsleyfi sem viðskiptabanka samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í tölvupósti frá starfsmanni Fjármálaeftirlitsins 10. nóvember 2011 til lögmanns stefnanda kemur fram að með yfirfærslu rekstrarhlutans 11. apríl 2011 hafi öll innlán EA-fjárfestingarfélags færst til MP banka. Með innlánum í þessu tilviki sé væntanlega átt við innlánsreikninga.

Málatilbúnaður aðila gengur út á að hvaða marki stefndi hafi á ólögmætan hátt tekið fjármuni út af reikningi nr. [...]774 og ráðstafað þeim til greiðslu á fjárskuldbindingum Auður er afl ehf. Samkvæmt því sem áður er rakið hafa færslur af reikningi nr. [...]813 og reikningi nr. [...]774 verið framkvæmdar áður en rekstrarhluti MP Fjárfestingarbanka hf. var færður yfir til MP banka hf. 11. apríl 2011. Með tilkynningu Fjármálaeftirlitsins frá 12. apríl 2011 um yfirfærslu á rekstrarhluta MP Fjárfestingarbanka hf., sem þá hafði öðlast nafnið EA-fjárfestingarfélag hf., hefur stefnandi gert sennilegt að stefndi hafi ekki aðeins yfirtekið rekstrarhluta bankans, heldur hafi bankinn einnig yfirtekið lánasöfn MP Fjárfestingarbanka hf. Verður sönnunarbyrði um það atriði lögð á stefnda. Þar sem stefnda hefur ekki tekist sönnun um annað telur dómurinn sannað að lánasafn bankans, að því er Auður er afl ehf. varðar, hafi færst til stefnda og að stefndi sé þar með réttur aðili málsins. Verður sýknukröfu á grundvelli aðildarskorts því hafnað.

Svo sem áður er rakið náði handveðsyfirlýsingin frá 25. júlí 2008 einnig til tryggingar fjárskuldbindingum Auður er afl ehf. Til þess er vísað í málstað aðila að fjárhæð á reikningi nr. [...]774 hafi verið varið til lækkunar á fjárskuldbindingum félagsins samkvæmt lánssamningi. Með hliðsjón af skýrum ákvæðum handveðsyfirlýsingarinnar er hafnað málsástæðum stefnanda á þeim grundvelli að endurgreiða beri fjárhæðina þar sem tryggingarréttindin standi ekki til greiðslu á skuldbindingum Auður er afl ehf. Stendur þá einungis eftir að leysa úr þeirri málsástæðu stefnanda að réttarvernd handveðsins hafi fallið niður þar sem veðhafi hafi misst umráð veðsins er hann hafi afhent stefnanda sem veðsala hið veðsetta á ný.

Að því er þessa málsástæðu stefnanda varðar er til þess að líta að samkvæmt handveðsyfirlýsingunni tekur hún til tilgreinds reiknings í vörslu og umsjón veðhafa fyrir hönd veðsala. Er tekið fram að veðsali hefði engan ráðstöfunarrétt yfir reikningnum og sé honum óheimilt að ráðstafa innstæðu reikningsins nema með skriflegu samþykki veðhafa. Samkvæmt yfirlýsingu viðskiptastjóra stefnda frá 31. október 2011 er reikningur nr. [...]774 með boðlykli tryggingareikninga. Sé reikningurinn læstur fyrir útborganir, en eigandi geti lagt inn á reikninginn. Samkvæmt því gat stefnandi ekki tekið út af reikningnum nema með samþykki bankans. Með því hafði MP Fjárfestingarbanki hf. ekki misst umráð hins veðsetta reiknings 16. mars 2009 er 5.643.919 krónur voru teknar út af reikningnum til lækkunar á fjárskuldbindingum Auður er afl ehf. við bankann. Í þessu ljósi ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. 

Málskostnaður fellur niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Skarphéðinn Pétursson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Magnús Óskarsson héraðsdóms­lögmaður.

Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, MP-banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Auðar Örnu Eiríksdóttur.

Málskostnaður fellur niður.