Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. apríl 2007.

Nr. 179/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði hann vistaður á sjúkrahúsi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 29. mars 2007.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X [kt.], óstað­settum í hús í Kópavogi, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. maí 2007, kl. 16.00.

                Í kröfu ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 13. desember sl., hafi dómfelldi verið dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nytjastuldi, þjófnaði, skjalafals, fjársvik og brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

                Dómfelldi hafi nú lýst yfir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar og áfrýjunarstefna verið gefin út hinn 9. janúar sl. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettu 9. janúar sl., hafi ríkissaksóknari óskað eftir gögnum málsins og þau borist embættinu hinn 8. mars sl. Ágripsgerð hafi hafist án tafar og hafi ágrip þegar verið sent Hæstarétti. Málið verði tekið fyrir í Hæstarétti hinn 30. apríl nk.

                          Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 15. september 2006, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málum R-496/2006, 59/2006, 689/2006, 707/2006, 23/2007, 40/2007  og dóma Hæstaréttar í málum nr.499/2006, 565/2006, 624/2006, 641/2006, 29/2007, 33/2007, fyrst  á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en síðan á sama grundvelli og með vísan til 1. mgr. 106. gr. sömu laga.

                          Dómfelldi sé síbrotamaður sem eigi að baki langan sakarferil, allt aftur til ársins 1982, og hafi hann ítrekað rofið skilyrði reynslulausnar. Telja verði yfirgnæfandi líkur á því að dómfelldi muni halda áfram brotum verði hann látinn laus úr gæslu áður en endanlegur dómur gangi í máli hans. Sé því talið að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt og því til stuðnings vísað m.a. til fyrrnefndra dóma Hæstaréttar.

                Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga, með hliðsjón af sakarferli dómfellda og á grundvelli fyrirliggjandi dóms þyki nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gangi í máli hans. 

 

            Dómfelldi er síbrotamaður og á að baki langan sakarferil, allt aftur til ársins 1982, og  hefur margsinnis afplánað refsidóma. Dómfelldi hefur ítrekað rofið skilyrði reynslu­lausnar með brotum sínum sem varð m.a. tilefni úrskurðar um síbrotagæslu yfir honum 15. september sl. Verður að telja að yfirgnæfandi líkur séu á því að dómfelldi muni halda brotastarfsemi áfram verði hann látinn laus úr gæsluvarðhaldi áður en máli hans verður lokið fyrir æðra dómi. Samkvæmt framansögðu og með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra ber að taka kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til föstudagsins 18. maí nk. kl. 16.00.