Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-79
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Tjáningarfrelsi
- Friðhelgi einkalífs
- Fjölmiðill
- Persónuvernd
- Persónuupplýsingar
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Áfrýjunarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 3. júní 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 376/2021: A gegn B, C og D á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur vegna birtingar sjónvarpsþáttar sem sýndur var hjá gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var B dæmdur til að greiða leyfisbeiðanda miskabætur en staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila og C af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að B hefði einn haft vitneskju um tölvupóst leyfisbeiðanda sem talinn var fela í sér afturköllun á samþykki fyrir þátttöku í sjónvarpsþættinum. Bæri hann því skaðabótaábyrgð á miskatjóni leyfisbeiðanda vegna birtingarinnar, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og a-lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Landsréttur féllst ekki á að gagnaðili gæti borið ábyrgð á birtingu sjónvarpsþáttarins á öðrum grundvelli en 50. gr. laga nr. 38/2011. Að fenginni þeirri niðurstöðu taldi Landsréttur að ábyrgð vegna birtingar sjónvarpsþáttarins yrði ekki felld á gagnaðila á grundvelli a- til c-liða 1. mgr. 50. gr. Þá þótti sú málsástæða of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, að gagnaðili bæri ábyrgð á birtingu þáttarins á grundvelli 2. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011. Þá var bótakröfu leyfisbeiðanda vegna birtingar auglýsinga og kynningarefnis um þáttinn vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
5. Svo sem fyrr segir beindist upphafleg málsókn leyfisbeiðanda að B, C og D en beiðni B um leyfi til áfrýjunar var samþykkt með ákvörðun réttarins 2. júní 2022, nr. 2022-62. Ósk leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar beinist eingöngu að D.
6. Leyfisbeiðandi tekur fram að beiðni um áfrýjunarleyfi sé sett fram innan fjögurra vikna frá lokum frests 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi hafi ekki haft tilefni til að sækja um leyfi fyrr en ljóst varð að Hæstiréttur samþykkti beiðni B um áfrýjunarleyfi. Því sé dráttur á áfrýjun réttlætanlegur í skilningi 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi vísar til fyrrgreindar ákvörðunar Hæstaréttar um að skilyrðum fyrir því að fallist verði á beiðnina sé fullnægt. Þá hafi málið fordæmisgildi um skýringu 50. gr. laga nr. 38/2011 og hvort 2. mgr. hennar girði fyrir að fjölmiðlaveita verði ásamt starfsmanni látin bera ábyrgð á birtu efni á öðrum grundvelli. Auk þess hafi málið fordæmisgildi um hvort ábyrgðarreglur fjölmiðlalaga takmarki bótaábyrgð vegna vinnslu persónuupplýsinga sem brýtur gegn persónuverndarlögum.
7. Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi. Þær skýringar sem leyfisbeiðandi hefur gefið á því að ekki var sótt um áfrýjunarleyfi innan tímamarka 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 fullnægja ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur er í 2. mgr. 177. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi hafnað.