Hæstiréttur íslands

Mál nr. 302/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                                                   

Mánudaginn 23. ágúst 1999.

Nr. 302/1999.

Björn Baldursson

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Talið var að á málatilbúnaði B í máli, sem hann hafði höfðað gegn Í, væru ágallar sem ekki yrði bætt úr undir meðferð málsins. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1999, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi, en sóknaraðili kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um úrskurðinn 12. sama mánaðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir fjölskipaðan héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1999.

Mál þetta er höfðað af Birni Baldurssyni, kt. 290348-3239, Nesvegi 3, Höfnum, á hendur fjármálaráðherra, Arnarhvoli við Lindargötu í Reykjavík, f.h. íslenska ríkisins, með stefnu birtri 25. júní 1998.

Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að málið sé höfðað til greiðslu umönnunarbóta, bóta vegna tilveruröskunar, bóta vegna heilsubrests, bóta vegna missis efnahagsmannsorðs, útlagðs kostnaðar og málskostnaðar auk verðbóta, svo og vaxta, vaxtavaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987. Endanlegar kröfur voru lagðar fram af hálfu stefnanda í þinghaldi þann 23. febrúar 1999 en þær eru þessar: 

1. Umönnunarbótakrafa að fjárhæð 7.838.000 krónur með 9% ársvöxtum frá 12. janúar 1987, 10% frá 21. janúar sama ár, 11% frá 21. febrúar s.á., 12% frá 1. maí s.á., 13% frá 21. júní s.á., 15% frá 11. júlí s.á., 17% frá 21. september s.á., 19% frá 11. október s.á., 22% frá 21. nóvember s.á., 23% frá 11. febrúar 1988, 22% frá 21. sama mánaðar, 19% frá 1. mars s.á., 23% frá 11. júní 1988, 24% frá 21. sama mánaðar, 26% frá 1. ágúst s.á., 22% frá 21. sama mánaðar, 12% frá 1. september s.á., 9% frá 11. október s.á., 6% frá 21. október s.á., 4% frá 1. desember s.á., 6% frá 21. janúar 1989, 8% frá 1. febrúar s.á., 10% frá 1. mars 1989, 13% frá 21. sama mánaðar, 15% frá 11. apríl s.á., 17% frá 11. júní s.á., 12% frá 21. júlí s.á., 10% frá 1. ágúst s.á., 6% frá 1. september s.á., 8% frá 21. sama mánaðar, 9% frá 21. október s.á., 11% frá 1. nóvember s.á., 9% frá  1. janúar 1990, 7% frá 21. sama mánaðar, 5% frá 1. mars s.á., 3% frá 1. apríl s.á., 2,5% frá 1. október s.á., 3,5% frá 1. janúar 1991, 5% frá 21. sama mánaðar, 6% frá 1. júní s.á., 7% frá 1. ágúst s.á., 4% frá 11. október s.á., 3,75% frá 1. nóvember s.á., 3,5% frá 21. sama mánaðar, 3% frá 1. desember s.á., 2,5% frá 1. febrúar 1992, 2% frá 11. sama mánaðar, 1,25% frá 21. mars s.á., 1% frá 1. maí s.á., 1,25% frá 11. ágúst 1993, 0,5% frá 11. nóvember s.á., 0,65% frá 1. júní 1995 til 24. júlí 1995 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er krafist 6,2% ársvaxta frá 12. febrúar 1987 til greiðsludags. Þá er krafist verðbóta á framangreinda fjárhæð samkvæmt vísitölu neysluverðs í samræmi við hækkun hennar á umönnunartímanum, þ.e. af 888.845 kónum vegna ársins 1987 og síðan af 969.649 krónum fyrir hvert ár til loka ársins 1994, en af 565.628 krónum vegna sjö mánaða af árinu 1995.

2. Krafa vegna sérstaks heimilishalds vegna sonar stefnanda að fjárhæð 3.030.249 krónur. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga af þeirri fjárhæð frá 24. júlí 1995 til greiðsludags. Til vara er krafist 6,2% ársvaxta frá sama tíma til greiðsludags. Þá krefst stefnandi verðbóta á framangreinda fjárhæð frá 1. janúar 1990 og dráttarvaxta af heildarverðbótum frá 24. júlí 1995 samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

3. Bótakrafa vegna heilsubrests að fjárhæð 4.280.436,75 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. nóvember 1994 til greiðsludags en til vara er krafist 6,2% ársvaxta fyrir sama tíma.

4. Bótakrafa vegna missis efnahagsmannorðs að fjárhæð 10.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 3. júní 1991 til greiðsludags en til vara er krafist vaxta samkvæmt 7. gr. sömu laga frá sama degi til greiðsludags.

5. Krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 94.356 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 24. ágúst 1995 til greiðsludags.

6. Málskostnaðaðarkrafa stefnanda er annars vegar að fjárhæð 6.790.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 24. júlí 1995 til greiðsludags og hins vegar að fjárhæð 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 30. júní 1998 til greiðsludags. Krafist er 24,5% virðisaukaskatts af dæmdum málskostnaði.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist frávísunar á öllum kröfum stefnanda en til vara er krafist sýknu. Þrautavarakrafa er um verulega lækkun.  Ekki er gerð krafa um málskostnað.

Úrskurður þessi er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda en munnlegur málflutningur fór fram um hana þann 24. júní sl.  Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Í málinu hefur komið fram að stefnandi er faðir tvíburanna Aðalsteins Bjarna og Bergsteins Björns sem fæddust á fæðingardeild Landspítalans þann 6. janúar 1987. Þann 12. janúar varð Aðalsteinn Bjarni skyndilega veikur og var hann fluttur á vökudeild spítalans en rannsókn leiddi í ljós að hann hafði sýkst af „Sakazakii” bakteríu.

Ekki er um það deilt í málinu að veikindi drengsins, sem leiddu til alvarlegrar heilasköddunar, voru vegna rangrar meðferðar á mjólk sem drengnum var gefin á spítalanum. Bótaskylda stefnda hefur verið viðurkennd vegna þessa eins og fram kemur í bréfi ríkislögmanns til móður drengsins, dagsettu 16. september 1988. Voru drengnum greiddar bætur samkvæmt samkomulagi stefnda og móður hans þann 7. janúar 1997 og móðurinni voru greiddar bætur í samræmi við samkomulag sem gert var við hana þann 10. mars 1998.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að drengirnir hafi dafnað vel fyrstu dagana eftir fæðinguna á fæðingardeild Landspítalans. Þegar Aðalsteinn veiktist skyndilega þann 12. janúar 1987 hafi hann verið fluttur á vökudeild fyrir harðfylgi móður hans, en vakthafandi læknir hafi ekki talið drenginn alvarlega veikan. Á vökudeild hafi hann verið rannsakaður og hafi þá komið í ljós að hann hafði sýkst af entrobakter sakasaki og hafi honum á næstu sólarhringum vart verið hugað líf. Sérfræðingar sjúkrahússins hafi enn fremur lýst því að lifði Aðalsteinn áfallið af, yrði hann alvarlega fatlaður það sem eftir væri ævinnar, án þess að þeir gætu á því stigi sagt nánar með hvaða hætti fötlun hans yrði.

Á árinu 1988 hafi komið í ljós að sýkingin varð fyrir handvömm starfsmanna spítalans, sem hafi gefið Aðalsteini pelamjólk með nefndum bakteríum, en þær hafi starfsmennirnir ræktað í mjólkinni með því að geyma pelann of lengi í mjólkurhitara. Hafi yfirmenn Landspítalans lýst sök á hendur sér og ríkislögmaður lýst því yfir, fyrir hönd heilbrigðis- og fjármálaráðherra, að ríkið væri bótaskylt og tjón vegna áfallsins yrði greitt.

Við síðari læknisrannsóknir hafi verið staðfest að drengurinn var alvarlega heilaskaddaður.  Einnig hafi komið í ljós að hann var flogaveikur en hann hafi fengið tugi flogakasta á dag þannig að stöðugt hafi þurft að fylgjast með honum. Vegna heilabólgunnar hafi vökvaheilaop lokast og hafi vökvakerfi líkamans því ekki getað leitt vökva frá höfðinu. Höfuð Aðalsteins hafi stækkað hratt af þessum sökum vegna vökvasöfnunar í heila. Á fimm ára tímabili hafi Aðalsteinn gengist undir margar heilaskurðaðgerðir þar sem slöngukerfi hafi verið sett í höfuð hans og niður í kviðarhol til að flytja vökva frá heilanum.

Eftir fæðingu drengjanna hafi móðir þeirra orðið alvarlega bakveik og hafi hún átt við þetta sjúkdómsmein að stríða allt til 1994 eða 1995. Við þessar erfiðu aðstæður hafi sóknaraðili tekið að sér að annast Aðalstein og bræður hans í fullu starfi, enda hafi móðir þeirra ekki ráðið við verkefnið vegna heilsuleysis.

Þetta viðfangsefni sóknaraðila hafi í reynd hafist þann 12. janúar 1987 og hafi það staðið þar til í ágúst 1988, er sóknaraðili fór til útlanda. Um nokkurra mánaða skeið hafi móðir Aðalsteins því fengið starfsfólk frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur til heimilishjálpar. Enn fremur hafi foreldrarnir ráðið hjálparfólk á eigin vegum. Hafi starfslið þetta enst illa og hafi t.d. ung og öflug kona, sem hefði kynnst ýmsu, ekki þóst hafa komist í erfiðari vinnu en þetta heimilishald.

Þegar sóknaraðili kom til landsins í desember 1988 hafi báðir foreldrar talið, með hliðsjón af fenginni reynslu, að eina leiðin væri sú að sóknaraðili reyndi að sinna umönnuninni, að minnsta kosti fyrst um sinn. Sóknaraðili hafi tekið verkið að sér, enda hafi honum litist illa á að láta Aðalstein í hendurnar á fólki, sem hefði ekki burði til að takast á við verkefnið eða nægilega alúð til að leysa það sómasamlega af hendi, en vart væri hægt að ætlast til þess að gott fólk fengist fyrir þau lágu laun, sem í boði hafi verið frá Reykjavíkurborg, fyrir svo erfitt starf. Hafi sóknaraðili gengið þannig inn í vinnusamningssamband Rutar við félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, en hann hafi lýst því yfir við stjórnendur stofnunarinnar að hann teldi að stefndi ætti að greiða launin. Hann hafi lýst því yfir að hann ætlaði sér að sækja laun fyrir umönnunarstarfið hjá stefnda og yrði Reykjavíkurborg þá endurgreitt það fé, sem stuðningsfjölskyldu sóknaraðila hafi verið greitt í erfiðleikum hennar.

Úr þessari stöðu hafi sóknaraðili reynt að bjarga efnahag foreldranna, sem hafi orðið fyrir mjög alvarlegum skakkaföllum á fyrstu fjórum verstu veikindaárum Aðalsteins, en báðir foreldrarnir hafi verið með nýbyrjaða atvinnustarfsemi þegar veikindaáfallið dundi yfir. Staða sóknaraðila hafi verið sambærileg stöðu heimavinnandi húsmóður, sem annist börn og heimili, en reyni að bjarga efnahag sínum með símaviðtölum og bréfaskriftum í kvöld- og næturvinnu. Við þetta hafi svo bæst svipuð skrifstofu- og lögfræðistörf, sem tengst hafi réttindabaráttu fyrir Aðalstein, m.a. vegna þjálfunar og skólamála hans.

Starf sóknaraðila hafi staðið með þessum hætti til 24. júlí 1995, en þá hafi móðir Aðalsteins náð betri heilsu en hún hefði búið við um árabil. Hins vegar hafi sóknaraðili kennt sér slíks meins að ljóst var að hann gæti ekki lengur sinnt umönnunarstarfinu.

Í stefnu gerir stefnandi grein fyrir umönnunarbótakröfunni en hann telur að umönnunarstarf hans hafi staðið í rúma 97 mánuði. Hann vísar til upplýsinga sem hann hefur lagt fram frá kjararannsóknarnefnd frá 18. ágúst 1995.  Stefnandi heldur því fram að tekjur hans á umræddu tímabili hefðu orði eftirfarandi að frádregnum sköttum og útsvari:

Árið1987l. 049.309  krónur (skattlaust ár)

Árið1988    566.287       "        (hálft árið)

Árið19891.220.513       "

Árið19901.334.427       "

Árið19911.456.702       "

Árið19921.531.497       "

Árið19931.490.634    "   

Árið19941.484.316  krónur

Árið1995   986.685       "        ( sjö mánuðir )

Stefnandi hefur einnig lagt fram útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dagsetta 25. júní 1998, þar sem höfuðstólsverðmæti ofangreindra fjárhæða miðað við fæðingardag drengsins er reiknað samtals 7.838.000 krónur fyrir umrædd ár.

Kröfuna vegna sérstaks heimilishalds vegna drengsins styður stefnandi þeim rökum að á árinu 1988 hafi foreldrunum orðið ljóst að húsnæði fjölskyldunnar að Bergstaðastræti 19 í Reykjavík hentaði henni ekki lengur eftir hinar skyndilegu breytingar, sem höfðu orðið á högum fjölskyldunnar, sem þá hafi þurft að taka tillit til veiks og fatlaðs barns og annast það. Foreldrar drengsins hafi reynt á þessum tíma að finna hentugt húsnæði fyrir fjölskylduna, einkum með hliðsjón af hreyfiþörf og öryggi hans. Stefnandi vísar í því sambandi til þess sem fram komi í skjölum málsins um viðleitni foreldranna þegar fjármálaráðuneytið hafi auglýst hús til sölu.  Þetta hafi að lokum leitt til þess árið 1989 að rúmgott húsnæði hafi fengist á Fiskislóð 94 í Reykjavík. Þar hafi drengurinn getað m.a. hjólað á þríhjóli innanhúss og hafi það hjálpað honum mikið við að styrkja fætur. Enn fremur hafi hann getað þjálfað sig í heitum potti og hafi sú þjálfun átt drjúgan þátt í að efla jafnvægisskyn hans. Þegar leið á árið 1991 hafi foreldrar drengsins metið stöðu hans svo að tímabært væri að huga að framtíðarstað vegna skólagöngu og meiri útiveru. Þeim hafi þá boðist húsið Hafnarberg 8 í Þorlákshöfn og hafi stefnandi flutt þangað ásamt Aðalsteini og bræðrum hans í byrjun janúar 1992. Í júní sama ár hafi stefnandi flutt að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd í Vatnsleysustrandarhreppi. Tveir síðastnefndu staðirnir hafi verið leigðir í nafni Íslenskrar endurhæfingar, sem foreldrar Aðalsteins hafi stofnað í þeim tilgangi að slíta ráðstafanir í þágu drengsins frá fjárhagslegum vandamálum foreldranna, sem þá hafi verið farin að hefta svigrúm þeirra með alvarlegum hætti.

Kröfuna vegna heimilishaldsins sundurliðar stefnandi þannig:

Vegna Fiskislóðar 94    811.377 krónur

vegna Hafnarbergs 8   311.198     "

vegna Þórustaða            1.847.674     "

vegna búferlaflutninga        60.000     "

Í endanlegri kröfugerð stefnanda er kröfunni lýst nánar þannig að hún sé vegna húsaleigu- og orkukostnaðar á framangreindum stöðum en kostnaður nemi u.þ.b. 45.000 krónum á mánuði auk flutningskostnaðarins.

Bótakrafa stefnanda vegna heilsubrests er studd þeim rökum að frá október 1994 hafi hann átt við heilsufarsvanda að stríða, sem hafi gert það að verkum að starfsþrek hans hafi farið minnkandi. Það hafi lýst sér í svefntruflunum sem stefnandi verði fyrir vegna krampa í brjóstholi og höfði. Svefntruflanirnar hafi leitt til minnkandi þreks til að takast á við dagleg verkefni. Stefnandi gerir grein fyrir útreikningi kröfunnar í endanlegri kröfugerð. Þar segir að reikningsforsendan sé altjón, ónýti lífs samkvæmt norskum rannsóknum en fjárhagsleg niðurstaða altjónsins sé reist á bótasjónarmiðum greiðsluviljafræða um tjón einstaklinga vegna dauða. Altjón sem lagt væri til grundvallar væri 104.090.000 krónur samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 1995. Miðað við 5,7% hækkun á lánskjaravísitölu frá 1995 til 1998 reiknaðist altjónið 110.023.120 krónur árið 1998. Stefnandi kveðst leggja 75% örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins til grundvallar við útreikning kröfu sinnar en þar virðist átt við vottorð stofnunarinnar frá 14. ágúst 1998. Stefnandi kveðst gera kröfu um bætur „vegna 75% örorkuástands stefnanda frá 1. 12. 1994 til 1. 7. 1999”. Áskilinn er réttur til að krefjast bóta fyrir síðari tíma örorkuástand í samræmi við læknisfræðilegar framtíðarniðurstöður varðandi heilsu stefnanda. Reiknigrunnurinn, sem þessi kröfuliður stefnanda er byggður á, segir hann því vera altjón mannlegs lífs 110.023.130 krónur, deilt með fjölda ára samkvæmt töflum um meðallífslíkur íslenskra karla. Árleg bótafjárhæð frá fæðingu væri því 1.466.975 krónur á ári eða 122.247 krónur á mánuði. Stefnandi hafi frá 1. desember 1994 búið við skerta tilveruhæfni, sem hafi frá 1998 „verið metin til 75% örorku, vegna lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, en þær greiðslur standa til 30. 6. 1999”. Af altjónsbótum, sem stefnandi telur vera 122.247 krónur á mánuði, reiknist 75% af þeirri fjárhæð 91.685,25 á mánuði en í 55 mánuði, þ.e. frá 1. desember 1994 til 30. júní 1999, samtals 5.042.688.75 krónur.  Til frádráttar eru lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 762.252 krónur frá 1. júlí 1998 til 30. júní 1999.

Stefnandi telur sig ekki lengur búa við það efnahagsmannorð, sem hann hafi notið áður en áfallið vegna veikinda drengsins og afleiðingar þess komu til sögunnar, en hann telur að rekja megi missi þeirra lífsgæða til vandamála sem upp hafi komið vegna veikindanna. Stefnandi telur stefnda eiga að bera halla af þeirri röskun, sem orðið hafi á möguleikum sóknaraðila til að stunda atvinnurekstur sinn og tekjuöflun vegna umönnunar Aðalsteins. Þá telur stefnandi að það vegi þungt að ríkisvaldið hafi ekki, þrátt fyrir ábendingar, hirt um að draga úr tjóni sóknaraðila með því að greiða hlutabætur, svo verstu efnahagsörðugleikum sóknaraðila yrði afstýrt. Með uppboðssölu á eignum sóknaraðila í Hólmgarði 34 og Bergstaðastræti 19 í Reykjavík og Vatnsendalandi 86 í Kópavogi svo og með skuldadómum og árangurslausri aðfarargerð hafi staða sóknaraðila í íslensku samfélagi orðið þannig að hann hafi verið rúinn láns- og viðskiptatrausti. Sóknaraðili telur að með þessum hætti hafi hann um fyrirsjáanlega framtíð verið gerður óvirkur í viðskiptalífi, bæði á Íslandi og erlendis.

Stefnandi telur að krafa hans um bætur vegna missis efnahagsmannorðs verði ekki studd sýnilegum sönnunargögnum þegar frá væru talin bréf lánastofnana, sem hafi lýst því yfir að þær vildu ekki eiga skipti við sóknaraðila. Sóknaraðili bendir á að í tilvikum sem þessum veigri menn sér við að lýsa yfir vantrausti á viðskiptabeiðanda og velji þá leið að virða þá ekki svars sem ekki væru taldir trausts verðir.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi ekki enn verið úrskurðaður gjaldþrota en líkur stæðu til þess að ríkissjóður setti fram gjaldþrotakröfur á hendur honum á næstunni eins og greini í skjölum málsins. Í endanlegri kröfugerð tilgreinir stefnandi skuldir og rekur fjárhagsstöðu sína á árunum 1985 til 1997.

Varðandi þennan bótalið vísar stefnandi til ákvæða, sem kveði á um réttmætar bætur og heimild dómstóla til að kveða á um þær, án sérstakrar lagaheimildar, og að hann vænti sanngjarnar bótafjárhæðar að mati dómsins.

Krafa stefnanda um greiðslu útlagðs kostnaðar er studd þeim rökum að hann hafi leitað til nokkurra sérfróðra aðila þegar hann annaðist Aðalstein til að afla upplýsinga um þroskaframvindu hans. Í þessu sambandi hafi orðið til reikningar samtals að fjárhæð 124.356 krónur. Þegar sóknaraðili hafi farið þess á leit við þáverandi ríkislögmann með bréfi dagsettu 13. júní 1992 að reikningar þessir yrðu greiddir hafi því verið neitað. Hafi ríkislögmaður skírskotað til þess að þroskamöt hefðu verið gerð sóknaraðila að kostnaðarlausu í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Stefnandi telur óeðlilegt að hann þurfi að styðjast við álitsgerðir og rannsóknarniðurstöður stofnana eða aðila, sem starfað hafi á vegum stefnda, og væri það reyndar fjarri lagi eins og atvikum málsins væri háttað. Stefnandi vísar varðandi þennan kröfulið til reikninga sem hann hafi lagt fram í málinu. Í endanlegri kröfugerð hefur stefnandi dregið frá upphaflegri kröfu fjárhæðir tveggja reikninga sem hann segir að hafi verið greiddir móður drengsins.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er studd þeim rökum að hann hafi lagt vinnu í að halda réttindum Aðalsteins til haga eins og gögn málsins beri með sér. Ástæða fyrir réttargæsluþörfinni hafi að mati sóknaraðila verið sú að þeir opinberu aðilar, sem hafi þurft að leggja vit og verk til lausnar ýmissa þátta, svo sem lög og reglur hafi staðið til, hafi oftar en ekki verið lítt til þess fallnir. Stefnandi kveðst byggja kröfu þessa á því sjónarmiði að stefndi eigi að bera hallann af óvirku þjónustuliði sínu, sem sóknaraðili hafi óhjákvæmilega þurft að hafa samskipti við vegna veikinda Aðalsteins og þroskaframvindu hans. Sóknaraðili hafi gætt þannig hagsmuna Aðalsteins vegna samskipta við sjúkrahús, þjálfunarstöðvar, greiningarstöð, skóla, tryggingarstofnun og ráðuneyti. Á flestum stöðum hafi borið nauðsyn til að kynna rétt og krefjast eðlilegrar málsmeðferðar af fullri einurð og með skýrum hætti. Hafi af þeim sökum ekki verið komist hjá því af hálfu sóknaraðila að leggja tíma og vinnu í að halda fram réttindum Aðalsteins. Stefnandi telur að hann hafi unnið lögfræðistörf fyrir son sinn í 20 klukkustundir í hverjum mánuði í 97 mánuði, eða samtals 1940 klukkustundir en hann krefst 3.500 króna fyrir hverja klukkustund, samtals 6.790.000 króna. Málskostnaðarkrafa vegna þessa máls, sem stefnandi segir að hafi staðið frá upphafi árs 1995, er að fjárhæð 3.500.000 króna.

Stefnandi vísar til 66. gr., 67. gr. og 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, l. ml. 1. tl. 5. gr., 13. gr. og 50. gr. Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, 1. mgr. 1. gr. Evrópusamningsviðauka nr. 1, og 3. gr. Evrópusamningsviðauka nr. 7. Þá vísar hann til yfirlýsingar ríkislögmanns frá 16. september 1988, auk annarra samskonar yfirlýsinga, f.h. heilbrigðis- og fjármálaráðherra, þess efnis að stefndi vikurkenni bótaskyldu vegna áfalls Aðalsteins Bjarna og til almennra reglna skaðabótaréttar, m.a. að því er varðar saknæmi, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og dómvenju þess efnis að dómstólar telji sér heimilt, án sérstakrar lagaheimildar, að dæma ríkið til greiðslu bóta, ef nægileg efnisrök liggi til ábyrgðar þess.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda hefur komið fram að fallist hafi verið á bótaskyldu stefnda vegna veikinda Aðalsteins Bjarna. Með samkomulagi við móður drengsins hafi verið gengið frá uppgjöri bóta vegna tjóns drengsins og hafi það verið greitt, en samkvæmt yfirlýsingu móðurinnar fari hún ein með forsjá hans.  Hinn 10. mars 1998 hafi verið gengið frá uppgjöri vegna tjóns móðurinnar.

Með stefnu, sem stefnandi þessa máls hafi höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. desember 1996, hafi hann gert m.a. kröfu um greiðslu örorkubóta og miskabóta vegna Aðalsteins Bjarna auk fjárbóta stefnanda til handa. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. janúar 1998 í máli nr. E-6115/1996 hafi kröfum þessum verið vísað frá dómi. Segi í forsendum úrskurðarins að málatilbúnaður stefnanda brjóti svo í bága við meginreglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi skýran og ljósan málatilbúnað, sbr. 80. gr. svo og 95. gr. laganna, að vísa beri málinu í heild frá dómi. Rök stefnda fyrir frávísunarkröfunni í þessu máli séu byggð á sömu sjónarmiðum og felist í framangreindum úrskurði dómsins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að kröfur stefnanda séu vanreifaðar og málatilbúnaður hans samrýmdist ekki grundvallarreglum laga um meðferð einkamála um skýra og glögga kröfugerð, auk þess sem stefnandi blandi í kröfugerð sína óskyldum atriðum saman við uppgjör á tjóni vegna þess atviks sem sé bótaskylt.

Varakrafa um sýknu er byggð á því að meint tjón stefnanda sé ýmist ósannað eða ekki í rökréttu eða eðlilegu samhengi við tjónsatvik. Lagaheimild fyrir kröfu um miskabætur sé ekki fyrir hendi.

Þrautavarakrafa er byggð á því að allir kröfuliðir stefnanda séu, auk þess að vera lítt rökstuddir, afar fjarri því að vera byggðir á raunhæfu mati eða vera í samræmi við dómvenjur. Til frádráttar komi greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og Reykjavíkurborg vegna umönnunar Aðalsteins Bjarna.

Um málatilbúnað stefnanda segir stefndi að málið hafi verið þingfest í héraðsdómi 30. júní 1998 en stefnandi hafi síðan ítrekað fengið frest til framlagningar frekari skjala. Loks í þinghaldi 23. febrúar 1999 hafi hann lagt fram skjalaskrá nr. 3, þ.e. dskj. nr. 6-57. Áður hafi stefnandi lagt fram sem dskj. nr. 5 skjala­skrá nr. 2 með skjölum merktum nr. 1-193. Séu framlögð skjöl stefnanda því alls 250. Þessi málsmeðferð sé ekki í samræmi við grundvallarreglur laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. t.d. g-lið 80. gr. og 95. gr. laganna.

Af hálfu stefnda hafi ítrekað verið lýst vilja til að ganga frá uppgjöri bóta vegna þeirra mistaka, sem hafi orðið á Landspítala Íslands árið 1987 og leitt hafi til veikinda Aðalsteins Bjarna. Aðkoma stefnanda að málinu, óraunhæf kröfugerð hans og ósætti foreldra drengsins, hafi leitt til þess að mjög langan tíma hafi tekið að ná niðurstöðu um uppgjör bóta fyrir drenginn og móður hans. Af hálfu stefnda hafi verið talið nauðsynlegt að foreldrar drengsins kæmu sér saman um hvoru þeirra bæri hugsanlegur réttur til bóta vegna umönnunar eða hvernig þau vildu skipta þeim bótum á milli sín. Þegar séð þótti að slíkt samkomulag næðist ekki hafi verið samið við móðurina.

Af hálfu stefnda er eftirfarandi tekið fram um einstaka kröfuliði stefnanda.

I. Umönnunarbótakrafa.

Undir þessum kröfulið hafi stefnandi gert kröfu að fjárhæð rúmlega 11 milljónir króna, sem hann hafi nú lækkað í um 7,8 milljónir króna.  Stefnandi haldi því fram að hann hafi á árunum 1987-1995 annast Aðalstein Bjarna og bróður hans í 97 mánuði. Móðirin hafi hins vegar haldið fram að hún hafi tekið þátt í því starfi eftir því sem heilsa hennar hafi leyft og að Aðalsteinn Bjarni hafi jafnan verið á heimili hennar en í því sambandi er vísað til vottorðs Hagstofu Íslands á dskj. nr. 64. Kröfufjárhæðina segi stefnandi taka mið af meðallaunum háskólamenntaðra starfs­manna á þessu tímabili að frádregnum sköttum og útsvari.

Af hálfu stefnda er þessari viðmiðun mótmælt sem óraunhæfri og órökstuddri. Af hans hálfu er að auki bent á að stefnandi hafi þegið launagreiðslur frá Reykjavíkurborg vegna heimilisaðstoðar á umræddu árabili eða á verulegum hluta þess og að móðirin hafi fengið greiddar umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

2. Krafa vegna sérstakts heimilishalds.

Undir þessum kröfulið geri stefnandi kröfu um bætur að fjárhæð rúmlega þrjár milljónir króna vegna búferlaflutninga milli fjögurra heimilisfanga, sem talin séu upp í stefnu. Engar sönnur væru færðar fyrir því að búferlaflutningarnir hafi verið eðlileg eða óhjákvæmileg afleiðing af tjóni Aðalsteins Bjarna, með þeim hætti sem stefnandi fullyrði, en mat stefnanda eða foreldra virtist hafa ráðið. Af hálfu stefnda er þessum kröfulið mótmælt sem órökstuddum og málinu óviðkomandi og að auki bendir stefndi á ósamræmi milli fullyrðinga stefnanda og búsetuvottorða Hagstofu Íslands.

3. Bótakrafa vegna heilsubrests.

Undir þessum kröfulið hafi stefnandi gert bótakröfu sér til handa að fjárhæð 18 milljónir króna, sem hann hafi nú lækkað í tæplega 4,3 milljónir króna. Engin marktæk gögn eða útreikningar fylgdu þessum kröfulið eða vottorð sem sýni að meint heilsutjón sé afleiðing af því tjóni, sem sonur hans varð fyrir.  Lagagrundvöllur fyrir þessari kröfugerð sé ekki reifaður sérstaklega af hálfu stefnanda, enda sé hann ekki til.

4. Bótakrafa vegna missis efnahagsmannorðs.

Hér geri stefnandi kröfu um 10 milljón króna bætur án þess að haldbær gögn eða útreikningar fylgdu þessum kröfulið.

5. Krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að í stefnu geri stefnandi sjálfur grein fyrir afstöðu stefnda til þessa kostnaðar.

6. Málskostnaðarkrafa.

Í stefnu sé tekið fram, að stefnandi hafi lagt vinnu í að „halda réttindum Aðalsteins til haga.” Áður hafi stefnandi gert kröfu um endurgreiðslu fyrir 97 mánaða vinnu. Virtist því hér um tvítekningu að ræða, þ.e. tvær kröfur væru gerðar um endur­gjald fyrir vinnu á sama tímabili. Móðir Aðalsteins Bjarna og lögráðamaður hans hafi hins vegar ráðið starfandi hæstaréttarlögmann til að vinna það verk, sem stefnandi telji sig hafa lagt vinnu í, og hafi stefndi greitt fyrir þá vinnu. Þessum kröfuliðum sé því mótmælt af hálfu stefnda.

Um alla kröfuliði taki stefnandi fram að miðað sé við „höfuðstól”, en síðan sé ýmist krafið vaxta, dráttarvaxta og/eða verðbóta samkvæmt reikningi. Þessum kröfum er öllum mótmælt af hálfu stefnda.

Niðurstaða

Við þingfestingu málsins þann 30. júní 1998 lagði stefnandi fram stefnu og skjöl. Meðal skjala málsins eru tvær skjalaskrár, skjalaskrá 1 og skjalaskrá 2, en þær eru þingmerktar nr. 02 og 05. Með skjalaskrá 2 voru lögð fram skjöl sem þingmerkt eru nr. 1-193. Í þinghaldi þann 23. febrúar 1999 lagði stefnandi aftur fram skjöl, þar á meðal skjalaskrá 3, sem er þingmerkt nr. 06, en önnur skjöl eru þingmerkt nr. 07-057. Þessi háttur er ekki í samræmi við fyrirmæli í 1. mgr. 13. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um að skjöl, sem lögð eru fram í dómi, skuli merkt í áframhaldandi töluröð. Verður málatilbúnaður stefnanda af þessum sökum ógleggri en ástæða er til. Aðferðin er heldur ekki í samræmi við meginregluna, sem fram kemur í 1. mgr. 95. gr. laganna, um að við þingfestingu máls skuli leggja fram stefnu og þau skjöl, sem málatilbúnaðinn varða, eða kröfur eru annars byggðar á. Stefnandi hefur þar að auki lagt fram skjöl, sem ekki verður séð að skipti máli fyrir rekstur og úrlausn málsins. Þykir að þessu leyti á skorta að gerð sé fullnægjandi grein fyrir því í málatilbúnaði stefnanda að hvaða leyti kröfur hans eru byggðar á því sem fram kemur í gögnum sem hann hefur lagt fram í málinu. Á hinn bóginn hefur stefnandi ekki gætt þess nægjanlega að styðja kröfur sínar í málinu viðeigandi gögnum og rökum. Þannig hefur stefnanda láðst að gera grein fyrir því á hverjum læknisfræðilegum gögnum og lagarökum krafa hans um bætur vegna heilsubrest er studd. Leiðir þetta til þess að málatilbúnaður stefnanda er bæði óskýr og ómarkviss. Af því leiðir einnig að erfitt er, og í nokkrum tilfellum útilokað, að greina samhengi milli málsatvika og gagna málsins. Kröfur um greiðslu útlagðs kostnaðar og vegna missis efnahagsmannorðs verður að telja vanreifaðar en óljóst er á hvaða lagagrundvelli þær eru byggðar. Hvorki eru sýndir nægjanlegir útreikningar, sem stefnandi byggir umönnunarbótakröfuna á, né útreikningar á kostnaði vegna heimilishalds. Málatilbúnaður stefnanda er að þessu leyti óglöggur. Þá hefur stefnandi lagt fram nokkur gögn á ensku. Þeim fylgir ekki þýðing á íslensku eins og gert er ráð fyrir samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála og ekki kemur fram í málatilbúnaði stefnanda að hvaða leyti byggt er á efni þessara skjala.    

Í endanlegri kröfugerð stefnanda um bætur vegna heilsubrests er krafist tiltekinnar fjárhæðar sem af hálfu stefnanda er byggð á örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins. Jafnframt er áskilinn réttur til „að krefjast bóta fyrir síðari tíma örorkuástand í samræmi við læknisfræðilegar framtíðarniðurstöður varðandi heilsu stefnanda”. Þessi framsetning á kröfugerð verður ekki talin í nægjanlegu samræmi við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 114. gr. sömu laga. 

Stefnandi hefur lagt fram tvö bréf sín til ríkislögmanns þar sem gerðar eru bótakröfur vegna framangreindra veikinda sonar stefnanda en bréfin eru dagsett 25. ágúst 1989 og 25. ágúst 1995. Í síðara bréfinu krefst stefnandi bóta úr hendi stefnda fyrir sig og drenginn og í því fyrra er krafist bóta fyrir þá báða og fyrir hönd móður drengsins. Í málinu hefur hins vegar komið fram að drengnum og móður hans voru greiddar bætur vegna tjóns þeirra samkvæmt samkomulagi eins og hér að framan er rakið. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum enga grein gert fyrir framvindu málsins eða málavöxtum í tilefni af eða í kjölfar ofangreindra kröfubréfa sinna en af efni þeirra má ráða að þar er að einhverju leyti um sömu kröfur að ræða og greiddar voru samkvæmt framangreindu samkomulagi við móður drengsins. Þetta er ekki í samræmi við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála um að stefnandi skuli greina í stefnu málsástæður og önnur atvik, sem greina þurfi til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Í endanlegri kröfugerð stefnanda, sem hann lagði fram á dómþingi þann 23. febrúar 1999, eru settar fram málsástæður, sem ekki koma fram í stefnu, en samkvæmt sama lagaákvæði eiga málsástæður, sem málssókn er byggð á, að koma þar fram. Tilgreiningu stefnanda á málsástæðum er auk þess áfátt í málatilbúnaði hans en samkvæmt framangreindu lagaákvæði skal greina málsástæður eins glöggt og unnt er. Dómari hefur ekki heimild til að bæta úr þeim ágöllum, sem hér um ræðir, en samkvæmt því sem fram kemur í 2. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari ekki byggt niðurstöðu sína á málsástæðum sem ekki hafa komið fram við meðferð málsins.

Þegar litið er til framangreindra atriða verður að telja málatilbúnað stefnanda ófullnægjandi á þann hátt að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.