Hæstiréttur íslands

Mál nr. 471/2005


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Almannatryggingar


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6.apríl 2006.

Nr. 471/2005.

Linda Björg Reynisdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Almannatryggingar.

L, sem hlaut alvarleg líkamsmeiðsl í umferðarslysi 6. janúar 2003, krafði V meðal annars um bætur fyrir tímabundna örorku, varanlega örorku og varanlegan miska auk þjáningarbóta. V studdi kröfu sína um sýknu við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem kveðið er á um að draga skuli frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns greiðslur sem tjónþoli fær úr almannatryggingum. Talið var að skýra yrði ákvæðið á þann hátt að frá skaðabótum skuli draga þær bætur úr almannatryggingum sem stafa beinlínis af sama slysi og skaðabætur eru greiddar fyrir. Var hafnað þeirri málsástæðu V að allur réttur L til bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir 75% örorku ætti að koma til frádráttar í bótauppgjöri hans við L, óháð því að hluti bótaréttar hennar stafaði af öðrum slysum en því sem hún varð fyrir 6. janúar 2003. Ekki lá fyrir hvaða rétt L kynni að hafa öðlast til greiðslna úr almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins 6. janúar 2003 einu út af fyrir, en dómkvaddir matsmenn töldu að til þess mætti rekja einkenni hennar, sem metin yrðu til 11 stiga af 15, sem þyrfti til að örorka næmi 75%. Þótt hugsanlegar bætur úr almannatryggingum, sem miðaðar yrðu við lægra örorkustig, gætu átt að koma til frádráttar bótum til L úr hendi V, hafði félagið ekki krafist lækkunar á kröfu L á þeim grunni. Var krafa L um bætur fyrir fyrrnefnda kröfuliði því tekin til greina, en öðrum kröfuliðum hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. nóvember 2005. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 29.399.070 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 6. janúar 2003 til 24. september 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum samtals 4.381.121 krónu, sem stefndi innti af hendi með sex nánar tilgreindum greiðslum til áfrýjanda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir héraðsdómi.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

 

I.

Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 6. janúar 2003 og hlaut við það alvarleg líkamsmeiðsl. Voru tveir menn dómkvaddir til að meta meðal annars varanlega örorku hennar vegna slyssins og er matsgerð þeirra dagsett 22. september 2004. Var niðurstaða þeirra sú að áfrýjandi hafi verið algerlega óvinnufær frá slysdegi til 30. apríl 2004 og að varanleg örorka hennar vegna slyssins væri 60%. Þá hafi áfrýjandi hlotið 50% varanlegan miska af slysinu og verið veik og rúmföst frá 6. til 10. janúar 2003, en veik án þess að vera rúmföst frá þeim degi til 30. apríl 2004. Loks hafi varanleg örorka hennar til heimilisstarfa orðið 40%. Ekki er ágreiningur um niðurstöður þessarar matsgerðar.

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum um bætur fyrir tímabundna örorku, varanlega örorku og varanlegan miska auk þjáningabóta. Þá krefst hún einnig bóta fyrir varanlega örorku til heimilisstarfa, annað fjártjón og breytingar á stöðu og högum. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna þrem síðasttöldu kröfuliðum áfrýjanda.

Fjárhæðir þeirra kröfuliða áfrýjanda, sem eftir standa, viku að nokkru frá fyrirliggjandi útreikningum stefnda á sömu liðum. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjanda lýst yfir að fallist væri á niðurstöður stefnda um fjárhæð einstakra liða. Nemur krafa hennar samkvæmt því 2.155.203 krónum fyrir tímabundið tekjutjón, 478.600 krónum í þjáningabætur, 2.834.750 krónum fyrir varanlegan miska og 13.627.454 krónum fyrir varanlega örorku eða samtals 19.096.007 krónum. Áfrýjandi krefst greiðslu þeirrar fjárhæðar að frádregnum áðurnefndum innborgunum stefnda á alls 4.381.121 krónu.

II.

Stefndi styður kröfu sína um sýknu við ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum, en samkvæmt 1. málslið þess dragast frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns meðal annars greiðslur, sem tjónþoli fær úr almannatryggingum. Telur stefndi að reikna megi með að áfrýjanda verði metin 75% örorka samkvæmt reglum Tryggingastofnunar ríkisins, en samkvæmt því eigi hún rétt á örorkulífeyri, barnalífeyri, tekjutryggingu og örorkuuppbót. Hefur stefndi aflað útreiknings tryggingastærðfræðings á höfuðstólsverðmæti slíkra greiðslna til áfrýjanda í framtíðinni og teljist það vera 23.204.000 krónur. Eftir að sú fjárhæð hafi verið lækkuð um þriðjung vegna eingreiðsluhagræðis og skattfrelsis bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt skaðabótalögum standi eftir 15.470.000 krónur. Með þeirri fjárhæð og greiðslum stefnda til áfrýjanda sé tjón hennar fullbætt og eigi hún ekki kröfu á bótum umfram það.

Áfrýjandi mótmælir þessum rökum stefnda. Telur hún sig eiga kröfu á hann um slysabætur samkvæmt vátryggingasamningi og geti stefndi ekki knúið hana til að beina stærstum hluta kröfunnar að öðrum. Þá byggir hún á því að sá réttur til bóta, sem hún kunni að eiga úr almannatryggingum, stafi ekki eingöngu af slysinu 6. janúar 2003, heldur sé hann að hluta vegna annarra slysa, sem hún hafi áður orðið fyrir. Stefndi geti ekki lagt saman afleiðingar allra slysanna og komist að þeirri niðurstöðu að bætur fyrir 75% örorku áfrýjanda samkvæmt reglum Tryggingastofnunar ríkisins eigi að öllu leyti að koma til frádráttar við uppgjör bóta fyrir slysið, sem málið varðar.

Í áðurnefndi matsgerð 22. september 2004 kom fram að vegna umferðarslyss 14. september 1997 hafi áfrýjanda áður verið metinn 10% varanlegur miski og jafn há varanleg örorka. Ennfremur sagði þar að vegna umferðarslyss, sem áfrýjandi varð fyrir 7. september 2002, hafi henni verið metinn 7% varanlegur miski og 5% varanleg örorka. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk stefndi dómkvadda tvo lækna sem matsmenn til að svara tilteknum spurningum um örorku áfrýjanda samkvæmt „reglum og stöðlum“ Tryggingastofnunar ríkisins. Í matsgerð þeirra 9. maí 2005 kom meðal annars fram að samkvæmt örorkumatsstaðli Tryggingastofnunar ríkisins þurfi 15 stig til að örorka verði metin 75%, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Einkenni áfrýjanda, sem rekja mætti til slyssins 6. janúar 2003, mátu þeir til 11 stiga, en einkenni, sem stafi af öðru slysi, til 4 stiga. Sagði í matsgerðinni að þessi einkenni áfrýjanda væru í neðstu mörkum þess, sem þyrfti til 75% örorkumats samkvæmt reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins. Einkennin, er rekja mætti til slyssins 6. janúar 2003, nægi ekki ein sér til 75% örorkumats, en áfrýjandi hafi verið svo á sig komin fyrir þann tíma að talsvert vantaði upp á að hún næði stigafjölda, sem nægði til 75% örorkumats. Telur stefndi sannað með þessu að áfrýjandi eigi þann rétt til bóta úr almannatryggingum, sem haldið sé fram. Engu skipti þótt hluti af 75% örorku hennar stafi af öðrum slysum en því, sem hann er krafinn um bætur fyrir í málinu, en það slys hafi orðið „kveikjan“ að því að réttur hennar varð virkur.

Skýra verður 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga á þann hátt að frá skaðabótum skuli draga þær bætur úr almannatryggingum, sem stafa beinlínis af sama slysi og skaðabætur eru greiddar fyrir. Er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að allur réttur áfrýjanda til bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir 75% örorku eigi að koma til frádráttar í bótauppgjöri hans við áfrýjanda, óháð því að hluti bótaréttar hennar stafar af öðrum slysum en því, sem hún varð fyrir 6. janúar 2003. Ekki liggur fyrir hvaða rétt áfrýjandi kann að hafa öðlast til greiðslna úr almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins 6. janúar 2003 einu út af fyrir sig, en svo sem áður var getið töldu dómkvaddir matsmenn að til þess mætti rekja einkenni hennar, sem metin yrðu til 11 stiga af 15, sem þyrfti til að örorka næmi 75%. Þótt hugsanlegar bætur úr almannatryggingum, sem miðaðar yrðu við lægra örorkustig, gætu átt að koma til frádráttar bótum til áfrýjanda úr hendi stefnda, hefur hann ekki krafist lækkunar á kröfu hennar á þeim grunni, en hann ber sönnunarbyrði fyrir réttmæti frádráttar frá bótum, sem hann er réttilega krafinn um. Ber við svo búið að hafna því að krafa áfrýjanda sæti lækkun vegna bótaréttar hennar úr almannatryggingum. Af þessum sökum verða fyrrnefndir fjórir liðir í kröfu áfrýjanda teknir til greina með vöxtum eins og nánar segir í dómsorði, en dráttarvextir verða dæmdir frá 24. október 2004 er mánuður var liðinn frá því að áfrýjandi beindi bótakröfu til stefnda.

Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði. Áfrýjandi naut gjafsóknar í héraði og verður gjafsóknarkostnaður hennar ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Lindu Björgu Reynisdóttur, 19.096.007 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 6. janúar 2003 til 24. október 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda á 150.000 krónum 16. apríl 2003, 150.000 krónum 4. júlí sama árs, 100.000 krónum 4. mars 2004, 150.000 krónum 6. júní sama árs, 1.500.000 krónum 1. október sama árs og 2.331.121 krónu 2. nóvember 2004.

Stefndi greiði í ríkissjóð 750.000 krónur í málskostnað í héraði.

Stefndi greiði áfrýjanda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7.  október 2005.

Mál þetta höfðaði Linda Björg Reynisdóttir, kt. 031275-5049, Hólum, Eyjafirði með stefnu birtri 8. nóvember 2004 gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til greiðslu bóta.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 15. september sl.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 29.399.070 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 6. janúar 2003 til 24. september 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.  Allt að frádregnum greiðslum 16. apríl 2003, 150.000 krónur, 4. júlí 2003, 150.000 krónur, 4. mars 2004, 100.000 krónur, 6. júní 2004, 150.000 krónur, 1. október 2004, 1.500.000 krónur og 2. nóvember 2004, 2.331.121 króna. 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður. 

Stefnandi slasaðist í umferðarslysi 6. janúar 2003.  Hún ók inn í hrossahóp sem fælst hafði af skoteldum.  Önnur bifreið ók síðan aftan á bifreið hennar.  Meiðslum hennar er lýst í skjölum málsins og verður fjallað um það hér á eftir.  Hún krefur stefnda um bætur samkvæmt slysatryggingu ökumanns, sem í gildi var hjá stefnda á slysdegi. 

Stefnandi missti meðvitund við slysið og man ekki eftir því eða aðdraganda þess.  Hún var flutt af slysstað á sjúkrahús á Akranesi, en síðan á Landspítala í Fossvogi. 

Þar sem ekki er neinn ágreiningur um málavexti er ekki tilefni til að rekja öll þau læknisvottorð sem liggja frammi í málinu. 

Undirbúningur að sérstakri gagnaöflun fyrir mál þetta hófst með matsbeiðni stefnanda 15. apríl 2004.  Var matsbeiðni í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993.  Dómurinn kvaddi til þau Áslaugu Björgvinsdóttur lektor og Jónas Hallgrímsson lækni.  Matsgerð þeirra er dagsett 22. september 2004. 

Matsmenn töldu að stefnandi hefði verið veik með rúmlegu frá 6. janúar til 10. janúar 2003 og veik án rúmlegu frá þeim degi til 30. apríl 2004.  Hún hafi verið óvinnufær allan þennan tíma. 

Varanlegur miski samkvæmt íslensku miskatöflunum væri 42%, en 44% samkvæmt dönskum miskabótatöflum.  Þá væri varanlegur miski vegna einstaklings­bundinna erfiðleika 8%.  Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 50%. 

Matsmenn töldu varanlega örorku stefnanda 60%.  Þá mátu þeir sérstaklega varanlega örorku hennar til heimilisstarfa og töldu hana 40%. 

Er matsgerð þessi lá fyrir kom upp sá ágreiningur sem mál þetta snýst um.  Stefndi vill draga frá kröfu stefnanda uppreiknað eingreiðsluverðmæti örorku- og barnalífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til hennar. 

Eftir að mál þetta var höfðað voru dómkvaddir matsmenn að kröfu stefnda.  Voru lagðar fyrir þá þessar spurningar:

Meta skal varanlega örorku matsþola til prósentu miðað við einkenni í dag, samkvæmt reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins. 

Meta skal varanlega örorku matsþola til prósentu vegna umferðarslyssins þann 6. janúar 2003, samkvæmt reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins.

Meta skal varanlega örorku matsþola til prósentu samkvæmt reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins, miðað við ástand hennar rétt fyrir slysið 6. janúar 2003.

Í matsgerð þeirra Arnbjörns Arnbjörnssonar bæklunarlæknis og Torfa Magnússonar taugalæknis er fyrst vikið að tveimur fyrri slysum stefnanda og afleiðingum þeirra. 

Um hið fyrra segir í matsgerð: 

Matsþoli slasaðist í umferðarslysi þann 14. september 1997 þegar hún var farþegi í framsæti bifreiðar sem lenti í framanáárekstri við aðra bifreið. Var ekki í bílbelti. Hún mun hafa kastast fram í rúðuna og brotið hana og var talið að hún hefði misst meðvitund í nokkrar sekúndur en rankaði síðan við sér. Var búin að jafna sig við komu á slysadeild en þangað var hún flutt eftir slysið. Eftir þetta hafði matsþoli verki í hálsi og hægri öxl með leiðslu niður í hægri handlegg ásamt máttleysi og dofa í fingrum og sérstaklega í litlafingri og baugfíngri. Háls var yfírleitt dálítið stífur og hún fékk höfuðverkjaköst.  Segulómun af hálshrygg þann 8. júní 2000 sýndi lítið brjósklos hægra megin við miðlínu á milli C5 og C6. 

Í vottorði vegna þessa slyss var talið að matsþoli hefði haft vefjagigt fyrir slysið.

Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Ragnar Jónsson gerðu matsgerð um afleiðingar slyssins, og er hún dagsett 17. janúar 2001. Niðurstaða þeirra var sú að matsþoli hefði fengið höfuðhögg við slysið sem hún hefði jafnað sig til fulls af. Hún hafi fengið hálstognun með leiðslu út í hægra herðablað og hægri öxl og niður hægri handlegg ásamt dofa í fíngrum. Brjósklosið sem sást á sneiðmyndum var talið óvíst að uppruna og að einkenni bentu frekar til vöðvaspennu og því talið að þau væru af vöðvauppruna.

Varanlegur miski var metinn 10% og varanleg örorka 10%. 

Í þessari matsgerð var sagt að matsþoli hefði haft bakverki í mjóbaki með leiðslu niður í fótleggi allt frá unglingsárum.

Um hið síðara segir: 

„Matsþoli slasaðist í mótorhjólaslysi 7. september 2002.  Var hún ökumaður þungs bifhjóls á kvartmílubraut fyrir sunnan Hafnarfjörð.  Hún var á lítilli ferð að aka upp á steinsteyptan veg en allhár kantur var upp á veginn og prjónaði hjólið og datt undan matsþola og bögglaðist vinstri ganglimur hennar undir hjólinu.  Var hún talin hafa tognað í vinstra hné en síðar kom í ljós við segulómun að sprunga var í afturhorni innri liðþófa en annað var ekki sérstakt athugavert að sjá og krossbönd og liðbönd virtust eðlileg.  Læknarnir Leifur N. Dungal og Atli Þór Ólason gerðu matsgerð, dags. 2. september 2003, vegna afleiðinga slyssins og töldu að matsþoli hefði álagsbundin óþægindi frá vinstra hné og væg teikn um rifu í innri liðþófa. 

Varanlegur miski vegna slyssins var metinn 7% og varanleg örorka 5%.  Í matsgerðinni minnast læknarnir á slysið þann 6. janúar 2003 og áverka vegna þess en þeir tengdust ekki áverkunum í mótorhjólaslysinu."

Matsmenn vísa til reglugerðar um örorkumöt nr. 379/1999 og staðals sem birtur var sem fylgiskjal.  Fjalla þeir stuttlega um reglurnar og staðalinn og þær aðferðir sem beita skal við örorkumat.  Síðan segir:

„Matsmenn leitast við að svara þeim matsspurningum sem koma fram í beiðni um dómkvaðningu matsmanna með þeim hætti að skoða annars vegar einkenni matsþola og áætlað ástand hennar eins og það var rétt fyrir slysið 6. janúar 2003 (liður 3 í matsbeiðni) og hins vegar ástand matsþola nú (liður 1 í matsbeiðni). Að því loknu hafa matsmenn borið saman einkennin á þessum tveimur tímapunktum í því skyni að meta til prósentu örorku matsþola vegna umferðarslyssins þ. 6. janúar 2003 (liður 2 í matsbeiðni)."

Niðurstöður matsmanna eru síðan rökstuddar nákvæmlega og dregnar saman í lokin.  Fyrstu spurningu svara þeir svo að einkenni stefnanda „... í dag eru í neðstu mörkum þess sem þarf til 75% örorkumats skv. reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins."

Annarri spurningu er svarað svo:  „Einkenni þau er rekja má til umferðarslyssins 6. janúar 2003 nægja ein sér ekki til 75% örorkumats skv. reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins."

Þriðju og síðustu spurningunni svara matsmenn:  „Einkenni matsþola rétt fyrir slysið 6. janúar 2003 voru með þeim hætti að talsvert vantaði upp á að matsþoli næði stigafjölda sem nægði til 75% örorkumats skv. reglum og stöðlum Tryggingastofnunar ríkisins." 

Loks kemur fram í matsgerð að stefnandi naut endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. nóvember 1998 til 28. febrúar 1999 og á ný frá 1. júní 2003 til 31. maí 2004.  Frá 1. júní 2004 til 31. maí 2005 var hún metin 75% öryrki og naut örorkulífeyris. 

Málsástæður stefnanda.

Krafa stefnanda byggir á slysatryggingu ökumanns sem tekin var hjá stefnda.  Stefnandi vísar til niðurstaðna í matsgerð og sundurliðar kröfur sínar svo:

 

Miskabætur (5.645.500 x 50%)

kr.   2.822.750

Bætur fyrir varanlega örorku:

 

1.693.000 x 13,75x60%

kr. 13.967.250

1.693.000 x 13,75x40%

kr.   9.311.500

Þjáningabætur rúmliggjandi (1830x4)

kr.          7.320

Þjáningabætur án rúmlegu (990 x 475)

kr.      470.250

Annað fjártjón

kr.       200.000

Tímabundið örorkutjón

kr.    2.120.000

Bætur fyrir breytingu á stöðu og högum

kr.       500.000

          Krafa samtals: 29.399.070 krónur. 

 

 

Krafa um miskabætur er byggð á 4. gr. skaðabótalaga.  Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku miðar stefnandi við lágmarkslaun og niðurstöður matsgerðar um varanlega örorku.  Hún fullyrðir að vinnu á heimili beri að meta á jafnréttisgrundvelli.  Hefði hún unnið úti hefði hún engu að síður unnið mjög mikið við heimilisstörf.  Krafa um þjáningabætur er byggð á 3. gr. skaðabótalaga. 

Þá krefst stefnandi bóta fyrir það sem hún kallar annað fjártjón og vísar til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.  Hún hafi margoft þurft að aka eða fljúga til Reykjavíkur eða innan héraðs í Skagafirði.  Hún hafi fengið að liggja inni hjá ættingjum eða keypt sér gistingu.  Hún hafi þurft að kaupa sér mat á þessum ferðum og greitt komugjöld til lækna. Þá hafi lyfjakostnaður orðið nokkur. Því sé ljóst að hún hafi lagt út mikið fé vegna slyssins, en  að meta verði þetta að álitum. 

Kröfu um bætur fyrir breytingar á stöðu og högum kveðst stefnandi byggja á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.  Hún kveðst vísa til sjónarmiða í hæstaréttardómi í máli nr. 188/2004. 

Stefnandi telur að ekki komi til greina að draga frá ofangreindum fjárhæðum áætlaðar framtíðarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og stefndi krefst.  Það sé grundvallarregla í skaðabótarétti að sá sem sóttur er til bóta, verði að sanna hlutrænar ábyrgðarleysisástæður, svo sem samþykki eða neyðvörn og ennfremur ósakhæfi, eigin sök og aðrar aðstæður sem kunna að leysa varnaraðila undan bótaskyldu að einhverju eða öllu leyti.  Engin slík sönnun hafi verið fram færð fyrir því að lækka beri umkrafðar bætur samkvæmt 4. málsgrein 5. greinar skaðabótalaga. Ekki liggi fyrir mat frá Tryggingastofnun ríkisins um að stefnandi hafi verið metin 75% öryrki vegna slyssins. 

Stefnandi telur að með túlkun stefnda brjóti 4. mgr. 5. gr. í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.  Í þeirri reglu felist að mjög gild rök þurfi til svo afdrifaríkra breytinga á bótarétti tjónþola eins og felist í afstöðu hins stefnda félags.  Túlkun stefnda leiði til mismununar sem gangi mun lengra en löggjafinn hafi haft í huga.  Bótaskylda sé nánast ekki fyrir hendi miðað við tjón stefnanda. 

Bætur frá Tryggingastofnun ríkisins séu almennar bætur, sem allir eigi rétt á, búi þeir við ákveðna skerðingu á lífsgæðum og heilsu sem falli undir ákvæði laga nr. 117/1993.  Stefnandi kveðst ekki eiga rétt á slysabótum samkvæmt III. kafla laganna, hún geti í mesta lagi átt rétt á örorkubótum samkvæmt 12. gr.  Þá yrði ekki hægt að meta sérstaklega örorku vegna þess slyss sem hér er fjallað um, 75% örorka yrði aldrei metin vegna þess eins.  Þegar af þeirri ástæðu geti væntanlegar bætur frá Tryggingastofnun ekki lækkað þær bætur sem stefnandi krefur hér um. 

Stefnandi bendir á að örorkumat samkvæmt reglugerð nr. 379/1999 gildi aðeins til ákveðins tíma,  Að þeim tíma liðnum sé metið á ný.  Þannig séu bætur almannatrygginga aðeins til skamms tíma.  Þá séu bæturnar miðaðar við tekjur bóta­þega og maka hans.  Því sé ekki hægt að bera þessar bætur saman við bætur samkvæmt skaðabótalögum.  Þær verði því ekki dregnar frá kröfu í þessu máli.  Þá segir stefnandi að réttur sinn til örorkubóta sé ósannaður. 

Stefnandi segir það felast í orðalagi 4. mgr. 5. gr. að ekki eigi að miða við væntan­legar, ógreiddar bætur.  Miða skuli við greiddar bætur og verðmæti greiddra bóta. 

Stefnandi mótmælir því að væntanlegur barnalífeyrir verði dreginn frá.  Lífeyrir þessi tilheyri barninu líkt og meðlög samkvæmt barnalögum.  Túlka beri 4. mgr. 5. gr. þröngt að þessu leyti. 

Stefnandi kveðst byggja á að engin sönnun liggi fyrir um að taflan í 6. gr. skaðabótalaga taki mið af að stór hluti bóta stefnanda eigi að greiða úr almanna­tryggingakerfinu.  Stefnandi bendir á sem dæmi, að miðað við stuðulinn 10, sem gilti samkvæmt lögum nr. 42/1996 um breytingu á lögum nr. 50/1993, fengi stefnandi ekki verulega lægri bætur, en hún nú geri kröfu til og ætti síðan rétt á bótum úr almannatryggingakerfinu.  Því fái ekki staðist að bætur stefnanda eigi að lækka svo verulega á grundvelli  4. mgr. 5. gr. 

Þá vísar stefnandi til þess að stefndi hafi fært í bótasjóð sinn 40.000.000 króna vegna umrædds slyss og að sú fjárhæð hafi ekki enn verið færð til baka.  Stefndi hafi því þegar aflað fjár af tjóni sínu með skattahagræði.  Kveðst hún byggja á, að hún eigi rétt á að stefndi greiði henni bætur í samræmi við þann hluta af álögðum iðgjöldum vegna ábyrgðartrygginga bifreiða árið 2003, sem félagið færði í bótasjóð sinn vegna slyssins með ofangreindum hætti í samræmi við það sem stefnandi kallar grundvallarreglu. 

Telur stefnandi sig eiga rétt á að stefndi greiði henni að lágmarki 14.450.122 krónur. Að öðrum kosti hafi félagið með ólögmætum hætti hagnast á umferðaróhappi stefnanda, sem geti ekki verið tilgangur þeirra laga sem á þessu réttarsviði gildi.  Stefnandi byggir á að þessar málsástæður eigi enn frekar við, þar sem stefndi neiti bótum og beini stefnanda til Tryggingastofnunar ríkisins með bótakröfu sína. 

Þá er í stefnu lagt út af því að stefndi hafi samkvæmt 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga það lögbundna hlutverk að greiða bótakröfu vegna tjóns sem hlotist hefur af notkun skráningarskylds ökutækis.  Samkvæmt efni greinarinnar sé lögbundið að vátryggingafélög greiði bótakröfu vegna slyss í umferðinni.  Stefnda sé því ekki stætt á því að neita um bætur með þeim hætti sem það geri. 

Síðan segir orðrétt:  „ Stefnandi byggir á að 1. málsliður 4. málsgreinar 5. greinar laga nr. 50/1993, samanber 4. grein laga nr. 37/1999 verði að víkja fyrir dómkröfum stefnanda.  Höfnun hins stefnda félags á greiðslu réttmætra bóta sé ólögmæt eigna­skerðing og brjóti gegn eignarverndarákvæði stjórnarskrár, 72. grein, meðal annars af þeim sökum að algjör óvissa ríki um það hverjar bætur stefnanda myndu hugsanlega verða úr almannatryggingakerfinu, vegna þeirra áverka sem stefnandi hlaut í umferðarslysinu þann 6. janúar 2003." 

Í framhaldi af þessu er nánar útskýrt hvers vegna þessi eignaskerðing standist ekki. 

Í stefnu er reiknað út að hefði stuðullinn 10 sem lögfestur var með breytingu á skaðabótalögunum 1996 verið látinn haldast, hefði bótakrafa stefnanda numið samtals 22.020.000 krónum.  Samtímis hefði hún haldið hugsanlegum rétti til örorkulífeyris og annarra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.  Þetta sýni enn frekar að hér sé um að ræða ólögmæta eignaskerðingu. 

Þá bendir stefnandi á að margnefnd 4. mgr. 5. gr. brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr.  Þeir sem hljóti svo alvarlega áverka eins og hún standi verr að vígi en þeir sem slasist minna og hljóti minni örorku.  Hún bendir á að samkvæmt túlkun stefnda á ákvæðinu njóti íslenskir ríkisborgarar, sem slasist í umferðarslysum hér á landi, ekki sama bótaréttar og erlendir ríkisborgarar.  Það megi með skýrum hætti lesa úr 91. til 94. gr. umferðarlaga. 

Bendir stefnandi í þessu sambandi á ýmsa alþjóðasáttmála sem Ísland hafi gerst aðili að.  Nefnir hún Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, Mannréttinda­sáttmála Evrópu og Félagsmálasáttmála Evrópu. 

Að lokum kveðst stefnandi byggja á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.  Telur hann að í reglum samningsins og í tilskipun um ökutækjatryggingar komi skýrt fram að tilgangur samningsins sé m.a. að samræmi sé á milli aðildarlandanna um ökutækjatryggingar og greiðslur bóta vegna umferðarslysa.  Telur stefnandi ljóst að slíkar bætur séu verulega lægri hér á landi en í öðrum aðildarríkjum.  Vísar hún til greinargerðar nefndar í Danmörku er undirbjó breytingar á dönsku skaðabótalögunum sem lögfestar voru og tóku gildi 7. júlí 2001.  Fram komi að skaðabætur vegna líkams­tjóns séu lægri í Danmörku en í öðrum Evrópuríkjum.  Byggir stefnandi á að slíkar bætur séu þó enn lægri á Íslandi en í Danmörku.  Þetta leiði til þess að líta verði á dómkröfur stefnanda með sérstakri sanngirni og ríkri réttlætiskennd, í samræmi við grundvallarviðhorf í skaðabótarétti. 

Þá telur stefnandi að dómar þar sem dæmdar eru bætur úr hendi vinnuveitanda vegna vinnuslysa séu ekki fordæmi í þessu máli. 

Auk þeirra lagaákvæða sem að framan greinir vísar stefnandi í lok stefnu til 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarverndarákvæða þeirra alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að.  Þá er vísað til reglu skaðabótaréttar um fullar bætur og 2., 3., 4., 5., 6. og 7. gr., svo og 2. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. 

Málsástæður stefnda. 

Stefndi kveðst hafa bætt tjón stefnanda að fullu með greiðslu þann 2. nóvember 2004.  Ósannað sé að stefnandi eigi rétt til frekari bóta. 

Stefndi bendir á að það hafi verið yfirlýst markmið þeirrar breytingar á skaðabóta­lögunum, sem gerð var með lögum nr. 37/1999, að margföldunarstuðullinn reiknaði fullar bætur.  Því hafi verið lögfest að draga skyldi frá bótakröfunni allar greiðslu frá almanna­tryggingum.  Stefndi vitnar hér til þess sem hann kallar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþolar eigi ekki að hagnast á tjóni sínu.  Markmiðið sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og tjónið hefði ekki orðið. 

Stefndi telur sig hafa sannað að stefnandi eigi rétt til örorkulífeyris og barnalífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.  Vísar hann til matsgerðar þeirrar sem áður greinir. 

Stefndi fól Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingastærðfræðingi að reikna verðmæti bótagreiðslna sem stefnandi ætti rétt á frá Tryggingastofnun.  Forsendur þess útreiknings voru þær að stefnandi væri metinn 75% öryrki og að stöðugleikapunktur væri 30. apríl 2004.  Styður hann þá viðmiðun við tvo dóma Hæstaréttar.  Þá var miðað við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að stefnandi væri einstæð fjögurra barna móðir. 

Niðurstaða útreiknings tryggingafræðingsins var sú að höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris, barnalífeyris, tekjutryggingar og örorkuuppbótar stefnanda væri kr. 23.204.000.  Telur stefndi að frá þeirri tölu skuli draga þriðjung vegna skattfrelsis og ein­greiðsluhagræðis.  Því skuli draga 15.470.000 krónur frá kröfu stefnda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. 

Stefnandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 12. gr. laga nr. 117/2003.  Samkvæmt 14. gr. laganna eigi hún einnig rétt á barnalífeyri.  Stefndi tekur sérstaklega fram að þessi barnalífeyrir renni til stefnanda, en ekki til barna hennar.  Vísar hann til 4. mgr. 60. gr. laganna og til dómafordæma.  Loks beri að draga frá kröfunni tekjutryggingu og örorkuuppbót sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt 15. og 17. gr. laganna. 

Stefndi mótmælir því að um sé að ræða svokallaðar hlutrænar ábyrgðar­leysis­ástæður.  Bótaskylda sé viðurkennd.  Ágreiningur snúist um það hvernig reikna skuli tjón stefnanda.

Stefndi mótmælir því að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga brjóti í bága við meðalhófs­reglu stjórnskipunarréttar. Stefnandi rökstyðji þetta ekki.  Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé sett til þess að framfylgja meginreglunni um að tjónþoli eigi ekki að hagnast á tjóni sínu.  Það brjóti ekki í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. 

Stefndi mótmælir því að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga leiði til þess að stefnanda sé mismunað.  Um sé að ræða almenna reglu sem gildi um alla sem eigi rétt á bótum úr almannatryggingakerfinu. 

Stefndi mótmælir því að bætur almannatrygginga til stefnanda séu aðeins til ákveðins tíma.  Unnt sé að meta einstakling til örorku varanlega.  Þá geti vísun stefnanda til 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/2003 ekki átt við.  Loks vísar stefndi til þess að í samræmi við dómafordæmi skuli miða við ástand á stöðugleikapunkti. 

Stefnandi mótmælir tilvísun stefnanda til lögmætisreglunnar.  Hún sé með öllu órökstudd. 

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að einungis skuli draga frá þær bætur sem þegar hefi verið greiddar. 

Stefndi segir það rétt hjá stefnanda að hún eigi ekki rétt á bótum samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar.  Hún eigi hins vegar rétt á lífeyri samkvæmt II. kafla laganna. 

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi kröfu byggða á útreikningi á bótasjóði sínum.  Stefnandi geti ekki átt kröfu sem nemi upphaflegri áætlun um tjónið.  Bótakrafa skuli reikna samkvæmt reglum laga nr. 50/1993. 

Stefndi vísar til þess að Hæstiréttur hafi þegar hafnað því að reglur skaðabótalaga brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. 

Stefndi mótmælir þeirri kröfu stefnanda að beitt skuli rýmkandi lögskýringu.  Loks mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að bótagreiðslur hér á landi séu lægri en í öðrum löndum. 

Varakrafa er á því byggð að stefnanda hafi þegar verið greiddar bætur.  Tímabundið tekjutap, þjáningarbætur, varanlegur miski og varanleg örorka hafi þegar verið bætt. 

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um bætur fyrir 100% varanlega örorku.  Hún hafi einungis hlotið 60% örorku í umræddu slysi.  Þá hafi þjáningarbætur, bætur fyrir tímabundið tekjutap og bætur fyrir varanlegan miska þegar verið greiddar að fullu í samræmi við kröfugerð stefnanda. 

Mótmælt er kröfu um bætur fyrir annað fjártjón.  Það sé ósannað, en auðveldlega hefði mátt halda reikningum og kvittunum til haga.  Þá er mótmælt kröfu um bætur fyrir röskun á stöðu og högum.  Ekki sé að lögum heimild til greiðslu slíkra bóta eftir gildistöku skaðabótalaga. 

Loks er vaxta- og dráttarvaxtakröfum mótmælt. 

Forsendur og niðurstaða. 

Málatilbúnaður stefnanda snýst fyrst og fremst um það að óheimilt sé að draga frá reiknuðu tjóni hennar verðmæti þeirra bótagreiðslna sem hún á rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt gildandi reglum, miðað við örorku hennar á svokölluðum stöðugleikapunkti. 

Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, skal draga frá skaðabótakröfu  „... greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum”.  Af dómum Hæstaréttar undanfarin misseri verða dregnar nánari ályktanir um beitingu þessarar reglu.  Þannig skal reikna eingreiðsluverðmæti bótanna miðað við þann dag er ástand tjónþola er orðið stöðugt, tímamark sem fræðimenn nefna batahvörf, sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga.  Þá ber að draga verðmæti barnalífeyris samkvæmt 14. gr. laga nr. 117/1993 frá bótakröfunni.  Þannig eru þessar bætur metnar sem greiðsla til foreldra í þessu samhengi, en ljóst er að það eru veikindi foreldra sem skapa rétt til þessara bóta. 

Þeir hæstaréttardómar sem um þetta fjalla eru dómur 18. september (mál nr. 520/2002), dómur 27. nóvember 2003 (mál nr. 223/2003) og dómur 17. febrúar 2005 (mál nr. 357/2004). 

Um einstakar málsástæður stefnanda skal tekið fram: 

Frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. er regla um útreikning bótafjárhæðar.  Stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi eigi rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins.  Þetta hefur hann sannað með áðurgreindri matsgerð þar sem komist er að þeirri niður­stöðu að stefnandi sé 75% öryrki samkvæmt gildandi reglum stofnunarinnar.  Þessi túlkun varðar ekki reglur stjórnskipunarréttar með þeim hætti að til greina komi að beita sjónarmiðum um meðalhóf. 

Slys það sem hér er fjallað um hefur leitt til þess að örorka stefnanda telst 75%.  Þó slys þetta sé ekki eina orsök þess að svo er komið er slysið þó nauðsynlegt skilyrði til þess. 

Áðurgreindir dómar eru skýr fordæmi fyrir því að reikna skuli eingreiðslu­verðmæti væntanlegra bóta eins og stefndi krefst.  Hafnað hefur verið þeirri skýringu stefnanda að til frádráttar komi aðeins þegar greiddar bætur.  Þá leiðir af dómunum að barnalífeyrir kemur til frádráttar eins og örorkulífeyrir.  

Ekki er unnt að taka til greina þá fullyrðingu stefnanda að ósannað sé að tafla 6. gr. skaðabótalaga taki mið af því "... að stór hluti bóta stefnanda eigi að greiða úr almannatryggingakerfinu".  Settar hafa verið almennar reglur um útreikning bóta fyrir líkamstjón og verður að beita þeim, en ljóst er að reglurnar eru ekki sérsniðnar að einstökum tilvikum. 

Inneign í svonefndum bótasjóði eða fjárhagsstaða stefnda að öðru leyti kemur ekki til skoðunar þegar bótakrafa stefnanda er reiknuð.  Bótakrafan er reiknuð samkvæmt lögum.  Því stoðar heldur ekki tilvísun til 72. gr. stjórnarskrárinnar, en lagareglur um útreikning bóta vegna líkamstjóns fela ekki í sér eignaskerðingu.  Stoðar heldur ekki að sýna fram á að bætur séu lægri en verið hefði samkvæmt eldri reglum. 

Ekki hefur verið sýnt fram á að reglur skaðabótalaga um ákvörðun bóta feli í sér slíka mismunun að fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Þá er tilvísun til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og síðari tilskipana með öllu vanreifuð. 

Ekki verður viðurkenndur réttur stefnanda til bóta fyrir varanlega örorku miðað við hvort tveggja, starf á almennum vinnumarkaði og heimilisstörf. 

Krafa um bætur fyrir annað fjártjón er ekki studd neinum gögnum og verður þeim lið hafnað.  Þá er engin heimild til að ákveða bætur fyrir breytingu á stöðu og högum.  Aðrir kröfuliðir stefnanda sæta ekki andmælum. 

Samkvæmt þessu verður fallist á útreikning kröfu stefnanda að kr. 19.387.570 (2.822.750 + 13.967.250 + 7.320 + 470.250 + 2.120.000).  Höfuðstólsverðmæti örorku­lífeyris, barnalífeyris, tekjutryggingar og örorkuuppbótar stefnanda nemur samkvæmt útreikningi tryggingafræðings 23.204.000 krónum.  Draga skal frá tvo þriðju hluta þess, 15.470.000 krónur.  Eftir standa þá 3.982.430 krónur.  Stefndi hefur þegar greitt til stefnanda samtals 4.381.121 krónu.  Samkvæmt því er tjón stefnanda þegar bætt.  Verður stefndi sýknaður. 

Þrátt fyrir þá staðreynd að stefnandi beri fram í málinu röksemdir í löngu máli, sem þegar hefur verið hafnað í dómaframkvæmd, er rétt vegna aðstæðna að öðru leyti að málskostnaður falli niður.  Er þá litið til þess að stefnandi hefur hlotið verulega áverka af slysinu, en bætur reiknast lágar vegna reglu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, útlagður kostnaður 491.190 krónur og málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfum stefnanda, Lindu B. Reynisdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 1.241.190 krónur, greiðist úr ríkissjóði.