Hæstiréttur íslands

Mál nr. 642/2016

Húsaklæðning ehf. (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
Húsfélaginu Kaplaskjólsvegi 89 - 93 (Skúli Bjarnason hrl.)

Lykilorð

  • Samningur
  • Verksamningur
  • Endurheimturéttur
  • Endurkrafa
  • Skaðabótakrafa
  • Tómlæti

Reifun

K krafði H ehf. um greiðslu nánar tiltekinnar fjárhæðar vegna sprunguviðgerða sem H ehf. hafði tekið að sér á fasteign K. Hafði H ehf. gefið út fjóra reikninga vegna verksins og K greitt tvo þeirra. Byggði K kröfu sína um endurgreiðslu á því að ekki hefði komist á verksamningur milli aðila. Talið var að þegar K innti greiðslur sínar af hendi hefði honum mátt vera ljóst að tilefni þeirra væru verklegar framkvæmdir sem H ehf. hafði ráðist í og blöstu við íbúum hússins. Einnig hefði K ekki borið því við að honum hefði verið ókunnugt um efni undirritaðs skjals sem fyrir lá og fól í sér samkomulag um verkið. Hefði því verið fullt tilefni fyrir K að bregðast við teldi hann að H ehf. væri án heimildar að sinna viðgerðum við húsið. Þess í stað hefði hann greitt fyrirvaralaust tvo reikninga frá H ehf. og engar athugasemdir gert við það að hann héldi framkvæmdunum áfram. Var því ekki talið að K gæti krafið H ehf. á grundvelli reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Einnig reisti K kröfu sína á því að enginn árangur hefði verið af verki H ehf. Hafði í stefnu K til héraðsdóms verið lýst að í kjölfar þess að síðari greiðsla hans var innt af hendi vegna verksins hefðu íbúar hússins gert sér grein fyrir að ekki væri allt með felldu. Þrátt fyrir það hafði K ekkert aðhafst fyrr en fenginn var verkfræðingur um ári síðar til að skoða verkið. Þá var því fyrst hreyft í stefnu að annmarkar væru á verkinu eða ríflega einu og hálfu ári eftir að K hefði haft tilefni til. Var því talið að K hefði sökum tómlætis glatað rétti til að bera fyrir sig að gallar væru á verkinu þannig að hann gæti krafist skaðabóta úr hendi H ehf. Var H ehf. því sýknaður af kröfu K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi hefur frá árinu 2001 ráðist í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á húsinu númer 89 til 93 við Kaplaskjólsveg í Reykjavík og mun félagið hafa talið þær ófullnægjandi í ýmsum atriðum. Hinn 14. ágúst 2010 boðaði stefndi til húsfundar 23. sama mánaðar til að fjalla um uppgjör á framkvæmdum árið 2007, auk þess sem ræða átti um frekari framkvæmdir og tilhögun þeirra. Samkvæmt fundargerð var á fundinum kynnt mat á ástandi hússins, en í því kom meðal annars fram að ekki hefði verið gengið rétt frá gluggum í fyrri viðgerðum, svalagólf væru farin að flagna og skemmd væri í þaki, auk þess sem komnar væru sprungur í og við plötuskil. Þá kom fram að annar gafl hússins væri verr farinn en aðrir hlutar þess. Enn fremur sagði þar að ástand glugga á stigahúsum og þvottahúsum væri ekki eins slæmt og áætlað var í upphafi, en nauðsynlegt væri að gera við skemmdir á botn- og yfirstykkjum. Var ítrekað að nauðsynlegt væri að ráðast tafarlaust í viðgerðir. Á fundinum var borin upp og samþykkt kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna og nam hún 10.000.000 krónum. Þá var samþykkt að stofna framkvæmdasjóð frá og með ársbyrjun 2011, en gert var ráð fyrir að í hann yrðu lagðar árlega 2.000.000 krónur með mánaðarlegum framlögum og að fé úr honum yrði ekki ráðstafað nema eftir ákvörðun húsfundar.

Til að afla fjár til framkvæmdanna voru eigendum íbúða í húsinu sendir greiðsluseðlar í nóvember 2010 og september 2011, en með því móti mun hafa verið safnað 10.000.000 krónum í samræmi við fyrrgreinda kostnaðaráætlun.

Stefndi fól einum íbúa hússins, Ingólfi Níelssyni, að annast viðgerðir á gluggum og hófst hann handa við þá framkvæmd snemmsumars 2011. Við það verk var notuð vinnulyfta sem tekin hafði verið á leigu. Um mitt sumarið hóf áfrýjandi síðan vinnu við sprunguviðgerðir á húsinu og var til verksins notuð sú lyfta sem áður greinir og var tiltæk við húsið. Áfrýjandi er að öllu leyti í eigu Steinunnar Káradóttur samkvæmt kaupsamningi og afsali 20. júní 2011. Hún á íbúð í húsinu, en eiginmaður hennar, Eyjólfur Matthíasson, annaðist viðgerðina á vegum áfrýjanda.

Eins og rakið er í héraðsdómi er meðal málsgagna skjal dagsett 28. júní 2011 með fyrirsögninni: „KAPLASKJÓLSVEGUR 89-93 Múr- og steypuviðgerðir, þéttingar, blettun.“ Því næst er að finna lista í 16 liðum yfir tilgreinda verkþætti með einingarverðum. Tekið er fram í skjalinu að við bætist 25,5% virðisaukaskattur. Einnig segir að verkkaupi veiti aðgang að vinnuaðstöðu, vatni og rafmagni og spjótlyftu til verksins. Þá kemur fram að greitt verði „eftir framvindu verks (vikulega).“ Jafnframt er tekið fram að eingöngu verði notuð efni sem standist kröfur verktaka, en vinnsla og meðferð þessara efna sé háð sérstakri verkkunnáttu. Í niðurlagi skjalsins segir svo: „Steypuviðgerðirnar eru mjög ljótar. Virðist sem menn hafi smurt múr út um allt og myndað hryggi báðum megin við láréttar raufar, úthorn, innhorn og veggenda. Verktaki lagfærir ekki útlitsbreytingar á fyrri steypuviðgerðum. Það er mjög kostnaðarsamt að laga þær. Svalir og svalagólf er sér verkþáttur. Nauðsynlegt er að gera prufu á einu svalagólfi.“ Skjal þetta er undirritað fyrir hönd verktaka af fyrrgreindum Eyjólfi en fyrir hönd verkkaupa af tveimur eigendum íbúða í húsi númer 91, einum í húsi númer 89 og af fyrrgreindum Ingólfi, eiganda íbúðar í húsi númer 93. Tveir þessara eigenda íbúða áttu sæti í stjórn húsfélags í sínum stigagangi hússins.

Áfrýjandi mun hafa unnið við verkið fram í september 2011, en hann telur sig hafa lokið því endanlega í byrjun desember það ár. Samkvæmt yfirliti áfrýjanda um magntölur miðað við einingarverð í fyrrgreindu skjali 28. júní 2011 nam kostnaður við verkið samtals 7.114.825 krónum með virðisaukaskatti. Áfrýjandi gaf út fjóra reikninga á hendur stefnda samtals að fjárhæð 7.124.825 krónur. Fyrsti reikningurinn 16. ágúst 2011 var að fjárhæð 1.882.500 krónur, en næstu tveir, 16. september og 1. desember sama ár, hvor að fjárhæð 2.000.000 krónur. Lokareikningurinn 7. janúar 2012 var að fjárhæð 1.242.325 krónur. Stefndi greiddi fyrsta reikninginn í tvennu lagi með 1.050.000 krónum 27. ágúst 2011 og 832.500 krónum 16. september sama ár. Jafnframt greiddi hann einnig síðara sinnið reikning sama dag að fjárhæð 2.000.000 krónur. Frekari greiðslur bárust ekki frá stefnda. Stefndi mun hafa sótt um og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnulið reikninganna sem hann greiddi.

Áfrýjandi sendi stefnda innheimtuviðvörun 6. febrúar 2012 vegna ógreiddra reikninga. Það erindi ítrekaði hann með innheimtubréfum 16. febrúar og 21. september sama ár. Þessum erindum svaraði stefndi með bréfi 25. september 2012 þar sem fram kom að fyrir mistök hefðu verið greiddir reikningar frá áfrýjanda án þess að komist hafi á verksamningur milli aðila. Af þeim sökum var krafist fullrar endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda en lýst yfir vilja til viðræðna um sanngjarnt endurgjald fyrir verkþætti sem sannanlega hefðu verið unnir og komið til góða fyrir viðhald hússins.

II

 Svo sem hér hefur verið rakið var samþykkt á húsfundi stefnda 23. ágúst 2010 kostnaðaráætlun vegna viðgerða á húsinu að fjárhæð 10.000.000 krónur. Íbúi í því tók síðan að sér að gera við glugga þess og hóf það verk snemma um sumarið 2011. Í kjölfarið hóf áfrýjandi að gera við sprungur á húsinu. Af hálfu stefnda hefur komið fram að áfrýjandi hafi borið áberandi hvítt efni víðs vegar á húsið og þá einkum á plötuskilum. Jafnframt var undirritað skjal 28. júní 2011 sem fól í sér samkomulag um einingarverð tiltekinna verkþátta við múr- og steypuviðgerðir, þéttingar og blettun. Með samkomulaginu var áfrýjanda jafnframt veittur aðgangur að aðstöðu við verkið og lyftu sem var tiltæk vegna framkvæmda við húsið. Áfrýjandi gerði stefnda fjóra reikninga vegna verksins og voru tveir þeirra greiddir 27. ágúst og 16. september 2011.

Þegar stefndi innti greiðslur sínar af hendi mátti honum vera ljóst að tilefni þeirra voru verklegar framkvæmdir sem áfrýjandi hafði ráðist í og blöstu við íbúum hússins. Einnig hefur stefndi ekki borið því við að honum hafi verið ókunnugt um efni skjalsins 28. júní 2011, sem fól í sér samkomulag um verkið, hvað sem líður heimild þeirra sem undirrituðu skjalið til að skuldbinda stefnda. Að þessu gættu var fullt tilefni fyrir stefnda að bregðast við ef hann taldi að áfrýjandi væri án heimildar að sinna viðgerðum við húsið. Þess í stað greiddi hann fyrirvaralaust tvo reikninga frá áfrýjanda og gerði engar athugasemdir við að hann héldi áfram framkvæmdum við húsið fram eftir hausti. Samkvæmt þessu verður talið að stefndi hafi glatað rétti til að vefengja skyldu sína til að inna þessar greiðslur af hendi á þeim grundvelli að lagalegri skuldbindingu þar að lútandi hefði ekki verið til að dreifa. Verður því hafnað þeirri málsástæðu hans að hann geti krafið áfrýjanda á grundvelli reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

III

 Stefndi reisir kröfu sína einnig á þeim grunni að enginn árangur hafi verið af verki áfrýjanda, en á honum hafi hann borið ábyrgð í samræmi við almennar reglur um verksamninga. Heldur hann því fram að vinna þurfi verkið aftur og hefja það með því að fjarlægja það efni sem áfrýjandi bar á húsið. Telur hann að þessi krafa um skaðabætur nemi ekki lægri fjárhæð en þeim greiðslum sem hann innti af hendi.

Stefndi fékk verkfræðing til að skoða viðgerð áfrýjanda á húsinu og skilaði hann minnisblaði um þá athugun 21. september 2012. Í niðurlagi þess sagði að engar hefðbundnar og viðurkenndar viðgerðir hefðu verið gerðar á húsinu eins og ætla mætti miðað við yfirlit áfrýjanda um verkþætti sem búið væri að vinna. Akrýlefni hefði verið borið á málningu víðsvegar á húsinu, en ekki væri staðfest að þar hefðu verið sprungur. Einnig hefði efnið verið borið á steypuskemmdir án viðgerðar, sem væru ófagleg vinnubrögð.

Í stefnu til héraðsdóms er því lýst að í kjölfar þess að síðari greiðsla stefnda var innt af hendi 16. september 2011 hefðu íbúar hússins gert sér grein fyrir að ekki væri allt með felldu, bæði að því er varðaði samning um verkið og um sjálft verklagið. Þrátt fyrir þetta var ekkert aðhafst fyrr en fenginn var verkfræðingur um ári síðar til að skoða verkið, en hann skilaði minnisblaðinu 21. september 2012, sem hér hefur verið rakið. Þegar stefndi ritaði áfrýjanda bréf sitt 25. sama mánaðar og krafðist endurgreiðslu á þeim grunni að reikningar hefðu verið greiddir fyrir mistök var því ekki hreyft að annmarkar hefðu verið á verkinu. Var fyrst á því byggt í stefnunni þegar málið var höfðað 11. apríl 2013 eða ríflega einu og hálfu ári eftir að hann hafði tilefni til. Með þessu tómlæti sínu hefur stefndi glatað rétti til að bera fyrir sig að gallar hafi verið á verkinu þannig að hann geti krafist skaðabóta úr hendi áfrýjanda. Verður þeirri málsástæðu því einnig hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. verkiðskilum.i víðs vegar á h húsrummælandi7urgjald fyrir verkþætti sem sannanlega voru unnir og komu til g

Dómsorð:

Áfrýjandi, Húsaklæðning ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Húsfélagsins Kaplaskjólsvegi 89-93.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2016.

                Mál þetta höfðaði Húsfélagið Kaplaskjólsvegi 89, 91 og 93, Reykjavík, með stefnu birtri 11. apríl 2013 á hendur Húsaklæðningu ehf., Hólmaslóð 2, Reykjavík.  Málið var dómtekið 7. júní sl. 

                Stefnandi krefst greiðslu á 3.882.500 krónum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.050.000 krónum frá 29. ágúst 2011 til 5. september sama ár, en af 1.882.500 krónum frá þeim degi til 16. september 2011, af 3.882.500 krónum frá þeim degi til 25. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst einnig málskostnaðar. 

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar. 

                Á húsfundi stefnanda þann 23. ágúst 2010 var samþykkt að ráðast í tilteknar utanhússviðgerðir. Undir lið 3 í fundargerð frá fundinum segir:

                „Guðný Einarsdóttir og Ingólfur Níelsson kynntu ástandsmatið.  Það helsta sem kom fram var m.a. að ekki hefur verið gengið rétt frá gluggum í fyrri viðgerðum, svalagólf eru farin að flagna og skemmd er í þaki og þá eru komnar sprungur í og við plötuskil ...  Ástand glugga á stigahúsum og þvottahúsum er ekki eins slæmt og áætlað var í upphafi en nauðsynlegt er að gera við skemmdir á botn og yfirstykkjum.  Mjög alvarlegt ástand er í nokkrum íbúðum (sjá lista í fylgiskjali 3.1) ...  Ítrekað var að nauðsynlegt er að fara í þessar viðgerðir tafarlaust.“

                Í 4. lið er bókað: 

                „Guðný og Ingólfur kynntu viðgerðar- og kostnaðaráætlunina.  Kostnaðar­áætlun fylgdi fundarboði (sjá fylgiskjal 4.1).  Gengið var til atkvæða um kostnaðar­áætlunina sem hljóðar uppá um 10 milljónir.  Kostnaðaráætlunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.“

                Þá var samþykkt tillaga um stofnun framkvæmdasjóðs sem greitt yrði til mánaðarlega frá janúar 2011. 

                Guðný Einarsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi, en Ingólfur Níelsson var ekki kvaddur fyrir dóminn.  Guðný sagði að framkvæmdasjóðurinn hefði verið stofnaður til þess að húsfélagið ætti fyrir viðgerðum í framtíðinni, en vitað hafi verið að ýmsar framkvæmdir yrðu á dagskrá næstu árin.  Hún sagði að það hefði verið samþykkt að gera við glugga og Ingólfi Níelssyni hefði verið falið að vinna það verk.  Múrviðgerðir hefðu ekki verið samþykktar, þótt talað hefði verið um nauðsyn þeirra. 

                Um sumarið 2011 hóf Ingólfur viðgerðir á gluggum eins og rætt hafði verið um á fundinum.  Leigði hann vinnulyftu til að nota við verkið.  Um mitt sumarið hóf stefndi Húsaklæðning að vinna við sprunguviðgerðir á húsinu.  Í stjórn þessa einka­hlutafélags situr Steinunn Káradóttir og framkvæmdastjóri er eiginmaður hennar, Eyjólfur Matthíasson.  Þau eiga íbúð í húsinu og búa þar. 

                Aðilar deila um aðdraganda þess að Húsaklæðning hóf vinnu við húsið. 

                Í greinargerð stefnda er því haldið fram að gerður hafi verið verksamningur milli aðila þann 28. júní 2011 um múr- og steypuviðgerðir, þéttingar og blettun.  Stefndi vísar um þetta til skjals sem hefur fyrirsögnina Kaplaskjólsvegur 89-93, Múr- og steypuviðgerðir, þéttingar, blettun.  Á fyrstu síðu skjalsins er listi um verkefni og einingaverð hvers þeirra.  Á seinni blaðsíðunni segir að við bætist virðisaukaskattur og að verkkaupi veiti aðgang að vinnuaðstöðu, vatni og rafmagni og leggi til spjótlyftu til verksins. 

                Undir skjalið skrifar Eyjólfur Matthíasson f.h. verktaka, Húsaklæðingar ehf., en fjórir íbúðareigendur í húsinu fyrir hönd verkkaupa.  

                Hvorki Eyjólfur Matthíasson né Steinunn Káradóttir komu fyrir dóm til skýrslugjafar.  Þá voru tvö þeirra sem undirrituðu áðurnefnt skjal, Ingólfur Níelsson og Thelma Vestmann, ekki leidd sem vitni. 

                Sigurvin Ólafsson var eigandi íbúðar að Kaplaskjólsvegi 91 og ritaði nafn sitt undir skjalið.  Hann kom fyrir dóminn og gaf skýrslu.  Hann sagði að Ingólfur Níelsson hefði komið með skjalið til sín.  Hann kvaðst hvorki hafa verið í stjórn hús­félagsins né í framkvæmdanefnd.  Hann hefði haldið að Ingólfur hefði verið að safna undirskriftum í meirihluta.  Sigurvin kvaðst halda að stimpill Húsaklæðningar og undirritun Eyjólfs Matthíassonar hefðu ekki verið á skjalinu þegar hann skrifaði undir það.  Þá kvaðst hann halda að textinn f.h. verkkaupa hefði ekki verið kominn á skjalið þegar hann skrifaði undir. 

                Finnur Hilmarsson var formaður húsfélagsins Kaplaskjólsvegi 89, en var ekki í stjórn félagsins um allt húsið.  Hann var einn þeirra sem undirrituðu áðurnefnt skjal.  Hann taldi að hann hefði ekki verið valinn í framkvæmdanefnd og að aldrei hafi staðið til að semja við Eyjólf Matthíasson.  Hann hafi ekki haft umboð til að semja um stórar framkvæmdir.  Hann kannaðist við áðurnefnt skjal.  Hann sagði að stimpill Húsa­klæðingar hefði ekki verið kominn á skjalið þegar hann skrifaði undir.  Þá hélt hann að orðin f.h. verkkaupa hafi ekki verið á skjalinu.  Hann sagði að Ingólfur Níelsson hefði komið með skjalið til sín.  Hann hefði haldið að það tengdist gluggaviðgerðunum.  Sér hefði ekki verið sagt að þetta væri verksamningur.  Finnur sagði að Bárður Helgason hefði greitt reikninga Húsaklæðningar.  Hann hefði ekki haft samráð við neinn um þá greiðslu, en Bárður hefur um langt skeið annast fjárreiður húsfélagsins.  Bárður kom ekki fyrir dóminn. 

                Stefndi gerði stefnanda fjóra reikninga.  Reikningur nr. 6, dags. 16. ágúst 2011, að fjárhæð 1.882.500 krónur, og reikningur nr. 10, dags. 16. september 2011, að fjárhæð 2.000.000 króna, voru greiddir.  Tveir síðustu reikningarnir hafa ekki verið greiddir.  Þeir eru dags. 1. desember 2011 og 7. janúar 2012, samtals að fjárhæð 3.242.325 krónur. 

                Stefnandi ritaði lögmanni stefnda bréf, dags. 25. september 2012, í tilefni af innheimtubréfi hans frá 16. febrúar 2012.  Í bréfinu segir m.a. að fyrir mistök hafi stefnda verið greiddar 3.882.500 krónur.  Er gerð sú krafa að fjárhæðin verði endur­greidd. 

                Þann 10. janúar 2014 var dómkvaddur matsmaður að kröfu stefnanda.  Var honum falið að meta vinnu stefnda við húsið, hvað hefði verið gert og hvað ætla megi að verkið hafi kostað.  Þá var spurt hvort framkvæmdirnar hefðu bætt ástand hússins. 

                Matsgerð var skilað í apríl 2015.  Meginniðurstaða matsmanns var sú að ekki væri hægt að sjá að stefndi hefði gert annað en að bera hvítt akrýlefni, Flügger Facade Zero, utan á húsið í steypuskilum og röndum hér og þar.  Taldi hann ósannað að kostnaður af þessu næmi meira en 1.847.000 krónum. 

                Í matsgerð segir að ekki hafi fengist nein sönnun þess að aðgerðir stefnda hafi bætt ástand hússins.  Verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við viðurkenndar hefð­bundnar aðferðir. 

                Matsmaður, Björn Gústafsson byggingaverkfræðingur, staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. 

                Stefndi krafðist yfirmats og voru dómkvaddir yfirmatsmenn þann 18. júní 2015.  Stefndi dró í marga mánuði að senda yfirmatsmönnum skjöl málsins og hafa þeir ekki lokið verkinu.  Með úrskurði 3. júní sl. var stefnda synjað um frekari frest í málinu. 

                Í reikningum stefnda kemur ekki fram hversu mikið hafi verið unnið.  Á óundirrituðu yfirlitsblaði, dags. 1. desember 2011, er skrá um múr- og steypu­viðgerðir, þéttingar og blettun.  Þar fæst samtalan 7.114.825 krónur með virðisauka­skatti. 

                Stefndi Húsaklæðning hét áður Stallur.  Nafnbreyting var tilkynnt hlutafélaga­skrá 25. júlí 2011, nokkru eftir að áðurnefnt skjal, sem stefndi kallar verksamning, er dagsett.  Stefndi lagði fram afrit kaupsamnings, dags. 20. júní 2011, þar sem Steinunn Káradóttir kaupir allt hlutafé í félaginu af Steinari Erni Sigurðssyni.  Heimildir Steinunnar og prókúruumboð eiginmanns hennar, Eyjólfs Matthíassonar, höfðu ekki verið skráð þann 28. júní 2011. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið samið við stefnda um viðgerðir á húsinu.  Hann byggir á því að magnyfirlit það sem undirritað var af eigendum fjögurra íbúða og stefnda sé ekki verksamningur og að þeir sem skrifuðu undir fyrir húsfélagið hafi ekki haft til þess umboð.  Þá hafi forsvarsmönnum stefnda verið ljóst að ekki hafi verið búið að samþykkja að fela þeim verkið.  Bendir stefnandi sérstaklega á að skjalið sé dags. 28. júní 2011 og undirritað f.h. hönd stefnda, en félagið hafi ekki verið stofnað eða tilkynnt til hlutafélagaskrár fyrr en 25. júlí 2011, rúmum mánuði síðar.  Þá hafi skjalið ekki verið undirritað af meirihluta stjórnar fyrir stefnanda. 

                Stefnandi byggir á því að tveir reikningar hafi verið greiddir stefnda fyrir mis­skilning.  Fyrri reikningurinn, að fjárhæð 1.882.500 krónur, hafi verið greiddur í tvennu lagi, 29. ágúst og 5. september 2011.  Síðari reikningurinn að fjárhæð 2.000.000 króna, hafi verið greiddur þann 16. september 2011. 

                Stefnandi byggir á því að stefndi sé endurgreiðslu- og eða bótaskyldur eftir almennum reglum fyrir forsendubrest og einnig eftir sakarreglunni.  Stefnda hafi verið kunnugt að enginn bindandi verksamningur hafi verið gerður. 

                Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að árangur verksins sé enginn.  Á því beri stefndi ábyrgð í samræmi við meginreglur um verksamninga.  Vinna þurfi verkið allt að nýju, auk þess að hreinsa burt það efni sem stefndi hafi sett á húsið. 

                Stefnandi vísar til meginreglna verktakaréttar, almennra reglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar bæði innan og utan samninga.  Þá vísar hann til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að aðilar hafi gert með sér bindandi verksamning þann 28. júní 2011, um múr- og steypuviðgerðir á húsinu.  Samningurinn sé skýr og ekki fari á milli mála um hvað hafi verið samið.  Verkið hafi verið talið upp í 16 liðum þar sem getið hafi verið einingaverðs. 

                Stefndi tekur sérstaklega fram að tiltekið hafi verið að viðgerðarefnið MCI yrði notað við múrviðgerðina.  Þetta efni sé viðurkennt af fagaðilum. 

                Stefndi byggir á því að viðhald hafi verið samþykkt á löglega boðuðum hús­fundi þann 23. ágúst 2010.  Hafi verið teknar frá 10 milljónir króna til að standa straum af kostnaði.  Byggir stefndi á því að þetta fé hafi þegar verið innheimt hjá íbúðareigendum. 

                Stefndi byggir á því að þeir sem undirriti verksamninginn fyrir stefnanda hafi gert það á grundvelli samþykktar á húsfélagsfundi þann 23. ágúst 2010.  Þeir hafi haft umboð til að rita undir samninginn samkvæmt sömu húsfundarsamþykkt.  Stefndi hafi verið í góðri trú um að fyrirsvarsmenn stefnanda hefðu fullt umboð. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi greitt reikninga stefnda án fyrirvara.  Mótmælir hann því að stefnandi geti borið misskilning fyrir sig eða að greitt hafi verið vegna rangrar ályktunar um skuld.  Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við vinnu stefnda. 

                Stefndi byggir á því að þeir aðilar sem skrifuðu undir verksamninginn hafi verið meðvitaðir um að þeir voru að skrifa undir verksamning um þær múrviðgerðir sem samþykktar höfðu verið á húsfundinum 23. ágúst 2010. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við verkið og fengið endurgreiddar samtals 890.538 krónur. 

                Stefndi kveðst hafa unnið verk sitt í samræmi við samninginn.  Ekki hafi verið sýnt fram á að verkið sé haldið göllum eða að vikið hafi verið frá verklýsingu.  Því eigi hann skilyrðislausan rétt til umsamins endurgjalds. 

                Niðurstaða

                Skjal það sem stefndi telur vera verksamning hefur verið lagt fram í nokkrum ljósritum í málinu.  Loks við upphaf aðalmeðferðar lagði stefndi fram undirritað eintak sem virðist vera frumrit.  Er það á tveimur blaðsíðum sem eru heftar saman.  Þriðja blaðið hefur verið heft við, en á því er að finna upptalningu verkliða. 

                Á bls. 2 er eins og áður segir að finna undirritanir.  Þeir Eyjólfur Matthíasson og Ingólfur Níelsson hafa einnig sett stafi sína á fyrstu síðu, en það hafa ekki aðrir gert.  Engin áritun er á þriðja blaðinu. 

                Í texta skjals þessa er hvorki að finna tilboð né loforð.  Þar eru notuð orðin verkkaupi og verktaki, án þess að verkkaupinn sé nafngreindur.  Í þremur liðum eru tilgreindar skyldur þessa verkkaupa til að veita aðgang að vinnuaðstöðu, vatni o.fl.  Ekki er sýnt fram á að þeir fjórir sem skrifuðu undir fyrir hönd verkkaupa hafi haft umboð til að skuldbinda stefnanda. 

                Skjalið er ekki fullburða samningur.  Það gæti talist sönnunargagn um efni samnings, en það sýnir ekki fram á að samningur hafi verið gerður.  Forsvarsmenn stefnda komu ekki fyrir dóm til skýrslugjafar og kvöddu Ingólf Níelsson ekki fyrir sem vitni.  Ber stefndi hallann af þessu.  Þá verður ekki talið að í greiðslu tveggja reikninga hafi falist staðfesting á samningi.  Er að öllu virtu ósannað að stefnandi hafi samið við stefnda um vinnu við steypuviðgerðir eins og stefndi byggir á.  Stefndi hefur heldur ekki sýnt fram á að vilji hafi verið til þess að semja við hann um viðgerðir og hefur hann ekki leitt neinar líkur að því að hann hafi unnið verk sitt í góðri trú.  Forsvarsmenn stefnda búa sjálf í húsinu og eiga þar íbúð.  Þau vissu því fullvel hvað hafði verið samþykkt á húsfundi og hvað ekki.  Þá var þeim kunnugt um hverjir hefðu haft heimild til að semja um svo stórt verk, en reyndu ekki að ná samningum við þá aðila. 

                Stefnda var ekki falið að vinna þau verk sem hann gerði stefnanda reikninga fyrir.  Þá er ekki sýnt fram á að verkið hafi gert nokkurt gagn.  Stefndi átti því ekki kröfu til verklauna.  Samt sem áður greiddi stefnandi tvo af reikningum stefnda og verður nú að leysa úr því hvort hann geti krafist endurgreiðslu. 

                Fram er komið að Bárður Helgason greiddi þá reikninga sem hér er deilt um, en hann annaðist fjárreiður húsfélagsins.  Hann kom ekki fyrir dóm og því hefur fullnægjandi skýring á greiðslunni ekki komið fram. 

                Telja verður þá almennu reglu gilda að sá sem greiði kröfu sem hann ranglega telur sig vera skyldan til að greiða, eigi kröfu á endurgreiðslu, þótt sú regla sé ekki undantekningarlaus.  Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki átt kröfu á hendur stefnanda.  Þá var komist að þeirri niðurstöðu í matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, að hæfilegt endurgjald fyrir verk það sem unnið var nemi 1.847.000 krónum og að óljóst sé hvort nokkurt gagn sé að því.  Forsvarsmönnum stefnda hlaut að vera ljóst að gildur samningur hafði ekki verið gerður um verkið og að stefndi ætti ekki skilyrðislausan rétt til endurgjalds.  Stefndi hefur ekki sýnt fram á neitt varðandi atvik að greiðslu stefnanda á reikningunum sem leiða ætti til þess að hafna bæri endurkröfu.  Að þessu virtu hefur stefndi ekki sýnt fram á neina ástæðu til þess að hafna beri endurgreiðslukröfu stefnanda. 

                Stefnandi hefur ekki sýnt af sér tómlæti um endurgreiðslukröfuna.  Stefndi verður dæmdur til að endurgreiða 3.882.500 krónur.  Vextir og dráttarvextir dæmast eins og stefnandi krefst, en hann krafðist endurgreiðslunnar fyrst 25. september 2012. 

                Stefnda verður loks gert að greiða stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað. 

                Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari, Ingimundur Einarsson dómstjóri og Kristinn Tanni Hannesarson byggingaverkfræðingur. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Húsaklæðning ehf., greiði stefnanda, Húsfélaginu Kaplaskjólsvegi 89, 91 og 93, 3.882.500 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.050.000 krónum frá 29. ágúst 2011 til 5. september sama ár, af 1.882.500 krónum frá þeim degi til 16. september 2011, af 3.882.500 krónum frá þeim degi til 25. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.